Fullur undrunar hef ég hlustað á grátkór þeirra aðila sem að öllu jöfnu hafa staðið fyrir eyðileggingu rekstrargrundvallar Íslenskra útflutningsfyrirtækja frá lýðveldisstofnun. Er ég þar að tala um samkór verslunar, vöruinnflytjenda og hina heimskulegu samtvinnun allra almennra verkalýðsfélaga undir einum sameiginlegum hatti ASÍ. Það var afleikur síns tíma sem leiddi af sér prósentuhækkanir launa, sem eðli málsins samkvæmt hækka hærri launin meira en hin lægri. Líkleg er hægt að segja að engin ein aðgerð sem verkalýðshreyfingin hafi gert, hafi komið jafn meinlega illa við láglaunastéttirnar í landinu.
Allt frá lýðveldisstofnun hafa framangreindir aðilar með aðgerðum sínum, staðið fyrir óskynsamlegum kostnaðarauka í Íslensku rekstrarumhverfi. Kostnaðarauka sem tekjugreinar þjóðfélagsins gátu ekki ráðið við.
Þeim sem vilja eyða peningum í kaup á erlndum varningi eða þjónustu hefur ekki frá lýðveldisstofnun verið bent á þá staðreynd að við eigum enga sjálfsprotna gjaldeyrissjóði. Við sem þjóð, verðum því rétt eins og venjulegt launafólk, að stýra væntingum okkar til betri lífskjara út frá eftirstöðvum þjóðartekna, þegar keyptar hafa verið nauðsynlegar vörur til framfærslu fólksins og rekstur þeirra fyrirtækja sem skapa þjóðartekjurnar. Ef við getum hagað innkaupum okkar frá öðrum löndum þannig að afgangur verði af þjóðartekjum, er þar kominn sá grunnur sem við höfum til framkvæmda eða annarrar eyðslu.
Vandi okkar sem þjóðar er sá að menntakerfi okkar hefur hvergi geta fundið pláss til að fræða börn og ungmenni um undirstöðuþætti lífshamingju þeirra. Afleiðingarnar eru þær að því fólki fækkar stöðugt sem vinnur að tekjuöflun þjóðfélagsins en að sama skapi fjölgar þeim sem leita starfa hjá þjónustugreinum samfélagsins. Vandinn er hins vegar sá að eigi varanleiki að vera í þjónnustugreinum, verða gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar að vera það öflugar að þær geti skapað veltufé fyrir þjónustugreinarnar til að halda sinni starfsemi gangandi.
Eins og meðfylgjandi samantekt yfir útflutningstekjur okkar og innflutningskostnað frá árinu 1942 til ársins 1993 sýnir, er nokkuð langur vegur frá því að Íslensk þjóð hafi aflað tekna fyrir öllum þeim vöruinnflutningi sem stundaður hefur verið á þessum árum. Ástandið lagaðist ekki frá árinu 1993 til ársins 2011. Það fer því hrollur niður eftir baki mínu þegar svokallaðir hagfræðingar fara að tala um Íslendinga sem einhverja ríka þjóð. Staðreyndir málsins eru nefnilega þær að yfirleitt greiddum við aldrei niður eldri lán með tekjuafgangi. Við greiddum eldri lán með nýjum og hærri lánum, sem dugðu fyrir umframeyðslu nýliðins árs og upphæð eldri lána sem komin voru að gjalddaga.
Þegar öll þessi rekstrarmál þjóðfélags okkar eru skoðuð af raunsæi, kemur í ljós að stjórnvöld eða Alþingi hvers tíma hafa hreinlega ALDREI myndað neinn afkomugrunn fyrir samfélag okkar og aldrei svo mér sé kunnugt um hefur verið gerð úttekt á hve mikið peningamagn þar að vera í umferð á Íslandi svo allur eðlilegur rekstur samfélagsins geti greitt regluegan og fastan rekstrarkostnað sinn á réttum tíma. Enginn hefur skoðað hringrás fjármagns um hinar einstöku samfélagseiningar, sem er t. d. ástæða þess að menn þræta enn um eyðileggingarafl kvótakerfins á sjávarbyggðir landsins. Enginn hafði heldur áhyggjur af því að höfuðborg landsins var svo langt frá því að vera sjálfbær með öflun gjaldeyristekna til að dekka þá gjaldeyriseyðslu sem Borgin hefur stundað.
Hvernig vitum við hvort þjóðin verði gjaldþrota einhverja næstu mánuði ef skyndilega lokast fyrir allar lánalínur, fyrir frekari lánveitingar til greiðslu rekstrarkosnaðar? Nei, við vitum flest ekkert um það. En öll framkoma okkar bendir til þess að þær aðvaranir sem Einar Oddur Kristjánsson, fyrrverandi þingmaður setti fram þegar hann gat leitt athygli manna að því hvaða skaði það væri fyrir þjóðfélagið að standa í þeim eltingaleik sem áður var þegar verðhækkanir. og launahækkanir, hækkuðu vísitölu neysluverða, sem aftur hækkaði vöruverð og laun að ógleymdum hækkunum á verðtryggðum lánum landsmanna.
Brjálæðislegar stórhækkanir launa í síðustu kjarasamningum, í þokkalegu kyrrstöðuumhverfi, gat ekki með nokkru móti þýtt annað en illyfirstíganleg vandamál útflutnings atvinnugreina. Og sú staðreynd er nú komin fram. En hvernig bregðast menn þá við.
Menn sem verða fyrir auknu tjóni af völdum erlendra verðlækkana á söluvörum okkar ásamt líklega frekari lækkana á komandi tímum, takast nú í hendur og hoppa beint á vagninn sem þeir sátu sem fastast á frá 1942 til þjóðarsáttarsamninga 1990. Í dag láta þessir aðilar ein og Einar Oddur hafi aldrei verið til og hans tillögur verið einskis virði, þrátt fyrir þau miklu straumhvörf sem urðu í efnahagslífi þjóðarinnar eftir að vinnubrögðum við samningagerð var breytt.
Ég vil meina að komi það í ljós að aðilara verslunar, innflutningsgreina og launþegasambanda, bæði almennra og opinberra stéttarfélaga geti ekki sýnt þá þjóðfélagslegu ábyrgð að stefna ekki í voða rekstri gjaldeyrisskapandi atvinnugreina þjóðarinnar, verði að taka af þeim frelsi til verðlags á innfluttum vörum og gerð kjarasamninga gagnvart útflutningsgreinum.
Þetta eru harkalegar aðgerðir. En þar sem óyggjandi tölur Hagstofu Íslands sýna okkur algjört viljaleysi þessara aðila til að finna farveg vona sinna án þess að ítrekað þurfi að kollvarpa öllu efnahagskerfi heillar þjóðar, líklega eingöngu vegna þess að fáeinir menn, haldnir græðgishugsjón, skeyta engu um afleiðingar gjörða sinna, bara að þeir fái vilja sínum framgengt. Þjóðin verður að komast út úr þessum hrunadansi heimskunnar og viðurkenna AFTUR, eins og í þjóðarsáttinni, að menn verði aldrei hamingjusamir eða ríkir á því að berja höfðinu við stein
Skrár tengdar þessari bloggfærslu: