Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Samninganefndir hafa ekkert ákvörðunarvald

Vegna þess að samninganefndir hafa  ekkert ákvörðunarvald, taka samningsniðurstöður þeirra  ekki gildi fyrr en eftir að lögleg kosning í stéttarfélagi hefur samþykkt tillögur samninganefnda. Þegar tillaga samninganefndar hefur verið samþykkt, lýkur starfstíma nefndarinnar og umboði hennar gagnvart þeim samning sem stéttarfélag hefur samþykkt.  

Samninganefnd getur því ekki með neinu móti raskað niðurstöðu  kjarasamnings sem staðfestur hefur verið með löglegri kosningu í stéttarfélagi.       


mbl.is Óska eftir lögfræðiáliti á frestun samninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir sem fjármagna þessa vitleysu hafa greinilega ekkert lært

Það er nú í raun ósanngjarnt að ætlast til að menn sýni meiri skynsemi en þeir a hafa til að bera.                
mbl.is Reisa 95 leiguíbúðir fyrir aldraða í Kópavogi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarlegur hugsunarháttur þarna á ferð

Svo lengi sem ég man eftir, hefur ævinlega verið sagt að lög gildi EKKI aftur fyrir sig. Iðulega hefur verið til þessa vitnað þegar sett hafa verið lög til hagsbóta fyrir sjúka eða aðra afskipta minnihlutahópa. Þá hefur aldrei verið hægt að greiða bætur lengra aftur en til þess tíma sem lögin voru samþykkt.

Þess vegna kemur mér einkennilega fyrir sjónir að þeir sem brotið hafa þau lög sem voru í gildi, þegar brotið var framið, teljist ekki þurfa að taka út refsingu fyrir brot sitt, vegna þess að LÖNGU eftir að brotið var framið, var lögunum breytt þannig, að frá þeim tíma sem lögunum var breytt, var heimilt að gera það sem áður var lögbrot.

Þessi rökfræði er svo fáheyrð heimska að sú þjóð sem beitir slíkri rökfræði getur vart gert tilkall til að flokkast sem VEL MENNTUÐ ÞJÓÐ. Ótvírætt myndi sú þjóð flokkast með afar lága siðferðisvitund og enga skynjun hafa á hugtakinu "réttlætiskennd".

Við getum svo velt fyrir okkur heimild stjórnvalda til sjálfstæðrar breytingar á áhættustýringu sjálfstæðra lífeyrissjóða. Stjórnvöld hafa ENGA stjórnunarlega aðkomu að starfsemi lífeyrissjóða, og þar með ENGA heimild til lagabreytinga um aukningu áhættuþátta við ávöxtunarstýringu þess fjármagns sem sjóðsfélagar eiga í sjóðunum.

               


mbl.is Ræddu ekki um afnám refsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hve mikið seldu þeir ?

Það er náttúrlega aldrei til bóta að einhverjir hætti sölu á vörum okkar. Viðbrögðin við slíku hljóta alltaf að ráðast af því hver hlutdeild þess fyrirtækis er í sölu á útflutningsvörum okkar. Mun það verða merkjanlegt í heildarverðmæti útflutnings, að t. d. þetta fyrirtæki hættir sölu? Mun önnur söluaukning gera meira en að dekka það verðmæti sem sala þeirra var?

Marga þætti vantar inn í þessa frétt svo hægt sé að mynda sér einhverja skoðun á því hvort þetta er í raun og veru frétt, eða hvort hér er á ferðinni vanhugsað áróðursbragð, án alls slagkrafts.              


mbl.is Hætta að kynna íslenskar vörur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin ákvæði í lögum um að vextir lánastofnana séu jafnir stýrivöxtum Seðlabanka

Ákvörðun lánastofnana um vexti á útlánum er að öllu leiti ótengd ákvörðunum Seðlabanka um stýrivexti, enda eru lánastofnanir EKKI að lána út fé sem þær hafa tekið að láni hjá Seðlabanka.

Engin lánastofnun á landinu hefur rökrænar forsendur fyrir því að hafa hæstu útlánavexti nú hærri en 8%, miðað við c. a. 3% vaxtaálag.  Engin sú spenna er nú á útlánamarkaði að ástæða sé til þess vaxtaokurs sem hér viðgengst.

Það er með öllu óskiljanlegt að stjórnvöld skuli ekki vera búin að gefa ríkisbönkunum  skýr fyrirmæli um hraða lækkun vaxta, því forsendur verðmætasköpunar eru ekki fyrir hendi í þessu landi með eins háa útlánavexti og hér eru við lýði.

Engar gildar afsakanir eru til fyrir því að lækka ekki útlánavexti STRAX.                    


mbl.is Nýi Kaupþing lækkar vexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirtækin sjálf greiða EKKERT til lífeyrissjóðanna

Í þessari frétt virðist Vilhjálmur halda fram fullyrðingu sem hann á að vita að er kolröng. Allar greiðslur sem til lífeyrissjóða fara eru hluta af launakjörum starfsmanns. Ekkert framlag atvinnurekenda er greitt til lífeyrissjóða.

Samtök atvinnurekenda hafa lengst af verið afar hjákátlegur hópur, sem virðist eiga erfitt með að skapa sér, af eigin verðleikum, velvilja og virðingu meðal þjóðarinnar. Eitt skýrasta dæmið um þetta er krafa þeirra um að skipa stjórnarmenn í lífeyrissjóðina, þó engin uppsöfnun fari þar fram undir nafni þeirra eða kennitölu.

Starx við upphaf lífeyrissparnaðar, var ljóst að launafólk yrði að fara milliveg að því 10% marki sem sett var sem skyldugreiðsla til söfnunar lífeyrisréttinda. Eins og venjulega, voru atvinnurekendur ekki reiðubúnir til að fallast á eðlilegar launahækkanir. Millilending varð því sú að launafólk gaf eftir 6% af kröfu um beint reiknuð laun, en í stað þess greiddi atvinnurekandinn, í nafni launamannsins, þessi 6% til þess lífeyrissjóðs sem starfsmaðurinn tilheyrði.

Staðreyndir eru þær, að ENGAR eignauppsafnanir eru í lífeyrissjóðum landsmanna undir nafni neins atvinnurekanda. Allar eignir lífeyrissjóðanna eru tengdar nafni launafólks. Atvinnurekendur hafa því engan rétt til setu í stjórnum söfnunarsjóða lífeyrisréttinda launafólks; og þeir hafa ALDREI haft neinn rétt til stjórnarsetu þar.

Í ljósi þessa segir ég við Vilhjálm okkar blessaðann. Gerðu þig ekki að meiri kjána í augum almennings en nauðsyn krefur. EF atvinnurekendur EIGA innistæðu í einhverjum lífeyrissjóðum launafólks, væri gagnlegt að fá upplýsingar um nafn þeirra sjóða.            


mbl.is Hugmynd um lífeyrissjóði án fulltrúa SA ótæk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vill Sjálfstæðisflokkurinn ekki eðlilegt lýðræði ?

Það vakti athygli mína við lestur alls sem sagt var og skrifað á Alþingi í sambandi við setningu fyrstu stjórnarskrár Lýðveldis okkar, hve Sjálfstæðismenn voru andvígir því að þjóðin hefði beina aðkomu að gagnrýni á störf Alþingis, í gegnum það ákvæði að forseti hafni undirritun laga og vísi þeim þar með til þjóðarinnar.

Engu var líkara en Sjálfstæðismenn teldu sig þurfa sérstaklega á því að halda að eðlilegur lýðræðislegur vilji þjóðarinnar gæti ekki stöðvað ætlunarverk þeirra við lagasetningu. Marg oft kom fram að þeir treystu ekki á að forsetinn færi að öllu eftir vilja þeirra, þess vegna væru sterkar líkur á að hann tæki vilja þjóðarinnar fram yfir vilja Sjálfstæðismanna og neitaði um staðfestingu laga. Af þessum ástæðum kröfðust Sjálfstæðismenn þeirrar þverstæðu í upphaflegu stjórnarskránni, að lagafrumvarp sem Alþingi samþykkti, yrði að lögum þó forsetinn staðfesti þau ekki, en féllu úr gildi ef þjóðin hafnaði þeim. 

Á þeim tíma sem leið, frá samþykkt lagafrumvarps á Alþingi, þangað til búið var að halda þjóðarakvæðagreiðslu um þau, gat hin umrædda lagasetning verið búin að vinna allan þann skaða sem af slíkum lögum yrði; sem þá yrði ekki bættur því lögin voru í gildi á þeim tíma sem skaðinn varð.

Nú eru Sjálfstæðismenn drulluhræddir um að eðlileg og réttlát stjórnarskrá verði samin af stjórnlagaþingi, án þess að þeir geti beitt sinni alkunnu frekju og klækjabrögðum til að ná fram vilja sínum. Þetta má vel merkja af gjammi stuttbuxnaliðsins, sem einróma gjammar flokkshollustuna af álíka eldmóð og öfgatrúarhópar eru sakaðir um að  boða trúarrit sín.

Berið þið saman eldmóðinn í trúarboðskap gjammaranna hjá Sjálfstæðismönnum og ofsatrúarhópa múslima, gyðinga, eða annara trúarhópa. Sjáið hvað einstrengisnhátturinn er líkur.       

 


mbl.is Tekist á um stjórnlagaþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hámarka þarf verðmæti úr takmörkuðum auðlindum þjóðarinnar

Líklega byggist afstaða stjórnar Jötuns á því að þeir hafi gleymt því að afrakstur fiskimiða okkar hefur frá öndverðu verið hráefni verðmætasköpunar þjóðarinnar og sú verðmætasköpun hafi einungis að hluta til farið fram með því að sjómenn veiði fisk.

Í sjálfu sér er eðlilegt að menn hafi gleymt þessu, þar sem meira en aldarfjórðungur er síðan útvegsmenn rændu fiskverkafólkið, og um leið þjóðarbúið, hluta af heildartekjum hinna unnu sjávaráfurða, sem þjóðin seldi, áður en útvegsmenn sölsuðu undir sig meginhluta verðmætis fiskimiðanna og seldu úr landi sem hráefni til fullvinnslu í útlöndum.

Við upphaf fiskveiðistjórnunar, eða á árinu 1986, varð heildarafli á Íslandsmiðum 1.651.357 tonn. Heildar söluverðmæti þessa afla varð kr. 35.468.286.000 krónur, eða sem svaraði kr. 145.569 á hvern einasta íbúa landsins. Hlutdeild sjómanna og útvegsmanna í þessari verðmætasköpun, að meðtöldum löndunum og sölum erlendis, var rétt um 52.92% eða kr. 18.770.796.000.

Það sem hér er nefnt, er einungis ein af mörgum birtingarmyndum hins rangláta fiskveiðistjórnunarkerfi, sem varð til nánast án allrar umræðu, vegna þess að útvegsmönnum tókst að skapa sér pólitískan velvilja stjórnmálamanna sem í raun voru óvitar hvað varðar þjóðarhagsmuni. Þeir leyfðu útvegsmönnum að sölsa undir sig meginhluta af hráefni fiskvinnlsunnar í landinu, til að selja það úr landi sem hráefni, til frekari úrvinnslu og neytendapakkningar í öðrum löndum.

Afleiðingarnar urðu, eins og löngu er orðið kunnugt, algjört hrun á atvinnulífi sjávarbyggðanna í kringum landið, en þar hafði fiskvinnsla víða verið 40 - 50% atvinnulífs í byggðunum, og í raun verið undirstaða margra annara atvinnugreina.

Óhjákvæmilegt er, við þá endurskipulagningu á þjóðfélagi okkar, sem nú þarf að fara fram, að tekið verði til gagngerar endurskoðunar og hámörkunar, verðmætasköpunin úr auðlindum fiskimiða okkar. Eigingirni sjómanna og útvegsmanna, sem nánast hafa einokað þessi verðmæti undanfarna áratugi, verða menn að setja niður í kassa og loka vel, svo slíkur hugsunarháttur hvíli í ró og gleymist.

Við lítum þann mann ekki mjög hýru auga, sem vill bara njóta tekna sinna SJÁLFUR, en ekki leyfa konu sinni, börnum eða öðrum fjölskyldumeðlimum að njóta heimilistekanna með sér, vegna Þess að hann sótti tekjur, vann fyrir þeim, og kom með þær inn á heimilið. Hann eigi því EINN rétt á að ráðstafa þeim að eigin vilja.

Í smækkaðri mynd er það einmitt þetta sem stjórn Jötuns er að segja, án þess að þeir geri sér fulla grein fyrir því, vegna skorts á heildarhugsun; hugsun um aðra fjölskyldumeðlimi, þ. e. þjóðfélagsþegna.

Það er eðlilegt að slík heildarhugsun sem hér er vakin athygli á, virki framandi og ókunnuglega fyrir mörgum, þar sem slík hugsun hefur ekki verið kennd í fræðslu eða uppeldismálum í nokkra áratugi. Á sama tíma hefur lífsgæðum verið haldið uppi með sífelldum erlendum lántökum, sem nú verða ekki auknar á næstunni, vegna hruns á fjármálakerfum heimsins.

Við verðum því að endurstilla þjóðfélagsmynd okkar og byggja undirstöður okkar á eigin tekjumyndun þjóðarinnar, en ekki reikna með erlendum lánveitingum til að halda uppi neyslu- eða þjónustustigi. Sá tími er liðinn.         


mbl.is Vilja ekki skerða ferskfisksútflutning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverð leikflétta

Þetta er mjög dæmigert fyrir Sjálfstæðismenn. Þegar þeir eru í minnihluta hóta þeir meirihlutanum "umræðum", sem þeir sjálfir kalla málþóf, þegar þeir eru í meirihluta. Þegar þeir eru í meirihluta, segja þeir líka oft að minnihlutinn verði að sætta sig við að lýðræðislegur meirihluti afgreiði mál frá Alþingi. Slíkt virðist ekki eiga við þegar þeir eru í minnihluta.

Að leggja fram tillögu um að allir þættir frumvarpsins um breytingar á stjórnarskrá verði dregnir til baka, gegn því að Sjálfstæðismenn samþykki þjóðaratkvæðagreiðslu, er alveg lýsandi fyrir virðingarleysi Sjálfstæðismanna fyrir vilja þjóðarinnar. Þessi tillaga þeirra passar alveg við þá lýsingu sem ég dró fram af hroka þeirra í öðrum pistli fyrr í dag, ásamt því sem fram kemur í pistlum mínum um fyrstu stjórnarskrána.

Vonandi fer þjóðin að sjá þennan stjórnmálaflokk í réttu ljósi og setja hann til hliðar, sem öfgaflokk sérhagsmuna, eins og hann hefur réttilega opinberað sig á undanförnum áratugum.          


mbl.is Geta fellt sig við þjóðaratkvæðagreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérkennileg framganga Sjálfstæðisflokksins.

Framganga Sjálfstæðismanna á Alþingi nú, verkur óneitanlega athygli. Afar lítið fer fyrir þjóðhollustu þeirra. Hins vegar virðast þeir berjast eins og óuppaldir ofvirknisjúklingar, fyrir því að fá enn að ráða öllu varðandi stjórnun þjóðfélagsins. Þó þeir hafi sýnt svo rækilega, einkanlega undanfarna mánuði, að þeir beita alls ekki styrk sínum í þágu þjóðarheildarinnar.

Framganga þeirra gegn frumvarpi til stjórnskipunarlaga er svolítið sérstök, þegar tekið er tillit til þess sem farm kemur í þessu tiltekna frumvarpi. Þar er lagt til að þjóðin eigi þær auðlindir sem ekki eru í einkaeigu, og að ekki megi selja þær eða láta þær varanlega af hendi. Þetta virðist fara sérstaklega illa í taugakerfi Sjálfstæðismanna, sem þó hafa lagt í mikinn herkostnað gegn landeigendum, í svonefndum "Þjóðlendumálum", til að ná undir ríkið sem mestu af jarðnæði landsins, með þeim auðlindum sem þar kunni að finnast.

Þarna er svo einkennileg þverstæða í rökfræði Sjálfstæðismanna að það jaðrar við geðklofa. Auðlindir þjóðarinnar sem fáeinir "vildarvinir" Flokksins arðræna og misnota, án nokkurra traustra lagaheimilda, má alls ekki kveða á um með skýrum hætti að séu, og skuli um alla framtíð vera sameign þjóðarinnar. Hins vegar eyða þeir hundruðum milljóna af fjármunum ríkisins, í greiðslur til lögfræðinga, til rökstuðnings við að ríkið (þjóðin) eigi rétt á auðlindum sem hingað til hefur verið sátt um að tilheyri eignarrétti lögbýla.

Því verður ekki neitað að það er á ákveðinn máta sorglegt að lesa um framgöngu Sjálfstæðismanna á Alþingi, allt aftur til stofnunar lýðveldis okkar á árinu 1944. Starx við gerð fyrstu stjórnarskrár lýðveldisins, gengu þeir fram af hörku til að ná öllum völdum lýðveldisins undir sinn vilja, með því að ræna völdum æðsta valdsins (forsetans/áður konungsins) inn til Alþingis, og gera þjóðina þannig háða vilja alþingismanna.

Sem stærsti stjórnmálaflokkurinn, sáu þeir auðvitað hve miklar líkur væru á því að þeir væru oftast í stjórn, en sjaldan í stjórnarandstöðu. Þeirra framganga hefur ævinlega verið með þeim hætti að þeir ávaxta ekki pund þjóðarheildarinnar. Þeirra aðalsmerki hefur ævinlega verið sérhagsmunir útvalinna fylgismanna þeirra.

Fyrstu áratugi lýðveldisins, gekk Sjálfstæðismönnum frekar illa að fá langvarandi samstarf við aðra stjórnmálaflokka, því hinir flokkarnir voru allir félagslega hugsandi. Það er því fyrst með stofnun Viðreisnarstjórnarinnar 1959, sem myndast langtímasamband, er Alþýðuflokkurinn gekk til samstarfs við Sjálfstæðismenn. Það tímabil varð 12 ár.

Segja má að Alþýðuflokki hafi tekist að koma ýmsu góðu til leiðar á þessu tímabili, en Sjálfstæðismenn unnu einnig ötullega á sínum hagsmunavetvangi. Þeir voru þá, ekki síður en nú, kolfnir í fylkingar undir kápunni. Innan Flokksins var hópur sem hafði heildarhagsmuni sem forgangsatriði, en sá hópur þynntist með árunum, þegar eldri menn viku fyrir hinum yngri, sem ekki skildu hagsmuni þjóðarheildarinnar.

Vegna allrar þessarar forsögu Sjálfstæðismanna er vel skiljanlegt hve harkalega þeir leggjast gegn setningu laga um Stjórnlagaþing, þar sem stjórnarskrá lýðveldisins verði breytt, án beinnar aðkomu Alþingis eða sjórnmálaflokkanna. Með þeirri aðferð sem nú er boðuð, er beinlínis verið að taka af þeim neitunarvald gegn breytingum stjórnarskrár, sem þeim finnast hagsmunum sínum óhagstæð. En á þessu neitunarvaldi hafa ævinlega strandað þær breytingar stjórnarskrár, sem mest þörf hefur verið á að koma í framkvæmd.

Með ákveðnum hroka tókst þeim að komast upp með, á Alþingi 1944, að telja sjálfgefið að alþingismenn væru þeir einu sem treystandi væri til að bera hagsmuni þjóðarheildarinnar fyrir brjósti. Þeir ljáðu því ekki máls, utan einstaka þingmanna þeirra, að hægt væri að treysta þeim einstakling sem þjóðin mundi kjósa fyrir forseta, til að hafa að leiðarljósi hagsmuni sem þeir gætu sætt sig við. Hvers vegna skildi það hafa verið?

Á þessum tíma voru tiltölulega fáir Íslendingar sem töldust efnaðir menn. Meginþorri þjóðarinnar var svona rétt sjálfbjarga með nauðþurftir. Mjög margir áttu sér þó þann draum að verða efnahagslega sjálfstæðir, en það var einmitt grunnhugtak Sjálfstæðisflokksins í öndverðu. Hugtak sem veiddi vel, meðan margir áttu "sjálfstæðisdrauminn" í framtíðarsýn sinni.

Þegar Sjálfstæðismenn sáu hve auðveldlega þeir gátu blekkt stóran hluta þjóðarinnar til að kjósa stefnu Flokksins, þó grundvallargildum þeirrar stefnu væri ekki framfylkt í framkvæmdinni, var eðlilegt að þeir ályktuðu sem svo að einhver snjall einstaklingur gæti blekkt þjóðina til að kjósa sig sem forseta, en koma svo í ljós, eftir kosningar, sem harður andstæðingur þeirrar sniðgöngu stefnuskrár sinnar, sem Sjálfstæðismenn hafa alla tíð stundað. Þetta var hætta sem Sjálfstæðismenn gátu ekki tekið. Þess vegna mátti forsetinn ALLS EKKI hafa óumdeild völd.

Greinilega er innri hugmydafræði um vegtyllur innan Sjálfstæðisflokksins, enn undir sömu áhrifunum. Það sýnir glöggt framganga þeirra nú í stjórnarandstöðu, eftir að hafa hrakist úr stjórnarráðinu vegna hræðslu við að takast á við spillt yfirgangsöfl í innri hring valdakerfis Flokksins.

Nú reynir því á þjóðina, hvort hún hafi þroskast nóg, til að hugsa sjálfstætt og í löngu samhengi, hvað það sé í raun sem hafi valdið því hruni sem við erum að ganga í gegnum.           


mbl.is Umræðu um stjórnarskrárfrumvarp frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 5
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 56
  • Frá upphafi: 165769

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 44
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband