Kunna stjórnmálamenn ekki að stjórna þjóðfélaginu??????

Ég fæ ekki betur séð en stjórnmálamenn okkar, aðallega er þar átt við stjórnarflokkana, hafi nánast enga þekkingu á því hvað þarf til að sjálfstætt þjóðfélag geti blómstrað hér á landi. Hér er ég ekki að tala um vel sjáanlegt skilningsleysi þeirra á núverandi ástandi; heldur einnig horft aðeins aftur í tímann, þó ekki of langt.

Flestum, sem hafa til að bera eðlilega visku, ætti að vera ljóst að afla þurfi fjármuna fyrir því sem kaupa á.  Einnig því að hafa þau varúðarmörk að skuldsetja sig ekki nema hafa þokkalega örugga vissu fyrir að nægar tekjur falli til á greiðslutíma lánsins, svo það verði endurgreitt á réttum tíma.

Í ljósi þessarar einföldu staðreyndar, er litið á aðgerðir og plön stjórnarflokkannna vegna svonefndra "mótvægisaðgerða" vegna niðurskurðar á þorskkvóta á síðasta ári. Mikilvægustu áhrif þess niðurskurðar var minnkun tekna þjóðarinnar. Önnur árhif urðu samdráttur í atvinnu þeirra er störfuðu við sjávarútveginn, sem er undirstaða atvinnulífs víða á landsbyggðinni. Þriðju áhrifin voru hugsanlegir rekstrarerfiðleikar útgerðarfyrirtækja.

Þeir sem að framan eru taldir, sáu fram á samdrátt í tekjum og sendu út ákall til ríkisstjórnar og Alþingis, að grípa til aðgerða til að bæta afkomu þeirra sem fyrir skerðinguni urðu.

Seint og um síðir komu tilkynningar um hjálparaðgerðir (mótvægisaðgerðir) stjórnvalda og Alþingis, vegna þessara skerðinga á tekjum þjóðfélagsins og gjaldeyrisskapandi atvinnustarfsemi sjávarútvegsins.

Aðgerðirnar fólust allar í aukinni lántöku til greiðslu ýmisssa verklegra þjónustuframkvæmda á kjörtímabilinu. Ekki til að auka atvinnulíf á þeim stöðum þar sem samdrátturinn varð; heldur til að halda einhverjum hópi stórvirkra vinnuvéla við verkefni og skaffa aðilum utan þeirra svæða sem fyrir skerðingunum urðu, meiri tekjur en áformað hafði verið.

Hvergi bólaði á raunverulegri þekkingu á vandamálinu, eða visku til að bæta aðstæður þeirra sem fyrir áfallinu urðu. Óvitaskapurinn var algjör.

Fram eftir öllu síðasta ári, töluðu flestir stjórnmálamenn okkar (ekki einungis stjórnarflokkarnir) um að við værum svo rík að við gætu eiginlega hvað sem okkur dytti í hug. Kröfur um aukin útgjöld heyrðust úr hverju horni og fáir þorðu að mótmæla því peningaflóði sem óvitar lánastofnana okkar létu eftirlitslítið streyma yfir þjóðina okkar. Meira að segja sprenglærðir hagfræðingar fóru á þvílíkum kostum við að byggja skýjaborgir að venjulegt fólk stóð með hangandi kjálka af undrun og fögnuði.

Nú, örfáum mánuðum síðar boða þessir sömu hagspekingar mikla vá vera að skella á okkur; alveg óviðbúið og án nokkurs fyrirvara. Enginn þessara hagspekinga hefur útskýrt fyrir þjóðinni hvers vegna þeir sáu þetta ekki, fáum mánuðum fyrr, þegar þeir voru að dásama hvað við værum rík þjóð.

Hinn kaldi raunveruleiki er sá, að fyrir meira en áratug fóru alþjóðlegar eftirlitsstofnanir eins og Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, að vara Íslensk stjórnvöld við að skuldasöfnun okkar væri komin á hættulegt stig.  Við sinntum þessu ekkert en margfölduðum einungis skuldirnar. Við sinntum ekkert aðvörunum um að tekjugrunnur þjóðarinnar bæri ekki svona mikla skuldsetningu. Stjórnmálamenn okkar horfðu einungis á skuldirnar hlaðast upp, ímyndað eignasafn stækka og sungu í vímurugli sönginn um að við værum svo rík.

Það kemur því ekkert á óvart þó þessir blessaðir óvitar sitji nú flemtri slegnir og ruglaðir, þegar raunveruleikinn tekur allt í einu upp á því að sprengja fyrir þeim ímyndarheiminn og gerð er krafa til þeirra að fara nú með raunverulegum aðgerðum að stjórna því þjóðfélagi sem tóku að sér að stjórna. 

Líkt og með aðra grúttimbraða vímusjúklinga, hrærðu þeir í þekkingu sinni og visku til að finna leið sem stoppaði áreitið sem að þeim beindist.  Þeir ákváðu að bæta enn við skuldirnar, hrærðu nýja eyðslusúpu og skömmtuðu hana á diska þeirra sem mest grenjuðu.  Vandinn er einungis sá, að súpan eykur frekar vandann en að bæta ástanið fyrir þjóðarheildina.

En það skilja blessaðir óvitarnir okkar ekki.                  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Æ ég veit það ekki Guðbjörn, hvort það er þekkingarleysi sem hrjáir vorar framvarðarsveitir eða hvort um er að ræða pólitík sem er ofar okkar skilningi, sauðsvörtum almúganum

Aðalheiður Ámundadóttir, 21.6.2008 kl. 17:28

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Pólitík afsakar EKKI þekkingarskort hjá framvarðarsveitinni "okkar".  Fyrst og fremst verða þeir sem hér stjórna að gera sér grein fyrir því hverjar tekjur þjóðarbúsins eru, hvernig þeirra er aflað og hvaðan þær koma, auðvelt ætti að vera fyrir þá að skoða kostnaðarhliðina en vandamálið er að þeir hafa ekki gert neitt af þessu og auka bara SKULDIRokkar án þess að vita nokkuð um tekjurnar.  Það á ekki að vera mikið mál að reka þetta þjófélag okkar eins og hjá fólki, ráðherrarnir verða að gera sér grein fyrir því að þeir eru venjulegt fólk ég býst við því að þeir sk... í kló.... eins og við hin.  Ráðherrum núverandi ríkisstjórnar hefur verið tíðrætt um það að ekki viljum við hverfa aftur til haftastefnunnar en það er alveg ljóst að eitthvert aðhald þarf að vera ekki er hægt að hafa "frelsið" algjört.

Jóhann Elíasson, 21.6.2008 kl. 22:00

3 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Sæl Aðalheiður! 

Í raun, deili ég nú þessari hugsun með þér, því óneitanlega vekur athygli hve þeir eru fundvísir á hagsmuni fyrir sjálfan sig, flokk sinn og vildarvini.

Markvisst og skipulega hefur verið unnið að því undanfarna áratugi, að gera almúgafólk óöruggt í umfjöllun um afkomumál þjóðfélagsins. Tölvuvæðingin var notuð í þessu sambandi og þegar verið var að setja fram vinnuferli hugbúnaða til upplýsinga, var algjört tabú að upplistanir skýrslna og lista væru vel sett fram og læsileg venjulegu fólki. Ég vann þá í þessu umhverfi og spurði oft um ástæður þessa. Svarið var frasi sem gekk í opinbera geiranum:

Hvers vegna að hafa það einfallt ef hægt að að hafa það flókið?

SKÝRING:  Ef niðurstaðan virðist flókin, spyr fólk ekki eftir henni, af ótta við að upplýsa um fákunnáttu sína.   Einfallt en snjallt.

Við hefðum mikla þörf fyrir góðan skammt af visku og kærleika í landsstjórnina okkar.

Takk fyrir innlitið. 

Guðbjörn Jónsson, 21.6.2008 kl. 23:42

4 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Sæll Jóhann!

Þakka þér fyrir þetta innskot.  Ef vilji væri fyrir hendi, gætu niðurstöður allra hreyfanleikaþátta ríkisfjármála legið fyrir að morgni hvers virks dags, í vel læsilegum samanburðarlistum, líkt og heildaruppgjör bankanna er.  Menn hafa bara ekki viljað vita þessar niðurstöður, því það skapar ákveðna pressu að VITA hvernig staðan er.

Ráðdeild og fyrirhyggju við ráðstöfun frekar lítilla þjóðartekna, til innflutnings á öðru en matvöru og annarri nauðsynjavöru, kölluðu Sjálfstæðismenn HAFTASTEFNU. 

Síðan tóku þeir við landsstjórninni og frá þeim tíma hefur yfirleitt verið flutt inn fyrir hærri fjárhæðir en tekjur okkar duga fyrir. Óstjórnin hefur svo verið leyst með skuldasöfnun erlendis, gengisfellingum og beinni niðurfærslu á verðgildi krónunnar.

Einfalda staðreyndin er sú, að þingmenn  Sjálfstæðisflokksins hafa FÆSTIR skilið hvað þarf til að reka sjálfstætt þjóðfélag.   Þeir hafa því verið eins og blóðsugur í þjóðlífinu.

Þetta er sorglegt, en því miður satt. 

Guðbjörn Jónsson, 22.6.2008 kl. 00:06

5 identicon

haha snilldarpistill....

gfs (IP-tala skráð) 22.6.2008 kl. 02:36

6 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Æ ég er nú alltaf að reyna að vera kaldhæðin. En hitt er aftur annað mál að ef maður reynir að rökræða við þetta fólk, þá fær maður oft slíkt yfirlæti í andlitið að það er e.t.v. eðlilegt að maður telji sig fábjána sem ekkert veit eða skilur.

Ég lenti til dæmis í slíkri orðasennu eftir annars ágætan fund á Grandhótel hér í vor. Þar sem frammámaður í pólitík bókstaflega gagnrýndi mig, í vitna viðurvist, fyrir að ræða mannréttindi (á fundi um mannréttindi). Ég hafði með öðrum orðum ekkert tjáningarfrelsi til slíks! 

Enn klóra ég mér í höfðinu yfir því að viðkomandi skuli kallast hluti af stjórnvöldum í lýðræðissamfélagi. Þarf þetta fólk ekki að hafa eitthvert fylgi á bak við sig? Hver kýs svona fólk? Já kannski snýst þetta um fáfræði eftir allt saman

Aðalheiður Ámundadóttir, 22.6.2008 kl. 02:53

7 Smámynd: Jóhann Elíasson

Fyrirgefðu Aðalheiður, ég ætlaði ekki að gagnrýna það sem þú skrifaðir heldur hvernig "ráðamenn" okkar koma fram, en ég hef ekki komið mínu máli almennilega á framfæri.

Jóhann Elíasson, 22.6.2008 kl. 09:06

8 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Aðalheiður! Það er sko í góðu lagi að hafa dálítinn skammt af kaldhæðni með í gagnrýni á pólitíkina okkar, því fæstir stjórnmálamenn virðast kunna heilbrigðar og efninslegar rökræður. Ég beiti sjálfur iðulega fyrir mig kaldhæðni þegar mér finnst forystusveitin okkar gleyma skynseminni og viskunni heima, og opinbera það sem mér finnst vera aulaháttur.

Ég var á fundinum á Grand- í vor og fylltist aðdáun á skýrum og skilmerkilegum málflutning þínum og leikandi liprum rökstuðningi. Eitthvað sem óvenjulegt er að verða vitni að á opinberum fundi. Ég var einnig var við hvernig Samfylkingin krumpaðist undan röksemdafærslum ykkar Lúðvíks, og las ummælin sem þú talar um, að þú hafi ekki talað eins og vænst hefði verið, þar sem þú værir að tala í BOÐI SAMFYLKINGARINNAR. Ég get sagt þér að ég hló hátt og hef oft vitnað í þessi heimskulegu ummæli í samtölum mínum við "hirðina" kringum valdablokk Samfylkingarinanr. Sumir þeirra kunna greinilega að skammast sín, þvi þeir reyna ekki að réttlæta svona heimskupör.

Ég deili með þér áhyggjum af stöðu mannréttinda hér á landi. Einkanlega tjáningafrelsinu. Svo virðist sem fólk tapi gjörsamlega rökfærnihæfileikum sínum við að sækjast opinberlega eftir frama í pólitík eða opinberu starfi. Ég hef velt fyrir mér hvort fyrirskipuð "flokkshollusta" sé svo mikil að mönnum sé settar afar strangar skorður um eigin tjáningu. Ég þekki fólk sem virkar eins og heilalamað eftir að það fór að vinna í kringum pólitík.

Ég hef líka áhyggjur af almennum borgurum. Það er svo rosalega langt síðan haldnir hafa verið opinberir umræðufundir hér á landi, að fólk er að tapa hæfileikanum til rökrænna tjáskipta á slíkum fundum. Flestir hafa einnig þanið lífsmynstur sitt það mikið út að hvorki er orka né tími til að hugsa um aðra þætti en þá er varða afkomu fjölskyldunnar. Allt annað virkar því eins og áreiti og veldur aukinni streitu. Svo bætist við að þreyttur maður, undir langvarandi streituálagi, hugsar hvorki skýrt né hefur nothæfa heildaryfirsýn yfir þau málefni sem til umfjöllunar eru.

Það hefur verið stórmerkilegt að fylgjast með þessari þróun undanfarna áratugi og sjá, eins greinilega og ég hef séð, hvernig hraði og hugsunarleysi hefur náð að fjarlægja fyrirhyggju og öryggismörk.

Það er tvímælalaust langhlaup að færa þjóðinni aftur virka meðvitund um mannlega reisn og mikilvægustu mannréttindi. Ég hef staðið föstum fótum í þessu hnignunarfljóti og neitað að fylgja straumnum. Fyrir það hef ég fengið margar ákúrur. Það er t. d. nokkur hundruð lýsingar til í héraðsdómir Reykjavíkur á því hvað ég sé vitlaus, en samt dæmdi dómurinn ævinlega eftir þeim röksemdum sem ég lagði fram.

Það verður trúlega seint til vinsælda fallið að verja- og berjast fyrir mannréttindum; en hver smámoli sem skilar árangri hlýjar manni óskaplega notalega um hjartaræturnar.

Það heldur mér gangandi.

Guðbjörn Jónsson, 22.6.2008 kl. 11:06

9 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Guðbjörn. Sá dónaskapur sem mér var sýndur eftir fundinn á Grandhótel, var gott efni í mergjaða blaðagrein. Ég var beðin að koma suður yfir heiðar til að flytja framsögu á þessum fundi og var svo skömmuð eins og krakki á eftir. Ástæður þess að ég kaus að gera ekki mál úr þessum dónaskap eru tvær.

1. Slík umræða hefði skyggt á það mál sem fundurinn fjallaði um og mér er svo hugleikið. Nóg er um skítkast sem spillir fyrir málefnalegum umræðum á þeim vettvangi og ekki er á það bætandi.

2. Ég var ýtrekað beðin afsökunnar af þeimframmámönnum flokksins, sem enn hafa  snefil af sómatilfinningu.

Aðalheiður Ámundadóttir, 22.6.2008 kl. 13:10

10 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

P.s. Ég treysti því einnig að þeir sem vitni urðu að orðasennunni, lærðu eitthvað af henni um eðli pólitíkurinnar, og létu jafnvel fréttast milli bæja

Aðalheiður Ámundadóttir, 22.6.2008 kl. 13:11

11 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Aðalheiður!  Ég held að þú hafir metið stöðuna rétt. Það hefur svo oft sýnt sig að það skilar ekki tilætluðum árangri að reyna að blása lífi í svona vanhugsaðar ádeilur grunt hugsandi manna. Hins vegar mundi ég segja að þér hafi verið gefið þarna gullvægt dæmi sem þú getur vafalaust nýtt þér síðar, þannig að það skilji eftir sig spor og lyfti vægi hugsunar um mannréttindi og virðingu fyrir einstaklingnum.

Ég hef þá trú að þessi vanhugsaða ádeila á þig eigi eftir að verða mörgum lærdómsrík, því til þessa atviks mun verða vitnað, varðandi hina óduldu kúgun sem pólitísk öfl hafa tíðkað hér undanfarin ár, í því skyni að HAFA STJÓRN Á UMRÆÐUNNI.  

Láttu þetta atvik ekki trufla þig, því það er langt síðan ég hef heyrt jafn vel rökstuddan málflutning eins og þú fluttir þarna á Grandhótel. Og greinin þín í Lögfræðingnum ber sömu hæfileikum glöggt merki. Ég vona að við fáum sem lengst að njóta eldsins þíns, glöggskyggni og rökvísi, til verndar mannréttindum hér á landi.

Baráttan á þessum vettvangi er oft hörð og stundum af takmarkaðri kurteisi, af hendi yfirgangsaflanna. En einhvern veginn hef ég þá trú að þér takist að láta eins og þú heyrir ekki hinar niðurbrjótandi athugasemdir, sem ævinlega eru notaðar til að ræna baráttufólk þreki.

Takist manni að láta sem maður heyrir ekki svona athugsemdir, detta þær dauðar niður, því líf þeirra felst fyrst og fremst í þeim viðbrögðum sem maður sýnir. Taki maður ekki við þeim, loða þær við þann sem setti þær af stað og verða honum fótakefli í framtíðinni.

Þetta var smá fyrirlestur um andlega glímu, byggðri á sálfræðilegri hernaðaráætlun.

Guðbjörn Jónsson, 22.6.2008 kl. 20:03

12 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Takk fyrir trúnna á mig

Aðalheiður Ámundadóttir, 22.6.2008 kl. 21:09

13 Smámynd: Óskar Arnórsson

NÝ KYNSLÓÐ viðskiptamanna; siðblindir (Psychopatar: kallað í réttarkerfinu geðvilla) spretta upp í viðskiptalífinu víða um heim ef marka má grein í viðskiptablaðinu "Fast Company". Greinin heitir "Is your Boss a Psychopath?"

Þar er vitnað í 71 árs gamlan prófessor við UBC háskólann í Vancouver Kanada, Robert Hare.
Hann er þekktur glæpasálfræðingur og hefur stundað rannsóknir á nýjum tegundum glæpa, viðskiptaglæpum.

Hare hefur unnið náið með FBI og lýsir hann forstjórum á borð við Enron og World Com, hinum dæmdu, Bernard Ebbers og Andrew Fastow, sem siðblindum, kaldrifjuðum einstaklingum.

"Þeim er sama um tilfinningar annarra.

Í þessum mönnum finnst hvorki sektarkennd né eftirsjá. Þeir sjá ekki sársaukann sem að þeir hafa valdið öðru fólki og sjá ekki að þrátt fyrir að einstaklingar missi aleiguna hafi það haft eitthvað með siðleysi þeirra sjálfra að gera."

Siðblindir raða svo öðrum "veikum" einstaklingum svo sem starfsmönnum, eiginkonum og kærustum í kringum sig. Alltaf er það fólk með lágt sjálfsmat.

"Fólk á að haga sér vel og af virðingu gagnvart þeim. Leikarahæfileikar þeirra eru einstakir og þeir hrífa okkur með sér til þess eins að hafa okkur að leiksoppum," segir Hare, "þeir eru nefnilega svo "likable", Psycopatarnir!

Þeir setja upp grímur og laða að sér fólk eins og í dáleiðslu. Þeir eru hjartalausir tækifærissinnar sem eins og listamenn laða fram myndir sem eiga sér enga stoð í raunveruleika heilbrigðs fólks.

Þeim leiðast rútínur, þurfa stanslausa örvun og að eignast fleiri fyrirtæki, tæki og tól sem koma þeim hraðar en öllum öðrum á toppinn.

Tilgangurinn er annar en okkur virðist í fyrstu nefnilega sá að ganga frá öðrum í leiknum, að sigra "leikinn"!
Siðleysinginn er nefnilega ekki í viðskiptum, hann er í leik!!
Mesta nautnin er að ná valdi á öðru fólki oft til þess eins að svívirða það síðar.


Það er nautn að niðurlægja annað fólk, jafnvel þá sem að þeir þykjast elska. Þeir elska ekki, en þrífast á illskunni og hatrinu í sjálfum sér.
Hare skilgreinir nýja kynslóð manna í viðskiptaumhverfi 21. aldarinnar.

"Þeir eru snöggir, njóta almenningshylli en búa yfir eyðandi, rótlausum, samviskulausum, siðlausum eiginleikum sem koma þeim áfram í viðskiptum."

Lygar, bakstungur, svik, undirförli, kvenfyrirlitning, sjálfhverfa og illska hafa engar merkingar í þeirra hugarheimi aðrar en þær að komast áfram á toppinn og eignast meira og ná lengra í viðskiptum.

Þeir kaupa starfsmenn og konur og eru samkvæmt uppskriftinni, "Fast Company" mjög áhrifamiklir í því... þeir ná gríðarlegum árangri í að sannfæra hinn auðmjúka lýð um að þeir séu snillingar, að þeim sé treystandi og að þeir vinni af góðmennsku, en ekki græðgi."


Undirlægjurnar
Lögfræðingar, endurskoðendur, forstjórar sem og stjórnarformenn, stjórnir og fjölmiðlamenn leggjast undir siðblindingjana eins og auðmjúkir þjónar.

Það reynir verulega á samfélags- og siðferðisþroska þeirra sem ákveða að vinna fyrir, búa með eða giftast slíkum mönnum.

Martha Stout sálfræðingur hjá Harvard Medical School sem rannsakað hefur útmörk mannlegrar hegðunar segir að það sé frísku fólki ekki tamt að trúa að til séu menn svona langt frá því sem heilbrigður maður kallar að vera "góð manneskja".

Að einhver geti villt svona á sér heimildir, verið svona "illræmdur" en samt verið opinberlega virtur er óhugsandi frísku fólki.

Spennan og leikurinn hjá siðleysingjanum snýst um ánægjuna yfir því að særa og skemma fyrir öðrum.

Hann notar fyrirtækið sem tæki til þess að mata sjúkdóminn en hefur sjaldnast hagsmuni fyrirtækisins sjálfs í huga.

 Það skiptir ekkert annað máli en "illmennið" í honum sjálfum sem öskrar á spennu og viðskiptasigra.

"Láttu ekki hól og smjaður þeirra virka djúpt á þig!

Þeir eru að leika á þig. Þegar þeir setja á þig titil (svo sem framkvæmdastjóri, vaktstjóri, grænmetisyfirmaður, sölustjóri, fjármálastjóri, símastjóri eða bílstjóri) láttu það ekki á þig fá það er engin innistæða önnur en sú að þú þrælir þér út fyrir þá áfram.

Ef vald þeirra gengur út yfir það sem þér finnst heilbrigt, forðaðu þér. Taktu aldrei þátt í að mata sjálfhverfu og illsku siðleysingjans. Ef þú óttast manninn, ekki rugla því saman við virðingu!

Komdu í veg fyrir persónulegt heilsufarstjón og forðaðu þér en mundu að hann (psychopatinn) mun aldrei þola að sjá að þér líði vel hafir þú sýnt þann styrk að yfirgefa hann eða fyrirtækið. Hann mun gera allt til þess að rústa mannorði þínu," segir Martha.

Svona menn eru víða í viðskiptalífinu. Þú vinnur jafnvel fyrir þá eða ert svo óheppin að vera gift einum. Börn alkóhólista þurfa að vera sérstaklega á varðbergi því sjálfsmat þeirra er oft á tíðum brenglað.

Dæmt fólk eða ólánsfólk leitar að upphefð hjá svona psychopötum vegna eigin vanmáttar.

Psychopatar virka svo góðir og klárir og með því að drepa samkeppnina og stela og svíkja verða þeir oft efnamiklir. Þeir eru öflugstu rándýr viðskiptanna.

Þessir menn krydda  dauða tíma gjarna með kókaíni..

Þeir óttast ekkert, og drepa hiklaust þann sem ógnar þeim á enhvern hátt.

Sem dæmi um kalrifjaðan siðblindan mann fyrri tíma má nefna Rockefeller sem Hare telur einn spilltasta mógúl spilltustu tíma sögunnar. Rockefeller opinberaði sjúklegt ástand sitt með orðunum: "God gave me my money."!

Sá þetta á blogginu hans Kristins! Fannst viðeigandi að setja þessa lýsingu við þennan frábæra pistil hjá Guðbirni. Takk fyrir hann Guðbjörn!

Og til þín Aðalheiður! Þú erð alveg æði!

Ég var með fyrirlestur um málefni fanga og glæpi almennt á Grand Hótel líka fyrir framan alla toppsnúðanna í lögreglu, fangvarðafélagi, geðlæknasambandinu og allskonar sérfræðingum í glæpum á Íslandi... ég var hundskammaður á fundinum af einu topphænsninu...

Ég gerði akkúrat öfugt við þig. Ég svaraði andmælanda svo harkalega að fólk þorði ekki á klósettið það sem eftir var af fyrirlestrinum.

ég var ekki beðin um að halda fyrirlestur aftur þarna.

Svo kann ég annað trikk! Næst ef einhver er með skít í þig á fyrirlestri, biddu viðkomandi að koma upp í pontu, gefðu honum eða henni orðið, og sestu sjálf...það virkar þrælfínt! 

Óskar Arnórsson, 23.6.2008 kl. 04:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband