Hverjar eru hugmyndir mótmælenda og hvernig á að koma þeim í framkvæmd ?

Mikilvægt er að þeir sem standa fyrir mótmælum hafi skýra mynd af þeim breytingnum sem þeir vilja ná fram og geti séð fyrir sér hvernig hún verði að veruleika. Jafnframt er nauðsynlegt að þeir sýni að þeir gangi ekki svo fram í eigin vinsældakappi, að aðgerðir þeirra skaði heildarhagsmuni þjóðarinnar, því þá væri verr af stað farið en heima setið.

Ein af aðalkröfum mótmælenda var að kosið yrði strax, sem eðli málsins samkvæmt gat varla orðið fyrr en í vor.  Nú er búið að ákveða að kosið verði í maí. Það mál er því í höfn.

Næsta krafa var að ríksistjórnin færi strax frá og mynduð yrði önnur stjórn eða jafnvel utanþings stjórn.  Þessi krafa var mikilvæg ef ekki næðist fram samstaða stjórnarflokkanna um að kjósa í vor. Bráðabirgðastjórn, hvort sem væri skammtíma minnihlutastjórn á Alþingi eða utnaþingsstjórn, hefðu í raun afar takmarkaðar heimildir og möguleika til annarra aðgerða en sem heyrðu til venjulegs reksturs þjóðfélagsins. Við slíkar aðstæður yrðu allar hjálparaðgerðir til handa heimilum og atvinnulífi afar erfiðar og vafasamt að aðgerðir yrðu stórtækar fyrr en eftir kosningar og myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Í ljósi þess að kosningar eru ákveðnar í vor, má segja að uppi sé heppilegasta staða sem við getum haft; að núverandi stjórn verði við völd fram að kosningum. Hún hefur öll nauðsynleg völd og umboð til að grípa til þeirra aðgerða sem samkomulag næst um. Verkefnið framundan er því að finna leiðirnar sem fara skal og koma þeim leiðum á framfæri við ríkisstjórn og alþingismenn. Í aðdraganda kosninga munu þessir aðilar ekki standa mjög þversum fyrir úrbótum sem augljóslega njóta stuðnings mikils hluta þjóðarinnar.

Nú þegar er hafin vinna við endurskipulagningu lýðveldis okkar, án þess að nokkur hafi verið laminn eða grýttur. Í þeim hópi hefur verið lögð áhersla á málefnin í stað hávaða og illinda. Líkur benda til að frá þeim hópi komi hugmyndir um breytt þjóðskipulag, sem færa mun okkur mun betra, opnara og kærleiksríkara samfélag en það sem við höfum lifað við.

Í ljósi þeirrar stöðu sem mér sýnist komin upp, sé ég ekki þörf fyrir frekari hróp, köll eða barsmíðar. Þeir sem vilja haga sér eins og óþekkir krakkar í sælgætisbúð, geta svo sem haldið hávaðanum áfram, meðan hinir leitast við að bjarga því sem hægt er að bjarga. Fólki verður væntanlega ekki bannað að hrópa og berja potta og pönnur, en hver metur þörf sína fyrir slíkt, eftir hæfileikum til að skynja alvarleika þeirrar stöðu sem við erum í.                              


mbl.is Landsmenn taki þátt í friðsömum mótmælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pistill fluttur á Útvarpi Sögu í hádeginu 21.01.09

Ég velti fyrir mér hvort þeir mótmælendur sem ganga fram með yfirgangi gegn lögreglu og ásetningi um að skemma eða eyðileggja verðmæti, geri sér grein fyrir stöðu þjóðfélagsins. Eða hvort þeir séu að vænta þess að aftur sé hægt að hverfa til þess tíma sem var fyrir bankahrunið.

Við þurfum að gera okkur grein fyrir hvað í raun og veru gerðist á þessum tíma. Það er bara partur af heildarmyndinni að auðjöfrar og útrásarvíkingar hafi með vafasömum hætti mokað fjármunum út úr bönkunum. Það athæfi er ekki að breyta daglegu líf okkar, nema að litlu leiti.

Við þurfum að horfast í augu við það að allt þjóðfélag okkar hafði þanist út í peningadýrkun og eftirsókn eftir meiri peningum. Manngildi, heiðarleiki og trúmennska viku til hliðar, svo umfang peningalegra lífsgæða yrðu sýnilegri.

Allt þetta umfang var drifið áfram af erlendu lánsfé, þó það væri einungis lítið brot af heildarskuldsetningunni, þá var það innflæði lánsfjár nógu mikið til að rugla dómgreind stórs hluta þjóðarinnar.

Það sem fyrst og fremst breyttist við bankahrunið, var að innstreymi lánsfjár til þjóðfélagsins stoppaði; hafði reyndar stoppað nokkru fyrr. Þá kom strax í ljós hvaða starfsemi í þjóðfélaginu hafði verið drifin áfram með stöðugum lántökum, því sú starfsemi stöðvaðist þegar í stað.

Hve samdrátturinn í þjóðfélaginu verður mikill er ekki orðið ljóst enn, en okkur er afar nauðsynlegt að átta okkur á, að það þjóðlíf sem byggðist á drifkrafti erlendrar lántöku, mun ekki koma aftur; sama þó við skiptum um fólk í stjórnunarstörfum.

Við þurfum öll að horfast í augu við það, að öll eigum við okkar part af því að svona er komið fyrir þjóðlífi okkar.  Hvort auðjöfrar og útrásarvíkingar hafa svikið einhverjum milljörðum meira eða minna út úr bönkunum hér, mun tæplega lenda á herðum skattgreiðenda, þar sem bankarnir eru hlutafélög, sem ríkissjóður er ekki eignaraðili að.

Það sem að okkur snýr, fyrst og fremst, er að endurskipuleggja þjóðfélagsgerð okkar, miðað við þær aðstæður sem framundan eru. Það er ekki bara það, að þeir einstaklingar sem stjórnuðu bönkunum höfðu ekki ábyrgðartilfinningu eða raunhæft mat á möguleikum sínum til endurgreiðslu þess lánsfjár, sem þeir tóku að láni í útlöndum, sem veldur álitshnekki okkar erlendis. Það er ekki bara það að ríkisstjórnin, Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið, hafi brugðist eftirlits og stýringarhlutverki sínu. Það sem veldur álitshnekkinu er að meginþorri þjóðarinnar skildi taka þátt í þessari vitleysu, án þess að leiða hugann að afleiðingum svona mikillar skuldsetningar erlendis.

Við þurfum að átta okkur á því að hávær mótmæli, með aðsúgi að lögreglu, yfirgangi og skemmdastarfsemi, skilar okkur engu til baka af töpuðu áliti.  Frekar að það undirstriki ábyrgðarleysi gagnvart þeirri stöðu sem upp er kominn; og varð til án þess að nokkur, þeirra sem nú hrópa og valda skemmdum, hreyfði mótbárum. Þeir eiga því sinn þátt í því ástandi sem upp er komið, og eru því, með framgöngu sinni, jafnframt að mótmæla sínu eigin sinnuleysi um langtíma afkomu þjóðfélagsins, sem þeim þykir nú svo afar vænt um.

Ég er með þessu ekki að mótmæla mótmælum, heldur fyrst og fremst að benda á að mótmæli geta verið tvennskonar; niðurrífandi eða uppbyggileg. Við  höfum fá dæmi um að mótmæli, til að fá útrás fyrir reiði, hafi skilað umtalsverðum úrbótum. Hins vegar höfum við mörg dæmi um að friðsöm mótmæli, sem byggð eru á virðingu fyrir mannréttindum og lífi annarra, hafi skilað umtalsverðum árangri. Í því samhengi má minna á mótmælin hjá Gandi, Mandela, og kannski ekki síst vegna gærdagsins í Bandaríkjunum, minna á mótmæli Marteins Lúter King, nú þegar Obama verður forseti Bandaríkjanna.

Við eyðum bæði tíma og orku með því að ganga ekki markvissar og af einurð fram með skýrar kröfur um endurskipulegningu þjóðfélagsins.
                  


Þeir sem veitast að lögreglu..........

eru ekki að mótmæla ríkisstjórn eða alþingismönnum, bankamönnum eða öðrum þeim sem komið hafa þjóðinni í þá erfiðleika sem við erum nú í.  Þeir sem veitast að lögreglunni eru aðilar sem leita eftir tækifærum fyrir ofbeldishneigð sína. Þeir bera enga virðingu fyrir eignum eða réttindum annarra, líkt og ljóst hefur orðið að undanförnu.

Ég vil ekki skipta úr því þjóðfélagi sem við höfum lifað undanfarið, yfir í það þjóðfélag sem þessi hópur kynnir fyrir okkur. Það er greinilega litla hamingju að finna í þannig þjóðfélagi.                 


mbl.is Hættið að kasta sprengjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Augljós mistök við gerð skiptasamnings

Þarna verður héraðsdómi heldur betur á í messunni.  Við skilnaðinn var stofnfjáreign skráð hjá Sp.Vestm. sem ákveðin XX upphæð í bókum sparisjóðsins. Það var ekki búið að ógilda þau, þess vegna voru þau í fullu gildi.  Hvort seljanleg staða þeirra, á þeim tíma sem hjjónin voru að skilja, var lítil eða mikil skiptir ekki máli. Konan átti að fá helming eignaskráningarinnar yfir á sitt nafn, við helmingaskiptareglu skiptasamnings. Það var verið að skipta eignum og þarna var skráð eign, óháð því hvort hægt væri að selja hana.

Stundum vantar dómarana dómgreind.                


mbl.is Stofnfé í sparisjóði ekki til skipta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilur fólk ekki tröppunina í þroska mannsheilans ?

Ég vona að það vanti eitthvað í það svar sem sagt er að sé frá umboðsmanni barna. Rétt er að mikilvægt sé að börn fái tækifæri til að tjá sig. En mikilvægara er þó að þau séu ekki sett í aðstæður sem eru aldri þeirra og þroska ofviða, því slíkt getur valdið varanlegu tjóni.

Þroski mannsheilans tekur afar hægum framförum. Vegna hinnar takmörkuðu ályktunar- og skynjunarhæfni barnsheilans, hafa verið sett skýr lög um skyldur hins fullorðna til þess að verja börn gegn hverskonar vá.

Við eðlilegar aðstæður hefur 8 ára barn ekki hugarfarslegan þroska til að skilja flóknar aðstæður þjóðfélagsmála. Fullorðnir geta talað svo ógætilega í áheyrn barna að þau finni til hræðslu og óöryggis. Þau upplifa frekar að "veröld" sinni sé ógnað, frekar en að hættan beinist að þeim persónulega.

"Veröld" barnsins er hamingja og velferð heimilis þeirra og nærumhverfis. Hræðsla við "eitthvað sem fullorðna fólkið talar um sem ógn, vandræði eða vá", getur orðið mikil, líkt og myrkfælni áður fyrr, án þess að nokkur skilningur á hættunni sé til staðar.

Ég held að við fullorðna fólkið, þurfum að hafa þessa þætti í huga þegar við veitum sjálfum okkur útrás í lítt hugsuðum umræðum um hve aðrir hafi verið vondir við okkur.

Við höfum nú þegar tekið okkur 4 mánuði í að gæla við þessa þörf okkar fyrir berja á aðstæðum sem löngu eru komnar framhjá. Mesta þörfinnú fyrir orkuna  okkar, er að beina henni að verkefnum morgundagsins, sem eru þau að finna farveg fyrir framhald þjóðlífsins.

Við vitum nógu vel hverjar aðstæður okkar eru nú. Þær aðstæður munu ekki breytast neitt á næstu mánuðum; alla vega ekki ef við förum ekki að skapa raunveruleikamynd af framhaldinu, í stað þess að endurtaka stöðugt hvað hinir óhæfu stjórnendur bankanna og þjóðfélagsins gerðu rangt.

Ég tel því fullkomlega tímabært að hætta þessum mótmælaaðgerðum gegn því sem gerðist, en sameina afl okkar á bak við hugmyndina sem Njörður P. Njarðvík o. fl. hafa verið að setja fram, um algjöra endursköpun lýðveldis okkar. Þegar náðst hefur samstaða um það, getum við sameinast í kröfu um kosningar. Fyrr sé ég ekki að um neitt nýtt sé að kjósa; einungis örlitla litabreytingu á sömu vanhæfissúpunni og verið hefur á Alþingi lengi.          


mbl.is Eiga að fá tækifæri til að tjá sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samkv. ísl. lögum er óheimilt að veðsetja aflaheimildir.

Ég get vel skilið að bönkunum finnist ástæða til að hafa áhyggjur af, ef þeir hafa lánað út peninga með veði í aflaheimildum, því slíkt er með öllu bannað samkv. lögum, eins og nýlega var rakið vandlega í pistli hér á blogginu mínu.

Mér er ekki ljóst með hvaða heimildum nýju bankarnir ætla að yfirtaka þær skuldir sem þannig er til stofnað. Í fyrsta lagi eru þeir ríkisbankar og geta þar af leiðandi ekki tekið við lánum sem bera tryggingar sem eru bannaðar samkvæmt ísl. lögum.  Í öðru lagi eru þessar skulir þegar tapaðar og eiginfjárstaða bankanna einungis fjármögnuð af ríkissjóði; sem þýðir að yfirtaka nýju bankanna á þessum skuldum sjávarútvegsins, er beinlínis ávísun á að þær verði greiddar úr ríkissjóði og þar með af skattgreiðslum almennings í landinu.

Til slíkra vinnubragða hafa stjórnendur nýju bankanna engar laga- eða siðferðisheimildir. Til að ríkisbankar mættu yfirtaka svona gjörsamlega tapaðar skuldir, þyrfti sérstaka lagaheimild frá Alþingi, sem ég læt mér ekki detta í hug að stjórnarflokkarnir myndu samþykkja við núverandi aðstæður.

Menn verða að gæta þess að gömlu bankarnir voru hlutafélög, sem ríkissjóður átti EKKERT í og hefur því engar skyldur til að BJARGA neinum ólögmætum útlánum þeirrar, né þeim hlutafélögum sem með sviksamlegum hætti véluðu út úr þessum bönkum lánsfé gegn veði í lögmætum eignum þjóðarinnar.

Það er til nægur mannafli og skipakostur til að veiða leyfðan heildarafla, þó nokkrir hrokafullir sægreifar fari á hausinn, með fullt fangið að ónýtum skuldapappírum sem þeir sviku út fé með, í því spillingarumhverfi sem þreifst hér undanfarin áratug, eða meira.           


mbl.is Sjávarútvegsfyrirtæki berjast fyrir lífi sínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband