Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Skilja hinir nýkjörnu þingmenn ekki þjóðina ?

Það er ekki nýtt að heilaþvegin öfgaöfl telji sig hafa þjóðina á bak við sig í jarðsambandslausum skýjaborgum sínum. Slíkt hefur oft gerst áður, og virðist vera að gerast einu sinni enn, þrátt fyrir kröfur búsáhaldabyltingarinnar, um að þingmenn - í það minnsta reyni - að skilja þjóðina.

Þegar litið er til þess gífurlega persónufylgis sem Jóhanna hefur hjá þjóðinni, verður það að teljast afar lítil fylgisaukning við Samfylkinguna að komast ekki yfir 30% múrinn og bæta einungis við sig tveimur þingmönnum. Mér er nær að halda að einmitt hin stífa krafa Samfylkingarinnar um aðild að Evrópusambandinu, hafi kostað þá 5 - 8% tap þar sem Sjálfstæðismenn sem flúðu heimahagana vildu ekki kjósa ESB aðild.

Eðlilegra væri að Samfylkingarfólk horfði á hið mikla tap sitt á atkvæðum breytinganna, frekar en missa dómgreindina út af því að hluti þeirra kjósenda sem yfirgáfu Samfylkinguna, eftir kosningarnar 2003 - greiddu öðrum atkvæði 2007 - skildu nú snúa heim aftur, þegar komin var forysta sem þeir gátu sætt sig við. En, gætið að því að það komu ekki allir til baka sem kusu Samfgylkinguna 2003.  Gæti það verið vegna hinnar stífu kröfu um aðildarumsókn að ESB?

Það horfir ekki gæfulega fyrir þjóðinni ef hinir nýju þingmenn hennar hafa ekki skarpari dómgreind en birtist í þeirri túlkun sem sést hefur á niðurstöðum kosninganna. Horfum til þess að það er einmitt dómgreind þessara manna sem hafa mun mikið að segja um árangur þjóðarinnar á komandi árum, bæði í samskiptum við ESB, sem og við endurreisn eðlilegrar lífsgleði og lífshamingju meðal þjóðar okkar.

Var fólkið sem bauð sig fram til þingsetu, einungis að afla sér fastrar vinnu og tekna? Heldur það virkilega að einhver framfærsla, gjafafé eða hjálp til viðhalds hugsunaleysi um grundvöll fjárhagslegs sjálfstæðis, komi á færibandi að utan, einungis ef við verðum aðilar að ESB?

Þeir sem þannig hugsa eiga eftir að vakna við mun stærri hrylling en þann sem bankahrunið olli. Það er enginn í ESB að bíða eftir að bjarga efnahag okkar. Þá vantar hins vegar sárlega þær auðlindir sem þjóðin okkar hefur yfir að ráð. Leiðið því hugann að því hvernig grunnt hugsandi fólk er oftast blekkt til að gera það sem - sá sem blekkir - ætlast til af þeim. Við erum greinilega á hraðbraut eftir þeim farvegi á eftir hinum heilaþvegna ESB áróðursher.                


mbl.is Ljóst að kjósendur óska eftir aðildarviðræðum við ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framkallar evran stöðugleika ?

Gamalt máltæki segir: "Árinni kennir illur ræðari". Fullkomlega má heimfæra þetta máltæki upp á þá sem halda því fram að óstöðugleiki í efnahagsmálum okkar sé krónunni að kenna. Krónan er í raun hvorki orsök né afleiðing óstöðugleika í efnahagslífinu.

Óstöðugleikinn á sín eðlilegu upptök í höfði stjórnenda efnahags- atvinnu- og fjármála í þjóðfélagi okkar. Í gamalli speki var þetta kallað "að taka vitlausan pól í hæðina." Sé slík gert, verður stefnan röng og menn komast alls ekki á þann stað sem þeir ætluðu að fara.

Hvað veldur því að menn tali um að krónan sé ónýt. Hún er í fullu gildi á sínu gildissvæði. Utan þess gildissvæðis hefur hún ALDREI verið gjaldmiðill, svo þar hefur engin breyting orðið á. Hvers vegna telja menn krónuna ónýta?

Það helsta sem heyrst hefur, fellur að því að fyrirtæki og bankar í öðrum löndum vilji ekki taka við krónunni sem gjaldmiðli eða greiðslu. Er það krónunni að kenna? Engin önnur stjónrvöld en Íslensk hafa nokkurn tíman viðurkennt krónuna sem gjaldmiðil.

Ef vantraust skapast í viðskiptaumhverfi er það aldrei verðmætis- eða greiðlumiðlinum að kenna. Slíkt er ævinlega afleiðingar af óheiðarleika í viðskiptum, sem orsakar hrun á trausti milli viðskiptaaðila.

Lítum aðeins á  hliðstæðu. Eru t. d. hlutabréf í Íslenskum fyrirtækjum almennt ónýtur gjaldmiðill? NEI. Gjaldmiðillinn sem slíkur er ekki ónýtur, sé hann í höndum manna sem viðskiptaumhverfið treystir. Bjóði hins vegar einhver, sem nýlega er búinn að eyðileggja mörg þúsund milljarða verðmæti, slíkan pappír til sölu, verða væntanlega ekki margir kaupendur á biðlista.

Það sem ég er hér að benda á, er að traust okkar út á við mun ekkert aukast þó við getum boðið annan gjaldmiðil. Það munu engir standa í biðröðum til að bjóða okkur að fá þann gjaldmiðil að láni, frekar en nú er í boði, því allar afurðir okkar eru seldar í erlendum gjaldmiðli, sem lánveitandinn gæti tekið veðstöði í.

Hugsunin sem býr að baki hinni ódrengilegu árás á krónuna okkar virðist því miður vera einskonar frjálshyggju heilkenni, sem þekkt er fyrir að loka fyrir dómgreind og skynsemi, jafnvel á ýmsan hátt hinna vönduðustu manna.

Ef við værum viss um að þjóðfélag okkar myndi þrífast og dafna vel í gjaldmiðilsumhverfi evru, væri einfaldasta leiðin fyrir okkur að taka sem fyrst ákvörðun um að íslenska krónan fylgdi gengi evru. Hvort hún yrði jafngild evru eða hlutfallsgildi yrði að koma í ljós. En með því að láta krónuna fylgja evrunni, væri slíkt gjaldmiðilsumhverfi komið á, og við gætum farið að spreyta okkur á því að reka þjóðfélag okkar í stöðugleikaumhverfi, líku því sem evruaðdáendur þrá svo afskaplega heitt, án þess að skilja afleiðingar þess fyrir þjóðfélagið.          


mbl.is Vilja upptöku evru í samvinnu við AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það voru ekki mistök að taka við peningunum.

Það er hreint bull að tala um ofurstyrki FL-group og Landsbanka sem mistök. Öll yfirstjórn Sjálfstæðisflokksins vissi klárlega um greiðslu þessara styrkja; þannig að augljóslega var ekki um mistök að ræða. Enda kom ekkert til greina að endurgreiða þessa styrki fyrr en eftir að upp komst um að þeir höfðu verið greiddir til Flokksins.

Augljóst virðist, að Landsbankinn hafi með þessum styrk sínum keypt sér ákveðið afskiptaleysi Sjálfstæðisflokksins gagnvart innlánasöfnun í Bretlandi og Hollandi, því aðvörunum um áhættuna, sem af slíku stafaði, vegna slæmrar fjárhagsstöðu Landsbankans, var ekki sinnt. Þeirri skyldu áttu að sinna menn sem voru í forystu Sjálfstæðisflokksins. Þótti þeim kannski óþægilegt að setja stopp á aðila sem hafði gefið Flokknum þeirra svona mikla peninga?

Hugsi hver fyrir sig. Hvernig liði þér sjálfum, að þurfa að stöðva og breyta atferli aðila sem þú værir í mikilli þakkarskuld við?            


mbl.is „Augljós mistök“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna ríkti þögn um styrkina ?

Ég velti því fyrir mér hverskonar félagsskapur það sé, sem heldur því leyndu fyrir félagsmönnum sínum, að starfsemi félagsins hafi verið styrkt um verulegar fjárhæðir, í þessu tilfelli um 55 milljónir, sem nemur um 16% af ársútgjöldum félagsins. Er það eðlilegt að slíkri stórgjöf sé haldið leyndri fyrir félagsmönnum? Í hverra þágu var slíkri stórgjöf haldið leyndri?

Athugið að með þessu er ég ekki að tala um nafngreiningu gefenda, heldur eðlilega upplýsingagjöf stjóernenda félagsskaparins til félagsmanna. Varla fer á milli mála að hinir umræddu styrkir hafi verið greiddir inn á reikninga félagsins og þar með komið fram í ársreikningum. Var þessarar höfðinglegu gjafar ekkert getið í kynningu ársuppgjörs á aðalfundi, heldur látin falla inn í heildina svo sem minnst bæri á henni?

Hvaða hagsmunum var verið að þjóna með slíkri leynd yfir svo höfðinglegum gjöfum? Greinilega voru það ekki hagsmunir félagsins eða félagsmanna. Þeir hefðu að sjálfsögðu fyllst þakklæti og hlýhug til gefendanna, ef þessara gjafa hefði verið getið á aðalfundi, þó nafn gefenda hefði áfram verið hulið leynd. Og einnig má spyrja hvort félagslegir skoðunarmenn reikninga og endurskoðendur, hafi ekkert getið um þessar stóru færslur inn á reikninga félagsins, svona rétt í lok ársins?

Ljóst er að það voru ekki hagsmunir félagsins sem slíks að þessara höfðinglegu gjafa var hvergi getið.  Svona fjárhæð kemst ekki inn í reikninga félags nema að vera á vitorði formanns og framkvæmdastjóra, en einnig á vitorði þeirra sem sjá um bókhald, fjárreiður og reikningsskil, auk skoðunarmanna reikninga og endurskoðenda, eins og fyrr er getið.  Það er því ljóst að innan félagsins var myndaður þagnarmúr ákveðins hóps fólks, svo engin umræða yrði um þessar höfðinglegu gjafir.

Hvar liggja þá helstu hagsmunir þess að slíkra gjafa sé ekki getið, fyrst þeir eru ekki hjá félaginu sem fékk gjöfina? Voru þessir hagsmunir hugsanlega tengdir valdamiklum einstaklingum innan félagsins, sem þar með voru komnir í erfiða stöðu, með að beita afli félagsins gegn gefendunum, gerðist þess þörf? Er þetta t.d. hugsanlega lítill vísir að þeirri spillingu sem varð að hruni bankakerfisins hjá okkur? Gæti þessi glufa inn í spillingarumhverfið opnað okkur leið að stærri þáttum sannleikans um þau málefni. Gæti falist í þessu ástæðan fyrir því að Landsbankinn var ekki stoppaður með innlánsreikninga sína í Bretlandi og Hollandi, þó aðvaranir hefðu verið gefnar út um slæma stöðu hans?

Margir hagsmunir liggja áreiðanlega að baki svona leyndargjöfum.  Þeir hagsmunir hljóta að verulegu leiti að liggja hjá gefandanum, því þar er ævinlega ágóðans að vænta, sé ekki um félagslega náðargjöf að ræða; sem ekki var í þetta skiptið, því slíkar gjafdir eru ekki huldar leynd í bókhaldi gefanda.

Frá mínum sjónarhóli er því alveg ljóst að enn er EKKERT farið að koma fram sem varpar ljósi á ástæður þeirra ofurupphæða sem voru á þessum gjöfum; langt umfram allt sem áður hafði þekkst um slíkar gjafir og styrki.

Svona spillingarþátt þarf að rannsakast af óháðum og óumdeildum aðila. Fyrr verður aldrei sátt í þjóðfélaginu vegna þessa máls. Allt of margir endar benda til mútugreiðslna, samanber að innlánastarfsemi Landsbankans var ekki stoppuð, þrátt fyrir að vitað væri að þeir gætu ekki greitt þau innlán til baka.

Þetta mál er því langt frá því að vera búið.                        


mbl.is Allt komið fram sem máli skiptir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vel skal til þess vanda, sem lengi á að standa

Fyrir tæpum tveimur árum sagði ég að óhugsandi væri að sá vöxtur sem var í verði og sölu áls, gæti staðið nema í eitt til tvö ár. Ef þetta hefði verið í fyrsta skipti sem sú sýn sem ég fæ oft á framtíðina, væri að verða að raunveruleika, væri hægt að tala um ágiskun. En þar sem svona sýnir hafa birst mér í nokkra áratugi, og ævinlega orðið að raunveruleika í fyllingu tímans, er ég löngu hættur að verða hissa.

Heilbrigð dómgreind hefði átt að segja mönnum að í heiminum var ekki svo mikil nýmyndun raunverðmæta, sem útþennsla fjármálamarkaða var. Ákveðin villuljós kveiknuðu með tilkomu tölvuskráningar fjármuna, í stað notkunar raunverulegra peninga eða skuldabréfa. Þetta villuljós lét unga fólkið í fjármálaheiminum halda að ekkert samhengi væri milli talnagilda í tölvukerfum og þeirra raunverðmæta sem þurfa ævinlega að vera undirstaða fjármálalegra gilda.

Af þessum ástæðum voru innihaldslaus fjármunagildi notuð á afar óábyrgan hátt og himinháum fjárhæðum ráðstafað út úr hringrás fjármagnsins, með þeim hætti að það á ALDREI aftur leið inn í hina nauðsynlegu hringrás fjárstreymis.

Útþensla undangengins áratugar í heimsfjármálunum var því að mestu leiti innistæðulaus og útilokað fyrir heimsbyggðina að reyna að halda í þá stöðu sem sá óraunveruleiki bjó til.

Löngu er orðið ljóst, að Ál er á margan hátt á útleið í stóriðnaði, þar sem þegar er komið fram efni sem bæði er sterkara og léttara en Ál og mun líklega yfirtaka stóriðnaðinn á komandi árum.

Gönuhlaup okkar í fjárfestingum eru þegar orðin nokkur. Við fjárfestum langt umfram eðlileg mörk í síldarbræðslum, sem svo stóðu tómar að fáum árum liðnum og skuldir afskrifaðar.  Við fjárfestum með látum í loðdýrarækt, án þess að kunna neitt til slíkrar starfsemi. Þær fjárfestingar skiluðu engu og skuldir afskrifaðar. Við fjárfestum með miklum látum í fiskeldi, líka án þess að kunna nokkuð til slíkra verka. Þær fjárfestingar skiluðu þjóðinni einungis tapi og skuldir afskrifaðar.

Við eyðilögðum tekjugrundvöll sjávarbyggðanna af fiskvinnslu en uppskárum einungis yfirskuldsettar útgerðir. Fyrirsjáanlegt er að þar verður að afskrifa verulegar fjárhæðir. Við stungum okkur á hausinn í fjárhættuspili hlutabréfa og verðbréfa og uppskárum einungis yfirskuldsetningu nokkurra kynslóða og eyðileggingu trausts okkar. Væntanlega verða erlendir fjárfestar og lánastofnanir að afskrifa nokkur þúsund milljarða vegna þessa ábyrgðarleysis stjórnmálamanna okkar, sem við ætlum nú að heiðra fyrir afrekið með endurkosningu eftir fáeina daga.

Og nú stefnum við hraðbyr að nýjustu fjárfestingarvitleysuni; að gera langtímasamninga við sem flesta álframleiðendur, um sem mest af framleiðslugetu okkar á rafmagni, og sitjum því væntanlega uppi með nokkrar álbræðslur lokaðar og verkefnalausar að nokkrum árum liðnum.

Er engin von til þess að áreiðanleiki og skynsemi nái yfirhöndinni við stjórnun þessa þjóðfélags okkar, eða verðum við aftur komin í ánauð innan fárra ára?          


mbl.is Fréttaskýring: Áliðnaðurinn á í vök að verjast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óttast Sjálfstæðisflokkurinn þjóðina ?

Þeir sem muna hvaða virðingu Sjálfstæðismenn sýndu minnihlutanum á Alþingi, þann tíma sem þeir voru sjálfir í meirihluta, brosa nú góðlátlega að bægslagangi þeirra nú, þegar meirihlutaviljinn er andsnúinn vilja Sjálfstæðismanna.

En Sjálfstæðismenn eru hvorki veikgeðja né heimskir. Þeir eru hins vegar miklir meistarar í að stýra þjóðfélagsumræðum og  hvaða atriði það eru sem þjóðin er upptekin af hverju sinni. Þetta hafa þeir svo iðulega sýnt, og þannig komist hjá að athygli þjóðarinnar og umræða beinist að málefnum sem Sjálfstæðisflokknum eru andsnúnar.

Nú er mikilvægt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að sem minnst umræða verði um öll þau mistök sem gerð voru í valdatíð Sjálfstæðisflokksins; frjálshyggjuna, einkavæðinguna og fjármálasukkið. Einnig er mikilvægt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að engin umræða verði um þá skemmdarstarfsemi sem unnin var á lagaumhverfi þjóðarinnar, þann tíma sem þeir sátu við völd.

Sjálfstæðismenn finna ævinlega hentuga leið til að halda umræðunni fjarri þeim málum sem þeir vilja ekki ræða. Svo er einnig nú. Þess vegna beita þeir öllum þingstyrk sínum til að halda gangandi umræðu um stjórnarskrármálið. Uppgefna ástæðan er sú að þeir séu á móti því að slík mál séu afgreidd án samþykkis Sjálfstæðismanna. Raunveruleikinn er hins vegar sá að þarna var til staðar afar heppileg leið til að halda athygli þjóðarinnar fjarri þeim málefnum sem Sjálfstæðismenn vilja EKKI ræða, nú fyrir kosningarnar.

Þeir vita sem er, að þjóðin mun ekki treysta þeim fyrir stjórnarforystu á næsta kjörtímabili og í þeirri stöðu sem flokkur þeirra er í nú, er mikilvægast að lágmarka svo sem hægt er, þann tíma sem kosningabaráttan stendur, því sú umræða getur EKKERT annað en skaðað traust og fylgi Sjálfstæðisflokksins.

Verði þeir trúir þeim viðhorfum sem hér hafa verið kynnt, finnst mér líklegast að þeir haldi Alþingi gangandi fram til 18. apríl n.k., þannig að opin pólitísk stjórnmála- og kosningaumræða standi einungis í eina viku. Sá tími ætti að duga þeim til að koma í veg fyrir vandaða málafylgni andstæðinga sinna og halda umræðunni eingöngu við fjármálaklúðrið, sem þeir geta auðveldlega kennt bönkunum um.           


mbl.is Enn langt í land eftir 36 tíma umræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afar merkilegar yfirlýsingar forystu LÍÚ um kvótamálin

Í framhaldi af yfirlýsingum núverandi stjórnarflokka um kvótamálin, eftir síðustu landsfundi þeirra, er afar merkilegt að heyra og lesa ummæli LÍÚ-manna varðandi þau mál. Þeir lýsa því hiklaust yfir að stór hluti útgerða á Íslandi fari í gjaldþrot ef fyrirkomulagi við úthlutanir aflaheimilda verða endurskoðaðar. Fáein atriði eru sérstaklega athyglisverð í ummælum LÍÚ-manna.

Engann hef ég enn hitt sem telur að núverandi útgerðir fái ekki úthlutað álíka aflamagni og þær hafa verið að veiða undanfarin ár. Ljóst er því að engin tekjuskerðing verður hjá útgerðunum vegna möguleika til veiða.

Í ljósi þessa er það bersýnilega ekki við stjórnvöld að sakast þó útgerðir lendi í greiðsluvandræðum, verði af breytingum á úthlutun aflaheimilda.

LÍÚ-menn telja miklar líkur á að bankarnir fari á hausinn ef breyting verði gerð á úthlutunarreglum aflaheimilda. Athyglisvert, í ljósi þess að Alþingi hefur ALDREI heimilað sölu eða veðsetningu aflaheimildanna.  Útgerðum er úthlutað, ár hvert, ákveðnu magni veiðiréttar, án þess að um sölu eða leigu sé að ræða. Úthlutunin er einungis nýtingarréttur til veiða á ákveðnu magni fisks í fiskveiðilandhelgi okkar. Í lögunum er útgerðum heimilað að afhenda (framselja) öðrum útgerðum allt að 50% veiðiheimilda sinna, en þeim hefur ALDREI verið heimilað að taka gjald fyrir þær afhendingar (framsal).

Eðli málsins samkvæmt, þar sem stjórnvöld hvorki selja né leigja veiðiheimildirnar, er hvergi til lagagrundvöllur til þess að útgerðarmenn selji þann nytjarétt sem þeim er fenginn til afnota, ekki eignar.  Það verður hins vegar að setja stórt spurningamerki við greind, eða vilja stjórnmálamanna okkar, til þess að varðveita eðlilega meðferð og nýtingu þessarar mikilvægu auðlindar þjóðarinnar; einnar meginuppistöðu gjaldeyrisöflunar hennar.

Hafi stjórnendur lánastofnana verið svo grunnhyggnir að veita útgerðum lána með veði í eignum þjóðarinnar, er það bara enn ein vitleysan sem upp kemst um óvitaskap þeirra og óvarkárni í lánveitingum.

Slík lán hafa öll farið fram í gömlu bönkunum og getur ekki annað en orðið höfuðverkur þeirra að kljást við slík útlán, reynist þau vera utan greiðslugetu útgerða, líkt og LÍÚ-menn halda nú stíft fram. Hafi stjórnendur nýju ríkisbankanna hug á að yfirtaka ótryggð lán til útgerðarfélaga, eða lánveitingar sem eru langt umfram raunverðmæti (söluverðmæti) fasteigna þeirra og skipa, þarf slík ákvörðun að vera borin undir Alþingi og staðfest þar, þar sem með slíku er verið að taka beint veð í skatttekjum og öðrum eignum ríkissjóðs, sem Alþingi hefur eitt heimild til að skuldsetja.

Það verður fróðlegt að fylgjast með þeim aðgerðum sem LÍÚ-menn segjast ætla að grípa til. Þeir virðast ekki átta sig á að ríkissjóður er í þeirri stöðu gagnvart flestum útgerðum, að geta stöðvað starfsemi þeirra með skömmum fyrirvara, vegna vanefnda á greiðslu virðisaukaskatts af kvótasölu, allt aftur til 1. janúar 1994, þegar VSK var settur á fisk. Það þarf því ekki að taka langan tíma að setja núverandi útgerðarmenn til hliðar, og afhenda nýjum aðilum bæði skip og kvóta, til tekjuöflunar fyrir þjóðfélagið .               


Sjálfstæðismenn börðust líka gegn lýðræðinu þegar Lýðveldið var stofnað

Þeir sem kynna sér framgöngu Sjálfstæðismanna við stofnun Lýðveldis á Íslandi; hvernig þeir náðu mikilvægum völdum frá þjóðinni, ættu ekki að vera hissa á ósvífni þeirra nú, gegn eðlilegri framgöngu lýðræðislega tekinnar ákvörðunar.

Engum vafa er undirorpið að það sé vilji mikils meirihluta þjóðarinnar, að gerðar verði gagngerar breytingar á stjórnarskrá okkar. Engum vafa er heldur undirorpið að mikill meirihluti þjóðarinnar vill að aðrir en stjórnmálamenn beri hitann og þungann af því að endursemja stjórnarskrána.

Það eina sem lesið verður út úr hamagangi Sjálfstæðismanna nú, er að þeir telja fullvíst að þjóðin muni taka aftur til sín þau völd sem Sjálfstæðismenn rændu hana við stofnun Lýðveldisins á sínum tíma. Þessi hræðsla er skiljanleg, en sýnir engu að síður afar litla virðingu þessa stjórnmálaflokks fyrir lýðræðislegum vilja, sé sá vilji andsnúinn hagsmunum máttarstólpa Flokks þeirra.

Afar holur er hljómur Sjálfstæðismanna um að það þurfi meiri tíma til að ræða boðaðar stjórnarskrárbreytingar, þegar þess er gætt að ÞEIR SJÁLFIR, stóðu að eyðileggingu atvinnulífs á landsbyggðinni, með setningu laganna um fiskveiðistjórnun. Engin umræða fór fram um þær breytingar og voru mikilvægustu eyðileggingarþættir þeirra laga látin fara hraðferð í gegnum þingið á næturfundum, undir lok þingstarfa að vori.

Hvers vegna tala fjölmiðlar ekki við Sjálfstæðismenn eins og fullorðið fólk, og leggi fyrir þá gagngerar spurningar um fyrri virðingu þeirra fyrir lýðræði og vandaðri umræðu, sem undanfara mikilvægra ákvarðana?               


mbl.is Rætt um stjórnarskrá til klukkan 2
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 165580

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband