Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Kastljósið í kvöld frábært og vel upplýsandi, en samt sorglegt

Ég efast um að fólk almennt átti sig á hve Kastljósið var í raun frábært í kvöld. Framsetning þeirra á símtali Árna Math. við Breska fjármálaráðherrann var einkar skýr. Sorglegt var að verða vitni að því hve Árni var gjörsamlega ómeðvitaður um alvarleika málsins, og virtist algjörlega ómeðvitaður um þá ábyrgð sem hann hafði sjálfur stefnt ríkissjóði í með því að láta þessa starfsemi Landsbankans í London verða svona umfangsmikla, undir beinni ábyrgð ríkissjóðs.

Klaufaleg tilsvör, ásamt engum vilja til að ávinna sér umburðarlindi eða velvilja Breska ráðherrans, voru svo yfirþyrmandi að engin leið er að áfellast Breska ráðherrann fyrir að reiðast heiftarlega.

Þá var viðtal Jóhönnu við þennan Íslenska fræðimann, sem kom á eftir símtalinu, einkar athyglisvert. Hrykaleg var ádeilan sem þar kom fram á hendur Fjármálaeftirlitinu, að það hafi heimilað Landsbankanum þessa innlánasöfnun í Bretlandi, vitandi um að ríkissjóður væri ábyrgur fyrir þessum innlánum, þar sem þeim var safnað af útibúi Íslensks banka, en ekki Bresks dótturfélgs.

Það er einnig sorglegt siðleysi að Fjármálaeftirlitið, undir forystu þess manns sem svo gjörsamlega brást þjóðinni í Landsbankamálinu í London, skuli svo vera, með neyðarlögum, settur yfir eignauppgjör allra bankanna.

Ég hefði haldið að ef einhver snefill af siðferðisvitund væri til í vitund Forstjóra Fjármálaeftirlitsins og hjá Fjármálaráðherra, ættu þeir báðir að segja af sér störfum sínum nú þegar. Að þessir menn skuli sitja áfram í stöðum sínum, er mikið meiri niðurlæging fyrir þjóðina en álitið sem Brown lét í ljós. Að þeir sitji áfram sýnir dómgreindarbrest og undirokun þjóðarinnar.                          


mbl.is Viðræðum við Breta lokið í bili
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisvert álit litlu SÆGREIFANNA

Það er athyglisvert að lesa þessi ummæli Arthurs, í ljósi þess að hann stýrði smábátaflotanum inn í sægreifaflokkinn og lagði þar með trausta hönd á að selja þjóðareignina og skuldsetja smábátaútgerðina, svo litlu greifarnir gætu tekið margfalda þá peningaupphæð út úr smábátaútgerð, sem eðlilegt hefði geta talist.

Ef LÍÚ á að skammast sín, þá eiga Arthur og félagar ekki síður að skammast sín, því þegar þeir fóru í ránsferðina gegn þjóðinni, vissu þeir hvaða afleiðingar það hafði. Það vissi þó LÍÚ ekki við upphaf aðgerða sinna, þó sá hryllingur sé öllum heiðarlegum mönnum löngu ljós.

Arthur segir:  "að íslenskur sjávarútvegur stæði traustum fótum -,,á botninum í skuldafeni upp fyrir haus.“  

Þetta er rétt hjá honum. Með hans framgöngu er líklega ALLUR sjávarútvegurinn kominn á kaf í skuldir, en af hverju skildi það vera?

Ástæðan er sú, að þeir sem eiga báta sína skuldlausa eða skuldlitla, geta ekki farið á sjó vegna þess hve sægreifarnir krefjast hárrar þóknunar fyrir að leyfa veiðar á millifæranlegum aflaheimildum. Þeir krefjast alls aflaverðmætis í sinn hlut, og stundum víst meira en það.

Það er engin undur þó Arthur sé ánægður með árangurinn, að hafa komið smábátaflotanum á botninn í skuldafeninu, við hliðina á stóru sægreifunum. Í þeim félagsskap líður honum greinilega vel, meðan þjóðinni blæðir út.       


mbl.is Sjávarútvegurinn skuldum vafinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Segðu af þér Birgir

Lögfræðimenntaður maður, sem formaður allsherjarnefndar Alþingis, getur vart sýnt þjóð sinni meiri lítilsvirðingu en að svara svona spurningum með þessum hætti.

Það er óravegur frá löggjöf um kyrrsetningu vegna ætlaðra hryðjuverka, til þess eðlilega sem hægt er að ætlast til af Alþingi, að sett verði kyrrsetningarlög á eignir stjórnenda og stjórnarmanna bankana þriggja.

Allir voru bankarnir hlutafélög, og í þeim lögum er áskilin ábyrgð þessara manna á þeim atriðum þar sem þeir teljast hafa farið út fyrir lagaheimildir. Ljóst er að þeir fóru langt út fyrir greiðsluþol bankanna og þar með var einnig farið langt út fyrir öll siðferðismörk.

Birgir minn!  Fyrst vilji þinn til að verja þjóðina skakkaföllum er ekki meiri en raun ber vitni, áttu þegar í stað að segja af þér þingmensku, og þar með formensku í allsherjarnefnd.                


mbl.is Vill ekki frysta eignir auðmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alvarleg skekkja í áherslum forsætisráðherra

Mér finnst næsta undarlegt að heyra að það sé, að mati forsætisráðherra, að mikilvægast við þessar aðstæður sé að auka hagvöxt.

Eins og flestir vita, sem fylgst hafa með hvað felst í hugtökum, þýðir "hagvöxtur" aukning á veltu þjóðfélagsins. Við núverandi aðstæður er það beinlínis ákall um aukningu verðbólgu, vegna þeirrar erfiðu stöðu sem fjármál þjóðarinnar eru í.

Lang, lang, lang mikilvægustu verkefni stjórnvalda nú, er að koma af stað atvinnustarfsemi sem skilar gjaldeyristekjum. (hér er ekki verið að tala um álver).  Eftir því sem slíkt skilar meiri árangri, minnka líkurnar á að samdráttur í fjármálageiranum valdi langvarandi erfiðleikum, háum vöxtum og mikilli verðbólgu.

Eins og aðrir stórskuldarar, þurfum við að treysta grunninn undir nauðsynlegri lífsafkomu okkar og samfélagslegum þörfum, áður en við förum að leggja áherslu á aukningu í veltu. Það mun væntanlega líða meira en eitt ár þangað til fullkomlega verður ljóst hve mikið bankahrunið kostar þjóðina. Við borgum þann kostnað ekki með erlendum lántökum. Við getur dreift greiðslunum á lengri tíma með lántökum, líkt og aðrir skuldarar, en við verðum að afla gjaldeyristekna til að borga skuldirnar, og afla þeirra nauðsynja sem við þurfum til að lifa hér sæmilegu lífi.

Ef stjórnmálamenn skilja ekki þessi grundvallarsannindi eðlilegra sjónarmiða afkomuþátta, eiga þeir ekki að vera í stjórnmálum.                


mbl.is Aðgerðir til að örva hagvöxt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverð svör frá fyrrverandi viðskiptaráðherra.

Mér finnst athyglisvert að heyra þessi svör hjá Valgerði Sverrisdóttur, fyrrverandi viðskiptaráðherra, sem í valdatíð sinni undirbyggði það hrun sem nú er orðið staðreynd, með afskiptaleysi af þeirri óheillaþróun sem nú er orðin opinber.

Ég á afrit af þremur bréfum sem ég ritaði henni, þar sem ég benti á óásættanlega framgöngu bankanna okkar. Að vísu svaraði hún aldrei þessum bréfum, en tölvupósturinn staðfesti að þau hefðu komist til skila.

Það verður að segjast að það vekur sérstakann ugg hjá mér, hve lítið virðist um raunhæfa þekkingu hjá þorra Alþingismanna, á stjórnun efnahagsmála þjóðfélags okkar.

Önnur af meginskyldum Alþingis er að stjórna rekstri þjóðfélagsins, hin er að semja lög og setja leikreglur um réttarstöðu og samskipti þegnanna.

Sé raunin sú, sem nú virðist augljósara með hverjum deginum sem líður, að meginþorri stjórnmálamanna hafi enga þekkingu á því sem er að gerast; engann mandóm til að staðfesta ábyrgð sína á þeirri framvindu sem verið hefur, er því miður lítil von um raunhæfar breytingar í Íslensku samfélagi.

Vitanlega eru þeir stjórnmálamenn sem framarlega eru í flokkum stjórnarandstöðunnar, áfjáðir í kosningar sem fyrst, því líkur eru á að staðan nýtist þeim vel; einkanlega áður en almennt verður farið að kryfja á hvern hátt þeir stóðu vaktina við að gæta hagsmuna samfélagsheildarinnar, í störfum sínum sem stjórnarandstaða.

Ég verð að segja fyrir mig, að mér er alveg ósárt um að Sjálfstæðismenn þurfi sjálfir að fást við afleiðingar gjörða sinna. Nú er akkúrat tími þeirra að sýna snilli sína á fjármálasviðinu; þá snilli sem eingöngu átti að vera til staðar í Sjálfstæðisflokknum.

Við höfum fengið að sjá hvernig þessi snilli Sjálfstæðismanna nýtist til auðssöfnunar fyrir einstaklinga. Nú er komið að þeim að láta sjást hvernig stjórnunarhæfni þeirra og fjármálasnilli nýtist fyrir samfélagið.          


mbl.is Stjórnmálin biðu hnekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkennilegt að segjast geta leyst vandamálin framundan, þegar það eru vandamálin sem urðu til á undanförnum árum

Ég vil byrja á að segja, að ég óska Ingibjörgu Sólrúnu góðs bata og farsældar, þó ég sé ekki trúaður á mikilvægi Samfylkingarinnar í þeim erfiðleikum sem við er að glíma. Ég vil þó taka fram, að ég ber mikla virðingu fyrir framgöngu Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherra, í þeim hamförum sem gengið hafa yfir þjóðina.

Það er rétt hjá Ingibjörgu að margt hafi verið gert rangt á síðustu 10 árum. Hins vegar skiptir það sköpum, að erlendar skuldir þjóðarinnar voru látnar, meira en tvöfaldast á síðastliðnum tveimur árum; einmitt árunum sem Samfylkingin sat við stýrið og bar ábyrgð á siglingunni. Erlendar skuldir á miðju ári 2006 voru u.þ.b. 5.000 milljarðar, en eru nú líklega nálægt 12.000 milljörðum.

Gera verður þá grundvallarkröfu til stjórnmálamanna, að nú hætti þeir orðagjálfri og sýndarvirðuleika, en gefi þjóðinni haldbærar skýringar á því hvers vegna þeir létu þetta gerast, þó aðvaranir dyndu yfir þá úr öllum áttum.

Ef þeir geta ekki skýrt fyrir þjóðinni hvers vegna þeir brugðust ekki við ítrekuðum aðvörunum, geta þeir vart búist við að þjóðin beri traust til þeirra við að stýra þjóðfélaginu gegnum öldurót komandi tíma. Nú verða þeir, FYRIRFRAM að ávinna sér traust þjóðarinnar, með því að skýra skilmerkilega frá því hvernig þeir hyggist stýra efnahagsmálum komandi árs, til að byrja með. Framhaldið kemur síðar ef traust skapast fyrir komandi ári.

Og þeir þurfa líka að skýra hvernig þeir ætli að endurskipuleggja líffskilyrði í þjóðfélaginu, þannig að eignarýrnun og eignatilfærslur verði í því lágmarki sem hægt er. Einnig þarf STRAX að bregðast við með sköpun atvinnutækifæra, sem skapa gjaldeyri (ekki verið að tala um álver), auk þess sem stýra þarf svo sem kostur er niðurskurði á verslun og þjónustu, þannig að ekki skapist ringulreið eða hrun.           


mbl.is Ingibjörg Sólrún: Erfiður vetur framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir eru mestu sökudólgarnir ????

Margir eru uppteknir þessa dagana við að leita sökudólga, til að refsa fyrir þær hamfarir sem yfir þjóðfélag okkar hafa gengið undanfarna daga.

"Maður líttu þér nær". - "Þú sérð flísina í auga bróður þíns en þú sérð ekki bjálkann í þínu eigin auga". - Þetta eru tvö gömul máltæki sem ævinlega eru sem ný og eiga alltaf við. Við sjáum hin smæstu atriði sem við teljum til sakfellingar hinum og þessum aðilum í þjóðfélaginu, en við forðumst að líta í eigin barm og skoða hver ábyrgð okkar sjálfra er.

Vissum við ekki að erlendar skuldir voru að aukast hættulega mikið? Við höfum þó verið minnt reglulega á það, nokkrum sinnum á ári, undanfarin þrjú ár. Á þeim tíma jukust erlendar skuldir úr u. þ. b. 1.600 milljörðum, um mitt ár 2004, í u. þ. b.  11.000 milljarða í ágúst á þessu ári. Af hverju þögðu allir sem mótmæla nú? Voru þeir í fríi frá því að gæta langtímahagsmuna fjölskyldu sinnar? - Langtímahagsmunir fjölskyldu byggjast á því að sjá sem skýrast fyrir langtímavelferð þjóðfélagsins.

Það er svo skrítið að Davið, skynjaði hættuna; líklega af því að hagfræðingar Seðlabankans hafi sagt honum frá því. Á síðustu árum talaði hann um þessa hættu í ræðum sínum sem seðlabnkastjóri, en svo virðist sem enginn hafi hlustað. Ekki einu sinni þeir sem nú mótmæla og telja það fyrsta verk að reka Davíð.

Til þess að hægt hefði verið að bregðast við, hefðu þingmenn þurft að hafa skilning á því sem Davíð o.fl. voru að segja. Og breyta lagaumhverfi þannig að hægt væri að stöðva þá óheillaþróun sem komin var af stað, vegna óvitaskapar stjórnenda bankanna.

Mikilvægasta verkefni Alþingis er að setja samfélaginu lagareglur, til leiðsagnar að þeim markmiðum sem þjóðfélagið á að stefna að; og hafa eftirlit með því að þær lagareglur séu virtar. Til einstakra eftirlitsþátta er ráðuneyti og ýmsar eftirlitsstofnanir, s. s. Fjármálaeftirlitið Ríkisendurskoðun o. fl. stofnanir.

Endanlega eftirlitið með þessu öllu er samt ævinlega í höndum alþingismanna sjálfra, þá einkanlega þingmanna stjórnarflokkanna. Endanlega ábyrgðin á að gagnrýna það sem miður fer, er þó eðlilega í höndum þingmanna stjórnarandstöðunnar, þar sem þeirra er að gæta þess að stjórnarmeirihlutinn spilli ekki grundvallarhagsmunum þjóðarinnar.

Þegar við leitum að sökudólgum þess að svona fór fyrir þjóð okkar, virðist ljóst að líta þarf til margra átta. Álitamál er hvort Davíð á meiri sök á því hvernig komið er, en þeir menn eiga sem settu hann í þá stöðu sem hann gegnir. Það er varla óvitanum að kenna að hann setjist undir stýrir á rútu, fullri af fullorðnu fólki, og aki henni út í móa. Ábyrgðin hlýtur að vera þeirra sem létu það gerast.

Með þessu er ég ekki sérstaklega að verja Davíð, en ég tel hann ekkert hafa til þess unnið að verða píslarvottur og þar með sleppa við eðlilega umræðu um ýmis verk á valdatíð sinni.

Að mínu viti snýr mikilvægið að því hvernig þjóðin sjálf, tekur á þeim bresti á ábyrgð og árvekni sem stjórnmálamenn okkar hafa sýnt á undanförnum árum. Ef við höldum áfram að sofa og láta afleiðingar andvalaleysis þeirra yfir okkur ganga, án þess að þeir þurfi að axla á því ábyrgð, erum við að segja að við, þjóðin í landinu, séum samábyrg þeim sofandahætti sem viðgengist hefur gagnvart öfga og spillingaröflum sem steypt hafa þjóðinni í botnlaust skuldafen á fjórum árum.

Gerum við það, getum við illa mótmælt því áliti erlendra þjóða við við séum óábyrg í fjármálum og því ekki viðskiptahæf.  


Engin vetlingatök á svona málum.

Við eigum ekki að taka neinum silkihönskum á svona málum. Þau eiga tafarlaust að fá flýtimeðferð hjá dómstólum. Dæma á tafarlaust til refsingar, erlenda aðila sem brjóta alvarlega af sér, vísa þeim úr landi strax að lokinni afplánun og setja á þá 100 ára endurkomubann.

Þetta er harður kostur, en ef fólki eru kynnt þessi skilyrði þegar þau koma til landsins, er það þeirra val að ganga inn á þessa refsibraut og verða þá að taka þeirri refsingu sem því fylgir.

Eðlilega þarf að taka öðruvísi á málum ríkisborgarar þjóðar okkar, því þeim er ekki hægt að vísa úr landi. Afbrot og ofbeldi gagnvart lögreglu á þó að hafa í för með sér mjög alvarlega refsingu og stranga huglæga endurhæfingu.

Svona afgerandi og ákveðin framganga gagnvart erlendu fólki sem ekki vill virða leikreglur samfélags okkar, er afar nauðsynleg. Hraður og ákveðinn dómur, með tafarlausri brottvísun og endurkomubanni, að lokinni afplánun, losar hinn mikla fjölda heiðarlegra erlenda borgara, sem hér dvelja, úr umræðum sem þau eiga engan þátt í að skapa.          


mbl.is Grafalvarlegt mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttlætingar á ofbeldinu leitað

Víst ber að fagna þessari yfirlýsingu Breta, en líta samt á hana sem neyðarútgang þeirra úr því öngstræti sem forsætisráðherra þeirra var búinn að koma sér í.

Mér finnst mikilvægt að við sýnum þann karakterstyrk að ásaka ekki almenning í Bretlandi fyrir þann kjánaskap sem forsætisráðherra þeirra varð uppvís að. Við fundum til sársauka innra með okkur yfir því að vera ranglega ásökuð um þætti sem við, sem venjulegir borgarar, komum hvergi nærri. Þess vegna skulum við sýna þann styrk að hegna ekki venjulegum borgurum Bretlands fyrir þær aðgerðir sem þau áttu engan þátt í að ákveða.

Leiðin til baka, fyrir Gordon Brown, úr öngstæti aurdrullu og óþverraskapar, er einungis ein. Hann verður að biðja Íslensku þjóðina opinberlega afsökunar á rangfærslum sínum og heiftaraðgerðum, byggðum á óstaðfestum fregnum. Minnum hann stöðugt á afsökunarþáttinn með tölvupósti, þar til afsökunin kemur opinberlega fram.

Hann getur hugsanlega meðhöndlað fjölskyldu sína með álíka ruddaskap,  en hann hefur ekki lagt fram neina rökstudda ástæðu fyrir þeirri taugaveiklun og óðagoti sem hann sýni í heiftaraðgerðum sínum gegn landi okkar.

Við skulum bíða kurteis og hljóð eftir réttlætingu hans, eða afsökun, en ekki láta almenning í Bretlandi gjalda kjánaskapar hans.     


mbl.is Bretar útskýra takmarkanir á viðskiptum við Landsbankann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dylgjur að hætti götustráka ?????

Athyglisverð yfirlýsing frá leiðtogafundi Evrópusambandsins. Eins og oftast er með svona samkomur, þá er búið að fara yfr málin áður en ráðherrarnir setjast niður, kanna efnisþættina og stilla upp niðurstöðunni, miðað við fyrirliggjandi efnisþætti.

Í fréttinni er sagt að síðustu setningu yfirlýsingarinnar hafi verið bætt inn í uppkastið eftirá, sem þýðir að einhver leiðtoganna hefur ekki viljað samþykkja uppkastið eins og það var samið, miðað við þær efnislegu forsend ur sem fyrir lágu.

Líklega þvælist nú ekki fyrir Íslendingum að átta sig á hvaða leiðtogi, í þessum hópi, hafi ekki viljað samþykkja stuðningsyfirlýsingu við Ísland, án þess að hnýta í enda hennar órökstudda mannorðsskemmandi gróusögu.

Fróðlegt væri að fá staðfestingu frá framkvæmdastjóra ESB hvaða alþjóðlegar skuldbindingar íslensk stjórnvöld hyggist ekki uppfylla. Best væri ef einhver íslenskur fjölmiðill óskaði þessara upplýsigna og óskaði jafnframt eftir afriti af þeirri tilkynningu íslenskra stjórnvalda sem þessi umrædda síðasta setning yfirlýsingarinnar er byggð á. Varla setja leiðtogarnir svona alvarlega ásökun í ýfirlýsingu án þess að hafa haldbæra sönnun fyrir ásökun sinni.

Ég á svo sem ekki von á svari, en það staðfestir einfaldlega valdhroka fámenns hóps Evrópuleiðtoga, sem tilbúnir eru að troða á mannorði smáþjóðar, til að þurfa ekki að átelja klúbbfélaga fyrir níðingsverk.          


mbl.is Ísland standi við alþjóðlegar skuldbindingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband