Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Eru samtök atvinnulífs og iðnaðar í pólitísku hanaati við ráðherra??

Sérstaklega er mikilvægt, þegar ráðist er í kostnaðarsamar og umdeilanlegar framkvæmdir, að hafa alla kostnaðarliði afar skýra. Flesum eru í meginatriðum ljósar þær tekjur sem verkefnið mun hafa. Það er hins vegar afar alvarleg árátta þeirra sem reikna út hagkvæmni íslenskra framkvæmdaþátta, að þeir gleyma að gæta að hringrás fjármagnins.

Allar framleiðslugreinar byggja á því að langlífi þeirra og arðsemi byggist á að tekjur verði hærri en gjöld. Fjármögnunin byggist á því að nægt framkvæmdafé (eiginfé(hlutafé) og lánsfé) fáist til að koma rekstrinum af stað, afla markaðshlutdeildar og viðskiptavildar svo tekjur beri rekstrarkostnað, afborganir af lánsfé vegna uppbyggingar og að fáum rekstrarþarum sliðnum, geti fjárfestingin í hlutafé, skilað arði til hluthafa.

Þegar aðrir aðilar þurfa að leggja í fjárfestingar, til að rekstraráform geti orðið að veruleika - hvort sem um er að ræða opinbera aðila eða einkaaðila - er eðlilegt og sjálfsagt að þessir aðilar hafi skýra heildarmynd af þeim kostnaði sem það muni valda þeim, að leggja í þær fjárfestingar sem þeim er ætlað, svo upphaflega hugmyndin geti orðið að veruleika.

Fjárfestingasaga þjóðarinnar er yfirfull af mistökum við skuldsetningar vegna atvinnustarfsemi sem ekki skilaði hagnaði fyrr en búið var að afskrifa meginhluta stofnkostnaðar.  Ég gæti talið  upp mikinn fjölda slíkra tilvika, bæði af tilvikum sem ég hafnaði sjálfur á hagdeildarárum mínum, sem og tilvikum sem eru mun stærri og afdrifaríkari fyrir þjóðina. Má þar t. d. nefna Síldarævintýrið gamla, Álverið í straumsvík, Járnblendið á Grundartanga, loðdýraræktina, fiskiræktina, útlánabrjálæði í húsbyggingum og verslunarrekstri o. fl. o. fl.

Það er dæmigert fyrir hið íslenska óraunsæi, sem er meginundirstaða efnahagshruns okkar, að Samtök atvinnulífs- og iðnaðar, skuli nú hamast með afar ódrengilegum hætti á þeim ráðherra sem vill gæta fyllstu varúðar í efnahagslegu tilliti. Það er ekki þessum ráðherra að kenna að framkvæmdaaðilarnir sjálfir voru ekki með raunhæf og rétt kostnaðarplön varðandi þá þætti er lutu að kostnaðar- og umhverfisáhrifum stjórnvalda. Slíka útreikninga áttu þeir ALLA að hafa á hreinu, ÁÐUR EN ÞEIR SJÁLFIR BLÉSU TIL FRAMKVÆMDA.  Þeir vissu mæta vel sjálfir að þetta mat þyrfti að vera til staðar; ekki síst vegna þess ástands á fjármálamörkuðum sem var orðið ljóst, áður en framkvæmdir hófust.

Þessar árásir gera framangreind samtök að pólitískum ómerkingum, þar sem reynt að að ráðast að ráðherra í starfi, vegna eigin óvandvirkni framkvæmdaaðila við undirbúning verksins.          


mbl.is Svandís ógildi ákvörðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Háspilum Íslendinga hent í ruslið.

Varla fer það fram hjá nokkrum skynsömum manni að Bretar og Hollendingar hafa beitt þjóð okkar harðri þvingunarskrúfu, sem fyrst og fremst er til komin vegna óvarkárni þeirra eigin þegna í meðferð fjármuna sinna, sem og fjármuna annarra, sem þeir báru ábyrgð á.

Reynt er að klína sök á íslensku þjóðina vegna regluverks sem ESB setti um svonefnt "fjórfrelsi"; regluverk sem nú er orðið sannað að gengur ekki upp í raunveruleikanum.

Íslenska þjóðin hafði engin tök á að verjast þeim skaða sem hún er sögð bera ábyrgð á. Hins vegar höfðu bæði Bretar og Hollendingar alla varnarþætti í sínum höndum. Bæði hvað varðar raunverðgildi þeirra ábyrgða sem væru að baki innlánasöfnun Landsbanka á svonefnda IceSave reikninga, sem og hverjir það voru sem fyrst og fremst voru ábyrgir fyrir reglusetningu ESB, sem þegar árið 2007 var orðið ljóst að ekki stæðist raunveruleikapróf.

Sem huglausir vesalingar, þorðu Bretar og Hollendingar ekki að snúa sér beint að þeim sem ábyrgð báru á óförunum (sjálfum sér, ESB og stjórnendum bankanna), heldur ákváðu að ráðst gegn lítilli þjóð sem þá hafði engin spil handbær, sér til varnar.

Það þarf sérstaka manngerð, til að berja harkalega á og misþyrma aðila sem - án sakarvitundar - hefur verið sleginn flatur á vegferð sinni.

Við þekkjum nú þessa manngerð nokkuð vel í dag. Það sorglega er hins vegar, að ráðamenn okkar koma fram eins og lang-kúgaðir þrælar, og lúta í auðmýkt harðneskju og pyntingum þeirra, sem sjálfir bera mesta ábyrgð á þeim óförum sem yfir þjóð okkar hafa gengið undanfarið ár.

Í samræmi við þá undirgefni sem hér er vikið að, keppast forystumenn núverandi stjórnar okkar við að eyðileggja vígstöðu okkar, í hvert skipti sem reynt er að skapa þjóðinni varnarstöðu.

Það fyllir mann næstum skelfingu að annar stærsti stjórnmálaflokkur þjóðarinnar, skuli svo heltekinn af þrá eftir að geta setið til borðs með samliggjandi þjóðum Evrópu, þar sem misvitrir stjórnmálaleiðtogar þeirra gera aumkunarverða tilraun til að búa til yfirvald, sem skipað geti fjölda ólíkra þjóða að hlýða fyrirmælum.

Fyrirmælum sem eru álíka gáfuleg og t. d. svonefnt "fjrófrelsi". Slíkt hefur í raun ekki gengið upp enn, og það er afar mikil vanþekkingi á íslensku eðlisfari, að telja þjóðina fylgja auðmjúka valdboði frá erlendum og ókunnum valdsherrum.

Það hefur verið afar sorglegt að fylgjast með því hvernig pólitísk forystusveit Samfylkingarinnar hefur opinberað vankunnáttu sína í skylmingum stórra samningsmarkmiða, er þeir af heimskulegum klaufaskap eyðilögðu þá vístöðu sem Framsóknarmenn sköpuðu, annað hvort ómeðvitað eða sem mikilvægan varnarleik þjóðarinnar, á afar mikilvægum tíma.

Þung pressa liggur á Bretum og Hollendingum að fallast á fyrirvara þá sem Alþingi setti, við ríkisábyrgð á svonefndum IceSave skuldum. Þessar þjóðir krefjast frekari fórna af hendi þjóðar okkar, án þess að vilja að nokkru leiti líta til eigin ábyrgðar á meðförum þeirra sjálfra á sínum eigin fjármunum.

Kröfu sinni halda þessar þjóðir fyrst og fremst, svo hart til streitu, vegna þess að þær telja sig hafa íslensku þjóðina í klemmu, sem geti leitt til greiðsluþrots þjóðar okkar, fari hún ekki að vilja þeirra.

Á götumáli heitir þetta fjárkúgun hinna sterkari, og er aðallega þekkt meðal þeirra sem kunna vel til verka í undirheimunum

Ef skynsamt fólk hefði ráðið för í Samfylkingunni, hefði orðrómurinn um hugsanlegt lán frá Noregi verið blásið upp sem hugsanleg leið út úr sjálfheldunni, sem Bretar og Hollendingar beita þjóð okkar með tryggum stuðningi AGS.

Hefði þessu verið haldið vel á lofti, sem möguleika á nýrri leið til endurreisnar efnahags þjóðarinnar, og að þar með væri hægt að gefa áætlun AGS upp á bátinn og senda þá heim. Þá er ég handviss um að fljótt hefði komið annað hljóð í strokkinn hjá Bretum og Hollendingum. Því enginn vafi er á að þeir vita hve réttlítil krafa þeirra á hendur þjóð okkar er, þess vegna vilja þeir ekki dómstólaleiðina.

Að vaða beint fram og loka því varnarvígi sem Framsókn skapaði þarna, óvart eða að einhverju leiti vitandi, jaðrar við barnaskap eða einfeldningshátt.

Vel er hægt að skilja hræðslu undirmálshópsins sem nú virðist stýra Samfylkingunni, sem alls ekki treystir íslensku þjóðinni til að stýra efnahagsmálum sínum sjálf.  Sú eina von sem þessi undirmálshópur sér, eru hyllingar liðinna tíma, þegar ALLAR þjóðir ESB höfðu neitunarvald og því var hlustað á raddir allra. Löngu er ákveðið að slíkt verði ekki í framtíðinni, þá verði atkvæðavægi látið ráða.

Á undanförnu ári hefur vel komið fram hversu margraddaður kór hefur verið innan ESB, okkar þjóð til varnar. Enginn úr forystusveit ESB hefur stigið fram. Fáróma og frekar hjáróma eru þeir meðreiðarsveina forystusveitanna í ESB sem hafa viljað sýna málstað þjóðar okkar velvilja og skilning.

Ef sú raungreind sem þjóðin sjálf, og stjórnmálafólk okkar hefur sýnt undanfarin ár, er spegilmynd þeirrar skynsemi sem þessi langmenntaða þjóð hefur yfir að ráða, þá tel ég ástæðulaust að berjast meira um vegna IceSave skuldanna.

Með álíka framhaldi og verið hefur, er afar litlar líkur á að þjóðin verði fjárhagslega sjálfstætt lýðveldi árið 2024. Allt stefnir í að Ísland verði orðin ósjálfstæð nýlenda, með mikinn fjölda langmentara einfeldninga, haldna afar rírri raungreind og takmörkuðu fjármálalæsi.

Er þetta sú framtíðarsýn sem sjálfræðis-flóttaliðið vill að blasi við heiminum, þegar Ísland ber á góma, eða ætlar kjark- og raungreindarfólk þjóðarinnar að rísa upp og hrekja tækifærissinnana út úr valda- og forystusveitum stjórnmálaflokkanna?             


mbl.is Mun ekki biðjast afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarleg viðbrögð Jóhönnu

Af fréttum að dæma eru viðbrögð Jóhönnu, vegna viðræðna Höskuldar og Sigmundar Davíðs, við Norska stjórnmálamenn, um hugsanlega lánveitingu til Íslands, afar undarleg. 

Í öllum fréttum hefur verið lögð áhersla á, að frá Íslandi hafi engin ósk borist um að Noregur láni Íslandi fé eftir öðrum leiðum en eftir stýringu AGS. En hins vegar, ef formleg ósk bærist frá Íslandi um slíka lánafyrirgreiðslu, yrði sú ósk tekin til jákvæðrar skoðunar.

Mikill munur er á því að fallast á formlega umsókn um lán, eða hinu - hvort Noregur sé tilbúinn að BJÓÐA ÍSALNDI lán. Spurning Jóhönnu, til forsætisráðherra Noregs var, samkvæmt því sem fram kom á Mbl.is, hvort Norsk stjórnvöld væru tilbúin að bjóða Íslandi lán, með öðrum skilmálum en í gegnum AGS.

Þetta var vægt til orða tekið kjánaleg spurning, því fram til þessa hafa Norsk stjórnvöld eingöngu talað um lán sitt, sem hluta af heildarláni AGS. Það væri því sérkennileg staða fyrir Norsk stjórnvöld, að fara nú AÐ BJÓÐA ÍSLANDI LÁN, eftir öðrum leiðum. Ekki hefur verið látið á það reyna formlega, hvort Ísland egi nú aðra möguleika en afarkosti AGS.

Þeir sem ekki skilja hve langur vegur er milli þess að bjóða af fyrra bragði lánafyrirgreiðslu, eða að taka til jákvæðrar skoðunar ósk frændþjóðar um aðstoð á neyðar- og ögurstundu, þeir eiga að mínu mati ekki mikið erindi í stjórnunarstörf á heilu þjóðfélagi.               


mbl.is Jóhanna beitti sér gegn láninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverð þröngsýni hagfræðinnar

Þegar ég les þessi ummæli Gylfa, mynnist ég einnig ummæla hans fyrir u. þ. b. ári síðan, þegar hann orðaði spá sem hann vonaði innilega að ekki myndi rætast, en rættist þó með undraverðri nákvæmni.

Líklega er ekki á hvers manns færi að skilja djúpa tóninn í þessum ummælum Gylfa, en þeim sem lentu í hringiðunni, ætti að vera hún ljós.  Ég mynnist þeirra daga, á árunum 1986 og 1987, er ég var nánast handlama í lok vinnudags, eftir að árita fjallháa stafla af skuldabréfaútgáfum ýmissa aðila, til endurgreiðslu á komandi 5 - 10 árum eða svo, til ýmiskonar byggingaframkvæmda eða aukningar á ýmiskonar þjónustustarfsemi.

Þarna voru ekkert lágar upphæðir á ferðinni og í flestum tilfellum ekkert hugsað fyrir mögulegum endurgreiðslum. Áhuginn beindist allur að því að ná til sín verðmætagildum, til að koma áhugamálum sínum og væntingum í framkvæmd.

Þarna er í raun grunnástæðan fyrir því að ég vildi ekki gera bankastarfsemi að lífsstarfi mínu, því þar var einungis hugsað um að fjölga eignfærðum talnagildum, á ímyndaðri eignahlið, en ekkert hugasð um nýmyndun fjármagns í þjóðfélaginu, til að bera uppi þessa auknu "eignamyndun".

Gylfi túlkar vel svokallaða "frjálshyggjuhagfræði", þar sem fyrst og fremst er litið á hækkandi talnagildi ímyndaðrar eignahliðar viðskiptajöfnunnar, en lán og skuldirnir, séu einungis ávísun á meiri eignir. Þetta er dálitið flókið ferli í útskýringum, sem ekki verður reynt að kryfja til mergjar hér. 

Nokkrir samverkandi þættir eru líklega undirstaða þess að Gylfi segir að: "Gríðarlegt tjón hefði orðið í bankahruninu en það væri í eðli sínu tjón á pappír...". Fyrst ber þar að nefna tilkomu tölvutækinnar, en þar skapaðist lánastofnunum alveg nýtt svigúm til að auka veltustöðu sína, án raungildisaukningar á peningum.

Margir muna líklega eftir því að á þessum tíma varð nánast útilokað að fá lán sem banki var að lána, greitt beint út í peningum. Regla var sett á fót um að öll ný útlán voru lög inn á innlánsreikninga og þaðan gat lántakinn tekið út lánsfjárhæð sína.

Ástæða þessa var, að sú veltuaukning sem tölvufærslan skapaði, þar sem samtímis var hægt að skrá útlán frá bankanum sem aukið innlán, skapaði bankanum umtalsvert aukið svigrúm til útlána, þó raunveruleg innlánaaukning eða raunveruleg eignastaða hefði ekkert aukist.

Þessi þróun vatt ótrúlega hratt upp á sig, og tíu árum síðar (1997) var fyrsti grunnurinn lagður að þeirri svikamyllu sem varð bankakerfinu að falli.

Það sem Gylfi flaskar á (eða sneiðir hjá viljandi), er að mínustala allra svona verðmætagjörninga, er raungildi framtíðar- verðmætasköpunar, en ekki talnagildi á pappír, sem afskrifuð verða af sjálfsdáðum vegna afkomubrests.

Skuldir venjulegs viðskiptamanns verða ekki þurkaðar út, þó eignavirði lánveitanda skuldabréfs eða viðskiptafærðs hlutabréfs, verði allt í einu verðmætalaust, og á kæruleysislegan hátt, BARA FELLT NIÐUR.

Þetta er í raun grundvallarþátturinn í hinni hættulegu óraunsæi svokallaðs "frjálshyggjuhagfræðings" að honum hefur ekki verið kennt að hugsa á grundvelli nýmyndunar fjármagns, í því hagkerfi sem hann er að vinna í.

Meðan þjóðin nær ekki að loka úti þessa villukenningu "frjálshyggjunnar" er ENGIN VON til varanlegra bóta á íslensku efnahagslífi.               


mbl.is Hrunið í eðli sínu tjón á pappír
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til að geta lögfest innköllun, þarf að finnast lög um úthlutun, ekki satt ???

Öll árin, að frádregnu því fyrsta, frá setningu laga um stjórn fiskveiða, hafa verið brotin lögin um úthlutun aflaheimilda í fiskveiðilandhelgi Íslands. Engin lagastoð er fyrir núverandi úthlutun og því vandséð hvernig eigi að setja lög um afturköllu lagafyrirmæla sem ekki eru til.

Eina lagastoðin um úthlutun aflaheimilda, var sett sem regla um úthlutun með fyrstu lögunum. Þar voru skýr fyrirmæli um að hverju sinni, verði úthlutað aflaheimildum sem meðaltali af afla hvers skips, næstu þrjú árin á undan úthlutunarári.  Það er eina lagareglan sem er til um úthlutun aflaheimilda.

Halldór Ásgrímsson (útgerðarmannssonur) og þáverandi sjávarútvegsráðherra, fór hins vegar aðra leið (án lagaheimilda), til að tryggja ættarútgerðinni aflaheimildir. Það var hann sem kom þeirri ólögmætu framsetningu á flug, að úthlutun aflaheimilda ætti einungis að ná til þeirra skipa sem stundað höfðu veiðar þrjú síðustu árin fyrir fyrstu úthlutun. Önnur skip ættu engan rétt.

Frá fyrstu tíð hef ég óskað eftir, bæði við alla sjávarútvegsráðherra og allar sjávarútvegsnefndir, sem setið hafa, til ársins 2008, að þeir sendi mér afrit af lagaheimildum fyrir núverandi úthlutun aflaheimilda, sem og lagaheimildir fyrir því að útvegsmenn SELJI þær aflaheimildir sem þeim er fengin heimild til að veiða.  Enginn hefur enn geta sent mér þessar lagaheimildir, og þó ég hafi hart nær 50 ára þjálfun í að leita í lögum og að lagaheimildum, hef ég hvergi geta fundið þessar tilteknu lagaheimildir.

Í þessu sambandi má einnig geta þess að frá 1. janúar 1994 hefur verið virðisaukaskattur á allri sölu fisks. Seldar (eða leigðar) aflaheimildir frá þeim tíma bera því í sér virðisaukaskatt, samkvæmt lögum nr. 50/1988.

Ríkissjóður hefur hins vegar aldrei innheimt þennan virðisaukaskatt hjá söluaðilum aflaheimilda, vegna ólögmætrar ákvörðunar Indriða H. Þorlákssonar, þáverandi Ríkisskattstjóra, um að sala aflaheimilda væri ekki virðisaukaskattskyld.  Engin lög heimila Ríkisskattstjóra sjálfstæða breytingu á skattalögum, þar sem í 40. gr. stjórnarskrár segir skýrum stöfum að:

Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum.

Þrátt fyrir þetta skýra ákvæði stjórnarskrár, tekur Indriði sér vald til að afnema virðisaukaskatt af sölu aflaheimilda. Slík undanþága stenst ekki, og hefur það loks fullkomlega sannast nú í upphafi þessa árs.

Það er óneitanlega dálítið hlægilegt að Alþingi og stjórnmálamenn skuli vera að velta fyrir sér, að hugsanlega hætta að brjóta lög Alþingis á næstkomandi 20 árum, ef tilnefndur vinnuhópur komist að þeirri niðurstöðu að slíkt væri æskilegt.

Eru stjórnmálamenn með heilbrigða dómgreind og hugsun ?????????????              


mbl.is Treystir starfshópnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorglegt hve stjórnmálamenn eru lokaðir fyrir leiðum út úr erfiðleikunum

Hæfileikar fólks til að vera í forystu og taka stefnumarkandi ákvarðanir, birtist fyrst þegar takast þarf á við afbrigðilegar aðstæður. Bílstjóri sem með snarræði forðar dauðaslysi. skipstjóri sem bjargar skipi og skipshöfn úr hafróti og straumröst, flustjóri sem flýgur inn í fuglager en nær að lenda vélinni svo að allir komast heilir frá borði. Og svo stjórnmálamaður sem býður sig fram til að stjórna heilu þjóðfélagi, og jafnvel veita því forystu, í ólgusjó heimsviðburðanna, en hvorki sér váboðana sem opinberlega eru birtir þeim mörgum sinnum á ári, og kunna svo engin ráð til bjargar, þegar út í alvöruna er komið.

Kosningar eftir kosningar hefur þjóð okkar valið hóp fólks til stjórnunar þjóðfélaginu, sem ekki hafði þekkingu til að sigla þjóðarskútunni við bestu aðstæður (sem þá voru), eins og núverandi staða okkar sýnir gleggst. Af þeirri ástæðu hrúguðust upp vitleysur, sem fyrstu viðbrögð við greiðsluþroti bankanna, sem enginn hefur enn séð, eða þorað að viðurkenna.

Eitt af helstu vandamálum þjóðfélagsins var að eigendur og vildarvinir bankanna, höfðu komið miklu af fjármagni þjóðarinnar fyrir á erlendum bankareikningum, til að forða þeim út úr íslensku skattaumhverfi. Og með því aukið þörf þjóðfélagsins fyrir erlent lánsfé (sem allt var á skammtímalánum), til eðlilegrar greiðsluveltu.

Þegar lánalínur bankanna lokuðust, lokaðist jafnframt fyrir innstreymi þessa erlenda lánsfjár, sem notað hafði verið til að greiða reglulega fjármunaveltu, vegna eðlilegs reksturs þjóðfélagsins.

Þar sem ekki var til í landinu nægilegt íslenskt fjármagn til eðlilegs greiðslæuflæðis, skapaðist strax stöðnun og vanskilaferli, þegar erlenda lánsfjármagnið hvarf af vettvangi.

Skynsamleg viðbrögð stjórnvalda, við þessar aðstæður, hefði verið að gera flýtiúttekt á heildarfjárþörf þjóðfélagsins, til að halda greiðsluflæði rekstrargjalda innan eðlilegra vikmarka, og sjá hvort íslenskt fjármagn væri til staðar til að sinna þessu greiðsluflæði.

Þegar ljóst varð að mikið af íslenska fjármagninu var horfið úr landinu, hefðu stjórnvöld þegar í stað átt að taka ákvörðun um útgáfu á nýrri íslenskri krónu, þar sem eitt núll hefði verið þurkað út, og auglýsa innköllun á allri íslenskri mynt innan þriggja mánaða. Að þeim tíma liðnum væri gömlu krónurnar verðlausar. En þó myndi Seðlabankinn innleysa gömlu krónurnar næstu sex mánuði. Með slíkri framkvæmd hefði íslenskt fjármagn, vistað í bönkum erlendis skilað sér heim og jafnframt komið í ljós hvort eðlilegir skattar hefðu verið greiddir af því fjármagni sem flutt var úr landi.

Á þessu tímabili hefði þjóðin einnig verið vel upplýst um stöðu mála og hún hvött til ábyrgrar meðferðar á fjármunum og skírt út hvers vegna strangt aðhald og eftirlit yrði haft með útstreymi íslenskrar myntar og gjaldeyris.

Með álíka framkvæmd og hér hefur verið lýst, hefði AGS aldrei verið inni í myndinni. Stjórnvöld hefðu getað haft nokkra stjórn á samdráttarhraðanum og samtímis unnið að uppbyggingu gjaldeyrisskapandi starfsemi, til að styrkja rekstrargrunn þjóðfélagsins og minnka samdráttarþörfina. 

Fjöldi haldbærra leiða er til gjaldeyrisskapandi starfsemi, sem ekki krefst mikilla fjárfestinga. Má þar t. d. nefna framleiðslu á ensímum af ýmsum gerðum, sem unnið væri úr íslensku hráefni, með íslensku rafmagnið og íslensku vinnuafli, án allrar mengunar á umhverfinu.

Mikil notkun er á ensímum í veröldinni og við búum við þá sérstöðu að vera með mjög lítið mengað hafsvæði og loftslag, sem mundi gera framleiðslu ensíma hér eina þá verðmætustu sem til væri.

Margt fleira mætti nefna til gjaldeyrissköpunar. Við eigum hér t. d. athyglisverðan fjölda sérfræðinga í tölvu- og hugbúnaðarlausnum, sem þegar eru farnir að mala gjaldeyri fyrir þjóðina, þó stjórnmálaöflin hafi ekki sýnt þessari margslúngnu skipulagsgáfu mikinn áhuga enn. Við seljum einnig stóran hluta af fiskafurðum okkar úr landi sem hráefni, í stað þess að vinna þær hér á landi í verðmætar smásöluumbúðir.

Ég gæti haldið lengi áfram að telja upp möguleika okkar til eflingar gjaldeyristekna, sem ekki krefjast margra milljarða í fjárfestinu, en enda á markvissari framsetningu á menningu og arfleifð þjóðarinnar, sem aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn. Eitt af stóru vandamálum okkar í sambandi við að heilla ferðamenn, er sú augljósa minnimáttarkend okkar að snobba, með áberandi hætti, fyrir lægstu gildum í erlendum samfélögum, í stað þess að vera stolt af menningu okkar og sérstöðu.

Íslenska þjóðin á greinilega þó nokkuð langt í land, að hafa lært það sem hún átti að læra af því hruni sem varð haustið 2008. Ef þjóðin gerir ekki skynsamlegar og ábyrgar kröfur til stjórnmálamanna sinna, mun endurreisnin ekki verða varanleg, og næsti skellur líklega mun erfiðari en sá sem verið er að fást við nú.

Framtíð okkar er: Ábyrg skynsemi, eða upphrópanir og ofbeldi.

Okkar er valið             


mbl.is Líst illa á fjárlögin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðskiptaráð virðist á sama þroskastigi og heimtufrek ungmenni

Það er afar sorglegt að nánast skuli heyra til undantekninga ef skynsamlega er rætt um afkomu og rekstur þjóðfélagsins okkar. Barnaleg frekja og rökleysa tröllríður svoleiðis umræðunni að þær fáu skynsemisraddir sem fram koma, drukkna í heimskulegum vitleysisvaðli.

VIÐSKIPTARÁÐ, svo virðulegt sem nafnið er, veður vitleysuna upp undir hendur, í flestu sem frá þeim hefur komið. Skilningsleysið á því hvað þjóðarbúið þoli mikla útþennslu á veltu, út frá gjaldeyristekjum og meðferð gjaldeyris,  er svo afgerandi að það setur að manni hroll.

Í heilan áratug hefur þetta virðulega RÁÐ, horft - án varnaðarorða - á viðskiptalífið drekkja afkomugrundvelli þjóðarinnar í skuldasúpu, og í hreinum barnaskap kallað það HAGVÖXT og að þjóðin sé svo RÍK.

Allan síðasta áratug silgdi þjóðarbúið augljósa og stefnufasta braut til þess sem varð raunveruleikinn í október 2008. Stöðug aukning erlendra skulda, og óskynsamleg meðferð hins erlenda lánsfjár, voru svo augljós merki um að endalokin væru í nánd, að undrun sætti að þjóðfélag sem í sífellu státaði sig af háu menntunarstigi þjóðarinnar, skildi haga sér líkt og trillt sauðahjörð, sem æðir fram af bjargbrúninni á eftir forystusauðnum.

Af fréttatilkynningunni má sjá að þetta blessaða VIÐKIPTARÁÐ, ber ekki mikla viðringu fyrir sjálfu sér. Á tilkynningunni er engin yfirskrift, enginn haus með nafni heimilsfangi og kennitölu. Engin dagsetning er á þessari tilkynningu og enginn úr þessu virðulega RÁÐI, lætur svo lítið að undirrita blaðið.

Þrátt fyrir allan þann óvitaskap sem þarna kemur fram, gera þeir - líkt og óþekku börnin - kröfu til þess að farið sé að óskum þeirra.

Mér sýnist þetta RÁÐ, vera með töluvert ÓRÁÐ.                     


mbl.is Skattastefnu stjórnvalda harðlega mótmælt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband