Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2016
19.11.2016 | 16:14
Opið bréf til Umboðsmanns Alþingis
Umboðsmaður Alþingis,
Templarasundi 5, 101 Reykjavík.
Reykjavík 19. nóv. 2016.
ERINDI: Ósk um skoðun raunverulegra valdheimilda svonefndra Úrskurðanefnda ýmissa málaflokka er varða samskipti almennings við stjórnkerfið.
Erindi þetta er sent yður með ósk um að þér beitið frumkvæðisrannsókn varðandi þær lagaforsendur sem kunna að vera fyrir nefndum Úrskurðarnefndum ýmissa málaflokka er varða samskipti einstaklinga, fyrirtækja og stofnana við þau ráðuneyti sem fara með viðkomandi málaflokk.
Sammerkt er með þeim málaflokkum sem undirritaður hefur kynnst, eða haft spurnir af, er að viðkomandi aðili verður óánægður með úrskurð undirstofnunar viðkomandi ráðuneytis. Í lögum um viðkomandi starfsemi er í flestum tilfellum settur fram sambærilegur texti, líkt hljóðandi og það sýnishorn sem hér er birt úr lögum um Almannatryggingar nr. 100/2007. Þar segir eftirfarandi í 7. gr.
7. gr. [Rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta eða greiðslna samkvæmt lögum þessum kveður sjálfstæð og óháð nefnd, úrskurðarnefnd almannatrygginga, upp úrskurð í málinu. Sama gildir um ágreining um endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu þeirra, sbr. 55. gr.]1)
Ráðherra skipar þrjá menn í nefndina og jafnmarga til vara til sex ára í senn. Hæstiréttur tilnefnir tvo menn. Skal annar þeirra uppfylla skilyrði um embættisgengi héraðsdómara og vera formaður nefndarinnar en hinn skal vera læknir og varaformaður hennar. Einn nefndarmanna skal skipaður án tilnefningar. Varamenn skulu tilnefndir á sama hátt og uppfylla sömu hæfisskilyrði og aðalmenn.
Í grundvallarlögum lýðveldis okkar, stjórnarskránni, lögum nr. 33/1944, er í 2. gr. skýr ákvæði um hvernig valdsþættir skiptast milli þriggja aðila og hverjir það eru sem hafa heimild til valdsákvörðunar í hverjum hinna þriggja liða. Í fyrsta lið fer Forseti Íslands og Alþingi með löggjafarvaldið. Í öðrum lið fara Forseti Íslands og ráðherrar með framkvæmdavaldið. Í þriðja lið fara dómendur, með dómsvaldið.
Í 59. gr. stjórnarskrár segir að: Skipun dómsvaldsins verður eigi ákveðin nema með lögum.
Lítum þá nánar á það sem segir í 7. gr. laga nr. 100/2007. Þar er sagt að: Rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta eða greiðslna samkvæmt lögum þessum kveður sjálfstæð og óháð nefnd, úrskurðarnefnd almannatrygginga, upp úrskurð í málinu.
Um þá nefnd sem þarna er tiltekin segir í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 100/2007, að: Ráðherra skipar þrjá menn í nefndina og jafnmarga til vara.
Þegar maður les svona texta í nýlegum lögum frá Alþingi, getur maður ekki annað en spurt sig hvort Alþingismenn séu svo ókunnir og ómeðvitaðir um mikilvægustu ákvæði grundvallarlaga samfélags okkar, stjórnarskrár Lýðveldisins, að þeir skili lagatexta frá sér með slíkum ágöllum sem þarna eru. Ráðherra skipuð nefnd, sem hvergi í lögum er skilgreind til dómsúrskurða, getur ekki samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár okkar, öðlast heimild til að fella úrkurð um þau ágreiningsatriði sem milli aðila máls standa.
Í 59. gr. stjórnarskrár segir að: >Skipun dómsvaldsins verður eigi ákveðin nema með lögum.<
Og í 60. gr. segir að: >Dómendur skera úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda.<
Eins og hér hefur verið rakið, verður ekki séð að Alþingi geti með lögmætum hætti veitt ráðherra valdheimild til skipunar nefndar, sem ætlað er það vald að skera úr um ágreining málsaðila við undirstofnun sama ráðherra og ætlað er það vald að skipa úrskurðaraðila innan eigin málaflokka. Í 70. gr. stjórnarskrár er afar skýrt ákvæði um grundvallarrétt þeirra er telja á rétt sinn hallað en þar segir:
70. gr. Öllum ber réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli ..
Þá ber einnig að geta þess að Dómendur eru SKIPAÐIR til starfa í lögboðnum dómstólum. Í 20 gr. stjórnarskrár segir að: Forseti lýðveldisins veitir þau embætti, er lög mæla.
Engan má skipa embættismann, nema hann hafi íslenskan ríkisborgararétt. Embættismaður hver skal vinna eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni.
Eins og hér hefur verið rakið, verða því ekki fundnar heimildir í stjórnarskrá að ráðherra skipaðar úrskurðarnefndir, utan dómstólasviðs og án skýrra sjálfstæðra laga um starfsreglur og skyldur slíkrar nefndar, geti fellt aðfararhæfa bindandi úrskurði í deilumáli einhvers aðila við undirstofnun sama ráðherra og skipaði nefndina. Að mati undirritaðs getur slík nefnd ekki með nokkurum rétti fellt íþyngjandi úrskurði í þágu undirstofnunar þess ráðherra sem veitti þeim starfið. Slík er í beinni andstöðu við meginreglu stjórnarskrár landsins um óháðan og óhlutdrægan dómstól, sem tryggi svo sem kostur er öllum þann rétt sem öllum ber, samkvæmt 70. gr. stjórnarskrár.
Stöðugt er verið að beita þessum meintu ólögmætu úrskurðarnefndum gegn fólkinu en ekki farin hin eðlilega leið 70. gr. stjórnarskrár að ljúka ágreining með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli ..
Það er von undirritaðs, að með því að vekja á þennan hátt athygli yðar á þessum alvarlega ólögmætu aðgerðum, t. d. gegn varnarlausum viðskiptaaðilum Tryggingastofnunar ríkisins, munið þér skoða lagasetninguna um meint ólögmætt sjálfstætt dóms- eða úrskurðarkerfis, innan hvers ráðuneytis fyrir sig, sem þarna hefur verið komið á fót, bersýnilega utan ákvæða stjórnarskrár, laga og réttarfarsreglna lýðveldis okkar.
Undirritaður hefur orðið fyrir ólögmætum og óréttmætum úrskurði svona nefndar, þar sem ólögmætum úrskrði var beitt gegn undirrituðum, til að hafa af honum verulegan hluta lífeyrisgreiðslna hans um nokkurra ára skeið. Nokkuð oft verður vart við einkennilega úrskuði svona nefnda. Og síðast nú í liðinni viku mátti heyra að án réttlátrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli .., væri Póst og fjarskiptastofnun nú að hótað að taka af Útvarpi Sögu, senditíðni fyrir stærsta sendinn þeirra, þó heimildir til slíks verði ekki auðveldlega fundnar í lögum um viðkomandi ríkisstofnun.
Rekstraraðilum Útvarps Sögu mun vera vísað á að beina kvörtunum sínum til sjálfstæðrar >úrskurðarnefndar< Póst og fjarskiptastofnunar, sem felli endanlegan úrskurð, sem verði aðfararhæfur. Af lögum um Póst og fjarskiptastofnun verður ekki séð að stofnunin hafi heimild til geðþóttaákvarðana um hverjir verði sviptir starfsleyfi einstakra tíðnisviða. Óhætt er að segja að Útvarp Saga hafi skapað sér sess sem ein vinsælasta útvrpsstöð eldra fólks og öryrkja og margra fleiri hlustenda. Segja má að Útvarp Saga sé einn gagnvirkasti fjölmiðill landsins, því þar gefst hlustendum langur tími í viku hverri til að tjá skoðanir sínar, í beinni útsendingu, á stjórnarháttum og landsmálum almennt. Á Útvarpi Sögu fær fólk, innan eðlilegra kurteisismarka, að tjá skoðanir sínar mótbárulaust. Útvarp Saga er því í raun eina hlutlausa almenningsútvarp landsins og sem ein aðal útvarpsstöð aldraðra og öryrkja.
Undirritaður veit að þér getið ekki tekið þetta erindi beinlínis sem kvörtunaratriði. Hins vegar er ljóst að mikill fjöldi eldri borgara og öryrkja mundu vilja koma á framfæri við yður svona kvörtun vegna Útvarps Sögu, sem er nánast sú eina afþreying sem er í boði fyrir okkar tekjuaðstæður, þar sem lífeyrir okkar er tæplega fyrir nauðþurfta þörfum. Af þeim sökum stendur okkur ekki til boða þau skemmti- eða afþreyingaratriði sem leikhús, tónlistahús og aðrir skemmtistaðir bjóða uppá, fyrir þá sem hafa ráð á að eyða peningum í slíkt.
Ég veit ekki hvort einhverjir hafi kvartað til yðar vegna ótvírætt ólögmætra skerðinga á lífeyrisgreiðslum til okkar, frá ársbyrjn 2009, en þær skerðingar hafa aldrei verið leiðréttar. Og lögin um lífeyri okkar frá þeim tíma aldrei verið rétt framkvæmd síðan. Ég sendi yður líklega síðar samantekt sem ég sendi Alþingismönnum, þar sem undirritaður uppskar ein minnstu viðbrögð stjórnkerfis, sem hann hefur reynt á yfir 40 ára ferli sínum í baráttu fyrir þá sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Af sendingu erindisins á 63 þingmenn, féll ég eitt fjögurra stafa orð til baka, sem var TAKK og ekkert annað.
Bréf þetta er fyrst og fremst ætlaði til að vekja athygli yðar á þeirra alvarlegu yfirsjón sem gerð hefur verið með lagasetningu um sjálfstæðar Úrskurðarnefndir, ýmissa ráðuneyta í stjórnkerfi okkar og þeim alvarlegu réttarbrotum sem af þeim leiða.
Með vinsemd og virðingu,
Guðbjörn Jónsson, Fyrrv. ráðgjafi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.11.2016 | 15:04
Hælisleitendur, sérstakur Fjárlagaliður
Ég skal fúslega viðurkenna að ég varð meira en lítið undrandi þegar ég fann >hælisleitendur< sem sérstakan Fjárlagalið í ríkisbókhaldi okkar. Það hafði alveg farið fram hjá mér að þjóðin hefði verið spurð um hvort hún vildi taka á framfæri sitt einhvern fjölda sjálfskipaðra >hælisleitenda< og í það verkefni væri varið hluta af skatttekjum þjóðarinnar.
Hér er ég ekki að tala um að hverfa frá viðurkenndri neyðarhjálp við fólk sem lendir í raunverulegri neyð og leitar á náðir alþjóðlegra og viðurkenndra hjálparsamtaka. Hins vegar verður að viðurkenna að það er engin leið fyrir smáþjóð eins og Ísland, að ætla að bjarga öllum þeim sem sjálfir úrskurða sig hjálpar þurfi.
Það hefur hingað til sýnt sig að við getum ekki einu sinni hjálpað okkar eigin fólki, sem vegna langvarandi veikinda eða annarra atvika sem rænir fólk sjálfsaga og viljafestu til að sjá sjálu sér farborða.
Í dag er sagt að nokkur fjöldi Íslenskra ríkisborgara sé á vergangi, eigi hvergi höfði sínu skjól. Á sama tíma berast fréttir af því að heilbrigt ERLENT ferðafólk komi hingað og skrái sig sjálft hjálparþurfi. Þegar í stað er brugðist við og því fólki veitt húsaskjól, tekin íbúð á leigu, eða fáist ekki íbúð er fólkinu komið fyrir, á kostnað ríkisins, á einhverju hótelanna í borginni.
Það vakti athygli mína að ENGINN fjárlagaliður er sérmerktur Íslendingum sem ekki geta séð sér farborða. Íslending sem er hjálparþurfi, varðandi húsnæði, húsbúnað eða aðra útgjaldaliði sjálfstæðs lífs, er vísað á yfirfullt Gistiskýli Borgarinnar eða í Konukot, sem líka er þétt setið.
Þegar maður horfir á þessa smánarlegu framkomu gagnvart okkar eigin fólki, á sama tíma og erlendu ferðafólki, sem hingað kemur, fær sjálft að úrskurða sig hjálparþurfi. Það sjálft tekur því einhliða ákvörðun um að Íslenska ríkið skuli sjá þeim fyrir húsnæði sem teljist boðlegt heimili, fái allan eðlilegan kostnað greiddan auk vasapeninga, einnig fyrir börnin. Þegar við látum það spyrjast út í heim að hér geti fólk lifað á kostnað ríkisins í eitt ár eða meira og jafnframt unnið sér inn skattfríar tekjur, er viðbúið að aðsóknin aukist verulega. Erum við viðbúin að mæta öllum þeim kostnaði sem því fylgir fyrir ríkissjóð og skattgreiðendur? Þá er jafnframt eðlilegt að spurt sé hvort eðlilegt sé að ERLENT FÓLK, geti sjálft skilgreint sig hjálparþurfi, og sé þá sjálfkrafa skilgreint með friðhelgi hér á landi og jafnframt orðinn sem sjálfstæður fjárlagaliður?
Ég er ekki í neinum vafa um að nú rísa upp okkar þekktu öfgahópar sem virðast hafa það eina markmið að eyðileggja það samfélag sem hér hefur verið byggt upp í þokkalegri samstöðu þjóðarinnar. En þessu blessaða fólki sést yfir þá staðreynd að um leið og þeim tekst ætlunarverk sitt, hverfa þeim allar fjármögnunarleiðir sjálfu sér til framfærslu eða til greiðslu vegna baráttumála þeirra. Þá verður enginn ríkissjóður til að sækja í peninga, því ekkert samábyrgt samfélag væri að baki þeim ríkissjóði og enginn aðili sem hefði heimild til að krefja annað fólk um skattgreiðslur. Hinn stjórnlausi hópur yrði til, þar sem enginn: skóli, sjúkrastofnanir, velferðarþjóusta eða fjölskylduhjálp yrði til, umfram það sem fjölskyldurnar myndu sjálfar hjálpa sínu fólki.
En veltum okkur ekki meira upp úr þeirri stöðu, sem vonadi verður aldrei, og skoðum greiðslur ríkissjóðs undanfarin ár 2014 - 2016, til fjárlagaliðarains HÆLISLEITENDUR. Staðan lítur svona út:
Árið 2014.
Á Fjárlögum 464 milljónir
Á Fjáraukalögum 119,1 milljón
Samtals 2014 kr. 583,1 milljón krónur.
Árið 2015
Á Fjárlögum 757 milljónir
Á Fjáraukalögum 450 milljónir
Samtals 2014 kr.1.207 milljónir króna
Árið 2016
Á Fjárlögum 555,6 milljónir
Á Fjáraukalögum 640 milljónir
Samtals 2014 kr. 1.195,6 milljónir króna
Samtals hafa því fjárveitingar á fjárlögum framangreind ár, vegna >hælisleitenda< á eigin vegum, verið kr. 2.985,7 milljónir, sem skiptast þannig.
Á fjárlögum 2014-2016 kr. 1.776,6 milljónir
Á fjáraukalögum 2014-2016 kr. 1.209,1 milljónir
Útlendingastofnun er ekki búin að svara erindi mínu, sem varla er von. Þeir þurfa einhvert tíma til að taka þetta saman. Samkvæmt því sem hér kemur fram eru fjárheimildir þeirra á yfirstandandi ári vegna >hælisleitenda< samtals 1.195,6 milljónir. Hins vegar mun hafa heyrst í fjölmiðlum að kostnaður yfirstandandi árs sé kominn yfir 1.700 milljónir sem þýðir að hann er þegar kominn rúmar 500 milljónir króna fram úr fjárheimildum og enn er haldið áfram, og nú augljóslega með því að STELA FÉ ÚR RÍKISSJÓÐI.
Og enn er eftir einn og hálfur mánuður af árinu. Mér sýnist því stefna í að kostnaður vegna >hælisleitenda< fari á yfirstandandi ári nálæt 800 - 900 milljónum króna fram úr þegar samþykktum fjárheimildum sem fyrir hendi eru. Það þýðir í raun að 600 - 700 milljónum hafi verið stolið úr sameiginlegum sjóðum landsmanna, sem óbeinn rekstrarstyrkur fyrir þau flugfélög sem flytja hingað farþega sem ekki hafa fjárráð né önnur úrræði til að dveljast hér á landi, einkanlega á þessum árstíma.
Og þá kemur spurningin til Bjarna Ben, sem segir eldri borgara ekki eiga rétt á lögbundnum lífeyrisgreiðslu og þar með fullum leiðréttingum aftur til upphafs ársins 2009.
Ertu enn sama sinnis um að það sé ekki hægt að gera betur í málefnum eldri borgara? Eru það bara kjararáð æðstu stjórnenda landsins og Útlendingastofnun, sem hafa frjálsa heimild til að brjóta 41. gr. stjórnarskrár, eins mikið og eins oft og þeim finnst þörf á? Erum við, eldri borgarar þessa lands svo réttlaus hér, miðað við réttarstöðu óviðkomandi fólks sem hingað kemur á eigin vegum, án þess að geta framfleitt sér, að við eigum ekki rétt á að fá það sem af okkur var ÓLÖGLEGA TEKIÐ á árunum 2009 og fram á þennan dag? Ganga svonefndir >hælisleitendur< fyrir?
En fyrst að hægt er að stela peningum úr sameiginlegum sjóðum okkar allra, til launahækkana æðstu stjórnenda landsins, upp á tvöfaldan til þrefandan brúttó lífeyri eldri borgara, stela einnig úr sameiginlegum sjóðum til að hýsa og halda uppi erlendu fólki sem engar kröfur á til okkar sameiginlegu sjóða. - Hvers vegna er þá ekki einnig hægt að stela úr sameiginlegum sjóðum okkar til leiðréttingar á þeim þjófnaði sem framkvæmdur var, utan allra lagaheimilda, með atbeina fjármálaráðuneytis, er lífeyri okkar eldri borgara þessa lands var skertur. Já Bjarni minn. Nú vil ég fá hreinskilin svör, ekki útúrsnúning.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.11.2016 | 15:16
Bréf til Útlendingastofnunar
Útlendingastofnun.
Skógarhlíð, 101 Reykjavík
Komið þið sæl!
8.11.2016 | 12:59
Þegar illvilji beitir sér, fær sannleikur litla áheyrn.
Ég hef undrast verulega að Ríkissaksóknari skuli ekki hafa tekið til rannsóknar afar fólskulega árás Sænska ríkissjónvarpsins s. l. vor, á eitt æðsta embætti stjórnkerfis Íslands. Árásin var hönnuð æfð og undirbúin af sjónvarpsmanninum Sven Bergman, starfsmanni Sænska ríkissjónvarpsins. Hann viðurkenndi í viðtali við Morgunblaðið að hafa hannað þessa árás til að hjálpa vini sínum.
Að undanförnu hafa borist fregnir af því að einhver blaðamannasamtök í Svíþjóð og Evrópu hafi veitt þessu GLÆPAVERKI Sænska sjónvarpsins viðurkenningu fyrir fagleg vinnubrögð og vel unnið verk. Ég ætla fyrst um sinn að leyfa mér að vona að verðlaun þessi hafi verið veitt vegna þess að umræddum samtökum hafi ekki verið rétt greint frá aðstæðum, frekar en að þessi samtök séu að leggja blessun sína yfir svo fólskulega árás á eitt æðsta embætti stjórnkerfis annars lands; árás sem að öllu leyti var byggð á aumkunarverðri lygasögu, sem meira að segja mátti greina í sjónvarpsþætti um málið, að rangt væri farið með mikilvægustu málsástæðurnar.
Í kastljósþættinum í byrjun apríl 2016 var því haldið fram að þáverandi forsætisráðherra Íslands, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (SDG), ætti leynifélag á aflandseyju, þar sem hann geymdi mikil auðæfi til að komast hjá skattgreiðslu. Þær heimildir sem sagðar voru fyrir þessum ásökunum voru ekki margar. Meðal annars hefur verið sýnt fram á fullar skattgreiðslur af öllum tekjum svo ekki er ljóst hvað átti að vera í felum.
Athyglisverðast við umfjöllun kastljóssins var þó að allar heimildir, um eign SDG á félagi á aflandseyju, voru birtar ólæsilegar. Þar var birt skjal sem átti að sýna að Lögfræðiþjónustan Mossak Fonseca (MF) hefði í nóvember 2007, að beiðni Landsbankans í Lux. tekið frá fyrir Landsbankann félagið Wintris Inc. Var þar um að ræða eitt þeirra félaga sem MF hafði stofnað rúmum mánuði fyrr, eða um miðjan október 2007. Landsbankinn gerði þá kröfu til MF að félagið yrði skráð þannig að SDG ætti 50% hluta í félaginu á móti sambýliskonu sinni, Önnu Sigurlaugu Pálsdóttur (ASP), sem ætti hinn 50%. eignarhlutann.
Þegar skjalið sem kastljós sýndi ólæsilegt, var sótt í gagnasafn Panamaskjala, kom í ljós að þetta var afrit af stofnsamning Wintris félagsins, þegar MF stofnaði félagið um miðjan október 2007, eða rúmum mánuði fyrr en kastljósmenn tilgreindu, sem var 27. nóvember 2007, Skjalið hafði verið falsað.
Það einkennilega við umfjöllun kastljóss um þetta meinta félag SDG, var að í sumum tilvikum var talað um að hann hefði keypt félagið af MF en í öðrum tilvikum var talað um að MF hefði stofnað félagið fyrir SDG og ASP. Hvorug tilvísunin var staðfest í þættinum vegna þess að ENGAR heimildir voru lagðar fram til staðfestingar þess að SDG hefði óskað aðstoðar MF við kaup eða stofnun slíks félags. Engar heimildir voru lagðar fram um að SDG hefði keypt félag.
Hins vegar var hið falsaða skjal sýnt án þess að hægt væri að lesa nokkuð af því. Átti það að sýna stofnsamning að félagi sem SDG og ASP hefðu stofnað. Skjalið var ekki undirritað af hvorugu þeirra. Skjalið var undirritað af þeim sem stofnuðu félagið um miðjan október 2007. Inn í reitinn þar sem rita átti nafn eiganda félagsins, hafði nafn stofnanda verið strokað út en í þess stað skrifað, með allt annarri leturgerð og leturstærð en var á öðru ritmáli skjalsins, nafn SDG. Nafn ASP var ritað á samskonar skjal.
Tvennt til viðbótar þessu vakti athygli mína og stórar efasemdir um heiðarleika þáttagerðarfólks í vinnubrögðum. Annars vegar að RÚV skyldi stilla SDG upp meðal þekktra einræðisherra og jafnað honum við glæpamann sem sæti í fangelsi. Slíkt ofstæki vekur upp hjá manni spurningar um andlegt heilbrigði þeirra sem vinna svona umfjöllun.
Hins vegar, var fullyrt að SDG ætti 50% í aflandsfélaginu Wintris á móti ASP. Engin eignaskjöl voru lögð fram með undirskrift SDG. Eina sönnunin sem lögð var fram var ólæsilegt form af hlutabréfi þar sem nafn SDG hafði verið skrifað inn á, án allra staðfestinga um að SDG hefði óskað eftir kaupum á nefndu félagi. Þegar formið að þessu hlutabréfi var sótt í gagnasafn Panamaskjala, kom ýmislegt merkilegt í ljós, sem aðalhöfundurinn Jóhannes Kr., hinn sænski Sven Bergman og kastljósmenn hafa klárlega allir vitað.
Í forminu að hlutabréfi í Wintris Inc. stóð skráð að stjórn félagsins hefði heimilað að hlutir í félaginu væru 50.000. Í umfjöllun kastljóss kom þetta ekki fram. Þar var sagt að SDG og ASP hefðu keypt 2.000 hluti í félaginu, og að með því hefðu þau keypt sitt hvor 50% í félaginu og ættu því allt félagið.
Sannleikur málsins var sá, að ef um kaup hefði verið að ræða, keyptir hefðu verið 2.000 hlutir í félaginu Wintris Inc., þá hefðu þau SDG og ASP verið að kaupa samanlagt 4% af heimiluðum hlutum félagsins, en ekki 100%, eins og kastljósmenn vildu halda fram, án allra haldbærra sannana. Og það sem meira var. Í texta hlutabréfsins kom einnig fram að þeir hlutir sem þar væru nefndir, tækju ekki gildi fyrr en kaupandinn hefði undirritað stofnsamninginn og skilað inn til skráningaraðila nýjum og undirrituðum samþykktum félagsins, eftir eigendabreytingar. Þessum skjölum var aldrei skilað inn til hins opinbera skráningaraðila. Þess vegna var umrætt félag aldrei skráð sem eign SDG og ASP.
Í kastljósþættinum var mikið mál gert úr því að SDG hefði átt aflandsfélag þegar hann hóf störf á Alþingi haustið 2009. Sýnir það best hve raunþekking var lítil hjá rannsakendum, á því málefni sem þeir voru að fjalla um. Þeir gerðu sér enga grein fyrir því að þeir söguð frá því í þættinum, að vorið 2009, átti Landsbankinn í Lux félagið Wintris Inc. og hann tók einn ákvarðanir um meðferð félagsins.
Vorið 2009, voru SDG og ASP einnig að flytja öll sín viðskipti frá Landsbanknum í Lux. til Credit Suiss, bankans í London, en þar voru þau búsett á þeim tíma. Samið var við Credit Suiss bankann í London um vistun og rekstur arfssjóðsins. Einnig var KPMG á Íslandi fengið til að sinna uppgjörum og skattframtali fyrir ASP, þannig að fagaðilar væru við hverja ákvörðun.
Á árinu 2008 virðist einhver ágreiningur hafa komið upp við Landsbankann í Lux. sem olli þeirri ákvörðun SDG og ASP að flytja bankaviðskipti sín annað. Þeir sem velta miklum fjárhæðum í viðskiptum sínum færa viðskipti sín ekki á einum eða tveimur dögum milli banka. Líklegast er að slíkt taki einn til þrjá mánuði. Hafi ákvörðun um færslu viðskipta verið tekin um áramótin 2008/2009, hafi uppgjöri og tilfærslu fjármagnsins lokið vorið 2009.
Komið hefur fram að vorið 2009 er öllum viðskiptum SDG og ASP lokið við Landsbankann í Lux. Viðskipti og fjárvörslu höfðu þau þá flutt til Credit Suiss bankans í London. Þar með lauk tilraun sem Landsbankinn í Lux. setti af stað undir lok nóvember 2007, í samvinnu við lögfræðistofu MF, að skipuleggja farveg til vörslu, ávöxtunar og fjárfestinga fyrir arfssjóðs ASP, var því einnig endanlega úr sögunni vorið 2009.
Í ársbyrjun 2009 var SDG kosinn formaður fyrir Framsóknarflokkinn. Á haustdögum sama ár 2009, tekur SDG sæti á Alþingi. Er það u. þ. b. hálfu ári eftir að viðskiptum hans lauk við Lansbankann í Lux. og viðskiptin flutt til Credit Suiss bankans í London.
AF HVERJU SELT Á 1 DOLLAR
Í kastljósþættinum var mikið lagt upp úr því að SDG hafði undir árslok 2009 undirritað skjal þar sem sagt var að hann seldi ASP sinn hlut í Wintris á 1 dollar. Í því sambandi var talað um að Wintris væri margra milljarða virði. Er það eitt gleggsta dæmið um að þeir sem þóttust vera að rannsaka þessi meintu aflandsskjöl kunnu ekkert að lesa saman aðstæður. Hver var þá ástæðan fyrir þessu skjali um 1 dollars sölu, sem SDG undirritar.
Uppruni þeirrar ástæðu er að fulltrúi Landsbankans í Luxumburg, sem var að skipuleggja viðskiptastöðu fyrir ASP, taldi best að stofna aflandsfélag, líkt og oft hafði verið gert fyrir fólk sem var að flytja peninga og koma þeim í skjól. Þar misskildi fulltrúi Landsbankans beiðni ASP, sem var ekki að leita að felustað fyrir peningana. En þegar fulltrúinn var að skoða þetta, er ASP komin heim til sín í London og veit því ekkert hvað fulltrúinn hefst að.
Fulltrúinn hins vegar skoðar viðskiptauppsetningu ASP í viðskiptaskrá bankans og sér að hún og SDG eru með sama bankareikninginn. Af því ályktar hann að þau séu hjón og í því ljósi sé eðlilegt að skrá félagið á þau bæði. Fulltrúi Landsbankans spyr hvorugt þeirra, SDG eða ASP, leyfis fyrir þessari ákvörðun sinni. Og þar sem aldrei var gengið frá eignarskráningu félagsins til þeirra, vissu þau hvorugt að í skjölum Landsbankans í Luxumburg og lögfræðistofu MF væru þau bæði skráð eigendur Wintris. Þau vissu að þau höfðu aldrei undirritað nein skjöl þar að lútandi, því gat félagið ekki verið skráð eign þeirra hjá hinum opinbera skráningaraðila. Eingfærslan var hins vegar skráð í bókhaldi Landsbankans, sem var fyrir hrun. Sú eignaskráningin hafði yfirfærst yfir í nýja bankann, með yfirtöku allra bókhaldslykla viðskiptaaðila bankans. Og þar hafði yfirfærst sú skráning að SDG ætti helming í félaginu Wintris; færsla sem ekki var hægt að breyta með venjulegri leiðréttingarfærslum.
Þegar bókhaldslega er staðið frammi fyrir svona aðstæðum er í raun ekkert annað hægt að gera en búa til færsluskjal þar sem eignaskráningunni er breytt. Til að skjalið teljist löglegt fylgiskjal í bókhaldinu þarf skjalið að vera í formi sölusamnings, þar sem skráður eigandi selur öðrum aðila sinn skráða hlut. Verðgildið má ekki vera núll, því tölvukerfið tekur ekki viðskiptafærslu upp á núll krónur. Þar sem ekkert sjálfstætt félag, með sjálfstæða kennitölu, var í raun til og því ekkert verðmæti að selja, var sölutalan sett á einn dollar, svo tölvan tæki við færslunni og hin vitlausa skráning mundi leiðréttast. Undir þessa færslu urðu bæði SDG og ASP að skrifa svo hún væri lögleg ef til endurskoðunar kæmi.
JÁ EN, WINTRIS FÉLAGIÐ ER TIL?
En nú segja eflaust einhverjir. Já en Wintrisfélagið er til, þau þræta ekkert fyrir það. Hvernig getur það passað við það sem hér hefur verið sagt.
Lítum enn einu sinni til upphafsins. Arfurinn er greiddur ASP síðla haust 2007 og lagður inn á hennar reikning í viðskiptabanka hennar, sem var á þeim tíma Landsbankinn í Lux. Þó ekki væri búið að ganga frá stofnun sjálfstæðs hlutafélags til að annast ávöxtun og rekstur arfssjóðsins, þá varð strax að koma einhverju bráðabirgða formi á svo viðskiptin þyrftu ekki að fara fram á nafni ASP. Fyrst Landsbankinn í Lux. hafði sótt um að fá nafnið Wintris á hlutafélgið, sem ætlunin var að stofna, var náttúrlega alveg tilvalið að nefna einkafélag ASP, sem hefja mundi reksturinn, sama nafni og hlutafélagið mundi bera. Þá þyrftu engar nafnabreytingar að fara fram á þeim viðskiptum sem í gang yrðu komin þegar hlutafélagið yrði klárt.
Einkafélög eru algeng hjá fólki sem ekki er að hugsa um skattahagræði af því að hafa hlutafélag til að lækka skattana og færa tapáhættuna frá eigin tapi eiganda. Ég þekki til nokkuð margra slíkra og m. a. átti konan mín slíkt félag í nokkur ár, áður en einkahlutafélag var stofnað. Fyrirkomulag einkafélags passar algjörlega við þær lýsingar sem þau hafa gefið varðandi skráningu eigna og skulda slíks félags. Slíkt félag er ekki sjálfstæður skattaðili, heldur er rekstur þess gerður upp með sérstökum rekstrarreikningi, innan skattframtals eiganda, í þessu tilefni ASP.
Þær lýsingar sem þau gefa á því hvernig eignir ASP séu færðar inn í félagið sem eignfærsla þess en sem mótfærsla færist skuld félagsins við ASP, upp á nákvæmlega sömu upphæð. Formlega hliðin á þessu er sú að ASP lánar einkafélaginu (sem hún á sjálf) ákveðna X upphæð, sem félagið á að ávaxta og fjárfesta til hagsbóta fyrir eiganda félagsins. Þar sem ASP hefur látið félagi sínu í té megnið af eignafé sínu, er skráð hjá félginu sama upphæð sem skuld við ASP. Slík krafa frá henni, sem eiganda félagsins, er líklega þinglýst sem fyrsta krafa á hendur félaginu. Engir kröfuaðilar geta því komist í forgangskröfu á hendur félaginu og fengið þannig aðgang að fjármagni sem félagið væri með í veltu sinni.
Á sama máta gerist ef eignaaukning verður hjá félaginu á árinu, þá hækkar eignfærsla eiganda. Ef tekjuafgangur verður á árinu hjá einkafélagi, þýðir það að hagnaður hefur orðið af rekstri þess. Færist sá hagnaður þá sem tekjur í skattframtal hjá eiganda félagsins. Ef hins vegar yrði taprekstur hjá félaginu á árinu, færðist það sem tap í skattframtal eiganda. Þar sem hlutafélagið Wintris var aldrei formlega stofnað, er reksturinn enn að öllu leyti innan skattframtals eiganda, sem nú er orðin eiginkona SDG, eftir að þau giftu sig árið 2010.
ER ÞAÐ HEILBRIGT AÐ LAUNA GOTT MEÐ ILLU?
Það er afar sorglegt að hugsa til þess að í þjóðfélagi okkar skuli vera til svo illviljandi fólk að það spinni upp mikinn lygavef gagnvart eina manninum sem hafði kjark, styrkleika og þekkingarlega getu, til að standa svo í vegi fyrir risavöxnum fjármálaöflum, sem höfðu sett stefnuna á að knésetja þjóðina og hirða af henni allar tekjugefandi auðlindir og leigja henni svo aftur nýtingarrétt þeirra á okurverði. Með slíku hefði hér orðið til frambúðar fátæktarríki, einskonar þrælanýlenda fjármagnsaflanna, sem hirða mundu allan afrakstur af erfiði þjóðarinnar.
Fólk virðist vera búið að gleyma því að þessi maður stóð um tíma einn gegn því ofurefli sem að þjóðinni sótti. Það ofurefli var nógu öflugt til að setja Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, Evrópusambandið, frændþjóðir okkar á Norðurlöndum o. fl. í slíkan gapastokk að ekki nokkur aðili þorði að rétta okkur hjálparhönd, nema Færeyingar. Þeir létu ekki múta sér. Þessi maður sem umtalsverður hluti þjóðarinnar grýtir nú, og vill ekki að hann komi nálægt landsmálum, fór aleinn á fund Lávarðardeildar Breska þingsins þegar forsætisráðherra Breta skellti á land okkar hryðjuverkalögum og setti okkur á bekk með hryðjuverkaöflum heimsins. Sagt var að hann hefði fengið þrefaldan fundartíma hjá lágvarðardeildinni og í framhaldi af því beygði forsætisráðherra Breta af leið sinni.
Þessi maður steig fram og mótmælti IceSave samningum. Upphafleg ætlun vogunarsjóðanna með þeim samning var, að skapa hér einskonar þrælanýlendu, þar sem endurgreiðslukröfur vegna erlendra lána yrðu hærri en við ættum möguleika á að greiða. Samfélag okkar mundi því ekkert gera annað en moka til þeirra megninu af þeim peningum sem við öfluðum.
Þarna var þjóðin aðeins farin að þora að fylgja í kjölfar hans og hafnaði IceSave samningum, ekki bara einu sinni, heldur þrisvar. Þá voru vogunnarsjóðirnir komnir í þrönga stöðu. Einungis var einn möguleiki eftir til að ná tökum á auðlindum landsins, en það var í gegnum slitabú gömlu bankanna. Þar töldu þeir sig eiga rétt á hundruðum milljarða í bætur, þó þeir hefðu engri krónu fórnað í bankahruninu, því þeir komu inn í hóp kröfuhafa eftir hrunið er þeir keyptu eins marga eignarhluti og þeir gátu komist yfir, fyrir langt innan við 10% af raunvirði þeirra.
Þegar þeir höfðu náð að kaupa allt sem til sölu var, hófu þeir grimmilegar verðgildishækkanir hluta sinna. Þegar þeir náðu ekki lengra þar, vildu þeir fá verulega miklar bætur frá ríkinu í ofanálag. Aðeins einn maður í stjórnmálunum var af einurð ósammála þessu. Hann fullyrti að slitabúin ættu að greiða ríkinu og Vogunarsjóðirnir að skila verulegum hluta þeirra verðmæta sem þeir höfðu margfaldað eignastöðu sína. Fáir trúðu á þessi orð unga og óreynda mannsins, sem þarna þó var orðinn forsætisráðherra. Hann stóð hins vegar ókvikull að baki þeirri samninganefnd sem hann skipaði og hvatti þá til að ganga eins langt og þeir gætu, og helst aðeins lengra. Aldrei lét hann á því bera að svona hörð framganga gagnvart slitabúnum og vogunarsjóðum mundi kosta konu hans meira tap en ella hefði verið. Og sannanlega tapaði hún á harðri framgöngu manns síns, en þjóðin græddi.
MÚGSEFJUN OG LINNULAUST EINELTI
Blekið var hins vegar ekki þornað á samkomulagi við vogunarsjóðina um umtalsvert hærri greiðslur til ríkissjóðs en nokkur hafði þorað að vona, þegar mikið írafár greip um sig meðal þjóðarinnar. Mannfjöldi hópaðist saman í Austurvelli til að hrópa á afsögn ríkisstjórnar vegna spillingar, sem aðallega var tengd við þann sem áður hafði bjargað þjóðinni frá örbirgð. Sigur á vogunnarsjóðunum upp á rúmar 600 milljarða skipti nú engu máli vegna þess að maður, sem fyrir u. þ. b. ári var rekinn frá RÚV, líklega vegna óvandaðra vinnubragða, var nú allt í einu orðinn sannleiksgyðja þjóðarinnar, sem enginn sá ástæðu til að véfengja. Rannsókn var óþörf, dómstólakerfið var óþarft, mannréttindi voru bara fyrir. Ekkert af því sem maðurinn hafði gert fyrir þjóð sína kom til álita sem málsbót, eða þó ekki væri annað en smá umburðarlindi meðan málið væri rannsakað.
Þegar heimsþekktur samningamaður um bætur milli þjóða vegna hruns fjármálakerfa, lét þau orð falla að hann hefði aldrei upplifað slíkan samning. Að þjóð næði öllu til baka sem hún hefði látið af mörkum. En þjóðin leit ekki við slíkum fréttum. Það var ekkert sem hún þurfti að gleðjast yfir.
Skyndilega varð allt sem þessi maður hafði áorkað fyrir þjóð sína, einskis virði, vegna þess að einn ógæfumaður, sem virðist nærast á því að ræna fólk æru og trúverðugleika, bjó til svo útsmogna lygasögu, sem hann reyndar sannaði meira að segja sjálfur í frásögn sinni að væri lygasaga, eins og að hluta er rakið hér að framan.
Það hefur verið hrein viðurstyggð að upplifa þá heimsku, mannvonsku, já og hreinan illvilja, sem tröllriðið hefur fjölmiðlum og samfélagsmiðlum þessa lands undanfarna mánuði. Því miður hefur sá hópur sem biður um sannleika og opinbera rannsókn á þessu máli orðið undir, því fjölmennið hefur verið mikið í þeim herskáa hópi sem rænt hefur þennan mann æru og starfi, án þess að geta stutt árás sína eða dómhörku með einu einasta dómtæku sönnunarskjali. Ég hef spurt marga úr árásarhópnum hvort þeir væru sáttir við svona sönnunarfærslu gagnvart ærunýði eða útskúfunardómi á þá sjálfa? Enginn hefur enn svarað því til hvort þeir myndu samþykkja andmælalaust slíkum dómi. Samt er haldið áfram þó löngu sé orðið ljóst að þessi maður mun ekki beygja sig fyrir lygi. Til slíks hefur hann enga ástæðu. Og fjandmenn hans hafa engin haldbær rök eða sannair fyrir máli sínu. Þeir geta bara öskrað úr fjarlæg, oft nafnlaust, því þeir treysta sér ekki að standa undir eigin óþverraskap, vegna hugleysis.
Það er í raun mjög alvarlegt mál fyrir þjóðfélag, þegar hugsunarlaus illvilji meðal þegnanna er kominn á svo alvarlegt stig sem sýnt hefur sig í þessu máli. Upphafsmaður lyginnar var látinn hætta störfum hjá RÚV í kjölfar alvarlegrar árásar á fjölskyldu, er hann rústaði mannorði þeirra og lífsstarfi. Hvers vegna Ríkisútvarpið lagði í þá vegferð að taka trúanlega sönnunarlausa lygasögu þess manns, sem þeir voru nýbúnir að reka vegna óheiðarlegrar starfsemi, verður trúlega seint svarað. En meðan það fólk sem þessu réði og átti að ráða, breiðir verndarhjúp yfir þennan glæp, er Ríkisútvarpið algjörlega svipt öllum trúverðugleika og hefur að fullu fyrirgert rétti sínum til að vera til.
Ekkert getur héðan af bjargað RÚV frá þessari smán, annað en algjör hreinsun úr öllum stjórnunarstörfum sem ábyrgð bera, eða eiga að bera, vegna svona glæps. Nýr menntamálaráherra verður spurður út í þessi atriði. Einnig verður nýr Innanríkisráðherra spurður út í afskiptaleysi Ríkissaksóknara. Dálítið merkilegt er, að Ríkissaksóknari skuli hafa brugðist hratt við einfaldri lítilli fjárkúgun á heimili þessa manns. En þegar erlend sjónvarpsstöð í eigu vinaþjóðar, ræðst með undirferli, blekkingum og hreinum óþverraskap á þennan sama mann, í embætti forsætisráðherra, og dreifir því til flestra landa jarðarinnar, þá kemur Ríkissaksóknara málið ekki við. Innanríkisráðherra verður spurður út í þessa mismunun. Að eitt æðsta embætti stjórnkerfis okkar eigi sér ekki neitt nálægt því jafn trausta vörn í réttarkerfi landsins og einkaheimili embættismanna. Er það ekki eitthvað sem verður að skýra með traustum rökum?
Guðbjörn Jónsson kt. 101041-3289 Fyrrv. ráðgjafi
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Nýjustu færslur
- Álfagangur varðandi lángtímaleigu á Álfabakka 2?
- EES samningur og ætlað vald ESB
- Efnahags og viðskiptanefnd Alþingis 2021 / Hver er þekking ál...
- Þjóð án fyrirhyggju og dómgreindar: Fyrirlestur saminn og flu...
- Þetta jaðrar við hættulegt ábyrðarleysi hjá fomanni stærsta s...
- BREYTING ER NAUÐSYN TIL BETRA LÍFS
- YFIRSTJÓRN SEÐLABANKANS Lög 2019
- EES samningur og ætlað vald ESB
Eldri færslur
2025
2024
2023
2022
2021
2020
2019
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.1.): 3
- Sl. sólarhring: 10
- Sl. viku: 151
- Frá upphafi: 165757
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 141
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- alla
- framtid
- mammzan
- hallgrimurg
- huldumenn
- jaxlinn
- johanneliasson
- maggij
- photo
- haukurn
- runar-karvel
- sigrunsigur
- skodunmin
- svarthamar
- vestskafttenor
- athb
- thjodarsalin
- seiken
- skinogskurir
- bjarkitryggva
- bjarnimax
- brahim
- gattin
- einarhardarson
- einarorneinars
- bofs
- dramb
- haddi9001
- heimssyn
- tofraljos
- don
- hordurvald
- fun
- visaskvisa
- huxa
- jonasphreinsson
- jonl
- jobbi1
- jonvalurjensson
- jonthorolafsson
- josefsmari
- juliusbearsson
- ksh
- kolbrunerin
- kristbjorg
- liu
- skrafarinn
- maggiraggi
- markusth
- os
- raksig
- rosaadalsteinsdottir
- fullvalda
- siggileelewis
- duddi9
- siggith
- saemi7
- tryggvigunnarhansen
- vga
- thjodarheidur