Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010
25.3.2010 | 13:05
Enn skortir á heiðarleika
Ég velti fyrir mér hver tilgangur blaðamanns Mbl. sé með því að greina ekki heiðarlega frá því hvaða hópa Ásgerður tók fram fyrir, við úthlutun í gær. Baðamaðurinn vísar í fréttatilkyningu hennar, en greinir samt ekki satt og rétt frá því sem þar kemur fram. Hann segir fréttina þannig að ætla megi að frétt Fréttablaðsins hafi verið rétt, en sleppir því að greina frá sannleikanum.
Hver er tilgangurinn, blaðamaður Mbl.???????????????????????????????????
Mismunun litin alvarlegum augum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.3.2010 | 12:54
Málið litið alvarlegum augum
Kæra Marta! Þarna félst þú á prófinu fyrir vandaða stjórnsýslu, með því að tjá þig um mál án skoðunar á hinni hliðinni. Í hinni röngu frétt Fréttablaðsins kom fram að allir hefðu fengið aðstoð, þannig að engum var í raun mismunað.
Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig Fréttablaðið réttlætir þau ósannindi sem blaðamaður þess beitir. Mér er stórlega til efs að í mannréttindayfirlýsinum finnist refsiþáttur gagnvart því að afgreiða fyrst mæður með ungabörn og eldra fólk, sem erfitt á með að standa lengi í biðröð.
Kæra Marta. Mér sýnist að þú sést, líkt og fjöldi annarra landsmanna, ennþá með hlaðna byssuna, tilbúin að skjóta fyrst og spyrja svo síðar, ef ekki verður komin önnur uppákoma til að fá smá fjölmiðlaathygli út á.
Hvernig væri nú að fara bara á námskeið í opinberri þjónustustjórnun, svo svona frumhlaup þurfi ekki að endurtaka sig?
Óheimilt að mismuna borgarbúum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.3.2010 | 14:44
LÍÚ ærist án þess að þora að segja sannleikann
Þegar maður heyrir rökleysis-ruglið í talsmönnum LÍÚ og SA, er óhjákvæmilegt að maður setjist niður og velti fyrir sér hinum eðlilegu skýringum á þeirri brjálsemi sem fram kemur í málflutningi þeirra. Hvað er það í þessari umræddu lagasetningu um skötuselinn, sem veldur slíkum látum. Er líklegt að það séu þessi 1.000 tonn á ári, næstu tvö árin, sem lagasetningin hljóðar upp á? Mér finnst það afar ólíklegt. Hvað annað felst þá í þessari lagasetningu?
Fljótt á litið má sjá alvarlega aðför að eignarskráningu útgerðarfyrirtækja á verðmæti aflaheimilda. Samkvæmt því kerfi sem verið hefur, höfðu útgerðirnar úthlutað 2.500 tonnum af skötusel. Leiguverð á aflaheimild skötusels er sögð hafa verið 300 kr. kílóið. Þessi 2.500 tonn gera því að eignfærlsuvirði, í efnahagsreikning fyrirtækjanna, samtals um 750 milljónir.
Útleiga á aflaheimild skötusels, frá stjórnvöldum, er hins vegar ákveðin kr. 120 hvert kíló. Slík verðlagning á öllum 2.500 tonnunum gerir samtals að eignvirði aðeins 300 milljónir. Þessi eina, en þó litla, ákvörðun stjórnvalda um verðskráningu á söluverði aflaheimilda hefur því gífurleg áhrif á bókhaldslega eignastöðu útgerðarfyrirtækja á aflaheimildum. Hvað skötuselinn varðar, hrapar skrá eignfærsla úr 750 í 300 milljónir. Það er bótalaus niðurfærsla um hvorki meira né minna en 450 milljónir króna
Ef við reyndum í fljótu hasti að velta fyrir okkur hvaða áhrif þessi ákvörðun Alþingis muni hafa á söluvirði og eignfærslu allra aflaheimilda, gæti það litið svona út. Ákveðið er að skötuselur skuli leigður út á 120 krónur kílóið. Skötuselur er 1,65 þorskígildi. Það þýðir í raun að þorskígildiskíló verði leigt út á kr. 73 hvert kíló.
Ef við gefum okkur nú að heildarafli allra fiskitegunda sé um ein milljón þorskígildistonna og að hvert slíkt tonn væri að verðgildi, til útleigu, kr. 73.000, væri heildar eignvirði aflaheimilda samtals kr. 73 milljarðar. Mig minnir að eignvirði aflaheimilda hafi verið talin rúmlega 400 milljarðar. Þetta litla framtak sjávarútvegsráðherra virðist því vera að færa eignfærslustuðul aflaheimilda niður um c.a. 327 milljarða.
Í þessu sambandi er rétt að geta þess að útvegsmenn hafa aldrei fengið lögformlegar heimildir fyrir því að eignfæra aflaheimildir í efnahagsreikninga fyrirtækja sinna. Eignfærslan er því alfarið á þeirra ábyrgð, án bótaréttar úr hendi ríkissjóðs. Kvótaleiguna hafa þeir haft svona háa, til að geta réttlætt hinar háu eignfærslutölur, svo efnahagur fyrirtækja þeirra liti betur út, varðandi veðhæfi gagnvart lánsfé.
Það fer varla á milli mála að með þessari litlu ákvörðun, var sjávarútvegsráðherra að velta af stað mikilli skriðu hreinsana í sjávarútveginum. Hreinsana sem allt eins gætu fært þjóðinni aftur þá virðisaukningu sem útvegsmenn náðu frá henni, með yfirgangi, þegar framsal aflaheimilda var heimilað. Útvegsmenn fóru strax langt út fyrir allar lagaheimildir, er þeir tóku að SELJA, gegn peningum, þær aflaheimildir sem þeim var einungis heimilt að AFHENDA án endurgjalds, líkt og þeir höfðu sjálfir fengið.
Kannski veltir lítil þúfa þungu hlassi. Hver veit?
Sjómenn taka þátt í störfum sáttanefndar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.3.2010 | 11:10
Undarleg viðbrögð Árna og Sævars
Aukning skötuselskvóta þýðir auknar tekjur fyrir skipstjórnarmenn og almenna sjómenn. Ég skil því ekki þau viðbrögð sem Árni og Sævar láta í ljós, vegna aukins kvóta í skötusel. Það á ekki að skipta neinu máli fyrir þá, hver veiðir hinn umrædda kvóta, heldur einungis að kvótinn verði sem mestur, til tekjuauka fyrir félagsmenn þeirra.
Það er merkilegt að fylgjast með þessari Revíu útvegsmanna, vegna skötuselsins. Þeir láta eins og himin og jörð séu að farast vegna 2.000 tonna af skötusel á tveimur árum. Það muni rústa trúverðugleika þjóðarinnar gagnvart öðrum þjóðum. Þeir höfðu hins vegar engar áhyggjur af þesum sama trúverðugleika þegar margir tugir þúsunda tonna af kolmunna og makríl voru veidd af íslenskum skipum, utan kvóta, og umfram það sem fiksifræðingar höfðu ráðlagt að veitt væri úr stofnunum.
Andstaða LÍÚ snýst heldur ekki um skötuselinn sem slíkan. Andstaðan snýst um aðferðina við að úthluta honum. Með því að stjórnvöld leigi sjálf út aflaheimildirnar, kemur um leið ákveðið verðgildi á leigt þorskígildiskíló. Verðið sem sagt er að verði leiguverð skötuselsins virðist verða u.þ.b. 25% af söluverði á fiskmarkaði. Verði sú rauni á, verður LÍÚ klíkan að lækka leiguverð á þeim aflaheimildum sem þeir leigja frá sér, að sambærilegu marki, því annað mundi kalla á málaferli og jafnvel sviptingu á úthlutunkvóta til þeirra.
Hinn þátturinn sem LÍÚ klíkan hræðist, er að þessi regla með skötuselinn, að stjórnvöld leigi sjálf út allar viðbótarheimildir rjúfi ólöglega einokun þeirra á aflaheimildunum. Þar sem þeir hafa engar lagaheimildir fyrir því að þeir einir eigi að njóta úthlutunar aflaheimilda, hafa þeir heldur engin haldbær rök til að verjast því að stjórnvöld fari þá leið.
Eina færa leið þeirra er röksemdalaus frekja og yfirgangur. Í þeim ham er þeim alveg sama hvernig afleiðingar slíks koma niður á þjóðarheildinni. Stærstu útgerðirnar hafa haft nokkra milljarða í hreinar tekjur á ári, bara af leigu aflaheimilda. Ef þessar tekjur verða teknar af þeim hrynur spilaborg þeirra. Það gæti verið nauðsynlegur lokaáfangi hreinsunar eftir fjárglæfraævintýri undangengis áratugar, þannig að auðlindir þjóðarinnar færu aftur að nýtast þjóðinni sjálfri til uppbyggingar velferðar og efnahagslegs sjálfstæðis.
Í ljósi alls þessa er það Árna Bjarnasyni, formanni Farmanna- og fiksimannasambandsins og Sævari Gunnarssyni, formanni Sjómannasambandsins, til alvarlegrar smánar, hvernig þeir bregðast við opnun fyrir aukningu aflaheimilda. Hagsmunir félagsmanna þeirra snúast ekki um það hver fái peninga fyrir aflaheimildirnar, heldur að aflaheimildirnar séu nýttar.
„Nefndarmenn eru hafðir að fíflum“ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.3.2010 | 16:34
Hvað felst í “fyrningarleið”?
Þegar fjallað er um mikilvæg hagsmunamál þjóðarheildarinnar, er mikilvægt að fólk geri sér fulla grein fyrir hvað orð þeirra og gerðir þýða fyrir þjóðfélagið. Þetta er sagt vegna þess að ég dreg í efa að hugmyndasmiðir Samfylkingarinnar hafi gert sér grein fyrir hvað felist í hinni svokölluðu fyrningarleið þeirra.
Hugtakið fyrning, byggir á niðurfærslu eða úreldingu skráðrar og bókfærðrar eignarstöðu, þess sem fyrna á. Í ljósi þess að aflaheimildum hefur alla tíð verið úthlutað fyrir eitt ár í senn, og að í 1. gr. laga um fiskveiðistjórnun kemur skýrt fram að: Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum, getur vart verið um eign að ræða.
Þegar þess er gætt, að úthlutun aflaheimilda er einungis til eins árs í senn, og afar takmarkaðar heimildir til nýtingar þeirra að loknu úthlutunarári, verður ekki séð að myndast geti eitthvert fyrnanlegt eignarréttarákvæði varðandi aflaheimildir. Þegar þess er einnig gætt, að ákvörðun um úthlutun aflaheimilda, til næsta komandi fiskveiðiárs, er ekki opinberuð fyrr en undir lok hvers fiskveiðiárs, og engar bindandi lagareglur áskilja tilteknum útgerðum (skipum) tiltekið hlutfall úthlutaðra aflaheimilda, verður ekki séð að útgerðir eða fiskiskip eigi neina eignarréttarlega kröfu eða stöðu gagnvart aflaheimildum. Eina lögleidda úthlutunarreglan er viðmið við meðalafla þriggja undangenginna ára, sem lögleidd var í upphafi og ævinlega vísað til í framhaldinu.
Þrátt fyrir þessar staðreyndir, er stöðugt verið að tala um að ákveðin fiskiskip og útgerðir EIGI ákveðna tiltekna hlutdeild í úthlutuðum aflaheimilda hvers árs. Ég hef margítrekað spurt eftir lagaforsendur fyrir slíku, en engin svör fengið. Það er í raun ekkert skrítið að slíkar lagaforsendur finnast hvergi, enda hefur slíkt aldrei verið sett í lög. Slík lögbinding væri auk þess alvarlegt brot á 1. gr. laga um fiskveiðistjórnun, sem sérstaklega tekur fram að: Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Af þessum augljósu ástæðum getur engin útgerð eða fiskiskip talið sér neinar aflaheimildir til eignar.
Þegar bent er á þetta, bíta útvegsmenn í skjaldarrendur og segja að þeir eigi víst tiltekið hlutfall úthlutaðra aflaheimilda. Þeir hafi keypt þær dýru verði af öðrum útgerðum. Þar sem þeir hafi greitt fyrir aflaheimildirnar, eigi þeir þær með réttu og slíkur eignarréttur sé varinn af stjórnarskrá.
Rétt mun vera að útgerðir hafi keypt aflaheimildir af öðrum útgerðum. EN, gættu þeir þess sem keyptu, að seljandinn hefði lögformlega heimild til að selja, það sem selt var?
Ég hef hvergi í gögnum Alþingis fundið neinar forsendur fyrir því að einhver ákveðin skip eða útgerðir, eigi ófrávíkjanlegt tilkall til einhverrar tiltekinnar hlutdeildar í úthlutuðum heildarafla. Ég hef heldur hvergi fundið heimildir Alþingis fyrir því að hinar úthlutuðu aflaheimildir væru SELDAR, milli aðila. Samkvæmt lögum um fiskveiðistjórnun er einungis heimilt að flytja (framselja) aflaheimildir milli skipa, en SALA er hvergi leyfð.
Algenga svarið við þessum röksemdum er að sjávarútvegráðherra hafi heimild til að ákveða fasta aflahlutdeild á ákveðin skip og einnig að ákveða hvort aflaheimildir séu seldar milli skipa. Er eitthvað til í þessu?
Samkvæmt fjárreiðulögum, er það einungis Alþingi sem getur tekið ákvörðun um langtímasamninga um eignaverðmæti þjóðarinnar. Að mati Ríkisendurskoðanda telst það langtímasamningur ef hann tekur yfir lengra tímabil en 12 mánuði. Sagt er að varanleg aflahlutdeild sömu skipa hafi verið til síðan fyrstu lög voru sett, í árslok 1983, eða í 26 ár. Slíkt samkomulag hefur ekkert gildi og enga lagastoð, þar sem það hefur aldrei verið staðfest af Alþingi.
Í annan stað er sagt að sala aflaheimilda sé samkomulagsatriði við ráðherra. Það á sér ekki heldur gildis- eða lagastoð, þar sem slíkt stangast alvarlega á við jafnræðisreglu stjórnarskrár að allir skuli vera jafnir fyrir lögunum.
Þar sem aflaheimildum er úthlutað, frá ráðuneytinu, án gjaldtöku, og lagaheimildir tilgreina einungis að flutningur (framsal) milli skipa sé heimill, er ljóst að slíkur flutningur (framsal) verður að vera á jafnræðisgrundvelli, við úthlutun ráðuneytis, þar sem skýrt er tekið fram í 1. gr. fiskveiðistjórnunarlaga, að úthlutun fylgi hvorki eignarréttur eða forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Sjávarútvegsráðuneytið þarf að staðfesta allar tilfærslur aflaheimilda, áður en þær taka gildi. Heimili ráðuneytið SÖLU aflaheimilda, gegn peningagreiðslu, á kaupandi slíkra aflaheimilda ótvíræða greiðslukröfu á hendur ráðuneytinu, þar sem stjórnarskrárvarinn réttur kaupandans er að fá aflaheimildirnar á jafnvirði þess sem seljandanum var úthlutað frá ráðuneytinu.
Sala aflaheimilda, er því augljóst og ótvírætt laga- og stjórnarskrárbrot, sem ber að stöðva án frekari tafa.
Lítum nú aðeins á hugmyndir Samfylkingarinnar um 20 ára fyrningu aflaheimilda. Fram til þessa hefur aflaheimildum einungis verið úthlutað fyrir eitt ár í senn, án allra skuldbindinga um magn úthlutaðra aflaheimilda á næsta- eða næstu árum.
Til þess að geta búið til fyrningargrunn, yrði að byrja á því að lögbinda ákveðna aflahlutdeild við ákveðin skip, til næstu 20 ára. Slíkt hefur aldrei verið gert áður, frá upphafi fiskveiðistjórnunar. Verði það gert, er einnig búið að afhenda útgerðarmönnum varanlega 20 ára eignarréttarstöðu, sem að vísu fyrnist um 5% á ári. Slík eignarréttarstaða gæfi útgerðunum fullan rétt til að veðsetja þessi eignarréttindi, ásamt því að kröfuhafar á hendur útgerðunum, hefðu ótvíræðan rétta á að ganga að þessari eign, líkt og öðrum varanlegum eignum útgerðanna.
Hvað getur valdið því að Samfylkingin leggur svo mikla áherslu á að tryggja tilteknum hópi útgerðarmanna ótvíræðan eignarrétt yfir tilgreindri hlutdeild í úthlutuðum aflaheimildum? Er hugsanlegt að þarna sé á ferðinni fyrsta skref að varanlegum eignarrétti útvalinna útgerða?
Lítið mál væri að breyta síðar þessari fyrstu ákvörðun um fyrninguna og bera þá við skaðabótaábyrgð stjórnvalda vegna sviptingar á eignarrétti. Hefur fólk ekki leitt hugann að ákvæðum stjórnarskrár um eignarétt, þar sem segir að eignaréttur sé friðhelgur, en sé hann afnuminn skuli koma fullt verð fyrir.
Ég sé alveg fyrir mér, að eftir einhver tiltekinn árafjölda á fyrningarleið, fari einhver útgerðin í prófmál vegna eignarréttarins, þar sem krafist verði viðurkenningar á eignarrétti allt aftur til upphafs fiskveiðistjórnunar. Mestar líkur væru á, ef útgerðin hefur stundað veiðar allt frá upphafi, að dómstólar viðurkenndu réttarstöðu tiltekinna útgerða til tiltekinnar aflahlutdeildar, frá upphafi fiskveiðistjórnunar, sem ígildi eignarréttar og að svipting þessa réttar skapaði stjórnvöldum bótaskyldu.
Yrði niðurstaðan eitthvað á þessa leið, hefðu stjórnvöld ekkert um það að segja hvar aflanum væri landað, þar sem slíkt væri alfarið á valdi viðkomandi útgerðar, á grundvelli ákvæða eignarréttarins.
Eins og hér hefur verið rakið, verður ekki betur séð en hin svonefnda fyrningarleið gæti orðið til þess að þjóðin missi endanlega vald sitt yfir auðlindum fiskimiðanna og gæti jafnvel átt á hættu himinháar skaðabætur, væri gerð tilraun til að ná aflaheimildunum aftur undir yfirráð stjórnvalda.
Á grundvelli framanritaðs er það mitt mat að fyrningaleiðin sé beinlínis hættuleg þjóðarhagsmunum og því afar stórt skref í öfuga átt við það sem meirihluti þjóðarinnar hefur verið að stefna að.
Guðbjörn Jónsson kt:101041-3289
Höfundur er fyrrv. ráðgjafi og höfundur bókarinnar Stjórnkerfi fiksveiða í mærmynd.
9.3.2010 | 17:55
Hroki af hæstu gráðu
Svona hroka á bara að svara með því að segja þeim að sækja rétt sinn eftir dómstólaleiðinni. Þá komi í ljós hver réttarstaða allra er.
Engar samningaumleitanir við aðila sem ganga fram í svona hroka.
Ísland getur vel borgað skuldina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.3.2010 | 15:51
Undarleg viðhorf ráðherranna
Ég horfði á Silfur Egils áðan. Ég velti fyrir mér hvort Jóhanna og Steingrímur hafi ekkert þjálfað fólk í samningatækni í kringum sig, sem þau taki mark á. Niðurrif þeirra á samningsstöðu þjóðarinnar er löngu hætt aðvera broslegt. Það er orðið mjög alvarlegt.
Í allri samningatækni byggist árangurinn á tveimur meginatriðum. Annars vegar að láta líta svo út sem það skipti mann engu máli hvort samningar náist eða ekki. Hins vegar að gera sér sem gleggsta grein fyrir lagalegri réttarstöðu sinni og setja, í uppafi, fram þær ítrustu kröfur sem hægt sé að gera. Í upphafi samningaumleitana er ekki ljáð máls á neinum tilslökunum; ekki fyrr en slaka verður vart frá gagnaðilanum. Þó samningur væri okkur bráðnauðsynlegur, látum við sem það skipti okkur engu máli þó umtalsverðan tíma taki að ná niðurstöðu. Við eigum okkur skýra mynd af hve mikla eftirgjöf við viljum fá frá gagnaðilanum og sýnum enga eftirvæntingu um skjóta niðurstöðu um samstöðu.
Þessar grundvallarreglur samningsmarkmiða brjóta Jóhanna og Steingrímur, nánast í hvert skipti sem koma fram í fjölmiðlum og ræða um Icesave málið. Í nánast hverju viðtali tala þau um hve okkur sé mikil þörf á að ljúka þessum samningum sem fyrst, því allt þjóðfélagið sé í gíslingu þessara samnigna.
Gagnaðilinn, sem jafnharðan fær öll þeirra ummæli til sýn, sér glögglega að þessir forystumenn ríkistjórnarinnar upplifa sig í svo mikilli þörf fyrir að ná samningum. Viðbrögð gagnaaðilans verða því þau að gefa lítið sem ekkert eftir, því forystumenn okkar séu greiðilega að fara á taugum og upplifi sig í mikilli tímaþröng og undir pressu. Það verði því ekki löng bið eftir því að þau gefist upp og samþykki ítrustu kröfur, e.t.v. með örlitlum tilslökunum. Gagnaðilarnir hafa samningstæknina á hreinnu og láta sem þeir hafi allan tíma framtíðarinnar fyrir sér og þeim liggi ekkert á að semja.
Hvernig getum við vænst góðrar niðurstöðu með svona framgöngu?????????????
Ekki heilindi hjá stjórnarandstöðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.3.2010 | 11:09
Það ER mikilvægt að kjósa
Ef litið er til sögunnar, teljast þetta líklega mikilvægustu kosningar sem fram hafa farið frá lýðveldisstofnun. Af hverju skildi ég segja þetta.
Þátttakan í þessum kosningum færa stjórnvöldum skilaboð um vilja þjóðarinnar til virkara lýðræðis og vakandi aðhalds að störfum stjórnmálamanna; að þau séu ævinlega sem best í samhljómi við vilja meirihluta þjóðarinnar.
Aðalefni þessara kosninga er hvort þjóðin vilji gangast í ábyrgð fyrir ótilteknum upphæðum af skuldum einkafyrirtækis í gjaldþrotastöðu, og greiða þær samkvæmt gerðum samningi (Svavarssamning) og þeim ákvæðum sem tiltekin eru í lögunum sem kosið er um.
Ef lítil þátttaka verður í kosningunum, má reikna með að Bretar og Hollendingar túlki það sér í hag og verði lítt sveigjanlegir í endurskoðun þegar gerðra samninga.
Verði þátttakan lítil, lítill munur á milli JÁ og NEi atkvæða og óvenjulega margir sem skila auðu, mun það verða túlkað sem lítil andstaða þjóðarinnar við fyrirliggjandi samning og þau lög sem kosið er um. Það mun draga verulega úr áhuga Br. og Holl. við að endurskoða þegar gerða samninga.
Fari svo að meirihluti kjósenda segi JÁ, kemst á bindnandi ríkisábyrgð á skuld einkafyrirtækis, sem engar lagaskuldbindingar voru um að ríkissjóður bæri ábyrgð á. Í slíkri stöðu væri engin ástæða fyrir Br. og Holl. að breyta þegar gerðum samningum, þar sem lagastaðfesting er þá komin fyrir ríkisábyrgð og algjöru réttleysi okkar til að bera hönd fyrir höfuð okkar, vegna endanlegra kröfuupphæðar. Áskrift að áratuga fátæktarbasli, þar sem flestar auðlindir þjóðarinnar mundu líklega lenda í höndum erlendra aðila.
Ef kosningaþátttaka verður meiri en samanlagður atkvæðafjöldi stjórnarflokkanna, í síðustu alþingiskosninum, og umtalsverður meirihluti kjósenda svöruðu með NEI, er fram komin skýr afstaða stórs hluta þjóðarinnar, fyrir andstöðu við þá samninga (Svavarssamninginn), sem er undirstaða laganna sem kosið er um staðfestingu á.
Verði þátttakan mikil og mikill meirihluti segi NEI, er ekki kominn á neinn bindandi samningur, þar sem Br. og Holl. hafa ekki samþykkt lögin frá síðasta sumri (með öllum fyrirvörunum). Það mun einnig færa Br. og Holl. heim þau skilaboð að þjóðin láti ekki viðgangast að stjórnmálamenn hennar séu blekktir til skuldbindinga sem enginn lagagrundvöllur sé fyrir.
Slík ákveðni þjóðarinnar gæti skilað álíka árangri og landhelgisstríðið gerði.
ALLIR ÚT AÐ KJÓSA
Nýjustu færslur
- EES samningur og ætlað vald ESB
- Efnahags og viðskiptanefnd Alþingis 2021 / Hver er þekking ál...
- Þjóð án fyrirhyggju og dómgreindar: Fyrirlestur saminn og flu...
- Þetta jaðrar við hættulegt ábyrðarleysi hjá fomanni stærsta s...
- BREYTING ER NAUÐSYN TIL BETRA LÍFS
- YFIRSTJÓRN SEÐLABANKANS Lög 2019
- EES samningur og ætlað vald ESB
- ÓSAMRÆMI MILLI LAGA UM STJÓRN FISKVEIÐA OG FRAMKVÆMDA ...
Eldri færslur
2024
2023
2022
2021
2020
2019
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 1
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 17
- Frá upphafi: 165580
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 15
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- alla
- framtid
- mammzan
- hallgrimurg
- huldumenn
- jaxlinn
- johanneliasson
- maggij
- photo
- haukurn
- runar-karvel
- sigrunsigur
- skodunmin
- svarthamar
- vestskafttenor
- athb
- thjodarsalin
- seiken
- skinogskurir
- bjarkitryggva
- bjarnimax
- brahim
- gattin
- einarhardarson
- einarorneinars
- bofs
- dramb
- haddi9001
- heimssyn
- tofraljos
- don
- hordurvald
- fun
- visaskvisa
- huxa
- jonasphreinsson
- jonl
- jobbi1
- jonvalurjensson
- jonthorolafsson
- josefsmari
- juliusbearsson
- ksh
- kolbrunerin
- kristbjorg
- liu
- skrafarinn
- maggiraggi
- markusth
- os
- raksig
- rosaadalsteinsdottir
- fullvalda
- siggileelewis
- duddi9
- siggith
- saemi7
- tryggvigunnarhansen
- vga
- thjodarheidur