Bloggfærslur mánaðarins, mars 2021
25.3.2021 | 16:05
Opið bréf til Ragnars Önundarsonar.
Heill og sæll Ragnar.
Ég verð að viðurkenna að ég átti alls ekki von á þeim viðbrögðum sem þú sýndir 23. mars, er ég gagnrýndi framsetningu þína á þáttum er lúta að verðtryggingu lánsfjár. Ég reiknaði einmitt með því, þar sem þú ert fyrrum bankamaður, þá væri hægt að ræða þessi mál við þig á grundvelli þeirra staðreynda sem legið hafa fyrir um margra ára skeið. Þó flestir fyrrverandi bankamenn forðist að horfa beint framan í þá vitleysu sem frá upphafi hefur verið viðhöfð í verðtryggingu lánsfjár, taldi ég þig kominn í þá fjarlægð að sjá það sem skorti á heilbrigða framkvæmd verðtryggingar.
Í fyrstu var öll gagnrýni á verðtrygginguna slegin út af borðinu með þeim rökum að lögin um verðtryggingu væru lög eftir hinn mæta mann Ólaf Jóhannesson, sem óumdeilt var einn merkasti lögspekingur landsins. Hins vegar er það merkilegt að alla tíð skuli honum hafa verið eignað handbragðið á lögum nr. 13/1979, um ráðstafanir í efnahagsmálum, því eins og sagan skýrir greinilega frá, var Ólafur á þeim tíma nýtekinn við sem forsætisráðherra og hafði í nægu að snúast við að halda starfsfriði í ríkisstjórn sinni. Hann kom því hvergi nærri textagerð í lagabálknum (bandorminum) um ráðstafanir í efnahagsmálum sem fékk laganúmerið nr. 13/1979. Það sást einna best þegar hann flutti framsöguræðuna á Alþingi fyrir frumvarpi bandormsins. Þegar hann fór að lesa um VII. kafla bandormsins, þá varð fyrrum lagaprófessornum á að lesa upp texta sem svo augljóslega átti sér enga fótefstu sem lagastoð. Ólafur hikaði aðeins í upplestrinum og greina mátti á svipbrigðum hans að honum hefði brugðið. En engin gagnrýni kom á þá vitleysuna sem Ólafur hafði lesið upp og var hún samþykkt án athugasemda. Athyglisvert um vinnubrögð stjórnarandstöðu. Ég spurðist fyrir um það hjá þremur þingmönnum stjórnarandstöðu, hvort þeir hefðu ekkert séð athugavert við það sem Ólafur hefði lesið upp. Allir töldu óþarft að gagnrýna það sem Ólafur setti fram. Enginn þessara þingmanna hafði áttað sig á að Ólafur hefði ekkert komið að textavinnslu bandormsins. Frumvarpið hafði átt að vera stjórnarfrumvarp, en vegna ósamkomulags í stjórninni, flutti Ólafur það sem sitt þingmannsfrumvarp en samt var það afgreitt á þingi sem stjórnarfrumvarp en ekki þingmannsmál.
Annað hefur einnig alla tíð verið athyglisvert við bandorminn. Eins og almennt er um slíka bandorma eru öll ákvæði þeirra um breytingar eða viðauka við þegar gildandi lög. Af þeirri ástæðu er þingleg meðferð bandorma ekki háð jafn sterkum ákvæðum um kynningu og umsagnarfresti, eins og skylt er um setningu nýrra laga. Ákvæðið um verðtryggingu í VII. kafla bandorms var í raun nýmæli í lögum. Því voru í raun engar forsendur fyrir því að hafa ófullgerðan lagatexta í bandorminum, þar sem engin lög voru þegar gildandi um þau málefni, sem tekið gætu við ákvæðum VII. kafla bandormsins. Af þessu leiddi ýmislegt sem var utan skráðra forsendna um vinnubrögð Alþingis.
Í fyrsta lagi það að fyrri tíðar bandormar höfðu allir, innan mánaðar frá samþykkt þeirra á Alþingi, verið orðin tómt og innihaldslaust laganúmer, þar sem öll innihaldsatriði bandorms voru komin, hvert inn á sitt fyrir liggjandi tilgreint laganúmer, og því enginn texti lengur til staðar í laganúmeri bandormsins. Þannig var það einnig með bandorminn nr. 13/1979, lög um efnahagsráðstafanir að öllu leyti nema hvað varðaði VII. kaflann. Mánuði eftir að bandormurinn hafði verið samþykktur á Alþingi, voru öll ákvæði hans komin í sín fyrir gildandi lög, þar á meðal ákvæði VI. kafla bandormsins, en í honum var 33. gr. bandormsins, sem fjallaði um Bráðabirgðaákvæði aftan við 13. gr. laga nr. 10/1961, um Seðlabanka Íslands. Það bráðabirgðaákvæði hafði einungis skilgreindan gildistíma. Með tvöfaldri framlengingu gildistíma, gátu þau ákvæði náð til ársloka 1981. Í ársbyrjun 1982 féll það ákvæði niður og var ALDREI ENDURVAKIÐ. Frá þeim tíma var 33. gr. laga nr. 13/1979 TÓM, því texti greinarinnar var kominn í sín rétti lög, sem var 13. gr. laga nr. 10/1961.
Það var margt afar dularfullt við meinta lagasetningu um verðtryggingu. Eitt það mikilvægasta var að í raun voru ALDREI til sjálfstæð lög um verðtryggingu, og því ekki reynt að halda þeim við. Strax eftir að bandormurinn var samþykktur á þingi, tók Seðlabankinn yfir allt frumkvæði í málefnum verðtryggingar, án alls samráðs við Alþingi. Seðlabankinn ákvað sjálfur að búa til svokallaða lánskjaravísitölu, án alls samráðs við Alþingi. Allar aðrar verðmæta vísitölur, voru settar með lögum frá Alþingi, enda er það einungis Alþingi sem þá hafði heimild til að ákvarða álögur gjalda. Lánskjaravísitalan hafði því aldrei lagaskilyrði til að vera notuð, en Seðlabankinn notaði hana samt og allir bankarnir öpuðu eftir Seðlabankanum.
Árið 1988 hélt Alþýðuflokkurinn síðasta fund sinn í 100 funda herferð um landið. Frummælendur voru Jón Baldvin, formaður og Jón Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra. Ég hafði búið mig vel út með ítarlega gagnahefti, því ég vissi að lítill tími fengist til skýringa á fundinum. Ég kom mínu máli til skila og heftinu til viðskiptaráðherra, sem reyndi að sleppa við að svara. En í lok fundarins var kallað eftir svari frá honum. Sagðist hann þá ætla að fá mig á fund mér sér eftir páskana, en þeir voru einmitt á næsta leyti þá eins og nú.
Ein af athugsemdum mínum var um það að Seðlabankinn hefði aldrei haft samráð við viðskiptaráðherra um útgáfu reglna sinna um verðtryggingu og aldrei komið út lögleg Reglugerð frá ársbyrjun 1982, til mars árið 1988, eða í rúm 6 ár. Sýnt var fram á að launavísitala væri ekki með samhæfðan forsendugrunn, sem gerði það að verkum að hækkanir launavísitölu væru ekki hlutfallslega réttar. Því væri launavísitalan óhæf sem grundvöllur í mati á verðrýrnun gjaldmiðils sem væri lögeyrir þjóðarinnar.
Þessar athugasemdir mínar höfðu þær afleiðingar, sem einhverjir muna eflaust, því strax eftir páskana 1988, felldi viðskiptaráðuneytið úr gildi verðbótagrundvöll lánsfjár, þar sem launavísitala var felld út úr viðmiðunargrunni en verbótagrunnur látinn miðast við framfærsluvísitölu og byggingavísitölu í þar tilgreindum hlutföllum. Mikill hávaði varð af þessari breytingu frá fjármagnseigendum, þar sem hótað var málaferlum. Í framhaldinu var svo stofnað Félags fjármagnseigenda, en af málaferlum varð aldrei, enda enginn grunvöllur til slíks.
Víkjum þá aftur að upphafinu. Lítum til þess að upp úr miðju ári 1978 er í miklum flýti gripið til ráðstafana til að forða lausafjárþurrð hjá bönkunum. Stöðug afar há verðbólga og rýrnandi kaupmáttur, dró verulega niður almennan sparnað, þannig að lausafé og útlánageta bankanna var að dragast verlega saman. Grípa þurfti til einhverra ráða og það strax. Áður hafði verðtrygging verið skoðuð en alls ekki búið að finna flöt sem gæti gengið upp. Jóhannes Nordal hafði verið nefndarformaður við skoðun leiða til verðtryggingar. Árið 1957, hafi hann verið fulltrúi Íslands á haustfundi Norræna Seðlabankastjóra, þar sem fjallað var um verðtryggingu fjármagns. Á sama tíma var Jóhannes ritstjóri Fjármálatíðina Landsbankans.
Á hinum nefnda fundi Norrænna Seðlabankastjóra, var sá Norðurlandamaður sem hvað mest hafði staðið í baráttu við verðgildi gjaldmiðils sinnar þjóðar, en það var, B. R. von Fieandt, aðalbankastjóri Finnlandsbanka. Hann flutti þarna afar yfirgripsmikla ræðu um verðtryggingu fjármagns, og Jóhannes birti þá ræðu óstytta í okt.-des. hefti Fjármálatíðinda Landsbankans 1957. Þar má lesa alla ræðuna en hér er einn mikilvægur þáttur hennar sem var svohljóðandi:
Ég lét þess getið, að vísitölukerfi okkar væri ekki fullmótað. Núna notum við að nokkru leyti vísitölu framfærslukostnaðar og að nokkru leyti vísitölu heildsöluverðs. Hvorugri hefur verið ætlað að gegna þessu hlutverki.
Við þörfnumst sérstakrar vísitölu vegna lána til langs tíma, en í henni þyrfti að taka tillit til verðlags - eigna, lands, bygginga og hlutabréfa, - sem er sú fjárfesting, er keppir við innstæðufé.
Ríkisvaldið ætti að láta gera svona vísitölu, og þar með myndum við losna frá þeirri ringulreið, sem nú ríkir um notkun okkar á vísitölum.
Eins og þarna kemur fram, var það þekkt á árinu 1957, að óraunhæft væri að verðtryggja peninga með vísitölu framfærslu- eða neysluverðs, því slíkri vísitölu væri ekki ætlað slíkt hlutverk. Yfir þessari vitneskju þagði Jóhannes 1979, þegar Seðlabankinn tók völdin í verðtryggingamálum strax eftir að Alþingi hafði samþykkt bandorminn umtalaða. Þar sem upphafsákvæði í verðtryggingamálum var að: - STEFNA SKAL AÐ ÞVÍ að verðtryggja sparifé landsmanna og almannasjóða. Verðtrygging lánsfjár var ekki nefnt þarna, enda útlán byggð á allt öðrum forsendum en innlán. En VII. kafla bandorms, byrjaði á 34. gr., sem var 1. gr. regluverks um verðtryggingarákvæði. Í þessari 1. gr. var einungis ein reikniregla sett fram sem heimil verðtrygging. En 34. greinin var svona:
Stefna skal að því að verðtryggja sparifé landsmanna og almannasjóða. Í því skyni er heimilt, eins og nánar greinir í þessum kafla, að mynda sparifjárreikninga og stofna til lánsviðskipta í íslenskum krónum eða öðrum verðmæli með ákvæðum þess efnis, að greiðslur, þar með taldir vextir, skuli breytast í hlutfalli við verðvísitölu eða gengi erlends gjaldeyris, sbr. 39. gr.
Tilgreint ákvæði útreiknings verðbóta er orðrétt tekið upp úr 1. gr. laga nr. 71/1966, lög um verðtryggingu fjárskuldbindinga. En þegar menn sóttu sér þennan texta, gættu þeir þess ekki að lög, nr. 71/1966, voru ekki lög um almenna verðtryggingu. Þau lög voru eingöngu um svonefnd stórlán, sem veitt voru eingöngu til fyrirtækja og sveitarfélaga. Þessi lán voru svonefnd eingreiðslulán, þar sem vextir og aðrir álagsþættir voru reiknaðir eftirá, við hinn eina gjalddaga eða greiðsludag, sem var uppgjörsdagur lánsins. Jafnframt var algengast með slík lán að væru þau í forminu með verðtryggingarákvæði, þá voru vextir lægri eða jafnvel engir.
Ég var einn þeirra sem benti á að þessi reikniaðferð væri ekki nothæf gagnvart afborgunarlánum, nema að einungis væri verðbættur sá hluti lánsins sem endurgreiddur væri hverju sinni (afborgun af höfuðstól), sem tæki verðbætur frá lántökudegi til greiðsludags. Seðlabankinn fékkst ekki til að staðfesta þetta. En á árinu 1983, setti ég fyrst fram framangreint sjónarmið um útreikning afborgana og var það samþykkt af þeim bönkum sem þar áttu í hlut. Sama haustið, fóru ungir námsmenn af stað og mynduðu hóp sem gerði kröfu til Alþingis um bætur vegna rangra útreikninga gjalddaga og leiðréttinga á útreikningi afborgana.
Ekki gat Alþingi breytt því sem liðið var og búið að gjaldfella, þannig að endirinn varð sá að samþykkt var þingsályktunartillaga um að þeir sem sett hefðu fram skýr dæmi um ofreiknaðar afborganir, fengju greiddar bætur úr ríkissjóði og reikniaðferðum yrði breytt. Ögmundur Jónasson fór fyrir þessum hópi ungs fólks, sem mig minnir að aðallega hafi verið frá Háskóla Íslands. Ég fylgdist nú ekki með til loka hvort þetta fólk fékk einhverjar bætur greiddar. En það sem lág alveg hreint fyrir, var það að Alþingi áleit að ranglega hefði verið staðið að útreikningi afborgana. Þar var þó ekki enn tilkomnar hinar tíðu ólöglegu upphækkanir höfuðstóls lána. Það kom ekki til fyrr en farið var að reikna verðbætur mánaðarlega og þá verðbættur allur höfuðstóllinn, sem er og hefur alla tíð verið hreint óheimilt glæpaverk.
Hægt er að fylgja mun nánar eftir öllum þeim óhæfuverkum sem framkvæmd hafa verið hér á landi í nafni verðtryggingar lánsfjár. Það verður samt að bíða þeirrar heildarsamantektar sem búið er að skrá, en kemur síðar fyrir almenningssjónir. En líklega hafa alvarlegustu áföllin vegna rangra vinnubragða fjármálakerfisins gagnvart heiðarlegum útreikningum lánskjara, þó verið útreikningar afborgana og vaxta af svonefndum húsnæðisslánum sem áttu samkvæmt texta lánaskjals að reiknast með jafngreiðsluvöxtum.
Jafngreiðsluvextir er sérstakur útreikningur vaxta af afborgunarskuldabréfum, þannig að allan lánstímann er greidd sama krónutala í vexti á hverjum gjalddaga. Einnig er afborgunartala höfuðstóls láns sama upphæð í krónutölu allan lánstímann. Ég held að slík reikniregla hafi ekki verið notuð þegar skuldabréfakerfið í tölvukerfi Reiknistofu bankanna hóf útreikninga afborgana skuldabréfa í reiknikerfum sínum. Ég benti ítrekað á þessi atriði o.fl. meðan ég var í starfi í banka, en því var ekki sinnt. Þegar skuldabréfaform bankanna var endurnýjað eftir vaxtafrelsið 1985, var ég einn þeirra sem textuðu lánaskilmálana sem ritaðir voru á skuldabréfin. Mitt form var skuldabréf jafngreiðslulána, þar sem á einfalda en skýran hátt er útskýrt hvernig reikna skuli út vexti jafngreiðslulána. Ekki eru þær reglur fundnar upp af mér, þó örlítið skýrar hafi verið tekið til orða. Alla vega fékk sá texti góð ummæli eftirlitsnefndar og stóð sá texti enn, fyrir nokkrum árum er ég síðast sá slíkt skuldabréf.
Kæri Ragnar! Það er reginmunur milli þess að setja fram í hroka og reiði, að einhver fari með eintómt bull. Eða að þar sé í raun um bull að ræða. Ég hef fylgst með þessum meintu verðtryggingarmálum allt frá upphafi. Ég reyndi að vara við vinnubrögðum þáverandi starfsmanna Selabanka, við upphaf lagasetningar, þegar þeir fengu engu breytt um ákvæði 34. gr. bandorms 13/1979. Þess í stað settu þeir villandi ákvæði inn í bráðabirgðaákvæði eigin laga, um Seðlabankann. En það bráðabirgðaákvæði var tímabundin aðgerð vegna uppgjörs vanskilalána við upphaf verðtryggingar. Enginn vildi þá trúa slíkum vinnubrögðum á Seðlabankann en raunveruleikinn varð annar. Þar er eitt af ljósu dæmunum sú ólögmæta reikniaðferð sem þú nefndir, líklega í góðri trú, eins og flestir aðrir bankastarfsmenn sem ekki skoða grunngildi þeirra reglna sem bankastarfsmönnum er ætlaða að framfylgja. Þegar ég hafði þrautreynt, sem innanhússmaður, að fá leiðréttar mestu rangfærslurnar í útreikningum verðtryggðra skuldabréfa, sagði ég starfi mínu lausu, þar sem ég treysti mér ekki til að gera það að lífsstarfi mínu að fara illa með fólk, sem ekkert hafði gert mér, hvorki illt né gott.
Ég er einnig hugsandi yfir því að á þeim árum sem ég sinnti aðstoð við fólk í fjárhagsvanda, hafði ég allan tíma uppi þá reikniaðferð verðtryggingar sem ég hef alla tíð lesið út úr virkum heimildum útreiknings verðtrygginga lánsfjár. Þannig útreiknuð hef ég lagt fyrir bankastofnanir að fá lánsfé sitt endurgreitt. Meðan ég starfaði, stóð ég að uppgjörum á töluvert á þriðja þúsund skuldabréfa. Ég bauð fram hina löglegu reikniaðferð eða fara með uppgjörið í gegnum dómstóla. Og alltaf var uppgjörið þegið. Líklega ekki vegna þess hve mikla vitleysu ég setti fram, eða hvað? Nokkrum sinnum eftir að ég hætti störfum, hef ég tekið til eitt og eitt mál fyrir vini og vandamenn, með sama árangri. Síðast nú fyrir fáum árum, þar sem greiðandinn var beðinn að lofa því að segja mér ekki frá því hvernig uppgjörið hefði farið fram. Hann stóð við það sem hann hafði verið pressaður til að lofa. En eftir að þau hjónin höfðu fengið skjölin um uppgjörið, sagðist konan hans engu hafa lofað og sýndi mér skjölin. Hún ætti þau líka.
Að lokum vil ég segja það, að þó einhverjir sem lesa þetta vildu ráðast á tölvuna mína, til að reyna að eyðileggja það sem ég hef dregið saman í gögnum og rituðu máli. Þá er það fljót sagt að ekkert slíkt er geymt á nettengdri tölvu. Nokkrum sinnum hefur nettengdri tölvu minni verið rústað, líklega í slíkum tilgangi. En slíkt verður ávalt án árangurs þar sem ég geymi engin markverð gögn á nettengdri vél. Og slíkt er ekki heldur geymt hér heima.
Daginn eftir að ég skrifaði á síðuna þína, athugasemdina sem þú lést fara í skap þitt, frétti ég að þú hefðir eytt því sem ég skrifaði inn hjá þér. En það breytir engu í sjálfu sér því ég tók strax afrit að þinni færslu og minni athugasemd og setti á minniskubb hjá mér, svona ef grípa þyrfti til tilvísana í annan hvorn okkar.
Hafðu það ætíð sem best.
Með kveðju,
Guðbjörn Jónsson
Nýjustu færslur
- Álfagangur varðandi lángtímaleigu á Álfabakka 2?
- EES samningur og ætlað vald ESB
- Efnahags og viðskiptanefnd Alþingis 2021 / Hver er þekking ál...
- Þjóð án fyrirhyggju og dómgreindar: Fyrirlestur saminn og flu...
- Þetta jaðrar við hættulegt ábyrðarleysi hjá fomanni stærsta s...
- BREYTING ER NAUÐSYN TIL BETRA LÍFS
- YFIRSTJÓRN SEÐLABANKANS Lög 2019
- EES samningur og ætlað vald ESB
Eldri færslur
2025
2024
2023
2022
2021
2020
2019
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 5
- Sl. sólarhring: 12
- Sl. viku: 56
- Frá upphafi: 165769
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 44
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- alla
- framtid
- mammzan
- hallgrimurg
- huldumenn
- jaxlinn
- johanneliasson
- maggij
- photo
- haukurn
- runar-karvel
- sigrunsigur
- skodunmin
- svarthamar
- vestskafttenor
- athb
- thjodarsalin
- seiken
- skinogskurir
- bjarkitryggva
- bjarnimax
- brahim
- gattin
- einarhardarson
- einarorneinars
- bofs
- dramb
- haddi9001
- heimssyn
- tofraljos
- don
- hordurvald
- fun
- visaskvisa
- huxa
- jonasphreinsson
- jonl
- jobbi1
- jonvalurjensson
- jonthorolafsson
- josefsmari
- juliusbearsson
- ksh
- kolbrunerin
- kristbjorg
- liu
- skrafarinn
- maggiraggi
- markusth
- os
- raksig
- rosaadalsteinsdottir
- fullvalda
- siggileelewis
- duddi9
- siggith
- saemi7
- tryggvigunnarhansen
- vga
- thjodarheidur