Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Er ekki verið að mótmæla á vitlausum tíma??????

Ég er að velta fyrir mér hvort fólk hafi fyrst núna verið að frétta af framkomu Kínverja gagnvart Tíbetum. Yfirgangur Kínverja í Tíbet er búinn að vera viðvarandi í áratugi og ítrekað verið mótmælt.

Það er hins vegar ekki ákvörðun sem Kínverja tóku, sem ræður því að Ólympíuleikarnir eru haldnir í Kína. Kínverjar eiga þar enga sök, og því afar sérstakt að blása í herlúðra gegn Ólympíuleikunum, til þess að mótmæla löngu þekktum mannréttindabrotum Kínverja.

Ef fólk hefði viljað mótmæla Ólympíuleikunum á þessum stað, hefði átt að mótmæla þegar verið var að taka ákvörðun, helst áður en hún var tekin, um að leikarnir yrðu ekki haldnir á þessum stað.

Mótmæli á röngum tíma, gegn röngum aðilum geta aldrei skilað góðum árangri, einungis kostnaðarsömum uppþotum og leiðinlegum fréttaflutningi.             


mbl.is Fer á opnunarhátíðina en ekki til að strjúka Kínverjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei! sæll og blessaður. Ert þú hér????????

Mikið lifandis ósköp held ég að erlend glæpagengi geri fínt grín að okkur. Við náum líklega svona miðlungs rýrnunarhlutfalli þeirra fíkniefna sem til landsins eru flutt og keppumst við að dæma hin erlendu burðardýr í endurkomubann.

Síðan gerist það hvað eftir annað, að þessir erlendu aðilar labba sér í gegnum  landamæraeftirlitið, líklega með nýjar sendingar af fíkniefnum. Ekkert eftirlit. Ekkert aðhald. Engin vörn gegn endurkomu. Bannið virðist því einungis ímynduð friðþæging dómara og samsóknara.

Hvernig væri nú að einhver blaðamaður spyrði ráðamenn um hvaða ráðstafanir hefðu verið gerðar til að hafa eftirlit með og hamla möguleikum hinna dæmdu til að komast aftur inn í landið.

Mikið vildi ég sjá vandaða frétt um það efni.             


mbl.is Rauf endurkomubann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

hlýnun loftslags í Háskólabíói ????????

Mikið er hann Al Gore umhyggjusamur maður, að gera sér erindi hingað til að ræða um hlýnun í Háskólabíói.

Alla vega segir Mbl. að svo sé, samanber eftirfarandi texta úr fréttinni:

Í fyrramálið kl. 8:30, flytur Al Gore erindi í boði Glitnis og Háskóla Íslands um hlýnun loftslags í Háskólabíói. 

Eins og allir vita, þá skrökvar Mbl. ekki; eða svo hélt ég að minnsta  kosti. Notalegt til þess að vita að Glitnir og Háskóli Íslands skuli hafa slíkan áhuga á hitastiginu í Háskólabíói.                   


mbl.is Al Gore á Bessastöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er verðtrygging gjaldmiðils?

Flölmargir spyrja sig þeirrar spurningar sem er fyrirsögn þessa pistils. Tilgangur hans er að gera tilraun til útskýringa á þessu fyrirbrigði sem hér á landi er kölluð verðtrygging.

Væntanlega þekkjum við öll hugtakið verðkönnun. Hugtak þetta hefur verið í notkun hér um langan tíma og lýtur ákveðnum skýrum leikreglum. Það sem borið er saman, er helst nákvæmlega sama varan, í samskonar pakkningum, frá sama framleiðanda. Sé ekki hægt að komast svo nálægt beinum samanburði, er stuðst við kíló- eða lítraverð, samskonar vöruflokka. Í verðkönnun berum við t. d. ekki saman verðhækkun á nautakjöti og verðhækkun á bensíni og segjum, að vegna þess að bensínið hækkaði, muni  sjálfvirkur reiknistuðull hækka verðið á nautakjötinu. Fyrir daga peninganna voru að vísu verðgildi mæld í ýmsum vörueiningum, t. d. að fyrir eitt lamb, fékkstu 1 sekk af korni eða fyrir 1 skippund af fiski fékkstu X mikið af einhverri annarri vöru. Þessum breytilegu viðskiptaháttum var hætt fyrir löngu og viðkipti látin byggjast á ákveðinni grunneiningu sem nefnist peningar, eða gjaldmiðill.

Gjaldmiðillinn er eignarþáttur, því hann er ekki hægt að eignast nema hafa látið einhverja aðra eign eða eignaverðmæti í staðinn. Eigninni eða eignaverðmætinu hefur þá verið breytt í ákveðna upphæð af þessum gjaldmiðli. Gjaldmiðillinn hefur ávalt ákveðið verðgildi, og hann verður að hafa sama verðgildi innan síns gildissvæðis, gagnvart öllum sem nota hann,  sama í hvaða formi sem sú notkun er.

Þar sem gjaldmiðillinn er eign, grundvallast verðgildi hans út frá eignamyndun, sem t. d.  tekjum þjóðfélagsins sem notar gjaldmiðilinn sem mælieiningu í viðskiptalífi sínu. Þar sem gjaldmiðillinn er sameiginleg mælieining þjóðfélagsins til greiðslu fyrir allar vörur og þjónustu sem selt er milli einstaklinga eða fyrirtækja, verður grunneining hans eða verðgildi  að vera algjörlega ótengt verðlagi vöru eða þjónustu innanlands.       

Gjaldmiðill þjóðar er hinn jarðfasti grunnur sem allt efnahagslíf þjóðar byggir á. Gjaldmiðillinn verður því skilyrðislaust að hafa sama verðgildi gagnvart öllum notendum hans, innan sama þjóðfélagsins. Annað framkallar alvarlega mismunun gagnvart hinum ýmsu notendum og/eða eigendum gjaldmiðilsins, og því augljóst brot á stjórnarskrá.

  Lítum í eigin barm. Undirstaða efnahagslífs flestra er vinnuframlag. Við seljum vinnuframlag í ýmsum myndum til að afla tekna. Verðgildi vinnuframlags tekur ekki breytingum út frá breytilegu verði vöru eða þjónustu í þjóðfélaginu. Þess vegna breytast laun ekkert þó verðlag þessara liða breytist.  verðgildi vinnustundar miðast við það verð sem einhver annar vill greiða fyrir vinnuframlagið. Tekjur miðast því við það verð sem fæst fyrir vinnuframlag  og getan til kaupa á vöru eða þjónustu, ræðst því fyrst og fremst af því hverjar tekjur eru.

Sé samskonar rammahutak notað fyrir heilt þjóðfélag, er eðlilegt að segja að vinnuframlag þjóðarinnar, sé verðmæti útflutnings. Geta þjóðar til kaupa á vörum eða þjónustu, frá öðrum gjaldmiðilssvæðum, byggist því fyrst og fremst á tekjum af útflutningi.

Við skiljum að það verð sem fæst fyrir vinnufarmlags okkar sjálfra (tekjur okkar), byggist á því hvað kaupandi vinnunnar vill greiða fyrir hana, en ekki því að við fáum ávalt sama magn af t. d. nautakjöti eða bensíni fyrir vinnustundina. Við ættum því að geta skilið að verðgildi gjaldmiðils þjóðarinnar verður að taka mið af tekjum þjóðarinnar, því hvað erlendir aðilar eru tilbúnir að greiða fyrir útflutningvörurnar, en ekki því að við getum ævinlega keypt sama magn af erlendum vörum eða þjónustu fyrir sama einingafjölda af gjaldmiðlinum.

Á sama hátt og laun okkar geta ekki tekið breytingum út frá verði á nautakjöti eða bensíni, er enginn grundvöllur fyrir því að verðgildi gjaldmiðils þjóðar taki breytingum út frá verði vöruflokka eða þjónustu sem þjóðin vill kaupa, þ. e. út frá neysluvísitölu.

Í áratugi hefur verið til hjá Seðlabankanum mælieiningin SDR, sem mælir meðalverðgildi allra gjaldmiðla sem við seljum í vörur okkar og þjónustu. Einskonar vísitala gengis krónunnar okkar. Þar sem krónan okkar hefur ekki, um langt árabil, verið látin fylgja verðgildi neins ákveðins gjaldmiðils, ætti hún eðli málsins samkvæmt að fylgja mælieiningu tekjugjaldmiðla, þ. e. mælieiningunni SDR.

Á það hef ég bent, allt frá árinu 1981, að hugmyndir og framkvæmd svonefndrar "verðtryggingar" krónunnar, sé brot á grundvallarreglu stjórnarskrár. Svonefnd "verðstrygging" gerir beinlínis ráð fyrir að krónan hafi mismunandi verðgildi milli tveggja innlendra aðila. Slíkt stenst ekki ákvæði stjórnarskrár, þar sem segir að allir skuli vera jafnir fyrir lögunum. Alþingi er því óheimilt að setja lög, eða stjórnvöldum reglugerðir, sem beinlínis gera ráð fyrir því að króna annars viðskiptaaðilans hafi annað verðgildi en króna hins. Það er MJÖG alvarlegt brot á stjórnarskrá.

Svokölluð "verðtrygging" er einnig brot á öðrum þáttum. Hún er brot á alþjóðlegri reglu um reikningsskil.  Það byggist á því að svokölluð "verðstryyging" tekur alla sína viðmiðunarþætti frá verðlagi seldrar vöru eða þjónustu. Í hinum alþjóðlegu reglu um reikningskil, falla allir þeir liðir sem hin svokallaða "verðtrygging" reiknast út frá, undir liði rekstrargjalda og færast því í rekstrarreikning. Peningar teljast hins vegar vera eign og eiga aldrei heima í flokki rekstrargjalda. Peningar eru ævinlega í flokk eigna í efnahagsreikningi.

Í hinni alþjóðlegu reikningsskilareglu eru afar skýrar reglur um hvaða áhrif breytingar á rekstrarliðum hafa á eignaliði.  Hækkun rekstrarliða getur ALDREI sjálfkrafa valdið auknu verðgildi eða hækkun höfuðstóls peningalegra eigna. Af því dæmi má glögglega sjá, að þar sem viðmiðunarþættir (neysluvísitalan) fyrir aukningu á verðgildi krónunnar, byggist eingöngu á liðum sem tilheyra rekstrarliðum (útgjaldaliðum), er þessi regla alvarlegt brot á alþjóðlegri reikniskilareglu, samhliða því að vera MJÖG alvarlegt brot á stjórnarskrá.       

Ef til vill meira um þetta síðar

Aðgerðir vörubílstjóra ekki byggðar á nothæfum rökum

Eins og fram kom strax í upphafi aðgerða vörubílstjóra, virðast aðgerðir þeirra byggðar á einhverju streituuppþoti en ekki yfirveguðum rökum. Þau skipti sem fjölmiðlar vísa til beinna ummæla talsmanna þessa hóps, koma ekki fram nein rök sem benda til breytigna á skattlagningu stjórnvalda á eldsneyti. Skattlagningin er búin að vera sú sama síðan 2003.

Áður hefur verið bent á, að þó innflutningsverð á eldsneyti hafi hækkað, og þar með virðisaukaskattur sem vörubílar þurfa að borga í því verði, eru það ekki aukin útgjöld fyrir vörubílana vegna þess, að við uppgjör vsk til ríkissjóðs, dregst sá skattur frá þeim vsk sem vörubílarnir innheimta með tekjum sínum.

Ef gjaldtaka stjórnvalda af eldsneyti var ásættanleg á árunum 2003, 2004, 2005, 2006, 2007, og framan af þessu ári, þá er hún jafn ásættanleg nú, eins og þá. Hækkun annarra aðila á aðföngum til reksturs bifreiða, getur ekki verið grundvöllur til uppþota gegn stjórnvöldum. 

Vel er skiljanlegt að við slíkar hækkanir á eldsneyti sem orðið hafa á undanförnu, kreppi verulega að í rekstri ökutækja; ekki bara vöruvíla. Viðurkenna má að vandi sé til staðar, en sá vandi er ekki breytt afstaða eða íþyngjandi aðgerðir stjórnvalda. Þess vegna þarf að leita lausna á þessum vanda þar sem hugsanlega liggur beinast fyrir.

Í fréttum sjónvarps í gær var birt viðtal við vörubílstjóra sem var að dæla olíu á bifreið sína. Fyllingin var rúmir 440 lítrar, sem kostuðu rúmar 70 þúsund krónur. Í fréttinni var tekið fram að þessi olía myndi duga í einn og hálfan sólahring, eða 36 klukkustundir. Það segir okkur að sú bifreið sem þarna var, eyðir u. þ. b. 12,36 lítrum á klst. Miðað við það olíumagn, mæti ætla að í bílnum væri 400 hestafla vél, eða jafnvel stærri.  Afar litlar líkur eru á að bíllinn þurfi allt þetta vélarafl til verkefna sinna, þannig að hægt væri að spara eldsneyti með því að láta færa niður vélaraflið, sem spara mundi eldsneyti, og þar með kostnað.

En hverjar gætu svo tekjur þessa vörubíls verið á þessum 36 tímum, sem hann er að eyða olíufyllingunni. Að vísu veit ég það ekki nákvæmlega, en miðað við það sem var fyrir ári síðan, gæti ég ýmindað mér að fyrir 36 tíma vinnu fengi þessi bíll u. þ. b.  400 - 500 þúsund krónur, með vsk. Olían væri þá nálægt 15 - 16 prósent af bruttóinnkomu.

Miðað við þessar forsendur, og það að við gefum okkur að þeim tækist að fá lækkun á eldsneytisgjaldi til ríkissjóðs um helming, þá væri áðurnefnd fylling olíutankans og lækka um sem nemur einnar klst. vinnu þessa bíls.  Ég held að með góðu skipulagi á andófi sínu hefðu þessir aðilar geta náð mun meiri árangri með mikið minni fyrirhöfn, og minni óþægindum fyrir almenning. 

Þarna er baravísað til eins liðar, en ýmsa  fleiri væri hægt að skoða til að takast á við þrengingu á rekstrargrundvelli, á meða þessi bylgja er að ganga yfir heimsbyggðina.

Margir eru á biðlista eftir þeim peningum sem hugsanlega er hægt að deila út frá ríkissjóði. Sjúkir bíða í hrönnum eftir lækningu. Öryrkjar og eldri borgarar fá lægri greiðslur en nemur beinum kostnaði við framfærslu. Fjöldi opinberra starfsmanna hefur  það lág laun að lífsafkomu þeirra og heilsu er ógnað. Fróðlegt væri að heyra frá vörubílstjórum hvort þeir telji sig eiga að vera á undan þessum hópum í leiðréttingu lífskjara, eða hvar þeir teldu sig eiga að vera í röðinni.

Þegar litið hefur verið yfir bílafjöldann sem að  mótmælunum standa, hefur vakið athygli mína hve fáir bílar eru merktir vörubílstjórafélaginu Þrótti. Það hefur vakið hjá mér spurningar um hvort þetta geti verið að meginstofni vörubílar á vegum verktaka, sem afla tekna sinna með útboðum. Gæti þá hluti af vandamálum þeirra verið fólginn í því að þeir hafi gert of lág til í verkin sem þeir eru að vinna og ekki gætt nógu vel að þeim horfum sem verið hafa upp í viðskiptalífinu um nokkurt skeið, sem flest bentu til vaxandi rekstrarkostnaðar.  Vafasamt er að krefja ríkið um greiðsluþátttöku í slíku, því allir landsmenn eru að taka á sig aukin útgjöld vegna þessarar stöðu í viðskiptalífi heimsbyggðarinnar.

Af öllum þessum ástæðum finnst mér að bílstjórar eigi að hætta þessum uppþotum og snúa sér að raunhæfri lausn vanda síns, sem er af sama stofni og vandi allra annarra þjóðfélagsþegna.                


mbl.is Dýr mótmæli bílstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkilegt hvað við leggjum mikið á okkur til að losna við frelsið

FRELSI, er líklega eitt það verðmætasta sem hver manneskja á. Það er eftirsóknarvert að fá það, en það er líka tiltölulega flokið OG KOSTAR AGA að halda því til lengdar. Frelsi og ábyrgðarleysi getur t. d. aldrei farið saman. Frelsi krefst þroskaðrar hugsunar og athafna sem ekki raska undirstöðum þess samfélags sem við erum hluti af. Frelsi til langframa getur því aldrei orðið einkamál einhverra einstaklinga í stórum hóp; heldur einungis orðið hluti af því frelsi sem hópurinn er samtaka um að láta virka í sínu umhverfi.

Þegar við fyrst stöndum upp og förum að ganga, erum við svo hróðug yfir því frelsi sem við finnum, að við göngum á hvað sem fyrir er og stígum óhikað ofan í saur eða þvag úr okkur sjálfum, án þess að finnast við gera nokkuð rangt. Ef við sleppum út, á þessum fyrstu gönguárum okkar, eigum við það til að hlaupa út á götu, sem þétt setin er bílum á ferð, algjörlega ómeðvituð um að við höfum stofnað okkur sjálfum og öðrum í verulega hættu og hugsanlega valdið öðrum tjóni.

Eins og sjá má af þessu, eru það ekki allar athafnir okkar sem ganga upp í reynd, heldur verðum við að læra að nýta, heildinni í hag, það frelsi sem aðstæðurnar bjóða upp á. Ef við göngum of langt, getum við upplifað frelsi í stuttan tíma, en afleiðingar þess verður ævinlega varanlegt tjón og frelsisskerðing, sem jafnvel getur staðið yfir í langan tíma.

Raunverulegt frelsi krefst því ábyrgðar, yfirvegaðrar dómgreindar og samkenndar gagnvart öllum sem búa í samfélaginu með þér. Kæruleysi eyðileggur frelsið. Svo einfalt er það.

Ef við skoðum fyrst litlu myndina, þ. e. að við ímyndum okkur 6 manna fjölskyldu, þar sem einn aðili vinni fyrir tekjum heimilisins. Allir fjölskyldumeðlimir hafa hins vegar aðgang að tekjunum og geta eytt peningum eins og hvern langar. Ég tel líklegt að flestir sjái að til þess að slíkt frelsi gangi upp, þurfi allir fjölskyldumeðlimir að sýna fulla ábyrgð í sambandið við ráðstöfun teknanna. Sé það ekki gert, festist fjölskyldan í skuldasúpu, sem í fyrstu þrengir að frelsinu, en ef fólkið  sýnir ekki ábyrgðartilfinningu er líklegt að alvarlegri frelsinsskerðing og eignatjón blasi við.

Íslenska þjóðin er að vísu nokkuð stærri fjölskylda, en fjölskylda samt, sem lifir á tekjum sem lítill hluti þjóðarainnar vinnur að öflun á. Hlutfallið í litlu myndinn er að einn, vinni fyrir tekjum handa sex. Í stóru myndinni, þjóðarheildinni, er hlutfallið enn óhagstæðara. Líklega einn að vinna fyrir tekjum til framfærslu og löngun 8 - 9 einstaklinga til eyðslu peninga. Og það hefur sýnt sig að það er afar litil stjórn sem þessir hópar hafa á LÖNGUNUM sínum, og að því er virðist ENGINN vilji til að gæta hófs eða láta á móti dutlungum sínum og löngunum.

Við getum ekki einu sinni deilt um að þetta sé nú ekki alveg rétt. Staðreyndir hins gagnstæða blasa við okkur á hverjum degi, svo útilokað er að það falli í gleymsku vegna ósýnileika.

Í fjölda ára hafa virtustu ráðgjafar alþjóðastofnana birt okkur viðvaranir vegna óhóflegrar skuldasöfnunar okkar og að tekjuöflun okkar beri ekki þá útþennslu og þann lífsstíl sem við höfum verið að koma okkur upp.

Óvitar okkar í fjármálastofnunum og fullkomlega óábyrgir stjórnmálamenn, hafa hins vegar ekki hlustað á þessar viðvaranir. Óvitarnir í fjármálaheiminum líklega vegna þess að sú staða sem var uppi, skapaði þeim möguleika á að ná til sín lánsfjármagni, og skapa sér tímabundinn tekjuauka, meðan hið óábyrga lið sem í daglegu tali er kallað "stjórnvöld" hélt í óvitaskap sínum að hið skammtíma lánsfé væri ríkidæmi okkar, og því þyrfti nú aldeilis ekkert að hafa hugsun á því hvernig þessu fjármagni væri bruðlað út í loftið.

Við, almenningurinn í þessu landi, segjum svo að fyrst stjórnvöld og fjármálastofnanir þurfi ekki að sýna ábyrgðartilfinningu og ráðdeild, sé engin ástæða til að við séum að gera það heldur. Okkur finnst t. d. engin ástæða til að nota neitt af þeim þúsundum lítið notaðra bíla, sem til eru í landinu (á heimilinu). Við göngum bara í sjóði heimilisins og kaupum nýja bíla í þúsundavís, en hinir eru látnir standa og grotna niður.  Okkur kemur ekkert við þó þjóðin (heimilið) eyði á hverjum mánuði mikið meira fjármagni en nemur tekjum okkar. Okkur finnst við ekki eiga að bera neina ábyrgð á því og eyðum því sjálf umtalsvert meiri peningum en nemur tekjum okkar.

Þó þjóðin skuldi nú í útlöndum, fjárhæð sem er það hærri en eignaviði okkar, sem nemur u. þ. b. tekjum okkar næstu 8 - 9 árin, er hvorki sjáanlegt að almenningur, stjórnmálamenn eða fjármálastofnanir, séu tilbúin til að axla ábyrgð á óvitaskap og vitleysu undanfarinna ára.

Í þessu ljósi getur tæplega verið langt þangað til okkur tekst, með þessu samstillta átaki okkar, að losa okkur við það mikilvægasta í lífi hvers manns, sem er frelsið til að lifa í fjárhagslega sjálfstæðu landi og ráða sjálf hvernig við ráðstöfum tekjum okkar.

Þegar maður hugsar til ráðdeildar, eljusemi og hugrekkis forfeðra okkar við uppbyggingu þess sjálfstæða frjálsa lýðveldis sem Ísland var fyrir tæpri hálfri öld, undrast maður dálítið eljusemi nútímamannsins að eyðileggja þá miklu vinnu sem foreldrar og fyrri ættmenni lögðu á sig til að skapa afkomendum sínum góða undirstöðu til að byggja ofan á. Þeir væntu þess áreiðanlega að byggt væri ofan á það sem þeir höfðu byggt upp. Þeir áttu áreiðanlega ekki von á að það sem þeir höfðu byggt yrði rifið niður í ábyrgðarleysi og skeytingarleysi fyrir framtíðarfólkinu í þessu landi.

Á okkur hefur svo sannarlega sannast máltækið, að:

SJALDAN LAUNAR KÁLFUR OFELDIÐ.               


mbl.is Nýskráningar bifreiða aukast um 14,8%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grafalvarlegt þegar valdamiklir stjórnmálamenn skilja ekki stöðu þjóðfélagsins

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ingibjörg Sólrún sýnir opinberlega að hún skilur ekki grundvallaratriði fyrir fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar. Sé miðað við þau embætti sem hún gegnir, annars vegar formaður næst stærsta sjórnmálaflokks þjóðarinnar, en hins vegar utanríkisráðherra, er hér um mjög alvarlega stöðu að ræða.

ALLIR, sem eitthvað hafa fylgst með þjóðmálum undanfarin ár, vita að við höfum farið einstaklega illa með tekjur okkar, og flutt inn ýmiskonar óþarfa og drasl, fyrir mikið hærri fjárhæðir en nemur tekjum okkar. Mismunur þarna á (viðskiptahallinn) hefur verið hrikalegri en áður hefur þekkst, án þess að stjórnvöld geri minnstu tilraun til að reka þjóðfélag okkar innan þess tekjuramma sem það hefur.

Venjuleg sígild heimilishagfræði, felst í því að reyna sem mest að drýgja tekjur heimilisins með því að framleiða sjálf það sem hægt er. Svo ekki þurfi að eyða af litlum tekum til að greiða fyrir það sem hægt er að framleiða sjálfur. Nákvæmlega sömu lögmál eiga við um þjóðarheimilið. Það vantar mikið á að við höfum tekjur til að borga allt það sem við flytjum nú þegar til landsins, svo augljóslega eigum við enga peninga (gjaldeyrir) til að kaupa þær kjötvörur sem við getum framleitt sjálf.

Nú, en vilji fólk samt flytja þessar vörur inn, verða þeir hinir sömu, að sjálfsögðu að benda á hvað eigi að hætta við innflutninga á, svo gjaldeyrir verði til, til að greiða þær innflutningsvörur sem við viljum ekki framleiða sjálfir.

Þeir sem leggja til innflutning á vörum sem við getum hæglega framleitt sjálf, opinbera fyrst og fremst vanþekkingu sína á þeim grundvallarþáttum sem ráða afkomuþáttum í þjóðfélagi okkar. Það heimili sem ekki kann að lifa innan tekjumarka sinna, getur aldrei vænst betri hagsældar, því þar skortir yfirsýn og skipulag til að raunverulegur vöxtur geti átt sér stað.

Þessi sömu lögmál hindra Íslensku þjóðina í að ná sömu lífskjörum og aðrar þjóðir. Stjórnendur okkar skilja ekki grundvallarþætti raunhæfs vaxtar.

Það er meinið.          

 


mbl.is Ráðherra vill ekki óheftan innflutning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins og óþekkir krakkar í sælgætisbúð

Við upphaf þessara aðgerða atvinnubílstjóra benti ég á, hér á bloggsíðu minni, að þessar aðgerðir mundu ekki skila þeim árangri sem þeir væntu. Astæðurnar eru augljósar. Það eru ekki aðgerðir stjórnvalda sem valda hækkun eldsneytisverðs. Og stjórnvöld hafa engin tök á að hafa nein áhrif á þá þætti sem valda hækkun eldsneytis. Þessar staðreyndir lágu fyrir ÁÐUR en til aðgerða var gripið. Aðgerðirnar eru því byggðar á röngu mati á aðstæðum, eða skorti á dómgreind til að geta séð heildarmynd þessara aðstæðna. Hvorutveggja er slæmt.

Það sýnir ótrúlegan dómgreindarskort af hálfu skipuleggjenda þessara aðgerða, og virðingarleysi þeirra fyrir þeirri hættu sem þeir eru að skapa samborgurum sínum, að teppa umferð um stofnbrautir Í BÁÐAR ÁTTIR, þannig að langar raðir bíla myndist. Hættan sem af slíku skapast er beinlínis vítaverð og engar afsakanir til sem réttlæta slíkt.

Það er hægt að fyrirgefa slíkan asnaskap einu sinni, en þegar endurtekin er sama ógnin gegn almannaöryggi, er samúðin fljót að hverfa.

ÞIÐ ERUÐ BÚNIR AÐ TAPA ÞESSARI BARÁTTU MEÐ ÞESSUM ASNASKAP. 


mbl.is Mestu tafir hingað til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir talar í kastljósinu um skuldir bankanna sem greiða þarf á næstu þremur árum

Ég verð að viðurkenna að ég varð hissa á kærulausri umfjöllun forsætisráðherrans um skuldir bankanna. Hann sló fram að skuldir þeirra, sem greiða þyrfti næstu þrjú árin, væru 24 milljarðar Evra. Islensku töluna af því mætti fá með því að margfalda með 120. Sé það gert, kemur út að þessar skuldir séu 2.880 milljarðar íslenskra króna, eða sem svarar útflutningstekjum þjóðarinnar næstu 8 - 9 árin. Hvað var gert við alla þessa peninga?

Eitthvað af þessu fjármagni getur verið hjá bönkunum sjálfum, því sagt er að þeir séu vel birgir af lausafé. Annað hefur hins vegar líklega verið lánað út. Þá er að spyrja næst.  Var þetta fé lánað til eignalausra eða eignalítilla, óábyrgra aðila, sem lítlar eða engar líkur eru á að greiði þessi lán til baka.

Sé það svo. Hver er þá ábyrgð stjórnenda bankanna, sem tekið hafa himinhá laun, bónusa og önnur eignavirði, sem þóknun fyrir ábyrg og fagleg vinnubrögð?  Hver er ábyrgð stjórna þessara banka á því fé sem allir virðast reikna með að sé tapað?

Áður en ég tel kominn tíma til að tala um lántökur ríkissjóðs til styrktar bönkunum, finnst mér nauðsynlegt að allar þessar upplýsingar séu komnar fram. Sé þetta svona, eins og almennt virðist vera gert ráð fyrir.  Hvers vegna taka þá ekki ALLIR stjórnendur þessara banka pokann sinn, en skilja bankabókina sína eftir í bankanum?

Stjórnir og stjórnendur smáfyrirtækja eru gerð persónulega ábyrg fyrir ólögmætum athöfnum eða aulahætti sem veldur öðrum skakkaföllum. Á slíkt bara við litlu kallana, en ríkið borgi vitleysuna sem þeir stóru gera?

Eigum við ekki að biðja um þessi svör?               


« Fyrri síða

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 164819

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband