Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2016

ENN TEKST FJÖLMIÐLAMÖNNUM AÐ EYÐILEGGJA MANNORÐ SAKLAUSS MANNS.

Á meðan mesti hasar átaka stendur yfir eins og þeirra sem fram fóru hér síðustu daga, er afar vonlítið að koma á framfæri sjónarmiðum sem ekki falla að þeirri hugmyndalínu sem er undirstaða æsingsins. Það er því fyrst núna sem mögulegt er að fólk gefi sér andrúm til að skoða önnur sjónarmið, sem komust ekki að meðan hasarinn var mestur. En hvað var þá athugavert eða gæti talist vanhugsað í hasar undanfarinna daga?

Frá mínum sjónarhóli virðast meginátökin snúast um tvenn sjónarmið. Annars vegar að ríkir menn, eða auðmenn, eigi ekki að vera í pólitík vegna þess að þeir hafi öðruvísi hagsmuni en fólk almennt hefur. Hæfileiki til að láta gott af sér leiða hefur í raun ekkert með peningana að gera, heldur snýst um upplag og eðlislægan vilja viðkomandi einstaklings. Ríkur einstaklingur gæti t. d. náð umtalsvert betri árangri fyrir fólkið í landinu, gagnvart fjármálaöflunum, því þau gætu ekki ógnað honum með því að loka lántökuleiðum hans og gjaldfellingu lána. Hann skuldar bönkunum ekki neitt, frekar gæti verið að bankarnir skulduðu honum.

Hinn þátturinn sem mér virðist mjög ráða afstöðu fólks er sú fullyrðing sem sett hefur verið fram t. d. í sambandi við fyrrverandi forsætisráðaherra, Sigmund Davíð Gunnlaugsson og konu hans. Fullyrt er að fyrst SDG sé giftur og enginn kaupmáli sé í spilinu, þá EIGI SDG 50% í félagi konu sinnar, þó hann hafi afsalað hinum skráða eignarhluta til hennar árið 2009.

Þessi fullyrðing stenst ekki því í hjúskaparlögum er tekið mjög skýrt til orða varðandi sameiginlegar skyldur hjóna. Í 4. gr. laganna er ákvæði um Forræði eigna og skuldaábyrgð.“ Þar segir svo um eignir hjóna:

  1. gr. Hvort hjóna ræður yfir eign sinni og svarar til skulda sinna eftir því sem nánar er fyrir mælt í lögum.

Þarna kemur skýrt fram að hvort hjóna fyrir sig ræður yfir eign sinni. Það staðfestir fullkomlega það sem SDG hefur ítrekað haldið fram, að þegar mistökin við skráningu félagsins var loksins leiðrétt með því að hann afsalaði sér þeim eignarhlut sem á hans nafn var skráð. Þar sem engar eignir til hans höfðu greiðst inn til félagsins var eignastaða hans engin í félaginu. Ef hann hefði afsalað sér þeim hlut sem á hann var skráður fyrir 0 krónur, hefði það verið talin vera gjöf til Önnu, sem skatturinn hefði metið sem 50% af bókfærðu verðmæti félagsins. Skatturinn hefði síðan reiknað Önnu S. Pálsdóttur gjöfina til tekjuauka á árinu 2009. Með því að selja hlutinn á 1 dollar, fær salan viðskiptalega stöðu í framtalslegu tilliti hjá skattinum og færð Önnu til eignaaukningar en ekki til tekjuaukningar. Hver reynir ekki að fara ódýrustu leiðina í gegnum skattalega umhverfið? Það ætti þjóðin að þekkja því líkur benda til að undanskot frá skatti hér eru ótrúlega mikil.

En við vorum að skoða á hvaða vegu almenn fjárhagsleg tengsl hjóna eru. Heyrst hefur t. d. að fyrst SDG og Anna S. Pálsdóttir séu gift, teljist félagið og eignir þess vera sameign þeirra. Af þeirri ástæðu hafi SDG verið skylt að gefa upp til hagsmunaskrár Alþingis 50% eignarhlut sinn í félaginu.

Þetta er ekki rétt. 4. gr. hjúskaparlaga, sem vísað er í hér að framan, skýrir ótvíræð yfirráð annars hjóna yfir eignum sínum en sameiginleg skylda hjóna er t. d. skilgreind í 2. mgr. 2. gr. hjúskaparlaga, en þar segir eftirfarandi:

(áhersluletrun G.J.)

„Hjón eiga í sameiningu að annast uppeldi barna sinna, sjá þeim farborða og hjálpast að við að framfæra fjölskylduna með fjárframlögum, vinnu á heimili og á annan hátt.“

Einnig segir í 1. mgr. 3. gr. húskaparlaga að:

„3. gr. Hjón skulu skipta milli sín verkefnum á heimili eftir föngum, svo og útgjöldum vegna heimilisrekstrar og framfærslu fjölskyldu.“

Þarna kemur skýrt fram að við hjónaband myndast einskonar „sjálfstætt fjárfélag“ sem hjónin bera ábyrgð á að jöfnu. Hjónunum ber að leggja þessu fjárfélagi til tekjur til greiðslu rekstrargjalda fjölskyldunnar, en þar fyrir utan getur hvort þeirra um sig átt eignir sem hinn aðilinn á engan rétt á aðgangi að.

Þegar grannt er skoðað kemur í ljós að SDG sagði í öllum aðalatriðum satt og rétt frá varðandi þau eigna eða hagsmunaréttindi sem að honum sneru og honum var skylt að upplýsa Alþingi um á árinu 2010.

Í öllum þessum árásum á æru og trúverðugleika SDG hefur aldrei verið reynt að tengja hann við annað félag í skattaskjólum en félagið Wintris, sem stofnað var til varðveislu og ávöxtunar á arfgreiðslu til Önnu S. Pálsdóttur. Fyrir mistök bankamanns hjá Landsbanka í Lux. var SDG skráður helmings eigandi félagsins þó ekki væri gert ráð fyrir neinum eignum frá honum inn í félagið og ekkert fjármálalegt samband milli SDG og sambýliskonu hans.

Það vekur sérstaka undrun mína hve mikil harka er lögð í að véfengja að framangreind skráning SDG sem helmingseiganda í Wintris hafi verið mistök bankastarfsmanns í Landsbanka Lux. Hins vegar hafa á engan máta verið véfengdar upplýsingar frá öðrum aðilum, sem einnig höfðu látið Landsbankann í Lux. stofna fyrir sig félög, en aðilar hafa stigið fram og upplýst um samskonar eða sambærileg mistök bankans og um ræðir í tilviki SDG. Engin skýring er gefin á því hvers vegna SDG sé talinn segja ósatt en hinir segi satt?

Í þeim kastljósþætti sem sýndur var sunnudaginn 3. apríl 2016, brutu kastljósmenn afar alvarlega, kurteisis, jafnræðis og sannleika regluna í lögum um Ríkisútvarpið. Jóhannes Kr. hjá Reykjavik Media gerði sig hins vegar brotlegan á svo mörgum sviðum, bæði séð frá lögum um blaðamenn og fjölmiðla, stjórnarskrá varðandi mannréttindi, hegningalög varðandi ærumeiðingar og Sakamálalög vegna óheimilar innrásar á lokaðan einkafund forsætisráðherra með sænskum fréttamanni. Þar veittist Jóhannes að forsætisráðherra með frekju og dónaskap sem vel líklega verður kennsluefni um það hvernig ekki eigi að koma fram við æðstu stjórnendur ríkis.

Í þessum pistli hefur einungis að litlu leyti verið raktar rangfærslur og bein ósannindi sem viðhöfð hafa verið í þessum árásum á SDG til að ræna hann ærunni, embættinu og fella ríkisstjórn sem allt benti til að mundi starfa til loka kjörtímabils. Ekki er óhugsandi að bótakrafa geti skapast á hendur Ríkisútvarpinu og Jóhannesi, ásamt hinum Þýska fréttamanni Þýsks stórblaðs, sem sagt er vera dreifingar- og aðal úrvinnsluaðili Panamaskjalanna. Þá verður athyglisvert að sjá hvernig Sænsk stjórnvöld líta þá staðreynd að Sænskur fréttamaður hafi greinilega aðstoðaði Jóhannes við ólögmæta innrás hans á lokaðan einkafund forsætisráðherra Íslands. Hann aðstoðaði Jóhannes við innrásina með því að víkja úr sæti spyrils og hleypa Jóhannesi þar að. Hinn sænksi fjölmiðlamaður braut einnig alvarlega af sér gagnvart forsætisráðherra með því að taka upp á myndband, án heimildar forsætisráðherra, yfirgang og frekju Jóhannesar gagnvart forsætisráðherra og dreifði þeirri upptöku til fjölmiðla, án heimilar forsætisráðherra. Við slíku broti hlýtur einnig að liggja umtalsverð refsing, sem vart getur annað en aukist þegar um erlendan fjölmiðlamann er að ræða sem aðstoðar við ólögmæta aðför að forsætisráðherra landsins.

Það mun koma í ljós hvernig ríkisstjórnir Þýskalands og Svíþjóðar meta slíka framkomu þegna sinna við forsætisráðherra vinaþjóðar.


Árás ríkisfjölmiðils á forsætisráðherra þjóðarinnar utan laga og réttarfarsreglna.

Ágætu þingmenn. 

Ég þykist vita að ykkur sé heitt í hamsi og hyggist hefja átök við forsætisráðherra þjóðarinnar vegna meintra vanefnda hans á upplýsingagjöf til skrifstofu þingsins varðandi aflandsfélag á Tortola eyju, til geymslu á arfi núverandi kona hans, eins og ítarlega hefur verið rætt að undanförnu.
 
Það sem mér ofbýður hins vegar er framkoma ríkisútvarpsins í þessu máli.  Væntanlega er enginn þingmaður svo fjarri umræðunni um skattaskjól að þið séuð ekki meðvituð um að Skattrannsóknarstjóri er í u.þ.b. heilt ár búinn að leita eftir að fá gögn um meint undanskot eða misferli í tengslum við þessi umtöluðu skattaskjól.
 
Í Kastljósþætti Ríkisútvarpsins Sunnudaginn 3. apríl 2016, kl. 18:00, kom fram að starfsmenn kastljóss hjá ríkissjónvarpinu hafa í marga mánuði haft undir höndum umfangsmikil gögn, að þeirra eigin sögn vera um eða yfir ein milljón skjala, þar sem fram komi umtalsvert af vafasömum viðskiptum 600 Íslendinga tengdum 800 aflandsfélögum.  Gögnum þessum virðast þessir starfsmenn ríkisútvarpsins ekki hafa framvísað til skattrannsóknarstjóra, eða til Ríkissaksóknara, sem þó hlýtur að vera skylda þeirra, vegna þeirra meintu brota sem þeir telja vera að finna í gögnum þessum.   Mér vitanlega er það meira en lítið alvarlegt mál ef starfsmenn ríkisfjölmiðils halda frá viðkomandi rannsóknar- eða Ákæruyfirvöldum svo viðamiklum upplýsingum sem þarna virðast á ferðinni. Slíkt tel ég afar alvarlegt brot á hegningarlögum, þar sem við liggja að mínu viti þungar refsingar.
 
Síðan kemur að framsetningunni. Ríkisfjölmiðill getur ekki með löglegum hætti tekið að sér hlutverk ákæranda gagnvart æðsta embættismanni ríkisvaldsins. Slíkt er í beinni andstöðu við ákvæði stjórnarskrár lýðveldis okkar, auk þess að vera brot á lögum um opinbera starfsmenn og einnig lögum um ríkisútvarpið sjálft.
 
Hver sá Íslendingur sem tekur beinan eða óbeinan þátt í slíku afbroti sem þarna var framið, lýsir sig í raun andvígan þeim réttarfarsreglum sem tilgreindar eru í stjórnarskrá og lögum um meðferð opinberra mála. Þjóðfélag okkar er vægast sagt komið út á afar hættulega braut, þegar ríkisfjölmiðill sem lýtur yfirvaldi eins ráðherra brýtur svo gróflega mannréttindi  og réttarvernd æðsta embætismanns ríkisins, eins og átti sér stað í téðum Kastljósþætti Sunnudaginn 3. apríl 2016. Slík framkoma hefði verið siðlaust lögbrot gegn harðsvíruðum glæpamanni, þó starfsmenn kastljóss teldu sér heimil slík mannréttindabrot gagnvart æðsta embættismanni ríkisins.
 
Ég tel í sjálfu sér að það ætti að vera óþarft að vekja athygli ykkar á hinu mjög svo alvarlega afbroti sem starfsmenn Kastljóss gerðu sig seka um í þessu tilfelli, væntanlega með samþykki viðkomandi yfirmanna sinna og á ábyrgð Útvarpsstjóra og ráðherra menntamála.  Ég geri það nú samt vegna þess að ég mun sjálfur mánudaginn 4. apríl 2016, senda Ríkissaksóknara formlega kæru, sem ríkisborgari þessa lands og áheyrandi að þeirri gengdarlausu illmennsku gagnvart forsætisráðherra, sem einkenndi framsetninguna. Engin afstaða er hér tekin varðandi það hvort forsætisráðherra er sekur eða saklaus af þeim ávirðingum sem á hann eru bornar.  Meginatriðið er það, að ríkisfjölmiðillinn Ríkisútvarp er ekki ákærandi í slíku máli og getur aldrei orðið það. Rikisfjölmiðill á ekki að stunda MANNORÐSMORÐ gagnvart neinum, og þá ekki heldur gagnvart æðsta embættismanni ríkisins. Formleg ákæra verður því send á mánudegi, eins og tilgreint er.
 
Mælikvarði á vitund ykkar og virðingu gagnvart Stjórnarskrá og landslögum mun koma í ljós í því hve mörg ykkar gera kröfu um að Ríkissaksóknari yfirtaki umrædd gögn ríkisútvarpsins og birti þeim ákæru sem bera ábyrgð á svo alvarlegu lagabroti sem lýst var hér að framan.  Þið verðið vafalítið spurð um viðbrögð ykkar við svona lögbroti fyrir næstu kosningar.
 
Virðingarfyllst,
Guðbjörn Jónsson kt: 101041-3289
Kríuhólum 4,  111 Reykjavík,
Sími 567 2001  GSM 860 84 00

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 165580

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband