Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2013

Elsta þjóðaríþrótt íslendinga

Segja má að einn sterkasti grunntónn í eðlisþáttum Íslendinga sé útúrsnúningur og sniðganga laga og reglna, sem eru til þess ætluð að stýra samfélagi okkar. Þennan grunntón virðist bæði mega rekja til hinnar norsku arfleyfðar okkar, þar sem norski stofninn í okkur flúði lög og reglur sem stjórna áttu samfélaginu. Þeir vildu ekki una slíkri stjórnun. Þess vegna flúðu þeir frá Noregi og héldu til Íslands.

Írski þátturinn í okkur er af svipuðum grunni. Af því leiðir að eitt sterkasta aflið í grunneðli okkar er, eins og að framan segir, að  ganga gegn reglum og lögum sem sett eru til margvíslegrar stjórnunar samfélagsins. Eitthvað, í undirtón grunneðlis okkur, finnst á einhvern hátt að slíkar reglur skerði frelsisvitund okkar. 

Af þessu að merkja virðist vera afar veik vitund í grunneðli okkar fyrir samhygð samfélags- vitund og ábyrgð, þegar ætlast er til að við gjöldum slíkum þáttum skattgreiðslur. Hins vegar virðist næsta ótæmandi tilætlunarsemi í okkur, til samfélgsins, að það greiði sem mest af hugmyndum okkar um eigin lífsþægindi, án þess að við spyrjum hvaðan peningar til slíks komi.

Það sem ég hef hér lýst má alveg líkja við heilkenni. Það er ekkert þekkt lyf til við svona heilkenni og ekkert tölvuforrit eða tæknilausn til sem getur hjálpað, snöggvast, með úrlausn í þessum málum. Vegna einhverrar djúpt liggjandi minnimáttakenndar, erum við haldin þeirri streitu að við höfum ekki tíma til að þroska undirvitund okkar, sem í raun er “harði diskurinn” í þeim hugbúnaði sem við göngum fyrir. Við erum svo viss um að við séum alveg að missa af lestinni til að verða, snöggvast, rík og fræg.

Hvað skildi liggja að baki því að ég set það á blað sem hér að framan er skrifað? Grunnástæðan er sú að um allnokkurt skeið hef ég verið að leita skýringa á því hvers vegna mennta- og fræðasamfélag þjóðar okkar hafi svo ríka hvöt til að sniðganga sannleika og réttlæti, eins og raunin hefur verið um all nokkurt skeið, eða á fjórða áratug. Ég tel sterkar líkur á að höfuðástæðu þeirra þátta megi rekja til framangreinda grunneðlisþátta í undirvitund okkar. Hina ósjálfráðu hvöt til að berjast gegn öllu sem ætlar að stjórna okkur á annan veg en við viljum sjálf, hvert og eitt, því við erum sjaldan samstíga.

Nýjasta sönnun þess hve ríkur eðlisþáttur er í okkur að snúa útúr og rangtúlka lög og reglur, var mér sýnd nýlega í svari Fjármála- og efnahagsráðuneytis vegna tvísköttunar Ríkisskattstjóra (RSK) á lífeyrisgreiðslu, sem Íslendingur fær greidda frá einu Norðurlandanna.

Í samningi Norðurlandanna til að komast hjá tvísköttun, að því er varðar skatta á tekjur og eignir, segir eftirfarandi skýrum stöfum í 1. mgr. 18. gr. samningsins:

“1. Eftirlaun og lífeyri, sem greiddur er frá samningsríki og greiðslur frá samningsríki samkvæmt almannatryggingalöggjöf þess til aðila heimilisfasts í öðru samningsríki, skal einungis skattleggja í fyrrnefnda ríkinu.”  

Eins og kemur fram í samningnum, er ekki litið á eftirlaun og lífeyri sem launatekjur. Eru þær greiðslur því ekki flokkaðar með mörgum samningsgreinum er lúta að meðferð hinna ýmsu þátta tekjuumhverfis. Eftirlaun og lífeyrir er flokkað í sér samningsgrein, vegna þess, að hjá því Norðurlandi sem hér um ræðir, eru eftirlaun og lífeyrir í lægra skattþrepi en venjulegar launatekjur. Slíkt virðist hins vegar ekki alls staðar eins og t. d. hér á landi þar sem lífeyrir er skattlagður með launatekjum.

Í framangreindri tilvísun í 1. mgr. 18. gr. samningsins kemur fram  að eftirlaun og lífeyri skal einungis skattleggja í fyrrnefnda ríkinu, þ. e. í ríkinu sem greiðir lífeyrinn. Fjármálaráðuneytið bendir á að þessu ákvæði hafi verið breytt samkv. V. gr. bókunar um breytingu á tvísköttunarsamningnum, sem undirritað var í Helsinki 4. apríl 2008. Þar verður sú breyting á 1. mgr. 18. gr. samningsins að í stað þess sem staðið hafði að: lífeyri skal einungis skattleggja í fyrrnefnda ríkinu, breyttist þetta ákvæði þannig að  nú væri það að: lífeyri skattleggja í fyrrnefnda ríkinu.

Eina breytingin sem þetta hefur í för með sér er sú að ekki er lengur SKYLDA (skal) ríkis í greiðslulandi að skattleggja greiðsluna. Nú er einungis um heimildarákvæði að ræða að greiðsluríkið MÁ skattleggja greiðslu lífeyrisins.

Í því tilfelli sem hér um ræðir, breytir þessi breyting 1. mgr. 18. gr. tvísköttunarsamnings Norðurlanda engu, varðandi heimildarleysi RSK á Íslandi til að skattleggja hina erlendu lífeyrisgreiðslu. Þrátt fyrir að engin SKYLDA sé lengur til skattlagningar í greiðslulandi, er heimildin skír, að greiðslulandið MÁ skattleggja greiðsluna, sem það og gerir. Þar með er einnig skírt að RSK á Íslandi er með öllu óheimilt að skattleggja hina sömu erlendu lífeyrisgreiðslu, því í greiðslulandi er BÚIÐ AÐ SKATTLEGGA HEILDARGREIÐLSUNA. Og þegar RSK skattleggur hina erlendu lífeyrisgreiðslu er verið að skattleggja sömu fjárhæðina öðru sinni, á sama árinu.

Réttlætingu sína fyrir þessari framkvæmd sækir RSK í 4. mgr. 25. gr. tvísköttunarsamningsins, en þar segir svo í a) lið:

Hafi aðili heimilisfastur á Íslandi tekjur eða eigi hann eign sem einungis skal eða má skattleggja samkvæmt ákvæðum þessa samnings í öðru samningsríki, skal Ísland, nema ákvæði b-liðar leiði til annars, lækka íslenska tekju- eða eignarskattinn með því að draga frá þann hluta tekju- eða eignarskattsins sem reiknaður er af þeim tekjum sem aflað er eða eign sem er í hinu ríkinu .

Það þarf yfirgripsmikið þekkingarleysi á eðlilegum vinnubrögðum til að misnota framangreint ákvæði tvísköttunarsamnings eins og RSK gerir. Í fyrsta lagi má glögglega sjá að regla sú sem þessi tiltekna málsgrein byggir á, gengur út frá því að verið sé að skattleggja TEKJUR SEM AFLAÐ ER og þeirri ástæðu sé skattprósenta álíka í öllum löndunum. Því komi álíka upphæð í frádreginn skatt af heildarupphæð ef greidd staðgreiðsla í greiðslulandi lífeyris er dregin frá heildarálagningu skatts hér á landi.

Því miður yfirsést starfssmönnum RSK afar mikilvæg sannindi í þessu máli. Skattlagning lífeyris hér er að lágmarki 37,3% af tekjustofni, því lífeyrir hér er skattlagður eins og um launatekjur sé að ræða.  Í greiðslulandinu er hins vegar skattlagning lífeyris einungis 8,24%, sem gerir umtalsverðan mismun, sem með vinnubrögðum RSK eru SKATTLEG réttindi aðilans í greiðslulandinu gerð upptæk, án dómsúrskurðar.  Þessi réttindi eru hluti af eftirlauna- eða lífeyriskjörum sem áunnin hafa verið á langri starfsævi. Að gera slík réttindi upptæk án sérstkrar lagasetningar þar um eða dómsúrskurðar, er MJÖG alvarlegt brot á stjórnarskrárbundnum manréttindum. Vinnubrögð sem RSK og Fjármála- og efnahagsráðuneyti verða hér uppvís að, ættu að vera á algjörum bannlista. Lítum aðeins nánar á dæmi þar sem berum saman áhrif þessarar ósvífnu eignaupptöku RSK hjá viðkomandi aðila, með því að blanda saman skattlagningu í tveimur ólíkum skattþrepum. Sjáum hvað kemur út.

Gefum okkur að íslenskur aðili eigi að fá greitt úr erlendum lífeyrissjóði árlega,  þegar greiðslunni hefur verið breytt í íslenska mynt, c. a. kr. 4.400.000 á ársgrundvelli. Íslenska skatthlutfallið á þessa upphæð væri að lágmaki 37,3%, en erlenda skatthlutfallið ER einungis 8,24%. Svona liti dæmið út.

Höfuðst. 4.400.000 skattur 8,24% sem gerir 362.560. Að skatti frádr. útb.  4.037.440.

Höfuðst. 4.400.000 skattur  37,3% sem gerir 1.641.200. frádregið og  útb.  2.758.800.

             Tvískattaði hluti lífeyrisgreiðslna mannsins væri því kr.          1.278.640.

Þeir sem ekki skilja þetta eiga ekkert erindi í störf hjá RSK, yfirskattanefnd eða Fjármálaráðuneyti. Fólk verður að átta sig á að það er algjörlega óheimilt að færa greiðslur milli skattréttindaflokka, einungis til að geta komið fram sérkennilegum vilja til að skaða fjárhagsstöðu skattgreiðandans.

Heildarfjárhæð hinnar erlendu lífeyrisgreiðslu var réttilega skattlögð í greiðsluríkinu, eins og tvísköttunarsamningurinn heimilar. ÞAÐ getur ekki þýtt annað en að RSK  ER MEÐ ÖLLU ÓHEIMILT að skattleggja þær upphæðir aftur, með allt annarri skattprósentu, því FULLUR SKATTUR var greiddur af lífeyrinum í greiðslulandinu.  Á heilbrigðu viðskiptamál heita þau vinnubrögð sem RSK beitir hér FJÁRDRÁTTUR, sem skattayfirvöld er algjörlega óheimilt að beita í svona málum. Afar sérkennilegt og alvarlegt er að svona afbrot skuli, að því er mér skilst, vera nokkuð algeng hjá starfsmönnum RSK.

Ég sé ekki ástæðu til að kafa dýpra í þá vitleysu sem starfsmenn RSK gera sig seka um í umræddu tilviki. Helst lítur út fyrir að þeir hafi hýrudregið og gert upptæk eignvarin réttindi hér umrædds þegns samfélagsins, um c. a. 2,6 milljónir á tveimur árum. Hve stórt hlutfall það er af heildarlífeyrisgreiðslum til Íslendinga frá öðrum Norðurlöndum er mér ekki ljóst. Ég hef heyrt af nokkuð mörgum tilvikum sem öll virðast með sömu vitleysunni reiknuð hjá RSK.  Af því verður vart annað ráðið en verulegur þekkingarskortur sé innanhúss hjá RSK á grundvallarreglu skattlagningar. Þeim virðist um megn að skilja að sama krónan verður ekki með lögmætum hætti skattlögð af tveimur aðilum á sama árinu. Þegar greiðslan berst hingað til lands er búið að skattleggja greiðsluna. Viðbótar skattlagning RSK, sem kemur eftir fyrstu skattlagningu, er því ólögmæt.

EN, svo er það spurningin um vilja til að gera rétt, fara á siðrænan og heilbrigðan máta eftir settum reglum í stað þess að iðka  hina öldnu þjóðaríþrótt okkar að snúa útúr og sniðganga lögin og reglurnar. Enn virðist því miður ekki vera til staðar í hinu opinbera kerfi vilji til að láta einstaklinginn njóta réttlætis. Þarf virkilega að láta leiðrétta svona augljósa vitleysu, með því að ríkið greiði c. a. eina milljón á hvert mál í málskostnað fyrir dómstólum?

        

Þjóð án fyrirhyggju

Það virðist sitt af hverju hafa mallað í hausnum á mér fyrir rúmum aldarfjórðungi, miðað við það erindi sem ég fann í gömlum gögnum hjá mér. Ég tók þetta fyrst saman sem hluta af lokaverkefni eftir kúrsinn sem ég tók í þjóðhagfræði. Flutti þetta einnig í nokkrum fundum, þar sem ég var beðinn að segja frá þessu.

Af þessu að dæma virðist ljóst að ferlið frá upphafi vitleysu í efnahagsstjórnun til hrunsins 2008, er lengra en menn hafa hingað til verið að horfa á. OG það sorglega er, að allar forsendur vitleysunnar eru enn við lýði og annað hrun því fyrirsjáanlegt, verði engar breytingar á efnahagslegri hegðan þjóðarinnar.         

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband