Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Stjórnarskrá III – Undirbúningur lýðveldisstofnunar

Undir lok ársins 1942, eru samþykkt lög nr. 97/1942, um breytingar á stjórnarskrá konungsríkisins Íslands. Þessi lög eru bara ein grein og fjalla um viðbót við 75. gr. stjórnarskrár. Þessi viðbót var svo hljóðandi:

“Þegar Alþingi samþykkir þá breytingu á stjórnskipulagi Íslands, sem greinir í ályktunum þess frá 17. maí 1941, hefur sú samþykkt eins þings gildi sem stjórnskipunarlög, er meiri hluti allra kosningabærra manna í landinu hefur með leynilegri atkvæðagreiðslu samþykkt hana. Þó er óheimilt að gera með þessum hætti nokkrar aðrar breytingar á stjórnarskránni en þær, sem beinlínis leiðir af sambandsslitum við Danmörku og því, að Íslendingar taka með stofnun lýðveldis til fullnustu í sínar hendur æðsta vald í málefnum ríkisins.”

Þarna er sett í stjórnskipunarlög  atriði er lúta beinlínis að breytingum frá konungsríki til lýðveldis, eins og Alþingi hafði ályktað um 17. maí 1941. Til þess að sú ályktun gildi sem stjórnskipunarlög, þurfi að bera hana undir þjóðaratkvæði og tekur hún gildi, er meiri hluti allra kosningabærra manna í landinu hefur með leynilegri atkvæðagreiðslu samþykkt hana.

Aðrir þættir í ofangreindri lagasetningu eru ekki síður mikilvægir. Þar er afar skýrt tekið fram að óheimilt sé að gera nokkrar aðrar breytingar á stjórnarskránni en þær, sem beinlínis leiðir af sambandsslitum við Danmörku og því, að Íslendingar...taki í sínar hendur æðsta vald í málefnum ríkisins.

Mikilvægt er að hafa þessa þætti afar skýra í huga sér, þegar farið verður yfir vinnubrögð Alþingismanna við þær breytingar sem gerðar voru á stjórnarskránni, frá stjórnarskrá konungsríkisins Íslands, til lýðveldisins Íslands.

Eins og þarna kemur fram er með öllu óheimilt að gera aðrar breytingar á stjórnarskránni, vegna breytingar yfir í lýðveldi, en þær er lúta að því að hlutverk æðsta valds konungsríkisins, færist yfir til forseta lýðveldisins, sem æðsta vald ríkisins Ísland.

Nú er það svo, að þrátt fyrir afgerandi bann við breytingum, t. d. á valdahlutföllum í æðstu stjórnun, eru gerðar mjög umfangsmiklar eðlisbreytingar á valdi og valdahlutföllum samhliða breytingum yfir í lýðræði. Í þessum breytingum ganga þingmenn augljóslega gróflega gegn ákvæði stjórnarskrár, með þeirri viðbót sem þeir sjálfir samþykktu við hana árið 1942, og getið er hér að ofan.

Hér verður vikið að fáeinum atriðum þar sem þingmenn á afar augljósan hátt, bókstaflega ræna völdum í ríkinu, langt umfram það sem þeir höfðu, samhliða því að gera nauðsynlegar breytingar varðandi æðsta valið, sem færðist frá konungi, og átti að færast til forseta lýðveldisins. En, varð það svo?

Í 1. gr. stjórnarskrár konungsríkisins Ísland, segir svo:

“Stjórnskipulagið er þingbundin konungsstjórn.”

Þarna er afar ljóst að þingið hefur yfir sér æðra stjórnstig, sem í þessu tilfelli er konungur. Ætla má að við breytingu yfir í lýðræði hefði ekki þurft að breyta öðru i þessari setningu en að breyta konungsstjórn yfir í forsetastjórn. En 1. gr. stjórnarskrár lýðveldisins hljóðar svo:

“Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.”

Þarna strax er þingið búið að fella út grundvallarþátt forsetans sem æðsta valds, með því að hans er ekki getið í 1. gr. stjórnarskrár. En 1. gr. laga er ævinlega mikilvægust varðandi grundvallaratriði laganna. Samkvæmt þessari hljóðan 1. gr. stjórnarskrár er forsetinn ekki æðsta stjórnvald landsins, þrátt fyrir að forveri hans, konungurinn, hafi verið það, og algjörlega hafi verið óheimilt, samkvæmt stjórnarskrá, að breyta valdahlutföllum innan ríkisins.

Lítum næst á 2. grein stjórnarskrár konungsríkisins Íslands. Þar segir svo um löggjafarvaldið:

“Löggjafarvaldið er hjá konungi og Alþingi, báðum saman,”

Í svona upptalningu er mikilvægt að átta sig á því að ævinlega er talið frá æðstu stjórnun og niður eftir valdaþrepunum. Þarna er mjög greinilegt að konungurinn er æðri Alþingi, því hann er talinn upp fyrstur. Vald konungs, yfir Alþingi kemur líka glöggt fram í 22. gr. stjórnarskrár konungsrikisins Íslands, en þar segir svo:

“Staðfesting konungs þarf til þess, að nokkur samþykt Alþingis fái lagagildi. Konungur annast birting laga og framkvæmd.

Nú hefur konungur eigi staðfest lagafrumvarp, sem Alþingi hefur samþykt, áður en næsta reglulegt Alþingi kemur saman, og er þá frumvarpið niður fallið.”

Þarna er enginn vafi á hvar æðsta valdið er. En lítum svo á hvernig alþingismenn þjóðarinnar komu þessu fyrir í nýrri stjórnarskrá lýðveldisins; þar sem engum valdahlutföllum mátti breyta.  Í 2. gr. stjórnarskrá lýðveldisins segir svo:

“Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið.”

Þarna tóks alþingismönnum að setja sjálfa sig tröppu ofar en forsetann, með því að telja Alþingi fyrst upp á undan forsetanum. Eins og að framan greinir er þetta óheimil og þar með ólögmæt breyting á uppröðun valda, þar sem æðsta vald er talið upp sem númer tvö í valdaröð löggjafarvalds.

Um framkvæmdavaldið segir svo í 2. gr. stjórnarskrá konungsríkisins Íslands, þar sem það er talið upp á eftir löggjafarvaldinu. Þar segir:

“framkvæmdavaldið hjá konungi”

Eins og þarna má glögglega sjá, er ráðherrum eða öðrum stjórnendum ekki ætlað neitt frumkvæðisvald, þar sem þeirra er ekkert getið í stjórnarskrá.

Hvernig meðhöndluðu svo alþingismenn okkar skilgreiningu framkvæmdavaldsins í hinni nýju stjórnarskrá lýðveldisins. Og enn er minnt á að óheimilt var að breyta neinu öðru en konungdæminu yfir í forsetastýrt lýðveldi. Ákvæði framkvæmdavaldsins hljóðar svo í stjórnarskrá lýðveldisins:

“Forsetinn og önnur stjórnvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdavaldið.”

Þessi samsuða er afar athyglisverð. Þarna er að vísu forsetinn talinn upp fyrstur, en við hlið hans, án skilgreiningar, eru settir ALLIR stjórnendur lögskipaðra rekstrarþátta þjóðfélagsins, án skilgreiningar á valdatröppun.

Svona óskýr valdsmörk leiða af sér að hinir ýmsu stjórnendur innan ríkisgeirans taka sjálfstæðar ákvarðanir og skáka í skjóli ímyndaðs valds, sem þeir tengja óbeint við framangreind ákvæði stjórnarskrár, sem leiðir af sér umtalsvert stjórnleysi og misvísandi stefnur og framkvæmdir.

Þetta læt ég duga í dag. Framhald síðar.
                 


Að kjarna málsins, er betra nafn en Kompás

Nafnið - Að kjarna málsins - er líka ákveðin vísbending um hvert er stefnt, ekki síður en nafnið Kompás.

Ég vona að komásteymið komist aftur af stað, því þessi hópur var, og er, virkilegt siðferðisvopn, fái hann að starfa hindrunarlaust. Mér fannst Stöð2 gjaldfella sjálfa sig með því að hætta sýningum á þessum þætti.               


mbl.is Fá ekki að nota Kompásnafnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarskráin II - Aðdragandi lýðveldisstofnunar

Eins og glöggt kom fram í fyrsta pistlinum (Stjórnarskráin I), er fyrirkomulag valdatröppunar í stjórnarskránni frá 1920 vel skýr og greinileg. Fyrirkomulagið er konungsstjórn (æðsta vald), en hún er þingbundin, eins og  segir í 1. grein.

Löggjafarvaldið er hjá konungi (æðsta valdi) og hjá Alþingi.  Framkvæmdavaldið er bara hjá konungi, en ráðherrarnir hafa ekkert sjálfstætt vald. Þeir eru greinilega þjónar konungs, til þess að framkvæma vald hans, eins og segir í 9. grein.

Þessi valdatröppun er afar skýr í þeirri stjórnarskrá sem gilti fram til lýðveldisstofnunar. Það eru að vísu gerðar á henni tvær formlegar breytingar árið 1934 og 1942, sem aðallega lúta að fjölgun þingmanna, fyrst úr 40, eins og þeir voru 1920, en var fjölgað í 49 með lögum nr. 22/1934.  Síðan er þeim aftur fjölgað í 52 með lögum nr. 78/1942.

Ljóst virðist að umræður um sambandsslit við Danmörku, hafi verið komin til umræðu á Alþingi á árinu 1940, því þann 10. apríl það ár, er samþykkt eftirfarandi þingsályktun:

“Með því að ástand það, sem nú hefur skapazt, hefur gert konungi Íslands ókleift að fara með vald það, sem honum er fengið í stjórnarskránni, lýsir Alþingi því yfir, að það felur ráðuneyti Íslands að svo stöddu meðferð þessa valds.”

Framangreind ályktun er greinilega samþykkt í ljósi þess að stríðið var þá farið að hamla samskiptum við Danmörku, en landið þurfti eftir sem áður að hafa formlegan aðgang að fulltrúa æðsta valdsins.

Af framhaldinu er einnig ljóst að umræðan um sambandsslitin hefur haldið áfram, því á árinu 1941 er samþykktar þrjár þingsályktunartillögur á Alþingi, varðandi stjórnskiplag og æðsta vald í málefnum ríkisins. Fyrsta þingsályktunartillagan er nr. 547, fjallar um sjálfstæðismálið og hljóðar svo:

“Alþingi ályktar að lýsa yfir því:

að það telur Ísland hafa öðlazt rétt til fullra sambandsslita við Danmörku, þar sem Ísland hefur þegar orðið að taka í sínar heldur meðferð allra sinna mála, enda hefur Danmörk ekki getað farið með þau mál, sem hún tók að sér að fara með í umboði Íslands með sambandssamningi Íslands og Danmerkur frá 1918.

að af Íslands hálfu verði ekki um að ræða endurnýjun á sambandssáttmálanum við Danmörku, þótt ekki þyki að svo stöddu tímabært, vegna ríkjandi ástands, að ganga frá formlegum sambandsslitum og endanlegri stjórnskipan ríkisins, enda verði því ekki frestað lengur en til styrjaldarloka.”

Þingsályktun nr. 548 fjallar um æðsta vald í málefnum ríkisins, og hljóðar svo:

“Alþingi ályktar að kjósa ríkisstjóra til eins árs í senn, sem fari með það vald er ráðuneyti Íslands var falið með ályktun Alþingis frá 10. apríl 1940, um æðsta vald í málefnum ríkisins.”

Þetta gerist vorið 1941, að Alþingi samþykkir að kjósa ríkisstjóra sem fari með öll sömu völd og konungi eru ætluð í stjórnarskrá.   Sveinn Björnsson var þá kosinn ríkisstjóri.

Þriðja þignsályktunartillagan er nr. 549 og fjallar um stjórnskipulag Íslands, og er á þessa leið:

“Alþingi ályktar að lýsa yfir þeim vilja sínum, að lýðveldi verði stofnað á Íslandi jafnskjótt og sambandinu við Danmörku verður formlega slitið.”

Af þessu má það ljóst vera að ákvörðun um stofnun lýðveldis var tekin á vordögum 1941, þó sjálf lýðveldisstofnunin færi ekki fram fyrr en 1944. Menn höfðu því þrjú ár til að vinna að fyrstu stjórnarskrá lýðveldisins.

Við kynnust því aðeins nánar í næsta hluta.


Er þetta heimska eða frekja ?

Ég velti fyrir mér hvers vegna þjóðin er að mótmæla siðleysi stjórnmálamanna, ef þjóðin ætlar svo að nota það siðleysi sem Einar Kristinn framdi, til þess að koma fram málstað sem mörgum er kær en heimilaður með fullkomlega ólögmætum hætti.

Ljóst er, að áður en Einar Kristinn gaf hina umtöluðu reglugerð út, var forsætisráðherra búinn að biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt, einmitt ráðuneytið sem Einar Kristinn hafði setið í. Einar hafði því ekki pólitískt umboð til stjórnunarathafna þegar hann gaf reglugerðina um hvalveiðar út. Á þeim tíma sinnti hann einungis daglegri verkstjórn, í  daglegum rekstri ráðuneytisins, samkvæmt beini forseta þar um, og algjörlega á hans ábyrgð, en ekki sem þjóðkjörinn þingmaður með  stuðning meirihluta Alþingis að baki sér.

Ég harma það verulega, að svo mikill fjöldi fólks sé tilbúið að loka augunum fyrir heiðarleika og vandaðri stjórnsýslu, sem raunin virðist vera í þessu máli. Ég tel fullkomlega tilgangslaust að leggja vinnu í endurbætur á stjórnarskrá ef heiðarleika- og réttlætisvitund þjóðarinnar er á þeim mælikvarða sem virðist vera í sambandi við þetta mál. Þá getum við alveg eins haldið áfram með óbreyttar aðstæður, þar sem mál eru barin í gegn með tækifærismennsku, frekju og jafnvel hótunum, eins og heyrst hafa.

Ég tek það fram að ég er fylgjandi því að hvalur verði veiddur hér við land. Ég er hins vegar fullkomlega andvígur því að þeim leyfum verði komið á með svo gróflega óheiðarlegum hætti sem hér hefur verið gert nú. Þess vegna vil ég láta ógilda hina ólögmætu reglugerð Einars Kristins, og ná leyfisveitingu í gegnum eðlilegt ferli umræðu og upplýsingagjafar, þar sem raunverulegar markaðshorfur og veiðiþol koma fram í dagsljósið, svo allir geti séð hinar raunverulegu forsendur og reiknað sér niðurstöður í málinu.

Þannig virkar heiðarlegt lýðræði. Annað er bara öðruvísi útgáfa af því siðleysi sem hér hefur viðgengist.                   


mbl.is Fara í mál verði leyfi til hvalveiða afturkallað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru engar áætlanir um hreinsun útblástursins ?

Mér finnst nokkuð undarleg þau viðbrögð sem "Umhverfisstofnun lætur í ljós". Að þeirra sögn getur mengun að þessari stærðargráðu valdið höfuðverk og ógleði hjá fólki með viðkvæmni í öndunarfærum, búi það nálægt virkjuninni. 

Ekki láta þeir uppi hvað er "nálægt virkjuninni" að þeirra mati. Eru hin tilgreindu svæði hér í austurhluta höfuðborgarsvæðisins innan þessa "nálægt" svæðis sem þeir tala um.

Þá er haft eftir "stofnuninni", þó ég efist nú um að hún tjái sig mikið í viðtölum, heldur sé þetta haft eftir einhverjum ónafngreindum starfsmanni stofnunarinnar, en þar segir: (áhersluletur er mitt)

að ekki þurfi að óttast bráðaáhrif af þessum styrk en langtímaáhrif brennisteinsvetnis í lágum styrk á heilsu fólks séu ekki vel rannsökuð.

Þessi svör vekja mér nokkra undrun, í ljósi þess að ég veit ekki betur en til standi að auka verulega við framleiðslu raforku hér á svæðinu milli höfuðborgarsvæðis og Hveragerðis, Ölvus svæðisins. Er það virkilega svo að fólk áformi og skipuleggi milljarða fjárfestingu, sem hugsanlega geti gert meira en helming þjóðarinnar að sjúklingum á einhverjum áratugum?

"Stofnunin" lætur þess ekkert getið hvort verið sé að rannsaka langtímaáhrif svona mengunar á heilsufar eða ónæmiskerfi fólks, rétt eins og það sé þvílíkt aukaatriði að slíks þurfi nú ekki að geta. Mikilvægara er að geta þess að verið sé að setja upp fleiri mælingastöðvar, svo starfsfólk stofnunarinnar fái fleiri niðurstöður til að vinna úr; niðurstöður sem skilyrðislaust eiga að vera aftar í forgangsröðinni, fyrir aftan heilsufarsrannsóknir.

Þá er ekki heldur um það getið hvort hægt sé að bregðast við þessari mengun, t. d. með hreinsun á útblæstri virkjunarinnar. 

Einnig segir í niðurlagi fréttarinnar:

Einnig er hafin á Umhverfisstofnun vinna við að setja umhverfismörk fyrir brennisteinsvetni en fram til þessa hafa einungis vinnuverndarmörk verið til staðar í íslenskum reglugerðum.

Þetta finnst mér fáranleg forgangsröðun í ljósi þess að í fréttinni kemur fram að Alþjóða heilbrigðismálastofnunin hefur sett heilsuverndarviðmið sem sagt er vera 150 µg/m3, líklega sem sólahringsmeðaltal. Við ættum að geta notast við það til að byrja með. 

Ég bý í Breiðholtinu og hef, ásamt fleirum, undrast hve mikið að örfínum ljósum salla berst inn í íbúðina. Ef ekki er rykmoppað daglega, verða sólarnir á inniskónum með ljósgráu sallalagi undir, þannig að fari maður af parketinu yfir á dekkra teppi, skilur maður eftir ljósgrá spor.

Ég hef einungis búið hér í tvö ár, en þeir sem búið hafa hér lengur, tala um að þetta hafi byrjað um svipað leiti og virkjunin á Hellisheiðinni fór að starfa.

          


mbl.is Brennisteinsvetnismengun við heilsuverndarmörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrítið svar frá Fjármálaeftirlitinu

Fjáarmálaeftirlitið var ekki spurt um hvort hafi komið tilboð frá breska fjármáaeftirlitinu. Hefði svo verið, hefði svar þeirra verið eðlilegt.

Í spurningunni er fullyrt, enda margoft komið fram í fréttum, að breska fjármálaeftirlitið hafi gert hið umrædda tilboð.

Fjármálaeftirlitið okkar þurfti einungis að svara, að þeir hafi vitað um þetta tilboð, eða að þeir hafi ekkert vitað um þetta tilboð.

Í slíku svari er engin uppljóstrun um samskipti við breska fjármálaeftirlitið. Fjármálaeftirlitið okkar þurfti einungis að staðfesta hvort þeir hafi vitað um atriði sem voru gerð opinber í fjölmiðlum og lúta því engum leyndarreglum.                


mbl.is Vissi ekki um tilboð breska fjármálaeftirlitsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarskráin I - Eru völd Alþingis æðri völdum forsetans ?

Stjórnmálamenn og einstakir áhugamenn um einstakar stefnur í pólitík, hafa lengi deilt um hver hin raunverulegu völd forsetans okkar séu.  Nú nýlega, í umræðum um stjórnarskipti eða hugsanlegt þingrof, kom enn ein umræðan um þessi mál fram í dagsljósið. Eins og fyrr sýndist þar sitt hverjum og enn sem fyrr varð engin niðurstaða úr slíkum umræðum.

Þegar ég var ungur maður, hafði ég hlustað á samræður fósturföður míns við nokkra þeirra þingamanna sem sátu á þingi (1944) þegar fyrsta stjórnarskrá lýðveldisins var samþykkt. Þessar umræður vöktu það mikinn áhuga hjá mér að síðar varð ég mér úti um fyrstu stjórnarskrá konungsríkisins Íslands, sem samþykkt var árið 1920 og allar breytingar sem gerðar höfðu verið á henni fram til lýðveldistímans.

Fósturfaðir minn, sem verið hafði í forystu verkalýðsmála og var, í upphafi lýðveldistímans umsagnaraðili fyrir Alþýðuflokkinn um þingmál og þjóðmál, átti öll Alþingis- og stjórnartíðindi frá lýðveldisstofnun. Það voru því hæg heimatökin að geta lesið allt sem sagt var á Alþingi í sambandi við setningu fyrstu stjórnarskrár lýðveldisins.

Og nú, þegar umræða um framangreinda valdatogstreitu fór af stað, ásamt umræðu um að breyta þyrfti stjórnarskránni, fannst mér upplagt tækifæri til að leggjast aftur yfir þessa sögu og rifja upp hvernig þessi valdatogstreita var til komin og hverjir stóðu fyrir henni. Ég mun því á næstunni birta þessa sögu, byggða á staðreyndum Alþingis- og stjórnartíðinda, sem ég mun svo leiða fram hugrenningar um til frekari glöggvunar á því sem ritað er.

Ég mun ekki birta þetta allt í einum pistli, því það yrði of langur lestur í einu lagi fyrir svona miðil. Ég mun hins vegar leitast við að hafa þetta þannig að ákveðið samhengi verði milli pistla, þannig að þeir sem vilja skoða söguna í heild, geti safnað pistlunum saman.

STJÓRNARSKRÁIN 1920

Þann 18. maí 1920, er samþykkt fyrsta stjórnarskrá konungsríkisins Íslands, eftir að landið hafði verið lýst fullvalda þann 1. desember 1918.  Stjórnarskrá þessi tók gildi 1. janúar 1921 og féll þá úr gildi stjórnarskrá um hin sérstöku málefni Íslands, frá 5. janúar 1874, ásamt stjórnskipunarlögum frá 3. október 1903 og 19. júní 1915, um breytingar á stjórnarskránni.

Þau atriði sem helst er deilt um nú, lúta að valdssviði forsetans. Í stjórnarskrá frá árinu 1920 er það reyndar kóngurinn sem er æðsta vald og miðast stjórnarskráin við það. Þess vegna segir í 1. gr. þeirrar stjórnarskrár:

"Stjórnskipulagið er þingbundin konungsstjórn."

 Af þessum orðum má glögglega sjá að stjórn Íslands er konungsstjórn, en að hún er þingbundin. Það segir manni að konungurinn hefur sér til stuðning þing sem gerir til hans tillögur um lög og stjórnarhætti, sem hann samþykkir, falli þau að hugmyndum hans um stjórnun landsins.

Í 2. gr. stjórnarskrár 1920, er en frekari stuðningur við þessa skipan, en þar segir eftirfarandi:

"Löggjafarvaldið er hjá konungi og Alþingi, báðum saman, framkvæmdavaldið er hjá konungi og dómsvaldið hjá dómendum."

Tvennt er athyglisvert við þessa grein. Annars vegar að samkvæmt eðlilegri röðun ofan frá, er konungurinn talinn fyrstur þar sem æðsta valdið er hjá honum, samanber 9. gr. hér á eftir. Alþingi er því greinilega tröppu neðar en æðsta valdið, þó æðsta valdið geti ekki eitt og sér sett löggjöf, frekar en að Alþingi geti eitt og sér sett löggjöf.

Hins vegar er á að líta, að í þessari stjórnarskrá er framkvæmdavaldið einvörðungu hjá konungi, eða æðsta valdinu, þó sagt sé í 9. gr. að hann láti ráðherra framkvæma vald sitt.

Til áréttingar er hér 9. greinin í heild sinni, en hún hljóðar svo:

"Konungur hefur æðsta vald í öllum málefnum ríkisins, með þeim takmörkunum, sem settar eru í stjórnarskrá þessari, og lætur hann ráðherra framkvæma það. Ráðuneytið hefur aðsetur í Reykjavík."

Í 10. grein er enn fjallað um ábyrgð. Þar segir svo:

"Konungur er ábyrgðarlaus og friðhelgur. Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært þá fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál."

Hér hefur verið vakin athygli á nokkrum þeirra þátta sem fjalla um tröppun valdssviða í íslensku samfélagi fyrstu áratugi fullveldis þjóðarinnar. 

Tvennt finnst mér áberandi þarna. Annars vegar hve skýrt er kveðið á um að konungur sé æðsta vald í öllum málefnum ríkisins, en sé jafnframt ábyrgðarlaus og friðhelgur.

Hins vegar er sú staðreynd að framkvæmdavaldið er einvörðungu hjá konungi, þannig að greinilegt er að ráðherrar hafa ekkert sjálfstætt vald, heldur lúta í öllu æðsta valdinu og þeim ber að framkvæma valdsþætti æðsta valdsins, en jafnframt bera fulla ábyrgð á öllum sínum gerðum.

Látum hér staðar numið í dag, enda kominn svolítill grunnur undir það sem síðar kemur í ljós.  


Undrast afstöðu Vilhjálms Birgissonar

Ég get ekki annað en undrast afstöðu Vilhjálms, í ljósi þess hve verkafólki er mikilvægt að ákvarðanir sem teknar eru, séu að fullu löglegar; löglega og rétt að þeim staðið.

Ég er ekki andvígur hvalveiðum, en ég er algjörlega andvígur því að stjórnvöld beiti ólögmætum aðgerðum, til að skapa þeim sem eru að taka við landstjórninni ófyrirséða erfiðleika. 

Ekki er nokkur vafi á að Einar Kristinn hafði ekkert umboð til að gefa út þá reglugerð um hvalveiðar, sem hann gerði. Ríkisstjórnin sem hann var hluti af, sat ekki lengur í umboði meirihluta Alþingis og var þar með umboðslaus til pólitískrar ákvarðanatöku.

Ef við viljum vera trúverðug við mótmæli gegn ólögmæltum ákvörðunum og athöfnum, verðum við líka að hafa kjark til að mótmæla ólögmætum ákvörðunum, þó þær lúti að þáttum sem við erum í raun sammála.

Sá sem nýtir sér ólögmæta ákvörðun til framdráttar baráttumáli sínu, verður ævinlega ótrúverðugur, því hann hefur sýnt að heiðarleikinn er honum einskis virði, einungis að hann geti náð sínu fram, sama með hve ólögmætum hætti það er gert.

Var ekki verið að tala um að byggja upp heiðarlegt umhverfi í opinberri stjórnsýslu? Er krafa um að ólögmæt reglugerð verði látin standa óbreytt, leiðin til heiðarlegri stjórnunarhátta?

Ég get ekki tekið undir slíkt, þó ég geti hugsað mér hvalveiðar hér við land.              


mbl.is 200 störf slegin út af borðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki hægt að gera skuldbindandi samninga við börn eða ungmenni undir fjárráða aldri

Ég skil nú ekki hvers vegna er verið að fara í kringum glæpaverk sem framin eru fyrir allra augum, að því er virðist.

Það á að vera ljóst, öllum sem hafa aldur, vit og þroska til að reka fyrirtæki, að það er með öllu óheimilt að gera skuldbindandi samning við ófjárráða einstakling, án þess að fjárráðamaður hans geri samninginn fyrir hans hönd.

Slík sölustarfsemi, sem lýst er í fréttinni, er afar alvarlegt lögbrot. Slíkt ætti umsvifalaust að kæra, t. d. til umboðsmanns barna, sem og til viðskiptaráðuneytis, sem hefur alla möguleika á að svipta svona fyrirtæki starfsleyfi.

Það er oft búið að fjalla um álíka mál á liðnum árum, en svo virðist sem virðing sumra fyrirtækja, fyrir sjálfum sér og öðrum, sé af svipuðum þroska og hjá forföllnum fíkniefnaneytendum, sem gera hvaða óhæfuverk sem er, til að ná sér í peninga.

Svona fyrirtæki á að sniðganga að öllu leiti og engin viðskipti að eiga við þau. Sú refsing ætti að duga, nú í vonandi batnandi heimi.             


mbl.is Gagnrýnir símasölu fjarskiptafyrirtækja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 164820

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband