Bloggfærslur mánaðarins, október 2011

Opið bréf sent á erlendu sérfræðingana sem taka þátt í ráðstefnunni í Hörpunni 27. okt. n.k

Næst komandi fimmtudag verður haldin dullítið merkileg ráðstefna í Hörpunni. (Sjá t.d. hér) Miðað við kynninguna á henni og aðra umgjörð virðist hún fyrst og fremst vera hugsuð til þess að miðla því yfirlýsta áliti íslensku ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðins að samstarfið á milli þeirra sé fordæmisgefandi fyrir önnur lönd. Fordæmisgefandi að því leyti að hér hafi efnahagsbatinn gengið hraðar fyrir sig en annars staðar.

Nokkrir erlendir sérfræðingar í hagfræði og alþjóðaviðskiptum ásamt starfsfólki AGS taka til máls ásamt íslenskum valdhöfum og prófessorum frá háskólunum tveimur sem eru staðsettir hér í Reykjavík. Umgjörð ráðstefnunnar blés nokkrum grasrótarmeðlimum óhug í brjóst sem knúði þá til að skrifa erlendum gestunum bréf. Eftirtaldir móttóku þetta bréf seint í gærkvöldi:

Joseph Stiglitz, prófessor í hagfræði (ávarpar ráðstefnuna af bandi)
Julie Kozack, aðstoðardeildarstjóri aðgerðaráætluninnar IMF á Íslandi
Martin Wolf, fjármálasérfræðingur frá Financial Times (stýrir pallborðsumræðum)
Nemat Shafik, aðstoðarframkvæmdarstjóri IMF
Paul Krugman, prófessor hagfræðingur 
Poul Thomsen, aðstoðarframkvæmdarstjóri evrópudeildar IMF
Simon Johnson, prófessor alþjóðaviðskiptum (fyrrum starfsmaður IMF)
Willem Buiter, prófessor í hagfræði

Í stuttu máli má segja að megintilgangurinn með ritun þessa bréfs sé sá að vekja athygli erlendra fjölmiðla svo þeir sjái um að koma því út til alþjóðasamfélagsins að staða Íslendinga er í engu frábrugðin öðrum illa settum löndum í heiminum. Samstarf íslensku ríkisstjórnarinnar við AGS hefur skilað íslensku þjóðinni því sama og öðrum samfélögum þar sem sjóðurinn hefur komið við sögu. Íslenskur almenningur tilheyrir 99%-unum sem hefur risið upp gegn 1%-inu sem hefur farið svo illa með sjálfskipuð forréttindi sín til eigna og valda að heimshrun fjármálamarkaðana blasir nú við.

Á sama tíma og ráðstefnan fer fram er boðað til andmælastöðu niður við Hörpuna. Fólk er hvatt til að mæta með andmæli á erlendum tungumálum og ekki væri verra ef viðstaddir verða reiðubúnir til að tala við erlendu pressuna og/eða grasrótina sem verður með upptökumenn á þeim tímum sem búast má við mestri umferð andmælenda við ráðstefnuhúsið. Þetta er við upphaf ráðstefnunnar, í kringum hádegið og í lokin. Varðandi upplýsingar um tímasetningar og annað skaltu fylgja þessari slóð.

Svo hvet ég alla til að birta eftirfarandi bréf á bloggi eða í glósu inni á Fésbókinni eða krækja því á vegginn sinn þar. Ég mun setja krækjur á blogg þeirra sem hafa undirritað þetta bréf jafnóðum og þeir birta það þar. 
_________________________________________________________________

Reykjavík 23. október 2011

Kæri herra/frú

Tilefni þessara skrifa er það að þú ert meðal þeirra sem munu taka til máls á ráðstefnunni Iceland´s Recovery—Lessons and Challenges, sem haldin verður í Reykjavík 27. október næst komandi. Við undirrituð höfum áhyggjur af því að þú hafir aðeins fengið valdar upplýsingar um efnahagsástandið á Íslandi frá hérlendum stjórnvöldum. Við viljum því benda þér á mikilvægar viðbótarupplýsingar varðandi fjármál ríkis og sveitarfélaga, fjármálakerfið og stöðu almennings í landinu.

Almennt

Ljóst er að staðan í íslensku efnahagslífi er nokkuð önnur í dag en upphaflegar áætlanir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) gerðu ráð fyrir þegar þeir komu hér að málum í lok árs 2008. Þannig voru erlendar skuldir þjóðarbúsins nærri tvöfalt meiri í árslok 2010 en upphaflega var áætlað; skuldir hins opinbera eru meiri, atvinnuleysi er meira, verðbólga á árinu 2010 var meiri og svo virðist sem samdrátturinn í efnahagslífinu ætli að verða dýpri og vara lengur.

Ríkisfjármálin

Fyrir hrun skuldaði ríkissjóður 26% af VLF. Opinberar tölur yfir skuldir ríkisins eru 111% af VLF en heildarskuldir þjóðarbúsins eru hins vegar 280% af VLF. Hrein peningaleg eign ríkissjóðs versnaði um 140 milljarða króna milli annars ársfjórðungs 2010 og 2011. Ef marka má þessar tölur þá er hægt að leiða að því líkum að íslenska ríkið hafi frá hruni tekið að láni fjárhæð sem nemur jafnvirði landsframleiðslu í eitt ár og þá eru lánin frá AGS ekki einu sinni talin með. Vaxtakostnaður ríkissjóðs af núverandi skuldabyrði er hátt í 20% af tekjum.

Sveitarfélög

Skuldir sveitarfélaganna og skuldbindingar voru 586 milljarðar um seinustu áramót. Ef skuldir Orkuveitu Reykjavíkur, sem eru vel á 300 milljarða, og 47 milljarða lífeyrisskuldbindingar sveitarfélaganna eru frátaldar standa samanlagðar skuldir sveitarfélaganna í 310 milljörðum kr. sem er 20% af VLF og 154% af tekjum þeirra.

Fjármálakerfið

Kostnaður íslenska ríkisins við endurreisn bankakerfisins í kjölfar hrunsins haustið 2008 var 64% af VLF sem er heimsmet. Nýju bankarnir fengu lánasöfn gömlu bankanna á 45-65% af raunvirði þeirra. Þessi niðurfelling á milli gömlu og nýju bankanna hefur þó ekki skilað sér til almennings þar sem lánin eru rukkuð inn á nafnvirði þeirra. Afleiðingarnar eru mikill hagnaður bankanna sem byggir á því að þeir eru að eignast stóran hluta af öllum eignum íslenskra fyrirtækja og heimila.

Almenningur

Nú er svo komið að 20% heimila í landinu geta ekki borgað af lánum sínum og 40% eru í miklum erfiðleikum. Í raun eru það bara 10% sem geta greitt af húsnæðislánum með eðlilegum hætti.

Ráðstöfunartekjur heimilanna hafa lækkað um 27,4% síðastliðin þrjú ár á meðan verðlag hefur hækkað um 40%. Af þessum ástæðum hefur neysla þjóðarinnar dregist saman. Á sama tíma hefur þörfin fyrir mataraðstoð margfaldast en engar opinberar tölur eru til yfir fjöldann. Það eru þó staðreyndir að biðraðirnar við hjálparstofnanir hafa lengst og fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna hefur aukist um 62% frá hruni.

Fram hefur komið í tölum ríkisskattstjóra að skuldir íslenskra fjölskyldna hafi vaxið meira en eignir en á síðasta ári rýrnuðu eignir í fyrsta skipti meira en skuldir. Fjölskyldum sem eiga meira en þær skulda hefur fækkað um 8,1% milli ára. Þeim sem voru með neikvæðan eignaskattstofn fjölgaði hins vegar um 12,1%.

Samkvæmt síðustu tölum Vinnumálastofnunar er atvinnuleysið 6,7%. Sú tala er hins vegar umtalsvert hærri þar sem markvisst er unnið að því að koma atvinnulausum í nám og margir hafa yfirgefið landið í leit að atvinnu og betri lífskjörum. Í þessu sambandi skiptir líka máli að hópur fólks sem er atvinnulaus en á ekki rétt á atvinnuleysisbótum skráir sig ekki atvinnulausa. Hvatinn til að skrá sig er ekki til staðar þar sem fólk fær engar bætur hvort eð er. Að lokum er rétt að benda á að samkvæmt tölum sem hafa verið í opinberri umræðu má ráða að störfum á Íslandi hafi fækkað um 22.500 sem er u.þ.b. 8,2% af skráðu vinnuafli árið 2010.

Niðurstaðan

Meginástæða hrunsins var ofvaxið bankakerfi. Það orkar því mjög undarlega á almenning að horfa upp á þá ofuráherslu sem stjórnvöld leggja á endurreisn þessa sama kerfis í stað þess að byggja upp raunhagvöxt samfélagsins. Byrðum fjármálakreppunnar hefur fyrst og fremst verið dreift á skuldsett heimili. Ríkisstjórnin hefur markvisst unnið gegn almennri leiðréttingu lána og innleitt sértæk skuldaúrræði sem gefa bönkunum sjálfdæmi varðandi það hverjir fá leiðréttingu og hversu mikla. Flest ef ekki öll úrræði við skuldavanda heimila og smærri fyrirtækja hafa miðast við að viðhalda greiðsluvilja.

Þessi afstaða ríkisstjórnarinnar og vinnubrögð bankanna hafa skapað aukna misskiptingu. Landsmenn horfa upp á að það er verið að afskrifa skuldir þeirra sem ullu hruninu. Þessir halda líka fyrirtækjum sínum og arði af ólöglegum fjármálagjörningum á sama tíma og almenningur er látinn sitja uppi með forsendubrestinn. Því er svo komið að óréttlætið ógnar félagslegum stöðugleika í landinu. Kjörnir fulltrúar fara eftir kröfum fjármálaaflanna á kostnað hagsmuna almennings.

Íslenska bankakerfið hefur sett skuldir sínar yfir á almenning eins og gert hefur verið í Grikklandi, Írlandi, Portúgal og víðar. Ísland sker sig því ekkert úr hvað það varðar að lýðræðið hefur orðið fórnarlamb bankaveldisins.

Virðingarfyllst,
Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna
Ásta Hafberg, nemandi í viðskiptastjórnun

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, fyrrverandi garðyrkjustjóri

Elínborg K. Kristjánsdóttir, fyrrverandi blaðamaður
Elías Pétursson, framkvæmdastjóri/háskólastúdent

Eyjólfur Kolbeinn Eyjólfsson, hugbúnaðarsérfræðingur
Björg Sigurðardóttir, fyrrverandi bankastarfsmaður

Björk Sigurgeirsdóttir, ráðgjafi
Guðbjörn Jónsson, ráðgjafi kominn á eftirlaun

Guðmundur Ásgeirsson, kerfisfræðingur
Guðrún Skúladóttir, sjúkraliði

Gunnar Skúli Ármannsson, læknir
Helga Garðarsdóttir, ferðamálafræðingur

Helga Þórðardóttir, kennari
Indriði Helgason, rafvirki

Jakobína I. Ólafsdóttir, stjórnsýslufræðingur
Rakel Sigurgeirsdóttir, íslenskukennari

Sigurjón Þórðarson, líffræðingur
Sigurlaug Ragnarsdóttir, listfræðingur

Vilhjálmur Bjarnason, ekki fjárfestir
Þórarinn Einarsson, aktívisti

Þórður Á. Magnússon, 
framkvæmdarstjóri

Afrit sent á erlenda og innlenda fjölmiðla svo og ráðherrana þrjá sem eru í gestgjafahlutverkinu á ráðstefnunni: Iceland´s Recovery—Lessons and Challenges sem haldinn verður í Hörpunni n.k. fimmtudag eða þ. 27. október

               

Endurskoðun Almannatryggingalaga

Á reglulegum fundi aðalstjórnar Öryrkjabandalagsins í liðinni viku, kom fram að endurskoðun laga um Almannatryggingar ganga hægt. Allur tíminn fer í útreikninga á skerðingum, án þess að búið sé að fara í gegnum lögin og breyta þeim til betra horfs.

Á undanförnu ári hef ég verið að fara í gegnum nuverandi lög um Almannatryggingar. Sú lesning hefur ekki verið til skemmtunar. Það er hrein hörmung að sjá vinnubrögð þingmanna, eins og þau birtast í þessum lögum. Þau lýsa skært af þekkingarleysi eða kjánaskap. Ég dæmi ekki um hvort á við.

Ég skrifaði Velferðarráðherra bréf og benti honum á þessar staðreyndir. Með bréfinu sendi ég 1. kafla núverandi laga um Almannatryggingar, þar sem ég hafði skrifað athugasemdir inn á milli í lagatextann, með öðrum lit.  Ég læt þennan kafla fylgja hér með í viðhengi.  Kannski bæti ég öðrum köflum við ef fólk verður forvitið.

Hvað skildi þurfa til svo greina megi í lagatextum okkar, eðlilega skynsemi og viðurkenningu fyrir þeim mannréttindum sem við segjumst viðra?      


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hvernig er verðtryggingin rétt eftir logum

 Þetta er tilraun til að sýna hvernig húsnæðislán þróast ef verðtrygging er reiknuð eins og lögin gera ráð fyrir að sé reiknað. Samkvæmt síðasta greiðsluseðli Íbúðalánasjóðs voru eftirstöðvarnar þess láns sem hér er sýnt u.þ.b. 9 milljónir, en samkvæmt  réttum verðbótum eru eftirstöðvarnar um 3,6 milljónir.  Vakin er sérstök athygli á því að þessar færslur eru allar með nákvæmlega réttum verðbótaþáttum í hverjum mánuði. Vísitala neysluverðs í greiðslumánuðinum er reiknuð sem breyta frá vísitölu lántökumánaðar.

Opnið skrána "Íbúðarlán" í skráarsvæðinu hér til hliðar. Þá á að opnast færsluskrá yfir allar afborganir lánsins, frá fyrsta gjalddaga til gjalddaga nú í september s. l.  Þetta væri rétt þróun á verðtryggðu 6.400.000 kr. láni, sem tekið var á árinu 2000. Höfuðstóll lánsins ætti að hafa lækkað um sem bæst 40%. Svolítið annað að sætta sig við slíkar verðbætur.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 165580

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband