Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2021

ERU LÖG TIL ÓÞURFTAR, EF ENGINN VILL ÞEIM HLÝÐA

Einhvern veginn finnst mér eins og stjórnmálafólk í samfélagi okkar færist stöðugt fjær raunverulegum skilningi á  því hvað felist í hugtakinu „Lýðveldi“. Ef þetta umrædda fólk þarf að verja eigin hagsmuni, þá virðast þeir skilja vel hvernig eigi að nota lög og reglugerðir EN þegar þessi sömu lög og reglugerðir benda á að gengið sé yfir rétt alþýðumannsins, þá er allt í einu afskaplega erfitt að vita hvað er rétt, það þurfi að rannsaka nákvæmlega. Slík eru svörin, ef látið er svo lítið að staðfesta móttöku erindis, því yfir 90% innsendra erinda er ekki svarað. Það er því miður næsta víst að það er TALAÐ ÚT Í TÓMIÐ, ef aðila í stjórnkerfinu er bent á að fyrirætlanir eða gjörðir fari í bága við gildandi lög eða reglugerðir. Slíku er ekki ansað og í engu sveigt af rangri leið.

Svo virðist sem vanþekking á lögum og reglum aukist eftir því sem lögmenntuðu fólki fjölgar og er nú svo komið að líklega eru það fæstir sem gera ráð fyrir því að lögmenntaður aðili segi undanbragðalaust sannleika ef sá er ekki nauðbeygður til slíks. Lítum á fáein atriði þar sem engu er svarað.

Við síðustu alþingiskosningar komu upp nokkur  atriði sem sýna afar skýrt hver skilningur þeirra er sem fara með yfirstjórn á viðkomandi sviði. Hér er að sjálfsögðu átt við Landskjörstjórn. Að morgni sunnudags, að afloknum síðustu alþingiskosningum verður ljóst að mistök hafa verið gerð við frágang kjörgagna, þannig að kjörgögnin voru ekki sett í lokaða og innsiglaða kassa þegar talningarfólk fór heim til sín að sofa svolítið eftir langa vinnutörn við talningu atkvæða. Talið var allt í lagi að skilja kjörgögnin eftir á talningarstað og dyrum sem gengið var um læst, svo enginn átti að komast í kjörgögnin.

En þegar fólk hafði hvílt sig til hádegis og fengið sér nærandi máltíð, var mætt aftur á talningarstaðinn til þess að ganga frá kjörgögnum, svo sem lög segja fyrir um. Það átti lögum samkvæmt að gerast áður en þeir sem ábyrgð bera hyrfu af vettvangi. En þegar talningarfólk kemur aftur til starfa verður ljóst að ekki hafði öllum dyrum verið læst, að sal þeim sem kjörgögnin voru í. Jafnframt varð ljóst að einhverjir höfðu farið inn í salinn, því myndir birtust á Netinu, sem teknar höfðu verið um morguninn, eftir að kjörstjórnarfólk fór til að hvíla sig. Eðlilega kom upp spurning um hvort einhver hefði hreyft við kjörgögnunum? Af hverju varð það fyrsta spursmálið sem upp kom? Talningu hafði verið lokið og allar niðurstöður bókfærðar rétt og gefnar upp til yfirkjörstjórnar, ÁÐUR EN KJÖRSTJÓRN YFIRGAF HÚSNÆÐIÐ. Engin grunsemd var uppi um að uppgefnar og bókfærðar lokatölur hefðu ekki verið réttar samkvæmt talningunni. Enginn hafði komist í þessar skráðu lokatölur. Því var ALDREI FÆRÐ FRAM SÖNNUN FYRIR ÞVÍ AÐ UPPGEFNAR LOKATÖLUR VÆRU EKKI RÉTTAR.

Þegar ljóst varð að einhver hefði komist inn í salinn þar sem kjörgögnin höfðu verið óvarin, virðist hafa komið upp spursmál um það hvort það hefði verið átt eitthvað við kjörgögnin, t. d. atkvæðaseðlum laumað inn hjá einhverjum stjórnmálaflokkum. Þegar lauk þessi óvissuatriði um breytingu kjörgagna EFTIR AÐ TALNINGU, var einhver sem tók ákvörðun um að telja kjörgögnin aftur? Hver tók þá snilldar ákvörðun að telja atkvæði sem höfði verið eftirlitslaus í opnu rými í margar klukkustundir?  Hvaða gagn var að því að telja aftur kjörgögn SEM ENGINN HAFÐI VISSU UM AÐ EKKI HEFÐI VERIÐ BREYTT? ENGINN, gat gefið fullkomið svar um það hvort kjörgögnin, eftir umgang óviðkomandi aðila um óvöktuð kjörgögn, væru nákvæmlega eins og atkvæði greidd á kjörfundum og utan kjörfunda voru, þegar talningarfólk tók við gögnunum til talningar. Talningar sem hafði verið skráð og bókfærð án grunsemda um utanaðkomandi áhrif. Og að þeirri talningu lokinni var lokatala skráð og bókfærð, áður en nokkur vafaatriði komust að.    

Samkvæmt lögum er það Landkjörstjórn sem tekur endanlega ákvörðun um niðurstöður kosninga. Ég vil fá fram hreina staðfestingu á því hvort það var samkvæmt ákvörðun Landskjörstjórnar sem tekin var ákvörðun um að telja aftur þau kjörgögn sem enginn gat ábyrgst að væru nákvæmlega eins og þau kjörgögn voru sem sturtað var úr kjörkössum á borð talningarfólks. Hver tók eiginlega þá dómgreindarlausu ákvörðun að telja aftur? Þessu þarf að svara áður en þing kemur saman.

Þegar litið er til þess að í Landskjörstjórn virðist skorta þá dómgreind að sjá þau skýru rök sem liggja fyrir því að ENGIN RÖK, hafi verið lögð fram sem geti hnekkt fyrstu talningu. Og þar sem engin rök hafa enn verið lögð fram um ólögmæta framkvæmd kosninga eða fyrstu talningu kjörgagna, eru engar lögmætar heimildir til að ógilda fyrstu talninguna. Jafnframt er engin leið að leggja fram fullnægjandi rök fyrir því að kjörgögnum hafi ekki verið breytt, meðan kjörnefnd var sofandi heima. Talning kjörgagna, EFTIR ÞANN TÍMA  er FULLKOMLEGA ÓLÖGMÆT, þar sem ekki er hægt að tryggja  að um óbreytt kjörgögn frá kjörstöðum væri að ræða. Seinni talning getur því ALDREI orðið grundvöllur þingsæta

Og að lokum þetta. Það hefur verið ljóst síðan 1959 þegar kjördæmabreyting fór fram, þar sem  breytt var úr einmennings eða tvímennis kjördæmum yfir í stærri kjördæmi með fleiri kjördæmakjörna þingmenn. Meðan einn þingmaður var í kjördæmi, var veikur grunnur til að tengja þingsætið við efsta mann hvers framboðs. En eftir fjölgun þingmanna í hverju kjördæmi sem tækju þingsæti eftir hlutfallsreglu atkvæðamagns hvers framboðslista, og allir framboðslistar skráðir á stjórnmálaafl, voru ekki lengur forsendur fyrir beinni tengingu þingsætis við sérstaka persónu, þar sem þingsætið var eign stjórnmálaaflsins sem atkvæðin hlaut en ekki persónuna sem skipaði það sæti á framboðslista flokksins sem hlaut þingsætið.

Margar tilraunir hafa verið gerðar til að koma á leiðréttingu svokallaðs flokkaflakks, þegar einhverjir þingmenn yfirgefa þingsætið sem þeir hlutu kosningu til og fara með hið kjörna þingsæti yfir í annan stjórnmálaflokk. Frá þeirri stundu er þingmaður segir skilið við hið kjörna þingsæti og fer til starfa hjá öðrum stjórnmálaflokki, þá er Alþingi ekki lengur skipað í samræmi við síðustu alþingiskosningar og því ÓLÖGLEGA SKIPAÐ. Í dag er engin einföld leið til að gera sér fulla grein fyrir því hvað mikið af löggjöf og öðrum ákvörðunum Alþingis eru tekin af ólöglega skipuðu alþingi, en þau eru vafalaust afar mörg.

Það fyrirkomulag að þingmaður geti með einfaldri tilkynningu sagt skilið við þann stjórnmálaflokk sem út á fjölda greiddra atkvæða í þingkosningum, fékk úthlutað þingsæti, er náttúrlega tómt rugl. Einstaklingurinn sem um ræðir tók sjálfur ákvörðun um að bjóða sig fram í þingkosningum, til ákveðins sætis á lista viðkomandi stjórnmálaflokks. Í kosningunum fær sá stjórnmálaflokkur það mörg atkvæði að sætið sem þessi einstaklingur skipar á framboðslista Flokksins, fær úthlutað þingsæti fyrir þann frambjóðanda sem skipar það sæti á framboðalista sínum, sem fékk úthlutað þingsæti. Frambjóðandinn í því sæti framboðslista Flokksins er þar með kominn með þingsæti. Þegar allar niðurstöður kosninganna eru komnar inn á borð hjá Landskjörstjórn, úthlutar Landskjörstjórn þingsætum til stjórnmálaflokkanna í samræmi við atkvæðafjölda hvers Flokks, samkvæmt reglum kosningalaga. Landskjörstjórn raðar  frambjóðendum af listum stjórnmálaflokkanna inn á hin úthlutuðu þingsæti. Þarna er komið fram hvaða frambjóðandi sest í hvaða þingsæti. Hver þingmaður fær ákveðið tiltekið þingmannsnúmer í því kjördæmi sem þingmaðurinn hlaut kosningu í. Þegar öll þingsætin hafa fengið nafn og þingmannsnúmer kjördæmis, gefur Landskjörstjórn út KJÖRBRÉF, til hvers þingmanns. Í því kjörbréfi koma fram eftirfarandi upplýsingar:

LANDSKJÖRSTJÓRN

 GJÖRIR KUNNUGT:

  Að við alþingiskosningar 28. október 2017 hlaut Willum Þór Þórsson af B-lista. Framsóknarflokks kosningu sem 9. þingmaður Suðvesturkjördæmis lögmætan tíma.

Landskjörstjórn 7. nóvember 2017

Undirritun Landskjörstjórnar

Í þessum kassa hér fyrir ofan er skráður sá texti sem ritaður er í kjörbréf þingmanna. Þarna sést greinilega að hvert kjörbréf er gefið út á eitt sérstakt þingsæti og gildir hvergi annars staðar. Stigi þingmaður út úr þessu tiltekna þingsæti, á hann ekki möguleika á að setjast í annað sæti hjá neinum stjórnmálaflokka, enda enginn Flokkur með kjörfylgi til að fá úthlutað viðbótarsæti í því þingliði sem starfar yfirstandandi kjörtímabil.

Af því sem hér hefur verið bent á er t. d. fyrir utan öll heimildarmörk Landskjörstjórnar að setja Birgir Þórarinsson sem í kosningunum hlaut kjörfylgi til þingsætis fyrir M-lista á Suðurlandi. Stuttu eftir kosningar hafði Birgir sagt sig úr Miðflokknum. Þegar Birgis sagði sig úr Flokknum, strikaði hann einnig út nafn sitt af framboðslista Flokksins. Með því varð  frambjóðandi í 2. sætinu kominn upp í 1. sæti framboðslistans sem Landskjörstjórn átti að líta til með þingmannsefni M-lista í Suðurkjördæmi. Ljóst er að Landskjörstjórn hefur hvergi atkvæðafjölda til að búa til þingsæti fyrir Birgir. Hvorki utan flokka eða sem þingmann Sjálfstæðismanna.  Þá þyrfti að finna fyrir hann þingmannsnúmer og í hvaða kjördæmi sem 64 þingmaður? Það gengur ekki. Það er ekki eftir úrslitum kosninga og því ólögleg skipan.

 

 


Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 151
  • Frá upphafi: 165757

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 141
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband