Meira af kappi en þekkingu og forsjá

Eins og margir aðrir, hef ég fylgst með átökunum í Borgarahreyfingunni og undrast þá hörku sem greina hefur mátt í skrifum tiltekins hóps félagsmanna. Þar sem ég bjóst ekki við að fá raunhæfar fréttir frá fjölmiðlum, um gang mála á landsfundinum, skráði ég mig sem félagsmann í ágúst s. l. til að eiga rétt til setu á fundinum.

Strax við komu á fundinn, var ljóst að þarna var mætt herská fylking sem ekki var í sáttahug. Friðrik Þór Guðmundsson tók að sér að vera fundarstjóri, og að mínu mati leysti hann það hlutverk afar vel af hendi, við þær erfiðu aðstæður sem þarna voru.  Tókst honum - að mestu - að koma í veg fyrir persónuárásir, þó einstöku ræðumenn létu sér ekki segjast fyrr en hann URRAÐI á þá.

Í "skýrslu stjórnar" tókst fráfarandi formanni vel að sneiða hjá öllum hasarnum sem verið hafði en lagði þeim mun meiri áherslu á þann samstöðukraft sem myndast hafði í kosningabaráttunni. Greinilegt var að hann var beinlínis að auglýsa eftir þessum samstöðukrafti, til þeirra verka sem nú biðu hreyfingarinnar.

Á sama hátt fluttu allir þrír þingmennirnir gott yfirlit yfir það mikla umrót sem varð á lífi þeirra á þessu ári og þá miklu áskorun sem það var að læra að fóta sig í þessu nýja starfsumhverfi sem þingið er, sem og þeim miklu átökum sem urðu í þjóðmálunum á sama tíma.

Byrjunin var því góð, en það var líka bara byrjunin. Fljótlega kom í ræðustól fólk sem var fyrst og fremst í árásarham, ýmist á einstakar persónur eða þann hóp sem vildi halda grasrótarstarfinu áfram. Þetta var einkar athyglisverð upplifun, sem lítið fékk þó útrás í ræðustól, vegna frábærrar festu og jafnvel harðrar framgöngu fundarstjórnans.

Í upphafi fundarins vakti athgyli mín hve mikill óróleiki var meðal hinnar herskáu fylkingar. Mikið ráp, ráðabrugg og símahringingar. Fljótlega fór svo að fjölga á fundinum og voru jafnvel komnir á fundinn aðilar sem ekki höfðu verið skráðir félagsmenn. Fundurinn varð þó samhljóða um að leyfa þeim að taka þátt í kosningum. 

Þegar tillögurnar að lögum hreyfingarinnar eru skoðaðar, er helsti munur þeirra sá að tillögur hópsins sem þingmennirnir styðja gera ráð fyrir frjálsu hópastarfi, sem finni leiðir til jákvæðra breytinga á framkvæmd lýðræðis hjá þjóðinni, en byggi á lítilli valdstjórn. Tillögur herskáa hópsins byggir hins vegar á viðamikilli valdstjórn, þar sem ýmis fyrirmæli eru um hlýðni og einnig óútskýrðar heimildir til refsinga og brottreksturs.

Lagabálkur þessi er mikill, samtals 10 og hálf blaðsíða.  Hins vegar er samhæfing engin, og því valdheimildir virðast liggja víða, en engin leið að vita hver á að fara með valdið á hverjum stað.

Í sjötta kafla laganna, um vinnuhópa og málefnasvið, segir að á aðalfundi skuli kosinn umsjónamaður hvers málefnahóps, og annar til vara, en í dagskrá aðalfundar er ekkert minnst á þessa kosningu.

Í fimmta kaflanum, um félagsfundi, eru mörg afgerandi valds-hugtök, sem gera stjórnina eiginlega óþarfa. Þar segir að félagsfundir skuli leysa úr ágreiningsmálum, sem í sjálfu sér er gott mál. Hins vegar er bætt við að félagsfundur hafi vald til að skipa sáttanefnd. Sýnist félagsfundi sáttaleið ófær, hefur félagsfundur heimild til að áminna félagsmenn, lýsa á þá vantrausti og víkja þeim úr hreyfingunni.

Þá segir einnig í fimmta kafla. Til að ákvarðanir félagsfundar séu lögmætar skulu að lágmarki fimmtán meðlimir sitja fundinn. Á öðrum stað í fimmta kafla segir að: Félagsfundir geti boðað einstaka félagsmenn á sinn fund. Skulu þingmenn, varaþingmenn, stjórnarmeðlimir, varastjórnarmeðlimir, umboðsmenn málefnahópa, tengiliðir vinnuhópa og aðrir sem gegna trúnaðarstöðu innan hreyfingarinnar hlíta boðinu ef þeir hafa tök á.

Þarna er í lögunum tilgreindar miklar heimildir til handa félagsfundi. Gallinn er hins vegar sá, að aðalfundur, sem er æðsta vald hreyfingarinnar og kýs þá aðila sem fara með vald hans milli aðalfunda, veitir félagsfundi ekki þetta vald. Hann hefur aldrei úthlutað þessu valdi til félagsfunda, því á aðalfundi er einungis kosin stjórn og varastjórn. Engir umboðsmenn málefnahópa eða tengiliðir vinnuhópa, eru kosnir á aðalfundi. Þess vegna er fullkomlega óljóst hvert þessir aðilar sækja vald sitt.

Og enn segir í fimmta kaflanum, um félagsfundi: Tillögur um áminningu, vantraust og brottvikningu skulu vera skriflegar,útskýra ástæður og undir hana skulu skrifa þeir sem eru með og þeir sem eru á móti. Stjórnin skal framfylgja ákvörðun fundarins.

Þarna er óhætt að segja að herskái hópurinn sé kominn eins langt frá grasrótarhugsun, lýðræði og mannréttindum og hægt er með góu móti að komast. Í lögunum er ekkert ákvæði um það hver skuli boða féalgsfundi, né hvernig slíkir fundir skuli boðaðir. Í lögunum segir að lágmarki fimmtán meðlimir sitja fundinn til að ákvarðanir félagsfundar séu lögmætar.

Svo virðist sem hvaða félagsmaður sem er geti boðað félagsfund, með hvaða hætti sem honum sýnist og tekið fyrir þau mál sem honum sýnist. gefum okkur nú að einhverjum væri illa við einhvern félagsmann eða sjórnarmann.  Hann gæti safnað í kringum sig 15 félagsmönnum sem tilbúnir væru til að styðja tillögu hans um brottrekstur. Hann boðar því félagsfund; boðar einungis þá sem hann veit að eru honum sammála. Fundurinn ákveður svo samhljóða (með 16 atkvæðum) að reka hinn tilgreinda einstakling úr hreyfingunni og: Stjórnin skal framfylgja ákvörðun fundarins.

Nú er það náttúrlega svo, að í öllum lagabálknum eru engin ákvæði eða heimildir til refsinga fyrir að hlíta ekki lögunum. Spurningin er því hvert félagsundir, sem ákvæðu áminningar eða brottvikningar sækja heimildir sínar, þar sem engin ákvæði laga þeirra kveða á um slíkt?

Ég ætla að sleppa öllum kjánaskapnum um að félagsfundur nánast ráði yfir þingmönnum hreyfingarinnar og fyrirhuguðum eyðstaf frambjóðenda. Við yfirlestur mat ég u.þ.b. helminginn af lagatextanum ónothæfan en annað mætti nota með því að skýra betur, í texta lananna, þá hugsun sem að baki lægi.

Ég tek það skýrt fram að með þessum skrifum mínum er ég ekki að telja herskáa hópinn einhvert vont fólk. Síður en svo. Ég hef frekar þá tilfinningu að þarna sé á ferðinni ákveðinn vanþroski í hóphugsun og hópvinnu, sem framkalli það séríslenska tilfelli þar sem hver og einn er svo handviss um að hann sé með einu réttu lausnina, og hinir eigi að hlýða honum; annars séu þeir á móti honum.

Með svona litla reynslu í þjóðfélagslegri hugsun og hópvinnu, tel ég afar litlar líkur á að þessi hópur verði lýðræði og persónukjöri til framdráttar. Vel má vera að mér skjátlist. Vonandi verður það þá þjóðfélaginu til góðs, því við megum vart við meira af hinu í bili.         


mbl.is Þingmenn Borgarahreyfingarinnar gagnrýndir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Ágúst Hansen

Þakka þér fyrir að koma á landsfundinn og veita aðhald. Leitt að það var ekki hlustað betur á þig í vinnunni sem fór fram áður. Það hefði getað leitt til þess að sætta ólík sjónarmið hefði það verið gert. Baráttukveðjur.

Jóhann Ágúst Hansen, 13.9.2009 kl. 16:02

2 identicon

Sæll. Einhvern veginn svona sá ég fundinn einnig, eins og  þú lýsir honum hér ofan.

En sú tilraun þeirra herskáu, að þagga niður í þér í ræðustól, og efast um meðlima stöðu þína í hreyfingunni, var enn eitt dæmið um þrot þessa hóps. Og þeim til skammar.

Ásamt þeirri augljósu staðreynd að salurinn skyndilega fyllist af fólki rétt fyrir atkvæðagreiðslu milli lagatillagna A og B. Fólki sem hvarf siðan jafn skyndilega eftir hana og sýndi augljóslega að því var engan vegin annt um hreyfinguna eða málefni hennar.

Rýrir stórlega trú mína á því að þetta fólk (það er 12 menningarnir)  vilji aðhyllast lýðræðislega stjórnarhætti, heldur aðhyllist ýmiskonar manipuleringar til þess eins að komast til valda.

Nei, sammála Jóhanni hér ofan, þau hefðu betur hlustað aðeins betur, og sýnt sáttavilja. Þá stæðu þau ekki uppi með ónýtan flokk í dag, heldur við öll með öfluga Borgarahreyfingu.  Sem ætti alt í hendi sér, til að leiða þjóðina gegn því oki sem fjórflokka klíkan hefur yfir okkur ælt.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 13.9.2009 kl. 22:40

3 identicon

Sæll Guðbjörn.

Takk fyrir þann stuðning og aðhald sem þú hefur sýnt okkur í skrifum þínum

Það er mikil gæfa og forréttindi að fá að kynnast manni eins og þér.

Bestu kveðjur

Sigurlaug

Sigurlaug (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 10:34

4 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Jæja ég var þá ekki að sjá neinar ofsjónir eða heyra ofheyrnir á fundinum.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 14.9.2009 kl. 21:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 164822

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband