Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2023

Þjóð án fyrirhyggju og dómgreindar: Fyrirlestur saminn og fluttur haustið 1987

Efnið er sett fram á sem einfaldastan máta þar sem áheyrendur eru ekki faglærðir, bara alþýðufólk. 

LITIÐ TIL BAKA.

Þegar við setjumst niður og reynum að skilgreina helstu vandamál þjóðfélags okkar, þýðir ekki að horfa aðeins á þjóðfélagið eins og það er í dag. Við verðum að fara aftur í tímann og fylgja breytingunum eftir og skoða þær á gagnrýninn og hlutlausan hátt.

Við skulum fara aftur í tímann, aftur fyrir fjármagn, og fylgja eftir meginpóstum þróunar fram til dagsins í dag. Það eina sem ég vil biðja ykkur að varast, er að stækka ekki myndina í huga ykkar fram yfir það sem þið ráðið vel við að fylgja eftir. Hafa ber í huga að forsendur hagkvæmni breytist ekki þótt rekstrareiningin stækki.  Ef dæmið á að ganga upp, verða grunneiningar forsendna að fylgja eftir stækkun rekstrareiningarinnar.

Hverfum nú aftur í tímann til þess tíma er viðskipti fóru fram með vöruskiptum. Á þeim tíma var lítið fjármagn í umferð en markaðsverð á hverjum tíma réði hvað mikið fékkst fyrir þær vörur sem viðkomandi vildi selja, í skiptum fyrir eitthvað annað sem hann vantaði og vildi kaupa.

Strax á þessum tíma komu í ljós stærstu gallar óhefts markaðslögmáls. Í fæstum tilfellum fengu framleiðendur sannvirði fyrir vörur sínar, en voru aftur á móti  látnir greiða hátt verð fyrir það sem þeir þurftu að kaupa. Þarna kom því strax í ljós gífurlegur mismunur á aðstöðu þess sem vantar vöruna (kaupandans) og hins sem hefur hana til sölu.

Það virðist eins og tveir sterkir eiginleikar séu að verki þegar menn eiga viðskipti. Annars vegar ákafi seljanda að selja á sem hæstu verði. Hins vegar sami aðili sem kaupandi að verðmætum þess sem hann á viðskipti við, þá vill hann greiða sem minnst fyrir  vöruna sem hann kaupir. Þær aðferðir sem notaðar eru í svona viðskiptum eru ekki alltaf sérstaklega mannbætandi.  Hins vegar er svo hin rótgróna eðlishvöt mannsins, að láta sem mest eftir sér af því sem hann langar í. Við slíkar aðstæður er sjaldnast mikil rökhyggja á bak við skilgreininguna um nauðsyn þess að láta undan löngunum sínum.

Þriðja þáttinn mætti einnig tilnefna, en hann er hin mikla þörf okkar íslendinga fyrir að sýnast ríkari, meiri og fullkomnari en við erum í raun. Við virðumst halda að það sé það sem gefi þjóð okkar þá virðingu sem við sækjumst svo mjög eftir.

Á þessum upphafstímum viðskiptanna kom fljótt í ljós að kaupendur höfðu ekki nægar tekjur til að geta fullnægt þörfum þeirra sem vildu selja. Í fyrstu voru kaupendur fáir, aðallega erlendir verslunarmenn sem pressuðu niður verð á þeim vörum sem þeir keyptu. Með tilkomu innlendra kaupmanna var  fundið upp form lánsviðskipta, til að hægt væri að auka söluna fram yfir það sem raunverulegt fjármagn var til fyrir.

Þegar hér er komið sögu, áttuðu menn sig á að hægt var að kaupa vöru af framleiðandanum, með lánsviðskiptum, og selja þær aftur á hærra verði til þeirra sem vantaði vörurnar, áður en greiða þurfti framleiðandanum fyrir vörurnar. Þarna kom til sögunnar fyrsti milliliðurinn,  sem miðlaði vörum framleiðenda til neytenda án þess að leggja út nokkurt fjármagn sjálfur og hagnaðist á viðskiptunum.

Þegar menn sáu að þetta gat gengið, fóru þeir að prufa að bæta einum millilið við. Var þar kominn til sögunnar heildsalinn, sem keypti vörur, með lánsviðskiptum af framleiðandanum, seldi þær aftur til smásalana, einnig gegn gjaldfresti, en smásalinn seldi svo vörurnar til neytenda gegn greiðslu.

Fljótlega kom þó í ljós að þetta gat ekki gengið, þar sem framleiðandinn þurfti að fá greiðslu sína fljótar en það tók smásalann að fá greiðslu fyrir seldar vörur.  Frekar en leggja þennan millilið niður, fóru menn að brjóta heilann um leið til að gera tilvist hans varanlega.

Menn fundu þá leið að fyrri milliliðurinn tók skuldarviðurkenningu frá þeim seinni, sem hann svo seldi banka og fékk í staðinn peninga, sem hann svo notaði til að greiða framleiðandanum.

Þegar farið var að nota þetta KERFI, kom fljótlega í ljós að sumar þessara skuldaviðurkenninga fengust ekki greiddar. Var þá gripið til þess ráðs að hafa einhver veð  fyrir svona skuldaviðurkenningum, annað hvort í eignum útgefanda þeirra, eða með ábyrgð einhverra annarra aðila sem líklegir gátu talist til að geta greitt það sem ekki næðist inn hjá skuldara.

Þarna voru að festast í sessi þeir viðskiptahættir sem við búum við enn í dag, þó þeir hafi nú hlaðið nokkuð utan á sig í gegnum tíðina.

Það sem fór að bera á um þetta leyti, var sambandsleysi milli framleiðenda og neytenda. Hvorki framleiðendur eða neytendur virtust hafa áttað sig á þeirri gjá sem búið var að grafa á milli þeirra. Búið var að setja lög og reglur um viðskipti sem gerðu ráð fyrir að viðskiptin færu fram með milligöngu þeirra aðila sem komið höfðu sér fyrir á milli framleiðenda og neytenda. Þar með voru milliliðirnir einnig búnir að ná ákveðnu valdi yfir framleiðendum.

Þarna urðu í raun kaflaskil í sögunni, því nú fóru milliliðirnir að ráða mun meiru um verðlagningu framleiðslunnar en áður hafði verið. Framleiðendum var nauðsyn að selja, til að afla sér tekna, en söluverð framleiðslunnar mátti ekki vera hærra en svo að milliliðurinn teldi að kaupandi fengist að henni, eftir að kostnaði milliliðanna hafði verið bætt við verðið frá framleiðanda.

Í fyrstu gekk þetta áfallalítið því milliliðirnir voru fáir og viðskiptin að mestu bundin við vörur til framfærslu og bygginga. Þeir menn sem þá voru uppi virtust tiltölulega fljótir að átta sig á að eyðsla og lánsviðskipti mátti ekki fara nema ákveðið hlutfall upp fyrir tekjuöflunina. Til að halda rekstrinum innan þeirra marka voru settar reglur um eyðslu þeirra fjármuna sem aflað var. 

Talsmenn milliliðanna kölluðu þetta HÖFT og útmáluðu með miklum fjálgleik hvað væri verið að fara illa með fólkið í landinu, að leyfa því ekki að kaupa það sem það langaði í. Mikill meirihluti landsmanna var og er ekkert gagnrýninn á svona málflutning, því hann kitlar þægilega löngunina til að láta eftir sér meira en efnahagur viðkomandi leyfir.

Þegar farið er út á braut lánsviðskipta, eða að fjárfesta til framtíðar, eins og það er oft kallað, eru á þeirri braut ákveðnar hættur. Þær felast aðallega í greiðslubyrði þeirra skuldbindinga sem gerðar hafa verið. En ekki felst síður hætta í misjöfnum tekjum eða öryggisleysi við tekjuöflun. Þegar slíkir viðskiptahættir fara yfir hættumörkin, byrjar að safnast upp rekstrarvandi. Stjórnmálamenn síðustu áratuga hafa ekki þorað, eða haft þekkingu til, að takast á við þennan vanda. Á sviði þjóðfélagsins kemur þessi vandi helst fram með tvennum hætti.

Í fyrsta lagi:  Sé eyðslu fjármuna þjóðfélagsins stjórnað með aðhaldi að settum markmiðum um nýtingu fjármagns til viðhalds eða tekjuaukandi framfara, upphefst söngur milliliðakórsins um höft og frelsisskerðingu. Þessi kór milliliðanna er því miður oftast dyggilega studdur af helstu fórnarlömbum sínum, sem eru launþegarnir í landinu. Það lætur nefnilega svo þægilega í eyrum að heyra boðskap um að hægt sé að fá að láta meira eftir sér. Það er miklu þægilegra áheyrnar en boðskapur um ráðdeild og sparnað. Það verður víst aldrei hin sterka hlið mannsins að leggja hömlur á langanir sínar.

Í örðu lagi:  Ef eyðslu fjármuna er ekki stjórnað, kemur það alltaf fyrst niður á launþegum og framleiðslugreinum tekjuöflunar. Sá aðili þjóðfélagsins sem lengst heldur sínum hlut er milliliðahópurinn. Nægir þar að minna á kartöfluævintýrið í vor, þegar verð á kartöflum var lækkað. Milliliðirnir fengu allan sinn kostnað að fullu, en því miður var söluverð út úr búð það lágt að ekkert varð eftir af því fyrir framleiðendur.

Þessi hópur, milliliðirnir, kappkosta að koma sínum fulltrúum fyrir á sem flestum stöðum í stjórnkerfinu, þar sem ákvarðanir eru skipulagðar eða teknar. Þetta gerir það að verkum að litlu máli skiptir, fyrir afkomu þeirra, hvort fulltrúar þeirra eru í meirihluta á þingi eða ekki. Þeir eru alltaf réttu megin við þær ákvarðanir sem verið er að taka. Þetta er þeim mun auðveldara eftir því sem þjóðfélagið er minna og samskipti og tengsl manna meiri.

Ef við lítum aðeins nánar á hvernig viðskiptamál okkar hafa þróast síðustu áratugina, kemur í ljós að tekjuöflunarhliðin hefur verið vanrækt. Aðal áherslan hefur verið lögð á uppbyggingu eyðslunnar, með aukinni þjónustu og verslun.

Stöðugt þarf að fylgjast með fjármagnsflæðinu um þjóðfélagið, vegna eðlilegrar rýrnunar fjármagns við streymi þess um lífæðar þjóðfélagsins. Um langt árabil hefur þess ekki verið gætt að innstreymi tekna ykist til samræmis við aukin umsvif verslunar og þjónustu. Þetta hefur leitt af sér það sem ég kalla gengisfall innan þjóðfélagsins, Það sem ég á við hér er að peningar eru of lítill hluti af veltu samfélagsins.

Þetta leiddi meðal annars af sér að bankakerfi sem var orðið of stórt, gat ekki greitt vexti sem voru yfir innlendri verðbólgu. Sem aftur leiddi til þess að fólk var farið að missa trú á að eiga peninga sína í banka. Þá var fundin upp reikniregla til að auka sjálfkrafa peningamagn í umferð, til að koma í veg fyrir að stjórnvöld þyrftu stöðugt að vera að útskýra fyrir þjóðinni innlendar gengisfellingar krónunnar.  Siðferðislega er þarna á ferðinni sama aðgerð og þegar bókhald fyrirtækis væri falsað til að hluthafar áttuði sig ekki á hve staðan væri slæm.

Frá árinu 1979 höfum við, í þessu þjóðfélagi, verið að byggja upp eigna og skuldastöðu, sem enginn raunveruleiki eða raunverðmæti eru að baki. Þetta hefur aftur á móti gert það að verkum að allir þeir sem skulda hér á landi, hafa verið að greiða margfalt hærra gjald fyrir fjármagnið en skráð hefur verið sem vextir. Þetta er nokkuð flókið að útskýra og verður ekki gert í stuttu máli.

Vegna þess hvernig bankakerfi okkar er uppbyggt, hefur allt fjármagn farið samdægur til Reykjavíkur og að mestu leyti verið ráðstafað þar. Það er hins vegar óþægileg staðreynd að stjórnvöld og stjórnendur fjármagns í landinu, hafa látið það viðgangast að of stórt hlutfall af veltufjármagni þjóðarinnar var tekið úr umferð til frambúðar. Því hefur verið breytt í fasteignir sem ekki koma til með að skila þjóðfélagslegri arðsemi því það hefur verið fest í arðlausum eignum og verður þar fast til framtíðar.

Til þess að halda þessari hringavitleysu gangandi, hafa viðskiptahættir orðið að breytast nokkuð ört. Eins og ég sagði áðan, getur velta viðskipta ekki farið nema ákveðið upp fyrir tekjumyndun, án þess að það skapi vandamál.

Þessi vandamál hafa verið til staðar hér mörg undanfarin ár. En í stað þess að ráðast gegn vandanum og leysa hann, hefur verið farin sú leið að búa til nýja milliliði og millifærslur til að fela vandamálin fyrir almenningi.

Hvað skildi ég eiga við?

Við skulum ekki fara of langt aftur í tímann. Við skulum byrja þar sem vandamálin fóru að verða erfið í sambandi við kjarasamninga opinberra starfsmanna. Það var leyst með því að láta fólk fá laun sín greidd fyrirfram. Með því tókst launagreiðendum að færa vandan frá sér yfir til launafólksins. Í stað þess að fá kjarabætur, var fólkið sett í þann vanda að vildi það t. d. skipta um vinnu, varð það að vinna í heilan mánuð, eftir síðustu launagreiðslu.

En þar sem líklegast var að næsti launagreiðandi greiddi vinnulaunin eftir á, þurfti fólk að vinna heilan mánuð hjá nýja vinnuveitandanum, væri það ekki opinber aðili, áður en fyrsta launagreiðsla bærist.

Þar sem ekki var tekið á sjálfu vandamálinu, sem var ofþensla miðað við magn fjármagns í umferð, var þetta ekki nema skammtíma lausn. Fljótlega fór aftur af stað óánægja hjá launafólki. Þá var fundin upp hin margfræga aðferð með FÉLAGSMÁLAPAKKANA. Það eina sem gleymdist í því dæmi, var að tryggja að launþegar yrðu ekki sjálfir látnir taka á sig þær auknu álögur sem fylgdu félagsmálapökkunum, sem samið var um.

Þegar þessi pakkaafgreiðsla var farin að ganga sér til húðar, var farið að útfæra fyrirframgreiðslu launa fyrir fleiri stéttir. Samtímis því var svo liðkað aðeins fyrir um aðgang að lánsfé til beinnar eyðslu. Farið var að bera á að verslanir áttu bágt með rekstrargrundvöll og þær farnar að keppa grimmt á markaði lánsviðskipta og afborgunarkjara. Þrátt fyrir ítrekaðar athugasemdir til stjórnvalda, hafa ekki enn verið settar heilstæðar reglur um þessi viðskipti, sem samrýmdi þau í einum farvegi.

Um svipað leyti og þessi viðskiptamáti var kominn vel á veg, fóru menn að átta sig á að þarna var komið pláss fyrir einn millilið til viðbótar. Hafist var handa við stofnun fyrirtækja sem keyptu ákveðin lánsviðskipti af verslunum og innheimtu þau síðar hjá lántakanum. Þannig urðu kortafyrirtækin til.

Nýjasta dæmið í þessum flokki er svo yfirdráttarheimildir bankanna, til almennings, sem tóku gildi á síðasta ári. Hvað þær duga lengi til þess að koma í veg fyrir óstöðvandi skriðu vanskila, er ekki gott að segja. Eitt er víst. Ég er löngu hættur að reikna með ábyrgum stjórnunaraðferðum af hálfu ríkisstjórnarinnar, enda má færa rök fyrir því að Alþingi sé einungis afgreiðslustofnun fyrir þá sem stjórna. Nægir þar að nefna næsta rislitla meðferð Alþingis á því frumvarpi sem fram kom til nýrra laga um Seðlabankann.

Vegna mótmæla stjórnenda Seðlabankans, þorði Alþingi ekki að afgreiða frumvarpið. Samþykkt var, á þingi, að leggja þetta frumvarp til hliðar en fela Seðlabankanum sjálfum  að semja frumvarp til laga um eigin starfsemi.

Hver skildi svo ástæðan vera fyrir öllum þessum lánsviðskiptum?

Í raun er hún hin sama og við upphaf lánsviðskipta, þ. e. skortur á peningamagni í umferð miðað við umsvif og veltu í þjóðfélaginu. Samhliða hafði þess ekki verið gætt að tekjuaukning þjóðfélagins bæri uppi útþenslu verslunarinnar. Aukning innflutningsverslunar varð mikið meiri en nam vexti þjóðartekna.  Afleiðingar þess urðu svo þær að innflutningsverslunin hirti megnið af gjaldeyrinum, jafnvel áður en hans hafði verið aflað.

Of lítið fjármagn í umferð innanlands varð þess valdandi að skortur varð á lausafé til reksturs heimila og framleiðslufyrirtækja. Þeim er í raun haldið gangandi með verðtryggingunni, ýmsum millifærslum og erlendu lánsfjármagni.  Það er eins og þjóðin öll hafi trúað því að peningarnir yrðu bara til svona af sjálfu sér í kjallara Seðlabankans, eins og Seðlabankastjóri á að hafa sagt um eigið fé Seðlabankans.

Kannski má kenna Seðlabankastjóra um hvernig komið er. Hann lagði ofurkapp á að flytja Seðlabankann burt úr því húsi þar sem peningarnir uxu í kjallaraherberginu.

Samið og flutt haustið 1987 af  Guðbirni Jónssyni


Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband