Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011

Eru siðareglur fræðasamfélagsins hættulegar réttlæti og lýðræði?

 Um nokkurn tíma hef ég velt því fyrir mér hvort siðareglur hinna ýmsu stétta hins svokallaða "fræðasamfélags" geti verið ein af rótareinkennum þess siðleysis og spillingar sem hér hefur þrifist og dafnað undanfarin ár? 

Erfitt er að kynna sér siðareglur til hlítar, því margar þeirra eru óskráðar. Að eðlisþætti hefur mér verið gefinn sá hæfileiki að fá sýn á kjarnaþætti ýmissa mála. Sá eðlisþáttur hefur leitt til þess að ég skoða yfirleitt mál út frá sjónarmiði lagastoðar, réttlætis og virðingar. Niðurstöður mínar hafa þess vegna oftast ekki verið taldar umræðuhæfar. Umræður um þýðingarmikil málefni snúast því oftast um aukaatriði eða tilbúna mistúlkun á grundvallaefni hvers málefnis.

Ég fékk fyrstu snertingu við þessar óskráðu siðareglur fyrir tæpum 40 árum, þegar sýslumaður og sveitarstjórn brutu alvarlega á mannréttindum mínum og dánarbúi foreldra minna. Ég gekk á milli margra lögfræðinga í leit að hjálp, en allir voru svo uppteknir að þeir gátu ekki tekið málið að sér. Að lokum fann ég gamlan lögfræðing, sem hættur var störfum. Hann gaf sér tíma til að hlusta á mig og staðfesta að það væri mikið til í því að á mér hefði verið brotið. Þar sem hann var hættur málflutningi, leiðbeindi hann mér við að ná rétti mínum, m. a. með því að ég læsi mér til í lögum. 

Mörgum árum síðar kynntist ég afar heiðarlegum hæstaréttarlögmanni, sem greinilega var með hjartað á réttum stað. Hann gagnrýndi opinberlega vinnubrögð Hæstaréttar. Áberandi breyting varð á framkomu dómstóla í hans garð eftir það og mörg mál hans eyðilögð með hreinum útúrsnúningum. Hann sá sér ekki fært að láta mál skjólstæðinga sinna eyðileggjast svo hann skilaði inn málflutningsréttindum sinum og hætti lögmennsku.

Þegar ég fór að læra rekstrarfræði, rakst ég á sömu þöggunarreglur í þeim geira. Ég gagnrýndi oft augljóslega villandi framsetningu hagfræðinga. Afleiðing þess varð sú að til mín var sendur maður, til að leiðbeina mér um umræðuhefð á þessum vettvangi. Þegar ég sinnti þeirri leiðsögn ekki, var mér boðin vel launuð staða. Þegar kom að útfærslu á hvað í starfinu fælist, var eitt af því að ég tjáði mig ekki opinberlega um þjóðfélagsmálefni. Um þetta leiti skrifaði ég oft blaðagreinar. Ég fór því heim, hugsaði málið og skrifaði svo grein þar sem ég lét þess getið að starfskraftar mínir væru til sölu, en sannfæringin ekki.

Þau ár sem ég sinnti fjármálaráðgjöf fyrir fólk í skuldavanda, kom oft til alvarlegs ágreinings við lögmenn vegna innheimtuaðgerða. Einnig var ég oft erfiður fyrrverandi kollegum úr bankakerfinu, þar sem ég þekkti allar reglur þeirra. Ég fékk því oft að heyra að ég væri of krefjandi í framsetningu. Ég ætti ekki að gagnrýna svona beint. Undir slíkt gætu engir viðkomandi fagaðilar tekið. Ræddi ég þessi mál t. d. við framkvæmdastjóra Lögmannafélagsins, sem sagðist einungis geta rætt þetta óformlega við sína menn. Ef bein kæruatriði bærust, yrðu þau skoðuð. Slíkt bar engan árangur fyrr en afrit kærunnar var einnig sent dómsmálaráðuneyti til kynningar. Þá varð smá breyting um tíma, en bara meðan undirbúin var árás á mig og ég gerður ótrúverðugur, með aðstoð fjölmiðla.

Í skjóli hinna óskráðu siðareglna, og óvandaðra vinnubragða i fræðasamfélaginu, sem af slíkri þöggun leiðir, hefur þjóðfélagið sem heild og fjölmargir einstaklingar á margan hátt verið sviptir tekjum og tilvistargrunni. Með árunum og aukinni fjölbreytni tjáningarforma, hefur þessi þöggun orðið augljósari. Framkvæmendur óheiðarleika og óréttlætis eru einnig orðnir sér þess meðvitaðir að allt fræðasamfélagið er orðið svo siðspillt að það leitar meira segja að réttlætingu þess að fyrir Alþingi séu lögð lagafrumvörp sem augljóslega bera í sér stjórnarskrárbrot.

Augljósasta dæmið um þöggunina á afbrotum fræðasamfélagsins, er þöggunin sem ríkir um hið alvarlega lögbrot æðsta dómsstigs þjóðarinnar, Hæstaréttar, er hann án allra lagaheimilda ógilti nýverið kosningar til stjórnlagaþings. Ég ritaði Hæstarétti strax bréf, þar sem ég fór fram á að þeir endurskoðuðu ákvörðun sína, vegna skorts á lagaheimildum þeirra til að taka, beint fyrir Hæstarétt, hinar framlögðu kærur. Samkvæmt lögum ættu þær að fara til viðkomandi lögreglustjóra, þaðan fara í ákæruferli til héraðsdóms, áður en Hæstiréttur gæti tekið þær til úrskurðar. Þó bréfið væri efnislega rétt, hvað lagaforsendur varðar, og afrit af því sent fjölmiðlum, vefmiðlum og ýmsum í stjórnsýslunni, gerist ekkert.

 Á einum þeirra mörgu funda sem haldnir voru um stjórnlagaþingið, eftir úrskurð Hæstaréttar, orðaði ég þessi lögbrot réttarins. Þar talaði menntaður lögfræðingur sem hiklaust sagði frá því að í náminu væri lagt upp með að lögmenn gagnrýndu ekki beint og opinberlega vinnubrögð annarra lögmanna eða dómstóla. Þessi orð hans vöktu enga athygli, líkt og öllum fyndist sjálfsagt að þessir mikilvægu framkvæmdaaðilar réttarfars og réttlætis hefðu samfélagið í gíslingu slíkar þöggunar, sem leiðir af slíkum siðareglum. 

Nú er svo komið að svo til daglega er fjallað um alvarleg siðferðisbrot, ósannyndi og beinan óheiðarleika, í flestum fjölmiðlum og vefmiðlum. Gagnrýni á slíka framgöngu vekur tiltölulega litla athygli. Hugsanlega er það ein af ástæðunum fyrir því að menn fara sífellt minna í felur með slík afbrot. Þeir vita sem er að fræðasamfélagið gagnrýnir þá ekki opinberlega fyrir slíkan óheiðarleika. Eina gagnrýnin sem heyrist er frá okkur, almenningi í þessu samfélagi, sem hvorki fræðasamfélagið, stjórnkerfið né dómskerfið hlustar á, eða tekur mark á. Hvað getur, við þessar aðstæður, orðið siðrænni vitund til bjargar?  


Vill ÁFRAM hópurinn sigur með óheiðarleika?

Þegar horft er til þess á hvern hátt JÁ hópurinn sækist eftir fylgi við sjónarmið sín, vekur athygli hve óheiðarleiki er þar áberandi. Í þessum pistli verður sérstaklega litið til auglýsingar á bls. 7, í Fréttablaðinu í dag, föstudaginn 25. mars 2011. Þar hvetur þessi hópur fólk til kynni sér Icesave- samninginn og taki síðan upplýsta ákvörðun 9. apríl n.k. Þeirri hvatningu er ég sammála, en ekki þeim óheiðarleika sem birtist í auglýsingunni.

Sem aðaláhersla er notuð hin augljóslega falsaða uppsetningu RÚV á skoðanakönnun Capacent, þar sem sagt var að 62 % kjósenda ætluðu að segja JÁ við Icesave III. Þegar tölur könnunarinnar eru skoðaðar kemur hins vegar í ljós að þeir sem svöruðu JÁ, eru langt innan við helming þeirra sem svöruðu.

Næsti uppsláttur auglýsingarinnar er eftirfarandi: "Margir telja okkur ekki skylt að greiða Icesave- skuldina en við teljum það betri kost að samþykkja samninginn og ljúka málinu með sátt."

Það vekur athygli mína að þarna eru settar þrjár áherslur. Auglýsendur virðast ekki telja sig með þeim sem ekki telja okkur skylt að greiða Icesave. Þeir segjast því telja það betri kost að borga. Engin rök eru tiltekin er sýni af hverju það sé betri kostur að borga. Í þriðja lagi er sagt að með því að borga, þá ljúkum við málinu með sátt.

Í þessu viðhorfi auglýsenda felst fullkomin viðurkenning á því að Bretar og Hollendingar eigi kröfurétt á hendur ríkissjóði Íslands. Og í því ljósi sé best fyrir okkur að ljúka málinu með sátt. Hverjar eru svo megin forsendur þess að auglýsendur vilji gera sátt í málinu. Um það segja þeir í auglýsingunni:

"Við viljum leysa deilur með samningum og sú leið mun hafa góð áhrif á samskipti okkar við umheiminn."

Í þessu felst viðurkenning á að skattgreiðendum komandi ára beri að greiða skuld einkafyrirtækis, án þess að kröfu hafi verið lýst á hendur tryggingasjóði þess. Dálítið broslegt er að horfa til þess stærilætis sem felst í niðurlagi setningarinnar. Það er eins og umheimurinn standi á öndinni yfir því hvernig við afgreiðum þetta mál. Hann sé tilbúinn að snúa við okkur baki. Sannleikurinn er sá að einungis örlítið brot af "umheiminum" veit eitthvað um Ísland og enn minna brot af umheiminum veit eitthvað um Icesave.

Þriðja staðhæfingin í auglýsingunni er eftirfarandi: "Dómstólaleiðin er leið óvissu og áhættu. Málið mun dragast í mörg ár og niðurstaðan er í algjörri óvissu."

Þessi staðhæfing er einkar athyglisverð. Svo er að sjá sem enginn efi komist að í huga auglýsenda um að dómsmál verði rekið á hendur okkur vegna Icesave. Ekki verður betur séð en sú niðurstaða byggist fyrst og fremst á hræðslu og algjörum skorti þekkingar á EES samningnum, sem er grundvöllur samskipta okkar við ESB ríkin.

Fyrsti hluti EES samningsins hefur svipaða stöðu og stjórnarskrá okkar. Þar er að finna þær grundvallarreglur sem samningurinn og samskipti aðila skulu byggja á.

Flestum er ljóst að grundvöllur EES samningsins byggist á jafnréttishugtakinu; um jafna stöðu allra, innan sömu greinar, á sama markaði. Um það segir svo í 1. hluta samningsins um EES, eins og hann birtist í lögum nr. 2/1993, en þar segir svo í e. lið 2. töluliðar 1. gr. um það samskiptakerfi sem gilda skuli.

   "að komið verði á kerfi sem tryggi að samkeppni raskist ekki og að reglur þar að lútandi verði virtar af öllum;..." (Áhersluletur setti G.J.)

Þarna er beinlínis sagt að ein af grundvallarreglum EES samstarfsins sé að raska ekki samkeppni. Ekki er um það að ræða í þessum samning, að stjórnvöld hvers lands framselji stjórnunarvald innan síns lands, í hendur stjórnvalda í öðru ríki. Þess vegna er það á valdi og ábyrgð stjórnvalda í hverju ríki fyrir sig að gæta þess að jafnræði sé með öllum rekstraraðilum sömu greinar á sama markaði, sama frá hvaða landi innan samningsins hann kemur. Honum ber að fara eftir öllum sömu reglum og aðrir þurfa að hlíta.

Fram hefur komið að Bresk stjórnvöld hafi heimilað Landsbankanum að taka við innlánum í útibúi sínu í London. Breskir bankar eru þátttakendur í breska Tryggingasjóði innistæðueigenda. Í ljósi þess, sem og jafnræðisreglunnar, var breskum stjórnvöldum skylt að gæta þess að samkeppni raskist ekki. Áður en þau veittu Landsbankanum leyfi til móttöku innlána, bar þeim að sjá til þess að, útibú hans í London væri með fullgilda innistæðuvernd í Tryggingasjóði innistæðueigenda á Bretlandi, á sama hátt og aðrir bankar á sama markaðssvæði.

Samkvæmt framangreindri grundvallarreglum EES samstarfsins, máttu bresk stjórnvöld ekki gefa út heimild til útibús Landsbankans í London, til móttöku og ávöxtunar innlána, fyrr en framangreind trygging innistæðna í breskum tryggingasjóði lægi fyrir. Nema því aðeins að bresk stjórnvöld tækju sjálf áhættu af bakábyrg, fyrir jafnri stöðu innlánseigenda í útibúi Landsbankans í London, við innlánatryggingar í öðrum starfandi bönkum á sama markaðssvæði. Annað hefði verið mismunun á réttarstöðu innistæðueigenda, en það þá um leið mismunun á markaðsstöðu og röskun á samkeppni um innlán.

Í ljósi þessa, verður dómstóll sem fjalla ætti um slíkt mál að víkja afar langt frá grundvallarreglu réttlætis, til að heimila saksókn á hendur íslenska ríkinu, vegna vanefnda Breta og Hollendinga á e. lið 2. töluliðar 1. greinar grundvallarreglna EES samningsins. Samkvæmt þessu ákvæði á íslenska ríkið ekki einu sinni aðild að málinu og verður því ekki lögsótt til neinnar ábyrgðar á skuldakröfum á hendur Landsbankanum. Ekki heldur íslenski tryggingasjóðurinn.

Í fjórða og síðasta lið staðhæfingar í framangreindri auglýsingu JÁ hópsins, segir eftirfarandi: "Samþykkt samningsins styrkir lánshæfismat Íslands, erlent lánsfé fæst til uppbyggingar, hagvöxtur eykst og atvinnuleysi minnkar."

Svo mörg voru þau orð. Enginn veit enn hvaða upphæð verður til innheimtu samkvæmt samningnum um Icesave III. Enginn óháður aðili hefur verið fenginn til að sannreyna upplýsingar skilanefndar gamla Landsbankans. Þarna er á ferðinni sömu aðilar sem stöðugt færðu okkur rangar upplýsingar um stöðu bankanna, þar til þeir hrundu. Það er því afar lítil fyrirhyggja í því að taka óendurskoðaðar niðurstöður þessara aðila sem stórasannleika um hve miklar eignir komi frá búi Landsbankans til greiðslu Icesave III.

Samkvæmt samantekt AGS eru skuldir þjóðarbús okkar það miklar að til greiðslufalls horfi. Það er því afar undarleg framsetning hjá JÁ hópnum, að með því að auka við skuldir okkar og vaxtaútgjöld, munum það styrkja lánshæfismat Íslands. Slík fullyrðing flokkast nú frekar undir óábyrgan þekkingarlausan áróður, en vera hvati til endurreisnar á efnahagslífi þjóðar okkar. Hvað rekur fólk áfram í slíkri vitleysu, gegn hagsmunum þjóðar sinnar, er mér hulin ráðgáta.

Í ljósi þeirrar skuldastöðu sem þjóðarbúið er í, er það í besta falli villtur draumur áhættufíkils í fjárhættusækni, að ætla að taka meira fé að láni erlendis, meðan ekki er búið að tryggja greiðsluflæði komandi ára, vegna þeirra lána sem nú þegar eru í farvegi endurgreiðslu. Heyrst hefur að nettó gjaldeyristekjur okkar á ári, þegar búið er að greiða nauðsynlegan innflutning á matvörum, bensíni, olíum og öðrum rekstrarvörum tekjuskapandi útflutningsgreina, eigum við eftir jafnvirði eitthvað rúmra 100 milljarða króna.

Vextir af þegar veittum erlendum lánum okkar nema mörgum tugum milljarða á ári. Ef við ætlum að veita afkomendum okkar einhverja möguleika á að lifa í samræmi við tækni og þekkingu samtíma síns, verðum við að leggja okkur fram um að greiða niður þær skuldir sem núlifandi kynslóðir hafa hlaðið upp á u. þ. b. 30 ára tímabili. Ef við settum stefnuna á að komast út úr þessum skuldum á c. a. 20 árum, gæti það þýtt að við þyrftum að leggja til hliðar 50 - 70 milljarða á ári hverju, til skuldauppgjörs, fyrir utan vaxtagreiðslur.

Eins og staðan er nú í fjármálum heimsins, er útilokað að reikna með öðru en þó nokkrar vaxtahækkanir verði á komandi árum. Að vísu er einnig líklegt að raunvirði gjaldmiðla falli einnig, sem mundi lækka skuldir okkar. Því miður er einnig líklegt að verð á helstu útflutningsvörum okkar muni einnig lækka, vegna samdráttar í fjármálum, sem valda mun veltusamdrætti í flestum þjóðfélögum, hjá miklum meirihluta þegna þeirra. Fyrirsjáanlegt er því að á næstunni munum við ekki stunda mikla uppbyggingu, með auknu erlendu lánsfé, nema við ætlum að stefna þjóðinni í gjaldþrot.

Hins vegar er okkur afar mikilvægt að efla svo trúverðugleika pólitískra stjórnenda landsins, sem og trúverðugleika þingmanna, að þess sjáist greinileg merki í störfum þeirra, að þeir þekki þarfir og möguleika þjóðfélagsins og setji heildarhagsmuni framar sér- og eiginhagsmunum.

Til uppbyggingar atvinnusköpunar og aukins hagvaxtar, eigum við í raun einungis eina færa leið. Hún er sú að tryggja hér trausta samstöðu þjóðar, þings og stjórnvalda, svo erlendir aðilar sjái sér langtímahagsmuni í að leggja hér fram, í eigin áhættu, fjármuni til uppbyggingar gjaldeyrisskapandi starfsemi, sem skili tekjum í ríkiskassann.

Að lokum tek ég undir með niðurlagsorðum JÁ hópsins í auglýsingu sinni, en þau er eftirfarandi:

"Kynnum okkur málið og kjósum það sem er best fyrir land og þjóð."

Ég á sömu óskir til handa þjóð minni. Og eftir að hafa kynnt mér allar aðstæður í nútíð og næstu sýnilegu framtíð, hef ég ákveðið að segja NEI við Icesave III.  

 


Bréf til ESB

 

Íslandi 18.03 2011

Mr Herman Van Rompuy

European Council

Rue de la Loi 175

B-1048 Brussels

Kæri herra Van Rompuy

Haustið 2008 hrundi nánast allt íslenska bankakerfið (90%) á nokkrum dögum og þar með Landsbankinn og útibú hans í London og Amsterdam (Icesave-reikningarnir). Samkvæmt grundvallarreglu EES samningsins virðist jafnréttishugtakið um jafna stöðu allra á markaði vera undirstaða alls samstarfs innan Evrópusambandsins. Það kemur skýrt fram í 1. hluta samningsins um EES eins og hann birtist í íslenskum lögum nr. 2/1993 en þar segir svo í e. lið 2. töluliðar 1. gr:

 

„að komið verði á kerfi sem tryggi að samkeppni raskist ekki og að reglur þar að lútandi verði virtar af öllum" (Áhersluletur er bréfritara) Þarna er beinlínis sagt að ein af grundvallarreglum EES samstarfsins sé að raska ekki samkeppni.

 

Í ljósi þessa verður ekki betur séð en breskum og hollenskum stjórnvöldum hafi borið skylda til að sjá til þess að útibú Landsbanka, í London og Amsterdam, hefði fullgildar tryggingar innlána í Tryggingasjóðum innistæðueigenda í viðkomandi löndum. Annað hefði verið mismunun á markaði annars vegar í óhag fjármagnseigenda en hins vegar til hagsbóta fyrir Landsbankann.

Bretar og Hollendingar tóku Icesave einhliða úr eðlilegum farvegi réttarfars yfir í hið pólitíska umhverfi. Á þeim grundvelli krefja þeir íslenska skattgreiðendur af mikilli hörku um endurgreiðslu þeirra innlána sem tryggð áttu að vera í bresku og hollensku innistæðutryggingakerfi eins og EES reglurnar kveða skýrt á um.

Fyrstu viðbrögð íslenskra stjórnvalda voru að þau hefðu verið beitt ofríki og vildu því fara með málið fyrir dómstóla. Bretar og Hollendingar höfnuðu því en áður höfðu Bretar sett hryðjuverkalög á Ísland og Landsbankann. Bretar stöðvuðu í framhaldinu starfsemi Kaupþings-banka (Singer & Friedlander) í London og féll þá stærsta fjármálafyrirtæki Íslands.

Vegna harkalegra viðbragða Breta og Hollendinga lokaðist fyrir flæði fjármagns til og frá Íslandi. Með því voru ríkisfjármál Íslands tekin í gíslingu. Þess vegna urðu Íslendingar að samþykkja að semja um Icesave-skuldina til að fá aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Krafa AGS um þetta atriði kom fyrir samstilltan þrýsting Breta, Hollendinga og ESB-þjóðanna að gangast undir Icesave-kröfurnar.

Núverandi Icesave-samningar geta kostað okkur hálf fjárlög íslenska ríkisins. Ef neyðarlögin frá því í október 2008 verða dæmd ógild verða Icesave-kröfurnar tvöföld fjárlög ríkissjóðs. Íslenskur almenningur á erfitt með að sætta sig við að bera þessar byrðar vegna fjárglæfrastarfsemi einkabanka. Byrðar sem í raun tilheyra tryggingasjóðum Breta og Hollendinga samkvæmt grunnreglum EES um jafna samkeppnisstöðu útibúa Landsbankans í þessum löndum við aðra banka á sama markaðssvæði.

Íslenska þjóðin mun kjósa um nýjasta Icesave-samninginn þann 9. apríl næst komandi. Við höfnuðum þeim síðasta. Þess vegna finnst okkur undirrituðum áríðandi að fá svör við eftirfarandi spurningum fyrir þann tíma.

1. Hvers virði eru þríhliða samningar (Icesave samningarnir) þar sem tveir aðilar samningsins hafna eðlilegri málsmeðferð og í krafti aðstöðu sinnar neyða þriðja aðilann að samningaborði til að fjalla um málefni sem allar líkur benda til að séu uppgjörsmál Landsbankans við innistæðutryggingakerfi Breta og Hollendinga?

2. Hvers vegna var Íslendingum meinað að verja sig fyrir þar til bærum dómstólum um réttmæti krafna Breta og Hollendinga haustið 2008?

3. Í ljósi þess að Landsbankinn varð að fara eftir breskum lögum hvers vegna var honum þá heimilað að taka við innlánum áður en bankinn var búinn að tryggja sig hjá breska innistæðutryggingasjóðnum?

 

3.1 Veitti það bankanum ekki óeðlilegt forskot á markaði að vera undanskilinn þeirri kröfu?

 

3.2 Var hagur breskra neytenda ekki fyrir borð borinn með því að leyfa Landsbankanum að tryggja sig með minni kostnaði en aðrir á markaði?

 

 

3.3 Ætlar ESB að láta Breta og Hollendinga komast upp með að brjóta grunnreglur EES samningsins um jafna stöðu fyrirtækja á sama markaði ?

4 Samrýmist það stefnu ESB að þegar einkabanki verður gjaldþrota myndist krafa á skattfé almennings?

5 Er innistæðutryggingakerfi einhvers Evrópulands nógu öflugt til að standa undir falli 90% af bankakerfinu í landi sínu?

6 Hver verða viðbrögð ESB ef íslenskur almenningur hafnar nýjustu Icesave samningunum þann 9. apríl n.k?

Virðingarfyllst og með ósk um góð svör

Ásta Hafberg, háskólanemi

Baldvin Björgvinsson, raffræðingur / framhaldsskólakennari

Björn Þorri Viktorsson, hæstaréttarlögmaður

Elinborg K. Kristjánsdóttir, fyrrverandi blaðamaður, núverandi nemi

Elías Pétursson, fv. framkvæmdarstjóri

Guðbjörn Jónsson, fyrrverandi ráðgjafi

Guðmundur Ásgeirsson, kerfisfræðingur

Gunnar Skúli Ármannsson, læknir

Haraldur Baldursson, tæknifræðingur

Helga Garðasdóttir, háskólanemi

Helga Þórðardóttir, kennari

Inga Björk Harðardóttir, kennari/myndlistakona

Karólína Einarsdóttir, líffræðingur og kennari

Kristbjörg Þórisdóttir, kandídatsnemi í sálfræði

Kristján Jóhann Matthíasson, fv sjómaður

Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni í Glerárkirkju

Rakel Sigurgeirsdóttir, framhaldsskólakennari

Sigurjón Þórðarson, líffræðingur

Sigurlaug Ragnarsdóttir, listfræðingur

Steinar Immanúel Sörensson, hugmyndafræðingur

Þorsteinn Valur Baldvinsson Hjelm, eftirlitsmaður

Þórður Björn Sigurðsson, starfsmaður Hreyfingarinnar

 

Svör og eða spurningar skal senda til Gunnars Skúla Ármannssonar Seiðakvísl 7 110 Reykjavík Ísland gunnarsa@landspitali.is

Afrit sent til ýmissa ráðamanna ESB og EFTA, viðkomandi ráðuneyta Bretlands, Hollands og Íslands auk evrópskra fjölmiðla.  


Icesave og EES reglurnar.

Það er skoðun Breta, að vegna EES reglna, berum við fulla ábyrgð á innlánasöfnun Landsbankans á Icesave reikningana. Hver eru rökin fyrir þessu? Jú, þau eru, að vegna þess að afgreiðslustaður Landsbankans í London var útibú frá aðalbankanum í Reykjavík, þá beri aðalbankinn alla ábyrgð á útibúinu í London. En er það svo? Hvað segja grunnreglur EES samningsins um það?

Þær segja að Íslenskur banki geti stofnað útibú á Bretlandi. Til þess að gera slíkt, þarf einungis að tilkynna til breskra stjórnvalda, að fyrirhugað sé að opnuð verði bankaþjónusta í London. En þarf ekkert meira? Jú, vegna EES reglna, verða Bresk stjórnvöld að samþykkja starfsemina. En Landsbankanum ber að sjá til þess að starfsemin lúti öllum sömu reglum og aðrar bankastofnanir á sama markaði þurfa að fara eftir.

Hvers vegna er það? Hvers vegna getur ekki íslenskur banki ferið eftir íslenskum lögum og reglum í starfi útibús síns í London? Það er vegna þess að jafnræðisregla EES samningsinskveður á um að ALLIR samkeppnisaðilar, á sama markaðssvæði, skuli fara eftir sömu reglum. Þannig standi allir jafn réttháir í samkeppninni. Í pistli mínum frá 26. febrúar s. l. skrifa ég:

"Flestum er ljóst að grundvöllur EES samningsins er jafnréttishugtakið, um jafna stöðu allra á markaði. Um það segir svo í 1. hluta samningsins um EES, eins og hann birtist í lögum nr. 2/1993, en þar segir svo í e. lið 2. töluliðar 1. gr.

"að komið verði á kerfi sem tryggi að samkeppni raskist ekki og að reglur þar að lútandi verði virtar af öllum;..."

Þar sem áhersluletri er bætt við, er það gert af höfundi þessara skrifa. Þarna er beinlínis sagt að ein af grundvallarreglum EES samstarfsins sé að raska ekki samkeppni."

Þetta er reglan sem gerði Bretum skylt að kanna allar reglur um starfshætti þess útibús sem Landsbankinn ætlaði að opna í Bretlandi. Þeir gátu einungis veitt leyfi til opnunar útibúsins, að bankinn ætlaði að starfa eftir öllum sömu reglum og öðrum bankastofnunum var skylt að gera.

Rétt er að hafa í huga, að þegar útibúið í London var opnað, var í fyrstu ekki áformað að taka við almennum innlánum. Þess vegna var ekki gengið frá því að útibúið hefði sömu innlánatryggingar og aðrir bankar.

Síðar sækir Landsbankinn um að mega taka við innlánum í útibúi sínu í London. Bretar þurfa að veita þetta leyfi, að uppfylltum sömu skilmálum og gilda um aðra banka á markaðssvæðinu, sem taka við innlánum. Eins og framangreind jafnræðisregla EES samningsins vísar til, bar breskum stjórnvöldum að sannfærast um að útibú Landsbankans í London, hefði gilda innlánatryggingar í sama tryggingasjóði og aðrar bankastofnanir, á sama markaðssvæði. Annað hefði verið mismunun, sem brotið hefði gegn framangreindum ákvæðum jafnræðis, og þar með raskað jafnvægi í samkeppni.

Þó afgreiðslustaður Landsbankans í London, væri útibú frá Íslandi, varð það í einu og öllu að fara eftir lögum og reglum slíkra stofnana í Bretlandi. Þeir gátu ekki stundað starfsemi þar undir íslenskum lögum og reglum, frekar en erlendir aðilar geta stundað, hér á landi, viðskipti eða starfsemi undir lögum og reglum heimalands síns. Starfsemi útibús Landsbankans í London var því, frá fyrsta degi, háð öllum starfsreglum þarlendra banka. Þar með talið upplýsingum til fjármálaeftirlits Breta og eftirlits frá þeirra hendi. Nákvæmlega eins og allar aðrar bankastofnanir á sama markaðssvæði, samanber framangreinda EES reglu um jafna stöðu á markaði.

Það liggur því ljóst fyrir, að Bresk stjórnvöld gátu ekki heimilað útibúi Landsbankans í London, að taka við innlánum þar í landi, nema bankinn væri búinn að tryggja sér tilskylda aðild að tryggingasjóði innlána þar í landi. Annað hefði verið alvarleg markaðsleg mismunun, og þar með GRÓFT BROT á grunnreglum EES samningsins.

Á sama hátt BAR breska fjármálaeftirlitinu að hafa fullkomið eftirlit með allri innlánasöfnun útibús Landsbankans, á nákvæmlega sama hátt og það hafði eftirlit með innlánum annarra bankastofnana á sama markaðssvæði. Framangreind jafnræðisregla EES samningsins lagði þeim þær skyldur á herðar. Undan þeirri skyldu áttu þeir enga undankomuleið.

Þó þeir, af ótta við pólitískar afleiðingar heima fyrir, reyni að skella skuldinni á íslenska þjóð, sem enga ábyrgð ber á hugsanlegum vanefndum Breta á að uppfylla jafnræðisskyldu EES samningsins.

Bresk stjórnvöld, bera því tvímælalaust fulla bótaábyrgð, gagnvart löndum sínum, sem töpuðu innlánum sínum. FYRST OG FREMST vegna vanrækslu breskra stjórnvalda á að uppfylla grundvallarskyldur sínar um jafna stöðu samkeppnisaðila á sama markaði, samkvæmt EES reglunum hér að framan.

Hér hafa einungis verið dregin upp fáein aðalatriði varðandi fjarstæðukenndar kröfur Breta um að skattgreiðendur á Íslandi borgi tjón, sem varð á Bretlandi. Þar töpuðu fjármagnseigendur í ÞEIRRA heimalandi fjármunum, fyrst og fremst, VEGNA ÞEIRRA EIGIN TRASSASKAPAR OG EFTIRLITSLEYSIS.

Meðan EES samningnum er ekki breytt, liggur alveg klárlega fyrir að Bretar eiga ekki möguleika á lögsókn gegn Íslendingum, vegna þess tjóns sem þeir sjálfir ollu fjármagnseigendum sínum. OG, þar sem Hollendingar eru líka aðilar að EES samningnum, gilda allar sömu málsreglur um þá og þær sem raktar eru hér að framan.

Af þessu tilefni spyr ég. Hvar er heilabúið í öllum FRÁBÆRU lögfræðingunum okkar, fyrst allir þegja um þessa mikilvægu réttarstöðu okkar í Icesave- málinu ????????????????????????  


Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 56
  • Frá upphafi: 165769

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 44
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband