Bloggfærslur mánaðarins, september 2016

Nú skal troða Sigmund undir, hvað sem það kostar.

Líklega er kominn tími til að horfa opnum augum á það hvernig Íslenskir stjórnmálaflokkar velja forystusveit sína, þ. e. formann, varaformaður og miðstjórn. Á s.l. vori tókst Framsóknarflokkurinn á við eitt mikilvægasta hlutverk sem stjórnendur stjórnmálaafls geta lent í, þegar opinberuð var fyrir almenningi gróf, ókurteis og óhugnanlega illgirnisleg aðför að æðsta embætti Íslenska Ríkisins, forsætisráðherra Íslands, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins.

Aðför sú sem um ræðir var opinberuð þjóðinni í kastljósþætti þann 3. apríl 2016. Aðförin hafði hins vegar verið framkvæmd um miðjan mars s. á. undir stjórn Sænska Ríkissjónvarpsins, sem hannaði og sviðsetti upplognar ásakanir sem Jóhannes Kr. Kristjánsson, fyrrverandi starfsmaður kastljóss við fréttastofu RÚV, hafði undirbúið. Sænska Ríkissjónvarpið annaðist einnig upptöku aðfararinnar og veitti þannig með framangreindum hætti afar þýðingarmikið liðsinni við undirbúning sjónvarpsútsendingar á órökstuddri lygasamsuðu um þann einstakling sem gengdi embætti forsætisráðherra Íslands.

Þeirri lygasamsuðu var ætlað, að sögn Sænsku sjónvarpsmannana, að fella réttkjörna ríkisstjórn Íslands og skaða svo pólitíska framtíð forsætisráðherrans, formanns Framsóknarflokksins, að hann ætti ekki afturkvæmt til forystu í Íslenskri pólitík.

Segja má að ætlunarverk þeirra hafi tekist. Æsifréttastíll frásagnarinnar var vel uppskrúfaður, flakkað óskipulega fram og til baka í tíma og fléttað inn í frásögn óskyld atriði, allt til að rugla áhorfandann. Örfá skjöl voru sýnd úr slíkri fjarlægð eða svo bjöguð að ekki var mögulegt að lesa það sem á þau var ritað. Sönnunargildi skjalanna var því ekkert. Æsifréttastíllinn dugði þó til að umtalsverður fjöldi fólks ærðist og sakfelldi manninn, án þess að hafa séð eitt einasta skjal því til stuðnings.

Það merkilega var að engir þeirra aðila sem lögum samkvæmt áttu að gæta öryggis æðstu embættismanna þjóðarinnar, virtist finnast aðfinnsluvert að erlend Ríkisstofnun skyldi hanna, skipuleggja og framkvæma grófar sviksamlegar blekkingar til að tæla æðsta embættismann Ríkisins til viðtals í viðhafnar húsakynnum Ríkisins, með það að markmiði að niðurlægja hann fyrir framan myndbands upptökuvél, með sögusögnum sem engar rökheldar sannanir voru fyrir.

Sænska sjónvarpsfólkið fékk að fara í viðhafnarhús Ríkisstjórnarinnar til að „stilla upp“ fyrir myndatöku í viðtalinu. Uppstillingin var ekki venjubundin viðtalsupstilling, heldur þekkt uppstilling þar sem sakamenn eru yfirheyrðir. Komið var fyrir einum stól úti á miðju gólfi og sterkt ljós látið lýsa í augu forsætisráðherrans. Sænski sjónvarpsmaðurinn var utan ljósgeislans, að baki ljóskastaranum.

Sænski sjónvarpsmaðurinn kom aldrei inn á það umræðuefni sem hafði verið pantað viðtal um. Sænski sjónvarpsmaðurinn hafði heldur ekki kynnt það fyrir forsætisráðherra að annar spyrill mundi taka þátt í viðtalinu. Forsætisráðherrann var því með öllu óviðbúinn því að hinn brottrekni starfsmaður kastljóss settist í stól spyrils en Sænski sjónvarpsmaðurinn, sem pantaði viðtalið, viki til hliðar og þvingaði þannig forsætisráðherrann til viðtals sem hann hafði ekki samþykkt.

Jóhannes Kr., en sá var maðurinn sem Sænski sjónvarpsmaðurinn neyddi forsætisráðherra Íslands til að tala við fyrir framan gangandi myndbands upptöku, tók þar með forsætisráðherra Íslands í gíslingu aðstæðna sem forsætisráðherrann hafði ekki samþykkt. Afar sérstæður kurteisisþáttur fyrir að vera boðið í viðhafnarhús ríkisstjórnar Íslands.

Þar sem Jóhanes Kr. hafði ekki verið kynntur fyrir forsætisráðherra sem spyrill, var Jóhannes í sæti spyrilsins algjörlega á ritstjórnarlegri ábyrgð Sænska Ríkissjónvarpsins. Frá fyrstu mínútu sýndi Jóhannes að hann ætlaði í engu að virða kurteisireglur í viðtalinu, heldur talaði ofan í mál forsætisráðherrans og krafði hann svara um málefni sem forsætisráðherrann hafði enga heimild til að ræða opinberlega, því hann hafði enga eignatengingu við það sem Jóhannes krafðist að hann svaraði. Ekki þarf að lýsa þeirri svívirðu er Jóhannes réðist með fullkominni ókurteisi á Íslenska forsætisráðherrann, undir fullri sakaferlisábyrgð Sænska Ríkissjónvarpsins. Ósvífni og ruddaskapur Jóhannesar leiddi til þess að forsætisráðherrann neyddist til að flýja úr sínu viðhafnarhúsi, því Jóhannes hafnaði með öllu að sýna eðlilega kurteisi í framgöngu

Að mati undirritaðs, er það með öllu óviðunandi að samskiptaháttum fjölmiðlafólks skuli hafa hnignað svo mjög að æðstu embættismenn ríkisins skuli ekki lengur geta treyst orðum þeirra starfsmanna sem ríkisstjórnin greiðir laun. Undirritaður telur næsta ljóst að sú framkoma undirferlis, óheiðarleika frekju og hreinnar illgirni, sem fjöldi fjölmiðlafólks hefur tileinkað sér á undanförnum árum, muni fyrr en seinna leiða yfir fjölmiðla hömlur á tjáningarfrelsi, þannig að allt efni sem þeir ætla að birta verði að fara í gegnum tiltekið síunarferli, áður en birting á því verði heimiluð. Ef fjölmiðlafólk færir sig ekki sjálfviljugt aftur inn í venjubundið heiðarleika og kurteisiumhverfi, verður það eingöngu að sakast við sjálft sig um þær hömlur sem á það verða lagðar. Engin leið er að krefjast þess mikið lengur að fólk láti það þegjandi yfir sig ganga að óheiðarleiki og ókurteisi fjölmiðlafólks, taki meginþorra lesenda sinna í einskonar óheiðarleikagíslingu og misbjóði þannig réttar- og réttlætisvitund fólks.

En víkjum aftur að málefni dagsins, sem er árás Sænska Ríkissjónvarpsins á embætti forsætisráðherra Íslands. Eftir árásina 3. apríl 2016 var forstjóra Sænska Ríkissjónvarpsins skrifað bréf og óskað skýringa á framkomu þeirra. Ekkert svar hefur borist frá þeim. Þar sem þessari grein er ætlað að vera að hluta til skýringar fyrir Sænska Ríkissaksóknarann, sem fær þetta skjal með erindi sem sent verður því embætti, ásamt Sænska forsætisráðherranum og Öryggis og samvinnustofnun Evrópu, til umsagnar. Ég get ekki með nokkru móti fallist á að neytendur séu svo réttlausir gagnvart óheiðarleika fjölmiðla að við verðum bara að láta óhróðurinn og óheiðarleikann yfir okkur ganga. Slíkt getur með engu mótið verið rétt eða ásættanlegt í því mannréttindaumhverfi sem við eigum að teljast tilheyra.

Það sem hér á eftir verður vakin athygli á, er fyrst og fremst andvaraleysi varaformanns Framsóknarflokksins, varðandi árás Sænska Sjónvarpsins á æðsta embætti Íslenska Ríkisins, á liðnu vori, eins og að framan hefur verið lýst og einnig er sýnt í umræddum kastljósþætti frá 3. apríl 2016. Varaformaður flokksins gerði sér auðsjáanlega ekki grein fyrir alvarleika málsins. Einnig má segja að miðstjórn flokksins hafi sýnt andvaraleysi gagnvart því að um var að ræða ólögmæta aðför að æðsta embætti Ríkisins, sem flokkurinn bar ábyrgð á. En aðför þessa hannaði, skipulagði og kvikmyndaði Sænska Ríkissjónvarapið og bar alla ritstjórnarlega ábyrgð á, ásamt þeim spyrli sem var boðið að spyrja forsætisráðherrann, án þess að leita fyrst heimilda hjá honum.

Í viðtölum við Sænsku sjónvarpsmennina, kom ítrekað fram að það hafði verið markmið með aðförinni að forsætisráðherra Íslands, að fella réttkjörna ríkisstjórn Íslands. Þeim flokki sem hverju sinni er trúað fyrir embætti forsætisráðherra, æðsta embætti Ríkisins, er í raun fenginn lykill að sjálfstæði og lýðræðisvitund landsins. Ólíklegt er að nokkur stjórnmálaflokkur hafi búið sig undir að beitt yrði slíkum ruddaskap, óheiðarleika og yfirgangi sem þarna var gert. Sama andvaraleysi er því tvímælalaust einnig til staðar í öllum öðrum stjórnmálahreyfingum á landinu.

Þetta er sett fram hér til að vekja fólk til umhugsunar um að umhverfi umburðalyndis, kurteisi og tillitssemi er ekki lengur sjálfgefin regla. Út um allan heim ganga fram smærri sem stærri hópar, drifnir áfram af allskonar sjónarmiðum, í leit að einhverju öðru en því sem er, án þess að vita hvernig eigi að nálgast það. Hvenær, eða hvort, Ísland fær slíka heimsókn vitum við ekki, en undirrituðum þykir forystufólk stjórnmálaflokka okkar vera í einhverjum löngu liðnum raunveruleika.

Ef við horfum opnum augum á viðfangsefnið býst undirritaður við að flestir sjái það nánast sem ókleift verkefni að kjósa forystusveitir stjórnmálaflokka, með það í huga að þeir sem til stjórnunar veljist, á hverjum tíma, geti axlað þá ábyrgð að verja stjórnskipan okkar fyrir ófyrirséðri og óvæntri aðför. Undirritaður telur því heppilegra, fljótvirkara og betur til árangurs fallið, að velja t. d. tiltekna sveit fólks, með hliðsjón af „sérsveit Ríkislögreglustjóra“, sem hefði það verksvið að gæta lögmætrar framgöngu, við gestaheimsóknir og viðtöl ráðherra í mikilvægustu ráðuneytum stjórnkerfisins við fjölmiðlafólk. Eftirlitsaðilar þessir gætu lagt fyrir Ríkissaksóknara að taka til rannsóknar öll atriði sem þeim finndist á mörkum lögmætis- eða kurteisireglna, þannig að hlutlaus úrskurður lægi fljótt fyrir um öll mikilvægustu vafaatriðin.

Þó einhver slík sveit væri stofnuð, sem hér var drepið á, þykir undirrituðum það ekki leysa stjórnmálaöflin í landinu undan þeirri skyldu að innleiða þá reglu í íslensk stjórnmál, að forystusveit hvers flokks verði meðvitaðari um skyldu sína gagnvart lýðveldinu og lýðræðinu, þegar tekið er sæti í forystu flokksins. Undirrituðum finnst í raun þurfa að skapa, á landsvísu, skipurit forystu stjórnmálaafla, sem verði meðvituð bakvakt, að baki formanninum.

Alvarleiki þeirra atburða sem opinberaðir voru þjóðinni í kastljósi RÚV, þann 3. apríl s. l. eru kannski helstir þeir hve varaformaður og miðstjórn voru algjörlega ómeðvituð um að þeim bæri að stíga fram og krefjast rannsóknar og setja einskonar varnarmúr í kringum formanninn meðan frumrannsókn færi fram.

Ef þarna hefði verið um vopnaða árás að ræða, þar sem formaðurinn hefði særst hættulega, bendir allt til þess að sú framvarðarsveit sem fyrst og fremst hefði átt að gæta að virðingu, sjálfstæði og lýðræði þjóðarinnar, hefði skriðið í skjól og skilið formanninn særðan eftir á vígellinum, án þess að rétta fram hendi honum til hjálpar og varnar. Innleiða þarf það sem skyldu varaformanns eða miðstjórnar að krefja Ríkissaksóknara opinberrar rannsóknar á þeim atburðum eða aðför að æðsta embætti Ríkisins, sem varðað geti deilum um lögmæti eða heiðarleika forystumanna flokksins í opinberum embættum eða störfum.

Þegar svo ber undir sem þarna var, að með hrottafengnum hætti var ráðist að æru forsætisráðherrans, hlýtur að hvíla mikil skylda á varaformanni þess stjórnmálaafls sem fer með ábyrgð á æðsta embætti Ríkisins, að hann krefjist rannsóknar Ríkissaksóknara. Ekki hvað síst þegar yfirlýst er af hálfu erlendra skipleggjenda aðfararinnar, að markmið hennar hafi verið að fella sitjandi ríkisstjórn, sem var lýðræðislega réttkjörin Ríkisstjórn landsins.

Strax og hin ósvífna og hrottafengna aðför að forsætisráðherranum var gerð opinber, með sýningu kastljóss 3. apríl 2016, varð undirrituðum ljóst, að ekki væri hægt að búast við að formaðurinn brygðist við slíkri óvæntri og ruddalegri framkomu af nauðsynlegri festu og einurð. Til þess var höggið of mikið og margháttuð verkefni í húfi. Hins vegar hefur það vakið alveg sérstaka sýn á hugarfar íslensku þjóðarinnar, hve margir voru sammála þeirri framkomu sem þarna var viðhöfð.

Árásinni var í raun ekki beint að honum sem einstaklingi, heldur var henni beint að embættinu og honum sem embættismanni. Ekki hafði verið leitað samskipta við hann í hans persónulega frítíma, heldur ráðist á hann í sínu embættishlutverki. Þar með var árásin fyrst og fremst á embættið. Það er með sorg í hjarta sem ég hugsa til þeirra óhjákvæmilegu afleiðinga sem það mun hafa fyrir þá sem samþykktu eða glöddust yfir þeirri gífurlega óréttlátu aðför sem þarna fór fram. Hið óhjákvæmilega er, að á einhverjum tíma mæta allir eigin viðhorfum til alvarlegra atburða.

Það er inni í mér þungur beygur að fjölmiðlar á Íslandi skuli vera eins miklir aumingjar í mannvirðingu og raunveruleikinn virðist nú hafa leitt í ljós. Að þeir skuli láta það viðgangast, að æðsta embætti Ríkisins sé troðið niður í svaðið með svo afburða sóðalegum vinnubrögðum sem þarna voru viðhöfð. Og það sem þyngst er að horfast í augu við, er að svo virðist sem illa hugsandi fólk, ráði framvindu mála á fréttastofu þjóðarfjölmiðilsins.

Það er meira en furðulegt  að Ríkissjónvarpið okkar skuli gera árás á æðsta embætti Ríkisins. En að þar skuli eingöngu byggt á sögusögnum umdeilds fyrrverandi starfsmanns RÚV, sem virtist hafa verið látinn fara í kjölfar kæru og málssóknar á hendur honum vegna óheiðarleika. Það eitt og sér ætti að vera sjálfstætt rannsóknarefni Saksóknara, við hlið rannsóknar hinnar óhugnanlegu aðfarar að æðsta embætti Ríkisins. 

Í huga undirritaðs er stóra málið að fjölmiðlafólk skuli vera svo ómerkilega hugsandi, gagnvart grunnskipulagi lýðræðis í lýðveldi okkar, að farið sé á hausaveiðar í æðsta embætti ríkisins, ÁN ALLRA SÖNNUNARGAGNA EÐA HEILSTÆÐS SÖGUÞRÁÐAR. Hvers konar aumingjasamfélag er verið að byggja upp hér á Íslandi? Ég vona að raunin verði ekki sú.

Reykjavík 13.sept. 2016

Með kveðju,

Guðbjörn Jónsson, fyrrv. Ráðgjafi


ALDRAÐIR MEÐHÖNDLAÐIR EINS OG NIÐURSETNINGAR FYRRI TÍMA.

Það er athyglisverð lífsreynsla að vera algjörlega háður öðrum um fjármuni til greiðslu á nauðsynjum til venjulegs lífs. Meðan maður hafði heilsu til að vinna sér fyrir lifibrauði, gat maður ekki gert sér í hugarlund hvernig það væri að vera algjörlega upp á aðra kominn með einföldustu lífsgæði.

Á unga aldri las ég bókina Niðursetningurinn, eftir Jón Mýrdal. Þrjár persónulýsingar úr þeirri bók hafa alla tíð verið mér minnisstæðar. Eru það stórmennin Páll sýslumaður, mikið prúðmenni sem hafði réttlætisviðhorfin alltaf að leiðarljósi. Einnig stórvinur hans og mikið prúðmenni, Þorgrímur bóndi, með alla sína hóværð, drenglindi og höfðingsskap. Þriðji aðilinn sem er minnisstæður var Sigríður húsfrú Þorgríms, drambsöm mjög með lítinn viskuforða. Lagði hún bókstaflega allt í sölurnar til að kaupa sér álit mektarmanna. Hún skar jafnframt við nögl allan viðurgjörning, handa þeim sem henni var ætlað að ala önn fyrir.

Engin vandi er að sjá samsvörun í persónulýsingum bókar Jóns Mýrdal, við ýmsa aðila nú í samtímanum. Framkoma Alþingis og ríkisstjórna (fyrr og nú), gagnvart eldri borgurum og öryrkjum, er svo lík framgöngu húsfrú Sigríðar að fátt skilur þar á milli.

Alla jafnan virðast nægir fjármunir vera til þegar greiða þarf gæluverkefni eða ónauðsynlegar sérþarfir betur staddra aðila. Nærtækast er að vísa til Alþingismanna sjálfra, varðandi þeirra eigin ákvörðun um skattfrjálsar sérstakar mánaðarlegar viðbótargreiðlur til þeirra sjálfra, sem nemur u. þ. b. tvöföldum útborguðum lífeyri til eldri borgara. Nei, þingmenn eru ekki illa launaðir. Þeir hafa, fyrir utan bílastyrk, rétt um eina milljón á mánuði, sem þeir borga skatta af. Jú, að sjálfsögðu þarf eldri borgarinn að borga skatta af lífeyri sínum, sem þó er bara rétt um helmingur þeirrar upphæðar sem þingmenn hafa skammtað sér, skattfrjálsri. Alþingismönnum þykir eldri borgarar ekki of góðir til að borga skatta til ríkisins, af upphæð sem dugar ekki fyrir nauðsynlegum lágmarks útgjöldum til lífsviðurværis, meðan þeir skammta sjálfum sér tvöfaldri þeirri upphæð skattfrjálsri.

Svo er nú ekki beinlínis skorið við naglarrætur það sem er fyrir ættingja, vildarvini eða þá sem kaupa þarf velvild frá. Slíkum aðilum væri ekki boðin svo lítil greiðsla, sem þó væri tvöfallt hærri en Alþingi og stjórnvöldum þykir sómasamleg greiðsla til Lífsviðurværis fyrir þá sem lokið hafa þjónustu sinni á vinnumarkaði. Eða til þeirra sem hlotið hafa örorku eða fötlun vegna slyss eða sjúkdóma. Allir þessir aðilar eru algjörlega upp á Alþingi og stjórnvöld komnir með fjármögnun til framfærslu sinni og lífsgæðum.

Sá lífeyrir sem Alþingi ætlar þessum hópum til greiðslu allra sinna lífsgæða, er hins vegar skorið svo við nögl að slíkt telst ekki bjóðandi unglingum fyrir unglingavinnu. Unglingum sem þó lifa við frítt fæði og húsnæði í foreldrahúsum. Það er svolítið sérstakt að á Alþingi skuli ekki lengur finnast drenglunduð höfðingsluns, líkt og þeir Páll sýslumaður og Þorgrímur bóndi voru gæddir. Er sá möguleiki virkilega fyrir hendi að slík óeigingjörn höfðingslund hafi nánast horfið; hrökklast út í horn undan sjálfhverfu, græðgi og vaxandi ókurteisi í almennum samskiptum fólks?

 


Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 165580

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband