Enn ein staðfesting þess að AGS vinnur fyrst og fremst fyrir erlenda fjármagnseigendur

Það er afar athyglisvert að lesa þá frétt sem hér er til grundvallar. Annað hvort eru þessir menn grunnhyggnir kjánar, eða handbendi erlendra fjármagnseigenda. Kannski ætla þeir bara Íslensku þjóðina svona mikla aula að hún skilji ekkert áhrifaþátt vaxta á afkomuhæfni heimila og fyrirtækja.

Það sýnir ótúlega litla þekkingu á Íslensku efnahagslífi, það sem haft er eftir Franek Rozadowzki, í þessari frétt, en þar segir: Hann sagði áætlun íslenska ríkisins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins byggjast öðru fremur á því að ná stöðugleika í gjaldeyrismarkaði, og takmarka skuldir íslenska ríkisins vegna hruns bankanna.

Ef AGS mótmælir því ekki að Íslenska ríkið skuldsetji sig með fyrirhuguðum hætti vegna IceSave reikninganna, eru þeir opinberlega að vinna gegn yfirlýstum áformum sínum, um að takmarka skuldir íslenska ríkisins vegna hruns bankanna.

Hvers vegna segi ég þetta. Grunnregla kröfuréttar er, þegar um að að ræða sjálfstætt fyrirtæki (hlutafélag eins og Landsbankin var), að áður en kemur til kröfugerðar á hendur meintum ábyrgðaraðila er lýst kröfu á hendur fyrirtækinu, stjórnendum þess og eigendum. Kröfuhafinn leggur sig SANNANLEGA FRAM um að ná til sín öllum verðmætum sem hægt er að ná frá fyrirtækinu og stjórnendum þess. Meintur ábyrgðaraðili á rétt á að fylgjast með framvindu mála til að gæta hugsanlegra hagsmuna sinna.

Enn eru Bretar ekki farnir að lýsa kröfum á hendur Landsbanka, stjórnendum hans eða eigendum, þannig að kröfulega séð er ekki enn komið að því að reyni á hvort meintur ábyrgðaraðili verði fyrir eðlilegri kröfugerð. Nýgerður IceSave samningur er því fjandsamleg þvingun, sem stjórnmálamenn okkar hafa ekki haft kjark til að beita sér gegn.

Það er bjálfagangur að halda því fram, við þær siðferðisaðstæður sem hér ríkir, að hægt verði á næsta áratug að gefa gjaldeyrisviðskipti frjáls. Þó IceSave skuldin væri ekki til staðar, eru erlendar skuldir þjóðarbúsins það miklar að fyrirsjáanlegur afgangur af gjaldeyristekjum okkar næsta áratuginn (þó sparlega verði farið með) mun ekki bera aukningu á erlendum skuldum. 

Að starfsmenn AGS skuli ekki sjá þetta, bendir eindregið til þeirra ástæðna sem að framan er getið, kjánagangs eða að þeir séu fyrst og fremst í hagsmunagæslu fyrir erlenda fjármagnseigendur.

Það þarf afar litla greind og síst meiri þekkingu á afkomumöguleikum heimila og fyrirtækja, í þjóðfélagsaðstæðum eins og við búum nú við, til að skilja að hærri vextir en almennt gerist í samskiptalöndum okkar, er algjör dauðadómur yfir efnahagslífi þjóðarinnar.

Heimili og fyrirtæki eru það skuldsett nú þegar, að ómögulegt er fyrir þau að auka lántökur sínar, sé horft út frá eðlilegri bankastarfsemi. Háir vextir eru að sama skapi líklegasti þátturinn til að eyðileggja möguleika til að komast út úr því ástandi sem nú hefur skapast. Háir vextir halda heimilum og fyrirtækjum hins vegar sem lengst í mikilli skuldastöðu; sem þýðir að erlendir fjármagnseigendur fá um langa framtíð tvöfallt til þrefallt hærri vexti af því fjármagni sem þeir eiga hér, en þeir gætu vænst að fá í nokkuru öðru þróuðu ríki veraldar.

Þetta eru vinnubrögð AGS hér á landi. Mæli þeir gegn því að stýrivextir fari fyrir lok júlí n.k. niður í c. a. 5% og lækki síðan hægt þaðan niður í viðmiðun nágrannalanda fyrir lok ársins, opinbera þeir algjörlega hagsmunagæslu sína fyrir erlenda fjármagnseigendur, eins og að framan er getið.

Auðvelt er með setningu tímabundinna gjaldeyrsilaga, að stýra gjaldeyrismálum með þeim hætti að gegni krónunnar verði í ásættanlegu jafnvægi, með hagsmuni útflutnings- og innflutningsgreina að leiðarljósi.    


mbl.is Stýra þarf skipinu af varfærni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hægt að víkja Valtý Sigurðssyni úr starfi Ríkissaksóknara ??

Mig hefur undrað stórlega, þær yfirlýsingar sem hvað eftir annað koma í fjölmiðlum um að enginn geti vikið Valtý Sigurðssyni úr starfi nema hann sjálfur. Líklega er þessari skoðun haldið á lofti vegna þess að margt vel lögfræðimenntað fólk, hefur á undanförnum tveimur áratugum markvisst talað niður völd og áhrif æðstu stjórnenda lýðveldisins okkar.

Eingin sérlög virðast til um embætti Ríkissaksóknara og er þess embættis einungis getið í III kafla laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Í 20. grein þeirra laga er kveðið á um skipan Ríkissaksóknara með eftirfarandi hætti:

Skal hann skipaður ótímabundið í embætti af dómsmálaráðherra og fullnægja lagaskilyrðum til skipunar í dómaraembætti við Hæstarétt.  

Í stjórnarskrá lýðveldis okkar er kveðið afar skýrt á um ábyrgðarþætti stjórnunar ALLRA æðstu mála innan lýðveldisins. Þannig segir alveg skýrt í 13. gr. stjórnarskrár að: Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt. Þegar til þessa er litið, sem og þess að hver ráðherra er einungis í embætti í 4 ár í senn - til þess valinn af Alþingi - ætti að vera ljóst að ráherrann er EKKI að skipa einhvern í ótímabundið embætti, sem pólitískur flokksmaður. Hann er að sjálfsögðu í því hlutverki sem segir 13. gr. stjórnarskrár, AÐ FRAMKVÆMA VALD FORSETA.

Í 20. gr. stjórnarskrár segir svo í fyrstu málsgr.: Forseti lýðveldisins veitir þau embætti, er lög mæla.  Í þriðju málsgr. segir einnig svo:  Forseti getur vikið þeim frá embætti, er hann hefur veitt það.  

Þegar til þess er litið að í 13. gr. stjórnarskrár segir að Forsetinn láti ráðherra framkvæma vald sitt, er augljóst að hin framkvæmdalega ábyrgð, þegar beita þarf Forsetavaldi, er hjá viðkomandi ráðherra, enda segir skýrt í 14. gr. stjórnarskrár að: Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum.

Í ljósi allra þessara þátta verður ekki fram hjá því gengið að dómsmálaráðherra hafi fullt vald til að víkja Ríkissaksóknara frá starfi, hvort sem væri tímabundið eða til frambúðar. Slík heimild er afar skýr í stjórnarskrá.

Það sem hins vegar virðist þvælast fyrir hinum lögfræðimentuðu mönnum, er fyrsta málsgrein 20. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, en þar segir svo:  Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvalds og ber ábyrgð á ákvörðunum þeirra sem við embætti hans starfa.

Þetta orðfæri: er æðsti handhafi ákæruvalds  virðast lögfræðingar leggja í þann skilning, að enginn sé honum æðri í valdakerfi lýðveldisins. Það er að sjálfsögðu ekki svo. Sá sem skipaður er til embættis, á alltaf embættisstöðu sína undir þeim aðila sem skipaði hann; eða þeim sem honum er æðri. Sem í þessu tilfelli er Forsetinn, æðsta valdið, þó ekki sé ætlast til að hann hafi ákæruvald; til slíks er annar valinn, sem í þessu tilfelli er Ríkissaksóknari.

Þessi tröppun er víða þekkt í stjórnsýslunni. Hægt er að líta til embætta eins og sveitastjóra, bæjarstjóra eða borgarstjóra, sem hver um sig er æðsta framkvæmdavald síns sveitarfélags, en er þrátt fyrir það EKKI ÆÐSTA VALD sveitarfélagsins. Það er hinn beini fulltrúi eigendanna, þ. e. sveitarstjórn, bæjarstjórn eða borgarstjórn.  Þessa tröppun er fólk oftast með glöggan skilning á. Því er undarlegt, að þegar sumir hafa lært lögfræði, virðast þeir tapa áttum í þessari afar augljósu tröppun í efstu valdastigum lýðveldis okkar.            


Ódýr trygging til varnar á uppboði hússins hans.

Það er kannski ekki von að fólk almennt átti sig á þeirri leikfléttu sem Sigurjón er að leika með þessu láni, frá sjálfum sér. Það blasir þó augljóslega við.

Sigurjón á sjálfur lífeyrissjóðinn sem lánar honum samkvæmt skuldabréfinu. Peningana þarf hann ekkert að nota, heldur leggur þá inn á annan hávaxtareikning, sem ekki er á hans nafni.  40 milljón króna skuldabréfinu er þinglýst á hans eignarhlut í húsi þeirra hjóna, þannig að þó einhverjir aðrir kröfuhafar komi seinna með fjárnámskröfu á hans eignarhlut í húsinu, væru þær kröfur fyrir utan raunverulegt söluverðmæti eignarinnar.

Færi svo að einhver kröfuhafi reyni að skrá fjárnám fyrir aftan skuldabréfið og eignin fara á nauðungaruppboð, mundi eigandi skuldabréfsins bjóða í eignina þar til aðrir kröfuhafar gæfust upp. Þannig yrði eiganda skuldabréfsins í öllu falli slegin eignin á nauðungaruppboði og Sigurjón héldi húsinu eftir sem áður.

Þetta er snjöll leikflétta, en sýnir best hve Sigurjóni finnst miklar líkur á að gerðar verði fjárkröfur á hendur honum, þegar rannsóknum er lokið og ákærur fara af stað.

Ætli það séu ekki fleiri úr SUKKLIÐINU sem leika álíka leiki til að reyna að forða þeim peningum sem þeir hafa náð í?              


mbl.is Sigurjón lánaði sjálfum sér fé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valtýr Sigurðsson verður alveg að víkja til hliðar.

Þegar litið er á lög um hinn sérstaka saksóknara, kemur í ljós að hann hefur afar takmarkað vald. Ríkissaksóknari hefur afar þýðingarmikið ákvörunarvald, þar sem hann sker úr um ágreiningatriði er upp kunna að koma t.d. við verjendur þeirra sem til rannsóknar eru o. fl. Sést það glöggt á eftirfarandi texta úr 2. gr. laga um sérstakan saksóknara, en þar segir:

Ríkissaksóknari leysir á sama hátt úr öðrum ágreiningi sem kann að rísa um valdsvið hins sérstaka saksóknara og annarra ákærenda. Þá er hinum sérstaka saksóknara skylt að hlíta fyrirmælum ríkissaksóknara skv. 3. mgr. 21. gr. laga um meðferð sakamála eftir því sem við getur átt.

Vakin er athygli á að rauða letrið er áhersla sem ég setti á texta laganna.

Þegar til þessara atriða er litið, er vel skiljanlegt að Eva Joly setji strangt skilyrði fyrir því að Valtýr hverfi algörlega frá embætti ríkissaksóknara, þar sem þetta ákvæði veitir lögmönnum verjenda tækifæri til að gera ágreining, sem ríkisssaksóknari yrði að skera úr. Auk þess er þarna, eins og glöggt kemur fram í rauða letrinu, lögð ófrávíkjanleg skylda á herðar hins sérstaka saksóknara að hlíta fyrirmælum ríkissaksóknara.  

Ég held að það hljóti flestir að vera færir um að lesa út úr þessu, hvaða vald ríkissaksóknari hefur til að stöðva rannsóknir, eða beina þeim frá þeim aðilum sem hann mundi vilja vernda.       


mbl.is Telur að Joly starfi hér áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarlegur óvitaskapur í forystuliði Samtaka verslunar og þjónustu.

Af þeirri frétt sem hér er vísað til, virðist greinilegt að forystufólk SVÞ hefur ekkert lært af þeirri vitleysu sem keyrð var áfram í þessu þjóðfélagi undanfarinn áratug, eða jafnvel lengur, þrátt fyrir allt það hrun sem hér hefur orðið.  Meginhluti útþennslu þjóðfélagsins var á sviði verslunar og þjónustu. Og til þess að geta þanið þessa starfsemi eins mikið út og gert var, var þjóðfélagið skuldsett sífellt meira og viðskiptahalli við útlönd keyrður upp úr öllu valdi.

Maður hefði geta vænst þess að fólk sem valið væri til forystu í jafn þýðingarmiklum þjóðfélagshóp og þessi samtök eru, gengju fram af meiri ábyrgðartilfinningu, og auðsýnilegri meiri þekkingu á grundvallarþáttum efnahagslífs okkar.

Það er barnalegur kjánaskapur að setja fram þá fullyrðingu sem hér er vísað til, en þar segir:

„Það er ljóst að það er undir okkur komið að skapa þau 20.000 störf sem vantar, þau munu verða til í verslun, þjónustu og iðnaði frekar en í öðrum greinum, eins og til dæmis sjávarútvegi,“ segir Margrét. Til þess þarf lægri vexti og nothæfan gjaldmiðil. 

Nú þegar vantar mikið upp á að gjaldeyrisskapandi atvinnustarfsemi beri uppi þá verlsunar- og þjónustustarfsemi sem nú er fyrir hendi í landinu. Þannig er ljóst að það er ávísun á ófarnað að ætla sér að fjölga störfum í verslun og þjónustu, án þess að auka fyrst gjaldeyrisskapandi starfsemi, sem fjármagnaði þá aukningu í verslun og þjónustu sem þarna er boðuð.

Fer óvitaskapnum og vitleysunni ekki senn að ljúka hjá þeim sem teljast í forystusveitum þjóðfélags okkar?              


mbl.is Blöskrar vinnubrögð Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krafan um að Sigríður víki sæti, bendir til órólegrar samvisku

Mér finnst nokkuð athyglisvert að Jónas skuli vera svona viðkvæmur fyrir þeim ummælum sem þarna virðast hafa birst. Á engan hátt er vikið að óheiðarleika  einstakra aðila, í starfi eða starfsháttum. Auk þess er um margar stofnanir að ræða og sumar þeirra með stærra ábyrgðarhlutverk en sú stofnun sem Jónas veitti forstöðu. 

Margar staðreyndir, um starfshætti lánastofnana okkar, hafa nú þegar verið bornar fram í fjölmiðlum, sem engin skynsamleg skýring er til á önnur en öfgakennd græðgi. Ég efa ekki að sú skoðun er afar víðtæk á fræðasviði viðskipta- og fjármála um víða veröld. Sigríður er því einungis afar lítill minnihluti þeirra sem nú þegar eru með afar sterka tilfinningu fyrir að framangreind orsök sé ástæða hrunsins.

Tómlátt andavaraleysi, getur annað hvort stafað af illa skilgreindir lagaumgjörð um fjármálastarfsemina, eða frá því að þeir sem áttu að framkvæma lögin, hafi hugsanlega ekki haft fullan skilning á mikilvægi embættis síns eða sínu hlutverki í heildarmyndinni. Hvergi er vikið að óheiðarleika. Um það hver þessara þátta sé ástæða hinnar mjög svo útbreyddu skoðunar, sem Sigríður setur varfærnislega í orð, segir hún ekkert um. Það bíður hinnar faglegu niðurstöðu.

Staðreyndin er engu að síður sú; og á vitorði flestra sem til þekkja í viðskipta- og fjármálum, að á undanförnum 5 árum, eða svo, var starfsemi fjármálastofnana í þessu landi ekki í neinum takti við rauntölu efnahagslífs þjóðarinnar og víðs fjarri því að eftirlit með fjármákerfinu hafi miðað að því að sjá um fjármálalegan stöðugleika í landinu.

Þetta er á vitorði flestra nú þegar; og var löngu áður en Sigríður lét sín orð falla um umræddu blaðaviðtali. Hún var því ekki að ljóstra neinu upp.

         


mbl.is Hefur engin áhrif á vinnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.10.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 166179

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Júní 2009
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband