Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Fyrst og fremst vanvirðing við forseta okkar

Líklega verður seint toppuð þessi vitleysa flutningabílstjóra, að vanvirða forseta okkar með þessum hætti. Allir vita að hann hefur engin áhrif á gang mála í þeirri pressu sem bílstjórar eru að setja á ríkisstjórn og Alþingi.

Að trufla fund forseta og hádegisverð, með þeim þjóðarleiðtoga sem hvað harðast verður úti vegna yfirgangs nágranna sinna og þagnar heimsbyggðarinnar gagnvart þeim órétti sem þjóð hans er beitt, er fyrst og fremst niðurlægjandi fyrir þjóð okkar og henni til mikillar skammar.

Mér finnst bílstjórar endanlega hafa sýnt það þarna, að þeir hafa enga ráðgjöf í áróðurstækni en láta stýrast af heimskulegum uppþotum. Slík barátta hefur aldrei skilað miklum árangri, því gagnaðilarnir missa virðingu fyrir fólki sem hagar sér svona og leggja því lítið á sig til að vinna að hagsmunamálum þeirra.

Einföld staðreynd sem legið hefur fyrir í nokkra mannsaldra.


mbl.is Bílstjórar fóru með friði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarleg skoðanakönnun

Í ljósi þess að rétt hlutverk Seðlabanakns hefur EKKERT verið í umræðunni, er varla við því að búast að vitræn niðurstaða fáist úr svona könnun. 

Í opnu frelsisvæddu hagkerfi, eins og okkar, ganga eftirlits og stýristofnanir ekki fram með beinum fyrirmælum eða ádeilum á einstaka aðila eða stofnanir. Þeir koma skilaboðum sínum á framfæri með diplomtísku leiðbeiningakerfi, sem hvert um sig hefur inni að halda skilaboð sem stjórnendur meginstoða þjóðlífsins eiga að skilja.

Seðlabankinn t. d. segir ekki beint við stjórnendur banka eða annarra lánastofnana að þeir séu of útlánaglaðir eða að þeir beini lánastarfseminni í óhagstæðar áttir fyrir langtíma heildarafkomu þjóðarinnar. Seðlabankinn hefur kurteisari aðferðir. Ef hann skynjar að útlánastarfsemi er að fara yfir mörk sem geta verið þjóðinni skaðleg, hækkar hann stýrisvexti. Ef þessari viðvörun er ekki sinnt af stjórnendum lánastofnana og lantímahætta eykst, hækkar Seðlabankinn AFTUR stýrivexti.  Ef eðlilegs aðhalds í útlánum er ekki gætt, þrátt fyrir þessar aðvaranir, hækkar Seðlabankinn aftur stýrivexti og fer að birta kurteislega orðaðar viðvaranir um varhugaverða þennslu.

Allt þetta viðvörunarferli Seðlabankans er búið að standa yfir í nokkur ár. Aðvaranir hafa einnig komið frá Alþjóða- banka,  -gjaldeyrissjóðnum og fleiri aðilum. Engum þessara viðvarana hefur verið sinnt. 

Umræðan um hlutverk Seðlabanka í hagkerfi okkar hefur vægast sagt verið villandi og í yfirgnæfandi meirihluta röng. Talað er um Seðlabankann eins og lánastofnun, sem er víðs fjarri eðlilegu hlutverki hans. Hann hefur afar þröngar heimildir til útlána; og þá einungis sem neyðarhjálp til viðurkenndra lánastofnana - útlánaheimildir sem bæði eru til skamms tíma, t. d. 7 daga lán, og lán hans eru eingöngu veitt í peningum.

Meginskyldur Seðlabanka eru tvær. Annars vegar að sjá til þess að nægjanlegt peningamagn sé til, af gjaldmiðli okkar, þannig að öll eðlileg starfsemi geti gengið í þjóðfélaginu.  Hins vegar eru honum ætlað að eiga ákveðinn forða gjaldeyris, til kaupa á nauðsynjavörum fyrir þjóðfélagið í ákveðna X marga mánuði, þó öll tekjuöflun þjóðarinnar falli niður.

Seðlabankanum er ekki ætlað að grípa inní og ábyrgjast eða skuldsetja sig vegna ógætilegrar útlánastarfsemi lánastofnana til einstaklinga og fyrirtækja, - mest gervifyrirtækja, - sem stunda fjárhættu- eða fjárglæfraspilamennsku á mörkuðum í því eina augnamiði að ná til sín sem mestu af fjármagni.

Með því að fjalla ekki á eðlilegan hátt um hlutverk og skyldur Seðlabankans hafa fjölmiðlar lagst á sveif með þessu áhættu- og fjárglæfraliði, sem nú rær öllum árum að því að gera Seðlabankann nógu ótrúverðugan, svo stjórnmálamennirnir þori ekki að fara að ráðum hans. Það væri líklega einn af stærstu sigrum spillingar- og glæfraafla þjóðfélagsins.

Hjá Seðlabanka vinna margir frábærir hagfræðingar sem hafa haldið sig utan áhrifaafla lánastofnana og fyrirtækja. Sumir þessara manna hafa gengið svo langt í viðleitni sinni til að snúa þjóðfélaginu frá þeirri villu sem við erum nú þegar komin í, að þeir hafa ritað opinberar greinar í dagblöð, í von um að geta opnað augu fólksins í landinu. Því miður hefur það enn borið afar takmarkaðan árangur.

Það virðist í tísku hjá fjölmiðlafólki að persónugera aðhaldið sem Seðlabankinn er stöðugt að herða, við persónu Davíðs Oddssonar. Enginn virðist kveikja á því að þetta aðhald Seðlabankans var farið af stað meðan Davíð var forsætisráðherra. Ekki bar hann ábyrgð á Seðlabankanum þá?

Æsingaöfl fjármálamanna sem eru að lenda í erfiðleikum vegna helmings lækkunar á ÝMINDUÐU eignavirði, nú á fáum mánuðum, hafa verið vel studd af fjölmiðlum. Engin vitræn eða raunsönn umræða hefur komist þar að.

Við höfum talið okkur geta byggt framtíðarplön okkar á vitrænni umræðu, byggðri á góðri menntun langskólagengins fólks, sem hafi fyrst og fremst að leiðarljósi heildarhagsmuni þjóðfélagsins.

Sjáið þið þessa vel menntuðu leiðsögn í umræðunni í þjóðfélaginu?    


mbl.is Meirihluti ber lítið traust til Seðlabankanss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er grasið grænna handan girðingarinnar???

Eigum við að sækja um ESB aðild? Ef raunhugsun er notuð, finnst mér líklegt að margir vildu ekki leggja í þann kostnað sem því fyldi. Af hverju segi ég þetta og af hverju tala ég um kostnað?

Það sem við vitum, er að á undanförnum árum hefur Evrópusambandið verið að stækka.

Við vitum að öll þau ríki sem bæst hafa við, eru fátæk, með mikið atvinnuleysi, litlar gjaldeyristekjur, mikið minni félagslega þjónustu en við þekkjum hér.

Við vitum að þessi ríki þurfa mikla fjárhagslega aðstoð frá ESB til þess að jafna stöðu þeirra í átt til meðaltals ESB-ríkja.

Við vitum að þau ríki sem eru í biðstofunni, að bíða þess að fá inngöngu, eru líka fátæk og þurfa mikla fjárhagsaðstoð, verði þau samþykkt.

Við vitum að fjárhagslegur vandi ESB var orðinn verulegur, áður en þessi fátæku ríki bættust við ESB hópinn, og að í hinum fáu efnuðu ESB ríkjum hafa verið harðar deilur um kostnaðinn sem fylgir rekstri ESB. Sá kostnaður hefur aukist verulega við inngöngu þessara fátækari ríkja.

Við vitum að um margra ára skeið hafa endurskoðendur ESB ekki treyst sér til að skrifa upp á ársreikninga sambandsins vegna fjárhagslegrar óreiðu.

Við vitum að hluti hinna efnaðari ESB ríkja hafa neitað að auka fjárframlög sín til sambandsins og m. a. af þeim sökum höfum við verið pressuð til að hækka greiðslur okkar til sambandsins vegna EES samningsins.

Við vitum að Ísland er talið með ríkustu þjóðum Evrópu, þó við séum jafnframt líklega skuldugasta  þjóðin, miðað við fólksfjölda.

Við vitum að gjaldeyrisöflun okkar er með því hæsta sem gerist innan ESB, miðað við fólksfjölda. Í ljósi þessa munum við verða krafin um hæstu greiðslunar til ESB og á móti fá lægstu greiðslurnar frá ESB vegna hárra tekna og víðtæks velferðarstigs.

Við vitum að vegna fjölgunar ríkja innan ESB,  eru að verða breytingar á ákvarðanatökum. Vægi smáríkja er að minnka. Þessi þróun mun verða hröð á komandi árum, vegna krafna stóru ríkjanna sem leggja til megnið af fjármagninu. Þeir eru þegar farnir að krefjast meiri áhrifa á ákvarðanir sambandsins. Þeim kröfum mun ekki verða hægt að hafna, því engin ríki geta tekið stöðu þeirra í fjármögnun á rekstri sambandsins og greiðslu styrkja til fátæku ríkjanna.

Í ljósi alls þessa mun raunveruleikinn leiða í ljós að aðild að ESB mun kosta þjóðina umtalsvert meira en við munum fá í styrki. Bæði er það að vegna fjölgunar fátækra ríkja, sem þarfnast styrkja, sem og vaxandi tregðu ríkja til að fjármagna þennan kostnað; vaxandi erfliðleika, á heimsvísu, við öflun lánsfjár, versnandi stöðu ESB til lántöku vegna þess að endurskoðendur hafa ekki staðfest ársreikninga - allir þessir þættir samverkandi munu leiða til þess að styrkveitingar frá ESB munu lækka verulega á komandi árum.

Hvað varðar verðgildi gjaldmiðils okkar, eða hvað hann heitir, hefur ekkert með ESB aðild að gera. Verðgildi gjaldmiðilsins er alfarið innlend pólitísk ákvörðun. Ef okkur sýnist vænlegast fyrir þjóðina að fylgja verðgildi Evru, getum við allt eins hækkað verðgildi krónunnar, þannig að ein Króna verði jafngild einni Evru og binda síðan gengi Krónunnar við gengi Evrunnar. Slíkt er nákvæmlega sama þjóðfélagslega breytingin og að taka upp Evruna.

Ef menn treysta sér ekki í þessa breytingu, hafa þeir ekki verið raunsæir í kröfum sínum um upptöku Evru í stað Krónu.

Spurning dagsins er:  Mun fjármála-, fjölmiðla- og stjórnmálamenn okkar treysta sér til að ræða RAUNVERULEIKANN sem því fylgir að ganga í Evrópusambandið???? Ég efa það. 


mbl.is 67,8 vilja hefja undirbúning aðildarumsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar hefur greiningardeildin verið???

Er það ekki dálítið sérstakt að fyrirtæki sem gefur sig út fyrir að greina greiðslughæfi fyrirtækja og landa út um allan heim, geti ekki haldið sjálfu sér í rekstraarhæfu ástandi?

Eigum við að bera virðingu fyrir því sem þessir aðilar segja um okkur?      


mbl.is Merrill Lynch segir upp 4.000 manns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta öll fagmennskan???

Er það öll fagmennskan á bak við lánshæfismat og skuldatryggingarálag, að þessi möt taki stökkbreytingum eftir uppátækjum hálfgerðra götustráka í óprúttnum græðgissjóðum?

Þetta eru nú þættir sem þarfnast mikið meiri skýringa en þarna koma fram.            


mbl.is Vogunarsjóðir á flótta?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það virðist pláss fyrir skynsamt fólk við að stjórna samtökum alvinnulífsins

Það er erfitt að ná sambandi við þessar hugsanir þeirra atvinnulífsmanna. Þeir virðast ekki átta sig á að þjóðin er á bólakafi í skuldum, en hingað til hafa tekjur hennar ekki dugað fyrir útgjöldum. Nú eru flestar leiðir til meiri lántöku lokaðar og varla að vænta úrbóta á því sviði næstu árin. Sé skoðuð þróunin hjá öðrum þjóðum, sem hafa sokkið í skuldafenið á undan okkur, þá hefur þeim gengið illa að rétta úr kútnum. Líklega verður það svipað hjá okkur.

Líklegast er að helst vanti vitsmunaríka stjórnendur fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka, svo varanlegt jafnvægi geti farið að skapast hér á landi. Okkur hefur ekki enn tekist að fá skynsamt fólk til að stjórna landinu eða þýðingarmiklum atvinnugreinum þess.

Kannski er Hannes bara að hugsa um að gera okkur íslendinga að eins konar yfirstétt sem láti lægra sett fólk þjóna sér. Ekki langar mig að taka þátt í slíku samfélagi.       


mbl.is Baráttan um hæft starfsfólk á eftir að harðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur hluti fólks hætt að reykja??

Þegar ég hætti að reykja, varð ég að gera það allur í einu. Ég gat ekki hætt að hluta, ekki einu sinni stórum hluta.

Líklega hefur fyrirsögnin átt að vera. 

Mikill fjöldi reykingafólks hefur nýlega reynt að hætta.

Með fyrirsögninni svona er ekki verið að hluta fólk í sundur, heldur talað venjulegt íslenskt mál í venjulegri framsetningu.

Það er ekki alveg sama hvernig fréttirnar eru sagðar.


mbl.is Stór hluti reykingafólks hefur reynt nýlega að hætta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er bara búið að spá vondu. Það er ekki enn farið að blása á móti

Ég velti fyrir mér hvort fólk sem nú er á miðjum aldri, eða eldra, sé búið að gleyma hörmungunum sem dundu yfir í kjölfar óðaverðbólgunnar á árunum 1982 - 1988. Atvinna minnkaði, launin stóðu í stað, eða jafnvel rýrnuðu vegna verðbólgunnar, en skuldirnar hækkuðu á stjarnfræðilegum hraða, svo engin réði við neitt.

Það er svolítið skrítið að hugsa til þess að þegar þau ósköp dundu yfir þjóðina sem að ofan er drepið á, voru flestir sem nú eru tiltlaðir sérfræðingar í fjármálum okkar, enn námsmenn, á breytilegum aldri, allt frá gagnfræðaskóla til háskóla. Það er líka skrítið að hugsa til þess að engir þessara sérfræðinga hafa neina verklega rekstrarþekkingu úr framleiðslugreinum þjóðfélagsins, sem þýðir að þeir hafa lítið að byggja á til lausnar á þeim vandamálum sem þeir sjálfir hafa steypt þjóðfélaginu í.

Í skuldaholskeflunni fyrri, sem byrjaði í raun að vinda upp á sig 1982, stóð ég nokkur ár í afar hörðum slag við lánastofnanir, lögfræðinga og réttarkerfið, til varnar mannréttindum skuldara. Þá var verið að takast á um fjárhæðir sem eru hreinn barnaleikur á við þær fjárhæðir sem venjuleg meðalfjölskylda skuldar í dag. Slagurinn við að koma á ferli skuldbreytinga, greiðsludreifingu, óformlegum nauðasamningum og að verja venjulegt innbú fyrir uppboði, tók oft á taugarnar. Vonandi verður hægt að byggja ofan á þá reynslu sem komin er, í þeim erfiðleikum sem óumflýjanlega eru framundan.

Fyrirsögn fréttarinnar er "Róðurinn að þyngjanst." Líkingamálið að róið sé móti vaxandi vindi. Í þeirri samlíkingu tel ég, út frá reynslu minni af fyrri niðursveiflu 1982 - 1988, að enn sé einungis andvari á móti, sem vart bærir hár á höfði fólks. Líklega fer mótvindur að vaxa verulega á næsta ári, líklega upp úr miðju ári, og gæti orðið ansi stífur á árunum 2010 - 2012.

Fyrir nokkru var mér sagður afar athyglisverður draumur, sem greinilega var tengdur þjóðfélagsþáttum. Ýmislegt úr þeim draumi, eins og ég réði hann, er þegar farið að koma fram. Gangi ráðningin öll eftir, mun það ábyrgðarleysi sem sýnt hefur verið í fjármálum lánastofnana og rekstri þjóðfélagsins undanfarna áratugi, skjóta afkomustöðu okkar u. þ. b.  40 ár aftur í tímann. Það lenda margir upp á grynningum og verða strand, en það verður ekkert manntjón í þessum breytingum.

Ég óttast mjög að draumur þessi birtist í veruleikanum, því miður.   

                              


mbl.is „Róðurinn að þyngjast"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er að skapast grundvöllur til lækkunar stýrivaxta????

Nýjustu fréttir herma að einkaneysla sé að hrynja niður og kortavelta að dragast saman. Þetta eru afbragðs góðar fréttir og fyrsti raunhæfi vísirinn að því að grundvöllur sé að skapast til lækkunar stýrivaxta. Ef þessi þróun heldur áfram má allt eins reikna með því að stýrivextir byrji að lækka þegar líða tekur á sumarið. Þá er líka mikilvægt að fólk missi ekki fótanna og fari aftur á skuldafyllirí.     

Hvers vegna hækka vextirnir????

Líklega eru Þeir fáir í þessu landi sem ekki vilja græða peninga. Líklega eru þeir líka fáir sem ekki vilja hafa viðskiptafrelsi í landinu. Markmið bankanna, líkt og flestra annarra, er að græða peninga á starfsemi sinni. Leið þeirra til þess, er að lána út peninga með eins háum vöxtum og þeir komast upp með. Hvort sem bankinn tekur við innlánum til ávöxtunar og varðveislu, eða tekur peninga að láni, t. d. frá útlöndum, verður hann að geta lánað þessa peninga út til annarra aðila, til þess að fá af þeim tekjur, til að greiða þá vexti sem hann þarf að greiða þeim sem eiga-, eða lánuðu honum peningana.

Líklega vita þetta nú allir, og líklega færu flestir sömu leið og bankastjórarnir, að taka eins háa vexti af útlánum og þeir komist upp með; því þeir eins og flestir aðrir, vilja græða peninga. Erum við þá ofurseld græðgi bankanna hvað varðar vexti af lánsfé?

Svarið við þessari síðustu spurningu er NEI. Við höfum ýmis stýritæki til að lækka vextina en við þurfum meðvitað að velja hvaða tæki við viljum nota.

Við getum kvartað, eins og við höfum verið að gera, og vænst þess að stjórnvöld sjái til þess að bankarnir lækki vexti. Vegna þess að lög kveða á um að í landinu sé viðskiptafrelsi og þar með vaxtafrelsi, hafa stjórnvöld engin tök á að skipa bönkunum að lækka vexti; nema því aðeins að stjórnvöld breyti lögum og afnemi vaxtafrelsið. Er það leiðin sem við þurfum að fara? Viljum við leggja af frjálst markaðstengt peningakerfi og taka upp miðstýrt kerfi þar sem stjórnvöld ákveða með lagasetningu hvaða vexti lánastofnanir megi innheimta? Ég efa það. En, getum við haft áhrif á hvað háa vexti bankarnir taka taka?

Svo skrítið sem það er, þá felst aflið til að bæla græðgi bankanna, einmitt í því sama afli hjá okkur sjálfum, þ. e. að við getum bælt græðgina í okkur sjálfum. Við þurfum að hafa kjark til að horfast í augu við, að það er ekkert annað en græðgi okkar sjálfra, í að eignast hitt og þetta STRAX, að gera þetta eða hitt NÚNA STAX, sem heldur þetta háu vaxtastigi hjá okkur.

Líkt og aðrir fíkni-neytendur, leiðum við ekkert hugann að því hvað hluturinn sem við kaupum eða það sem við gerum, og greiðum fyrir með lánsfé, kostar okkur endanlega, einungis að við getum fengið hann STRAX. Við getum ekki hamið fíkn okkar meðan við vinnum fyrir peningunum áður en við eyðum þeim. Fíkninni verður að svala STRAX.

Líkt og fíkniefnasalar lækka ekki verð fíkniefna meðan kaupendur eru til staðar, er alveg ljóst að lánastofnanir munu ekki lækka vexti af lánsfé meðan fólk tekur fé að láni gegn greiðslu þetta hárra vaxta.

Spurningin sem við stöndum frammi fyrir er því þessi. Eigum við enn það mikið eftir af sjálfsvirðingu, sjálfsaga og sjálfsstjórn, að við getum sjálf þvingað okkur til að lifa einungis af því fé sem við höfum þegar aflað, utan þess lánsfjár sem við þurfum til fjárfestingar í íbúð og bíl?  Ef við höfum misst svo mikla sjálfsstjórn að við ráðum ekki við þau verkefni, verða stjórnvöld að taka af okkur frelsið sem við höfum til lánsfjáröflunar og skilyrða starfssemi lánastofnana við brýna hagsmuni þjóðfélagsins.

Ég held að fæst okkar vilji slíkt forræðisskipulag. En, eina leiðin til að forðast slíkt, er að taka sig á sjálfur. Engum á nú orðið að dyljast að á undanförnum áratugum höfum við lifað langt um efni fram, og eytt margfallt meiri peningum en við höfum aflað.

Einstaklingur sem í áratugi eyðir umtalsvert meiri peningum en nemur tekjum hans á sama tíma, missir lánstraust og virðingu; lendir í greiðsluerfiðleikum og endar í gjaldþroti. Sömu örlög bíða þjóðfélaga sem sýnaa fullkomið ábyrgðarleysi í fjármálaum; eins og við höfum gert í nokkra áratugi.

Viljum við að slík verði endalok fjárhagslegs sjálfstæðis lýðveldisins Ísland?????                     


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 55
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband