Skrítið svar frá Fjármálaeftirlitinu

Fjáarmálaeftirlitið var ekki spurt um hvort hafi komið tilboð frá breska fjármáaeftirlitinu. Hefði svo verið, hefði svar þeirra verið eðlilegt.

Í spurningunni er fullyrt, enda margoft komið fram í fréttum, að breska fjármálaeftirlitið hafi gert hið umrædda tilboð.

Fjármálaeftirlitið okkar þurfti einungis að svara, að þeir hafi vitað um þetta tilboð, eða að þeir hafi ekkert vitað um þetta tilboð.

Í slíku svari er engin uppljóstrun um samskipti við breska fjármálaeftirlitið. Fjármálaeftirlitið okkar þurfti einungis að staðfesta hvort þeir hafi vitað um atriði sem voru gerð opinber í fjölmiðlum og lúta því engum leyndarreglum.                


mbl.is Vissi ekki um tilboð breska fjármálaeftirlitsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarskráin I - Eru völd Alþingis æðri völdum forsetans ?

Stjórnmálamenn og einstakir áhugamenn um einstakar stefnur í pólitík, hafa lengi deilt um hver hin raunverulegu völd forsetans okkar séu.  Nú nýlega, í umræðum um stjórnarskipti eða hugsanlegt þingrof, kom enn ein umræðan um þessi mál fram í dagsljósið. Eins og fyrr sýndist þar sitt hverjum og enn sem fyrr varð engin niðurstaða úr slíkum umræðum.

Þegar ég var ungur maður, hafði ég hlustað á samræður fósturföður míns við nokkra þeirra þingamanna sem sátu á þingi (1944) þegar fyrsta stjórnarskrá lýðveldisins var samþykkt. Þessar umræður vöktu það mikinn áhuga hjá mér að síðar varð ég mér úti um fyrstu stjórnarskrá konungsríkisins Íslands, sem samþykkt var árið 1920 og allar breytingar sem gerðar höfðu verið á henni fram til lýðveldistímans.

Fósturfaðir minn, sem verið hafði í forystu verkalýðsmála og var, í upphafi lýðveldistímans umsagnaraðili fyrir Alþýðuflokkinn um þingmál og þjóðmál, átti öll Alþingis- og stjórnartíðindi frá lýðveldisstofnun. Það voru því hæg heimatökin að geta lesið allt sem sagt var á Alþingi í sambandi við setningu fyrstu stjórnarskrár lýðveldisins.

Og nú, þegar umræða um framangreinda valdatogstreitu fór af stað, ásamt umræðu um að breyta þyrfti stjórnarskránni, fannst mér upplagt tækifæri til að leggjast aftur yfir þessa sögu og rifja upp hvernig þessi valdatogstreita var til komin og hverjir stóðu fyrir henni. Ég mun því á næstunni birta þessa sögu, byggða á staðreyndum Alþingis- og stjórnartíðinda, sem ég mun svo leiða fram hugrenningar um til frekari glöggvunar á því sem ritað er.

Ég mun ekki birta þetta allt í einum pistli, því það yrði of langur lestur í einu lagi fyrir svona miðil. Ég mun hins vegar leitast við að hafa þetta þannig að ákveðið samhengi verði milli pistla, þannig að þeir sem vilja skoða söguna í heild, geti safnað pistlunum saman.

STJÓRNARSKRÁIN 1920

Þann 18. maí 1920, er samþykkt fyrsta stjórnarskrá konungsríkisins Íslands, eftir að landið hafði verið lýst fullvalda þann 1. desember 1918.  Stjórnarskrá þessi tók gildi 1. janúar 1921 og féll þá úr gildi stjórnarskrá um hin sérstöku málefni Íslands, frá 5. janúar 1874, ásamt stjórnskipunarlögum frá 3. október 1903 og 19. júní 1915, um breytingar á stjórnarskránni.

Þau atriði sem helst er deilt um nú, lúta að valdssviði forsetans. Í stjórnarskrá frá árinu 1920 er það reyndar kóngurinn sem er æðsta vald og miðast stjórnarskráin við það. Þess vegna segir í 1. gr. þeirrar stjórnarskrár:

"Stjórnskipulagið er þingbundin konungsstjórn."

 Af þessum orðum má glögglega sjá að stjórn Íslands er konungsstjórn, en að hún er þingbundin. Það segir manni að konungurinn hefur sér til stuðning þing sem gerir til hans tillögur um lög og stjórnarhætti, sem hann samþykkir, falli þau að hugmyndum hans um stjórnun landsins.

Í 2. gr. stjórnarskrár 1920, er en frekari stuðningur við þessa skipan, en þar segir eftirfarandi:

"Löggjafarvaldið er hjá konungi og Alþingi, báðum saman, framkvæmdavaldið er hjá konungi og dómsvaldið hjá dómendum."

Tvennt er athyglisvert við þessa grein. Annars vegar að samkvæmt eðlilegri röðun ofan frá, er konungurinn talinn fyrstur þar sem æðsta valdið er hjá honum, samanber 9. gr. hér á eftir. Alþingi er því greinilega tröppu neðar en æðsta valdið, þó æðsta valdið geti ekki eitt og sér sett löggjöf, frekar en að Alþingi geti eitt og sér sett löggjöf.

Hins vegar er á að líta, að í þessari stjórnarskrá er framkvæmdavaldið einvörðungu hjá konungi, eða æðsta valdinu, þó sagt sé í 9. gr. að hann láti ráðherra framkvæma vald sitt.

Til áréttingar er hér 9. greinin í heild sinni, en hún hljóðar svo:

"Konungur hefur æðsta vald í öllum málefnum ríkisins, með þeim takmörkunum, sem settar eru í stjórnarskrá þessari, og lætur hann ráðherra framkvæma það. Ráðuneytið hefur aðsetur í Reykjavík."

Í 10. grein er enn fjallað um ábyrgð. Þar segir svo:

"Konungur er ábyrgðarlaus og friðhelgur. Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært þá fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál."

Hér hefur verið vakin athygli á nokkrum þeirra þátta sem fjalla um tröppun valdssviða í íslensku samfélagi fyrstu áratugi fullveldis þjóðarinnar. 

Tvennt finnst mér áberandi þarna. Annars vegar hve skýrt er kveðið á um að konungur sé æðsta vald í öllum málefnum ríkisins, en sé jafnframt ábyrgðarlaus og friðhelgur.

Hins vegar er sú staðreynd að framkvæmdavaldið er einvörðungu hjá konungi, þannig að greinilegt er að ráðherrar hafa ekkert sjálfstætt vald, heldur lúta í öllu æðsta valdinu og þeim ber að framkvæma valdsþætti æðsta valdsins, en jafnframt bera fulla ábyrgð á öllum sínum gerðum.

Látum hér staðar numið í dag, enda kominn svolítill grunnur undir það sem síðar kemur í ljós.  


Undrast afstöðu Vilhjálms Birgissonar

Ég get ekki annað en undrast afstöðu Vilhjálms, í ljósi þess hve verkafólki er mikilvægt að ákvarðanir sem teknar eru, séu að fullu löglegar; löglega og rétt að þeim staðið.

Ég er ekki andvígur hvalveiðum, en ég er algjörlega andvígur því að stjórnvöld beiti ólögmætum aðgerðum, til að skapa þeim sem eru að taka við landstjórninni ófyrirséða erfiðleika. 

Ekki er nokkur vafi á að Einar Kristinn hafði ekkert umboð til að gefa út þá reglugerð um hvalveiðar, sem hann gerði. Ríkisstjórnin sem hann var hluti af, sat ekki lengur í umboði meirihluta Alþingis og var þar með umboðslaus til pólitískrar ákvarðanatöku.

Ef við viljum vera trúverðug við mótmæli gegn ólögmæltum ákvörðunum og athöfnum, verðum við líka að hafa kjark til að mótmæla ólögmætum ákvörðunum, þó þær lúti að þáttum sem við erum í raun sammála.

Sá sem nýtir sér ólögmæta ákvörðun til framdráttar baráttumáli sínu, verður ævinlega ótrúverðugur, því hann hefur sýnt að heiðarleikinn er honum einskis virði, einungis að hann geti náð sínu fram, sama með hve ólögmætum hætti það er gert.

Var ekki verið að tala um að byggja upp heiðarlegt umhverfi í opinberri stjórnsýslu? Er krafa um að ólögmæt reglugerð verði látin standa óbreytt, leiðin til heiðarlegri stjórnunarhátta?

Ég get ekki tekið undir slíkt, þó ég geti hugsað mér hvalveiðar hér við land.              


mbl.is 200 störf slegin út af borðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki hægt að gera skuldbindandi samninga við börn eða ungmenni undir fjárráða aldri

Ég skil nú ekki hvers vegna er verið að fara í kringum glæpaverk sem framin eru fyrir allra augum, að því er virðist.

Það á að vera ljóst, öllum sem hafa aldur, vit og þroska til að reka fyrirtæki, að það er með öllu óheimilt að gera skuldbindandi samning við ófjárráða einstakling, án þess að fjárráðamaður hans geri samninginn fyrir hans hönd.

Slík sölustarfsemi, sem lýst er í fréttinni, er afar alvarlegt lögbrot. Slíkt ætti umsvifalaust að kæra, t. d. til umboðsmanns barna, sem og til viðskiptaráðuneytis, sem hefur alla möguleika á að svipta svona fyrirtæki starfsleyfi.

Það er oft búið að fjalla um álíka mál á liðnum árum, en svo virðist sem virðing sumra fyrirtækja, fyrir sjálfum sér og öðrum, sé af svipuðum þroska og hjá forföllnum fíkniefnaneytendum, sem gera hvaða óhæfuverk sem er, til að ná sér í peninga.

Svona fyrirtæki á að sniðganga að öllu leiti og engin viðskipti að eiga við þau. Sú refsing ætti að duga, nú í vonandi batnandi heimi.             


mbl.is Gagnrýnir símasölu fjarskiptafyrirtækja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisvert þegar útvegsmannafélög gefa yfirlýsingu um stuðning við lögbrot.

Vel má vera að ætlun sjávarútvegsráðherra sé góð, en afar alvarlegt þegar æðstu ráðamenn þjóðarinnar virða ekki þau lög sem þeim og öðrum er ætlað að fara eftir.

Þó við lítum framhjá því að viðkomandi ráðherra er ekki í þessu embætti í krafti þingmeirihluta, heldur settur til að halda ráðuneytinu gangandi í fáeina daga, þá er ljóst að hann er ekki með umboð til að taka pólitískar ákvarðanir fram í tímann. Að því leiti er reglugerð hans ólögmæt.

Einnig ber að líta til þess að hin umrædda reglugerð er sett sem breyting á reglugerð nr. 163/1973, og sett samkvæmt 4. gr. laga um hvalveiðar nr. 26/1949 , en síðasta málsgrein 1. gr. þeirra laga hljóðar svo:

Áður en leyfi er veitt, skal ráðherra leita umsagnar Hafrannsóknarstofnunar.

  Í 1. gr. hinnar nýju reglugerðar, segir að hún (greinin) skuli vera 2. ml. 1. gr. og orðast svo:

 2. ml. 1. gr. orðist svo:
Leyfi til veiða á hrefnu árin 2009, 2010, 2011, 2012 og 2013 skal veita þeim íslensku skipum, sem eru í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila, sem hafa stundað hrefnuveiðar í atvinnuskyni á árunum 2006-2008 eða félaga sem þeir hafa stofnað um slíka útgerð. Einnig er heimilt að veita leyfi þeim einstaklingum eða lögaðilum sem að mati ráðherra hafa sambærilega reynslu af útgerð á hrefnuveiðum í atvinnuskyni. Eingöngu þeim skipum sem sérútbúin eru til veiða á stórhvölum er heimilt að taka þátt í veiðum á langreyði árin 2009, 2010, 2011, 2012 og 2013.

Þetta getur ekki passað, því fyrir er í þeirri reglugerð sem breyta á og er nr.  163/1973, 2. ml.1. gr. sem hljóðar svo:

2. ml. 1. gr. orðist svo:
Leyfi til veiða á hrefnu á fiskveiðiárinu 2006/2007 skal aðeins veita þeim íslensku skipum sem hafa tekið þátt í vísindaveiðum Hafrannsóknastofnunarinnar á hrefnu á árunum 2003-2006. Leyfi til veiða á langreyði á fiskveiðiárinu 2006/2007 skal aðeins veita þeim íslensku skipum sem eru sérútbúin til veiða á stórhvölum.

Þá segir í  1. ml. 1. gr. þeirrar reglurgerðar sem breyta á, og er nr. 163/1973 eftirfarandi:

Rétt til þess að stunda hvalveiðar í íslenzkri fiskveiðlandhelgi og til að landa hvalafla, þótt utan landhelgi sé veitt, svo og til að verka slíkan afla, hafa þeir einir, er fengið hafa til þess leyfi sjávarútvegsráðuneytisins. Áður en leyfi er veitt, skal ráðherra leita umsagnar Fiskifélags Íslands og Hafrannsóknastofnunarinnar og ef báðar þessar stofnanir telja að gengið sé of nærri hvalstofninum með nýjum veiðileyfum skal umsókn synjað.    

Hér hefur ráðherra greinilega haft í frammi  afar óvönduð vinnubrögð, algjörlega utan þekkingar á því laga og reglugerðarumhverfi sem hann var í fljótfærni að breyta.            


mbl.is Fagna hvalveiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru þeir enn í draumalandi frjálshyggjunnar hjá IMF.

Svo virðist sem hagfræði gróðahyggjunnar sé enn drifkraftur spádóma svokallaðra "sérfræðinga" í efnahagsmálum, bæði hjá IMF og víða annars staðar. Af spám þeirra má ráða að þeir ætli ekki að gefa mikið svigrúm til að færa fjármálaumhverfið nær samtímanum.  Þeir sem hugsa raunsætt gera sér grein fyrir því að svokölluð fjármunavelta, var komin lant inn í framtíðina, því flestar lánastofnanir voru farnara að byggja daglegan rekstur sinn á sölu skuldabréfa, sem greiða átti í framtíðinni; stundum ekki fyrr en eftir þrjú ár.

Flestir sem þekkja til þessara mála, vita líka að flestar lánastofnanir gátu ekki greitt slík skuldabréf á gjalddögum, heldur voru háðar því að geta gefið út ný skuldabréf, sem greiðast ættu lengra inn í framtíðinni. Í rekstrarplönum þeirra var því ekki gert ráð fyrir að lánin sem tekin væru út á komandi tíma, væru greidd þegar að gjalddaga kæmi, heldur að þá yrðu tekin lán, með gjalddaga inn í framtíðinni, til að greiða gömlu lánin. Einnig voru þá í leiðinni tekin ný og hærri lán, með gjalddaga nokkrum árum síðar, til að auka veltuna svo þeir sýndust vera stærri viðskiptastofnun en raunin var.  

Nú, þegar vinda þarf ofan af allri þessari vitleysu og greiða upp þau skuldabréf sem gefin höfðu verið út til greiðslu á þessu og næstu árum, er næsta jafn víst og að sólin kemur upp í austri, að ekki verður um neinn raunverulegan hagvöxt að ræða í vestrænu efnahagsumhverfi. Flest lönd vesturlanda hafa í langan tíma vanrækt verðmætaskapandi atvinnustarfsemi, en keppst við að auka sem mest ýmiskonar þjónustustarfsemi og hreint bruðl með mikilvæga fjármuni. Nýmyndun verðmæta er því víðast hvar afar lítil. Einkanlega verður ástandi erfitt í Evrópu, sem um langt árabil hefur verið með litla framleiðni og mikið atvinnuleysi, en á sama tíma hafa stjórnmálamenn almennt verið í óraunveruleikaheimi, upteknir við að búa til heimsveldi án blóðrásar tekjustreymis.

Það er fullkomið óraunsæi að telja niðursveiflu heimsfjármálanna verða lokið á þessu ári, og betri tíðar í þeim efnum sé að vænta árið 2010.  Ef vel verður á spilunum haldið hjá okkur, gætum við verið farin að rétta úr stöðunni á því ári. Hins vegar lýst mér ekki á að bata verði farið að gæta víða annars staðar. Evrópa mun líklegast verða lengst að ná vopnum sínum, þar sem vaxtabroddar raunverulegs hagvaxtar eru þar fáir. Hvort Bandaríkin hafi nægt lánstraust hjá Kínverjum til að rétta við fjárstreymið þar í landi, verður tíminn að leiða í ljós. Þeirra bíða mörg erfið og útgjaldafrek verkefni á næstu árum, sem þeir geta vart fjármagnað einir.

Það er því nokkuð ljóst að hugsunarháttur "sérfræðinga" IMF er hinn þekkti hugsunarháttur fjárhættuspilarans, að halda í vonina um að geta náð í meiri peninga til að halda fjárhættuspilinu áfram.   Vonandi vakna þeir fljótlega til raunveruleikans því sú veröld sem þeirra hugarheimi tilheyrir er orðin gjaldþrota, með öllum þeim sársauka sem slíku fylgir.                 


mbl.is Nær enginn hagvöxtur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband