Bloggfærslur mánaðarins, september 2020

FRAMBOÐ OG ÞINGSSÆTI.

Það vakti einhverja athygli þegar ég á dögunum benti á það með innhringingu á útvarp Sögu, að samkvæmt Kosningalögum, eigi þingmaður ekki að geta farið með þingsæti sitt frá þeim lista sem hann var á er hann hlaut kosningu. Það er dálítið einkennilegt að þetta skuli vera vafaatriði, sem vekur þá spurningu um hvort form Kjörbréfa sé í fullu samræmi við kosningalög. En lítum aðeins á hvernig kosningalögin greina frá ferlinu frá framboði til úthlutunar þingsæta,

Í 30 gr. kosningalaga segir að: „Þegar alþingiskosningar eiga að fara fram skulu öll framboð tilkynnt skriflega yfirkjörstjórn þeirri sem í hlut á eigi síðar en kl. 12 á hádegi 15 dögum fyrir kjördag.

Í 31. gr. segir að: „Á framboðslista skulu vera nöfn tvöfalt fleiri frambjóðenda en nemur þingsætum í kjördæminu, hvorki fleiri né færri.“ 

Í 32 gr. segir að: „Hverjum framboðslista skal fylgja skrifleg yfirlýsing allra þeirra sem á listanum eru um að þeir hafi leyft að setja nöfn sín á listann. Framboðslista skal og fylgja skrifleg yfirlýsing um stuðning við listann frá kjósendum í hlutaðeigandi kjördæmi. Tilgreina skal nafn meðmælanda, kennitölu hans og heimili. Fjöldi meðmælenda skal vera margfeldi af þingsætatölu kjördæmisins og talnanna 30 að lágmarki og 40 að hámarki.

Í 32. gr. segir einnig að: „Með stjórnmálasamtökum er í lögum þessum átt við samtök sem bjóða eða boðið hafa fram við alþingiskosningar. Hverjum framboðslista skal fylgja skrifleg yfirlýsing meðmælenda hans um það fyrir hvaða stjórnmálasamtök listinn er boðinn fram. Allir listar, sem bornir eru fram fyrir sömu stjórnmálasamtök, eiga saman þegar jöfnunarsætum er úthlutað skv. 108. gr. Ef fyrrgreinda yfirlýsingu vantar telst listi vera sérstakt framboð.“

Einnig segir í 32. gr. að: „Ef sá sem ákveður framboðslista eða staðfestir hann endanlega samkvæmt reglum stjórnmálasamtaka ber fram mótmæli gegn því að listi sé í framboði fyrir þau samtök skal úrskurða að slíkur framboðslisti teljist ekki vera í framboði fyrir þau. 

Hér hafa verið dregin saman nokkur meginatriði við skráningu framboðs til þingstarfa á Alþingi Íslendinga. Bent skal á að í þessum lögum er ekki gert ráð fyrir framboði einstaklinga, því einungis er tiltekið að gildir framboðslista séu einungis þeir listar sem eru með nákvæmlega tvöföldum fjölda þeirra þingmanna sem kjósa á, í viðkomandi kjördæmi. Frá upphafi Lýðveldis og til ársins 1959, var landinu skipt upp í 21 einmenningskjördæmi og sex tvímennings,kjördæmi. Á þeim tíma gat einstaklingur boðið sig fram til þingstarfa með því að fá með sér einn mann sem varaþingmann, ásamt tilskildum fjölda meðmælenda.

Breytingin árið 1959, þegar lokað var fyrir framboð einstaklinga, var því mikið meiri en bara til að stækka kjördæmin og fjölga þingmönnum í hverju kjördæmi. Stærsta breytingin varð án opinberrar umræðu eða að vakin væri á henni sérstök athygli. Það var sú breyting að loka fyrir framboð einstaklinga í eitt þingsæti. Það hefði gefið kjósendum sambærilegt tækifæri og var í einmenningskördæmum. Þar hefði í raun verið komið tækifæri fólks til að velja, að sínu mati, um hæfustu einstaklinga til þingstarfa. Það er nefnilega ekkert sjálfgefið að vel greint og réttsýnt fólk vilji binda sig þeim ólýðræðislegu höftum sem stjórnmálaflokkar hafa tamið sér að starfa eftir á Alþingi. Með kjördæmabreytingunni var einstaklingsframtak í stjórnmálum afnumið.  Samhliða breytingu á framboðsmálum yfir í listaframboð, varð ljóst að á tjáningarfrelsi einstaklinga yrðu settar hömlur. Stjórnendur Flokkana gerðu kröfur um að nánast eingöngu yrði starfað út frá flokkssamþykktum og fram settum reglum frá forystu í stjórnmálaflokkum.  Fyrir kjördæmabreytinguna stóð kosning aðeins um einn mann, og sá sem flest atkvæði hlaut, varð þingmaður kjördæmisins.

Eftir kjördæmabreytingu var meiri óvissa um hvað fólk væri að kjósa, með atkvæði sínu í kosningum til alþingis. Fólk hafði ekki lengur fullt frelsi til að kjósa þann mann sem sóst var eftir, því enginn gat vitað hvort það væri verið að kjósa 1. 4. eða 6. mann á þeim lista, sem þá varð skylt að velja. Þar var um verulega skerðingu lýðréttinda að ræða, án þess að um slíkt hefði verið rætt opinberlega. Við þá réttindaskerðingu sem hér er lýst, bættist svo breytileg útreikniregla um vægi atkvæða, þegar einstaklingur greiðir atkvæði á kjörstað. Með engu móti er hægt að vita hvort hlutfallslegt vægi atkvæði hans er minna eða meira en í öðrum sambærilegum kjördæmum. Hvar eru t. d. heimildir stjórnarskrár fyrir því að hafa reiknireglu til innbyrðis jöfnunar milli stjórnmálaflokka? Í einstökum kjördæmum getur slík reikniregla haft breytileg áhrif eftir fjölda greiddra atkvæða í kjördæminu, sem aftur getur svo breyst vegna þess heildarfjölda atkvæða sem hver stjórnmálaflokkur fær á landsvísu.

Það eina sem er fyllilega ljóst í þessum málum, er að við breytingar stærri kjördæmi, með mismunandi fjölda þingmanna, var lýðræðisleg bein kosning þingmanna lögð niður og einstaklingum fengin heimild til að kjósa milli stjórnmálaflokka, sem algjörlega er ótengdur vilja kjósenda milli kosninga.  Eins og af þessu ferli sést, þá hefur þjóðin frá árinu 1959 ekki búið við lýðræðislega kosið Alþingi. Það hefur frá þeim tíma verið fullkomlega Flokksbundið og stjórnskipulag okkar líkara fyrirkomulagi Ráðstjórn en lýðræði. Opinberlega hafa kjósendur aldrei fengið skýringar á þeirri breytingu sem ég vek þarna athygli á.

 En skoðum nú nánar hvernig framkvæmdin  við val þingmanna er, samkvæmt kosningalögum.

Eins og rakið er hér að framan, getur  þingsæti aldrei tengst tilteknum einstakling að öðru leyti en því að hann hljóti þingsætið sem skráður í ákveðið sæti á framboðslista flokks síns. Og samkvæmt núveranndi lögum um kosningar til Alþingis, verði niðurstaðan sú, að flokkurinn fái það mikið af atkvæðum að tiltekið sæti á listanum hljóti þingsæti, fær sá maður sem það skipar úthlutað einu þingsæti flokksins. Þeim aðila er ekki úthlutað þingsæti vegna sjálfstæðs eigin framboðs, heldur vegna sætis hans á framboðslista þess stjórnmálaflokks, sem hann bauð sig fram fyrir.

Líta má á núverandi skipan þingsæta sem vinnuskyldu sem hinn kjörni þingmaður tekur að sér að vinna á vegum þess flokks sem hann bauð sig fram fyrir. Því er það svo að ef upp koma ósætti þannig að þingmaður vilji segja sig úr þingflokki og yfirgefa starfið, fer hann ekki með þingsætið með sér frekar en hvert annað starf sem hefði haft með höndum fyrir fyrirtæki eða stjórnmálaflokk. Starfið er ekki hans eign, frekar en þingsætið, sem ekki er persónulega fylgjandi honum.

Hér að framan má sjá að ekki er nóg að tiltekið nafn sé á framboðslista stjórnmálaflokka til að geta farið eitthvað á flakk með þingsætið. Persónulega yfirlýsing frá viðkomandi einstakling þarf að fylgja framboðslista þar sem hans fulla samþykki þarf að koma fram, um nafn hans og kennitala sé á viðkomandi lista þessa stjórnmálaflokks. Til að skipa það þingsæti, fái flokkurinn nægan atkvæðafjölda, þarf einnig að fylgja framboðslista, listi yfir meðmælendur með framboði þessa viðkomandi stjórnmálaflokks. Meðmælendurnir eru ekki að mæla sjálfstætt með sérhverjum einstaklingi á framboðslistanum til sjálfstæðrar þingsetu. Þeir mæla með framboðslistanum sem heild, sem framboð tiltekins stjórnmálaafls, þar sem hver frambjóðandi hefur sitt raðnúmer á listanum sem hluti væntanlegs þingflokks, þess stjórnmálaafls en ekki sjálfstætt framboð. En lítum nú á framhald kosningalaganna.

Í 33. gr. kosningalaga segir svo: Við sömu alþingiskosningar má enginn bjóða sig fram á fleiri framboðslistum en einum.  Sami kjósandi má ekki mæla með fleiri en einum lista við sömu alþingiskosningar.“

Þá segir svo í 35. gr. kosningalaga að: „Frambjóðandi getur afturkallað samþykki sitt til framboðs fram til þess að frestur til að skila framboðum rennur út.“ 

Þarna kemur skýrt fram að eftir að framboðsfrestur er runninn út, er viðkomandi frambjóðandi fastskráður sem tilvonandi þingmaður þess flokks sem hann bíður sig fram fyrir, fái flokkurinn næg atkvæði til að fá það þingsæti.  Það vekur hins vegar athygli að hvergi í kosningalögum er fjallað um sjálfstætt framboð einstaklings. Allir framboðsmöguleikar eru með þeim hætti að frambjóðandi tekur þátt í framboði stjórnmálaflokks, með því að taka sæti á framboðslista hans.  Og það er ekki fullnægjandi að skrá nafn sitt á framboðslistann. Frambjóðandinn verður að gefa út formlega yfirlýsingu til yfirkjörstjórnar, þess efnis að nafn hans sé með vitund hans og vilja á framboðslista hins viðkomandi stjórnmálaflokks.

Eins og í lögunum segir, er hverjum manni einungis heimilt að taka þátt í einu framboði í sömu Alþingiskosningunum. Það þýðir að sá maður sem skráð hefur nafn sitt á lista einhvers stjórnmálaflokks, getur með engu móti lagt fram nein gild réttindi til að fara með þingsæti sitt burt frá flokknum, þó hann vilji segja sig úr samstarfi við þann flokk sem hann bauð sig fram fyrir og var kosinn sem þingmaður þess flokks.

En hverjum er úthlutað þingsætinu?

 Í grein 106 í kosningalögum er fjallað um hvernig standa skuli að úthlutun allra þingsæta. Jafnt kjördæmakjörnum, jöfnunarsætum eða þingsætum varamanna. Í kosningalögum koma engir til greina með úthlutuð þingsæti, aðrir en þeir stjórnmálaflokkar sem áttu framboðslista. Og fá þeir úthlutað þingsætum í samræmi við fjölda greiddra atkvæða.  í 106. - 110. greinum kosningalaga segir svo:

Úthlutun þingsæta.

  1. gr.Þegar landskjörstjórn hafa borist allar skýrslur um kosningaúrslit í kjördæmum eftir almennar alþingiskosningar, sbr. 105. gr., skal hún koma saman til að úthluta þingsætum, kjördæmissætum og jöfnunarsætum. Landskjörstjórn auglýsir með hæfilegum fyrirvara hvar og hvenær hún kemur saman í þessu skyni svo að umboðsmönnum þeirra stjórnmálasamtaka, sem boðið hafa fram, sbr. 39. gr., gefist kostur á að vera þar viðstaddir. “

Úthlutun kjördæmissæta.

  1. gr.Til þess að finna hve margir frambjóðendur hafa náð kosningu í kjördæmi af hverjum lista skal fara þannig að:        

    1. Deila skal í atkvæðatölur listanna með tölunum 1, 2, 3, 4 o.s.frv. Útkomutölur eru skráðar fyrir hvern lista.     
    2. Fyrsta kjördæmissæti fær sá listi sem hæsta útkomutölu hefur. Sú tala er síðan felld niður. Annað kjördæmissæti fær sá listi sem nú hefur hæsta útkomutölu. Þessu skal fram haldið uns úthlutað hefur verið jafnmörgum kjördæmissætum og kjósa á, sbr. 2. mgr. 8. gr. 
    3. Nú eru tvær eða fleiri útkomutölur jafnháar þegar að þeim kemur skv. 2. tölul. og skal þá hluta um röð þeirra.

Úthlutun jöfnunarsæta.          
 108. gr.        
 Þau stjórnmálasamtök koma ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa a.m.k. fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu.            
 Til þess að finna hve mörg jöfnunarsæti koma í hlut stjórnmálasamtaka, sem fullnægja skilyrðum 1. mgr., og hvaða framboðslistar þeirra hafa hlotið jöfnunarsæti skal fyrst telja saman atkvæðatölur þeirra á landinu öllu og kjördæmissæti þeirra skv. 107. gr.    
 Síðan skal fara þannig að fyrir þessi samtök:        
    1. Deila skal í atkvæðatölur samtakanna með tölu kjördæmissæta þeirra, fyrst að viðbættum 1, síðan 2, þá 3 o.s.frv. Útkomutölurnar nefnast landstölur samtakanna.            
    2. Taka skal saman skrá um þau tvö sæti hvers framboðslista sem næst komust því að fá úthlutun í kjördæmi skv. 107. gr. Við hvert þessara sæta skal skrá hlutfall útkomutölu sætisins skv. 1. tölul. 107. gr. af öllum gildum atkvæðum í kjördæminu.           
    3. Finna skal hæstu landstölu skv. 1. tölul. sem hefur ekki þegar verið felld niður. Hjá þeim stjórnmálasamtökum, sem eiga þá landstölu, skal finna hæstu hlutfallstölu lista skv. 2. tölul. og úthluta jöfnunarsæti til hans. Landstalan og hlutfallstalan skulu síðan báðar felldar niður.            
    4. Nú eru tvær eða fleiri lands- eða hlutfallstölur jafnháar þegar að þeim kemur skv. 3. tölul. og skal þá hluta um röð þeirra.    
    5. Þegar lokið hefur verið að úthluta jöfnunarsætum í hverju kjördæmi skv. 2. mgr. 8. gr. skulu hlutfallstölur allra lista í því kjördæmi felldar niður.             
    6. Hafi allar hlutfallstölur stjórnmálasamtaka verið numdar brott skal jafnframt fella niður allar landstölur þeirra.      
    7. Beita skal ákvæðum 3. tölul. svo oft sem þarf þar til lokið er úthlutun allra jöfnunarsæta, sbr. 2. mgr. 8. gr.  

Jöfnunarmenn og varaþingmenn.

  1. gr. Frambjóðendur, sem hljóta jöfnunarsæti, teljast þingmenn þess kjördæmis þar sem þeir eru í framboði, í þeirri röð sem sætum er úthlutað eftir 108. gr.           
     Listi í kjördæmi, sem hlotið hefur þingmann eða þingmenn kjörna skv. 107. eða 108. gr., hefur rétt til jafnmargra varaþingmanna.

Atkvæðatala frambjóðenda.   
 110. gr.        
 Þeir frambjóðendur einir koma til álita sem þingmenn og varaþingmenn hvers framboðslista í kjördæmi er skipa efstu sæti hans, tvöfalt fleiri en komu í hlut listans samkvæmt kosningaúrslitum, sbr. 107. og 108. gr., þó aldrei færri en þrír. Þessi tala frambjóðenda kallast röðunartala listans.   
   
Til þess að finna hverjir þessara frambjóðenda hafa náð kosningu skal landskjörstjórn reikna þeim frambjóðendum sem til álita koma skv. 1. mgr. atkvæðatölu. Frambjóðandi sem skipar 1. sæti á óbreyttum atkvæðaseðli eða er raðað í það sæti á breyttum seðli fær eitt atkvæði. Sá sem lendir með sama hætti í 2. sæti fær það brot úr atkvæði að í nefnara sé röðunartala en í teljara sú tala að frádregnum einum. Síðan lækkar teljarinn um einn við hvert sæti.          

 Sá frambjóðandi á hverjum lista, sem fær hæsta atkvæðatölu skv. 2. mgr., hlýtur 1. sæti listans. Sá frambjóðandi, sem fær næsthæsta atkvæðatölu, hlýtur 2. sætið og þannig koll af kolli uns lokið er úthlutun þingsæta og sæta varamanna. Nú fá tveir eða fleiri frambjóðendur jafnháa atkvæðatölu og skal þá hluta um röð þeirra á listanum.

 Aðrir frambjóðendur en þeir sem koma til greina sem þingmenn og varaþingmenn skv. 1. mgr. halda þeim sætum sem þeir skipa á framboðslista án tillits til breytinga sem gerðar hafa verið á kjörseðlum.

XVII. kafli. Útgáfa kjörbréfa.            

 111. gr.        
 Þegar landskjörstjórn hefur úthlutað þingsætum skv. 107.–110. gr. skal hún tafarlaust fá hinum kjörnu þingmönnum og að svo stöddu jafnmörgum varaþingmönnum kjörbréf sem samin skulu samkvæmt fyrirmynd er [ráðuneytið] 1) segir fyrir um.         
 Jafnskjótt og kjörbréf hafa verið afhent skal landskjörstjórn tilkynna stjórnarráðinu um úrslit kosninganna og senda nöfn hinna kjörnu þingmanna til birtingar í Stjórnartíðindum. 
    1)L. 162/2010, 162. gr.       
 112. gr.      
 Nú er ágreiningur milli umboðsmanna stjórnmálasamtaka, sem þátt hafa tekið í alþingiskosningum, og landskjörstjórnar um felldan úrskurð og eiga þá umboðsmenn rétt á að fá bókaðan ágreining sinn í gerðabók landskjörstjórnar. Landskjörstjórn sendir [ráðuneytinu] 1) eftirrit af gerðabók sinni um úthlutun þingsæta, svo og skýrslur þær og skilríki frá yfirkjörstjórnum sem ágreiningur kann að vera um, en [ráðuneytið] 1) leggur það fyrir Alþingi í þingbyrjun með sömu ummerkjum og það tók við því.    
    1)L. 162/2010, 162. gr.       
 113. gr.      
 Nú hefur Alþingi úrskurðað, eftir almennar alþingiskosningar, að kosning einhvers lista sé ógild og uppkosning hefur farið fram, sbr. 120. og 121. gr., og skal þá landskjörstjórn endurúthluta kjördæmissætum þar sem uppkosning hefur farið fram skv. 107. gr. og úthluta jöfnunarsætum að nýju skv. 108. gr. Fyrri úthlutun fellur þá úr gildi. 

Af því hvernig 1. málsgrein 111. gr. er orðuð í lögunum, hef ég ákveðnar grunsemdir um að kjörbréf til Alþingis, sem gefin voru út af kjörbrefanefnd árið 2017, séu ógild, þar sem líkur benda til að þau séu ekki gefin út í samræmi við núgildandi lög um kosningar til Alþingis nr. 24/2000. Í lögunum eru það eingöngu stjórnmálaöfl sem heimild hafa til listaframboðs þingmannsefna til að hljóta kosningu til Alþingis. það hverjir hafi heimidir til framboðs. Í 2. mgr. 32. gr. kosningalaga er skýrt tekið fram að: „Með stjórnmálasamtökum er í lögum þessum átt við samtök sem bjóða eða boðið hafa fram við alþingiskosningar.“  Enn fremur segir að: „Hverjum framboðslista skal fylgja skrifleg yfirlýsing meðmælenda hans um það fyrir hvaða stjórnmálasamtök listinn er boðinn fram.“

Eins og lesa má í „Áliti og tillögum Kjörbréfanefndar“, sem dagsett er 14. desember 2017, lítur út fyrir að kjörbréf allra aðalmanna sem kjörnir voru til setu á Alþingi, í þá nýafstöðnum Alþinigiskosningum, hafi körbréf til þingmanna Alþingis verið gefin út beint á nöfn einstakra Alþingismanna, en ekki til þeirra stjórnmálaafla sem buðu fram og áttu framboðin. Í þessari óvandvirkni kristallast mjög yfirgripsmikil óvandvirkni kjörinna fulltrúa þjóðarinnar, þar sem lagabókstafur og aðferðafræði við framkvæmd laga virðist of sjalda eiga beinlínis samleið með þeim á mikilvægum stundum. Slík óvandvirkni sem þarna er bent á virðist einnig ástæða til alvarlegrar skoðunar á því hvort þjóðin geti treyst þinmönnum til skoðunar á eigin yfirsjónum, eða hvort setja þurfi endurskoðunar og úrskurðarnefnd yfir mikilvæga starfshætti Alþingis. Set þetta hér fram til umhugsunar.  

Þetta eru svona meginlínurnar í því sem ég hef um langan tíma verið að banda á, að allt frá árinu 1959 hefur verið óheimilt samkvæmt lögum að fara með þingsæti frá þeim flokki sem fékk það í lögmætum kosningum.  Hér er ekki verið að draga þetta fram til að leita sökudólga vegna liðins tíma. Því miður virðist það landlægur löstur Alþingis og ríkisstjórna, að lesa afar kæruleysislega yfir lagatexta þegar slíkur texti hindrar framgang á vilja tiltekinna afla í samfélagi okkar. Það er því brýn þörf á að strjúka rykið af tilteknum texta stjórnarskrár okkar þar sem segir: Að allir skuli jafnir fyrir lögunum. Það er verðugt verkefni að ná því marki.

 


Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband