Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Það er heimskuleg fjármálastjórn að safna miklum sjóðum en samhliða greiða mikla dráttarvexti

Flestir þekkja hvað stjórnvöld hafa hælt sér af því að tekjuafgangur hafi verið mikill af rekstri ríkissjóðs undanfarin ár. Það er því fyrst og fremst opinberun um annað hvort þekkingarleysi á fjármunastýringu eða fullkomið virðingarleysi fyrir þegnum þessa þjóðfélags, að greiða himinháa dráttarvexti vegna nauðsynlegra útgjalda mikilvægasta bráðasjúkrahúss landsins.

Margar ástæður liggja áreiðanlega til grundvallar viðvarandi hallarekstri Landspítalans. Ein af ástæðunum gæti t. d. verið fólgin í því hve skrifstofuliði spítalans hefur fjölgað gífurlega undanfarin ár, ásamt fjölda vanhugsaðra kostnaðarliða s. s. eins og við tölvubúnað og símakerfi, auk ýmissa gæluverkefna sem ekki hafði verið leitað fjárheimilda fyrir áður en til kostnaðar var stofnað.

Þá er einn afar þungur rekstarliður spítalans fólginn í hinum mikla fjölda útlendinga sem hér hafa dvalið utan löglegrar skráningar, bæði við störf og sem dvalargestir. Þetta fólk veikist eins og annað fólk og leitar þá aðstoðar á Landspítalanum. Ekki er spítalanum heimilt að neita þessu fólki um hjálp, en líklega er léleg innheimtan hjá spítalanum á reikningum vegna þessarar þjónustu. Fjöldi þessara ólöglegum dvalargesta er ekki þekktur og þar með er einnig ekki gert ráð fyrir þessum útgjaldaliðum í rekstraráætlunum spítalans.

Margir aðrir þættir eru tvímælalaust ástæður þessa vanda, en aðalvandinn er tvímælalaust þroskaskortur stjórnenda fjármála ríkisins, þar sem þeir virðast ekki hafa skilning á því hve víðtækan kreppuvanda þeir eru að búa til með því að greiða ekki rekstrarkostnað spítalans á réttum tíma.

Menn með svona lítinn skilning á verkinu sem þeir eiga að vinna, væru ALLS EKKI nothæfir til sjós og yrði sparkað í land við fyrsta tækifæri.

En kannski er raunin sú að það þurfi ekkert vit eða þekkingu á verkefninu, til að vera stjórnmálamaður eða ráðherra á Íslandi?                  


mbl.is Nauðsynlegt að bregðast strax við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilja þeir ekki muninn á þjóðbanka og leikfangabúð???

Líklega verður maður að hætta að vonast eftir skilningi bankamanna á mikilvægustu grundvallarþáttum við reksur banka í sjálfstæðu þjóðfélagi. Þau ummæli sem fram koma í þessari frétt benda meira til þess að þar séu að tala menn sem lifa í óraunveruleika leikfangalands. Lítum á nokkur dæmi.

Í fréttinni segir:

Efnahagsumhverfið er bönkunum fjandsamlegt, að mati Greiningar Glitnis.

Hvernig getur efnahagsumhverfi þjóðar sem nýtur hæsta mögulegs verðs  fyrir framleiðsluvörur sínar, verða einum af aðalbönkum þjóðarinnar fjandsamlegt? Verðmætasköpun er í hámarki þeirrar getu sem fyrirtæki gjaldeyrissköpunar geta afkastað, en bankarnir hafa lítið sinnt því undanfarna áratugi að efla atvinnugrein útflutningstekna þjóðarinnar, og verða því að skrifa hið "fjandsamlega" umhverfi sem þeir telja þrengja að sér, á sinn eigin reikning, því þeim láðist að stækka þá köku sem þeir vildu lifa af.

En, hvað skildi nú vera það fjandsamlegasta sem Glitnismenn upplifa? 

Takmarkað aðgengi að lánsfé og þar með hverfandi innstreymi af erlendum gjaldeyri...

Hafa þessir menn sleppt öllu sem heitir "hagnýt skynsemi" og orðnir sjúkir fíklar, í sívaxandi spennu eftir aukningu á veltu? Hvað hefur orðið af hyggjuviti, fyrirhyggju og öryggri framtíðarsýnar? Er ekkert af þessum grundvallarþáttum fjárhagslegs sjálfstæðis þjóðar, lengur til staðar innan veggja bankakerfisins?

Þegar ég var í hagdeild banka (fyrir rúmum 20 árum) barðist ég fyrir því að fá heimildir fyrir skuldbreytingum lána. Þetta var erfitt því samtryggingin var þá mikil. Yfirmenn sumra banka voru mjög strangir á því að það væru bara óáreiðanlegt fólk sem ekki gerði sér grein fyrir því að lán yrði að greiða til baka á þeim tíma sem lánstíminn væri. 

Vitað er, að nú þegar hafa bankar safnað að sér erlendum skuldum, langt umfram það sem mögulegt er að greiða á þeim lánstíma sem á lánunum munu vera. Þrátt fyrir þessa staðreynd telja bankamenn það fjandsamlegt umhverfi að geta ekki fengið meira lánsfé. Þarf ekki að skipta þarna um stjórnendur til að fá vitræna hugsun inn í bankakerfið okkar?  

Samkvæmt fréttinni, skiptir greiningadeild Glitnis vandamálum sínum niður í þrjá þætti:

Í fyrsta lagi hafa  sveiflur í gengi krónunnar mikil áhrif á efnahagsreikning bankanna og þar með eigið fé þeirra og afkomu.

Sveiflur á gengi krónunnar verða fyrst og fremst vegna þess að lánastofnanir stýra fjármálum þjóðarinnar ekki þjóðinni í hag. Þeir áætla og skipuleggja meiri notkun gjaldeyris en gjaldeyrissköpun þjóðarinnar er, og skapa þannig eftirspurn og vöntun gjaldeyris. Það gefur eigendum gjaldeyris færi á að krefjast hærra verðs fyrir gjaldeyrinn, en hærra verð á gjaldeyri er einmitt sveifla á krónunni.

Í annan stað hefur skortur á erlendu fjármagni þurrkað upp gjaldeyrisskiptamarkaðinn og hækkað fjármagnskostnað.

Ég veit ekki hvort fólk almennt, geri sér grein fyrir hvað þarna er verið að segja. Þetta segir okkur að bankamenn hafi verið að taka erlend lán til að skapa sér gjaldeyrissjóð til að braska með. Sé líkingin sett inn í umhverfi fjárhættuspilara, þá var þessi lánaði gjaldeyrir, spilapeningarnir, sem þeir fengu lánaða hjá spilavítinu. Vegna lélegrar spilamennsku, (ótraustra og ótryggðra útlána) hafa spilapeningarnir tapast og enginn vill lána þeim meira til að halda áfram spilamennskunni.

Er þetta hin trausta fyrirhyggja í fjármálum sem hið sjálfstæða þjóðfélag byggir tilveru sína og sjálfstæði á?   Síðsta sundurliðun þeirra er eftirfarandi:

Loks veldur gengislækkun krónunnar verðhækkunum innfluttra vara, sem leiðir til hækkunar verðtryggðra eigna. 

Þetta er athyglisvert. Þeir sem hafa lært einföldustu jöfnuþætti bókhalds vita að verðhækkanir kostnaðarliða valda auknum útgjöldum. Ef tekjur aukast ekki meira en kostnaðarhækkunum nemur, duga tekjur ekki fyrir útgjöldum og taprekstur verður. Taprekstur hefur þau áhrif að uppsöfnuð eignastaða minnkar, til að greiða þau útgjöld sem tekjur gátu ekki greitt.  Þrátt fyrir þessi einföldu grunnsannindi reikningsjöfnunar, segja snillingarnir í greinignadeild Glitnis, að verðhækkun innfluttra vara, leiðir til hækkunar verðtryggðra eigna. 

Hvaðan koma þessar eignir sem verða til vegna kostnaðarhækkana? Hvað var það sem skapaði þessar eignir?  Og þeir segja:

„Bankarnir munu samtals bókfæra um 27 milljarða króna í hækkun verðtryggðra eigna umfram skuldir á öðrum fjórðungi ársins 2008.“

Tekjur bankans voru ekki að aukast. En eignir hans jukust um 27 milljarða meira en skuldirnar. Hvaðan komu þessar eignir????

Segið okkur endilega frá því.            

     


mbl.is Glitnir: Umhverfið fjandsamlegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru máttarvöldin á móti þeim???

Ég velti því fyrir mér hvort máttarvöldin sé eitthvað andsnúið framgöngu Saving Iceland hópsins. Mig minnir að þau hafi lent í roki og rigningu í fyrra  og nú brestur á með roki og rigningu um leið og þau reysa tjaldbúðir sínar.

Er þetta algjör tilviljun, eða eru máttarvöldin ósammála vinnuaðferðum þeirra?

Þetta vekur umhugsunWoundering      


mbl.is Styðja Saving Iceland á hljóðlátan hátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misskilningur hjá Guðna að lántaka sé brýnust.

Ég heyrði í Guðna Ágústssyni, formanni Framsóknarflokksins í sjónvarpinu í gærkvöldi. Þar talaði hann um að brýnast væri að Seðlabankinn tæki 500 milljarða lán núna, til að efla gjaldeyrissjóðinn. Þetta er mjög alvarlega mislesið í aðstæður í þjóðfélagi okkar.

Engar stórfjárfestingar eru á næsta leiti, sem kalli á mikla aukningu gjaldeyrisforða. Engin sérstök vá, er í sjónmáli og gjaldeyrisstaða Seðlabanka virðist í þokkalegu standi miðað við eðlilegar þarfir þjóðarbúsins.

Sú vá sem fyrir dyrum er, stafar á ógætni og barnaskap stjórnenda bankanna okkar. Birtist sú ógætni í gífurlegum erlendum lántökum, langt umfram það sem þjóðfélagstekjur geta borið. Og barnaskapurinn birtist í því að þeir lána þetta fjármagn út til kaupa á verðbréfum sem um langt tímabil (nokkur ár) höfðu hækkað í verði, langt upp fyrir raunvirði þeirra fyrirtækja sem þau voru skráð á.

Nú virðist komið í ljós að mikið af þessum útlánum hafi einnig verið án haldbærra trygginga, því í Fréttablaðinu í dag er fjallað um að vegna lækkunar verðbréfa í Kauphöllinni, sé ljóst að bankarnir verði að afskrifa yfir 80 milljarða á þessu og næsta ári. Ég hef á tilfinningunni að þessi tala sé enn vanmetin og muni fara langleiðina í að tvöfaldast áður en fer að glitta í jafnvægisumhverfi.

Brýnasta verkefni stjórnvalda nú, er að auka við myndun gjaldeyristekna sem hraðast, til þess að minnka svo sem hægt er samdrátt í þjónustustarfsemi. Það er ekki heilbrigð skynsemi fólgin í því að ætla lengur að taka erlend lán til að halda uppi þjónustustarfsemi, sem tekjur þjóðarbúsins geta ekki borið uppi. Það hefur þegar verið gert of lengi.

Aukning gjaldeyristekna verður hraðast og best keyrð upp með því að auka heimildir til þorskveiða um 70 - 100 þúsund tonn á næsta fiskveiðiári, eða frá sept 2008 - ágúst 209. Á sama tíma mætti vinna markvisst og hratt að uppbyggingu og fjármögnun annarra gjaldeyrisskapandi starfssemi, sem stjórnendur bankanna hafa ekki sinnt um að rækta og efla. Líklega vegna þess að slíkt er langtímafjárfesting með nokkurra ára bið eftir gróða fjárfestanna. Slík langtímahugsun er hins vegar nauðsynleg í stærstu bankastofnunum hvers sjálfstæðs þjóðfélags, vilji það ekki vera stöðugt háð fjárframlögum frá erlendum aðilum.           


mbl.is Þjóðin þarf festu í landstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er dómur Hæstaréttar endir þrætunnar????????????

Að sjálfsögðu væri æskilegast að dómar Hæstaréttar væru endir þrætumála og að sem flestir gætu fundið fyrir réttlæti skína út úr niðurstöðum þess dóms. Því miður hefur Hæstarétti okkar ekki tekist að skapa sér slíkt álit hjá þjóðinni. Líklega má rekja það til of margra mistaka dómara við niðurstöður deilumála, þar sem niðurstöður þeirra ganga gegn viðurkenndu siðferðislegu réttlæti, mannréttindum sem við höfum skuldbundið okkur til að virða, sem og gegn ákvæðum stjórnarskrár og einstökum lögum.

Ég geri mér grein fyrir að hér er hátt reitt til höggs, en fyrir öllum þessum atriðum eru til gögn, gefin út af Hæstarétti sjálfum.  Tilvitnunaratriðin gætu verið mörg, en ég ætla að láta nægja hér að vitna til mistaka í einu máli. Vegna umræðunnar um kynferðisbrotamál, vísa ég í dóm Hæstaréttar í einu slíku.

Þar komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að hinn ákærði hefði brotið gegn ákæranda, en sýknaði samt hinn ákærða vegna þess að rannsókn málsins hefði dregist svo lengi hjá lögreglu og saksóknara.

Á grundvelli mannréttinda ákæranda, hafði Hæstiréttur enga heimild til að gera upptæka réttarstöðu hans til skaða- og miskabóta. Og því síður til að sýkna hinn ákærða af dómi fyrir brot sem rétturinn viðurkenndi sjálfur að hinn ákærði hefði framið.

Fyrst Hæstarétti fannst lögregla og saksóknari hafa tafið málið of lengi, hefði rétturinn eðlilega átt að dæma þessa aðila til bótagreiðslna til þolenda í málinu, í stað þess að gera upptæka réttarstöðu ákæranda og láta þann aðila sitja uppi með brotið óbætt, og um leið sýkna þann aðila sem dómurin viðurkenndi að hefði brotið gegn ákæranda.

þetta er alvarlegt klúður sem Hæstiréttur hefur ekki enn þurft að svara fyrir.

Mörg fleiri dæmi er hægt að tína til, þar sem Hæstiréttur skriplar á réttlæti og mannréttindum. Of margar niðurstöður frá Mannréttindadómstól bera slíku einnig glöggt merki; auk nýlegs álits Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

Meðan vinnubrögð Hæstaréttar eru ekki vandaðari en raunin er nú, er engin leið að kalla niðurstöður hans endi á þrætuferli.   

 

                  


mbl.is Á Hæstiréttur aðeins að tjá sig í dómum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óheiðarleikinn skín af Eldingarmönnum

Svona er einungis hægt að skrökva að fólki sem lítið eða ekkert þekkir til aðstæðna. Eldingarmenn segja hvalaskoðunarsvæðin vera frá 8 - 18 mílur út frá Reykjavík. Þetta veit ég að ekki rétt, því ég hef verið á handfærum á þessu svæði undanfarin ár. Helsta hvalaskoðunarsvæðið er svona 5 - 12 mílur út frá Reykjavík, enda komast skipin ekki yfir stærra svæði nema því aðeins að þau stoppi ekkert til að leita að, eða skoða hvali.  Ferðin tekur ekki nema þrjá klukkutíma og ef skoðunarskipin færu út á 16 mílur, myndu þeir einungis hafa u. þ. b. hálfa klukkustund til að leita að og skoða hvali. Slíkt yrði skoðunarfólk ekki ánægt með.

Ég veit að þegar þessi skip eru komin 4 - 5 mílur út af Gróttu, fara þau að dóla um og leita efir hvölum. Í rólegheitum dóla þeir út undir 8 - 10 mílur, ef lítið er um hvali, en vegna stutts tíma sem hver ferð tekur, reyna þeir að fara sem styðst.

Að skrökva til að réttlæta ótuktarskap, er birtingarmynd afar sérstakra persónuleika.

Að fjölmiðlar skuli láta hafa sig að fíflum í svona málum, er fyrst og fremst sýnishorn á hve litla vandvirkni þeir leggja í umfjöllun sína og, eins og í þessu máli, leggja óheiðarlegum mönnum lið við að skrökva að fólkinu í landinu.

Áreiðanlega fá þeir að gjalda óheiðrleikans. Fróðlegt verður að sjá í hvaða mynd það gjald verður látið falla.               


mbl.is Eltu hvalafangara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna fengu þau ekki betri leiðbeiningar ???????

Ég vil byrja á því að segja að ég vil Paul Ramses, og konu hans, allt það besta og tel að íslensk þjóð gæti verið stolt af að þau fengju hér dvalarleyfi. Það breytir hins vegar ekki þeirri tilfinningu minni, að í máli hans sé verið að sópa upp pólitísku moldviðri. Hugsanlega til að breiða yfir illa grundaða aðferðarfræði við að afla honum dvalarleyfis hér.

Af ástæðum sem ég ætla ekki að tilgreina hér, þá hef ég fylgst afar náið með ástandinu í Kenya, fyrir og eftir forsetakostningarnar. Á tímabili var ástandið slæmt, og að mínu mati alveg rétt ákvörðun hjá Paul að yfirgefa landið, á þeim tíma. Þeir hættutímar eru hins vegar liðnir hjá, og koma vonandi ekki aftur.

Sú hætta sem steðjaði að Paul, stafaði af störfum hans fyrir stjórnarandstöðuna og mótframbjóðandann gegn sytjandi forseta. Þess ber hins vegar að geta, að nú er þessi aðili, sem Paul var að berjast fyrir, orðinn forsætisráðherra í sáttastjórn sem mynduð var eftir málamiðlun fyrrverandi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Hættu- og ófriðarástand er því ekki lengur til staðar í Kenya, í þeim mæli sem var þegar Paul þurfti að yfirgefa landið.

Við gerum ekkert hættulegra eðlilegri rökfræði og raungildi mannúðarsjónarmiða, en að gengisfella hugtökin "lífshætta" og "pólitískar ofsóknir", í því augnamiði að ná fram niðurstöðu mála sem við berjumst fyrir, en hafa ekki gildishlaðin raunveruleika fyrir þessi hugtök. Í heimi þar sem siðferði fer hratt hnyggnandi en ofbeldi hratt vaxandi, getur verið hættulegt fyrir litla þjóð, að hafa ekki raungildi í framangreindum hugtökum. 

Þið baráttuglaða fólk!  Snúið ykkur að því að finna rökheldar ástæður fyrir því að Paul og konan hans fái dvalarleyfi hér á landi og látið af því að þvinga stjórnvöld til að eyðileggja nauðsynleg viðmiðunarhugtök, sem þurfa að halda raungengi sínu þegar raunveruleg lífshætta vofir yfir flóttamanni. Í raun er ekki hægt að líta á Paul sem flóttamann, þar sem stjórnmálaleiðtogi í flokki hans er forsætisráðherra lands hans.

Biðjum fyrir því að mál þessarar fjölskyldu leysist farsællega og þau geti notið friðar, frelsis og hamingju.                        


mbl.is Viljum fá að vera áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afar athyglisverð frétt

Þessi frétt er allrar athyglki verð. Þarna viðurkennir aðalbankastjóri Landsbankans að bankarnir sjálfir greiði lítið sem ekkert í tryggingasjóð innlána og að sjóðurinn sé líklega of lítill. En fari svo að að á hann reyni muni Seðlabanki viðkomandi lands taka lán til að greiða út tryggingabætur.

Með þessu er verið að segja að, eftir að áfallið er dunið yfir og tryggingabætur greiddar, muni skattgreiðendur og sparifjáreigendur þurfa að greiða niður lánið sem tekið var til að greiða tryggingarnar út, en eigendur og stjórnendur bankanna sitja að sínum auði óskertum, því bankinn var bara hlutafélag.

Er það þetta sem felst í ábyrgðinni sem stjórnendur banka segjast bera og þeir eru taldir þurfa ofurhá laun til að bera alla þessa miklu ábyrgð????

Sjá ekki fleiri þessa hrópandi vitleysu sem í þessu felst, að láta bankana sjálfa ekki fjármagna þennan tryggingasjóð, svo hann standi traustlega undir þeirri ábyrgð sem hann á að bera??                 


mbl.is Spyrja um öryggi sparifjár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband