Gengisfall, verðbólga og svokölluð "verðtrygging" lánsfjár

Allnokkur titringur fer nú um þjóðfélagið vegna hreyfinga á gengi krónunnar. Lækkun á gengi hennar mun óhjákvæmilega hafa mikil áhrif í lífi flestra sem skulda. þeir sem skulda erlend lán verða að taka á sig gengisbreytinguna, en þeir sem skulda í Íslenskum krónum, lenda í öllu verri hremmingum, því þeirra bíður átök við önnur öfl en gengisþróun. Þeir þurfa að takast á við almennar kostnaðarhækkanir, sem samhliða því að auka útgjöld þeirra til framfærslu, hækka samkvæmt reikniformúlu, höfuðstól lána þeirra. Sú reikniformúla er að vísu brot á öllum grundvallarreglum um eignabreytingar og eignavirði, en hefur samt verið viðhaldið hér, vegna þess hve þessi regla er gjöful fyrir fjármagnseigendur, en jafnframt verið þungur myllusteinn um háls þeirra sem þurft hafa á lánsfé að halda.

Frá upphafi svonefndrar "verðtryggingar" hef ég gagnrýnt þann viðmiðunargrundvöll sem hún  byggir á, þó ég sé hlyntur því að gjaldmiðill okkar sé verðmætistryggður í viðskiptum okkar við aðra gjaldmiðla.

Vegna jafnræðisreglu stjórnarskrár okkar, standast lög um verðtryggingu lánsfjár ekki þann jafnræðisgrundvöll sem stjórnarskrá okkar gerir ráð fyrir. Okkur á að vera óheimilt að hafa mismunandi verðgildi gjaldmiðils okkar, milli innlendra aðila. Jafnræðisreglan gerir kröfu til þess að allir þegnar þjóðfélagsins njóti sömu mælingar á verðgildi gjaldmiðilsins. Þar sé ekki til að dreifa lögboðuðu öðru og hærra verðgildi til þeirra sem eiga umfram fjármagn og geta þar af leiðandi lánað það til fjárfestinga annarra, en því verðgildi sem gildir hjá hinum landsmönnunum sem þurfa að nota allt sitt veltufé til framfærslu sér og fjölskyldu sinni.

Til breytigna á þessu hafa stjórnmálamenn okkar ekki kjark, því eðlilega mótmæla fjármagnseigendur því að af þeim sé tekin besta tekjulindin, sem svokölluð "verðtrygging" er.

Fyrir nokkru skrifaði ég grein sem ekki hefur fengist birt í blöðum okkar. Ég læt hana fylgja hér með. Hún er eftirfarandi:

Verðtrygging lánsfjár.

 Sá sérkennilegi hugsunarháttur settist að hér í lok áttunda áratugs síðust aldar, að hægt væri að reka þjóðfélag án þess að gæta samræmis tekju- og útgjaldaliða þess; einungis með því að vísitölubinda alla möguleika til eyslu fjármuna. Framfærslu-, bygginga- og launa- kostnaður, sem og lánsfé, var bundið sitt hvorri vísitölunni. Hringferli varð í virkni þessara vísitalna, þannig að ef ein þeirra hækkaði olli það samstundis hækkun á hinum vísitölunum.

Þar sem stjórnendur landsins skildu ekki (og skilja ekki enn) hvað þeir gerðu, fór af stað hraðbraut óðaverðbólgu, sem enginn réði við. Laun og annar kostnaður framleiðslugreina hækkaði um fleiri tugi prósentna á hverju ári, en ekkert var sinnt um að tryggja rekstrarumhverfi þeirra, þó þau væru að sinna tekjuöflun þjóðarinnar.

Þegar allt var komið í þrot, var gripið til þess kjánalega ráðs að taka launavísitöluna úr sambandi við hinar vísitölurnar, þannig að laun hættu að hækka til samræmis við annan kostnað. Öll samtvinningarvitleysan sem sett hafði verið af stað með framangreindum 4 vísitölum, sem hafði sýnt sig að vera þvílíkt rugl að ógerningur var að reka þjóðfélag með slíku fyrirkomulagi, var samt látin halda sér að öðru leiti en því að launabætur voru skornar burt. Heimilin og fyrirtækin voru skilin eftir með vitleysuna. Heimilin urðu umvörpum gjaldþrota, með tilheyrandi streitu, sársauka og veikindaferli.

Framleiðslufyrirtækin fóru einnig umvörpum á hausinn og fáum árum síðar fengu stjórnendur þeirra þá einkunn hjá sterkum stjórnmálaöflum landsins, að þeir hafi bara verið óhæfir rekstraraðilar. Slík og önnur álíka ummæli stjórnmálamanna um þær hörmungar sem þeir sköpuðu sjálfir, sýnir einungis hve langur vegur er frá því að þeir hafi yfirsýn og þroska til að annast farsæla stjórnun þjóðfélags. 

Hin svokallaða "verðtrygging" lánsfjárs okkar stýrist nú af hreyfingum neysluvísitölu, sem mælir verðlag vörum og þjónustu. Áður var hún tengd svokallaðri lánskjaravísitölu sem hækkaði annars vegar frá hækkun framfærsluvísitölu (fyrirrennara neysluvísitölunnar) en hins vegar frá byggingavísitölu. 

Í öllu reikningshaldi, eigna- og verðmætamati, er stuðst við alþjóðlega fjórskiptingu sem greinist í REKSTRARREIKNING, með færsluliðunum "tekjur og gjöld"; og hins vegar EFNAHAGSREIKNING, sem skiptist í "eignir og skuldir". Grundvallarregla þessa alþjóðlega skipulags er sú að það sem skráð er í efnahagsreikning fer aldrei til baka í rekstrarreikning. Eignir geta minnkað og skuldir aukist, eða eignir aukist og skuldir minnkað. Hvorki eign, né skuld, geta orðið tekjur eða gjöld, sem skráð eru í rekstrarreikning.

Tenging rekstrarreiknings við efnahagsreikning er afar takmörkuð og einskorðast eingöngu við eina færslu í liðinn "Eigið fé", í efnahagsreikningi. Þannig er ljóst að aukinn kostnaður í rekstrarreikningi, getur ALDREI haft bein áhrif á verðmæti eigna í efnahagsreikning. Það eru tveir óskyldir þættir sem ekki vegast á í beinu reikningshaldi.

Enginn deilir um að peningar eru eign; sama hvort þeir eru geymdir á innlánsreikningi lánastofnunar, eða lánaðir einhverjum aðila til fjárfestinga. Þeir eru sama eignin í sama samtöluflokki efnahagsreiknings. 

Neysluvísitalan, mælir eingöngu verðbreytingar kostnaðarliða. Hún getur því einungis mælt breytingar á jafnvægi rekstrarliða, þ.e. jafnvægi milli tekna og gjalda. Eins og áður sagði er það alþjóðlegur staðall reikningshalds að aukning eða minnkun kostnaðar hefur engin bein áhrif á verðmæti eigna. 

Eins og hér hefur verið rakið, er það alvarlegt brot á grundvallarreglu reikningshalds og verðmætamats, að eign sé látin taka beinum breytingum til aukningar eða minnkunar, út frá mælingu kostnaðarliða rekstrarþátta, eins og höfuðstóll lánsfjár er látinn gera í svokallaðri "verðtryggingu" okkar.

Með margvíslegum hætti hefur verið reynt að vekja athygli alþingismanna og stjórnvalda á þeirri alvarlegu eignaupptöku, sem felst í því fyrirkomulagi sem viðgengist hefur hér í svokallaðri "verðtryggingu lánsfjár" í rúma tvo áratugi. Engum reikningsfærum manni, sem hefur dómgreind til að skilja alþjóðlega grundvallarreglu reikningshalds, á að vera ofvaxið að skilja þá órökréttu eignaupptöku sem átt hefur sér stað hér á landi undanfarna áratugi. Er þar átt við eignaupptöku hjá greiðendum lána, sem með órökréttum hætti hefur verið færð yfir til fjármagnseigenda, þvert gegn alþjóðlegri grundvallarreglu eignavirðis. Að slíkt sé gert á grundvelli laga, frá Alþingi, gerir bótaskyldu Alþingis og stjórnvalda augljósa, með hliðsjón af eignarréttarákvæði stjórnarskrár okkar. 

En sé þetta rétt, hvers vegna er þá ekki farið með þetta málefni fyrir dómstóla?

Ég hef velt þessu fyrir mér. Ég ætla endurskoðendur og aðra reikningsfæra menn ekki svo lítt færa í fræðunum að þeir sjái ekki þá vitleysu sem í hinni meintu "verðtryggingu" okkar felst. Það er hins vegar vel þekkt að sjálfstæði og réttlætisvitund dómstóla, gagnvart stjórnvöldum, hefur verið afar umdeild. Það væri verðugt rannsóknarefni hver ástæða er fyrir því að þjóðin lætur yfir sig ganga jafn mikið af mannréttindabrotum og öðrum brotum á stjórnarskrá, vegna óvandaðra vinnubragða á Alþingi.

  Þannig hljóðaði nú þessi grein sem ég skrifaði. Innstreymi lánsfjár til landsins undanfarin ár hefur haldið frá okkur raunverulegum áhrifum þeirrar vitleysu sem svokölluð "verðtrygging" er. Nú þrengir hins vegar að, þar sem erlent lánsfé til beinnar neyslu og uppbyggingar ónauðsynlegrar þjónustu, mun líklega verða af skornum skammti næstu árin. Þá kemur að því að við þurfum að fara að borga lánsféð til baka, eingöngu með tekjum þjóðfélagsins. Þá mun koma í ljós hve tekjuöflun þjóðfélagsins hefur verið illa sinnt.

Að sönnum sjómannasið, skulum við vona það besta, en búa okkur undir það versta, ákveðin í að sigrast á þeim erfiðleikum sem við höfum búið til sjálf.                     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband