Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Málshöfðunin á hendur Geir Haarde

Frá upphafi hef ég verið dálítið hissa á því þekkingarleysi á stjórnarráði Íslands, sem fram kom í störfum Alþingi í kjölfar skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis varðandi bankahrunið.

Þegar lögin um stjórnarráð Íslands eru skoðuð, má þar sjá að HVERGI er gert ráð fyrir að forsætisráðherra taki fram fyrir hendur annarra ráðherra í sínum málaflokkum. Og eins og segir í fyrstu grein laganna um stjórnarráð Íslands: "Ráðherrar fara með og bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum, hver á sínu málefnasviði."      Eins og þarna kemur fram er það ófrávíkjanlegt að ráðherrar bera ábyrgð á sínu sviði.

Það svið efnahagslífs þjóðarinnar sem hrundi haustið 2008, var fjármálakerfið, þ. e. bankakerfið og Seðlabanki landsins. Fagráðherra  fjármálakerfisins er viðskiptaráðherra og lögin um stjórnarráð Íslands gera ekki ráð fyrir öðrum heimildum til að taka fram fyrir hendur hans, en frá þeim aðila sem hann sækir umboð sitt til, þ. e. Alþingis. Hafi Alþingi einhverjar athugasemdir við fagstjórnun ráðherra, verður það að koma fram í þingsal svo það verði bókað.

 Sá ráðherra sem augljóslega átti mestan þátt í hruninu, var því viðskiptaráðherra. Síðustu 18 mánuði fyrir hrun, skipaði Samfylkingin  mann í embætti viðskiptaráðherra.  Á þessum 18 mánuðum nánast tvöfölduðust erlendar skuldir þjóðarinnar. Segja má að það einstaka tímabil hafi verið ein samfelld helreið til glötunar, sem gat á engan hátt endað öðru vísi en með hruni fjármálakerfis þjóðarinnar.

 Eins og að framan er getið, átti Geir Haarde enga stjórnskipaða leið til að takast á við ranga fagstjórnun viðskiptaráðherra, fyrst Alþingi  gerði engar athugasemdir. Menn virðast auðveldlega gleyma því að ráðherrar starfa í umboði Alþingis svo það er Alþingi sjálft sem hefur eftirlitsskylduna.

 Þó ekki sé kafað dýpra í þessi mál en hér hefur verið gert, vekur það umtalsverða furðu að Alþingi, sem sjálft bar skyldu eftirlitsaðila, skuli ásaka Geir Haarde fyrir brot á embættisskyldum, en ekki ásaka þann fagráðherra sem beinlínis er ábyrgur  gagnvart Alþingi fyrir þeirri skuldasöfnun sem varð á síðustu 18 mánuðum fyrir hrun, sem beinlínis olli hruni fjármálakerfisins okkar.

Það er meira en sorglegt að sá stjórnmálaflokkur sem ber pólitíska ábyrgð, gagnvart Alþingi, á viðskiptaráðherra síðustu 18 mánuðina fyrir hrun, leggja höfuðáherslu á að koma ábyrgðinni af herðum eigin flokksmanns og Samfylkingarinnar sjálfrar, yfir á herðar aðila sem ekki hafði stjórnskipulega heimild til beinna afskipta af  ákvörðunum viðskiptaráðherra, fyrst Alþingi gerði engar athugasemdir við störf hans.

Það lítur því þannig út að Samfylkingin beiti þingstyrk sínum og aðstöðu, til þess að sakfella mann sem ekki hafði lagaheimild til afskipta af viðskiptaráðherra, fyrst Alþingi gerði engar athugasemdir. Það er því í raun fyrrverandi meirihluti Alþingis, þ. e. Sjálfstæðismenn og Samfylking, sem bera höfuðábyrgð á að ekki var gripið til aðgerða í tíma, en einnig ber stjórnarandstaðan mikla ábyrgð, því hún lét ekki bóka harða gagnrýni á störf viðskiptaráðherrans á síðustu 18 mánuðum fyrir hrun.

Það er dálítið merkilegt að ætlast til þess að Geir Haarde gengi fram með gagnrýni á samráðherra sinn, þegar enginn þingmaður og ekkert stjórnmálaafl á Alþingi hafði sett fram neina gagnrýni á störf viðskiptaráðherrans. Til að geta vikið ráðherranum frá völdum, með atbeina Frseta, hefði Geir orðið að hafa alvarlegar ásakanir á stöf viðskiptaráðherra úr ræðustól Alþingis. Engu slíku er til að dreifa. Niðurstaðan er því sú að Samfylkngin kýs að bjarga æru mannsins sem hún ber ábyrgð á, en fórna í hans stað manni sem Alþingi hafði ekki fært neinn rétt til að skipta sér af störfum viðskiptaráðherra.

Mikið drengskaparbragð, eða þannig.              


Á hverju þarf að byrja?

Ég er orðinn  langeygur eftir því að allir sem eru að tala um breytingar og ný framboð, skuli ekki setja eitthvað fram um hugmyndir sýnar að fyrstu aðgerðum til að koma þjóðfélaginu nær því sem fólk almennt hugsar.

Til að brjóta ísinn set ég hérna inn hugmyndir sem ég tíndi saman.  Skoðið þetta, takið það til ykkar og breytið því að vild. Gaman verður að sjá hver verður útkoman þegar fleiri leggja hugsun í púkkið.

Skoðið meðfylgjandi skrá.                       


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Mikill hraði á skerðingu lífeyrisréttinda og þátttöku í lyfjakostnaði

 Fyrir Alþingi eru nú frumvörp til breytinga á greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga í lyfja og lækniskostnaði, ásamt fleiru.  Athygli vekur að á öllum sviðum er fyrirhugað að skerða lífsgæði eldri borgara og öryrkja, en þó er fjárþröng ríkissjóð ekki svo mikil að meginþorri þingmanna getur ekki sætt sig við að stjórnmálahreyfingar þeirra sleppi ölmusugreiðslunni sem þeir hafa sjálfir ákveðið að stjórnmálahreyfingarnar fái frá ríkinu.

Greinilegt er að þessir stjórnmálamenn treysta því betur að eldri borgarar og öryrkjar geti betlað peninga til að halda lífi. Af afstöðu þeirra má merkja að þeir reikni ALLS EKKI með því að stjórnmálahreyfingar þeirra geti aflað sér rekstrarfjár, með eðlilegum og sjálfbærum hætti.

Stóri munurinn á þessu tvennu er sá að Alþingi er, samkvæmt lögteknum Mannréttindasáttmálum Evrópu og Sameinuðu þjóðanna, auk ákvæða í stjórnarskrá lýðveldis okkar, SKYLT sem fyrsta ráðstöfun fjármuna ríkisins, að tryggja eldri borgurum og öryrkjum þau mannsæmandi lífsskilyrði sem kveðið er á í framangreindum sáttmálum og stjórnarskrá. Á Alþingi í gær kom skýrt í ljós að þessir þingmenn líta á frumskyldu sína sem afgangsstærð.  þessir hópar verði bara að bjarga sér sjálfir, því þingmennirnir þurfi að nota peningana í annað; þar á meðal að fóðra vel eigin stjórnmálahreyfingar.

Alþingismenn eiga næga peninga til ýmissa annarra verka, en að sinna frumskyldum sínum. Hundrað milljónir hér og hundrað milljónir þar, er samþykkt án umhugsunar. En svo illa eru þeir haldnir að þeir geta ekki einu sinni látið í friði þá nánasalegu lífsbjörg sem lífeyrisþegum og sjúklingum hefur verið rétt til þessa. NEI.  Þeir fá ekki sálarró fyrr en búið er að skerða þá hungurlús sem veitt var sem lítill hluti af frumskyldu þeirra. Þeim er svo ofboðslega mikilvægt að geta veitt peningum á þýðingarmeiri staði.

Og svo þeir eigi nú ekki á hættu að þessi ölmusu og ómagalýður, sem tilheyrir frumskyldum Alþingis að skapa mannsæmandi lífskjör, fari nú ekki að gera athugasemdir við óráðsbullið sem þeir vilja setja sem lög, þá sniðganga þeir eigin lagasetningu í stjórnsýslulögum, um lögskipaðan frest til að skila umsögnum um frumvörp er varða lífskjör þessara hópa. Þeim finnst greinilega sjálfsagt, fyrst tekin eru af þessum hópum lögskipaður réttur til mannsæmandi lífskjara, sé alveg sjálfsagt að sniðganga réttindi þeirra líka að öðru leiti, eins og með umsagnarfresti um frumvörp sem varða lífsgæði þeirra.

Þó einungis hafi verið veittir tveir sólahringar til að skila umsögn um lagafrumvarp um sjúkratryggingar og lyfjalög, og ekki einu sinni óskað umsagnar Parkinsonsamtakanna, tókst að koma saman að hluta umsögn um sjúkratryggingahluta frumvarpsins og senda það inn á réttum tíma. Ykkur til fróðleika, ef þið nennið að lesa speki þeirra sem semja frumvörp um lífsgæði þeirra sem eiga FYRSTU KRÖFU í ráðstöfun ríkisfjár, þá læt ég umsögnina fylgja hérna með.

Það er oft sagt að heimskan ríði ekki við einteyming. Í þessu frumvarpi sýnist mér ekki vera um neinn taum að ræða                 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Raunveruleiki með réttri verðtryggingu

Nokkrir hafa haft samband við mig og óskað eftir að ég birti færslur mínar af eigin húsnæðisláni, hjá Íbúðalánasjóði, með útreikningi verðtryggingar eins og lögin gera ráð fyrir að hún sé reiknuð.

Í þeirri greiðsluskrá sem fylgir hér með, eru engar ágiskanir. Verðtryggingin er færð í hverjum mánuði nákvæmlega eins og neysluvísitalan mælir hana og verðbætur hvers mánaðar reiknaðar frá lántökudegi til greiðsludags. Til að auðvelda fólki að fylgja dálkum greiðsluskrár, setti ég blátt letur á dálk verðtryggingar. Og síðasti greiddi gjalddagi er 15. nóvember 2011, með rauðu letri. Að lokinni þeirri greiðslu, teljast rétt reiknaðar eftirstöðvar lánsins vera kr. 3.573.942,-.

Til samanburðar, skannaði ég inn greiðsluseðil Íbúðalánasjóðs, að þessu sama láni, með gjalddaganum 15. nóv. 2011. Þar kemur fram að eftirstöðvar lánsins, að lokinni þeirri greiðslu, er kr. 9.104.880,-.

Í svari sínu til Umboðsmanns Alþingis, sagði Seðlabankinn að engu máli skipti hvor leiðin væri farin. Leiðin sem ég hef lengi bent á að sé samkvæmt þeim lögum sem voru sett um verðtryggingu, eða leiðin sem þeir völdu einir og sjálfstætt að fara þó engin lög heimiluðu þá aðferð.  

Eitthvað er ekki góður samhljómur í því sem frá Seðlabankanum kemur. Tveimur dögum eftir að ég birti útreikninga mína í myndböndunum á YouTube, óskaði Seðlabankinn eftir að fá forsendur mínar til yfirferðar. Skömmu síðar fékk ég eftirfarandi tölvupost frá manni í Seðlabankanum:

"Kærar þakkir fyrir skjót viðbrögð
Það munaði einhverjum tíeyringum (sem einungis eru nú til í minningunni) á Sigmarstölunum og því sem menn fengu hér út sjálfir.
Við þekkjum víst á sjálfum okkur hvernig talnapedantar eru, vilja helst reikna alla líftóru úr því sem þeir fást við.
Þínar tölur duga áreiðanlega til að eyða því örlitla sem þar munar.

Endurteknar bestu þakkir" 

"Sigmarstölurnar" sem þarna eru nefndar, eru tölur úr útreikningum mínum, sem settar voru fram í kastljósi hjá Sigmari.

En lítið nú yfir greiðsluskrána og takið eftir að lánið lækkar stöðugt, alveg frá fyrsta gjalddaga. Það er alveg öfugt við það sem gerist með núverandi útreikning verðtryggingar.  Takið eftir hve greiðslubyrðin breytist lítið við hrunið haustið 2008 og í framhaldi af því.                      


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hefur erlendum bönkum verið talin trú um að þeir ættu veð í aflaheimildum?

 Það er auðvelt að svara þeirri spurningu sem sett er fram í fyrirsögninni.  Ekki þarf annað en lesa þau þrjú bréf sem hér eru meðfylgjandi, en þau lýsa orðaskiptum mínum við Þorkel Sigurlaugsson, þáverandi framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Eimskips.

Fyrsta bréfið er það sem ég ritaði honum, en bréf 2 er sama bréfið sent til baka með athugasemdum hans, rituðum með rauðu letri. Þriðja bréfið er svo svar mitt við athugasemdum hans, en því bréfi svaraði hann aldrei.

Eftir lestur þessara bréfa þarf enginn að vera í vafa um hvort erlendum bönkum hafi verið talin trú um að þeir ættu veð í aflaheimildum.             


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 165580

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband