Er enginn við stýrið á þjóðarskútunni sem kann að sigla?

Eins og margt annað í þjóðfélagi okkar, eru svokallaðir "stýrivextir Seðlabankans" allt annað en látið er í veðri vaka. Af umræðunni mætti ætla að Seðlabankinn beinlínis STÝRÐI vaxtastigi útlána hér á landi. Að sjálfsögðu á það ekki að vera svo, því vaxtaákvarðanir voru gefnar frjálsar fyrir aldarfjórðungi síðan.  Samkvæmt lögum um Seðlabanka, hefur hann einungis heimild til að ákvarða vexti á sínum eigin lánsviðskiptum, sem einungis mega vera við lánastofnanir sem heimild hafa, smkv. lögum, til að taka við innlánum til ávöxtunar og að stunda útlán. Auk þessa ákvarðar Seðlabankinn einnig dráttarvexti. Viðskipti Seðlabankans við lánastofnanir eru afar takmörkuð og þokkalega vel útskýrð og skýr í lögunum um Seðlabankann. Önnur lánaviðskipti má hann ekki stunda og t. d. má hann EKKI veita ríkissjóði, ríkisstofnunum eða sveitarfélögum lán. En hvert er þá meginverkefni Seðlabankans? Engri lánastofnun er eðlilegt eða skylt að haga vöxtum sínum eftir ákvörðunum Seðlabanka, geti þeir hagað starfsemi sinni á þann veg að þeir þurfi ekki lánafyrirgreiðslu frá honum.

Samkv. 3. gr. laga um Seðlabanka Íslands, er meginverkefni hans að stuðla að stöðugu verðlagi og stuðla að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Auk þess sér hann um  útgáfu myntar, viðhalda tilteknum gjaldeyrisforða og annast yfirumsjón með starfsemi lánastofnana í landinu, t. d. varðandi eiginfjárstöðu og stöðu lausafjár, þannig að þær geti greitt út þau innlán sem hjá þeim eru vistuð. Hann skal einnig stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ. m. t. greiðslukerfi í landinu og við útlönd.  Ýmis fleiri verkefni tilheyra Seðlabankanum en þetta gætu talist helstu verkefnin. Eins og sjá má af þessu, er hlutverk Seðlabankans afar þýðingarmikið fyrir heilbrigði þjóðlífsins, því heilbrigði þess fer afar mikið eftir skynsamlegri stjórnun á flæði fjármagns um lífæðar þess.

Í opnu hagkerfi má líkja fjármunum við blóðið í líkama okkar. Heilstætt heilbrigði okkar er ekki til staðar nema blóðið flæði í stöðugri hringrás um alla kima líkamans. Verði einhverstaðar hindrun á, blóðið stöðvist á einhverjum einum stað, eða gat komi á æð og blóðið flæði út, sveltur það svæði sem missir blóðflæðið. Við getum svo sem sagt: - Hvað, þetta er svo lítið að það skiptir engu máli fyrir heildina.- Það er hins vegar alls ekki rétt, því ef ekki er bætt úr, er hætt við að það komi drep í svæðið sem missti blóðflæðið og það drep geti haft áhrif á önnur svæði sem annars væru heilbrigð. Ef þið notið skynsamlega, fullkomnustu tölvu veraldar, sem hvert og eitt ykkar hefur í kollinum, eigið þið að geta myndgert þessa samlíkingu með streymi fjármagns um þjóðlífið okkar.

Síðastliðna þrjá áratugi hefur ekkert stjórnmálaafl á Alþingi sýnt í orði eða verki að það skilji nauðsyn þess að reglubundið og jafnt flæði fjármagns fari um allar æðar þjóðlífs okkar. Engin breyting er á því hjá núverandi þingmönnum, ráðherrum eða stjórnendum lánastofnana. Þess vegna stefnum við hraðfari að alvarlegri kreppu í þjóðlífi okkar.

Undanfarna tvo áratugi höfum við stigið mikinn Hruna-dans, þar sem haldið hefur verið uppi mikilli skuldasöfnun þjóðfélagsins, með erlendum lántökum lánastofnana og fyrirtækja. Þessir fjármunir hafa ekki verið notaðir til eflingar atvinnu sem gæfi af sér aukna fjármuni. Þeir hafa fyrst og fremst verið notaðir til fjárfestinga sem engri blóðrás skilaði til þjóðlífsins. Lánastofnanir hafa mokað þessu fjármagni út til bygginga á ónauðsynlegu húsnæði sem engan lífskraft gefur þjóðlífinu, auk þess sem verulegir fjármunir hafa verið settir í afar grunnhyggnar væntingar um óútskýrðar hagnaðarvonir, einhverstaðar langt inni í framtíðinni. Þessar hagnaðarvonir hafa gengið kaupum og sölum hjá fjárhættuspilurum nútímans. Flestir þessara aðila hafa opnað æðar þjóðlífsins og tappað af því umtalsverðu magni lífsvökvans, án þess að eftirlitsaðilarnir í Seðlabankanum láti á því bera að þeir skilji hættuna sem af því skapast.

Í tengslum við heilbrigði líkama okkar, gerum við okkur stöðugt meiri grein fyrir því hve forvarnir gegn hverskonar vanheilsu eru mikilvægar. Sama á raunar við um mikilvægi forvarna gegn mistökum við stjórnun á flæði fjármagns um alla þætti þjóðlífs okkar. Mikilvægt er að tala hreinskilnislega og fljótt um þau frávik sem verða í þjóðlífi okkar, og hverfa frá því sem viðgengist hefur undanfarna  áratugi, að bregðast ekki við fyrr en frávikin hafa skapað neyð sem ekki verður komist framhjá. Seðlabankinn þarf nauðsynlega að segja fljótt frá því er hann sér breytignar á flæði fjármagns um þjóðlífið, sem valdið geti samfélagslegum skaða ef leiðrétting fari ekki fram. Til þess að svo geti orðið, verða Seðlabankastjórar fyrst og fremst að vera fagmenn í heilsufræði þjóðlífs, en ekki uppgefnir stjórnmálamenn sem eytt hafa meginþorra starfsævi sinna í að búa til mein í þjóðarlíkmann.

Hvað hef ég fyrir mér í því að tala um mein í þjóðarlíkamanum?

Flestir sem lifa ekki eins og ungar í hreiðri, sem bíða með opinn gogginn eftir að vera mataðir, vita að þeir þurfa að afla tekna inn í umhverfi sitt til að geta veitt sér nauðsynlegar þarfir. Margir átta sig líka á því að verðmæti, þ. e. peningar, verða ekki til af sjálfu sér, heldur fyrir tilstuðlan af sköpun verðmæta sem aðrir, utan heimilis eða svæðisins kaupa. Þannig koma tekjur inn á heimilin með því að starfað sé utan þeirra; tekjur sveitarfélaga koma fyrir seldar vörur eða þjónustu út fyrir svæðið og tekjur þjóðfélagsins koma fyrir þær vörur eða þjónustu sem við getum selt öðrum þjóðum. Við höfum enga sjálfrennandi auðsuppsprettu þannig að við verðum að haga lífi okkar í takt við það sem við öflum.

Fyrir rúmum tveimur áratugum eða árið 1986, voru flest öll sjávarþorp á landsbyggðinni að búa til mun meiri þjóðartekjur en þeir notuðu sjálfir. Þetta var afar nauðsynlegt vegna þess að höfuðborgarsvæðið, sem þá var 55% landsmanna, var ekki að búa til nema 6,8% af tekjum þjóðfélagsins. Meginhluti atvinnulífs á höfuðborgarsvæðinu snerist um þjónustu við svæðið sjálft sem og við landsbyggðina.

Við þessar aðstæður taka stjórnvöld og Alþingi ákvörðun um að rústa atvinnuvegum landsbyggðarinnar, sem að meirihluta til voru tengdar fisk- veiðum og vinnslu. Hlutur fiskveiðanna var þá um 52,5% af verðmætum útflutts sjávarafla en er nú snöggt um meiri, enda þarf útgerðin mun meira af heildarverðmætunum til sín nú, vegna gífurlegrar skuldasöfnunar. Með aðgerðum sínum má segja að stjórnvöld og Alþingi hafi tekið blóðrásina af stórum hluta þjóðarlíkamans og flutta hana til fáeinna fyrirtækja sem engan áhuga höfðu fyrir þjóðarlíkamanum, hugsuðu einungis um sitt eigið ágæti.

Afleiðingar þess að blóðrásinni (verðmætasköpun og peningastreymi) var kippt burtu frá þessum stóru hlutum þjóðarlíkamans fóru fljótlega að koma í ljós. Lífskrafturinn, lífsgleðin og hugmyndakrafturinn fjaraði út og nú er meginhluti þjóðarlíkamans lamaður og er að visna. Samt örlar ekki á skilning á vandamálinu hjá stórnvöldum, Alþingi eða þeim sem gæta eiga jafnræðis í streymi fjármuna um þjóðarlíkamann, þ. e. Seðlabankastjórum.

Ætli það sé enginn á Alþingi sem kann eitthvað fyrir sér í stjórnun þjóðfélagsins?       

 

      
 

                       


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Mjög góð grein, sem segir okkur að það raunveruleg verðmæti þurfa að vera á bak við þjóðarframleiðsluna ekki getum við lifað á hlutabréfabraski og "Íslenska efnahagsundrið" var ekkert annað en tálsýn og ráðamenn þjóðarinnar létu glepjast af glampa glópagullsins.  Nú er komið að skuldadögunum og hverjir skyldu það svo vera sem þurfa að greiða fyrir afglöp "útrásarprinsanna" og snillinganna í bönkunum svo ekki sé nú talað um þá sem áttu að stjórna efnahagslífinu hér? Skyldi þurfa að skera í burtu á mörgum stöðum þar sem er komið drep? 

Jóhann Elíasson, 24.2.2008 kl. 23:05

2 Smámynd: Guðrún Jóhannesdóttir

Heyrðu, bjallaðu í mig áður en þú leggur land undir fót, vil helst vera heima þú færð a.m.k. ekki kaffi hér ef húsmóðirin er að heiman, frekar kókglas, og hver sættir sig við það hehehehehehe

Netfangið mitt er:    herba85@yahoo.com      og þú færð símanúmer

Guðrún Jóhannesdóttir, 25.2.2008 kl. 17:01

3 Smámynd: Óskar Arnórsson

Algjör snilld!... þessi pistill Guðbjörn! Ég á ekki aukatekið orð!!! Ég er ekki búin að vera á Íslandi nema tvisvar síðustu 20 árin, en nú er ég búin að þola tvö jól á Íslandi. Er að læra málið almennilega og skrifa gæti ég ekki nema af því að það er forrit í tölvunni sem leiðréttir. Ég tala sænsku og ensku meira dagsdaglega en íslensku og hef reynt að botna í stjórnmálum. Ég var á sjó hér á yngri árum, og ég held að allir um borð hafi vitað hver Skipstjórinn var eða "Kallin" eins og þeir voru kallaðir.

Ég fylgist mikið með fréttum í Svíþjóð, sem enn eru að súpa seyðið af því að hafa farið í EU. En þar vita allir hver stjórnar hverju! Þessi pistill minnir mig svolítið á smá atvik sem kom í íslenskum blöðum og sænskum, kannski víðar, að þota full af farþegum flaug 25 mílur framhjá  flugvellinum, hvernig svo sem þeir í flugturninum æptu og öskruðu! Þeir voru svo þreyttir báðir flugmennirnir, að þeir sváfu 25 mílum of lengi. Kannski voru þeir fullir,  annað eins hefur nú skeð. En ég fæ engan botn í þessi stjórnmál hér!

Menn rífast um jakkaföt á alþingi og hver á að sitja hvar í stjórninni, og á meðan koma 2 kallar frá HAFRÓ og tala við ráðherra sem skipar öllum skipum landsins að hætta veiðum! Ekki ein umræða á alþingi áður! Bara si svona. Ég veit að ef ég segði einhverjum frá þessu í Svíþjóð, myndu þeir ekki trúa mér. Ég yrði eins og trúður, ef ég léti þennan sannleika sem allir íslendingar vita af, vegna þess að þetta er einfaldlega of vangefið til að vera satt. - Svona casínó game hef ég aldrei séð áður!

Þetta er meira en það sýnist vera. Örfáir kallar fóru með margföld verðmæti allra íslendinga, spiluðu og töpuðu! Svona einfalt sé ég þetta. Held helst að allir veðsettir kvótapeningar séu í Monte Carlo eða einhverju álíka! Ég hef búið mörg ár í Thailandi og þar stakk forsætisráðherra, Taksin, af með þrefaldar þjóðartekjur Thailendinga á einu bretti! Það varð nærri borgarastyrjöld!

En á Íslandi skeður ekkert. Ef ég fæ leyfi þitt Guðbjörn, þá langar mig að skrifa þetta út og setja yfir á sænsku til að eiga sem minningu um þetta land, sem er ekki lengur mitt heimaland, ég á engar rætur hér lengur og er núna kannski að fatta fyrst þennan óróleika sem er endalaust í loftinu hér. Þessi pistill hefur leyst mig úr álögum. Virkilega stórsnjöll og nákvæm lýsing á því sem ég hef ekki skilið almennilega.

þó ég sé búin að vera ráðgjafi og kennari í ráðgjafaskólum, að vísu ekki í þessum málum, þá vil ég alltaf vita hver stjórnar hverju og hvar ég er. Þ.e. mér finnst það vera þess virði að vera innan um fólk sem er meðvitað.

Ég er bara strandaglópur í fæðingarlandi mínu. Jóhann bætir nú sannarlega vel í greinina með vel völdum orðum. Glópagull! Þetta er þá meiri hrollvekja en ég átti von á. Ég á ekki eftir nema 1 ár í mesta lagi, ólifað fjárhagslega séð með þessum vöxtum. En ég er gamall kall!

Hvað um allt unga fólkið sem er að kaupa fyrstu íbúðina sína! þetta eru ógöngur sem eru verri en mínar. En ég vorkenni sannarlega öllum sem ætla að byggja framtíð sína á þeim grunni, sem kom í ljós að var bara tálsýn... 

Óskar Arnórsson, 26.2.2008 kl. 04:34

4 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Sæll Óskar.  Þakka þér kærlega fyrir ummæli þín.  Það verða flestir undrandi, sem búið hafa í öðrum löndum, þegar þeir koma heim og upplifa stjórnleysið og stefnuleysið hér á landi. Stundum hefur stjórnkerfið okkar verið nefnt "bananalýðveldi", sem hugsanlega getur átt við, en ég hef oft kallað kerfið okkar leikskólalýðveldið, og þjóðfélagið okkar, "tilraunaþjóðfélagið", vegna þess að hér hafa stjórnmálaflokkar enga skýra stefnu. Einungis hentistefnu, eftir dagsforminu hverju sinni.

Já Óskar, þú mátt afrita þetta og snúa því á hvaða tungumál sem þú vilt..

Guðbjörn Jónsson, 26.2.2008 kl. 21:00

5 Smámynd: Óskar Arnórsson

Takk :-) Já, ég upplifi mig eins og frá túnglinu að koma hingað...illa farið með fallegt land..:( Ömurlegt...

Óskar Arnórsson, 26.2.2008 kl. 22:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 165593

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband