Færsluflokkur: Bloggar

Þetta er athyglisverð frétt

Ég sé ekki betur en þarna hafi fjármálaráðherra farið út fyrir lagaheimildir sínar, þar sem hann aflar ekki heimilda á Alþingi fyrir þeim kaupum sem þarna er lýst.

Ljóst er, að samkvæmt stjórnarskrá okkar og fjárreiðulögum, er fjármálaráðherra skylt að leita heimildar hjá Alþingi áður en fjármunum rísksjóðs er ráðstafað, öðrum en þeim er fram koma í fjárlögum ársins.

Ekki verður betur séð en ráðherra haf þarna tekið ýmsar sjálfstæðar ákvarðanir, og það án þess að leita heimilda þar um, eða gera Alþingi grein fyrir gjörðum sínum ótilkvaddur.

Einhvern veginn hélt ég að stjórnmálamenn hefðu heitið þjóðinni því, í framhaldi af skýrslu Rannsóknsrnefndar Alþingis, að snúa gjörsamlega við blaðinu og fara að stjórna eftir stjórnarskrá og lögum, í stað þeirrar einræðisstjórnunar sem viðgengist hafði.

Af þeirri framgöngu fjármálaráðherra sem þarna er lýst, virðist sem hann skilji ekki gildi réttra stjórnarhátta, eða hann skynji ekki hvað er rétt eða rangt. Hvort er, ætla ég ekki að dæma, að þessu sinni.                   


mbl.is Skuldastaða þjóðarbúsins lækkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þing og stjórnsýsla föst í spillingunni

Að lesa þessa frétt flytur manni þann kalda veruleika að stjórnmál á Íslandi eru alls ekkert á leið út úr spillingu, ráðaleysi og eigin- og flokkshagsmunapoti. HJá þessum öflum er þjóðfélagið greinilega í aukahlutverki.

Efst á lisa virðist vera að uppfylla atlögu AGS að sjálfbærni þjóðfélags okkar, með því að skerða svo samfélagsþjónustu okkar að fólk tapi tilfinningunni fyrir að þjóðin geti verið sjálfstæð og efnahagslega sjálfbær.  Það er afar hart Þegar stjórnvöld láta AGS ganga svo langt að stöðva innlendar framkvæmdir, sem framkvæma á fyrir innlent fyrirliggjandi fjármagn. Að stöðva slík, í þeim eina tilgangi að skapa aukið atvinnuleysi, samdrátt og óöryggi íbúa landsins.

Alvarlegustu mistökin gerðu ríkisstjórn og þingheimur í fyrstu viðbrögðum sínum, með því að yfirtaka bankana sem heild. Engin þörf var á því. Næg trygging fyrir öllum daglegum viðskiptum, bæði innanlands og við útlönd, hefði verið að yfirtaka innlánsdeildir og skuldabréfadeildir, með höfuðbækur 66 og 74,(viðskiptabankaþátt bankakerfisins). Skilja hefði átt eftir í gömlu bönkunum alla fjárfestingastarfsemina, þ. e. kauphallarverðbréf, hlutabréf og kúlulán, svo eitthvað sé tínt til. Þetta var hægt að gera á einni nóttu, því Reiknistofa bankanna keyrir heildaruppgjör allra reikninga bankakerfisins á hverri nóttu, eftir starfsdag. Með einfaldri skipun um að allir reikningar framangreindar innláns- og skuldabréfadeilda keyrðust inn á nýja kennitölu, hefði daglegt viðkiptaumhverfi verið skilið frá ruglinu á einni nóttu.

Að því búnu hefði ríkisstjórn og Alþingi átt að taka ákvörðun um að gefa út nýja krónu, sem væri 1/10 verðmætari en sú gamla.  Innköllun gömlu myntarinnar væri strax tilkynnt, að gerð yrði á næstu þremur mánuðum eftir að nýja krónan væri tilbúin. Til að koma í veg fyrir magnkaup stóreignaaðila á gömlu krónunni, væri tekið fram að til að fá gömlu krónunni skipt fyrir nýja, þyrfti að sanna að eðlileg gjöld og skattar hefðu verið  greiddir af fjármagninu. Eftir þetta þriggja mánaða tímabil, yrði gamla krónan verðlaus, í höndum þeirra sem ekki hefðu gefið sig fram til myntbreytinga.

Með þessu móti hefðu útráðsarvíkingarnir komið sjálfir með ránsfeng sinn, eða hann orðið verðlaus. Engir bankar hefðu fengist til að kaupa af þeim gömlu krónurnar, eftir að tilkynning um myntbreytingu hefði verið gefin út, og þeir erlendu bankar sem keypt hefðu af þeim krónur fyrir erlenda mynt, hefðu látið kaupin ganga til baka. Þeir sem tæmdu fjármagnið frá þjóðfélaginu, hefðu því einungis átt eina leið, ef þeir hefðu viljað gera sér einhverja eign úr sjóðum sínum.

þessu loknu hefði þurft að gera heildarúttekt á því hve mikið fjármagn þyrfti að vera í umferð, til að halda atvinnulífinu, samfélags- og velferðarkefunum gangandi, og kenna fólki hin eðlilegu gildi sjálfbærni þjóðfélagsins. Slík gildi eru því miður löngu týnd úr dagfarsvitund mikils fjölda þjóðarinnar.

Hefði svona verið brugðist við, væru margir Íslendingar brosmildir í dag.               


mbl.is Á erfiðum stað í viðreisninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lánið var íslenskar krónur

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem alvarleg asnastrik sjást frá héraðsdómi Suðurlands. Undarlegt að greindarvísitala skuli ekki vera aukin í þessum héraðsdómi. Réttarríkinu stafar veruleg hætta af óvönduðum úrskurðum, sem þaðan koma. líkt og þeim dómi sem hér verður fjallað um.

Málið E-260/2010 fjallar um innheimtu eins skuldabréfs, sem gefið er út til Glitnis, banka, þann 5. september 2007. Eins og í dómnum segir er: "Skuldabréfið sé að fjárhæð CHF. 174.186.-, svissneskir frankar, og JPY. 16.345.211.-, japönsk yen. Jafnvirði þá kr. 20.000.000,00.

Strax þarna má vera ljóst að þarna er ekki um erlent lán að ræða. Ástæða þess er sú að um er að ræða einungis eitt skuldabréf, en ofangreindar myntir eru tvær.

Í löglegu skuldabréfaformi hérlendis, er skylt að heildarupphæð skuldabréfsins komi fram í tölustöfum, í til þess gerðum reit á eyðublaðinu. Einnig er á sama eyðublaði annar reitur þar sem heildarfjárhæð lánsins skal koma fram, rituð með bókstöfum.

Eins og að ofan greinir, segir dómarinn sjálfur í dómi sínum að lánið hafi verið CHF 174.186.   Hins vegar segir hann einnig að skuldabréfið hafi verið JPY. 16.345.211.  Í þriðja lagi segir dómarinn að lánið hafi verið að jafnvirði þá kr. 20.000.000,00.

Eins og að framan greinir, er einungis ein lína í skuldabréfaformi okkar, sem ætluð er til skráningar þeirrar fjárhæðar sem skuldari skuldar lánveitandanum, samkvæmt því skuldabréfi sem um ræðir. Ef lánveiting þessi hefði verið í þeim tveimur myntum sem tilgreindar eru, hefðu skuldabréfin þurft að vera tvö, fyrir sitt hvora myntina. Að skuldabréfið sé einungis eitt, og líklega með tilgreindri kr. 20.000.000,00 í viðkomandi fjárhæðarreitum skuldabréfsins, staðfestir að lánið var veitt í íslenskum krónum, en ekki erlendum myntum.

Þegar lengra er lesið í rituðum kröfuskýringum stefnanda, verða dómaranum á fleiri skissur. Lítum á hvað lögmaður Íslandsbanka segir um kröfur sínar.

"Skilmálar skuldabréfsins kveði svo á, að verði vanskil á greiðslu afborgana eða vaxta af skuldabréfinu eða aðrar vanefndir sé lánveitanda heimilt að fella alla skuldina í gjalddaga fyrirvaralaust og án uppsagnar."

Þetta er eðlilegt, og í fullu samræmi við löglega skuldabréfaform. Það sem á eftir kemur er hins vegar afar athyglisvert. Þar segir:

"Ennfremur að lánveitanda sé heimilt að umreikna skuldina í íslenskar krónur í lok gjaldfellingardags miðað við skráð sölugengi lánveitanda á þeim myntum sem skuldin samanstandi af."

Þetta ákvæði stenst ekki. Banki getur ekki áskilið sér rétt til breytinga á formi skuldar, sem er samkvæmt undirrituðu og þinglýstu skuldabréfi.  Bankanum ber að lýsa kröfunni í þeirri mynt sem rituð er í framangreindar fjárhæðarlínur skuldabréfsins. Til breytinga, eins og að framan greinir, þarf annað hvort samkomulag á jafnræðisgrunni eða dómsúrskurð. Enginn getur áskilið sér rétt til að fara, einhliða á sínum forsendum, inn í fjárræði annars aðila, þó sá aðili sé í skuld við hinn aðilann. Til slíks þarf alltaf dómsúrskurð.

Og áfram segir í kröfuskýringum stefnanda:

"Skilmálum skuldabréfsins hafi verið breytt með skilmálabreytingu þann 19. nóvember 2008, þannig að eftirstöðvarnar, þá CHF 166.633 og JPY 15.636.919, án vaxta skyldu framvegis endurgreiðast með 6 vaxtagjalddögum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn 20. nóvember 2008 og 287 afborgunum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn þann 20. maí 2009."

Þetta er nokkuð undarleg kröfuskýring stefnanda. Það er engin leið að átta sig á hvaða fjárhæð er ætlað að endurgreiðast með "6 vaxtagjalddögum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn 20. nóvember 2008."  Og hins vegar hvaða fjárhæð er ætlað að endurgreiðast með "287 afborgunum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn þann 20. maí 2009."

Og enn segir í kröfuskýringum stefnanda:

"Skuldabréf þetta sé í vanskilum frá vaxtagjalddaga 22. desember 2008. Skuldabréfið hafi verið gjaldfellt og eftirstöðvar skuldabréfsins umreiknaðar þann dag í íslenskar krónur, í samræmi við 10. gr. í skilmálum bréfsins, vegna vanskila. "Uppreiknaðar eftirstöðvar skuldabréfsins við gjaldfellingu, séu samtals kr. 39.913.111,00 sem sé stefnufjárhæð máls þessa."

Hafi skuldabréfið, sem gefið var út fyrir láninu, verið í erlendri mynt, var bankanum skylt að lýsa kröfunni og innheimta hana í þeirri mynt, því bankinn hefur ekki sjálfdæmi um að breyta einhliða skuldbindingum viðskiptamanna sinna.  Eins og að framan greinir, er 10. gr. skuldabréfsins andstæði íslenskum lögum, þar sem hún gengur þvert gegn ákveðnum fyrirmælum laga nr. 38/2001. Greinilega er lögmaður stefnanda meðvitaður um þetta, því hann vísar ekki til þess, í tilvísun sinni til 10 greinarinnar, að hún styðjist við einhver tiltekin lög.

Að lokum skal svo vísað til myntar og fjárhæðar í stefnu vegna málsins, en þar segir að: "Stefnufjárhæðin kr. 39.913.111,00"  Ef stefnt hefði verið vegna skuldar í erlendum myntum, hefði stefnufjárhæðin átt að vera samtala hverrar myntar fyrir sig.

Athyglisvert er að lögmaður stefnanda vísar í niðurstöðum stefnu sinnar til 10. gr. skuldabréfsins, en styður þá grein skuldabréfsins hvergi við nein lög. Það er að vísu skiljanlegt, þar sem 10. gr. skuldabréfsins gerir það sem algjörlega er andstætt lögum, að tryggja verðgildi íslenskrar lánsfjárhæðar, með tveimur erlendum gjaldmiðlum.

Eins og hér hefur verið rakið, ber málatilbúnaður lögmanns stefnanda svo augljóslega með sér að innheimtan snýst um íslenskt lán, sem verðtryggt er með viðmiði við tvo erlenda gjaldmiðla. Skuldabréfið er aðeins eitt, sem er fullnægjandi sönnun fyrir því að ekki er veriðað innheimta skuld tveggja erlendra mynta.

Að sinni ætla ég ekki að elta uppi barnalegan einfeldningsþátt í niðurstöðum dómarans, en lík þó þessari yfirferð, að sinni, á eftirfarandi orðum hans í niðurstöðunum:

"Með því að um var að ræða erlent lán þykir mismunur á gengi umræddra gjaldmiðla og íslenskri krónu ekki skipta máli í þessu sambandi."

Þetta segir blessaður óvitinn þó honum eigi að vera ljóst, samkvæmt gögnum málsins, að skuldabréfið er einungis eitt, með íslenskri krónutölu í upphæðarreit. Hann hefur engar þinglýstar löglega láns- eða fjárskuldbindingapappíra, sem gefa honum rétt til að tengja innheimtuna við eina tvo tilnefndu erlendu gjaldmiðla.

Ætlar kjánakap og hreinum asnagangi aldrei að linna?????

                 


Tveggja ára fyrning er blekking

Ég undrast hve verulega er ábótavant skilning á jafnræðisreglu stjórnarskrár, hjá þeim aðilum er sömdu frumvarpið til breytinga á gjaldþrotalögum, þingskjal 116, sem nú liggur fyrir Alþingi.  Þeir hyggjast byggja upphaf fyrningarfrests, eftir gjaldþrot á þeim tímapunkti er skiptastjóri ljúki skiptum og tilkynni til héraðsdóms um skiptalok.

Engin regla er til um það hvenær skiptastjóri eigi að ljúka skiptum. Honum er því í sjálfsvald sett hvenær réttur þrotamanns til upphafs tveggja ára fyrningarfrests, eftir gjaldþrot hefjist. Þar sem Alþingi er skylt, í lagasetningum sínum, að gæta jafnræðis gagnvart þegnum þjóðfélagsins, er augljóslega útilokað að upphafstími nýs fyrningarfrests hefjist eftir hentugleikum skiptastjóra, hverju sinni. Þessi framsetning er svo fáheyrður barnaskapur, að manni hrís hugur við að svona lagað skuli koma frá ráðuneyti og ráðherra í stjórnsýslu okkar.

Þriðja málsgrein 1. gr. þessa frumvarps er þvílíkur óskapnaður í orðavali og ruglingslegri merkingu að forsætisnefnd Alþingi hefði átt að vísa frumvarpinu frá, vegna óskýrrar meiningar.  Hægt er að toga meiningar þessa texta í margar áttir. Lítum aðeins á hvað þarna segir:

"Fyrningu krafna sem um ræðir í 2. mgr. verður aðeins slitið á ný með því að lánardrottinn höfði innan fyrningarfrests mál á hendur þrotamanninum og fái þar dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum gagnvart honum. Slíka viðurkenningu skal því aðeins veita með dómi að lánardrottinn sýni fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta aftur fyrningu, svo og að líkur megi telja á að fullnusta geti fengist á kröfu hans á nýjum fyrningartíma, en að gengnum slíkum dómi gilda almennar reglur um fyrningu hennar."

Lítum aðeins á hvað þarna stendur. Kröfuhafar í þrotabú geta haft margar aðrar rétthafastöður en stöðu lánardrottins. Athygli má líka vekja á ritvillunni í þess orði. lánardrottinn er í raun handhafi láns eða heppni þrotamans. En "lánadrottinn" er handhafi skuldar á hendur þrotamanni.

Varla flækist fyrir lögmanni lánadrottins að reiða fram rök þess efnis að umbjóðandi hans hafi sérstaka hagsmuni  af því að fá fyrningu slitið. Eðli málsins samkvæmt liggja hagsmunir hans í því að sé fyrningunni slitið, aukast verulega líkur á að krafan fáist greidd með tímanum.

Í þessari málsgrein segir, að fái "lánadrottinn" viðurkenningu fyrir dómi um rof fyrningarfrests samkv. 2. mgr. (þ.e. tveggja ára fyrning), taki gildi almennar reglur um fyrningu kröfunnar. Lögmaður lánadrottins þarf því einungis að sýna fram á líkur þess að fjárhagur þrotamanns geti vænkast innan hins almennar fyrningarfrests sem nú gildir. Auk þess getur lögmaður lánadrottins bent á að samkvæmt núgildandi reglum, geti hann endurvakið fyrningarfrestinn áður en hann er endanlega á enda runninn, og haldið kröfunni þannig á lífi; jafnvel aftur til dánarbús þrotamanns. OG, dómari verður að rjúfa 2. ára fyrninguna, því í lögunum eru honum ekki ætlaðar neinar heimildir til að hafna framsetningu lögmanns kröfuhafa.

Ég ætla ekki að láta neina skoðun í ljós hvað hafi vakað fyrir textasmiðum þessa frumvarps. Eitt er þó ljóst. Þeir voru ekki að setja saman lagatexta til að auka réttindi eða réttarvitund venjulegs fólks, sem almennt skilur ekki svona sundurlaust bull, eins og 3. mgr. þessa frumvarps er. Þetta frumvarp virðist ásetningur um að villa fólki sýn, svo það telji hér á ferðinni réttarbót, en augljóslega er þarna sýndarmennska á ferðinni.


Er þetta hin raunverulega velferð ????????

Eftirfarandi erindi var flutt á fundi um fátækt, sem BÓT hélt í Salnum í Kópavogi þriðjudaginn 26. október 2010.

  Raunveruleikinn um velferðarkerið okkar.
Þann 10. ágúst s.l. hringdi til mín 82 ára gölum kona. Hún bað mig hjálpar, því hún hefði misst sambýlismann sinn í lok júní s. l. – Og, hún væri bókstaflega að drukkna í innheimtukröfum. Hún hefði hins vegar enga peninga til að borga þetta allt saman.

Við athugun kom í ljós að Tryggingastofnun hafði, fyrirvarlaust, fellt niður þær bætur sem konan átti að fá greiddar 1. júlí. Þegar hún spurðist fyrir um ástæðuna hjá TR,  var því svarað til, að hún væri að erfa svo mikið.

Sambýlismaður hennar var eignalaus; einungis með lífeyri frá lífeyrissjóði sínum og grunnlífeyri TR. Hvaðan TR fékk þá hugmynd að konan væri að erfa svo mikið, eftir sambýlismanninn, fékkst engin skýring á.

Lífeyri, frá lífeyrissjóðnum, fyrir júnímánuð, hafði maðurinn fengið greiddan fyrirfram, þann 1. júní. Hann andaðist svo fáeinum dögum fyrir mánaðarmótin. Lífeyrissjóðurinn gerði strax  kröfu um endurgreiðslu á hluta lífeyris vegna júnímánuðar.

Við athugun hjá lífeyrissjóðnum, kom í ljós að umsókn konunnar um makalífeyri, yrði u. þ. b. tvo mánuði í vinnslu. Fyrr fengi hún engar upplýsingar um hvað greiðsla til hennar yrði há. Þó lág fyrir að konan hafði verið það lengi í sambúð með manninum, að hún ætti fullan rétt á makalífeyri til æviloka. Og fyrir hendi var, í reiknikerfi lífeyrisjóðsins, hver upphæð lífeyris mannsins hafði verið.

Með þessar upplýsingar fór ég til TR og spurðist fyrir um stöðu konunnar. Í fyrstu fékk ég frekar snúðugt svör, um að ekkert yrði reiknað út fyrr en konan væri búin að skila nýrri tekjuáætlun, þegar greiðslur makalífeyris lægju fyrir. Áætlað var að það yrði seinni hluta september. Konan átti því að vera án lifeyris í tæpa þrjá mánuði. Þannig lítur velferðarkerfið út gagnvart þreyttu öldruðu fólki, sem ekki hefur lengur orku til að hringsnúast milli embætta og stofnana, því það á fullt í fangi með að staulast um íbúðina heima hjá sér, með göngugrind sér til stuðnings.

Eftir að ég hafði ítrekað lagt fram kröfu um að fá viðtal við yfirmann, sá ráðgjafi TR sig um hönd og fór með gögnin að ráðfæra sig við einhvern. Kom hann aftur skömmu síðar með þá úrlausn, að til bráðabyrgða yrði búin til tekjuáætlun, svo konan gæti fengið lífeyri sem fyrst. Aðspurður sagði ráðgjafinn að útreikningurinn tæki eina til tvær vikur. Þegar bent var á neyð konunnar, hripaði ráðgjafinn stöðuna hjá sér og lofaði að gera sitt besta.

Greiðslan kom ekki fyrr en 1. september, rúmum tveim vikum eftir að neyðarviðbragða var óskað, vegna þeirra aðstæðna sem TR skapaði.
Gamla konan hafði verið einkabarn og átti einungis einn son, sem fastur var, peningalaus úti í einu Norurlandanna, því hann hafði verið svikinn um þá vinnu sem hann hafði ráðið sig í. Hann komst því ekki heim, til aðstoðar móður sinni.

Þar sem gamla konan var þrúguð af sorg og einmanaleika, hringdi ég í sóknarprest í söfnuði  hennar og gerði honum grein fyrir stöðu konunnar. Hún væri alein með sorg sína, bæði missi sambýlismannsins og algjört hrun lífsviðurværis. Hann kunni engin ráð, til huggunar konunni í sorg hennar, og vísaði málinu aftur til mín, að finna einhverja leið, og láta sig þá vita. Athyglisverð sorgarhjálp hjá þjóðkirkjunni.

Maðurinn hafði verið kennari, megnið af starfsferli sínum. Við athugun um rétt til útfararstyrks, frá kennarasambandinu, var sagt að sá réttur ekki fyrir hendi, því hann hafði lifað of lengi, eftir að hann hætti að kenna. Við það hefði hinn áunni réttur hans til útfararstyrks fallið niður. Slíkt hlýtur að teljast afar sérstök hugsun hjá stéttarfélagi, að fólk tapi slíkum áunnum réttindum, við það að eiga einn eða tvo áratugi ólifaða, eftir ævilanga greiðslu félagsgjalda.

Á áætluðum tíma kom útreikningur lífeyrissjóðsins á makalífeyrinum. Reglur lífeyrissjóðsins um makalífeyrir eru orðrétt þessar:. – “Ef sjóðfélagi andast á eftirlifandi maki rétt á makalífeyri. Upphæð makalífeyris úr B-deild sjóðsins er helmingur af áunnum ellilífeyrisrétti hins látna sjóðfélaga.”

Útborgaður lífeyrir hins látna, að frádregnum sköttum, hafði verið rúmar 220 þúsund krónur á mánuði. Reikna hefði mátt með að helmingur þeirrar fjárhæðar væri rúmar 110 þúsund krónur. Lífeyrissjóðurinn fann hins vegar út, að helmingur þeirra bóta sem hinn látni hafði fengið, væri einungis 49.150 krónur á mánuði. Það virðist góð reikningskunnátta hjá þessum lífeyrissjóði.

Þetta er sönn saga. Því leyfi ég mér að spyrja, hvort ráðamenn þjóðfélagsins séu sáttir við þessa birtingarmynd velferðarþjóðfélags okkar?


 
               


Innheimta ríkissjóðs er aðgangshörð.

Ég get vel trúað að embætti Tollstjóra sé aðgangshart þegar það hefur eitthvað að innheimta. Við hjónin fengum bæði endurgreiðslu frá skattinum, við síðasta uppgjör, vegna ársins 2009. Þrátt fyrir það er embætti Tollstjóra að innheimta skattaskuld hjá okkur báðum.  Ég benti Tollstjóra á að við hefðum fengið endurgreitt. Það breytir engu. Innheimtunni er haldið áfram, eins og liðið hjá Tollstjóra sé heyrnarlaust og skilningslaust.

Ætli þeir séu að reyna með þessum hætti að brúa fjárlagagatið, í von um að þurfa ekki að hækka skatta???????????                 


mbl.is Gat ekki samið við LÍN
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snigillinn fer hratt miðað við Fjármálaeftirlitið

Það er merkilegt hvað það hefur tekið FME langan tíma að koma auga á það sem í mörg ár hefur verið skráð í opinberar skrár Kauphallarinnar og forvera hennar.

Getur verið að lagaumhverfi, um verðbréfa- og hlutabréfaviðskipti séu svona gagnslaust, eða er þetta vísvitandi seinagangur, til að fyrna refsiþátt, vegna seinagangs? Slíkt er ekki fátítt í opinberum ákærumálum.

Alla vega finnst mér engin afsökun vera til fyrir því, að ekki skuli löngu vera búið að ákæra yfirstjórnendur bankanna, því efnahagshrun á Íslandi er áþreifanleg staðreynd. Hverjir voru valdir að því hruni, er einnig alveg skírt og opinbert. Margur maðurinn hefur verið dæmdur á veikari forsendum en þarna eru þegar fyrir hendi.                  


mbl.is Hefja rannsókn strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímaeyðsla

Við þær aðstæður sem nú eru fyrir hendi, þar sem aðildarviðræður að Evrópusambandinu eru í gangi, er þessi tillaga í besta falli tímaeyðsla. Ef þjóðin ákveður að ganga í ESB, mun Alþingi okkar ekki gera slíka milliríkjasamninga. Slíku verður stýrt frá Brussel, og ansi fjarlægur draumur að Evrópusambandið geri fríverslunarsamning við Bandaríkin.

Ef við ætluðum okkur að nýta viðskiptamöguleika okkar utan Evrópu, væri skynsamlegast fyrir okkur að segja upp EES samningnum en gera í hans stað tvíhliða samning við ESB, um þau viðskiptasambönd sem við þörfnumst. Þá væru okkur opnar allar dyr til fríverslunar- eða annarra viðskiptasamninga, við önnur efnahagssvæði, þar með talið ýmiskonar fullvinnslu þar sem orkan okkar nýttist á vistvænni hátt en nú er horft til.

Ef litið er á þessa þingsályktunartillögu út frá raunveruleika okkar í dag, og meðan þessi ríkisstjórn er við völd, er ekki hægt að líta á þetta öðruvísi en sem barnslega óskhyggju, eða áberandi dómgreindarbrest.               


mbl.is Vilja fríverslunarviðræður við Bandaríkin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta skref í áttina??

Ég er svolítið hugsi yfir því að skuld fyrnist á tveimur árum, eftir gjaldþrot. Þó slíkt gæti, í einhverjum tilvikum verið æskilegt, tel ég að áhrif slíks á t. d. afskriftareglur skattakerfis fyrirtækja, gæti orðið erfið í framkvæmd, vegna tapaðs veltufjár, sem miklar líkur eru einnig á að væri lánsfé hjá fyrirtækinu.

Svo er hins að gæta, að þó skuld fyrnist vegna gjaldþrots, geta verið fyrir hendi í lögunum heimild til að endurvekja þá skuld, batni hagur skuldara fáum árum eftir gjaldþrot.  Slíkt er algengt í dag, að skuldir séu ekki afskrifaðar, eftir gjaldþrot, heldur séu endurvaktar aftur og aftur. Og með þeim hætti er þeim sem lendir í gjaldþroti, haldið í fjörtum árum saman.

Ég teldi mikilvægast, samhliða því að heimila afskriftir lána, fáum árum eftir gjaldþrot, að samhliða væri sett ákvæði um skyldu skuldareiganda til að afskrifa kröfuna á sama tímapunkti og senda skiptastjóra tilkynningu þar um. Einnig þarf að setja í lög, að þær kröfur sem ekki er lýst við gjaldþrot, afskrifist sjálfkrafa um leið og úrskurður um gjaldþrot er kveðinn upp. Slíkt mundi útiloka að kröfur, sem ekki komu fram við gjaldþrot, komi fram í dagsljósið stuttu eftir gjaldþrotaúrskurð, öllum til leiðinda.

Svo heildarmyndin verði skýr, þarf samhliða að setja inn í lög um rekstur fjármálafyrirtækja, ákvæði um að þeim sé óheimilt að lána, í almennum lánaflokkum, útlán sem ekki er sannreynt að greiðslugeta sé fyrir hendi hjá lántaka, og að viðunandi trygging sé fyrir hendi.

Lánastofnunum væri heimilt, innan ramma 10% af arðsemi eða fjárhæðar óinnleystrar arðsemi, að lána fé án sannanlegrar greiðslugetu eða haldgóðrar tryggingar; lán sem væri að fullu á ábyrgð lánastofnunar, reyndist venjulegt innheimtuferli árangurslaust. Tap af slíkum lánum drægist frá heimildum til arðgreiðslu.

Þriðji þátturinn sem samhliða þyrfti að taka á, er lána/afborgunarviðskipti út um allt viðskiptasviðið. Setja þyrfti í lög um slík viðskipti, að einungis væri heimilt að taka veð, eða gera kröfu í hið selda, hverju sinni, en óheimilt væri að gera kröfur í aðrar eignir, eða skrá fjárnám á heimili viðkomandi skuldara.

Ef taka á heilstætt á skuldavanda heimila og fyrirtækja, verður að fara slíka heilsteypta leið, samstillingar allra áhrifa og afleiðinga. Annað er bara tilfærsla á vandmálum.               


mbl.is Skuldir fyrnist á tveimur árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokkuð gott, en hefði mátt vera betra.

Í sjálfu sér ætla ég ekki að draga úr mikilvægi þess að uppboðum sé frestað. Ég hefði hins vegar viljað sjá önnur formerki fyrir aðgerðinni; önnur en þau að skuldurum gæfist kostur á að semja um skuldir sínar.

Reynsla mín segir mér að helsta hindrun samninga sé viljaleysi lánastofnana til að horfast heiðarlega í augu við eigin vitleysu, og í því ljósi ganga heiðarlega til samninga við skuldara um raunverulega getu hans til greiðslu afborgana.

Helsta vandamálið í því ferli er, eins og ég hef áður rakið, heljartak lögfræðinga á þeim skuldum sem þeir hafa tekið til innheimtu. Þeir vilja ekki sleppa þeim mikilvæga tekjugjafa sem skuldirnar eru, því þó skuldarinn geti ekki greitt þeim fyrir þrákelkni og fyrirstöðu gegn eðlilegu lausnarferli, þá greiðir bankinn þeim á endanum þeirra reikning.

Ef viðskiptaráðherra og hans fók hefði í raun ætlað að setja lög til að greiða fyrir lausnum, hefðu þeir átt að setja lög um að bakarnir tækju aftur inn til sín, þær kröfur sem þeir hefðu sent til innheimtu hjá lögfræðingum.

Og í framhaldi þess hefði átt að setja skyldur á herðar bankanna, að leggja fram lausnatillögur, sem byggðar væru á raunverulegri greiðslugetu skuldara. 

Ef slík leið hefði verið farin, hefðu menn verið að feta sig áfram í átt til raunhæfra lausna. Biðstaða, eins og nú er verið að framlengja, leysir engan vanda.              


mbl.is Samstaða um að fresta uppboðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband