Er ekki kominn tími til að leiðrétta svokallaða verðtryggingu ??????

Taka má undir það sem þeir segja báðir, bæði Ingólfur hjá  Spara.is og Jóhannes hjá Neytendasamtökunum. Tillögur ríkisstjórnarinnar eru ekki í neinu samræmi við viðfangsefnið og bendir sterklega til að þar á bæ geri menn sér ekki grein fyrir þeirri alvarlegu stöðu sem blasir við meginþorra heimila í landinu.

Líkt og í fyrri holskeflunni á árunum 1983 - 1990, er megingrunnur vandans ábyrgðarlaus útlán bankanna. Þeir bregðast skyldu sinni með því að lána út fjármuni sem þeir eiga ekki sjálfir, án þess að fullvissa sig um getu lántakans til endurgreiðslu þeirra lána sem hann tekur. Það er grunnurinn undir þeim vandamálum sem til úrlausnar eru.

Fyrst bankarnir gættu ekki þessarar skyldu sinnar, er engin leið út úr þeim vanda sem við okkur blasir, önnur en sú að endurskipuleggja skuldastöðu fólks í samræmi við greiðslugetu. Ég vona að stjórnvöld og lánastofnanir fari ekki aftur í þann eltingaleik sem stundaður var á árunum '83 - '90, að setja allar kröfur í lögfræðiinnheimtu og loka þar með endanlega fyrir möguleika fólks til að endurgreiða lánveitandanum nema afar lítið brot af því sem hann lánaði út.

Fólk þarf ekki að vera með mörg lán í lögfræðiinnheimtu til að nánast öll greiðslugetan fari í greiðslur til lögfræðinganna, en ekkert verði eftir til niðurgreiðlsu lánanna. Slíka endurtekningu verður að forðast.

Á þessu hausti eru 25 ár síðan ég lagði fyrst fram skýrar staðreyndir fyrir því að útreiknikerfi vísitölubundinna lána hjá lánastofnunum er byggt á röngum forsendum og reiknar þar að auki ekki rétt. Ég eyddi mikilli orku og tíma í að reyna að vekja athygli manna á þessu, en uppskar einungis óvild og persónulegar árásir.  Vitleysurnar eru enn til staðar og hafa arðrænt lántaka þessa lands um gífurlegar fjárhæðir. Spurning er hvort núverandi ógnun sem af þessum vitleysum stafar, séu nógu stórar til að nú verði gripið til aðgerða og leiðréttingar á hugbúnaðinum sem reikar út verðtrygginguna.

Ég hef áður vakið athygli á að viðmiðunargrunnur verðtryggingar er einnig rangur. Verðtrygging er einskonar eignaaukning, því hún færir fjármagnseigendum aukið magn fjármuna til jöfnunar á móti auknum tilkostnaði samkvæmt mælingu neysluvísitölu. Það er andstætt öllum reglum um grundvöll eignaaukningar, að aukinn og vaxandi kostnaður verði sjálfkrafa að aukinni og vaxandi eign. Slík gengur ekki upp í formi verðmætamyndunar, því eign verður ekki sjálfkrafa til úr hærri útgjöldum.

Í raun er engin leið að útskýra svona vitleysu í stuttri bloggfærslu. Hins vegar getur fólk velt fyrir sér hvort stjórnvöldum sé stætt á því að láta ýmsa ótilgreinda aðila viðskiptalífsins taka ákvarðanir um gengi  gjaldmiðils okkar, í viðskiptum manna á milli í þjóðfélagi okkar.  Hvernig samræmist það jafnræðisreglu stjórnarskrár?                 


mbl.is Leysir ekki greiðsluvanda heimila
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Erum við tilbúin í hraðarýrnun lífeyrissjóðanna okkar fyrir vikið. Að þeir brenni upp í væntanlegri óðaverðbólgu. Bara ábending.

Jón Steinar Ragnarsson, 18.11.2008 kl. 17:58

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Annars er ég í grundvallaratriðum sammála þér, svo því sé haldið til haga. Þessi breyting verður að gerast í hagstæðu gengi og lágri verðbólgu og þá í litlum þrepum. Verðmæti húseignar eykst t.d. ekki núna en láning gera það. Það er náttúrlega absúrd staða.

Jón Steinar Ragnarsson, 18.11.2008 kl. 18:12

3 identicon

Það sem virðist anzi oft gleymast þegar óskapazt er yfir verðtryggingunni er að hennar aðalhlutverk er að hafa hemjandi áhrif á vexti. Vaxtakrafan yrði með öllu óviðráðanleg ef ekki væri verðtrygging. Áður en hún kom til var framboð á lánsfé mjög lítið og nær eingöngu til gæðinga þeirra sem ákváðu skömmtunina. Þessir tilteknu fengu svo að greiða skuldir sínar með broti þess verðmætis sem þeir fengu að láni. Þetta bauðst hins vegar ekki almenningi og það var bannað að greiða raunvexti og kallað okur.

Skúli (IP-tala skráð) 18.11.2008 kl. 18:22

4 identicon

I don't understand why verdtrygging is done in Iceland, as it is not done in any other country. This is not done anywhere else as the interest payments on the loan are meant to compensate the lender for the risk associated with the lost value due to inflation (often Central Bank rate+x%). The Central Banks rate is meant to be the value of the inflation, whereas the x% is to compensate the risk associated with the loan.

If the lender does not charge a correct amount of interest, then it is at his/her own risk. Why do we need to pay both interest and verdtrygging? It's like we are paying double for the inflation (Central bank interest + verdtrygging).... I'm no economist so...am I wrong here?

marylinn (IP-tala skráð) 18.11.2008 kl. 19:02

5 Smámynd: Magnús Jónsson

Guðbjörn: aðal glæpurinn við verðtrygginguna var samt gerður þegar Launavísitalan ver tekin úr sambandi, hugmyndin var að vertrygging og launavísitala heldust í hendur, raunin varð hinsvegar sú að upp kom víxlverkun, kaupmátar og verðtryggingar, og hefði þá átt að taka hvoru tveggja úr sambandi en það var ekki gert, og vertryggingin er og verður vandamál, hana þarf að afleggja með öllu hún er ekkert annað en peningaprentun án innistæðu. 

Magnús Jónsson, 18.11.2008 kl. 22:00

6 Smámynd: Jóhanna Garðarsdóttir

Er nokkuð um annað að ræða en að þjóðin taki sig saman og kæri þetta fyrir alþjóðadómstólnum eða mannréttindadómstólnum eða hvað það nú heitir. Vissulega er verið að brjóta á lántakendum verðtryggðra lána. Hreinlega reynt að stela undan þeim eignunum. Aldrei geta skilið alla þessa liði  á reikningunum verðbætur + vextir ofaná verðbætur auk vaxta lánsins  og fleira

Jóhanna Garðarsdóttir, 19.11.2008 kl. 01:58

7 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Góðan dag. Fyrirgefið að ég gat ekki verið við tölvuna í gærkvöldi til að svara þeim athugsemdum sem hér hafa verið lagðar fram. En nú skal ég reyna að svara.

Sæll Jón Steinar! Þú spyrð: Erum við tilbúin í hraðarýrnun lífeyrissjóðanna okkar fyrir vikið. Í þessari spurningu felst að þú teljir lífeyrissjóðina ekki geta lifað nema þeir fái að beita röngum reikningsaðferðum til viðhalds verðgildis höfuðstóls eigna. Að vísu mundi uppsöfnun eigna lífeyrissjóðanna verða hægari við réttan útreikning en það er fjarri lagi að um einhverja rýrnun yrði að ræða, því lífeyrissjóðirnir hafa á undanförnum árum ekki greitt út í lífeyri, nema hluta af þeirri upphæð sem árslega kemur inn í sjóðina sem iðgjöld. Árlega hafa því eignir sjóðanna aukist um vextina af höfuðstólnum, ásamt þeim hluta iðgjalda sem ekki fara til greiðslu lífeyris. Sjóðunum er því engin hætta búin þó þeir þurfi að lifa við réttan útreikning endurgreiðslu á útlánuðu fé sínu. Takk fyrir athugasemdina. Með kveðju, G. J.

Sæll Skúli! Því miður virðist þú, líkt og mikill fjöldi annara, misskilja tilgang svokallaðrar "verðtryggingar". Hlutverk hennar er það eitt að greitt sé til baka svokallað "raunvirði" þeirrar upphæðar sem fengin var að láni. Raunvirðið er metið út frá lögskipuðum viðmiðunarþáttum, en þeir þættir sem þar er miðað við, brjóta gegn alþjóðlegum grundvallarreglum um eignavirði og eignaaukningu. Vextir hér á landi hafa um langt árabil verið u.þ. b. tvöfallt hærri en gengur og gerist í þeim löndum sem við miðum okkur helst við. Það hefur ekki þurft viðmiðun um verðtryggingu til að bankarnir hafi hækkað vexti sína, enda ekkert beint samhengi þar á milli.

Framboð á lánsfé breyttist ekkert við tilkomu verðtryggingarinnar. Ástæða þess var sú að bankarnir töpuðu gífurlegu fjármagni á fyrsta áratug verðtryggingar. Töpuðu þá meira en 100% tekjum sínum yfir nokkurra ára skeið og lentu í margskonar hremmingum, sem ekki er hægt að rekja hér. Það er ekki fyrr en eftir gildistöku EES samningsins, þegar bankar gátu farið að afla sér lánsfjár erlendis, án afskipta Seðlabankans, sem umtalsverð aukning fór að verða á lánsfé hér á landi. Afdleiðingar þess að bankamenn kunnu ekki að fara með slíkt fjöregg höfum við nú fyrir augunum.

Ég veit ekki hvað þú kallar "raunvexti". Fyrir mörgum árum skrifað Pétur Blöndal alþingismaður blaðagrein, þar sem hann sagði að þeir sem teldu hægt að borga háa vexti af verðtryggðu láni vissu ekkert hvað þeir væru að tala um. Vextir af verðtryggðu láni ættu að vera 2%, en aldrei hærri en 4%.

Sem dæmi má nefna að nýlega skoðaði ég stöðu húsnæðisláns, sem tekið var á árinu 2000. Þá var upphæð lánsins kr. 6.420.000. Greitt hefur verið mánaðarlega af láninu. Samkvæmt reiknireglu lánakerfisins eru eftirstöðvar þessa láns núna, í nóv. 2008, kr. 9.449.345. Á þeim tíma sem liðinn er hefur verið greitt kr. 4.083.267. Meðaltals verðbólga yfir þetta tímabil reynist vera 7,3% á ári.

Þegar þetta lán er reiknað út með RÉTTUM HÆTTI, vísitala neysluverðs látin mæla verðbætur hverrar greiðslu, lánstími og vextir þeir sömu og eru á láninu, kemur eftirfarandi niðurstaða. Eftirstöðvar af láninu eru, efir greiðslu í nóv. 2008 kr. 5.103.762, eða 4.345.583 minna en samkvæmt lánareikni bankanna. Þá hefði nú verið greitt af láninu kr. 4.133.526, eða 50.259 krónum meira en samkvæmt lánareikni bankanna.

Hægt væri að nefna fleiri sláandi dæmi um afleiðingar þeirrar villu sem er í reiknikerfi banakanna, villu sem ég hef gagnrýnt með skotheldum rökum, allt frá árinu 1981. Í lokin skal ég gefa þér dæmi um 10 milljón króna lán til 25 ára, sem reiknað var með 12% verðbólgu og 5% vöxtum. Samkvæmt lánakerfi bankanna átti að greiða til baka kr. 77.637.807 og síðasta afborgunin var að upphæð kr. 569.625. Með réttum útreikningum átti að endurgreiða vegna þessa láns kr. 31.371.212 og síðasta afborgunin var kr. 133.872.

Finnst þér nokkur ástæða til að gera veður út af þessum mismun? Smá reikningsskekkja sem forriturunum varð á þegar útreikniforritið var búið til.

Með kveðju og þakklæti fyrir innlitið og athugasemdina. G. J.

BÆTI VIÐ FLEIRI SVÖRUM Á EFTIR.

Guðbjörn Jónsson, 19.11.2008 kl. 12:24

8 identicon

Ég vildi óska þess að þú skrifaðir greinar í fjölmiðlana!  Þú ert skeleggur og ræðir vandann í hnotskurn.  Þakka þér góða pistla. 

Þóra (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 18:16

9 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Sæl Marylinn! Þú virðist skilja íslensku svo ég svara bara á því máli. Ég ætla að byrja á því sem þú endar. NEI þú hefur ekki rangt fyrir þér. Það er engin önnur þjóð sem hefur svona vitlaust kerfi í sambandi við lánamál. Samkvæmt okkar stjórnarskrá, eiga allir að vera jafnir fyrir lögunum og því eiga allir að vera jafnir fyrir gengi gjaldmiðilsins okkar. Svo er því miður ekki, því hér er sér gengi fyrir þá sem eiga peninga til að lána.  Því miður hefur fólk látið þessa vitleysu yfir sig ganga, án þess að taka sig saman um að láta afnema verðtrygginguna.

Takk fyrir innlitið og athugasemdina

Sæll Magnús! Það sýndi sig strax að það fyrirkomulag sem sett var á varðandi upphaflegu verðtrygginguna gat ekki gengið upp, vegna þess að tekjur atvinnulífsins hækkuðu ekkert í samræmi við þá vitlausu formúlu sem við höfum kallað "verðtryggingu". Það voru stærstu mistök sem verkalýðshreyfingin gerði, 1983, þegar þeir létu það líðast að launin væru tekin út úr þessaari reikniformúlu, en hún látin halda áfram gagnvart peningunum.  Takk fyrir innlitið og athugasemdina.

Sæl Jóhanna!  Það er ekki hægt að fara með svona mál til erlendra dómstóla fyrr en allar dómstólaleiðir hér innanlands hafa verið fullreyndar. Enn hefur enginn farið með þessa vitleysu fyrir dómstóla, enda fullkomlega  óvíst að dómarar skilji þá vitleysu sem þarna á sér stað. Ég stefni að því að kynna opinberlega hvernig þetta rugl virkar, ef ég get aflað stuðnings til að greiða slíkan fundakostnað; því ég er nú bara öryrki og hef því enga áhættu sjóði að ganga í.   Takk fyrir innlitið og athugasemdina.

Guðbjörn Jónsson, 20.11.2008 kl. 18:43

10 identicon

Takk Guðbjörn! Já ég ólst upp að mestu til á Íslandi, en hef búið erlendis síðustu 4 árin þannig að íslenskan mín hefur hrapað hrylligega.... Takk fyrir útskýringuna!

Það verður að afnema þetta, mér finnst t.d. fárálegt að lín lánið mitt hefur hækkað um heila 1,5milljón bara út af verðtryggingin.. Og það eru bara 3 ár síðan ég byrjaði að borga af henni!! Þetta stemmir ekki upp því launin mín hefur nú ekki hækkað til samræmis við það..... hvernig verður lánið svo eftir 20 ár hugsa ég bara? Þá verð ég búin að marggreiða upprunalega stofnin...!!

Ég held að það sé nú mjög góður tími til að taka þetta mál upp í fjölmiðlunum, íslendingar eru að borga margfalt umfram það sem það ætti og mér finnst þetta bara rán!! Enginn banki/stofn erlendis myndi komast upp með þetta (afsakið málfræðivillurnar...).

Marylinn (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 13:00

11 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Sæl aftur Marylinn!  Það er sko ekkert að íslenskunni hjá þér og málfræðin betri en hjá meðal íslendingi. Það er rétt hjá þér að það verður að stoppa þessa vitleysu sem "verðtryggingin" er, en það er nokkuð snúið. Fjölmiðlar hér fást ekki til þess að fjalla um þetta og þegar ég koma fyrst fram með skotheldar staðreyndir fyrir villum í útreikningum "verðtryggingar", árið 1982, var hafin áróðurs herferð, þar sem ég var sagður rugludallur og áróðursmaður sem ekkert væri að marka. Fjölmiðlar voru varaðir við að birta efni eftir mig, enda hefur enginn fjölmiðill viljað birta eftir mig efni í langan tíma. Ég er hafður í einskonar einangrun. Ég er samt að undirbúa að tjá mig opinberlega um þessar vitleysur, og hef í því augnamiði gert fjölmarga útreikninga til að sýna (ekki segja frá) vitleysurnar sem eru í útreikniformúlum "verðtryggingarinnar".

Guðbjörn Jónsson, 22.11.2008 kl. 12:40

12 identicon

Takk! Ég held að ég ætla að reyna að taka þetta upp með LÍN... sakar ekki að reyna (held ég)!!!

marylinn (IP-tala skráð) 24.11.2008 kl. 21:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband