Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012

Tryggingastofnun með óskiljanlega árás inn í fjármál mín.

Þar sem ég gat ekki látið bréfið opnast sem fylgiskrá set ég það hérna inn í Word formi.

 

Tryggingastofnun ríkisins

Laugavegi 114,  105 Reykjavík

 ERINDI:  Endurkrafa lífeyrisgreiðslna vegna ársins 2011.

Um langt skeið hefur Tryggingastofnun (TR) tekið sér það sjálfdæmisvald í samskiptum við mig, og trúlega marga fleiri, að senda hvorki greiðsluseðla, bréf né önnur samskiptamál bréflega til viðskiptaaðila. Af því leiðir að okkur, viðskiptaaðilum TR er aldrei kunnugt um aðgerðir í okkar mjög svo þrönga tekjuumhverfi, fyrr en mislöngu eftir að framkvæmdin er skollin á.

Einkennileg RÁÐSHYGGJA, felst í því að senda ekki erindið sjálft í tölvupósti til viðskiptamanns, heldur senda honum einungis tilkynningu um að hann eigi bréf frá TR á öðrum stað, þ. e. inni á vef stofnunarinnar sjálfrar. Ekki er sjálfgefið að viðskiptavinur hafi aðstöðu eða getu til leitar á netinu, þó hann hafi tölvupóstfang og þokkalegan aðgang að því.  Það fyrirkomulag sem TR velur sér þarna upphefur ekki  skyldu þeirra að koma erindum sínum með sannanlegu móti til viðtakanda, en ekki einungis upplýsingum um að erindi til hans sé hjá TR.

Í því bréfi til mín, sem TR tilkynnti mér með tölvupósti að væri á heimasíðu sinni, reyndist vera endurreikningur á greiðslum ársins 2011, með kröfu um endurgreiðslu á kr. 452.577. Sagt er að þetta sé vegna samanburðar á skattframtali mínu 2012 og greiðslum frá TR á árinu 2011.  Samkvæmt skattframtali hefði ég átt að fá kr. 1.258.570, en hefði fengið greitt kr. 1.980.498. Mismunur er kr. 721.928. Að frádregnum staðgreiðsluskatti eru eftirstöðvar kr. 452.577, sem mér beri að endurgreiða.

Forsendur þessar eru sagðar þær að í skattframtali mínu komi fram tekjur frá lífeyrissjóðum að upphæð kr. 935.426. Þessara tekna sé ekki getið í tekjuáætlun minni.

Í tekjuáætlun fyrir árið 2010, er forskráð hjá TR, tekjur frá lífeyrissjóðum kr. 1.001.196. Þessa tekjuáætlun staðfesti ég vegna þess að hún var breyting frá fyrri áætlunum mínum.  Í tekjuáætlun 2010 er engin forskráning vegna vaxtatekna, enda safna lífeyrisþegar yfirleitt ekki sjóðum.

Svo virðist sem TR geri að eigin frumkvæði og án tilefnis, tillögu að breyttri tekjuáætlun minni fyrir árið 2011. Ekki verður betur séð en TR taki sér þarna vald, sem þeir hafa ekki, til að fella út úr tekjuáætlun minni frá árinu 2010, tekjur frá lífeyrissjóðum sem fyrirsjáanlegt var að yrðu til frambúðar í tekjuáætlun minni meðan ég lifi. Þá breytingu sem TR gerði þarna á tekjujáætlun minni staðfesti ég aldrei, enda vissi ég ekki af henni fyrr en ég fékk bréfið dags. 20. júlí 2012, um að TR hefði gert breytingu á tekjuáætlun minni í ársbyrjun 2011.

Samtímis því að TR tók einhliða ákvörðun um að fella út úr tekjuáætlun minni greiðslur frá lífeyrissjóðum, virðast þeir einhvers staðar hafa fengið upplýsingar um að ég hefði á einu ári safnað nokkrum milljónum í sjóð; alla vega það miklu að ég mundi hafa kr. 202.704 í vaxtatekjur á árinu 2011.  Engin rök eru færð fyrir þessum tekjum, enda eru þær ekki staðfestar af mér þar sem þær eru svo algert bull, líklega einungis sett fram til að lækka mánaðarlegar greiðslur til mín frá TR.

Sem tillögu að tekjuáætlun fyrir árið 2012 gerir TR í forskráningu ráð fyrir lífeyrissjóðstekjum kr. 974.124.  Er þetta í nokkrum samhljómi við áætlun mína frá 2010, með tilliti til þeirra lækkana sem orðið hafa á greiðslum lífeyrissjóða. Ég tel þetta því ekki vera breytingu, heldur ágiskun þeirra á breytingar; ágiskun í fullu samræmi við tekjuáætlun mína frá 2010. En sú tekjuáætlun hefur ekkert breyst og ekkert mun breytast (engir nýir tekjustofnar) og engar slíkar breytingar í vændum. 

Mér finnst það dálítið brosleg heimska að starfsfólk TR skuli ætla lífeyrisþega sem það sjálft í áraraðir hefur svipt hluta bóta sinna, með sniðgöngu við lögbundin mannréttindi og lög, að hann leggi fyrir í sjóði fjárhæðir sem gefi kr. 139.704 kr. í vaxtatekjur.

En mér er spurn. Hvaðan hefur TR heimildir til að breyta að eigin frumkvæði tekjuáætlun lífeyrisþega, án gildra röksemda?   Lítum aðeins á.

í Almannatryggingalögum nr. 100/2007, er fjallað um samskipti TR við lífeyrisþega.  Þar segir í 16. gr. að:   "Tryggingastofnun ríkisins skal upplýsa umsækjanda eða bótaþega um forsendur bótaútreiknings og gefa honum kost á að koma að athugasemdum."

Í því tilfelli sem hér er til umfjöllunar, uppfyllir TR ekki framangreinda lagaskylduÞeir upplýsa ekki á grundvelli hvaða lagaheimilda þeir breyta einhliða tekjuáætlun þeirri sem ég hafði ekki séð neina ástæðu til að breyta. Þetta fellur einkar illa að ákvæðum 52. gr. þar sem segir eftirfarandi:

"Starfsfólk Tryggingastofnunar og umboðsmenn hennar skulu kynna sér til hlítar aðstæður umsækjenda og bótaþega og gera þeim grein fyrir ýtrasta rétti þeirra samkvæmt lögum þessum, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar."

Ekki verður betur séð en í því dæmi sem hér er til umfjöllunar, hefði uppfylling starfsfólks TR á þessu lagaákvæði fyrirbyggt þá vitleysu sem því tóks þarna að koma í framkvæmd, með því takmarkalausa virðingarleysi fyrir lífeyrisþeganum sem þessi heimskulega aðgerð ber glöggt vitni um.

Í 2. mgr. 52. gr. laga nr. 100/2007, segir eftirfarandi:

"Tryggingastofnun er heimilt, að fengnu skriflegu samþykki umsækjanda, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og bótaþega hjá skattyfirvöldum, greiðslur til umsækjanda og bótaþega hjá lífeyrissjóðum, hjá Atvinnuleysistryggingasjóði, Vinnumálastofnun og hjá sambærilegum stofnunum erlendis þegar það á við með rafrænum hætti eða á annan hátt."

Enginn fær útreikning lífeyrisréttinda hjá TR án þess að gefa þá heimild sem þarna er um rætt.  Í því felst einmitt skýringin á því að TR átti að vita strax í febrúar 2011 að ég var að fá greiðslur frá lífeyrissjóðum áfram, eins og tekjuáætlun mín og forskráning TR vegna tekjuáætlunar 2010 gaf til kynna. Ég óskaði ekki þeirrar breytingar á tekjuáætlun minni sem starfsmenn TR gerðu að eigin frumkvæði og á eigin ábyrgð, án þess að sinna skyldum sínum um  samlestur gagna, frá ofangreindum aðilum, eða kynna sér aðstæður mínar og gera mér grein fyrir áformum sínum um að breyta þeirri tekjuáætlun  sem var í gildi.

 

Það er sama hve oft ég les yfir lögin nr. 100/2007, ég get HVERGI fundið heimild fyrir TR til sjálfstæðra breytinga, að eigin frumkvæði, á þeim tekjuáætlunum sem í gangi hafa verið.   Í 2. mgr. 52. gr. laga nr. 100/2007, eru afar skýr ákvæði um skyldur lífeyrisþega til að veita TR heimild til að afla upplýsinga frá öllum helstu aðilum um tekju- eða launagreiðslur. Undir lok málsgreinarinnar segir svo eftirfarandi:

"Umsækjanda og bótaþega er skylt að tilkynna Tryggingastofnun [eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnuninni] um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á greiðslur."

Í lögum nr. 100/2007 er TR fengin heimild til að fylgjast með tekjum lífeyrisþega með samkeyrslu við skrár frá skattayfirvöldum. Skylt er að skila skattayfirvöldum mánaðarlega upplýsingum um tekjur.  Í því tilfelli sem hér um ræðir voru það tekjur frá lífeyrissjóðum sem TR tók sér vald til að þurrka út úr tekjuáætlun. En lífeyrissjóðir skila reglulega upplýsingum í greiðsluskrá skattayfirvalda, þannig að þar lág strax í upphafi árs fyrir að greiðslur héldu áfram frá lífeyrissjóðum. Ekki verður því betur séð en TR hafi, auk þess að fara í óleyfi og án allra rökheldra ástæðna í breytingar á tekjuáætlun minni, sniðgengið ákvæði 16. gr. laga nr. 100/2007, þar sem segir:

"Tryggingastofnun ríkisins skal hafa eftirlit með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem stofnunin aflar úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda eða frá öðrum þeim aðilum sem getið er um í 52. gr."

Augljóslega var þessari skyldu ekki sinnt og þar með brotið annað ákvæði 16. gr. um að:

"Tryggingastofnun ríkisins skal upplýsa umsækjanda eða bótaþega um forsendur bótaútreiknings og gefa honum kost á að koma að athugasemdum."

Útreikningur lífeyris hjá TR, fer fram í hverjum mánuði. Í útreikningi lífeyris míns fyrir desember 2010 er reiknað með greiðslu frá lífeyrissjóði eins og verið hafði allt árið. Frá TR var greitt: Ellilífeyrir kr. 29.294,  Tekjutrygging kr. 59.396.  Þessi greiðsla er of lág til þess að hún uppfylli skyldur stjórnvalda um greiðslu mannsæmandi lífeyris.  Árin á undan hafði ég verið í miklum bréfaskiptum við TR og Úrskurðarnefnd vegna þessara atriða, en hvorugur aðilinn hafði fyrir því, ekki með einu orði, að svara rökum mínum.

Samandregið eru athugasemdir þessar:

Í ársbyrjun 2011 breytir TR forsendum útreiknings lífeyris míns, án þess að upplýsa mig um breytingar á forsendum útreikningsins. Þar sem TR sendir ekki út greiðsluseðla, vissi ég ekki af þessari breytingu fyrr en ég fékk uppgjörið fyrir fáeinum dögum. 

Fyrir janúar 2011 greiðir TR Ellilífeyri kr. 29.294, Tekjutryggingu kr. 92.339,  Sérstök uppbót vegna framfærslu kr. 26.951. Þessum greiðslum heldur TR áfram allt árið, án þess að uppfylla skyldur 16. gr. um að upplýsa bótaþega um forsendur bótaútreiknings og gefa honum kost á að koma að athugasemdum.

Þrátt fyrir þessar breytingar, strax í janúar 2011, hvarflar ekki að TR að uppfylla skyldur 16. gr. laga nr. 100/2007 um að upplýsa bótaþega um forsendur bótaútreiknings og gefa honum kost á að koma að athugasemdum.

Því verður vart neitað, þegar litið er til þess sem greint er frá hér að framan, að TR umgengst forsendur lífeyrisgreiðslna af mjög sérstakri léttúð, óvandvirkni og afar miklum skorti á að virða lagaforsendur og persónu lífeyrisþegans.

Eins og skýrt kemur fram hér að framan, ber TR lagaleg skylda til að kynna lífeyrisþega hverja fyrirhugaða breytingu á útreikningum lífeyrisgreiðslna hans, og gefa honum tækifæri til að koma að athugasemdum.  Þessari skyldu sinni hefur TR ALLA TÍÐ BRUGÐIST í samskiptum sínum við undirritaðann, en það hefur samanlagt leitt til skerðingar á lífeyrisgreiðslum til mín sem reiknast trúlega á aðra milljón, fyrir utan það sem hér um ræðir.

Ég geri þá kröfu að TR geri á fullnægjandi hátt grein fyrir því hvaða forsendur voru fyrir þeirri breytingu sem þeir gerðu á tekjuáætlun minni í ársbyrjun 2011. Hvaða upplýsingar þeir höfðu um frávik frá því tekjuumhverfi sem var á árinu 2010 og var í síðustu greiðslu þess árs í desember 2010.

Ég tek það fram að ég tel hin hefðbundnu svör TR, sem ég hef fengið í gegnum tíðina, ekki vera boðleg og geri því kröfu um svör sem studd eru lagaheimildum um inngrip í lífeyrisgreiðslur mínar, og skýrum rökum þar um.

Verði ekki ásættanleg niðurstaða í þessu máli, mun ég EKKI eyða tíma mínum í að skrifa hinni tilgangslausu Úrskurðarnefnd, þar sem hún hefur þegar sýnt mér að hún virðir rök og lagareglur að engu, til að þóknast TR.

Með hliðsjón af því að þetta vinnulag TR hefur líklega áhrif á fleiri lífeyrisþega en mig einan, mun ég íhuga að leita álits dómstóla á þessum vinnubrögðum, verði skýringar TR ekki ásættanlegar.

Ég krefst einnig verulegra bóta vegna ólögmæts inngrips í fjármál mín, auk þess sem ég skora á TR að farið verði heilstætt yfir greiðslur til mín frá upphafi örorkugreiðslna til dagsins í dag. Ítrekað hef ég verið beittur ólögmætum aðgerðum, sem felldar hafa verið úr gildi eftir að ég kvartaði, en án þess að greiða mér bætur. Nú finnst mér komið að heildaruppgjöri og afar breyttum vinnubrögðum hjá TR í samskiptum við lífeyrisþega.

Virðingarfyllst

Reykjavík  28. júlí 2012

Guðbjörn Jónsson 


Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 151
  • Frá upphafi: 165757

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 141
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband