Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Kom borgaryfirvöldum það nokkuð við þó framkvæmdin yrði dýrari ???

Varla eru forystumenn íþróttahreyfingarinnar það illa upplýstir um fjárveitingar opinberra aðila, að þeir standi fyrir kostnaði sem þeir hafi ekki tryggt fjármagn til. Það er einkennilega utanveltu menn sem framkvæma fyrst og ætla svo opinberum aðilum að borga. Rétta leiðin er sú að afla fyrst formlegrar staðfestingar á að fjárveiting sé fyrir hendi, síðan að fara í framkvæmdir.

Hafi íþróttahreyfingin látið framkvæma meira en kostnaður borgarinnar og annarra fjármögnunaraðila dekkaði, gera þeir það að sjálfsögðu á eigin ábyrgð eða hafa loforð um fjármagn annars staðar frá.

Hafi íþróttahreyfingin ekki heldur formlega samþykkt þennan aukna kostnað, virðist allt benda til þess að sá einstaklingur sem tók ákvörðun um að halda framkvæmdum áfram, þrátt fyrir að fjárveitingar væru uppurnar, beri alla ábyrgð á þessum kostnaði.                   


mbl.is Vissu um framúrkeyrslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað veldur því að fagmenn tala eins og kjánar ???

Það liggur við að maður fyllist örvæntingu þegar maður heyrir hvern "sérfræðinginn" á fætur öðrum tala á opinberum vettvangi eins og um óvita væri að ræða. Ég veit að það er ekki nóg að segja svona lagað, maður verður að renna styrkari stoðum undir svona gagnrýni svo almenningur geti betur áttað sig á um hvað málið snýst. Þess vegna ætla ég að taka hér dæmi úr fréttum RÚV sunnudaginn 2. mars s. l. þar sem vitnað er í Sigurð Einarsson, stjórnarformann Kaupþings og Gylfa Magnússon, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands.

Í hádegisfréttum RÚV þennan sunnudag, mun hafa verið vitnað í ummæli Sigurðar á málþingi BSRB, föstudeginum áður, varðandi vandamál íslensks fjármálamarkaðar, að hafa ekki náð hingað erlendum langtímafjárfestum.  Haft er eftir honum að ein ástæðan væri líklega sú að Seðlabankinn hefði markaðssett krónuna sem hávaxtamynnt.

Hafi Sigurður sagt þetta, er einungis tvennt í stöðunni. Annað hvort var hann að skrökva af ásetnigi, í því augnamiði að færa fullkomlega óverðskuldaða sök á Seðlabankann, á afleiðingum óvitaskapar lánastofnana. Eða, hinn möguleikinn, að þekking hans á áhrifum tölvuleikja hans og annarra í fjármálaheiminum á þjóðarheildina eru ekki meiri en þetta. Sem beinlínis ætti að vera áskorun til hans að draga sig í hlé.

Seðlabankinn markaðssetur ekki krónuna. Það gera lánastofnanir. Hér á þessari síðu hefur verið gerð ítarleg grein fyrir áhrifaleysi Seðlabanka á vaxtastigið á viðskiptamarkaði. Hann getur einungis reynt að hamla ofþennslu útlána með hækkun stýrivaxta. Í heilbrigðu fjármálaumhverfi eiga stýrivextir ekki að stýra vaxtastigi í landinu. Heimildir Seðlabanka til  að lána til lánastofnana eru í eðli sínu neyðarlán, sem lánastofnanir eiga ekki að grípa til nema einhver ófyrirséð áföll verði í reglubundnu streymi fjármuna hjá þeim. Vel rekin lánastofnun skuldar Seðlabanka ekki neitt.

Þegar lánastofnanir verða tregar til að hægja á útlánum og fara að settum markmiðum stjórnvalda um veltu þjóðarbúsins og þenslu í viðskiptalífinu, er eina úrræði Seðlabanka að hækka stýrivexti sína í þeirri von að lánastofnanir dragi frekar úr útlánum en taka þessi dýru lán Seðlabankans til að bjarga sér.  Fram hjá þessu hafa stjórnendur lánastofnana komist upp með því að hækka vexti til viðskiptamanna sinna upp að sömu hæð og og hærra en Seðlabanki hefur strýrivexti sína. Þannig verða lánastofnunanir ekki fyrir neinu tjóni vegna lántöku hjá Seðlabanka, þó þeir tefli á tæpasta vað í útlánaþennslu.

Sigurður mun hafa sagt að þegar Seðlabanki lækki stýrivexti sína, sé hætta á að mikið af krónubréfum verði seld. Gylfi Magnússon tekur undir þessi sjónarmið. Höfuðástæða þess að erlent fjármagn streymi til landsins er sögð vera sú að fjárfestar séu að nýta sér vaxtamuninn milli Íslands og annarra ríkja.

Nokkuð er þetta undarlegur fréttaflutningnur.  Ég hef að vísu ekki séð vaxtaákvæði þessara skuldabréfa en ég tel afar ólíklegt að vaxtastig þeirra eigi að ráðast af  stýrivöxtum Seðlabanka Íslands. Áreiðanlega er kveðið á um vaxtastig þessara bréfa frá útgáfudegi til gjalddaga í skuldabréfunum sjálfum og ef vextir eru breytilegir innan samningstímans hlýtur viðmið að vera annað en stýrivextir Seðlabanka. Gæti t. d. verið meðalvextir viðskiptabankanna. Hvað sölu þessara skuldabréfa áhrærir, er það í raun alveg óviðkomandi okkur, vegna þess að við greiðum bara upphæð skuldabréfanna á gjalddaga, óháð því hver á bréfin á þeim tíma.

Í fréttinni segir að krónubréfin séu skuldabréf sem erlendir bankar gefi út í íslenskum krónum. Þá segir, að ef stýrivaxtamunur milli Íslands og annarra ríkja minnki, sé hætta á að gengi krónunnar lækki.

Í fyrsta lagi ræðst gengi krónunnar ekki af stýrivaxtamun milli Seðlabanka neinna landa. Gengið ræðst fyrst og fremst af eftirspurn á viðskiptamarkaði en er ekki ákvarðað af Seðlabönkum ríkjanna. Óttalegt rugl.

Þá segir í frétt RÚV að stýrivöxtum sé beinlínis ætlað að berjast gegn verðbólgu. Þetta er líka óttalegt rugl, eingöngu ætlað til að leiða athyglina frá raunveruleikanum. Stýsivextir berjast aldrei gegn neinu öðru en ofþennslu útlána hjá lánastofnunum. Það er hins vegar sú ofþennslu útlána lánastofnana sem er oft eldsneyti verðbólgunnar, þó aðrir þættir geti að sjálfsögðu einnig verið þar áhrifavaldar.

Þá segir í fréttinni að greiningardeild Glitnis telji útistandandi krónubréf nema tæpum 400 milljörðum króna. Þetta virðist ekkert sérstakt áhyggjuefni þeirra fagmanna sem rætt er við um þessar fréttir. Gylfi segir að vísu að þetta sé einungis lítill hluti þess erlenda fjármagns sem streymi til landsins. Einhver myndi nú segja:  Er ekki í lagi með þessa menn?

Lánin sem tekin eru með svokölluðum krónubréfum, eru það sem á rekstrarmáli eru nefnd skammtímalán. Svo er einnig um mikinn hluta annarra erlendra lána sem lánastofnanirnar fjármagna sig með. Þegar rætt er um rekstur, er vengjulega sagt að reksturinn sé taktíst gjaldþrota ef skammtímalán eru orðin hærri en heildartekjur ársins. Heildar gjaldeyristekjur okkar af útflutningi hafa verið á bilinu 400 - 500 milljarðar. Einungis lítill hluti af erlendum skammtímalánum er sagður vera um 400 milljarðar. Það er u. þ. b. 80 - 90% af gjaldeyristekjum okkar. Ef öllum hinum skammtímalánunum er síðan bætt við, gætum við verið að tala um skammtímalán uppá 5 - 7 ára gjaldeyristekjur þjóðarinnar.

Erum við enn viss um að Sjálfstæðisflokkurinn haf stýrt fjármálum þjóðarinnar heillavænlega á undanförnum áratugum ????????.

Í lokin skal hér vitnað í það sem haft er eftir Gylfi Magnússyni í þessum fréttum RÚV. - Gylfi segir að Íslendingar myndu standa frammi fyrir alvarlegum vanda ef erlent fé hætti að streyma til landsins, því undanfarin ár hafi hagkerfið verið fjármagnað með erlendum lánum.

Skiljið þið hvað hann er að segja þarna?  Hann er að segja að það sem stjórnvöld hafa kallað GÓÐÆRI og sumir nefnt VEISLUNA, hafi ekki verið fjármagnað af tekjum okkar. Nei svo var aldeilis ekki. VEISLAN var fjármögnuð með erlendum lánum og nú erum við háð því að geta fengið önnur erlend skammtímalán til að framlengja skuldasúpunni, því tekjur okkar duga hvergi nærri til greiðslu þessara skulda, samanber það sem ég sagði hér á undan.

Er ekki dásamlegt að hafa svona góða fagmenn til að stjórna fjármálum þjóðarinnar ??????                     


GEIR !!!!!!! Er þetta ekki nokkuð seint og ómarkviss stjórnun hjá þér ??

Líklega eru að verða fimm ár síðan alþjóðastofnanir byrjuðu að vara Íslendinga við ofþenslu í útlánum lánastofnana. Kennitölur sögðu þessum aðilum að skuldasöfnun okkar væri komin á stig athugasemda og stefndi í óefni. Aðvaranir voru gefnar út ár eftir ár. Síðan hafa skuldir þjóðarinnar margfaldast, en ennþá eru stjórnvöld og Alþingi ekki farin að setja lánastofnunum skorður sem verndi fjárhagslegt sjálfstæði og áreiðanleika þjóðarinnar í viðskiptum við erlenda aðila.

hvað skildi þurfa að ganga lang áður en Alþingi og stjórnvöld vakna til vitundar um ábyrgð sína gagnvart óvitagangi forystumanna fjármálamarkaðarins?

Ég bara spyr, líkt og sumir.                  


mbl.is Bankarnir hægi á í útþenslunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Íslenskt efnahagslífi háð stöðugu framboði lánsfjár???

Hvernig lifir fjölskylda af í þjóðlífinu án stöðgs aðgangs að lánsfé?

Hvað er það í þjóðlífinu sem gerir kröfu um stöðugan og vaxandi aðgang að meira lánsfé?

Er sama hvernig og í hvað við ráðstöfum því fé sem við tökum að láni erlendis?

Er það nauðsynlegt lífshamingju okkar að geta stöðugt aukið skuldir okkar, án tillits til öflunar tekna til að endurgreiða þegar tekin lán?

Kunnum við ekki lengur að lifa streitulausu lífi; leyfa lífinu að líða fram með alheimsorkunni og í takti við hana, svo við höfum tíma til að njóta þeirra hamingju sem lífið hefur upp á að bjóða?

Framganga helstu "fjármálaspekinga" okkar og fjölmiðla, undanfarnar vikur, bendir ótvírætt til alvarlegs þekkingarskorts á því sem kalla mætti "eðliega" framþróun þjóðfélags, í takti við verðmætasköpun, meðferð og nýtingu verðmæta. Erum við virkilega eins illa stödd með þekkingu á rekstri sjálfstæðs þjóðfélags, eins og fregnir og umræða undanfarinna vikna ber með sér? Sé það í raun svo, er knýjandi þörf á að kalla til alvöru þekkingu á rekstri þjóðfélags, svo okkur verði forðað frá gjaldþroti og smán óráðsíunnar. Lengst af höfum við verið meðal þeirra þjóða sem skapa hvað mestar þjóðartekjur á mann, en þess sést ekki staður í lífsafkomu fjöldans. Samhliða þessari niðurstöðu er þjóðin komin langt út fyrir öll velsæmismörk í skuldasöfnun. Greinilega þarf nýja og öðruvísi hugsun ef ekki á illa að fara.

Fyrsta spurningin hér að ofan - Hvernig lifir fjölskylda af í þjóðlífinu án stöðgs aðgangs að lánsfé? - er í raun grundvallarspurning sem allar fjölskyldur þurfa að spyrja sig. Nú, þegar skuldasöfnun er komin að ystu mörkum  hins mögulega, er ekkert mikilvægara en ná tökum á væntingum sínum og setjast yfir jarðbundinn raunveruleika þess hvaða lífsafkomu tekjur hvers heimilis skapa því og hvernig þær tekjur verði sem best nýttar til sköpunar lífsgæða og lífshamingju. Þessa grundvallarskyldu uppfylla margir, þó enn séu þeir of margir sem gera það ekki, samanber stöðugt vaxandi skuldir heimilanna. Vafalaust segja margir, réttilega, að þetta sé ekki hægt eins og tekjur þeirra séu. Það þýðir einfaldlega að við þurfum að breyta leikreglum í samfélagi okkar en ekki halda áfram skuldasöfnun.

Önnur spurningin hér efst var - Hvað er það í þjóðlífinu sem gerir kröfu um stöðugan og vaxandi aðgang að meira lánsfé? - Ýmis lýsingarorð má nota til að skilgreina það sem veldur slíku ástandi. Þau fjalla að vísu flest um óraunveruleika byggðan á skorti á heildaryfirsýn og flæði saman við þann veruleika sem er og fyrirsjáanlegur er á næstu árum. Þær væntingar til draumsýnar, sem einkennir svo mjög þá mynd sem gerð er af framtíðinni, á að verulegu leiti rót sína í þeim óraunveruleika sem settist að í lífsmynd fólks fyrir 40 árum, þ. e. 1968, með svo kallaðri byltingu blómabarnanna. Sú lífsmynd var byggð á draumsýn ungs fólks, sem ekki hafi öðlast þroska til heildaryfirsýnar, né skilnings á hverjar grunnþarfir sjálfstæðs þjóðfélags eru. Mörg þessara viðhorfa lifa góðu lífi enn í dag og eru m. a. merkjanleg í því hve margir trúðu því í raun að við værum svo rík þjóð að við gætum nánast hvað sem var og þyrftum ekkert að fara vel með fjármuni eða önnur verðmæti. Alið var á þessu viðhorfi með stöðugu innstreymi lánsfjár, sem mokað var í allar áttir, án hugsunar um endurgreiðslu eða áhrifa þess á komandi framtíð. Mikilvægast fyrir okkur nú, er að endurskoða væntingar okkar til framtíðarinnar, á álíka hátt og sá þarf að gera sem stendur frammi fyrir gjaldþroti. Hann getur ekki byggt væntingar sýnar á því að fá lánsfé fyrir því sem hann vill gera. Hann verður að afla tekna fyrir því sem hann vill veita sér, áður en hann fer að fjárfesta eða eyða fjármunum. Þetta er því fyrst og fremst endursköpun hugans sem er lykillinn að betri tíð framundan.

Þriðja spurningin var þessi - Er sama hvernig og í hvað við ráðstöfum því fé sem við tökum að láni erlendis? - Svörin við þessari spurningu eru vafalaust misjöfn. Einn grunnur ætti þó að vera sameiginlegur hjá öllum sem taka fjármuni að láni. Það er spursmálið um getuna til að endurgreiða lánið.  Ef við tökum lán til að stofna til atvinnureksturs, þarf að vera öruggt að tekjur af starfseminni verði nægar til greiðslu rekstrarkostnaðar, ásamt afborgunum og vöxtum af lánsfénu. Framhjá þessari grunnforsendu er alltof oft litið, enda rekstur oft skammlífur hér á landi. Ef við tökum fé að láni til eigin nota, verðum við að gera okkur grein fyrir því að það lán þarf að endurgreiðast af tekjum okkar. Við þyrftum því að spyrja okkur, áður en lánið er tekið, hvort nægur afgangur sé af tekjum okkar til að endurgreiða lánið. Ef tekjuafgangur reynist ekki vera fyrir hendi, er heppilegra fyrir langtímahamingjuna og heilsuna, að sleppa lántökunni, endurmeta væntingar sínar og beina þeim í aðrar áttir en þær sem kalla á aukin peningaútgjöld.

Fjórðu og fimmtu spurnignuna ætla ég að láta fólki eftir að velta vöngum yfir. Ég ætla hins vegar að enda þessar vangaveltur um skuldasöfnun okkar Íslendinga á því að segja að sú staða sem nú er upp komin er alls ekki að öllu leiti óraunsæi og "barnaskap" forystu lánastofnana að kenna. Stjórnmálamenn eiga þarna verulega stóran hlut að máli, auk þess sem þessi skuldasöfnun hefði ekki orðið til ef fólkið í landinu hefði ekki verið tilbúið að henda dómgreind og raunsæi fyrir borð og stokkið á hið stjórnlausa ský græðgisvæðingarinnar sem drifið hefur áfram helsta fíkniþátt mannsins, sem felst í flóttanum frá raunveruleikanum.               


« Fyrri síða

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband