Færsluflokkur: Bloggar

Kastljósið í kvöld frábært og vel upplýsandi, en samt sorglegt

Ég efast um að fólk almennt átti sig á hve Kastljósið var í raun frábært í kvöld. Framsetning þeirra á símtali Árna Math. við Breska fjármálaráðherrann var einkar skýr. Sorglegt var að verða vitni að því hve Árni var gjörsamlega ómeðvitaður um alvarleika málsins, og virtist algjörlega ómeðvitaður um þá ábyrgð sem hann hafði sjálfur stefnt ríkissjóði í með því að láta þessa starfsemi Landsbankans í London verða svona umfangsmikla, undir beinni ábyrgð ríkissjóðs.

Klaufaleg tilsvör, ásamt engum vilja til að ávinna sér umburðarlindi eða velvilja Breska ráðherrans, voru svo yfirþyrmandi að engin leið er að áfellast Breska ráðherrann fyrir að reiðast heiftarlega.

Þá var viðtal Jóhönnu við þennan Íslenska fræðimann, sem kom á eftir símtalinu, einkar athyglisvert. Hrykaleg var ádeilan sem þar kom fram á hendur Fjármálaeftirlitinu, að það hafi heimilað Landsbankanum þessa innlánasöfnun í Bretlandi, vitandi um að ríkissjóður væri ábyrgur fyrir þessum innlánum, þar sem þeim var safnað af útibúi Íslensks banka, en ekki Bresks dótturfélgs.

Það er einnig sorglegt siðleysi að Fjármálaeftirlitið, undir forystu þess manns sem svo gjörsamlega brást þjóðinni í Landsbankamálinu í London, skuli svo vera, með neyðarlögum, settur yfir eignauppgjör allra bankanna.

Ég hefði haldið að ef einhver snefill af siðferðisvitund væri til í vitund Forstjóra Fjármálaeftirlitsins og hjá Fjármálaráðherra, ættu þeir báðir að segja af sér störfum sínum nú þegar. Að þessir menn skuli sitja áfram í stöðum sínum, er mikið meiri niðurlæging fyrir þjóðina en álitið sem Brown lét í ljós. Að þeir sitji áfram sýnir dómgreindarbrest og undirokun þjóðarinnar.                          


mbl.is Viðræðum við Breta lokið í bili
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisvert álit litlu SÆGREIFANNA

Það er athyglisvert að lesa þessi ummæli Arthurs, í ljósi þess að hann stýrði smábátaflotanum inn í sægreifaflokkinn og lagði þar með trausta hönd á að selja þjóðareignina og skuldsetja smábátaútgerðina, svo litlu greifarnir gætu tekið margfalda þá peningaupphæð út úr smábátaútgerð, sem eðlilegt hefði geta talist.

Ef LÍÚ á að skammast sín, þá eiga Arthur og félagar ekki síður að skammast sín, því þegar þeir fóru í ránsferðina gegn þjóðinni, vissu þeir hvaða afleiðingar það hafði. Það vissi þó LÍÚ ekki við upphaf aðgerða sinna, þó sá hryllingur sé öllum heiðarlegum mönnum löngu ljós.

Arthur segir:  "að íslenskur sjávarútvegur stæði traustum fótum -,,á botninum í skuldafeni upp fyrir haus.“  

Þetta er rétt hjá honum. Með hans framgöngu er líklega ALLUR sjávarútvegurinn kominn á kaf í skuldir, en af hverju skildi það vera?

Ástæðan er sú, að þeir sem eiga báta sína skuldlausa eða skuldlitla, geta ekki farið á sjó vegna þess hve sægreifarnir krefjast hárrar þóknunar fyrir að leyfa veiðar á millifæranlegum aflaheimildum. Þeir krefjast alls aflaverðmætis í sinn hlut, og stundum víst meira en það.

Það er engin undur þó Arthur sé ánægður með árangurinn, að hafa komið smábátaflotanum á botninn í skuldafeninu, við hliðina á stóru sægreifunum. Í þeim félagsskap líður honum greinilega vel, meðan þjóðinni blæðir út.       


mbl.is Sjávarútvegurinn skuldum vafinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Segðu af þér Birgir

Lögfræðimenntaður maður, sem formaður allsherjarnefndar Alþingis, getur vart sýnt þjóð sinni meiri lítilsvirðingu en að svara svona spurningum með þessum hætti.

Það er óravegur frá löggjöf um kyrrsetningu vegna ætlaðra hryðjuverka, til þess eðlilega sem hægt er að ætlast til af Alþingi, að sett verði kyrrsetningarlög á eignir stjórnenda og stjórnarmanna bankana þriggja.

Allir voru bankarnir hlutafélög, og í þeim lögum er áskilin ábyrgð þessara manna á þeim atriðum þar sem þeir teljast hafa farið út fyrir lagaheimildir. Ljóst er að þeir fóru langt út fyrir greiðsluþol bankanna og þar með var einnig farið langt út fyrir öll siðferðismörk.

Birgir minn!  Fyrst vilji þinn til að verja þjóðina skakkaföllum er ekki meiri en raun ber vitni, áttu þegar í stað að segja af þér þingmensku, og þar með formensku í allsherjarnefnd.                


mbl.is Vill ekki frysta eignir auðmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir eru mestu sökudólgarnir ????

Margir eru uppteknir þessa dagana við að leita sökudólga, til að refsa fyrir þær hamfarir sem yfir þjóðfélag okkar hafa gengið undanfarna daga.

"Maður líttu þér nær". - "Þú sérð flísina í auga bróður þíns en þú sérð ekki bjálkann í þínu eigin auga". - Þetta eru tvö gömul máltæki sem ævinlega eru sem ný og eiga alltaf við. Við sjáum hin smæstu atriði sem við teljum til sakfellingar hinum og þessum aðilum í þjóðfélaginu, en við forðumst að líta í eigin barm og skoða hver ábyrgð okkar sjálfra er.

Vissum við ekki að erlendar skuldir voru að aukast hættulega mikið? Við höfum þó verið minnt reglulega á það, nokkrum sinnum á ári, undanfarin þrjú ár. Á þeim tíma jukust erlendar skuldir úr u. þ. b. 1.600 milljörðum, um mitt ár 2004, í u. þ. b.  11.000 milljarða í ágúst á þessu ári. Af hverju þögðu allir sem mótmæla nú? Voru þeir í fríi frá því að gæta langtímahagsmuna fjölskyldu sinnar? - Langtímahagsmunir fjölskyldu byggjast á því að sjá sem skýrast fyrir langtímavelferð þjóðfélagsins.

Það er svo skrítið að Davið, skynjaði hættuna; líklega af því að hagfræðingar Seðlabankans hafi sagt honum frá því. Á síðustu árum talaði hann um þessa hættu í ræðum sínum sem seðlabnkastjóri, en svo virðist sem enginn hafi hlustað. Ekki einu sinni þeir sem nú mótmæla og telja það fyrsta verk að reka Davíð.

Til þess að hægt hefði verið að bregðast við, hefðu þingmenn þurft að hafa skilning á því sem Davíð o.fl. voru að segja. Og breyta lagaumhverfi þannig að hægt væri að stöðva þá óheillaþróun sem komin var af stað, vegna óvitaskapar stjórnenda bankanna.

Mikilvægasta verkefni Alþingis er að setja samfélaginu lagareglur, til leiðsagnar að þeim markmiðum sem þjóðfélagið á að stefna að; og hafa eftirlit með því að þær lagareglur séu virtar. Til einstakra eftirlitsþátta er ráðuneyti og ýmsar eftirlitsstofnanir, s. s. Fjármálaeftirlitið Ríkisendurskoðun o. fl. stofnanir.

Endanlega eftirlitið með þessu öllu er samt ævinlega í höndum alþingismanna sjálfra, þá einkanlega þingmanna stjórnarflokkanna. Endanlega ábyrgðin á að gagnrýna það sem miður fer, er þó eðlilega í höndum þingmanna stjórnarandstöðunnar, þar sem þeirra er að gæta þess að stjórnarmeirihlutinn spilli ekki grundvallarhagsmunum þjóðarinnar.

Þegar við leitum að sökudólgum þess að svona fór fyrir þjóð okkar, virðist ljóst að líta þarf til margra átta. Álitamál er hvort Davíð á meiri sök á því hvernig komið er, en þeir menn eiga sem settu hann í þá stöðu sem hann gegnir. Það er varla óvitanum að kenna að hann setjist undir stýrir á rútu, fullri af fullorðnu fólki, og aki henni út í móa. Ábyrgðin hlýtur að vera þeirra sem létu það gerast.

Með þessu er ég ekki sérstaklega að verja Davíð, en ég tel hann ekkert hafa til þess unnið að verða píslarvottur og þar með sleppa við eðlilega umræðu um ýmis verk á valdatíð sinni.

Að mínu viti snýr mikilvægið að því hvernig þjóðin sjálf, tekur á þeim bresti á ábyrgð og árvekni sem stjórnmálamenn okkar hafa sýnt á undanförnum árum. Ef við höldum áfram að sofa og láta afleiðingar andvalaleysis þeirra yfir okkur ganga, án þess að þeir þurfi að axla á því ábyrgð, erum við að segja að við, þjóðin í landinu, séum samábyrg þeim sofandahætti sem viðgengist hefur gagnvart öfga og spillingaröflum sem steypt hafa þjóðinni í botnlaust skuldafen á fjórum árum.

Gerum við það, getum við illa mótmælt því áliti erlendra þjóða við við séum óábyrg í fjármálum og því ekki viðskiptahæf.  


Engin vetlingatök á svona málum.

Við eigum ekki að taka neinum silkihönskum á svona málum. Þau eiga tafarlaust að fá flýtimeðferð hjá dómstólum. Dæma á tafarlaust til refsingar, erlenda aðila sem brjóta alvarlega af sér, vísa þeim úr landi strax að lokinni afplánun og setja á þá 100 ára endurkomubann.

Þetta er harður kostur, en ef fólki eru kynnt þessi skilyrði þegar þau koma til landsins, er það þeirra val að ganga inn á þessa refsibraut og verða þá að taka þeirri refsingu sem því fylgir.

Eðlilega þarf að taka öðruvísi á málum ríkisborgarar þjóðar okkar, því þeim er ekki hægt að vísa úr landi. Afbrot og ofbeldi gagnvart lögreglu á þó að hafa í för með sér mjög alvarlega refsingu og stranga huglæga endurhæfingu.

Svona afgerandi og ákveðin framganga gagnvart erlendu fólki sem ekki vill virða leikreglur samfélags okkar, er afar nauðsynleg. Hraður og ákveðinn dómur, með tafarlausri brottvísun og endurkomubanni, að lokinni afplánun, losar hinn mikla fjölda heiðarlegra erlenda borgara, sem hér dvelja, úr umræðum sem þau eiga engan þátt í að skapa.          


mbl.is Grafalvarlegt mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttlætingar á ofbeldinu leitað

Víst ber að fagna þessari yfirlýsingu Breta, en líta samt á hana sem neyðarútgang þeirra úr því öngstræti sem forsætisráðherra þeirra var búinn að koma sér í.

Mér finnst mikilvægt að við sýnum þann karakterstyrk að ásaka ekki almenning í Bretlandi fyrir þann kjánaskap sem forsætisráðherra þeirra varð uppvís að. Við fundum til sársauka innra með okkur yfir því að vera ranglega ásökuð um þætti sem við, sem venjulegir borgarar, komum hvergi nærri. Þess vegna skulum við sýna þann styrk að hegna ekki venjulegum borgurum Bretlands fyrir þær aðgerðir sem þau áttu engan þátt í að ákveða.

Leiðin til baka, fyrir Gordon Brown, úr öngstæti aurdrullu og óþverraskapar, er einungis ein. Hann verður að biðja Íslensku þjóðina opinberlega afsökunar á rangfærslum sínum og heiftaraðgerðum, byggðum á óstaðfestum fregnum. Minnum hann stöðugt á afsökunarþáttinn með tölvupósti, þar til afsökunin kemur opinberlega fram.

Hann getur hugsanlega meðhöndlað fjölskyldu sína með álíka ruddaskap,  en hann hefur ekki lagt fram neina rökstudda ástæðu fyrir þeirri taugaveiklun og óðagoti sem hann sýni í heiftaraðgerðum sínum gegn landi okkar.

Við skulum bíða kurteis og hljóð eftir réttlætingu hans, eða afsökun, en ekki láta almenning í Bretlandi gjalda kjánaskapar hans.     


mbl.is Bretar útskýra takmarkanir á viðskiptum við Landsbankann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki millifæra íslenskar krónur meðan ástandið er svona

Ég er svolítið hissa á ef fólki sem dvelur í útlöndum hefur ekki verið bent á að breyta íslensku krónunni hér heima í þá mynt sem þeir þurfa að nota. Leiðir til að senda gjaldeyri héðan eiga ekki að vera lokaðar, því til slíks eru fleiri en ein leið. Neyðarleið væri að fá utanríkisráðuneytið til að senda greiðsluna í viðkomandi sendiráð, á nafni þess sem á að fá peningana.

Flestir hljóta að hafa einhvern hér á landi sem getur annast slíka úttekt og gjaldeyriskaup í bönkunum okkar, og þá notað Nýja Landsbankann, hraðsendingar, eða ráðuneytið, til að koma gjaldeyrinum í réttar hendur.

Tregðan virðist vera í því að erlendir aðilar taki ekki við sendingum á ísl.krónu og breyti henni í mynt viðkomandi lands. Hér heima ætti gjaldeyriskaup vegna svona framfærslumála að hafa forgang.                   


mbl.is Námsmenn enn í erfiðleikum með millifærslur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er nú ekki hægt að selja fleiri eignir ???????

Af þessari frétt má ráða að nú hafi menn engin töfrabrögð í sjónmáli til að fela hallarekstur. Undanfarin ár hefur hallinn verið falinn með því að selja ríkisfyrirtæki og færa þær eignasölur sem tekjur ríkissjóðs. Því til viðbótar hefur verið keyrt á stöðugt vaxandi neyslufyllirí, með sívaxandi lántökum, þannig að ríkið fengi auknar tekjur í formi innflutningagjalda og virðisaukaskatts.

Nú virðast menn ekki sjá fram á að meiri neyslulán fáist í útlöndum og líklega engin leið að fjármagna fleiri sölur ríkiseigna. Við stöndum því frammi fyrir hinum nakta raunveruleika að þjóðin aflar ekki tekna til að framfleyta sér, (viðvarandi viðskiptahalli) og skattgreiðslur, aðflutningsgjöld og aðrar tekjur ríkissjóðs, duga ekki fyrir rekstri hins opinbera kerfis.

Til hvaða ráða skildi verða gripið.

Ætli það verði dregið úr utanríkisþjónustunni?

Ætli það verði dregið úr framkvæmdum?

Mér þykir líklegt að menn fari svona yfir sviðið en finni ekki marka möguleika til að spara. Líklega verða á endanum eftir tveir valkostir, þ. e. fæðingarorlof unga fólksins og aðbúnaður eldri borgara. Og ef að vanda lætur munu það verða eldri borgarar sem þurfa að taka á sig skerðingarnar; þeir munu ekki teljast þurfa að skemmta sér eða njóta lífsgæða nútímans, frekar en verið hefur.               


mbl.is Reiknað með halla á fjárlögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snyrtilegur biðleikur

Þetta er afar snyrtilegur biðleikur. Það hefði verið óheppilegt að setja þann aðila í stöðuna núna, sem fyrir nokkru var trúlega búið að planta í þessa stöðu. Það hefði orðið of augljóst af hverju pressa var sett á að losna við Jóhann. 

Kannski er fólk búið að gleyma umdeilanlegum aðferðum við prestráðningu þarna fyrir fáum árum.  Svo vildi til að presturinn sem ráðinn var, á konu sem var sýslumaður á Ísafirði. Eitt þeirra vandkvæða sem þurfti að leysa, vegna ráðningar prestsins, voru þau að ekkert embætti var laust, á suðurnesjum, fyrir konu prestsins. Því varð að setja hana í einskonar geymslu sem vararíkislögreglustjóra.

Jóhann var í embætti sem hentaði konunni, auk þess sem hann (Jóhann) var ekki í réttum pólitískum lit. Leikrit var því samið í skyndi og sett í gang atburðarás sem leiða mundi til þess að Jóhann segði af sér starfi. Við það skapaðist pláss fyrir konu prestsins, auk þess sem embættið yrði í réttum lit.

Mjög snjöll atburðarás. Lokaþáttur verksins verður trúlega opinberaður í desember.      

 


mbl.is Settur lögreglustjóri á Suðurnesjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 166114

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband