Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

Hvers vegna var settur skattafsláttur á sjómenn ??

Það undrar mig nokkuð að Sjómannafélag íslands skuli ganga fram með þessum hætti, við þær aðstæður sem nú eru uppi í þjóðfélaginu. Undarlegt er, að forystumenn sjómanna skuli vera búinr að gleyma megin forsendum fyrir sjámannaafslættinum, eða vilji láta það vera gleymt.

Skattafsláttur til sjómanna var fyrst settur á sem uppbót fyrir vosbúð, slysahættu, ótakmarkaðan vinnutíma á bátaflotanum (sem þá var meginuppistaða flotans), engin helgarfrí á netavertíðum og mikla fjarveru frá heimilum og fjölskyldu.

Margir þeir áhættuþættir sem við þurftum að glíma við, sem sóttum sjóinn á þeim tímum, eru nú blessunarlega horfnir úr lífi sjómannsins. VOSBÚÐ, er t. d. hverfandi lítil á við það sem við lifðum við. Þá gat það verið háð dutlungum veðurguðanna hve langt væri á milli þess að við kæmumst í bað, því engin baðaðstaða var í bátunum. Vistarverur til hvíldar voru engar, utan þröngrar koju. Eina hvíldin var líka oftast bara á stímum í land, eða aftur á miðin, sem og smá slökun ef leita þurfti að bauju eða afli var lítill á trollinu. Allan veiðitímann voru menn úti á óvörðu dekkinu, óvarðir fyrir veðri og sjógangi, jafnvel í nístingsfrosti.

Sem betur fer hefur margt breyst í aðbúnaði sjómanna. Sú breyting hefur ekki síst orðið vegna stærri og betur búnum skipum, bæði hvað varðar aðbúnað að mannskap og vinnuaðstöðu. Það er því vafasöm sanngirni og heiðarleiki fólginn í því að réttlæta að sá sjómannaafsláttur sem veittur var, vegna aðstæðna fyrir 50 árum eða svo, skuli í dag standa óbryettur á sömu forsendum.

Vilji sjómenn halda þessum sérkjörum enn í dag, verða þeir að leggja heiðarlegann grunn að slíkum afslætti. Ég er ekki með þessu að segja að mér finnist sjómenn ekki eiga rétt á einhverjum sérkjörum, en sá grundvöllur sem var fyrir sjómannaafslættinum, við upphaf hans, er einungis að litlu leiti til staðar í dag.

Með kveðju frá fyrrverandi sjómanni, sem þekkir muninn á fyrrverandi og nútímalífi sjómanna.        


mbl.is Hvetja sjómenn til að sigla í land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisver frétt, en svolítið brosleg

Fáir ekki talsmenn fjöldans, er yfirskrift þessarar fréttar.

Eftir að hafa í rúma hálfa öld verið talsmaður þeirra sem lökust hafa kjörin í verkalýðshreyfingunni, við litla hrifningu hins fámenna forystuliðs hennar, getur maður ekki annað en brosað út í annað og spurt sig hve fjölmennur sá hópur hafi verið, sem samdi þá tillögu sem þarna var samþykkt.

Hinn kúgaði fjöldi í verkalýðshreyfingunni hefur ævinlega verið hlýðinn að rétta upp hönd, þegar forystuklíkan leggur fram tillögu til atkvæðagreiðalu.

Mér finnst þetta bera sterk einkenni slíks.                   


mbl.is Fáir ekki talsmenn fjöldans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er nauðsynlegt nú að eyða opinberu fé til fjölgunar þjónustustarfsemi í landinu?

Þetta er afar athyglisverð frétt, svona á sama tíma og Íslendingar eru að hrekjast út úr ýmiskonar þjónustustörfum, vegna mikils samdráttar í þjóðfélaginu.

Samdráttur þessi stafar fyrst og fremst af því að núverandi  atvinnuvegir í gjaldeyrisöflun, geta ekki aflað alls þess gjaldeyris sem núverandi þjónustustarfsemi þarfnast.

Ef hér á ekki að verða alvarlegt efnahagshrun á komandi árum, verða stjórnvöld að vera vakandi fyrir virku aðhaldi gegn útþennslu þjónustustarfsemi, af ekki minna afli en þau beita sér til niðurskurðar á ríkisútgjöldum.

Ég hefði viljað sjá opinber aðila hvetja til námskeiðs í gjaldeyrisskapandi atvinnustarfsemi, og hugsanlega veita arðsömum hugmyndum styrk eða aðra fyrirgreiðslu við að komast á legg.

Það síðasta sem þjóðin þarfnast núna, er erlend smkeppni í þjónustustarfsemi á Íslandi.                     


mbl.is Lærðu um stofnun fyrirtækja á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einhver ruglingur er í þessari frétt

Í fréttinni segir að Nýi Landsbankinn eigi að gefa út skuldabréf að fjárhæð 260 milljarða króna, gengistryggt til tíu ára. Síðan segir í fréttinni:

Ljóst er að bankinn þarf að greiða árlega að meðaltali 26 milljarða króna í gjaldeyri vegna afborgana, auk vaxta.

Þarna er einhver villa á ferðinni.  Sé skuldabréfið gefið út í íslenskum krónum, eins og sagt er í fréttinni, verður skuldabréfið endurgreitt í íslenskum krónum, en ekki með gjaldeyri, eins og látið er líta út fyrir. Greinilegt að sá sem skrifar þessa frétt hefur ekkert vit á því efni sem hann er að skrifa um.

Lítum á annað dæmi:

Þetta þýðir að Landsbankinn þarf að selja krónur í skiptum fyrir gjaldeyri í auknum mæli, sem að öðru óbreyttu ætti að verða til þess að veikja gengi krónunnar. 

Landsbankinn starfar á Íslandi. Íslenska krónan er hvergi í heiminum skáð viðskiptamynt, nema á Íslandi. Þess vegna getur starfandi viðskiptabanki á Íslandi ekki selt ísl. krónur í skiptum fyrir gjaldeyri.

Þurfi Ísl. banki á gjaldeyri að halda, verður hann að kaupa þann gjaldeyri, á því veðri sem fyrir hann er krafist, af þeim sem eiga gjaldeyririnn.

Söluumhverfi ísl. banka fyrir ísl. krónu er nákvæmlega ekkert, því ísl. krónan er - LÖGEYRIR á Íslandi, í fullu verðgildi í öllum viðskiptum - eins og segir í lögunum um gjaldmiðilinn okkar.

  Af þessu leiðir að þjóðin fær ENGAN gjaldeyri út á það eitt að selja krónur, því erlendir aðilar geta einungis notað ísl. krónur í viðskiptum við okkur, og yfirleitt eru sölusamningar okkar, til erlendra ríkja, skráðir í erlendum myntum. Gjaldeyrir þjóðarinnar skapast því eingöngu með sölu okkar á vörum eða þjónustu til erlendar ríkja. Þeim gjaldeyri, sem þannig fæst, skiptir Seðlabankinn yfir í ísl. krónur, en geymir sjálfur gjaldeyrisforðann, til greiðslu á innflutningi okkar á vörum eða þjónustu.

Erlendur gjaldeyrir sem við fáum að láni erlendis, er því einungis lán út á væntanlega vöru- eða þjónustusölu á komandi árum, líkt og þegar við sjálf tökum lán í banka, sem við ætlum að endurgreiða með launum okkar á þeim tíma sem lánssamningurinn nær yfir.

Er ekki kominn tími til að fjölmiðlar sjái sóma sinn í að láta ekki fólk sem enga þekkingu hefur á viðskiptaumhverfinu, vera að skrifa um mikilvæg efnahagsmál? 

Var ekki talað um að hverfa frá því rugli sem hefur viðgengist á undanförnum árum? Hvernig á það að vera hægt ef fjölmiðlar halda stöðugt áfram að dæla rugli og vitleysu yfir landslýð. Það er margfallt betra að þegja en að bulla þvílíka vitleysu sem fram kemur í þessari frétt.         


mbl.is Samkomulag um lækkun gengisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin var leiðitamari en Framsókn

Þar sem ég hef verið jafnaðarmaður allt mitt líf, fylgir því nokkur sorg að segja Samfylkinguna bera mesta ábyrgð á þeirri gífurlegu skuldastöðu sem þjóðfélagið er lent í. 

Þegar Samfylkingin tók sæti Framsóknarmanna í ríkisstjórn, voru erlendar skuldir þjóðarbúsins rúmir 7.000 milljarðar. Tæpum tveimur árum síðar, þegar hrunið varð, voru erlendar skuldir þjóðarbúsins nálægt 14.000 milljörðum. Höfðu sem sagt u.þ.b. tvöfaldast á tæpum tveimur árum.

Þegar Framsókn fór frá völdum, voru erlendar skuldir þjóðarbúsins þegar orðnar hærri en tekjuöflun okkar gat borið. Í tíð Framsóknarmanna vöruðu margir við þessari þróun, þar á meðal margir Samfylkingar/jafnaðarmenn, sem síðan hafa ekkert látið í sér heyra.

Það er sárt að þurfa að segja, að í mínum huga er stórt spurningamerki um það, hvort Samfylkingar- og jafnaðarmenn í landinu, séu nokkuð minna spilltir, eða spillingarafl, en Sjálfstæðisflokkurinn.

Það er einnig sárt að horfa á öll þau axarsköft og hreina vitleysu, sem stjórnarflokkarnir hafa látið ganga yfir þjóðina. Engu er líkara en meginþorri þingmanna hafi enga þekkingu á mannréttindum eða réttarstöðu þjóðarinnar gagnvart þvinguðum kröfum ESB; kröfum sem ekki standast raunveruleikapróf, svo sem innlánatryggingarnar.

Ég er næsta viss um að ómenntaður, eða lítt menntaður þingmannahópur, frá miðri síðustu öld, hefði aldrei látið sér detta í hug að beygja hné sín eða höfuð, fyrir þeim kröfum sem hinn HÁMENNTAÐI þingmannahópur okkar gerir nú. Í hverju felst þá þessi langa skólaganga þessa fólks, fyrst úrræði, dugur og kjarkur er einungis brot af því sem ómenntaðir forfeður þeirra höfðu?                   


mbl.is Opinbera rannsókn á hver var í stjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þekking kirkjuþingsfólks á lýðræðislegum og siðrænum vinnubrögðum svona takmörkuð ????

Sú einkennilega uppákoma sem virðist hafa orðið á síðasta degi kirkjuþings er virkilegt íhugunarefni. Maður hefði geta ætlað að í prestnáminu fælist vönduð fræðsla um lýðræðisleg og siðræn vinnubrögð, byggð á kristnum gildum. Sé það svo, virðast það  kirkjuþingsfólk sem þarna var að verki hafa tapað þeim lærdómi, eða skilið hann eftir í skólastofunni.

Maður getur svona úr fjarlægð velt því fyrir sér hvað kom til að prestur frá Vestmannaeyjum tók ákvörðun um að varpa sprengju inn í samfélag sem var í djúpum sárum vegna deilna um einn starfsbróður hans. Er siðferðislegur þroski þessa manns ekki meiri en svo að hann skipti sér, óumbeðinn, af lífsháttum á óviðkomandi heimilum, eða hjá uppkomnum börnum sínum eða ættingjum?

Ef þessi maður hefði viljað leggja kærleikshönd á þetta hrjáða samfélag, hefði hann sýnt mannvirðingu og þroska með því að reifa fyrst þessa hugmynd sína í blaðagrein í sunnlensku fréttablaði, til að kanna undirtektir "heimafólksins" við slíkri breytingu.

Steininn tekur svo úr með ókurteisina gagnvart söfnuðinum á Selfossi, að rjúka til í einskonar óðagoti, undir lok þingsins, að afnema áður samþykkt gildistökuákvæði, og láta innrásina taka gildi þegar í stað. Þetta er álíka kurteislegt og að ryðjast án fyrirvara inn á óviðkomandi heimili og tilkynna heimilisfólkinu að óviðkomandi menn hefðu tekið ákvörðun um viðkvæmar breytingar á heimilhögum þess og þessar breytingar væru þegar komnar í gildi.

Ef þetta er sá kristilegi kærleiksþroski sem prestum landsins býr í brjósti, virðist greinilegt að sá hópur sem svona vinnur, hefur úthýst Guði úr hugsanahætti sínum.

Þið kirkjuþingsfólk, sem studduð þessa óundirbúnu aðför að söfnuði Selfosskirkju, hafið smán fyrir og sýnið þann manndóm og smá snefil af siðrænni endurbót, að afnema þegar í stað þessa heimskulegu aðför að fólki sem ekki fékk neitt tækifæri til að verja sig.

Verði kirkjuþing ekki við þessari áskorun, skora ég á Selfyssinga að skjóta þessari ákvörðun til dómstóla, því þarna var framið afar alvarlegt brot á Stjórnsýslulögum, þar sem úrskurður var kveðinn upp án þess að hlutaðeigandi aðilar fengju að koma við andsvari.        


mbl.is Ekki hugsað um sóknarbörnin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 56
  • Frá upphafi: 165769

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 44
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband