Er hugtakið "þjóðareign" pólitískt slagorð?

Laugardaginn 5. janúar s. l. ritar Helgi Áss Grétarsson lögfræðingur einkennilega samsuðu í lesbók Morgunblaðsins undir fyrirsögninni "Þjóðareign: Pólitískt slagorð eða lagalegur eignarréttur?" Höfundur titlar sig sérfræðing í auðlindarétti við lagastofnun Háskóla Íslands.

Hann hefur grein sína á því að kvarta undan að lögfræðingar séu sagðir vera með "orðhengilshátt" þegar þeir hafi gagnrýnt að hugtökin "þjóðareign" og "sameign þjóðar" hafi ekki skilgreinda merkingu að lögum og séu til þess fallin að valda misskilningi, ýfingum og óþarfa pólitískum átökum. Athygli vekur að hann nefnir ekki hverjir valdi þeim ýfingum sem um þessi hugtök standi, en flestir vita að það er þröngur hópur sérhagsmunaseggja og leiguþýja þeirra sem standa að þessari aðför að sameiginlegum grundvallareignum þjóðfélagsins. Síðan segir í greininni: (Leturbreytingar er mínar)

"Þrátt fyrir þessar athugasemdir gæslumanna réttarríkisins halda stjórnmálamenn, ritsjórar, prófessorar og aðrir áfram að endurtaka að þjóðin eigi fiskinn í sjónum og skuli eiga vatnið, jarðvarmann og helst allar náttúruauðlindir sem nöfnum er hægt að nefna."

Ég skil það svo að þarna sé greinarhöfundur að tala um lögfræðinga, þegar hann talar um gæslumenn réttarríkisins. Í slíkri nafngift fyrir lögfræðinga felst annað af tvennu. Annað hvort takmarkalítill hroki eða afar takmörkuð greind. Það vill nefnilega þannig til að lögfræðingar hafa það að atvinnu sinni að hártoga sannleikann og réttlætið og fara iðulega út á ystu mörk velsæmis í hártogunum sínum. Það væri ekki mikil vitglóra í því þjóðfélagi sem tilgreindi slíka starfsstétt sem gæslumenn réttarríkisins.

Af því sem hér kemur á eftir má ljóst vera að þennan "sérfræðing í auðlindarétti" skortir verulega á skilning á lýðræðislegu stjórnskipulagi okkar. Hann segir:

"Handhafar ríkisvaldsins fara með svokallaðan fullveldisrétt og með stoð í honum eru lög sett og þeim framfylgt." 

Þarna er sett fram röng staðhæfing; annað hvort af þekkingarskorti eða ásetningi um að skapa rugling hjá lesendum. Í almennu máli er talað um "ríkisvaldið" sem ríkisstjórn hvers tíma. Ríkisstjórn hvers tíma fer ekki með fullveldisréttinn. Sá réttur er alfarið á valdi og ábyrgð Alþingis. Í 1. gr. stjórnarskrár segir: Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn. Það þýðir að stjórnin er algjörlega á ábyrgð Alþingis, kosin þar en ekki af almenningi. Stjórnin hefur því einungis þau völd sem Alþingi afhendir henni hverju sinni. Sjálfsákvörðunarvald ríkisstjórnar er einungis innan þess ramma sem fellur undir þau fjárlög og önnur framkvæmdalög sem Alþingi hefur samþykkt og takmarkast að sjálfsögðu algjörlega við það tímabil sem kjörgengi þeirra er, þ. e. kjörtímabilið. Og enn heldur "sérfræðingurinn" áfram misskilning sínum er hann segir:

"Yfirburðir ríkisvaldsins í samfélagi manna felast í fullveldisréttinum þar sem á grundvelli hans er m. a. hægt að þvinga borgara til að greiða skatta og sæta refsingum."

Á fullveldið reynir ekki í samskiptum samfélags okkar við ríkisvald okkar. Ríksivald okkar þvingar okkur ekki til að greiða skatta, því í 40. gr. stjórnarskrár segir svo: Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Af þessu má sjá að það er Alþingi en ekki ríkisvaldið sem taka ákvarðanir um skattheimtuna. Sama á við um refsingar.

Næst fer "sérfræðingurinn" í huleiðingu um hvað sé þjóð og kemst að því að það sé hópur manna sem að jafnaði eigi sér sameiginlegt tungumál og menningu, ásamt því að búa oftast á sama landsvæði. Þeir einstaklingar sem mynda þjóðina á hverjum tíma geta vart talist vel skilgreindur hópur. -  Athyglisvert í ljósi þess hve algengt það er að fleiri en eitt tungumál séu töluð hjá þjóðum og þjóðin upprunninn úr fjölbreyttri og ólíkri menningu. Síðan segir:

"Þjóðin sem slík getur ekki átt aðild að dómsmálum né nokkra aðra aðild sem máli getur skipt að lögum."

Það er afar sérstakt að sjá þetta ritað af "sérfræðing í auðlindarétti", við Lagastofnun Háskóla Íslands. Þjóðin getur að sjálfsögðu verið aðili að dómsmáli. Þannig hefur t. d. Norðmönnum ítrekað verið hótað dómsmáli vegna skilnings þjóðarinnar á rétti sínum á Svalbarðasvæðinu. Fleiri dæmi væri hægt að tína til, en látið vera til að spara pláss. Þjóðin getur að sjálfsögðu ekki farið í dómsmál, innanlands,  því í slíku máli væri enginn gagnaðili. Þjóððin getur hins vegar tekið ákvörðun um það í einföldum kosningum að fara í dómsmál við óprúttna aðila sem gerast of fingralangir í sameiginlegum eigum hennar. Slíkt mál yrðu framkvæmdaaðilar stjórnunar í landinu að standa í forsvari fyrir og ættu sér enga undankomuleið. En, nú er "sérfræðingurinn" að nálgast megintilgang þessara skrifa sinna, er hann segir:

"Standi pólitískur vilji til að tiltekið verðmæti tilheyri þjóðinni sem eign verður með einhverjum hætti að færa ákveðnar eignarheimildir til aðila sem geta átt réttindi og borið skyldur eiganda."

Það eru ekki margar tegundir auðlinda sem þjóðin hefur þurft að sanna eignarheimildir sínar yfir. Þær þjóðir sem gengu í sjávarauðlindir okkar hafa löngu viðurkennt eignarrétt okkar á þeim. Engir fyrirvarar eru í Hafréttarsáttmálanum um eingar- og ráðstöfunarrétt þjóðarinnar á auðlindum í hafinu og hafsbotninum innan 200 mílna auðlindalögsögu okkar. Engin þjóð véfengir getu okkar til að eiga þessi réttindi eða geta borið þær skyldur sem þeim fylgja. Og áfram heldur "sérfræðingurinn".

"Sá sem heldur fram eignarrétti sínum yfir tilteknu verðmæti verður að færa gögn og skilríki fyrir þeirri fullyrðingu. Enginn greinarmunur er gerður á hinu opinbera og einkaaðilum að þessu leyti."

Þarna erum við að nálgast hápunkt þessara skrifa "sérfræðingsins" en greinilegt markmið hans er að færa fram rök fyrir því að þjóðin eigi ekki fiskveiðiréttinn og Alþingi eigi að skrá þau réttindi á útgerðarfélögin. Ég er í sjálfu sér sammála hluta af því sem sérfræðingurinn skrifar þarna, þó af öðrum forsendum sé.  Eins og að framan er getið, hefur þjóðin löngu lagt fram öll sín skjöl, skilríki og kröfur um eignarréttinn yfir auðlindum sjávar og fengið þann eignarrétt staðfestann um víða veröld. Íslenskir útvegsmenn hafa hins vegar eignað sér þessa auðlind þjóðarinnar og eignfært hana í bókhaldi sínu, án þess að geta með nokkrum hætti lagt fram eina einustu sönnun, hvorki skjal, skilríki eða neitt annað, sem sanni heimild þeirra fyrir eignfærslunni. Hvernig væri að Ríkisskattstjóri athugaði þetta og leiðrétti þennan eignaþjófnað?

Þá er komið að því hjá "sérfræðingnum" að rökstyðja að fullyrðingin í upphafi laganna um stjórn fiskveiða hafi enga merkingu. En lögin um stjórn fiskveiða hefjast á þessum orðum:

"Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar."

Rök sérfræðingsins fyrir því að þetta sé markleysa eru á þessa leið:

"Eins og Rómaréttur byggist íslenskur eignarréttur á að verðmæti sem eru ekki háð eignarrétti í augnablikinu, svo sem villt dýr, séu eigendalaus svo framarlega sem þau eru ekki í vörslu ákveðins aðila. Án frekari skýringar getur yfirlýsingin" (um sameign nytjastofnanna, innskot mitt) "ekki breytt rótgrónum viðhorfum um að nytjastofnar séu eigendalausir á meðan þeir eru villtir og vörslulausir í náttúrunni. Hins vegar geta fiskveiðiréttur í sjó og umráð yfir veiði nytjastofna verið hæf eignarandlög."

Hér er skemmtileg hringavitleysa hjá sérfræðingnum. Það er að vísu rétt hjá honum að í okkar landi eru villt dýr eigendalaus. Þessu vill hann jafna við að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu eigendalausir. Það er að sjálfsögðu ekki rétt. Við færðum út fiskveiðilögsögu okkar í 200 mílur til þess að taka í fóstur alla nytjastofna sem dveljast innan þeirra marka. Samkvæmt þeim eignarréttarákvæðum sem sérfræðingurinn vísar til, eru því nytjastofnarnir óumdeilt af allri veröldinni, í eigu og vörslu íslensku þjóðarinnar. Ég tel að það séu teljandi á fingrum annarrar handar þeir þegnar þjóðfélagsins sem ekki eru meðvitaðir um að afrakstur nytjastofna á Íslandsmiðum eru veruleg verðmæti. Flestum sem hugsa um tekjuöflun þjóðarinnar er kunnugt um að þessir nytjastofnar hafa í gegnum tíðina skilað megninu af tekjum okkar. Við erum því vel meðvituð um verðmætið og ósatt við að láta yfirgangsseggi ræna því frá okkur. Verðmætið sjáum við líka á því hve lánastofnanir eru tilbúnar að lána útgerðarfyrirtækjum, þrátt fyrir að þær segi að eina verðmæti fyritækjanna sé veiðirétturinn, sem þau eiga ekkert í og hafa enga heimild til að veðsetja. Athugið að lánastofnanir geta ALDREI gengið að þessum ímynduðu veðum sínum og gætu því setið uppi meðmeginþorra skuldanna sem töpuð útlán.

Ég ætla ekki að fara lengra í þessi skrif sérfræðingsins í auðlindarétti við Lagadeild Háskóla Íslands að þessu sinni. Það eru eftir hugleiðingar um eignarrétt Þingvalla o.fl. sem ég skoða kannski síðar.

Ég vek sérstaka athygli á að í upphafi greinar sinnar talaði sérfræðingurinn um lögfræðinga og lagamenntaða menn sem gæslumenn réttarríkisins.  Ég held að Háskóli Íslands þyrfti að fara að skoða gaumgæfilega hvers konar mannskap hann er að dæla út í þjóðlífið, þ. e. hvaða innrætingu laganemar fá á menntabraut sinni, ef þetta er sérfræðiþekkingin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Þetta er merkileg samantekt. Það er erfitt fyrir ólögfróða menn að dæma um þessi atriði en skv. ofanskráðu virðast skoðanir Helga Áss í meginatriðum fara saman við skoðanir Sigurðar Líndals lagaprófessors eins og ég skildi þær í nýlegu í útvarpsviðtali á Útvarpi Sögu. 

Júlíus Valsson, 9.1.2008 kl. 23:56

2 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Sæll Júlíus og takk fyrir þitt innlegg.

Það er rétt hjá þér að skoðanir Helga Áss fara saman við skoðanir Sigurðar Líndal á því að þjóðin geti ekki verið eigandi afraksturs nytjastofna á Íslandsmiðum. Þeir hafa ekki lagt fram nein skýr rök eða skjalaheimildir fyrir þessari skoðun sinni, enda væri slíkt langsótt. Eins og skilja má þeirra málflutning, getur þjóðin ekki átt neinar eignir vegna þess að hún, þjóðin, sé ekki skilgrein lögpersóna með kennitölu. Samkvæmt því á þjóðin ekkert Alþingishús, engin sjúkrahús,, ekkert Þjóðminnjasafn, Listasafn, eða önnur söfn og í raun engin veraldleg verðmæti. Svo virðist sem þeir telji þjóðina algjörlega aðskilda frá ríkisvaldinu og hún hafi ekkert með ríkisvaldið að gera. Þetta er því miður afar undarleg og svolítið biluð rökfræði og afar undarlegt að heyra slíkt frá þeim mta manni sem Sigurður Líndal er. Ég hef satt að segja velt fyrir mér hvort einhverjir "sægreifar" séu í ættar- eða fjölskyldutengslum við Sigurð, eða eitthvað óeðlileegt liggi að baki þessari meinloku hjá honum.

Þess ber að geta að Sigurður hefur ekki enn geta fært gild rök fyrir þessari skoðun sinni. Ég hef margsinnis beðið hann, og alla aðra sem halda því fram að útvegsmenn megi selja aflaheimildir, að þeir sendi mér afrit af þeim lögum frá Alþingi sem heimili slíka sölu. Þessa beiðni hef ég lagt fram í 17 ár, en enn hefur ENGINN geta sent mér þessi umbeðnu lög. Ég hef sjálfur lesið allt sem sagt hefur verið og skrifað um fiskveiðistjórnun á Alþingi okkar, frá upphafi kvótakerfisins og veit þess vegna að Alþingi hefur ALDREI heimilað sölu veiðiheimilda.

Í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðanda um vatnsréttindi í Þjórsá, kemur glöggt fram hvaða forsendur þurfa að vera fyrir hendi svo opinberir aðilar, eins og ríkisstjórn, geti afhent öðrum aðilum eignir þjóðarinnar til nytja eða ráðstöfunar. Þar segir eftirfarandi: (Leturbreytingar eru mínar)

“Skilyrði fyrir ráðstöfun ríkiseigna er víðar að finna í löggjöfinni en í framangreindu ákvæði 40. gr. stjórnarskrár. Helstu fyrirmælin hér að lútandi er að finna í fjárreiðulögum nr. 88/1997. Rifja má upp að eitt af markmiðunum, sem bjuggu að baki þessum lögum, var að undirstrika FJÁRSTJÓRNARVALD ALÞINGIS, sbr. einkum 40. og 41. gr. stjórnarskrárinnar, og efla eftirlit og aðhald löggjafans með framkvæmdavaldinu og ráðstöfun þess á fjármunum ríkisins. Í samræmi við þessi markmið er í 29. gr. þeirra mælt fyrir hvernig standa skuli að ráðstöfun þeirra eigna ríkisins, sem eru á forræði ríkisaðila í A-hluta ríkisreiknings. Samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar skulu ríkisaðilar í A-hluta ríkisreiknings HVERJU SINNI afla heimilda í lögum til að kaupa, selja, skipta eða leigja til langs tíma fasteignir, eignarhluta í félögum, skip, flugvélar, söfn og safnhluta, sem hafa að geyma menningarverðmæti, og AÐRAR EIGNIR SEM VERULEGT VERÐGILDI HAFA.”

Rétt er að benda á hér, vegna þess að talað er um aðila í A-hluta ríkisreiknings að öll ráðuneyti stjórnarráðsins, ásamt þeim stofnunum sem heyra beint undir þau, s. s. Fiskistofa undir sjávarútvegsráðuneytið, eru í A-hluta ríkisreiknings. Þess vegna heyrir úthlutun veiðiheimilda undir þessa reglu. Ég ætla að ljúka þessu með niðurlagi greinar sem ég sendi blaðinu 24 stundir, en ekki hefur birst þar enn. Þar segir:

Í athugasemdum við þessa framangreindu grein í frumvarpi að fjárreiðulögum er tekið fram að leiga til langs tíma miðist við samning til lengri tíma en eins árs. Hér er ljóst að fiskveiðiheimildir okkar falla klárlega undir skilgreininguna “AÐRAR EIGNIR SEM VERULEGT VERÐGILDI HAFA” Verðmæti þeirra er skráð hjá Fiskistofu. Þó stjórnvöld úthluti þeim endurgjaldslaust, eru þessar heimildir seldar rándýru verði á svo kölluðum “markaði”.Fiskistofa, sem er undirstofnun sjávarútvegsráðuneytisins, heldur nákvæma skrá yfir magn og verð seldra aflaheimilda, þannig að verðgildi og verðmæti eru stjórnvöldum vel ljós. Í þessu sambandi er rétt að benda á það sem hér á undan er rakið úr 29. gr. fjárreiðulaga, þar sem segir að: “Samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar skulu ríkisaðilar í A-hluta ríkisreiknings HVERJU SINNI afla heimilda í lögum til að kaupa, selja, skipta eða leigja til langs tíma fasteignir, eignarhluta í félögum, skip, flugvélar, söfn og safnhluta, sem hafa að geyma menningarverðmæti, OG AÐRAR EIGNIR SEM VERULEGT VERÐGILDI HAFA.” Þetta þýðir í raun að HVERJU SINNI sem sjávarútvegsráðherra úthlutar útgerð “varanlegri” aflahlutdeild, þarf hann að leggja þá skrá fyrir Alþingi til samþykktar, þar með talið verðmæti úthlutunarinnar. Sama á við ef aðili sem hefur nýtingarrétt á aflahlutdeild vill “selja” þann rétt til annars aðila, þarf sjávarútvegsráðherra að leggja það fyrir Alþingi til samþykktar, áður en hann staðfestir flutninginn samkvæmt fiskveiðistjórnunarlögum. Þessi niðurstaða er byggð á því sem segir orðrétt í athugasemdum framangreinds frumvarps til fjárreiðulaga, en þar segir um það sem að framan er rakið um ráðstöfun ríkiseigna: “Með þessu er reynt að tryggja að hvorki sala á veigameiri eignum ríkisins né kaup, skipti eða leiga á slíkum eignum geti átt sér stað NEMA ALÞINGI SAMÞYKKI VIÐSKIPTIN FYRIR FRAM. Liggi slík heimild ekki fyrir verður að semja um viðskiptin með fyrirvara um samþykki Alþingis. Þó slíkur fyrirvari sé ekki gerður í einstökum samningum breytir það engu um það að samningurinn er EKKI BINDANDI fyrir ríkið nema Alþingi veiti samþykki sitt fyrir honum.”
Þarna liggur þetta skýrt fyrir. Enginn sem fylgst hefur með verðlagningu aflaheimilda, veltist í vafa um að þar er verið að versla með veigamiklar eignir ríkisins. Málið er hins vegar að það er gert án allra heimilda og ríkissjóður fær ekkert af því fjármagni sem fyrir ríkiseignina er greitt. Þetta er í raun grafalvarlegt mál. Þarna eru menn að selja ímyndaðan eignarrétt yfir viðurkenndri ríkiseign; eignarrétt sem aldrei hefur verið samþykktur eða staðfestur að neinu leiti af Alþingi og framkvæmdavaldið tekur þátt í þessari fjárkúgun og í raun stýrir henni. Er hægt að brjóta meira en þetta gegn þjóð sinni?

Guðbjörn Jónsson, 10.1.2008 kl. 11:20

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þetta er stórmerkileg grein hjá þér Guðbjörn og vekur hún upp margar spurningar.  Ég veit ekki betur en að Helgi Áss Grétarsson sé einn af "leiguliðuþýjum" LÍÚ og hafa skrif hans borið keim af því og svo virðist vera að löggilt "rukkarapróf" sé engin ávísun á "réttum" niðurstöðum því eins og við vitum þá er ekki sama "réttur" og "réttlæti".

Ég vil hvetja þig til að lesa bloggsíðu Hallgríms Guðmundssonar http://hallgrimurg.blog.is/blog/hallgrimurg/ en hann er núna að fjalla um dóm sem féll hjá mannréttindadómstólnum nýlega.

Jóhann Elíasson, 10.1.2008 kl. 18:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband