Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008
9.2.2008 | 18:13
Sala aflaheimilda hefur ALDREI verið lögleg
Framtak Kristins Péturssonar, að ná í eintak af álitsgerð Gauks Jörundssonar, lagaprófessors, frá 28. júlí 1983, er afar áhrifamikið í baráttunni gegn hinni ranglátu framkvæmd stjórnunar fiskveiða hér við land. Þetta álit Gauks, sýnir svo augljóslega hinn alvarlega og yfirvegaða ásetning stórútgerðarmanna, að ná undir sig yfirráðum yfir fiskimiðum landsins. Gagnlegt væri fyrir Kristinn að verða sér úti um afrit af bréinu frá LÍÚ til ráðuneytisins, sem er kveikjan að þessu áliti, sem og að fá afrit af svari ráðuneytisins til LÍÚ. Það gæti verið upplýsandi um viðhorf ráðuneytisins til þessa álits Gauks.
Ég hef allt frá árinu 1985 haldið því fram að ALDREI hafi verið samþykkt á Alþingi neitt sem kallast geti VARANLEG AFLAHEIMILD. Alþingi hefur í raun ekki vald til slíkrar mismununar gagnvart þegnum þjóðfélagsins vegna ákvæða stjórnarskrár og mannréttindasáttmála SÞ. Í 23 ár hefur enginn sjávarútvegsráðherra, enginn þingmaður og enginn þeirra sem tala fyrir þessum varanlegu aflaheimildum, geta fært fram lagafyrirmæli um slíkar heimildir. Eru líkur á að menn væru að taka á sig slíkt stöðugt áreiti vegna spurninga minna, í meira en tvo áratugi, ef lagafyrirmæli væru fyrir hendi? Ég tel svo ekki vera því mjög oft hef ég sett þessa menn í afar þvingandi og neyðarlegar aðstæður.
Þetta er ekki eini óvitaskapur stjórnvalda; en ég kýs að kalla alla vitleysuna við stjórnun fiskveiða óvitaskap en ekki ásetning til illra verka. Óvitaskapur stjórnmálamanna, þá á ég bæði við ráðherra og þigmenn, er með afar miklum ólíkindum og sýnir svo algjöran trúnaðarbrest gagnvart fólkinu í landinu að undrum sætir hve vel þeir hafa sloppið. Líklega á þögn fjölmiðla stærstan þátt í hve þessi vitleysa hefur fengið að þrífast lengi. Rökræn gagnrýni hefur verið fyrir hendi öll árin, en aldrei fengið verðugt pláss í fjölmiðlum til að hægt væri að færa fram nauðsynleg gagnrök, því miður.
Segja má að alvarlegustu vandræðin byrji upp frá lagasetningunni 1990, en þá eru sett fyrstu ótímasettu lögin um stjórnun fiskveiða. Í þeim lögum eru engar skýrar reglur um úthlutun aflaheimilda, en í 5. gr. er tekið fram að: "Við veitingu leyfa til veiða í atvinnuskyni koma til greina þau skip ein sem veiðileyfi fengu skv. 4. og 10. gr. laga nr. 3/1988 um stjórn fiskveiða...". Í þeim lögum voru engar beinar reglur, heldur vísað til þeirra laga sem voru á undan. Svo var og um öll þau lög sem sett voru um fiskveiðistjórnun frá 1984 til ársins 1990, þegar fyrstu ótímasettu lögin voru sett. Það er í fyrstu lögunum, nr. 82/1983, sem sleginn er tónninn um skiptingu aflaheimilda. Þar er í 1. gr. fjallað um breytignar á 10. gr. þáverandi laga um fiskveiðar í landhelgi Íslands. Þar segir:
Með breytingunni er ráðherra gefin heimild til að ákvarða hámarksveiði ýmissa fiskistofna innan fiskveiðilögsögu Íslands, á ákveðnu tímabili eða vertíð. Einnig er honum heimilað að skipta hámarksaflanum milli einstakra veiðarfæra og skipa með hliðsjón af fyrri veiðum þeirra, stærð þeirra og gerð.
Þetta eru þær einu reglur sem settar hafa verið með lögum um skiptingu heildarafla á milli skipa. Hvað átt er við með hugtakinu með hliðsjón af fyrri veiðum þeirra kemur fram í fylgiskjali með frumvarpi þessara laga, en þar er sagt að grunnreglan skuli vera sú að miða ávalt úthlutun aflaheimilda við veiðireynslu síðastliðinna þriggja ára. Enda geta menn séð að það er í raun rauður þráður í gegnum allar ákvaraðanir um veiðitakmarkanir sem ævinlega hafa verið teknar síðan. Má þar t. d. vísa till 1. mgr. 8. gr. laganna um stjórn fiskveiða nr. 38/1990, en þar segir svo:
Verði veiðar takmarkaðar skv. 3. gr. á tegundum sjávardýra sem samfelld veiðireynsla er á, en ekki hafa áður verið bundnar ákvæðum um leyfðan heildarafla, skal aflahlutdeild úthlutað á grundvelli aflareynslu síðustu þriggja veiðitímabila.
Vert er enn einu sinni að vekja athygli á því að ÞAÐ ER HVERGI Í LÖGUM TALAÐ UM AÐ ÞEIR Sem VORU VIÐ VEIÐAR 1980 - 1983 EIGI EINHVERN FORGANGSRÉTT TIL AFLAHULTDEILDAR. Slík sérstaða hefur ALDREI fengið lagagildi og ævinlega verið stjórnarskrárbrot ráðandi afla í sjávarútvegsráðuneytinu. eins og nú er orðið staðfest.
Um færslu aflaheimilda á milli skipa, er ævinlega í fyrstu talað um FLUTNING á úthlutuðum aflakvóta. Síðar breytist þetta orðaval yfir í orðið FRAMSAL aflakvóta, og hefur það orðalag verið viðhaft síðan. Í skjóli þessa orðavals var farið að SELJA aflakvóta milli skipa. SALA hefur hins vegar ALDREI verið heimiluð.
Orðið FRAMSAL byggir á hugtakinu að afhenda, t. d. að afhenda einhverjum öðrum ákveðin réttindi eða hlunnindi sem þú hefur til umráða. Þessi réttindi eða hlunnindi mátt þú ekki selja, nema því aðeins að skýr heimild sé til slíks frá hendi lögformlegum eiganda þess sem á það sem framselja skal. Tökum dæmi: Þú tekur íbúð á leigu í heilt ár. þegar árið er hálfnað, þarft þú að flytja og þarft því að losna undan leigusamningnum. Þú mátt ekki sjálfur leigja öðrum íbúðina, til tekjuauka fyrir sjálfan þig, en þú getur fengið heimild eigandans til að FRAMSELJA öðrum aðila það sem eftir er af samningnum. Góð hliðstæða því afllaheimildum er ævinlega úthlutað til eins árs í senn.
Í því tilviki sem hér um ræðir, er alveg ljóst að Alþingi hefur ALDREI heimilað sölu þeirra réttinda sem felast í úthlutun forgangs að nýtingu fiksimiðanna. í ljósi þessa hefur öll sala aflaheimilda verið ólögmæt og má jafna við fjárkúgun af hendi þeirra sem selt hafa.
Bæti meira við þetta á morgun.
7.2.2008 | 22:26
Hafði Vilhjálmur umboð til að skrifa undir sameiningu REI og GGE ?
Ég varð dálítið dapur í kvöld þegar ég horfði á kastljósið. Mér fannst að vísu Svandís verjast nokkuð fimlega gegn því að kveða upp þunga dóma; vildi ausjáanlega láta Sjálfstæðismennina verða fyrsta til að birta sitt álit á klúðrinu. Það er að mínu mati nokkuð góð leikflétta.
Ég varð hins vegar dapur að hlusta á Vilhjálm, því áður en hann varð borgarstjóri, hélt ég að þetta væri nokkuð klár náungi. Raunin hefur hins vegar orðið allt önnur. Mér fannst nánast aumkunnarvert að hlusta á hvernig hann þvældi fram og aftur um þessi málefni, án þess að geta á nokkurn hátt stutt aðgerðir sínar neinum rökum. Hann staðhæfði að hann hefði haft umboð til að skrifa undir samrunasamninginn en studdi það engum rökum öðrum en að borgarlögmaður hefði sagt honum það.
Það sem hefur vakið undrun mína og hrygð við allt þetta REI- mál, er að verða stöðugt áheyrandi að því hve fátítt virðist vera að fólk í almannaþjónustu þekki og virði valdmörk fulltrúavaldsins. Fólk segir: - Borgarstjóri hefur vald - en getur svo ekki með nokkru móti sýnt fram á eftir hvaða leiðum hann fékk þetta vald og samkvæmt hvaða lögum, samþykktum eða öðrum skráðum reglum þetta vald er veitt. Borgarstjóri er ekki kosinn beinni kosaningu af borgarbúum, en það eru þeir sem eru framsalsaðilar stjórnunarvaldsins til þeirra fulltrúa sem kosnir eru til starfans.
Þessir kjörnu fulltrúar, mynda með sér meirihlutasamstarf, hafi enginn einn flokkur meirihluta fulltrúanna innan sinna raða. Þeir fulltrúar sem mynda meirihlutann kjósa sér framkvæmdastjóra, sem í tilviki okkar Reykvíkinga ber tiltilinn - Borgarstjóri.
Titillinn "borgarstjóri" hefur ekkert beint umboð eða vald frá íbúum eða kjósendum í Reykjavík. Hann hefur einungis þá valdsheimild sem meirihlutafulltrúarnir fá honum í hendur, til að framkvæma það sem þeir hafa samþykkt og bókað er í fundargerðum borgarstjórnar. Hann er sem sagt framkvæmdaaðili að valdi hinna kjörnu stjórnenda, en hefur ekkert sjálfstætt vald.
Vegna þessa eðlis á valdsviði borgarstjóra, sló það mig óþægilega þega Vilhjálmur hélt þvi fram í kastljósinu, að borgarlögmaður hefði sagt honum að hann hefði vald til að skrifa undir samrunasamninginn. Getur verið að borgarlögmaður þekki svona illa valdmörk fulltrúavaldsins?
Ég segi bara eins og sumir: Ég bara spyr?
7.2.2008 | 13:51
Enn á að semja um aukningu launabilsins
Hve lengi ætla stéttarfélög innan ASÍ að semja um kauphækkanir í prósentum? Slíkt er bein ávísun á stöðugt vaxandi launabil í landinu.
Það var orðið ljóst, löngu fyrir svokallaða "þjóðarsátt", að laupahækkanir í prósentutali, skilaði lágtekjufólki ekki nema hluta þeirrar hækkunar sem hinir hærra launuðu fengu, sem. Þetta er afar eðlilegt og auðskilið flestum, en hefur ekki enn náð inn fyrir einhverja múra hjá stjórnendum ASÍ.
5% launahækkun hjá þeim sem hefur 145.000 í mánaðarlaun, eru kr. 7.250, = 152.250.
5% hækkun hjá þeim sem hefur 300.000 á mánuði er, kr. 15.000 = 315.000.
5% hækkun hjá þeim sem hefur 600.000 á mánuði er kr. 30.000 = 630.000.
Við þurfum ekki að setja þetta dæmi upp lengra upp eftir launaskalanum. Afraksturinn er auðséður og ætti að vera auðskiljanlegur.
Fyrir rúmum 30 árum lagði ég fram tillögu um að verkalýðshreyfingin beitti sér fyrir því að sett yrði í lög um stéttarfelög og vinnudeilur, að ALLIR kjarasamningar væru gerðir í krónutöluhækkunum í stað prósentna. Ég hef iðulega vakið máls á þessu síðan, en ævinlega talað fyrir daufum eyrum. Hefði slík leið verið farin, hefði ekki stöðugt þurft að vera knékrjúpandi fyrir hálaunastéttunum um að fá sérstaka umbun fyrir láglaunafólkið. Lægstu launin hefðu ekki sjálfkrafa dregist aftur úr, heldur stöðugt hækkað að sömu krónutölu og háu launin. Þannig hefði prósentumismunur milli hárra og lágra launa stöðugt dregist saman. Lítum á dæmi út frá því sem sett er upp hér að ofan um launaflokkun.
145.000 eru 24,17% af launaflokknum 600.000. Segjum að kjarasamningar hljóði upp á að launahækkanir geti numið kr. 15.000 á mánuði. Við það mundi 145.000 króna flokkurinn hækka upp í 160.000, en 600.000 króna flokkurinn hækka upp í 615.000. Hlutfallið milli þessara launaflokka yrði þá svona.
160.000 eru 26,02% af launaflokknum 615.000. Með þessu fyrirkomulagi hefði launabilið milli þessara flokka minnkað um 1,85% við gerð þess kjarasamnings.
Er ekki að verða kominn tími til að forystusveit stéttarfélaga láglaunafólks fari að endurhæfa hugmyndafræði sína?
6.2.2008 | 16:30
Skondið þegar fjölmiðlar skilja ekki hvað þeir eru að segja
Þessi frétt er sérstaklega brosleg vegna þess að sá sem skrifar hana gerir ekki tilraun til að skilja hvað hann er í raun og veru að fjalla um. Hugtakið "Landsframleiðsla" þýðir í raun og veru eyðsla fjármuna. landsframleiðslan vex eftir því sem þjóðin eyðir meiri fjármunum.
Nú er það þekkt, hjá öllum sem fylgst hafa með þróun þjóðmála, að við höfum undanfarna áratugi stöðugt verið að eyða meiri fjármunum en við öflum. Nokkurn hluta af "landsframleiðslu" okkar höfum við fjármagnað með erlendum lánum. Verulegur hluti þessara erlendu lána, hefur farið í beina neyslu og verkefni sem valda auknum þjóðfélagslegum kostnaði. En lítill hluti þeirra farið til uppbyggingar gjaldeyristekjugefandi atvinnustarfsemi. Við höfum sem sagt sýnt "alvöru" fjármálamönnum í öðrum löndum, að við kunnum ekki að lifa í fjárhagslega sjálfstæðu landi. Það má segja að í fjármálum höfum við hagað okkur líkt og óviti í sælgætisbúð, sem reynir að ná í eins mikið og hann getur, án hugsunar um hvort honum verði vel af veislunni.
Enginn sem í raun hefur reynt að skilja eigin fjármál, þ. e. hvernig hann geti lifað af tekjum sínum og hvað hann megi veita sér umfram nauðþurftir, ætti í raun að vera hissa á því að verðlag hér á landi skuli vera umtalsvert hærra en í öðrum löndum. Hver og einn getur litið á eigin fjármál og spurt sig hvernig fjárhagsleg staða hans væri ef hann hefði stöðugt eytt umtalsvert meiri fjármunum en hann aflaði og dekkað mismuninn með lántökum ár eftir ár, án þess að gera ráð fyrir að þurfa einhvertíman að borga lánin. Spurning er hvor þessir aðilar litu á sig sem RÍKUSTU menn samtímans, líkt og þjóðinni hefur verið talin trú um að hún sé með ríkustu þjóðum, þrátt fyrir að hafa stöðugt safnað skuldum í marga áratugi.
Fyrir tæpum 30 árum var verðlag hjá okkur, miðað við önnur lönd, orðið á svipuðu stigi og það er nú. Ástæða þess var sú að stjórnendur þjóðfélagsins höfðu ekki haft kjark eða þekkingu til að stýra þjóðfélaginu í takt við tekjuöflun þess, heldur stöðugt fellt gengi krónunnar til að breiða yfir vandann. Þegar við höfðum tekið tvö núll aftan af gjaldmiðli okkar voru gjaldmiðlar Íslands, Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar nánast á jafanvirði. Nú 28 árum síðar, erum við nánast komin í sömu stöðu með verðlagið innanlands en verðgildi erlendra gjaldmiðla breyst minna. Hver getur verið ástæða þess?
Ástæður þessa eru margar og verða ekki allar taldar upp hér. Þó vil ég nefna það sem sagt var hér að framan um erlenda skuldasöfnun og vitlausa ráðstöfun þess lánsfjá til beinnar eyðslu almennings og til fjárfestinga sem fyrst og fremst juku kostnað þjóðfélagsins en skiluðu því engum tekjum. Annar þáttur er sá að helsta tekjugefandi þætti þjóðfélagsins, sjávarútveginum, hefur verið haldið gangandi með blekkingum og stöðugt aukinni skuldasöfnun. Til þess að slíkt væri hægt hefur þeim verið liðið að veðsetja eignir þjóðfélagsins sem sína eign og færa þessa eign þjóðfélagsins í efnahagsreikning fyrirtækja sinns sem hreina eign fyrirtækjanna. Fleiri blekkingar hafa verið viðhafðar sem ekki verða raktar hér.
Þegar sólgleraugun hans Davíðs eru tekin niður og horft á þjoðfélagið í hversdagslegri dagsbirtunni, verður ekki betur séð en hörmungarnar sem yfir þjóðfélagið dundu í gjaldþrotasúpunni á níunda áratug síðustu aldar, hafi verið hálfgerður barnaleikur á við það sem framundan er.
En Íslendingar eru veðurbarðir og þrautsegir og þeir sem kunna að vinna nytsöm verk, þeir munu komast í gegnum hretið. Því miður hefur þeim hluta þjóðarinnar farið nokkuð ört fækkandi.
Hlutfallslegt verðlag og landsframleiðsla hæst hér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.2.2008 | 21:37
Er það gáfulegt að berja stöðugt hausnum við steininn?
Meira að segja þorskhausar þola ekki að vera stöðugt barið við stein. En svo virðist sem hausar stjórnenda L. Í. Ú. og Sjálfstæðisflokksins séu massívari en þorskhausar og þangað inn sé ekki auðvelt að komast með vitræn rök að umræðu.
Í kastljósi þriðjudaginn 5. febr. hélt framkvæmdastjóri L. Í. Ú. fram gömlu tugguni sinni um arðbæran sjávarútveg, þrátt fyrir þá óumdeilanlegu staðreynd að skuldir útgerðarinnar eru komnar svo ævintýralega langt upp fyrir rauneignastöðu fyrirtækjanna að þau ættu flest að vera búin að tilkynna sig gjaldþrota.
Friðrik Arngrímsson, framkvæmdastjóri L. Í. Ú. hélt því einnig fram að útgerðirnar ættu kvótann og það væri algjörlega óframkvæmanlegt að gera neinar breytignar á því þar sem svo margir hefðu KEYPT svo mikið af aflaheimildum. Fyrir síðustu alþingiskosningar kom ég á fund hjá Íslandshreyfingunni, þar sem Friðrik Arngrímsson spilaði sína venjulegu rullu um ágæti kvótakerfisins. Þar bað ég hann að senda mér afrit af þeim lögum sem heimiliðu útgerðarmönnum að selja aflaheimildir. Hann hefur ekki enn fundið þessi lög, því ekki hefur hann sent mér þau enn. Ég hef undanfarin 10 ár ævinlega beðið þá sem tala um sölu aflaheimilda, að senda mér afrit af þeim lögum sem heimili þessa sölu. Enn hefur enginn geta orðið við þeirri beiðni. hvers vegna skildi það vera? Ætli það séu allt óheiðarlegir menn sem tala fyrir sölu aflaheimilda? Eitt er að minnsta kosti orðið víst. Þeir hafa enga löngun til að fær frama sönnun á mál sitt og setja sig þar með á bekk með vellygna Bjarna og Gróu á Leiti. Menn velja sér vini við hæfi.
En litum nú á lagagrunninn undir þeirri úthlutun aflahlutdeildar sem kallaðar hafa verið "VARANLEGAR HEIMILDIR" eða AFLAMARK. Þessi regla hefur ALDREI verið sett í lög eða að öðru leiti verið staðfest af Alþingi. Þá segja fylgjendur kvótakerfisins:
Já en þetta var nú ákveðið í upphafi að þau skip sem stundað höfðu veiðar á árunum 1980 - 1983 ættu að fá aflaheimildirnar.
Já það er alveg rétt. í forsendum fyrir frumvarpinu um fiskveiðistjórnun var fylgiskjal þar sem REGLAN um úthlutun aflakvóta var tilgreind. Þar var sagt að reglan skildi vera sú að ævinlega væri miðað við þrjú undangengin ár, þ. e. að þau skip sem stundað hefðu veiðar næstliðin þrjú ár fyrir úthlutun, skildu fá úthlutun í samræmi við meðalafla þessara þriggja ára. Fyrsta úthlutun kvóta var á árinu 1984, þannig að þrjú næstliðin ár þar á undan, voru árin 1980 - 1983. Lögin þar sem þessi ártöl komu fram, giltu einungis fyrir árið 1984 og þessi ártöl hafa ALDREI verið nefnd aftur í neinum þeim lögum sem sett hafa verið um fiskveiðistjórnun hér við land. Það hefur því ALDREI verið sett heimild frá Alþingi um neitt sem hægt er að kalla varanlegan kvóta.
Hvað þarf þá til svo að menn geti kallað kvóta sinn "varanlegan" kvóta?
Í því sambandi er nauðsynlegt að líta til heimilda ráðherra til að ráðstafa eignum þjóðarinnar án samráðs eða samþykkis Alþingis. Nægir þar að vísa til þess þegar Guðmundur Bjarnason var ráðherra og ætlaði án fyrirfram samþykkis Alþingis að flytja höfuðstöðvar Landmælinga upp á Akranes. Málið var kært til héraðsdóms, sem komst að þeirri niðurstöðu að Alþingi væri óheimilt að framvísa valdi sínu um meðferð eigna þjóðarinnar til ráðherra. Það yrði sjálft að taka endanlega ákvörðun um alla meðferð á eingum þjóðarinnar.
Engum blandast væntanlega hugur um að fiskveiðiheimildir á Íslandsmiðum eru verðmætari eign en hin merka stofnun Landmælingar Íslands. Engum ætti því að blandast hugur um að ráðherra getur ekki, án staðfestingar frá Alþingi, afhent neinum VARANLEG yfirráð yfir einhverjum hluta af hinni verðmætu sameign þjóðarinnar, sem fiskveiðiheimildirnar eru. Í grundvallarlögum að stjórnskipan okkar segir svo, t. d. í fjárreiðulögum og skal hér vitnað beint í álit ríkisendurskoðanda, í skýrslu hans um vatnsréttindi. Þar segir svo: Leturbr. G.J.
Skilyrði fyrir ráðstöfun ríkiseigna er víðar að finna í löggjöfinni en í framangreindu ákvæði 40. gr. stjórnarskrár. Helstu fyrirmælin hér að lútandi er að finna í fjárreiðulögum nr. 88/1997. Rifja má upp að eitt af markmiðunum, sem bjuggu að baki þessum lögum, var að undirstrika FJÁRSTJÓRNARVALD ALÞINGIS, sbr. einkum 40. og 41. gr. stjórnarskrárinnar, og efla eftirlit og aðhald löggjafans með framkvæmdavaldinu og ráðstöfun þess á fjármunum ríkisins. Í samræmi við þessi markmið er í 29. gr. þeirra mælt fyrir hvernig standa skuli að ráðstöfun þeirra eigna ríkisins, sem eru á forræði ríkisaðila í A-hluta ríkisreiknings. Samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar skulu ríkisaðilar í A-hluta ríkisreiknings HVERJU SINNI afla heimilda í lögum til að kaupa, selja, skipta eða leigja til langs tíma fasteignir, eignarhluta í félögum, skip, flugvélar, söfn og safnhluta, sem hafa að geyma menningarverðmæti, og AÐRAR EIGNIR SEM VERULEGT VERÐGILDI HAFA.
Í athugasemdum við þessa framangreindu grein í frumvarpi að fjárreiðulögum er tekið fram að leiga til langs tíma miðist við samning til lengri tíma en eins árs.
Ekki er þetta túlkun mín á skyldum ráðherra til að afla heimildar hjá Aþlingi fyrir öllum ráðstöfunum aflaheimilda sem standa skulu lengur en eitt ár, þ. e. öllum varanlegum kvóta. Engra slíkra heimilda hefur verið leitað frá Alþingi, þess vegna eru engar varanlegar aflaheimildir til í löglegu formi, einungis sem trúnaðarbrot ráðherra í opinberu starfi.
Alla þessa þætti er búið að ræða við stjórnmálamenn úr öllum flokkum í meira en áratug, en enginn hefur enn þorað að standa vörð um hagsmuni fólksins í landinu, gegn ofurvaldi L. Í. Ú á stjórnvöldum. Það vald er ekki bundið við stjórnmálaflokka. Það sást best þegar Samfylkingin skipti við Framsóknarflokkinn í sjórnarráðinu. Þá losnaði framsókn úr fjötrum og vill nú breyta kvótakerfinu en Samfylkingin féll í fjötrana og finnst kerfið gott.
Það er því ljóst að þjóðin fær ekki stuðning stjórnmálaaflanna í landinu tilað knýja fram nauðsynlegar breytingar. Þjóðin verður að vera í forystu fyrir slíku, utan stjórnmála en í krafti réttlætis og lýðræðis. Stjórnmálaflokkar skilja líklega ekki þau hugtök lengur.
5.2.2008 | 17:07
Það virðist vanta raungreind í fjármálastofnanir
Það er afar undarleg pólitík að kalla það "raungengi" þegar gengi krónunnar er borið saman við verðlag hér og í helstu viðskiptalöndum okkar. Sú hugsun að gengi krónunnar geti ráðist af verðlagi almennrar söluvöru, hér og í öðrum löndum, hefur á undanförnum áratugum leitt okkur fram á brún hengiflugs skuldsetningar þjóðarbúsins. Með ábyrgðarlausu heimskuhjali um svokallað "góðæri" hefur þjóðinni verið haldið í vímu skuldsetninga og eyðslu, en á sama tíma hefur tekjugefandi atvinnustarfsemi verið vanrækt svo að rauntekjur þjóðfélagsins geta ekki borið afborganir af því lánsfé sem þjóðin skuldar.
Það er kaldhæðnislegt að hugsa til þess að nú, þegar stöðugri skuldasöfnun verða settar hömlur, eru mestar líkur fyrir því að flestir gullkálfarnir, sem dregið hafa til sín ógrinni fjár, með beinum og óbeinum tilvísunum um veð í verðmætum þjóðarinnar, verði fangar í eigin spilaborg. Við erum í þeirri stöðu að meirihluti útgerðarfélaga landsins eru það skuldsett að þau geta ekki annað en farið á hausinn þegar hömlur verða lagðar á skuldsetningu þeirra með veði í eignum þjóðarinnar og innistæðulausar hækkanir á svokölluðu "gengi" hlutabréfa þeirra og færa verður ætlaða eignastöðu þeirra nær raunveruleika en hún hefur verið sýnd undanfarin ár. Þá sýnist mér einnig margt benda til þess að ævintýrið við Kárahnjúka muni ekki skila þeim tekjum til þjóðarinnar sem upp var lagt með. Mun þar margt koma til, bæði ágallar á samningum við orkukaupanda sem og mun dýrari framkvæmd en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Þjóðina vantar sárlega menn með mikilvirka þekkingu á heildarhagsmunum þjóðarinnar, til að stýra hinni stjórnlausu þjóðarskútu okkar í gegnum þá brimskafla sem framundan eru.
Raungengið ekki lægra í heilt ár | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.2.2008 | 13:43
Hvað eru óvitar?
Á undanförnum árum hef ég mikið velt fyrir mér hugtakinu ÓVITI. Hin klassiska skilgreining þess hugtaks er að viðkomandi hafi ekki dómgreind og þekkingu til að meta möguleika og þarfir þess verkefnis eða viðfangs sem um ræðir. Athugið að ég er ekki að tala um það sem við köllum í daglegu tali "menntun", prófgráður eða prófskýrteini. Ég er að tala um raunverulega þekkingu á viðfangsefninu.
Við færum t. d. ekki upp í flugvél með flugstjóra sem hefði með áberandi hætti sýnt að hann hefði ekki þekkingu á því hvernig ætti að fljúga vélinni. Við færum ekki upp í rútu hjá bílstjóra sem hefði sýnt að hann kunni ekki að aka eftir veginum. Við færum ekki aftur til læknis sem hefði sýnt að hann skildi ekki hvernig hægt væri að lækna okkur af þeim kvilla sem hrjáði okkur. - Í þessum dúr er hægt að telja upp fjöldan allan af þáttum sem við metum sjálfstætt þá þekkingu sem við leggjum til grundvallar því trausti sem við leggjum á þá sem við viljum að hjálpi okkur fram á veginn.
Læknir fæst við einn sjúkling í einu. Rúta tekur í flestum tilvikum 20 - 60 manns. Flugvél tekur allt að 600 manns. Til þess að bera ábyrgð á velferð þessa fjölda krefjumst við staðfestrar menntunar og þekkingar. Þingmaður okkar þarf hins vegar ekki að leggja fram neina staðfestingu þekkingar sinnar á því verkefni sem hann hyggst takast á hendur, þó hann þurfi í raun að kunna FULL skil á lífsskilyrðum og grundvelli rúmlega 300.000 einstaklinga til eðlilegrar lífsafkomu og reksturs þess þjóðfélags sem við rekum. Til þeirra sem sinna þessu starfi gerir þjóðin enga kröfu til neinna hæfileika né þekkingar á því verkefni sem fólk sækist eftir að taka að sér.
Ég velti fyrir mér hvort meginþorri þjóðarinnar sé svona kærulaus eða hvort þessi fjöldi sé haldinn svona miklum ranghugmyndum um raunveruleikann. Ætli fólk haldi að lýðveldisgrundvöllur og lýðréttindi bíði með miklum þrýstingi eftir að við hleypum þessum grundvallarþáttum að okkur, líkt og vatnið við lokaðan kranan bíður þess að við opnum fyrir. Slíkt er falsvon, sem of margar þjóðir hafa fengið að upplifa, þegar þær sitja, að því er þeim virðist, allt í einu uppi með stjórnendur sem hvorki virða lög né mannréttindi. Slíkt ástand er á dyrapallinum hjá okkur, og þegar búið að hringja bjöllunni.
Ætlum við að hleypa því inn?
Nýjustu færslur
- EES samningur og ætlað vald ESB
- Efnahags og viðskiptanefnd Alþingis 2021 / Hver er þekking ál...
- Þjóð án fyrirhyggju og dómgreindar: Fyrirlestur saminn og flu...
- Þetta jaðrar við hættulegt ábyrðarleysi hjá fomanni stærsta s...
- BREYTING ER NAUÐSYN TIL BETRA LÍFS
- YFIRSTJÓRN SEÐLABANKANS Lög 2019
- EES samningur og ætlað vald ESB
- ÓSAMRÆMI MILLI LAGA UM STJÓRN FISKVEIÐA OG FRAMKVÆMDA ...
Eldri færslur
2024
2023
2022
2021
2020
2019
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (30.12.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- alla
- framtid
- mammzan
- hallgrimurg
- huldumenn
- jaxlinn
- johanneliasson
- maggij
- photo
- haukurn
- runar-karvel
- sigrunsigur
- skodunmin
- svarthamar
- vestskafttenor
- athb
- thjodarsalin
- seiken
- skinogskurir
- bjarkitryggva
- bjarnimax
- brahim
- gattin
- einarhardarson
- einarorneinars
- bofs
- dramb
- haddi9001
- heimssyn
- tofraljos
- don
- hordurvald
- fun
- visaskvisa
- huxa
- jonasphreinsson
- jonl
- jobbi1
- jonvalurjensson
- jonthorolafsson
- josefsmari
- juliusbearsson
- ksh
- kolbrunerin
- kristbjorg
- liu
- skrafarinn
- maggiraggi
- markusth
- os
- raksig
- rosaadalsteinsdottir
- fullvalda
- siggileelewis
- duddi9
- siggith
- saemi7
- tryggvigunnarhansen
- vga
- thjodarheidur