Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Lausnin hefur lengi verið tilbúin en stjórnendur ekki viljað hana

Mikilvægt er að stjórnendur kunni þá list að halda jákvæðu sambandi við þá sem veita þjónustuna. Þessa list hafa stjórnendur Landspítala (LSH) skort tilfinnanlega. Þess vegna hefur neikvæð spenna stöðugt verið að hlaðast upp hjá starfsfólkinu og starfsgleðin stöðugt verið að fjarlægjast.

Það erun orðin nokkuð mörg ár síðan fyrst var farið að tala um breytignar á vaktafyrirkomulagi hjá LSH, þannig að fólk væri á svokölluðum "rúllandi vöktum". Vandamálin í því sambandi virðast einkum hafa verið tengd launaliðnum, en einnig því að það eiga ekki allir auðvelt með að stunda vinnu á, breytilegum tímum sólahringsins.

Hvað launaliðinn varðar, hefur verið algjör höfnun á því hjá ríkisvaldinu, að hækka föst laun þjónustuþátta spítalans til samræmis við það sem þessar stéttir telja ásættanleg heildarlaun. Bilið milli fastra launa og ásættanlegra heildartekna, hefur því verið brúað með því fyrirkomulagi sem verið hefur, að þeir sem þurfi hærri laun, geti náð ásættanlegum tekjum með aukavöktum og yfirvinnu.

Flestum gæti nú sýnst að það ætti ekki að skipta launagreiðandann máli hvort greitt væri fyrir unnar aukavaktir og yfirvinnu, eða greitt hærra kaup fyrir fastar vaktir; svo fremi að álíka fjármagn færi til launagreiðslna. En málið er ekki svo einfalt.

Ef föst laun starfsfólks væru hækkuð til samræmis við það sem þyrfti, myndu jafnframt hækka lífeyrisgreiðslur til alls fyrrverandi starfsfólks, sem komið væri á eftirleun, því lífeyrisgreiðslur eru ákveðið hlutfall fastra launa. Að halda föstum launum starfsmanna svo lágum sem þau hafa verið, hefur því verið leið ríkisvaldsins til að komast hjá að greiða fyrrverandi starfsfólki sínu mannsæmandi eftirlaun, að aflokinni áratuga góðri þjónustu.

Af öllu þessu segi ég. Lausnin á þeirri deilu sem nú er uppi, hefur verið til í nokkur ár, en stjórnendur spítalans (ríki og yfirstjórn) hafa ekki viljað horfast í augu við raunveruleikann. Þeir hafa hingað til stundað aðferðarfræði harðstjórnar; að kúga fólk til hlýðni við vilja yfirstjórnar, eða að öðrum kosti yfirgefa starfið sem það hefur menntað sig til að sinna. 

Ekkert lýðræði. - Engin virðing yfirstjórnar fyrir fólkinu sem vinnur afrekin sem á sjúkrahúsinu eru unnin. Ekkert þakklæti; ekki einu sinni klapp á bakið við starfslok, eftir áratuga dygga þjónustu. Enginn vilji til að virða þau afrek  sem unnin eru. EKKERT.  Aðeins viðhorfið að hver starfsmaður hafi nú ekki unnið fyrir öllu því kaupi sem honum var greitt, þess vegna sé sjálfsagt að leita ALLRA bragða til að ná fram einhverjum lækkunum á launagreiðslum til hans. - Virðingarfverð viðhorf; eða hitt þó heldur.                 


mbl.is Mikilvægt að lausn finnist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilja menn ennþá hærri stýrivexti??????????

Það er skuggalegt að sjá hve menn í viðskipta og fjármálageiranum koma fram af miklu kæruleysi gagnvart langtímahagsmunum þjóðarinnar. Enn er haldið áfram að eyða fjármunum langt umfram það sem við öflum. 

Það er einnig afar undarlegt að fylgjast með háværum kröfum um lækkun stýrivaxta, þegar athafnir manna á sama tíma, benda til þess að þeir krefjist hærri stýrivaxta

Fólk þarf að átta sig á að stjórnvöld stýra ekki lengur innflutningi. Sá tími leið undir lok fyrir mörgum áratugum. Hins vegar gæti slík stjórnun verið skammt undan, ef viðskipta- athafna- og fjármálamenn þjóðarinnar reynast ófáanlegir til að bera tilhlýðilega virðingu fyrir jafnvægi milli öflunar gjaldeyris og eyðslu hans.

Kannski má líta á þessa hegðun viðskipta- og fjármálamanna á þann veg að þeir séu að hvetja stjórnvöld til að setja lög til takmörkunar á misvægi milli útflutnings og innflutnings. Er hugsanlegt að líta megi á þessa eyðsluvitleysu út frá því sjónarhorni? Kunna menn ekki að takmarka sjálfa sig í frelsinu?

Það er einnig fáránlegt að fylgjast með kröfum þessara afla um upptöku Evru og inngöngu í Evrópusambandið, á sama tíma og þeir gera slíkt óframkvæmanlegt með framferði sínu gagnvart viðskiptajafnvægi þjóðarinnar.

Er ekki þörf á að við fáum svolítið meiri dómgreind í athafna og viðskiptalíf okkar, en eðlilegt telst að finna í sandkössum leikskólanna?              


mbl.is Aukinn halli á vöruskiptum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttu þau sáttahönd?

Stjórnendur Landspítalans (LSH) hafa árum saman farið sínar eigin leiðir, án samráðs eða samstillingar við starfsfólk þjónustuþáttar spítalans og leitt hverja kjaradeilu fram á ögurstund, án þess að virða að neinu leiti óskir starfsstétta spítalans um raunverulegar viðræður.

Þetta er þungur dómur, en engu að síður sannur. Ég hef í meira en áratug fylgst afar náið með rekstri spítalans, því ég hef verið að skoða stjórnunarkerfi hans. Návígi mitt við þessi málefni tengjast m. a. því að konan mín starfar á LSH. Auk þess hef ég verið að fylgjast náið með framgangi og virkni yfirstjórnarinnar, einkanlega í ljósi þess að þeir hafa, undanfarinn áratug, talið sig vera að framkvæma gæðastjórnun, sem kölluð er.

Þegar litið er til þess, að í þessu tilfelli er um að ræða mikilvægasta sjúkrahús landsins og mikilvægasta bráðalið þess sjúkrahúss, er óhjákvæmilegt að telja stjórnendur þess fullkomlega vanhæfa og utan skynjunar á því hættuástandi sem þau hafa skapað, með því að láta allan þennan tíma líða (12 ár frá innleiðingu vinnutilskipunar ESB), án þess að hefja raunhæfar eða raunverulegar viðræður við starfsfólkið um starfsskilyrði og laun. Ég er ekki í vafa um að það er rétt sem kom fram hjá hjúkrunarfræðingunum í kastljósi þriðjudaginn 29 apríl, að á næst síðasta starfsdegi þessara stétta var yfirstjórnin ekki farin að sýna þeim þá mannvirðingu að setjast með þeim á fund til að ræða um möguleika á lausn deilunnar.

 Við stjórnun stofnunar, þar sem mikið reynir á andlega orku, jafnvel meira en á líkamlega orku starfsmanna þjónustusviðs, felst grundvallaratriði í því að leggja sig fram um að halda velvilja, gleði og starfsánægju vakandi meðal starfsmanna; því þannig gefa þeir best af sér til þeirra sem þjónustunnar þurfa að njóta. Þessu viðhorfi hefur ekki verið fyrir að fara í stjórnun LSH undanfarinn áratug. Stöðug afturför hefur verið í virðingu gagnvart fagfólkinu, en á sama tíma hefur fjöldi skrifstofu- og stjórnunarliðs vaxið með stjarnfræðilegum hraða og var fyrir ári síðan komið yfir 600 manns sem sat á skrifstofum stofnunarinnar, utan þjónustusviðs þeirra sem sinna sjúklingunum.

Þá virðist milljónatugum, jafnvel hundruðum milljóna, hafa verið varið í illa grunduð tækjakaup, umskipti á símakerfum, yfir í mikið lélegara kerfi en fyrir var, og umskipti á tölvubúnaði og hugbúnaðarkerfum í tölvum spítalans; og settur inn hugbúnaður sem var mun erfiðari fyrir starfsfólkið en sá sem fyrir var.

Þegar gerðar hafa verið fyrirspurnir varðandi svona vitleysisgang, meðal annars til fyrrverandi forstjóra, fyrrverandi heilbrigðisráðherra og fyrrverandi formanns heilbrigðisnefndar, hefur þeim fyrirspurnum ekki verið svarað.

Það er alls ekki einfalt verk að reka stofnun eins og LSH. Stofnun sem, lögum samkvæmt, getur engum neitað um þá þjónustu sem honum er þörf á og stofnunin getur framkvæmt, eða fengið hjálp við frá öðrum. Það er því afar mikilvægt að stjórnendur geti gert sér glögga grein fyrir raunverulegum kostnaðarliðum, en hrekist ekki áfram í frumskógi reiknilíkana sem sum hver virðast lítið eiga skylt við raunveruleikann. Lítum á dæmi:

Hvers vegna þarf hjartaaðgerð að vera kostnaðargreind sem mörg hundruð þúsund krónur?  Aðgerðin er framkvæmd á skurðstofu sem spítalinn á og fyrir er í sjúkrahúsinu. Hún er framkvæmd af læknum sem eru á föstum launum, hvort sem þeir gera aðgerðina eða ekki. Þeir eru aðstoðaðir af hjúkrunarfræðingum og öðrum, sem einnig eru á föstum launum. Aðgerðirnar eru gerðar á dagvinnutíma þannig að ekkert aukaálag er á launagreiðslur. Og eftir aðgerðina er sjúklingnum sinnt af hjúkrunarfólki sem gengur sínar eðlilegu vaktir, sem það hefur föst laun fyrir að sinna og sjúklingurinn dvelur á stofu í sjúkrahúsinu sjálfu.  Lítum á annað dæmi:

Þú þarft að hitta lækni á göngudeild, sem er á sinni eðlilegu vakt við að tala við og skoða þá sem leita þurfa til hans. Skoðunin tekur rétt um tíu mínútur. Skoðunin útheimtir engin, lyf, engar umbúðir; ekkert sem þarf að henda að lokinni skoðun.  Samt er þessi skoðun kostnaðarreiknuð spítalanum sem kr. 7.680. Ef 10 þúsund svona heimsóknir væru á göngudeild á ári, væri kostnaðarreikningur vegna þeirra 76.800.000, án þess að göngudeildin hefði orðið fyrir einni einustu krónu í aukaútgjöldum.

Hér hafa einungis verið tekin tvö lítil dæmi af þeirri gíkatísku vitleysu sem reiknilíkanakerfi fyrir rekstur LSH hefur að geyma. Ég tek því undir með hjúkrunarfræðinmgunum sem voru í kastljósinu; að það þarf að leita hagræðingar annars staðar en í vösum starfsfólksins sem þjónustar sjúklingana. Það vinnur nú þegar meira en fyrir þeim launum sem því er greitt.

Raunveruleikagreining á beinum rekstrarkostnaði, verulegur niðurskurður á rúmlega 600 manna liði svokallaðrar eignaskrifstofu, og fara að greiða birgjum reikninga sína á gjalddaga og hætta þar með að greiða tugi milljóna í dráttarvexti og kostnað, mundu vera risaskref í átt til hagræðingar.

Að yfirstjórnin komi fram af hroka gagnvart starfsfólki í þjónustu við sjúklinga eru skref í öfuga átt.           


mbl.is Forstjóri LSH: Mikil vonbrigði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var Árni að skrökva??

Það er skrítið að deila á Árna fyrir að vilja fá niðurstöður úr opinberri vinnu. Af grein Árna sýnist hann helst deila á ófagleg vinnubrögð við kostnaðarmat mikilvægra framkvæmda; ekki fyrir sjálfan sig, heldur heimabyggð sína, Vestmannaeyjar.

Það virðist einkum tvennt sem Árni deilir á í þessu sambandi. Annars vegar er kostnaðarmat vegna jarðganga til Eyja. Hins vegar kostnaðarmat vegna nýrrar, stærri og hraðskreiðari ferju milli Eyja og Þorlákshafnar. Tölum er velt upp, allt frá 16 til 90 milljarða, vegna kostnaðar við jarðgöng, en engar tölur vegna nýrra og stærri ferju.

Árni segir að á fundi hafi innanhússmenn hjá vegagerðinni, þar með sjálfur vegamálastjórinn, verið í órökstuddum getgátuleik um kostnað af jarðgöngum. Sá getgátuleikur hafi ekki verið studdur neinum rannsóknum eða gögnum; einungis byggður á tilfinningum.

Er hægt að ásaka mann fyrir að hafa þann metnað fyrir samgöngum við sína heimabyggð, að hann átelji jafn óvönduð vinnubrögð og þarna er lýst, sé lýsingin sönn? Hvað með metnað þeirra sem létu þjóðina borga Héðinsfjarðargöngin? Mörg stór orð hafa fallið í þeirri baráttu. Margt fleira mætti nefna, en læt þetta duga.

Margt rætnara hefur áður verið skrifað um meint óvönduð vinnubrögð opinberra starfsmanna við val kostnaðar- liða og -leiða við  opinberar framkvæmdir. Sé niðurstaða Árna röng, getur samanburðarnefndin einfaldlega birt niðurstöður sínar og vísað til þeirra gagna sem þær byggjast á, svo fólk geti metið trúverðugleikann í skrifum Árna. Niðurstöðurnar eiga að vera opinber gögn, sem almenningur á að eiga aðgang að.

Birtið samanburðarrannsóknirnar. Þá kemur í ljós hvort Árni var að skrökva.               


mbl.is Ætlar að kæra Árna Johnsen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virðingarverð afstaða

Lára Ómarsdóttir, fréttamaður fær okkur, fólkinu í landinu, afar sterkt vopn í hendur, til að krefjast þess að fólk í opinberu starfi beri meiri virðingu fyrir sjálfu sér, starfi sínu og landsmönnum yfirleitt. Hún sýnir afar þroskað viðhorf til sjálfrar sín, starfsstéttar og vinnuveitandans, með því að segja af sér.

Mig undrar verulega hve mikill fjöldi fólks er flúinn úr heimi raunveruleikans á vald tilfinningaólgu og óheflaðrar framkomu. Þessa þróun þyrft virkilega að fara að skoða, áður en hún verður þjóðfélaginu til vansæmdar.

Ég hef borið virðingu fyrir Láru sem fréttamanni. Ég hef aldrei gert þá kröfu að neinn sé óskeikull, þess vegna get ég alveg fyrirgefið Láru "gálgahúmorinn". Ég nota hann oft sjálfur til að tappa af dramaspennu.

Mig undrar óraunsæi fólks í umfjöllunum sínum. Lára hefði haft ansi rúman tíma ef hún hefði átt að komast til allra þessara sem þarna köstuðu eggjum; fá þá til að fara út í búð og kaupa eggin og stilla sér upp til að kasta þeim, og það AKKÚRAT á réttum tíma þegar stöð2 var með myndavélina í gagni.  Já fólk virðist hafa mikla trú á hæfileikum og getu Láru. Ég hins vegar set nokkuð mörg spurningamerki við að hún hafi geta komið þessu öllu í kring, þó öflugur fréttamaður sé.

En Lára færði okkur vopn. Nú getum við, fólkið í landinu, gert harða kröfu um að aðrir aðilar í opinberu starfi, axli ábyrgð á gjörðum sínum. Það hlýtur t. d. að vera alvarlegra þegar ráðherra verður uppvís að því að brjóta stjórnarskrá, en að fréttamaður sé með "gálgahúmor" baksviðis, við samstarfsmann. Eða finnst fólki það ekki?

Þakka þér fyrir framtakið Lára og vegni þér vel í framtíðinni.                  


mbl.is Hættir sem fréttamaður á Stöð 2
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mistök "mótmælenda"

Að ná árangri í réttinda- eða kjarabaráttu, krefst góðrar greiningar á markmiðum, raunsannrar þekkingar á veikleikum þess sem sótt er að, og góðrar skipulagningar og agaðra framkvæmdar, þeirra aðgerða sem hugsanlega þarf að grípa til svo árangur náist.

Áður en aðgerðir hefjast, þarf kröfuaðili að gera kröfur sínar skýrar og raða þeim upp í forgangsröð. Fyrst þær kröfur sem mikilvægast er að ná í gegn og helst að vera með ábendingu um mögulega leið til þess. Næst komi þær kröfur sem gott væri að ná inn í samkomulagið, en eru samt ekki eins krefjandi og aðalkröfurnar. Í þriðja lagi kröfur sem fyrst og fremst eru ætlaðar sem skiptikröfur, sem fella mætti út í skiptum fyrir lausn eða samning. Að síðustu þarf svo að skipuleggja sóknina; byrja með hógværum en ákveðnum þrýsting á allar kröfurnar og setja sér síðan meginmarkmið um hvenær og hvernig þrýstingur verði aukinn og gefið eftir varðandi aukakröfurnar.

Þegar sótt er að stjórnvöldum eða atvinnurekendum er sérstaklega mikilvægt að haga sókn sinni þannig að þessir aðilar upplifi sig vera þá sem hafi völdin og getuna til að láta breytignar eiga sér stað. Þess vegna er mikilvægt að sækja þannig fram að þeir geti átt hina endanlegu tilögu, sem leiðir til lausnar. Það byggist á því, að það eru þessir aðilar sem uppfylla þurfa samkomulagið. Þeir verða fúsari til að leita lausna málsins, finni þeir sig sem gerendur og að þeir eigi lausnina, frekar en ef þeir upplifa sig þvingaða til sátta.  Þetta eru fyrst og fremst sálræn atriði, en eigi að síður afar mikilvæg.

Viðhorf kröfuaðilans er einnig afar mikilvægt. Hann þarf að gæta þess vandlega að málflutningur hans eða aðgerðir, beri ekki í sér tilfinningahita, því slíkt truflar honum yfirsýn og laðar að verkefninu æsings- og öfgaöfl, sem fyrst og fremst sækjast eftir átökum og athygli.  Stöðugt þarf því að gæta að rökfestu, heiðarleika og kurteisi, og líta eingöngu á kröfurnar sem verkefni til úrlausnar en ekki sem tilfinningalegt óréttlæti.

Alla þessa grundvallarþætti vantaði í aðgerðir vörubílstjóranna. Farið var af stað með hópaðgerðum gegn samferðafólki þeirra í umferðinni. Aðgerðin var flokkuð sem mótmæli, en slíkar aðgerðir eru yfirleitt tilfinningalegs eðlis og sjaldnast með skýra mynd af lausnum; enda fyrst og fremst verið að losa um tilfinningapressu frá einhverju sem þegar hafði verið tekin ákvörðun um.

Eins og málin hafa þróast er orðið ljóst að þessi hópur vörubílstjóra mun engum árangri ná; einungis valda stéttarbræðrum sínum vandræðum og loka leiðum þeirra til eðlilegra samskipta við stjórnvöld. Í ljósi alls þessa teldi ég þá gera stéttarbræðrum sínum mestan greiða með því að lýsa því formlega yfir að þeir væru hættir öllum aðgerðum og segðu sig frá öllum samskiptum við stjórnvöld vegna þeirra mála sem til umfjöllunar hafa verið.

Það væri góð sumargjöf fyrir stéttarbræður þeirra, sem þá gætu metið stöðuna frá byrjunarreit.                    


mbl.is Sleppt úr haldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjármögnunarfyrirtæki í mótmælaaðgerðum????

Í fréttinni segir Sturla að fjármögnunarfyrirtæki eigi bílinn sem hann hefur notað til ólöglegra athafna í mótmælaaðgerðunum.

Samþykkti þetta fyrirtæki að bíllinn væri notaður með þessum hætti?

Hefur Sturla verið að brjóta umferðarlög og landslög á bíl sem aðrir eiga, án fulls samráðs við eiganda bílsins?

Vantar ekki eitthvað í dómgreind ef svo er sem virðist?     


mbl.is Sturla: „Ekki á okkar ábyrgð"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bílstjórar! Sýnið skynsemi

Ég vil skora á vörubílstjóra að sýna þá skynsemi að lýsa nú þegar yfir að þeir séu hættir aðgerðum. Eins og staðan er nú, er greinilegt að þeir eru í raun orðnir skálkaskjól æsinga- og ofbeldismanna, sem leita sér að færum til að misþyrma öðrum og valda vandræðum.

Slík aðferðarfræði hefur hvergi í heiminum skilað betra eða réttlátara samfélagi.

Vinum af hógværða saman að varanlegri lausn mála.        


mbl.is Ráðist á lögregluþjón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnubílstjórar greiða u. þ. b. 20% lægra eldsneytisverð en almennir borgarar

Rökin sem vörubílstjórar hafa notað til réttlætingar á ofbeldi sínu gegn umferð almennra borgara eru ýmist röng eða afar veik.

Þeir vilja lækkun á gjaldtöku ríkisins af seldu eldsneyti, en sú gjaldtaka hefur verið sama krónutala frá árinu 2003, og mun vist vera sú lægsta á norðurlöndum, þó jarðvegur og veðurskilyrði hér geri viðhald vega dýrara hér en þar.

Þeir segja einnig, að eftir hækkun eldsneytisverðs, greiði þeir meira í virðisaukaskatt til ríkissjóðs og vilja á þeirri forsendu fá lækkun eldsneytisverðs. Lítum aðeins nánar á þessa forsendu.

Ofan á selda þjónustu sína er vörubílstjórum skylt að leggja 24,5% skattstofn (virðisaukaskatt) til ríkissjóðs, og innheimta hann samhliða tekjum sínum. Þessum skattstofni þurfa þeir að skila til ríkisins á tveggja mánaða fresti.  Við skil bílstjóra á áðurnefndri skattinnheimtu, kemur til frádráttar allur sá virðisaukaskattur sem bílstjórarnir hafa greitt í sínum rekstrargjöldum, þar með talið virðisaukaskattur af eldsneyti.

Hvað segir þetta okkur: Jú það segir að þeir greiða virðisaukaskattinn ekki af tekjum sínum. Þeir greiða hann af innheimtum skattstofni sem ríkið á. Þegar þeir hafa dregið frá innheimtum viðrðisaukaskatti, allan þann virðisaukaskatt sem þeir hafa greitt í rekstrarkostnaði sínum, skila þeir afganginum af hinum innheimta skatti til ríkissjóðs.

Eins og sjá má af þessu er það í raun ríkissjóður sem greiðir virðisaukaskattinn í rekstrargjöldum vörubílstjóra. Atvinnubílstjórar eru því í raun á niðurgreiddu eldsneyti, og öðrum rekstrarkostnaði bíla, meðan við, hinir almennir borgarar, fáum virðisaukaskattinn í rekstragjöldum okkar EKKI endurgreiddann.   Niðurgreiðsla þessi nemur u. þ. b. 20%, þegar með væru talin hugsanlegar vaxtatekjur af innheimtum viðrðisaukaskatti.

En hvað mundi svo gerast ef virðisaukaskattur í rekstrargjöldum vörubílstjóra væri hærri en virðisaukaskattur, sem innheimtur er sem viðbót við tekjur. Mundu bílstjórar þá þurfa að greiða þann virðisaukaskatt?  Nei. þeir þurfa þess ekki. Komi það fyrir að greiddur virðisaukaskattur sé hærri en innheimtur skattur, endurgreiðir ríkið þeim það sem þeir þurftu að greina, umfram það sem þeir innheimtu.

Eins og hér hefur verið glögglega sýnt fram á, skiptir ekki máli fyrir tekjuumhverfi vörubílstjóra hvort virðisaukaskattur er nú, einhverjum krónum hærri en hann var fyrir nokkrum mánuðum síðan. Slíkt breytir einungis tölu hjá ríkissjóði, en lækkar um leið mismunatöluna á innheimtum og greiddum virðisaukaskatti, sem bílstjórarnir þurfa að skila ríkinu.

Þá er það hvíldartímaákvæðin. - Reglugerð Evrópusambandsins um hvíldartíma atvinnubílstjóra er búin að vera deiluatriði hér á landi í nokkur ár. Reglugerð þessi var fyrst og fremst sett vegna langtímaaksturs á hraðbrautum Evrópu. Slíkur akstur er slævandi, þannig að viðbragð ökumanns minnkar, auk þess sem honum hættir við að sofna undir stýri, sé ekið of lengi í einu.

Að sjálfsögðu á þessi reglugerð ekki við hjá okkur, en atvinnubílstjórar brugðust ekki rétt við á aðlögunartímanum - þeir settu ekki fram gagnleg rök til að við gætum fengið undanþágu frá þessum reglum.

Vinna við að afla undanþágu frá þessari reglu var komin vel á veg áður en bílstjórar hófu sínar aðgerðir; enda var þessi krafa ekki meðal upphaflegar krafna þeirra.  Evrópusambandið er hins vegar þung og svifasein stofnun, þess vegna tekur það tíma að koma svona undanþágu í gegnum regluverk þeirra. Betra hefði verið að gera eins og ég lagði til á aðlögunartímanum, að leggja fram skýr rök fyrir sérstöðu okkar, og fá undanþáguna meðan reglurnar voru í vinnslu hjá ESB.

Vökulögum bílstjóra verður breytt hér á landi um leið og leyfi fæst til þess frá Evrópusambandinu.

Eins og hér hefur verið rækilega bent á, líkt og í fyrri pistlum mínum um sama efni, hvet ég bílstjóra til að hætta þessu upphlaupi, því það er ýmist byggt á misskilningi eða þekkingarskorti á málefninu.

Reynið að lifa í sátt með okkur hinum. Þið eru þó alla vega afsláttarhópurinn í hækkandi heimsmarkaðsverði á eldsneyti.   


mbl.is Boðaðir í skýrslutöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarleg viðhorf bæjarfulltrúa

Maður getur nú ekki annað en undrast viðhorf Önnu Guðrúnar. Það hlýtur að teljast til undantekningar að gerð sé krafa um að bæjarfulltrúi segi af sér fyrir það eitt að afla bæjarfélaginu tekna, sem annars hefðu lent utan bæjarfélagsins. 

Líklega er fyrirtæki Soffíu það eina innan bæjarfélagsins sem boðið gat í þessa þjónustu, sem mótvægi við það að verktaki hefði sjálfur reist vinnubúðir á staðnum.  Svo virðist sem verktakinn hafi metið samninginn sér hagstæðann, sem aftur sýnir að verktakinn hefur metið gjaldið sem fyrirtæki Soffíu er að fá fyrir sína þjónustu, sér hagstætðara en að reisa sjálfur vinnubúðir eða leita til nágrannasveitarfélaga.

Bolungavík varð, að mestu, að því bæjarfélagi sem það varð þegar það blómstraði sem best, fyrir atorku og dugnað fólks sem lagði hart að sér í starfi fyrir bæjarfélagið, samhliða því að stunda egin atvinnurekstur. Slíkt er ekki nýtt í því bæjarfélagi og hefur hingað til skilað bæjarfélaginu góðu einu.

Maður hefur einhvern veginn aldrei heyrt um að Soffía og hennar fólk væri í einhverju sérhagsmunapoti, til að afla sér aðstöðu eða tekna sem beinlínis rýrðu stöðu bæjarfélagsins. Meðan ekkert slíkt kemur fram, verður mjög æpandi pólitískt mengun af þessu athæfi Önnu.

Vitað er að þeir Bolvíkingar sem fyrr hafa fellt saman störf að bæjarmálum, samhliða eigin atvinnurekstri, hafa að mestu verið kenndir við Sjálfstæðisflokkinn. Sá flokkur getur því ekki sóma síns vegna, tekið undir með Önnu, eða verðlaunað hana fyrir að agnúast út í vinnubrögð sem flokksmenn þess flokks hafa stundað um áratuga skeið. Með því væri flokkurinn að lýsa yfir vantrausti á mjög marga fyrirrverandi fulltrúa sína í bæjarstjórn Bolungavíkur, og þar með fjölskyldu Einars Guðfinnssonar, sem margir telja einskonar guðföður bæjarfélagsins.

Það verður fróðlegt að fylgjast með framhaldi þessa máls; hvort Sjálfstæðismenn hirði upp aðila sem flúði úr þeirra hreiðri og afrekaði að kasta rýrð á fyrra fyrirkomulag uppbyggingar Sjálfstæðismanna í Bolungavík, Eða hvort þeir haldi gamalli hefð og heiðri atorku, dugnað og framsýni og hefji samstarf við Soffíu og hennar fólk.

Við bíðum og sjáum hvað setur.                  


mbl.is Samstarfi slitið vegna samnings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 165580

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband