Bloggfærslur mánaðarins, desember 2020

LITIÐ TIL BAKA OG HUGSAÐ FRAM Á VIÐ

„Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka,“ er ljóðlína sem bráðlega hljóma úr flestum hornum samfélagsins, og líklega flestir vera því sammála.  Ég mun svo sem ekkert sakna þessa árs, en ég mun þó minnast þess fyrir hvað það birti okkur mikið af stjórnunarlegum mistökum, sem virðast einkennilega keimlík ruglhugsunum sem kenndar hafa verið við árið 2007. Þó þarna sé einungis nefnt árið 2007, nær ferlið í raun yfir tímabilið frá 1989 – 2008, með vaxandi þunga. En eins og oft verður með þá sem ekki vilja sjá eigin mistök, þá eru engin stjórnunarmistök ekki skoðuð, heldur rúllast yfir þau og þeim plantað inn í kúluna sem menn velta á undan sér, í þeirri fullvissu að þeir fái hærri laun á næsta ári, sem hjálpi þeim að borga niður umframeyðslu liðinna ára. En sú ósk rætist aldrei

Þjóðin fékk reyndar einn afar stóran ávinning undir árslokin 2019. Þá var ráðinn nýr seðlabankastjóri. Og þá gerðust þau undur, sem ég var alveg hættur að reikna með að sjá á mínum lífsdögum hér. Það var allt í einu farið að reka seðlabankann eins og alvöru Þjóðbanka, en ekki eins og miðlægan spilavítabanka, sem ítrekað virtist fórna hagsmunum þjóðarheildarinnar, fyrir þrönga hagsmuni þeirra sem spiluðu við háborðið. Ég óska þjóðinni til hamingju með þessi umskipti, sem eru einstaklega dýrmæt á þeim erfiðu tímum sem nú ganga yfir heimsbyggðina og þar með íslensku þjóðina líka.

En þjóðina vantar enn í framlínu, nokkur hundruð manna með þá þjóðfélagssýn sem nýr seðlabankastjóri hefur. Það er svo mikilvægt fyrir fólkið í landinu að fá svona áberandi birtingu á raunverulegum stöðugleika inn á flest svið samfélags okkar, þar sem fyrir er svo lítill samfélagslegur þroski. Í þeim efnum virðist sama hvort borið er niður í samfélagi fræðimanna eða því háskólamenntaða fólki sem fræðaumhverfið skilar af sér. Lítið virðist líka hallast á reiðingnum, þó á móti sé sett réttarfarshlutinn ásamt lögfræðingum. Einn lögfræðingur virðist þó, nú stundum hrista hornin óþolinmóður, enda búinn að reyna að koma á breytingum innanfrá í Hæstarétti. En þar virtist hjörðin eins og heilaþvegin gagnvart því sem ekki reynist stimplað af forystusauð þeirrar hjarðar.

Þá ber og að geta þess úrvals úr hjörð landsmanna, sem talin er hæfust til að stjórna þjóðfélagi okkar. Er þar um að ræða 63 Íslendinga, sem þjóðin kemur sér saman um á 4  ára fresti, að bestir séu til að gegna embættum í æðstu stjórnun og löggjafarstarfi lýðveldisins, næstu 4 árin frá kosningum. En þessi sérvalda sveit fólks, er þó dálítið sérkennilega valin saman, þegar horft er til þess boðskapar sem jafnræðisregla stjórnarskrár innprentar okkur, um réttlæti við stjórnun landsins.

Það vekur að vísu athygli að þessi 63 manna sérvalda sveit, skuli ekki geta komið sér saman um hvaða hæfileikar þurfi að vera fyrir hendi, til að teljast hæfur í framboð til starfs þingmanns. Þar sem Alþingi sjálft telji fólk sem sækjast eftir margfalt einfaldari störfum en þingsæti, þurfi að uppfylla ákveðnar hæfiskröfur. Þar er t. d. litið á sem sjálfsagða þörf, að hafa skýr ákvæði í löggjöf um, að fólk sem vilji fá leyfi til að aka dráttarvél eða lyftara, verði fyrst að leggja fram sérstaka staðfestingu á námsferli og standast próf í nauðsynlegum hæfileikum, sem starfið gerir kröfu til. Í þessu sambandi hefur það einnig vakið athygli að í þjóðfélagi þar sem lestrarkunnáttu fer hrakandi og skilningur þverrandi á því sem lesið er, þá virðist ekki lengur gerðar neinar athugasemdir við þó opinbert sé orðið fyrir löngu, að á þjóðþingi Íslendinga hafi lýðveldishugsjónin ekki enn fengið aðsetur, eða lögheimili á Alþingi Íslendinga.

Það er fyrir löngu orðið upplýst, meðal þeirra sem fylgjast með þingstörfum, að það séu einungis fáir þingmenn, sem gengið hafa til starfa þingmanna á Alþingi Íslendinga, sem álíta út frá heiðarleikasjónarmiði, mikilvæga þá svardaga sem þeir eiðfesta við fyrstu skráningu sem þingmaður, þess efnis að virða stjórnarskrá Íslands í öllum störfum sínum. Aldrei er hins vegar haft hátt um það opinbera leyndarmál að allir flokksbundnir þingmenn, undirgangast annan álíka svardaga í upphafi starfs sem þingmaður tiltekins þingflokks. Áður en þingflokksfundir hefjast, ganga þingmenn í gegnum annað ferli þar sem svardaginn fjallar um heit hvers þingmanns um að standa með öðrum flokksfélögum einhuga að baki þeirri niðurstöðu mála sem þingflokksforysta leggur til, sem álit alls þingflokksins í þingsal. Þar gengur flokkshollustan framar þjóðarhollustu, með góðfúslegu samþykki forystusveitar þingstarfa, sem reyndar er einnig skipað í af sama fólkinu, eftir þingstyrk.

En eins og áður sagði um ókannað hæfi þingmanna til að gæta hagsmuna þjóðarinnar, er jafnframt vísað til málsgreinar hér á undan. Það hefur margoft komið óopinberlega fram að árekstrar hafi orðið í hópum þingmanna, milli svardaga við sannfæringu sína og stjórnarskrá, þar sem flokkshollustan vegur hærra en stjórnarskráin.

Nokkur hópur þingmanna á löggjafarþingi Íslendinga, hefur yfir rúman áratug horft framhjá þeirri staðreynd að þeir hafa aldrei haft kjark til að breyta ákvæði í lögskipaðri reglu um það hvernig eigi á hverju ári að framkvæma hækkanir á lífeyri eldri borgara, til jafns við hækkanir neysluvísitölu, svo þessi hópur fái viðhaldið lífsgæðastöðu sinni í samfélaginu. Hinn sérstaklega útvaldi hópur landsmanna, sem valinn hefur verið til að gegna löggjafarstörfum, hefur ekki treyst sér til að fella framangreint vísitöluákvæði út úr lögunum. En hann virðist ekki heldur treysta sér til að fara eftir gildandi lögum, eða skila til baka því sem lífeyrir eldri borgara var lækkaður árið 2009.  Þingmenn sjálfir treystu sér ekki til að láta lækkunina á sínum launum standa nema rétt um eitt ár, eða til 2010. Þá fengu þeir til baka lækkunina, en því til viðbótar ríflega launahækkun, sem hvergi var að finna í kjarasamningum.

Þeir völdu frekar þann heigulshátt að setja ákvæði UTAN LAGARAMMA, í skýringarþátt nýrra laga, undir nafninu „ákvæði til bráðabirgða“. Þar sem setja má ýmsa þrepun um gildistöku nýrra og erfiðra lagaákvæða. En liðurinn sftsn við lagatexta sem ber heitið: „ákvæði til bráðabirgða“, hefur ekki lagagildi. ákvæði sett í þann lið, um skerðingar á þeim fyrirmælum sem lengi hafa verið í fullu gildi innan sjálfs lagarammans, hafa ekkert lagagildi og eiga því í engu að breyta framkvæmd gildandi laga. Slíku ákvæði laga, sem um fjölda ára hefur verið í fullu gildi, verður ekki breytt með öðrum hætti en beinni lagabreytingu á viðkomandi lagaákvæði í tiltekinni lagagrein. Allt annað er ódrengileg ögrun við lífsgæði þess fólks sem þjónað hefur samfélaginu vel í áratugi. Mikið lengur en þeir þingmenn sem taka beinan eða óbeinan þátt í slíkri sviksemi gagnvart eldra fólki.  

En enginn þingmaður hefur enn bent á þá staðreynd að Alþingi hefur ekki formlega mótmælt misnotkun hjá fjármálaráðherrum hvers tíma á þeirra eigin kröfu um að sett verði í liðinn, ákvæði til bráðabirgða, það sem þar á bæ virðist kallað „heimild“ til að ræna eldri borgara lögmætum hækkunum lífeyris, eins og lög segja fyrir um. Það virðist iðulega skorta lagaþekkingu í fjármálaráðuneytinu eins og þeir skilji ekki hvað er löglegt og hvað ekki. En ég fæ ekki séð að ástandið á Alþingi, sjálfri löggjafarstofnuninni, sé neitt betur á vegi statt.

Hér vil ég setja fram skýrt dæmi um algjört virðingarleysi þeirra þingmanna sem nú sitja á Alþingi og þeirra sem þar hafa átt sæti, í það minnsta í þrjá áratugi. Já virðingarleysi fyrir mikilvægu ákvæði mannréttinda, þar sem beint kemur fram í stjórnarskrá okkar að ALLIR EIGI AÐ HAFA JAFNSTÆÐAN RÉTT GAGNVART RÍKISVALDINU.  Og Alþingi beri að gera sitt til þess að hafa það í heiðri og halda jafnræðisreglu stjórnarskrár. En þegar grannt er skoðað má sjá algjörlega óréttlætanlega mismunun ríkisvalds og Alþingis á sambærilegum greiðslum úr ríkissjóði. Á ég þar við t. d. SKATTFRÍAR fríðindagreiðslur til þingmanna, t. d.  vegna íbúðarhúsnæðis. Nemur sá húsnæðisstyrkur hátt á annað hundrað þúsunda á mánuðiEN í greiðslugrunni lífeyris til eldri borgara ER EKKI EIN KRÓNA REIKNUÐ TIL AÐ MÆTA HÚSNÆÐISKOSTNAÐI. 

Ef ríkissjóður ber skyldu til að greiða þingmanni skattfrían húsnæðisstyrk upp á rúmlega ¾ af útgreiddum lífeyri eldri borgara, og samtals SKATTFRÍAR viðbótargreiðslur sem eru mun hærri en heildarlífeyrir eldri borgara, og sú viðbót greidd ofan á launagreiðslur sem eru þreföld til fimmföld ráðstöfunarfjár eldri borgara, sýnist manni óneitanlega vera styttra á vasa þingmanna en til þeirra sem þjónað hafa fullu starfi í áratugi við uppbyggingu samfélags, sem er undir það að splundrast vegna sérhyggju og samstöðuleysis. Ekki sitja eldri borgarar við það hringborð sem lífsins gæðum er úthlutað. Í þeim málum ráða aðrir för.

Ég hef oft verið kominn á fremsta hlunn í kurteisismörkum, þegar fjármálaráðherrann okkar heldur sína lofræðu um bætt lífskjör eldri borgara nú á síðustu árum. En grunur minn er nú samt sá að hann hafi ekki borið saman lífkjarabata eldri borgara og alþingismanna. Eldri borgarar eru reyndar ekki við það háborð sem úthlutar gæðunum. Það hefur vel sést þau 30 ár sem ég hef fylgst með mörgum helstu útgjaldaliðum ríkissjóðs í gegnum Hagstofu og Ríkisreikning, hvert straumurinn hefur legið. Þar er náttúrlega fyrst að nefna mjög vaxandi útgjöld ríkisins vegna starfsemi stjórnmálaflokka. Nú eru formenn allra stjórnmálaflokka komnir á sérstök laun frá ríkissjóði, sem einnig greiðir laun aðstoðarmanna þeirra, ásamt aðstoðarmönnum þingflokksformanna. Jafnframt hafa reglulega hækkað greiðslur ríkissjóðs sem bein rekstrarframlög til stjórnmálaflokka, sem fá greitt eftir fjölda þingsæta. Ég held að ég sé með tölurnar fyrir árið 2019, þar sem beinar greiðslur til stjórnmálaflokka með kjörna þingmenn á þingi, námu: Einum milljarði, eitthundrað og þrjátíu milljónum, fjögurhundruð fjörutíu og tvö þúsund, níuhundruð og sjö krónum. 1.130.442.907,-.

Ég verð að viðurkenna að ég gerði mér alls ekki grein fyrir að pólitísk áhugamannafélög, væru rekinn af ríkissjóði, en ekki af félagsgjöldum félagsmanna sinna og öðru sjálfaflafé. En út frá þessu vakna nokkrar afar mikilvægar spurningar. Það hljóta að vera alþingismenn sjálfir sem leggja slík erindi fyrir Alþingi, um óskir forystumanna flokkanna. Það hlýtur þá að heyra undir félagsmenn flokkanna sem jafnframt eru þingmenn, að taka ákvörðun um hækkun beinna styrkja til stjórnmálaflokka úr ríkissjóði, með samþykkt frá Alþingi. EN, á hvaða forsendum á ríkissjóður að greiða beinan ríkisstyrk til starfandi áhugamannafélaga í stjórnmálum, en ekki öllum öðrum áhugamannafélögum? Hvað segir sjónarmið stjórnarskrár um jafnrétti gagnvart lögum, um að til viðbótar hinum beinu styrkjum til stjórnmálaflokka, sem engar forsendur eru til fyrir, þá greiði ríkissjóður allan rekstrarkostnað þingflokka, svo beinu styrkirnir fara ekki til greiðslu kostnaðar vegna þingstarfa. Það eykur enn óskýrleika þessara beinu styrkja.  Auk þess að greiða hverjum þingmanni þokkaleg laun, sem hafa hækkað ört á undanförnum árum, greiðir ríkissjóður þingmönnum nokkuð þokkalegar aukafjárhæðir, til viðbótar við þingmannslaunin.

Á árinu 1999, voru regluleg laun þingmanna samtals kr. 294.745.716,-. Ef þessari upphæð er deilt í mánuðina 12, og síðan upphæð hvers mánaðar aftur deilt með 63 þingmönnum. Kemur þá út kr. 389.876, sem  mánaðarlaun þingmanna. Til viðbótar föstum þingmannslaunum gátu þingmenn fengið greiddan svonefndan „Fastan þingfararkostnað“ sem var samtals kr. 86.842.156,-. Með því að deila þessari tölu á sama veg og þeirri fyrri, kemur mánaðargreiðsla á hvern þingmann kr. 114.871,-.  Annar liður þingfararkostnaðar var líka uppgefinn undir nafninu „aðrar greiðslur“, samtals að upphæð kr. 58.328.311,-. Ef þessari tölu er deilt á sama veg og hinum fyrri, kemur út greiðsla á hvern þingmann á mánuði, eða upphæð  kr. 77.154,-.  Með svona jafnri skiptingu þessara þriggja liða þingfararkaups  kom út mánaðarleg jafngreiðsla kr. 581.901,- á hvern þingmann. Þess ber hins vegar að geta að viðbótarliðirnir „fastar greiðslur“, sem sagðar vera vegna „starfs-, húsnæðis-, dvalar-,og ferðakostnaðarliða um kjördæmið.  Flokkunin „Aðrar greiðslur“  ýmsar greiðslur tengdar þingmönnum, s. s. símakostnaður, ferðakostnaður innan lands, dagblaðakaup og tryggingar. Þessar greiðslur geta hæglega fallið í misháum upphæðum til þingmanna. Ég hafði nú ekki gert mér í hugarlund að ríkissjóður greiddi tryggingar fyrir þingmenn en auk þess munu þeir einnig vera með frí gleraugu o. fl. sem búið er að afnema hjá eldri borgurum.

Ef við lítum næst á þingmannslaunin í ársbyrjun 2015. Þá voru föst mánaðarlaun þingmanns kr. 712.030,-, og höfðu þá hækkað um 82,6% frá árinu 1999 og áhrif bankahruns þurrkuð út. En þá voru ekki aðeins tveir liðir aukagreiðslna árið 2015. Þeir voru orðnir 5, samtals upp á 398.810. Er það um 102,4% hækkun frá árinu 1999.  Og af þeirri upphæð voru 4 liðir orðnir skattfríir, samtals upp á kr.  316.610 á mánuði. Er það töluvert hærri upphæð af skattfríum greiðslum til þingmanna á mánuði, en nemur lífeyristekjum eldri borgara við árslok árið 2020.  

En lítum þá að lokum á hinn fasta launalið þingmanna á árinu 2019. Samtals nam sú upphæð 63 þingmanna í 12 mánuði, kr. 1.145.701.073,-. Ef við deilum þessari upphæð eins og hinum fyrri, kemur út meðalgreiðsla til hvers þingmanns á mánuði kr. 1.515.478,-. Nemur það hækkun á sléttum mánuðarlaunum þingmanns upp á 112,8%, frá árinu 2015, eða á FJÓRUM ÁRUM. - AÐ MEÐALTALI 25.2% Á ÁRI. Þegar horft er til þessarar hækkunar á launum þingmanna á sama tímabili sem vísitala neysluverðs hækkar um 12,04%, spyr maður svolítið út í loftið, hvort þingmenn séu algjörlega sambandslausir við efnahagslegan raunveruleika í samfélagi okkar?  Ég mundi vilja fá hreinskilið skriflegt svar frá þingmönum, einkanlega fjármálaráðherra, um það hvaða forsendur liggi að baki svo gífurlegri sjálftöku fjár úr ríkissjóði eins og hér er sýnt fram á að raunverulega átti sér stað, án þess að ein einasta athugasemd komi fram frá neinum þingmanni.

En á sama tíma segir fjármálaráðherra að ríkissjóður hafi ekki efni á að skila til eldri borgara þessa lands, því sem af þeim var tekið í kjölfar bankahrunsins 2008. Og einnig má spyrja hvers vegna þingmenn tóku strax til baka, ári síðar, þær lækkanir sem þeir féllust á 2009, síðastir allra. En tóku þær svo til baka nokkrum mánuðum síða og fengu í kjölfarið sjálfstæðar hækkanir þar á eftir, sem enginn botnaði í en þingheimur hafnaði að falla frá, en skila þess í stað hluta af því sem tekið var af eldri borgurum.

Og rétt í lokin með jólakveðju til fjármálaráðherra, um leið og hann er minntur á orð sín fyrir skömmu, um að lífeyrir eldri borgara séu ekki LAUN. Lífeyririnn séu BÆTUR ?? En fyrir hvaða tjón eða skaða eru þær bætur? Ég hef enga útreikninga séð sem réttlæti að framfærslulífeyrir sé af sjálfum fjármálaráðherranum kallaðar bætur, án þess að tjónsuppgjöri sé skilað með greiðslum. Ég gæti alveg hugsað mér að stefna fjármálaráðherra fyrir vitnadómstól, fyrstum manna á Íslandi að ég tel, til þess að krefja ráðherrann um að leggja fram lögmætar forsendur fyrir því að lífeyrisgreiðslur séu bætur. Stöðva þarf þegar þessar ölmusu rangtúlkun lífeyrisgreiðslna. Þær eru annast vegar áunnin réttindi til mannsæmandi framfærslulífeyris úr ríkissjóði, að lokinni starfsævi. En á hinn veginn uppsafnaður lífeyris-sparnaður, sem með ólögmætum hætti er ekki eignfærður á nafni inngreiðenda, ásamt áföllnum vöxtum og verðbótum, eins og Valgerður Sverrisdóttir, þáverandi viðskiptaráðherra, skipaði einum lífeyrissjóði að skila sjóðsfélaga, sem óskað hafði eftir rétt uppfærðri uppsöfnun eignar í sjóðnum. Því miður var þeirri kröfu viðskiptaráðherra ekki sinnt og engum refsingum hótað, fyrir að brjóta á lögvörðum eignarrétti. Þar birtist ein af jafnræðisreglum stjórnarskrár, því sá brotlegi fær umyrðalaust alla réttaraðstoð við innheimtu lögskipaðs lífeyrissparnaðar, þar sem þess þarf við.

Ég er orðinn svo gáttaður á þessu stórundarlega samfélagi okkar, eftir að hafa lesið um og rannsakað nokkra þætti úr efnahagssögu þjóðarinnar, dálítið aftur fyrir lýðveldisstofnun. Ég hef að undanförnu sagt mjög ákveðið, að hin eiginlega „lýðveldis- og lýðræðishugsjón“, hafi aldrei verið innleidd eða viðurkennd sem grundvöllur stjórnskipulags á þeim stöðum landsins sem ég hef gluggað í fram til þessa.  Hér er fast kveðið að orði en þess ber og að gæta að ég hef langa reynslu af margskonar samskiptum við fjölda fólks frá mörgum stöðum á landinu, bæði í gegnum störf mín í innviðum fjármálakerfa landsins og kannski viðkvæmasta þættinum í gegnum ráðgjafaþjónustu við fólk í fjárhagsvanda. Það get ég þó sagt með fullri hreinskilni, að það hefur aldrei verið mér gleðiefni að þurfa að svínbeygja það fólk sem lét hugsunarlaust heilaþvo sig til óheiðarlegrar framgöngu gegn heiðarlegu fólki, sem í einlægni trúði á að „sérfræðingur“ úr bankakerfinu, væri besta ráðgjöf sem hann gæti fengið. En hann vissi þá ekki að bankamaðurinn var í dauðaleit að einhverri útgönguleið úr ógöngum sem hann hafði komið sér í með augnabliks kæruleysi og trú á að maður sem hann hafði metið með sterk viðskiptatengsl, var í raun eignalaus og hafði engar áhyggjur af því.

 

SVONA SMÁ HUGLEIÐING Í LOKIN.
Hvað skildi valda því að Færeyingum gengur svona vel í lífinu, með svo mikið minni þjóðartekjur á mann en Íslendingar? Þeir hafa þokkalega heilbrigt samfélag, þar sem fólk ber virðingu hvert fyrir örðu og eldri borgurum líður vel; hafa efni á að njóta smá lífsgæða.

Væri ekki verðugt rannsóknarverkefni að skoða stjórnunarmun þessara tveggja eyþjóða í Norðanverðu Atlandshafi?  

 


Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 56
  • Frá upphafi: 165769

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 44
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband