Bloggfærslur mánaðarins, desember 2018

Forseti Alþingis, Forsætisnefnd OPIÐ BRÉF

Forsætisnefnd Alþingis,

Hr. 1. þingforseti, Steingrímur  J. Sigfússon

Reykjavík 12. desember 2018

ERINDI: Um úthlutun þingsæta og rétt til þingsetu.

Hr. Þingforseti.   

Í umróti undanfarinna daga hef ég saknað þess mjög að verða ekki var sterkrar vitundar stjórnenda Alþingis um skarpa sýn á afar mikilvæg ákvæði stjórnarskrár okkar. Er þar fyrst vísað til 2. mgr. 70. gr. þar sem segir að:

Hver sá sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.“ 

Af fréttaflutning verður ekki séð að neinn skortur hafi verið á grófum og mannskemmandi ummælum og ásökunum úr öllum áttum. Að stórum hluta er þessar ásakanir og  óviðunandi ummæli um fólk sem hvergi var nærri, komið frá fólki sem á að lúta reglum Alþingis, meðal annars um hegðan og talsmáta. Óhjákvæmilegt er einnig að umræddar ásakanir og særandi ummæli, snerti fjölda fólks sem er utan starfs- og siðareglna Alþingis. En það fólk á einnig sín réttindi þó oft gleymist að taka tillit til þess. Þingmenn eins og allir aðrir eiga sinn rétt og bera skyldur samkvæmt ákvæðum 71. gr. stjórnarskrár, en þar segir að:

„[Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.“.

Það sem veldur mér mestri undrun, er hinn undarlegi skortur á skjótu viðbragði forseta Alþingis, til verndar sálarlífi mikils fjölda fólks, utan sem innan Alþingis, vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um samtöl nokkurra starfandi þingmanna. Eðlileg viðbrögð forseta Alþingis við slíku tilviki sem þarna var, hefði verið að kalla Ríkissaksóknara þegar í stað á sinn fund og fela honum að setja lögbann á opinbera umfjöllun um málið meðan það væri rannsakað. Og jafnfram að rannsóknin tæki til allra þátta málsins. Þá hefði mátt fá Umboðsmann Alþingis til að fylgst með framvindu málsins fyrir hönd Alþingis og stjórn Öryrkjabandalag og stjórn Samtakanna 78, verið falið að tilnefna einn lögfræðimenntaðan mann til eftirlits með upplýsingagjöf við framkvæmd rannsóknar, fyrir hönd þolenda órökstuddra ásakana og ummæla. 

Einnig hefði verið mikilvægt að forseti Alþingis beindi strax ákveðnum tilmælum til þeirra 6 þingmanna í svonefndum „Klausturhópi“, að þeir tækju sér launalaust leyfi frá þingstörfum um tveggja mánaða skeið, meðan rannsókn málsins færi fram. Áætlað væri að fyrir þann tíma gætu meginniðurstöður rannsóknar legið fyrir. Samhliða rannsókn Ríkissaksóknara hefði siðanefnd Alþingis rannsakað málið út frá skyldum Alþingismanna á grundvelli laga, reglugerða og siðareglna Alþingismanna.

Hr. þingforseti. Það hvílir mikil ábyrgð á herðum forseta löggjafarþings þjóðarinnar, þegar starfandi þingmenn ráðast með jafn ódrengilega og sóðalegan talsmáta að einstaklingum úr ýmsum minnihlutahópum þjóðfélagsins. Ummælin sem slík, eru afmarkaður vandi sem greiða hefði mátt úr með fljótum hætti ef komið hefði verið í veg fyrir það taugaveiklunar- og hálfgert sturlunarástand sem helltist yfir þjóðina þegar upptökurnar voru birtar.

Í mínum huga leikur enginn vafi á að samfélag okkar er engan veginn undir það búið að bregðast við svona óvæntri og ábyrgðarlausri aðför að grunngildum mannlegrar virðingar. Erfitt var að sjá annan tilgang hjá fjölmiðlum, með birtingu hinna sóðalegu ummæla, en  sjálfsupphafning fjölmiðlanna, sem náð yrði fram með því að vega hastarlega að sálarró flests hugsandi fólks.

Það skiptir miklu máli hvernig við umgöngumst lagareglur. Og það skiptir einnig máli hvernig við umgöngumst orð okkar og gjörðir. Hvað heiðarleika og virðingu snertir, ættu fulltrúar löggjafarvaldsins að vera leiðarljós almennings. Beri þingmaður takmarkalausa virðingu fyrir stjórnarskrá landsins og öðrum landslögum, sem löggjafarvaldið (þingmennirnir] setja sem lög, mun áreiðanlega umtalsverður meirihluti þjóðarinnar feta í fótspor þeirra.

En meðan þingmenn fótum troða stjórnarskrá landsins og eigin lagasetningu, geta þeir vart vænst þess að almenningur beri virðingu fyrir lagareglum eða öðrum störfum þeirra.

Daglega umgengst mikill meirihluti þjóðarinnar lög og reglur samfélagsins. Áberandi má þar greina sömu fyrirlitningu gagnvart lagasetningu Alþingis, sem algengt er að sjá í framgöngu þingmanna sjálfra. Og því miður er nýjasta dæmið, sem í raun er undirrót þessara skrifa, glöggur vitnisburður um að forseti Alþingis ber hvorki virðingu fyrir stjórnarskrá landsins eða kosningalögum. Hér þarf skýringa við.

Þegar kosningalög eru skoðuð, kemur í ljós að ENGU þingsæti er úthlutað til einstakra þingmanna. XVI. kafli kosningalaga fjallar um úthlutun þingsæta. Þar segir svo um úthlutun kjördæmissætaÍ fyrstu gein XVI. kafla, 106. gr. kosningalaga, er fjallað um tilkynningu Landskjörstjórnar um kosningaúrslit.

Áhersluletur og litabreytingí lagatexta er sett af undirrituðum, þannig er sérstök áhersla er lögð á mikilvæg atriði í texta laganna.

Í 106. gr. segir að:

Landskjörstjórn auglýsir með hæfilegum fyrirvara hvar og hvenær hún kemur saman í þessu skyni svo að umboðsmönnum þeirra stjórnmálasamtaka,sem boðið hafa fram, sbr. 39. gr., gefist kostur á að vera þar viðstaddir.“

Þarna er verið að tala um útreikning þingsæta og  úthlutun þeirra.

107. gr. er svona:

„107. gr.  Til þess að finna hve margir frambjóðendur hafa náð kosningu í kjördæmi af hverjum lista skal fara þannig að:

1. Deila skal í atkvæðatölur listanna með tölunum 1, 2, 3, 4 o.s.frv. Útkomutölur eru skráðar fyrir hvern lista.

2Fyrsta kjördæmissætifær sá listi sem hæsta útkomutölu hefur. Sú tala er síðan felld niður. Annað kjördæmissæti fær sá listi sem nú hefur hæsta útkomutölu. Þessu skal fram haldið uns úthlutað hefur verið jafnmörgum kjördæmissætum og kjósa á,sbr. 2. mgr. 8. gr.“

Tilvitnun líkur.

Þegar reglur laganna um úthlutun þingsæta eru skoðaðar kemur glögglega í ljós að þingsætum er einungis úthlutað til stjórnmálasamtakasem boðið hafa fram, sbr. 39. gr.“eins og fram kemur í 106. gr.

Einnig kemur fram í 107. gr. að:  „atkvæðatölur listannaeru fundnar út og með ákveðinni reikniformúlu er fundinn út fjöldi þingsæta fyrir hvern lista.  Og í 2. tölulið 107. gr. segir að: Þessu skal fram haldið uns úthlutað hefur verið jafnmörgum kjördæmissætum og kjósa á.“

Á bls. 1 í „Lýsing á úthlutun þingsæta“, eftir Þorkel Helgason, sem unnið er fyrir Landskjörstjórn, segir svo um úthlutunarreglur:

Fyrst er kjördæmissætum úthlutað, en þau eru 54 að tölu. Kjördæmissætunum er alfarið úthlutað á grundvelli fylgis lista í hverju kjördæmi.

Það er sama hvar borið er niður í lögum um kosningar til Alþingis. Í skýringum eða reglum um úthlutun þingsæta, er ævinlega talað um að þingsætum sé úthlutað til lista sem boðnir séu fram af stjórnmálasamtökum.

Þetta er rifjað hér upp í ljósi þess sem gerðist í framhaldi af svonefndu „Klaustursmáli“, þegar tveir þingmenn voru reknir úr Flokki fólksins. Þessir sömu þingmenn sendu síðan bréf til forseta Alþingis, sem forseti sjálfur las upp í forsetastóli. Þar tilkynntu þessir fyrrverandi þingmenn Flokks fólksins að þeir væru ekki lengur í þingflokki Flokks fólksins. Þeir myndu framvegis starfa sem óháðir þingmenn utan flokka og hafa samráð sín á milli. OG það athyglisverða var að forseti Alþingis virtist taka þessa tilkynningu sem góða og gilda. En við hvaða lög styðst svona afgreiðsla?

Alla vega hafa þessir umtöluðu, fyrrverandi þingmenn Flokks fólksins, setið áfram á þingi, með nákvæmlega EKKERT atkvæðamagn að baki sér sem einstaklingar. Á sama tíma er þingstyrkur Flokks fólksins ekki í samræmi við kosningaúrslit og úthlutun þingsæta, því varamenn, hinna brottförnu þingmanna úr stjórnmálasamtökunum Flokkur fólksins, hafa ekki enn verið boðaðir til þingstarfa, þó lögum samkvæmt eigi þeir nú að sitja í þeim tveimur þingsætum Flokks fólksins, sem fyrrgreindir þingmenn yfirgáfu. En þessir þingmenn teppa enn úthlutuð þingsæti Flokks fólksins vegna þess að forseti Alþingis heimilar þeim enn að halda föstum 50% þeirra  þingsæta sem Landskjörstjórn úthlutaði til Flokks fólksins.

Það skal ítrekað enn að hvergi í kosningalögnum né útreiknireglum Þorkels Helgasonar, er að finna eitt einasta orð um atkvæðamagn að baki „óháðum þingmanni utan flokka“. Öllum 63 þingsætunum, sem til úthlutunar voru, úthlutaði Landskjörstjórn til lista stjórnmálasamtaka á grundvelli atkvæðamagns hvers lista. Hins vegar er svo að sjá sem forseti Alþingis fari ekki eftir lögum eða úthlutun Landskjörstjórnar, heldur heimili tveimur mönnum sem tilheyra engum stjórnmálasamtökum halda þingsætum úthlutuðum öðrum og teppa með því 50% af úthlutuðum þingsætum Flokks fólksins.

Væri það ekki dálítið sérstakt ef stjórn Flokks fólksins eða kjósendur hans, legðu fram kæru á hendur forseta löggjafarþings þjóðarinnar, fyrir gróf inngrip í kosninganiðurstöður Flokksins og úthlutun Landskjörstjórnar á þingsætum til hans sem stjórnmálaafls. Ég er ekki að segja að slíkt sé í uppsiglingu en benda á að óneitanlega eru forsendur þegar fyrir slíku.

HVENÆR VERÐUR STEFNA SETT Á AÐ HVERFA FRÁ ÓHEIÐARLEIKA OG SPILLINGU ??

Ef þjóðinni á að takast að hverfa frá núverandi óheiðarleika og spillingu, sem tröllríður helstu samskiptaþáttum þjóðlífsins, þá verður Alþingi og stjórnmálamenn, innan þings sem utan, að leika þar mikilvægustu burðarhlutverkin. Einnig er afar brýnt að Alþingi sjálft setji í lagareglum ákveðinn kröfuramma um hæfni frambjóðenda til þingmannsstarfa, varðandi  menntun, sam-skiptahæfni og þekkingargrunn, tengdum helstu stjórnunarþáttum landsmála. Slíkt er orðið afar mikilvægt vegna þess áberandi reynsluleysis og þekkingarskorts margra þinmanna nú og undangenginna ára, um mörk hins mögulega fyrir ríkisvaldið að fjármagna sem útgjaldaliði.

Það er einnig athyglisvert hvernig Alþingi hefur lítið sinnt því, um langt skeið, að búa í haginn fyrir fjármögnunar- og rekstrarumhverfi stærri framleiðslufyrirtækja, með auknum skyldum á hendur fjármálafyrirtækjum að beina tilteknum hluta útlánaveltu sinnar til tekjuskapandi atvinnugreina. Frá einkavæðingu bankanna hafa þeir hagað sér með svipuðum hætti og spilavíti. Þeir hafa fyrst og fremst hugsað um eigin hagnað og jafnvel í því ferli flutt verulegt magn fjármagns út úr tekjuskapandi atvinnugreinum í kapphlaupi um mikla skammtíma ávöxtun innan þjónustugeirans. Aðstæðumsem framleiðslugreinar geta ekki keppt við.

Með þessari óábyrgu framgöngu fjármálageirans, gagnvart heildarafkomu samfélagsins alls, væri hægt að segja, hvað kröfur almennings varðar, þá geri fólk kröfur eins og um Ráðstjórnarríki væri að ræða en ekki lýðveldi. Hins vegar á hlið útgjalda og skuldsetninga hefur EKKERT verið hugað að jafnvægi milli útgjalda og tekna. Til þess ábyrgðarleysis sem hér er að litlu lýst, má rekja meira en 3/4 allra gengisfellinga á lýðveldistímanum. En því verður lýst nánar síðar.

Einnig væri mikilvægt að Alþingi kæmi sér upp teymi lögfræðimenntaðra manna t. d. lögfræðinga sem komnir væru á eftirlaun í bland með lögfræðingum úr háskólasamfélaginu, til yfirlesturs lagafrumvarpa, áður en þau væru lögð fram. Með slíku mætti fækka alvarlegum ágöllum við lagasetningu og alvarlegum átökum laga við stjórnarskrárbundin ákvæði.

Ég læt þetta nægja í þetta sinn og leyfi mér að eiga þann draum að þjóðin nái aftur að verða fyrirmynd annarra þjóða í vinsamlegum og kurteislegum samskiptaháttum. Það væri falleg gjöf til að sagnfræðingar framtíðarinnar fái ánægjulegra og uppbyggilegri viðfangsefni í hendurnar en nú virðist blasa við.

Með kveðju

Guðbjörn Jónsson, fyrrverandi ráðgjafi   


Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 151
  • Frá upphafi: 165757

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 141
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband