Færsluflokkur: Bloggar

Ígrunduð yfirvegun er oftast til bóta.

Það er athyglivert hve fólk tekur fljótfærnislegar ákvarðanir og hefur uppi stóryrði án þess að ígrunda vel hvers er verið að krefjast.

Fólki virðist almennt sjást yfir að Bretar beittu Íslenska ríkið ekki hryðjuverkalögum. Þeir beittu þeim lögum gegn sjálfstæðu hlutafélagi, Landsbanka Íslands hf., sem íslenska ríkið átti ekkert hlutafé í. Íslenska ríkið er því ekki aðili að því máli og getur því ekki haft uppi kröfur vegna þeirrar aðgerðar Breta, sem þarna um ræðir. Af þeirri ástæðu er líklegast að kröfum íslenska ríkisins á hendur Bretum, vegna beitingar hryðjuverkalaga gegn Landsbankanum, hefði verið vísað frá dómi vegna aðildarskorts að málinu.

Skilanefnd Landsbankans átti hins vegar aðildarrétt til slíkrar málssóknar. Ég tel víst að allir hinir erlendu kröfuhafar í bú gamla Landsbankans, sem hryðjuverkalögunum var beitt gegn, hafi notað alla sína lögfræðinga til að kanna möguleika á vinningslíkum slíkrar málssóknar. Að skilanefndin vildi ekki láta reyna á slíka málssókn, finnst mér benda til þess að eitthvað hafi ekki verið í lagi með viðskiptahætti Landsbankans í London, á síðustu vikum eða mánuðum fyrir hrunið.

Það er nauðsynlegt að gera kröfur á stjórnvöld um að gæta hagsmuna þjóðarinnar og réttar. En slíkar kröfur þurfa endilega að vera byggðar á traustri skynsemi, yfirvegun og raunsæi.

Til þess að ná hagstæðum árangri út úr allri þeirri orku sem notuð er til mótmæla, er nauðsynlegt að beina orkunni strax á skipulegan hátt að þeim breytingum sem nauðsynlegt er að gera á stjórnsýslu okkar, í stað þess að eyða allri okkar orku í reiði, og sitja svo eftir, uppgefinn og sár, í sömu súpu  stjórnskipulegrar vitleysu, eins og við höfum verið að þróa upp hér undanfarna áratugi.

Það þarf að vera einhvert innihald í hugtakinu NÝTT ÍSLAND.                        


mbl.is Væntu of mikils af dómsmáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slæmt þegar sannleikur er notaður til að hylma yfir óheiðarleika

Það er rétt og satt hjá Friðrik J. Arngrímssyni, framkvæmdastjóra LÍÚ. að sjávarútvegurinn hafi lengi skuldað í útlöndum. Það sem hann sleppir hins vegar að geta, er að allt fram til tíunda áratugs síðustu aldar, voru þessar skuldir með traustum veðum í viðkomandi skipum, innan raunverulegs söluverðmætis þeirra.

Á tíunda áratugnum, þegar útvegsmenn tóku að selja eignir þjóðarinnar (kvótann), brustu fljótt möguleikar fyrirtækja og byggðarlaga til fjármögnunar slíkra kaupa. Yfirleitt voru skip það skuldsett að veðrými var ekkert innan eðlilegs söluverðs skipsins, til frekari lánveitinga. Fyrstu árin, í söluferli kvótans, lánuðu bankarnir þó fé til þessara viðskipta, þrátt fyrir skýra vissu um að útvegsmenn voru að selja það sem þeir höfðu ekki eignarrétta yfir.

 Kvótagreifar LÍÚ börðust harðri og óvæginni baráttu fyrir því að sett yrðu lög sem heimiluðu bönkunum að taka veð í verðmætum kvótans. Hörð andstaða varð hins vegar í landinu, við því að útvegsmenn fengju að veðsetja kvótann. En þar sem útvegsmenn hafa ævinlega farið sínu fram, þó það væri andstætt heildarhagsmunum þjóðarinnar, þá tókst þeim að véla í gegn, við  lagasetningu Alþingis sem kölluð eru "Lög um samningaveð, nr. 75/1997", nægar breytingar á lagatextanum til að geta skapað tostreitu um þýðingu hans.

Hart var barist um 3. gr. þessara laga, en sú grein hefur fyrirsögnina "Heimild til veðsetningar. Séreign hins veðsetta." Vísar fyrirsögnin beinlínis til þess að hið veðsetta, skuli vera séreign skuldarans (lántakandans). Niðurstaðan varð sú að sjávarútvegsráðherra þorði ekki að leggja fram frumvarpið með heimild til veðsetningar aflaheimilda og sátt varð um að 4. töluliður 3. gr. laganna orðaðist svo: (áhersluletur G.J.)

Eigi er heimilt að veðsetja réttindi til nýtingar í atvinnurekstri, sem skráð eru opinberri skráningu á tiltekið fjárverðmæti og stjórnvöld úthluta lögum samkvæmt, t.d. aflahlutdeild fiskiskips og greiðslumark bújarðar.

Þessa niðurstöðu gátu bankastjórar ríkisbankanna alls ekki sætt sig við, því þeir höfðu þá þegar lánað svo mikið fjármagn út á verðmæti kvótans; verðmæti sem útvegsmenn bjuggu sjálfir til, því kvótinn hefur ævinlega verið verðlaus frá hendi eigandans, ríkisins. Niðurstaðan varð því sú að ráðherrann rann á rassinn og heimilaði viðbót við 4. tölulið 3. gr. lananna, sem hljóar svo: (áhersluletur G.J.)

Hafi fjárverðmæti það, sem réttindin eru skráð á, verið veðsett er eiganda þess óheimilt að skilja réttindin frá fjárverðmætinu nema með þinglýstu samþykki þeirra sem veðréttindi eiga í viðkomandi fjárverðmæti.

Þarna var sett inn trygging fyrir bankana, að aflaheimildirnar yrðu ekki skildar frá skipunum, sem búið var að lána út á hærri fjárhæðir en nam söluverðmæti skipanna. Eins og þetta er orðað þarna, greinilega sett fram í þátíð, og átti eingöngu við um það sem gerst hafði fyrir samningu og gildistöku laganna, þá var þarna á ferðinni frávik frá hinni gildandi reglu, um að ekki mætti veðsetja aflahlutdeild fiskiskips. 

Hvorki útvegsmenn né bankamenn fóru hins vegar eftir þeirri meginreglu laganna, að ekki mætti veðsetja  aflahlutdeild fiskiskips. Þeir litu svo á, að þarna væri komin heimild til  skráningar fjárkröfu á fiskiskip með aflahlutdeild, langt upp fyrir raunverulegt söluverðmæti skipsins.

Þarna var í raun búið að setja í gang næsta undarlega svikamillu, þar sem útvegsmenn gátu aukið veðsetjanlegar eignir sínar að eigin geðþótta, með því einu að verðleggja aflaheimildirnar svo hátt sem þörf þeirra var fyrir aukið lánsfé.

Líkt og bankamenn höfðu áður lánað út á aflaheimildir, sem ekkert verðgildi höfðu frá hendi eigandans, og útvegsmenn engar heimildir til að veðsetja, héldu þeir áfram að lána út á ímyndað veðgildi aflaheimilda, þrátt fyrir að skýrt stæði í lögunum að: Eigi er heimilt að veðsetja réttindi til nýtingar í atvinnurekstri, ...t.d. aflahlutdeild fiskiskips

Hér hefur einungis verið opnuð smá rifa inn í svikamillu útgerða og bankamanna í sambandi við verðlagningu og óheimila veðsetningu aflaheimilda.  Það er ógeðslegt að hugsa til þess að meðal okkar, í mikilvægum stöðum, skuli ganga svo óheiðarlegt fólk, að það sé tilbúið að ganga svo alvarlega gegn settum lögum landsins, eins og útvegsmenn og bankamenn hafa gert á undanförnum áratug, eða rúmlega það.             


mbl.is Ekkert nýtt að sjávarútvegur skuldi í útlöndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítur út fyrir að skjalafalsið standi eftir sem áður.

Þrátt fyrir þá frétt sem þarna er vísað til, virðist eitt vera ljóst. Glitnir hafi stofnað félag í útlöndum undir nafgninu "Haf Funding". Þangað hafi verið flutt skuldabréfasafn íslenskra fyrirtækja, m. a. skuldabréf sjávarútvegsfyrirtækja, þar sem bankinn hafi tekið veð í skipum langt upp fyrir raunvirði þeirra. Skýringin á þessu er sú að bankamenn hafa talið fiskveiðiheimildir þessara útgerðarfélaga vera EIGN þeirra, án þess að útgerðirnar hafi geta lagt fram nokkra eignapappíra, eða aðrar heimildir til veðsetningar veiðiréttarins, sem verðlagður er á 0 krónur frá hinum raunverulega eiganda.

Af fréttinni má lesa, að Glitnir hafi farið í slóð hinna Bandarísku svikamaskínu, sem gaf út skuldabréfavafninga með upplognum veðgildum sem aldrei yrðu innheimtufær. Með þessu fór bankinn út í afar alvarlega svikastarfsemi, sem engin leið er að sjá fyrir hvort skapa muni þjóðfélaginu meiri skell en þegar er orðinn.

Því miður tel ég mig vita að þetta er ekki eina tilvikið þar sem erlendum bönkum er talin trú um að aflaheimildir íslenskra fiskiskipa sé gilt veðandlag. Þetta gæti því allt eins verið upphafið að uppljóstrun á eldri svikamyllu en útrásarvíkingarnir spunnu; svikamyllu sem áreiðanlega verður þjóðinni ekki síður erfið viðureignar.

Það er ótrúlegur aumingjaskapur í stjórnmálamönnum okkar og þeirra leiðtogum, að þora ekki að opna svikamylluna og hreinsa almennilega út.

Það er líka undarlegt að Samfylkingin skuli enn sleppa með að svara spurningum um það, hvers vegna erlendar skuldir þjóðfélagsins nánast tvöfölduðust á þeim fáu mánuðum sem þeir voru í stjórn. Gáðu þeir ekkert að stöðu þjóðfélagsins í sigurgleðinni yfir því að vera LOKSINS komnir í hina eftirsóttu STÓLA og mega nú RÁÐA yfir þjóðinni?                         


mbl.is Veðin færð með samþykki fyrirtækjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þora Geir og Solla ekki að ráðast gegn hryðjuverkalögunum ?

Af fréttinni að dæma virðist eins og formenn stjórnarflokkanna ætli ekki að þora að standa með þjóð sinni gegn hryðjuverkalögum breta. Líklega er það engu minni smán en þegar Davíð og Halldór settu okkur á lista viljugra þjóða.  Það virðist því að verða ljóst, að 3 af 5 stjórnmálaflokkum okkar hafa ekki einurð til að setja stolt þjóðarinnar í fyrsta sæti, heldur vilji vera taglhnýtingar ákveðinna yfirgangsafla í okkar heimshluta.

Eru klíkuöflin í þessum flokkum orðin svo úrkynjuð að ekkert víkingablóð sé eftir í æðum þeirra?                          


mbl.is Ríkið styður málshöfðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarlegt tómlæti og kæruleysi

Hvað sem líður afleiðingum neyðarlaganna sem sett voru á Alþingi, er líklega varla hægt að komast nær því að fremja landráð, en að láta málshöfðun á hendur bretum falla niður.  Hagsmunirnir sem þarna eru í húfi, eru það miklir og varða þjóðina afar miklu. Þeir hagsmunir geta haft afgerandi áhrif á afkomumöguleika þjóðarinnar til fjölda ára. Þess vegna er engin leið að réttlæta það að höfða ekki skaðabótamál gegn bresku stjórninni.

Eins er það afar furðulegt ef hluthafar, sem áttu hlutafé í Kaupþingi fyrir aðför breta að því fyrirtæki, hefja ekki skaðabótamál gegn bretum. Láti þeir það hjá líða, er það beinlínis opinber staðfesting á því að þeim hafi verið ljóst að eignavirði hlutabréfa þeirra væri ekki neitt; eða svo lítið að ekki svari kostnaði að sækja réttarstöðu þeirra vegna. Varla hafa þessir hluthafar verið svo illa staddir fjárhagslega að þeir geti ekki lagt fjármuni í málssóknina.

Eru þeir kannski að bíða eftir því að við borgum það líka fyrir þá, eins og okkur er ætlað að borga lánafylliríið þeirra?                       


mbl.is Vítaverð hagsmunagæsla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óhugnanleg frétt um ásetningsmorð á saklausum borgurum

Ef einhver hefur efast um ásetning ísraelsmanna um að drepa samklausa borgara annars ríkis, þá er staðfestingu þess að fá í þessari frétt. Í henni er staðfest að Ísraelsher lagði á sig umtalsverðan kostnað og fyrirhöfn, til að ÆFA innrás á annað menningarsamfélag, utan landamæra ríkis þeirra.

Í fréttinni segir að allt að 300 þúsund manns hafi særst á Gasa á fáeinum dögum. Athyglisvert, í ljósi þess að þetta er svipuð tala og fjöldi Íslendinga er. Þetta jafngildir því að Ísraelsher hafi sært eða limlest nánast ALLA Íslensku þjóðina á u. þ. b. tveimur vikum.

Eru Íslensk stjórnvöld tilbúin að horfa þegjandi á svona framkomu öflugs herveldis, gagnvart fólki sem það hefur kúgað í áratugi?  Er það manngildið, sem býr í brjóstum stjórnmálamanna okkar og þá sérstaklega ráðherrana? Að rétt aðeins orða það, svona eins og fyrir siðasakir, að þetta sé óheppileg framkoma hjá Ísraelsher.

Ísraelar segjast vera Guðs útvalda þjóð.  Er þetta skilningur þeirra á mannkærleika Guðs?  EÐA - er ríki þeirra stjórnað af mönnum sem bera djúpt hatur til annarra kynþátta; og þá kannski sérstaklega þess kynþáttar, sem á árþúsunda sögulegan rétt til landsins sem þeim var fengið til afnota.

Heimsbyggðin getur ekki lengur horft á þessa atburði eins og leikmynd. Þarna er um raunveruleika að ræða, sem öllu siðuðu fólki er smán að, ef ekki verður VARANLEGA stöðvaður yfirgangur ísraela gagnvart Palestínumönnum.                        


mbl.is Æfðu innrásina í átján mánuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona spá opinberar bara vanþekkingu.

Það er nú til lítils að birta svona spá, þegar ljóst er að gjaldeyrisframleiðsla okkar verður  mikið minni en þarna er gert ráð fyrir. Það er líka kominn tími til að menn átti sig á að hætta hinni villandi framsetningu, að tala um "þjóðarframleiðslu", þegar í raun er verið að tala um veltu þjóðfélagsins.

Langur vegur er frá að í ljós sé komið hversu mikill samdráttur verður í verslun og viðskiptalífi. Gjaldeyrissköpun er einnig enn afar óljós, þannig að svona spá ER AFAR ÓHEPPILEG VEGNA ÞEIRRAR FALSVONAR SEM HÚN BYGGIR UPP.

HÆTTIÐ BULLINU OG FARIÐ AÐ TALA UM HINN JARÐBUNDNA RAUNVERULEIKA.                 


mbl.is Ísland áfram í efstu deild þjóða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að ná árangri með mótmælum krefst skipulags, rökfestu og hugsunar

Skemmdirnar á búðinni hjá Evu, ber að harma, af engu minni festu en yfirgang mótmælenda á gamlársdag gagnvart Hótel Borg og starfsmönnum Stöðvar 2. Það er sama að hverjum skemmdarverk beinast, þau eru ALDREI réttlætanleg.

Það hefur sýnt sig í gegnum tíðina, að það þarf skipulag, rökfestu og slægð, til þess að ná árangri í mótmælum. Þetta var mér bent á, af fullorðnum manni, þegar ég var enn ungur og ákafur, þó ég hafi verið laus við ofbeldishneygð. Ég hef þó nokkrum sinnum beitt mér gegn óréttlæti gagnvart almenningi, og ævinlega gætt þess að hafa að leiðarljósi hin augljósu sannyndi gamla mannsins.

Á níunda áratug síðustu aldar, þegar hörmungar verðbólgu og verðtryggingar lánsfjár, hrifsaði fjölmörg heimili úr höndum fólks, var algjörlega óþekkt að fólk gæti fengið lánum sínum breytt með skuldbreytingu (lengingu lánstíma eða öðrum skilmálabreytingum). Lánastofnanir settu hnefann í borðið að sögðu. - Lánin á að borga á réttum tíma og ekkert kjaftæði með það. - Svo var gengið að veðunum og eignir seldar á smánarverði.

Með skipulögðum áróðri, ásamt því að leiða fram skýr rök fyrir því hvert tap lánastofnana var af þversumhætti þeirra, var hægt að vekja jákvæða athygli fjöldans á réttmæti skuldbreytigna. Þegar ég svo hóf störf í hagdeild banka, hamraði ég skuldbreytingaferlið í gang, sem allir njóta góðs af í dag; án þess að nokkru ofbeldi hafi verið beitt.

Annað tilvik má nefna frá síðari hluta níunda áratugar, þegar verulega var farið að þrengjast að fólki. Þá var iðulega gengið svo hart fram í innheimtum að allt innbú fjölskyldna var selt á nauðungaruppboði. Átti ég þar margar harðar glímur við lögmenn og fógeta og safnaði í þeim glímum saman atriðum þar sem farið hafði verið út fyrir heimildir laga. Öllum þessum brotum var raðað saman og rökstutt eftir atvikum hverju sinni. Síðan heimsótti ég nokra valinkunna menn, bæði þingmen og embættismenn og kynnti fyrir þeim raunveruleikan. Bauð þeim upp á opinbera umræðu um þessi lagabrot, þar sem menn gætu svarað fyrir sig, - eða að lögunum um nauðungasölur yrði breytt þannig að ekki mætti selja venjulegt innbú fólks á nauðungasölu.

Valin var sú leið að breyta lögunum og í dag er óheimilt að selja venjulegt innbú á nauðungasölu.

Ýmis fleiri dæmi mætti nefna, þar sem hugsun skipulag og rökfesta náði fram verulegum breytingum á högum og réttarstöðu fólks, án þess að nokkurt eignatjón eða skemmd hlytist af. Það eru hins vegar afar fá tilfellin sem uppþot, ofbeldi og skemmdir hafa skilað varanlegum úrbótum. 

Mér finnst athugandi fyrir mótmælendur að hugleiða þetta.                    


mbl.is Ráðist gegn Nornabúðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt fyrir framtíðina að læra að hlusta, hugsa og rökræða.

Eins og oft áður, mælist forseta vorum vel og bendir á marga góða þætti sem samfélagi okkar eru nauðsynlegir, til varanlegrar framþróunar. Grundvallarregla allrar framþróunar byggist á því, að þeir sem stýra för, hafi til að bera nauðsynlega þekkingu á verkefninu, skýra mynd af því hvert skuli stefna, og öruggan leiðarrita fyrir siglingaleiðina þangað. Þá er einnig nauðsynlegt að þeir sem stýra för, beri ríka umhyggju fyrir ÖLLUM áhafnarmeðlimum og framgangan við stjórnun, valdi engum þeirra skaða eða tjóni.

Samkvæmt stjórnarskrá okkar, er stjórnendum lýðveldisins ætlað að stýra eftir þar til greindu skipulagi. Um langt árabil hefur verið farið á skjön við þau grundvallarfyrirmæli sem stjórnarskráin tilgreinir. Ákveðnir hagsmunahópar fóru í valdakapphlaup, til að hafa ráðandi afl/völd, um það hvernig þjóðfélag okkar skildi þróast. Í því kapphlaupi gleymdist að horfa yfir alla áhöfn þjóðarskútunnar og gæta þess að enginn yrði fyrir skakkafalli eða tjóni af völdum stjórnvalda.

Hin síðari ár, hefur framkvæmdavaldið sífellt verið að taka sér meira vald en þeim er ætlað samkvæmt stjórnarskrá. Í stöðugt vaxandi eftirhermu af Bandarísku þjóðfélagi, hafa ráðherrar okkar verið að taka sér samskonar vald og ráðherrar Bandaríkjanna hafa, þó stjórnkerfi þar sé til muna frábrugðið okkar. Hefur þetta t. d. birst í því að ráðherra okkar TAKA SÉR VALD, sem þeir í raun hafa ekki. Þeir gefa loforð um framkvæmdir og útgjöld, án þess að Alþingi hafi fært þeim heimildir til að skuldbinda ríkissjóð að neinu leiti. Útgjalda heimildir ráðerra okkar ná EKKERT út fyrir fjárlög hvers árs fyrir sig en hafa jafnvel birst í áratuga óheimilum skuldbindingum, líkt og í sambandi við Tónlistar- og ráðstefnuhúsið.

Allir nústarfandi stjórnamálaflokkar okkar, eru í raun lokaðir hagsmunaklúbbar, sem ekki bjóða upp á opnar umræður (rökræður) um þjóðfélagsmál. Almennur félagsmaður á einungis kost á að tjá sig í 1 - 2 mínútur og samanlagður ræðutími almennra félagsmanna fer sjaldnast yfir 20 - 30 mínútur á þeim fáu fundum sem haldnir eru. Sé borin fram fyrirspurn til forystunnar, um frávik hennar frá mótaðri stefnu flokksins, er þeirri fyrirspurn annað hvort ekki svarað, eða að svarað er með útúrsnúning, sem ekki fæst leiðréttur.

Þetta er hyldýpisgjáin sem valdaklíkur stjórnmálaflokkanna hafa byggt upp í kringum sig, til varnar sérhagsmunum sínum og starfskjörum, fyrir óþægilegum spurningum og kröfum hins almenna félagsmanns. Kannski hafa forystusveitir stjórnmálaflokkanna ekki sterkari lýðræðisvitund en birtist í framkvæmd þeirra á lýðræðinu innan flokkanna. Getum við þá vænst meiri þroska af þeim í starfi fyrir þjóðarheildina?

Ég tel að fólk þurfi að átta sig á að breytingarnar felast ekki í því að hrópa á núverandi forystulið stjórnmálaflokkanna, sama hver þeirra á í hlut. Heldur felist bættar framtíðarhorfur í því að fólk geri sig meira gildandi í heilsteyptri afkomuhugsun fyrir þjóðarheildina. Það er ekkert flókið að hafa grundvallarhugsunina á því að við eyðum ekki meiri peningum en við öflum. Það er sama grundvallarhugsun og hver og einn ætti að hafa í eigin lífi; fjölskyldan einungis stækkuð. 

Almenningur þar að venja sig á að krefjast einfaldari og auðskiljanlegri upplýsinga og uppgjöra, í stað þess að upplifa sig kafsilgda í óskiljanlegu talna- eða orðaflóði. Opinn skilningur og meðvitund sem flestra, er afar sterk vörn gegn óheiðarleika. Slíka vitund þarf að efla mjög mikið hjá okkar þjóð.          


mbl.is Þjóðarátak nýrrar sóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofbeldi flokkast varla sem mótmæli

Það er skýr greinarmunur á því að búa sér til tækifæri til að fá útrás fyrir ofbeldis og skemmdarfýsn, eða að mótmæla aðgerðum eða ástandi með rökum eða friðsömum þrýstingi.

Sá ofbeldishópur sem þarna virðist á ferð, er ekki að vinna að hagsmunum þjóðarinnar, heldur fyrst og fremst að fá útrás fyrir eigin innibyrgða ofbeldisþörf og skemmdarfýsn.

Framkoma þeirra sýnir fyrst og fremt hve litla dómgreind þeir hafa. Líklega væri best að fara með þá í æfingasal boxarafélagsins og láta þá berja sandpoka þar til ofbeldisþörf þeirra er fullnægt.  Það yrði þá kannski friður fyrir þeim í fáeina daga.                          


mbl.is Kryddsíld lokið vegna skemmdarverka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband