Er það rasista tilhneiging hjá LÍÚ og háskólaklíku þeirra?

Það hefur komið mér undarlega fyrir sjónir að heyra viðbrögð forystumanna LÍÚ og þeirrar háskólaklíu sem þeir virðast hafa keypt til að bergmála vitleysuna sem þeir halda fram. Það er afar sorglegt að verða vitni að því að háskóli sem hefur yfirlýsta stefnu að komast í röð virtustu háskóla heims, skuli lýða svokölluðum "sérfræðingum" sínum og prófessorum að fara hvað eftir annað í fjölmiðla með þvílíkt bull að það getur ekki annað en dregið álit háskólans niður í svaðið sem algjöra ruglustofnun.

Þetta aumingja fólk hamast við að halda því fram að þjóðin hafi ekki stöðu eiganda yfir fiskimiðum í fiskveiðilögsögu okkar, en á sama tíma halda þeir því fram að þeir eigi réttinn til að nytja auðlindina vegna þess að þeir hafi keypt hana. Þá vaknar spurningin: Af hverjum keyptu þeir hinn umtalaða rétt? Og hafði seljandinn lögformlega heimild til að selja? Getur einhver framvísað lögformlegum rétti til að selja aðgang að fiskimiðum innan lögsögu Íslands? Ég hef ítrekað óskað eftir þessum upplýsingum en enginn hefur enn getað framvísað þeim. Þrátt fyrir það halda menn áfram að selja og með ólögmætum hætti taka peninga fyrir það sem þeir eiga ekki og geta ekki afsalað eða gefið lögformlega sölupappíra fyrir. Er virkilega svona lítið vit til staðar hjá þessum öflugu samtökum útgerðarmanna og hinni "virtu" háskólastofnun sem nefndir rugludallar kenna sig við, eða gera þessir aðilar út á svokölluð "meira fífls fræði" sem hafa vaðið yfir fjármálamarkaði undanfarinn áratug, og jafnvel lengur.

Ef þjóðin á ekki fiskimiðin og þá auðlind sem þar er til staðar; hver er þá eigandinn? Gera menn sér grein fyrir þeim mikla alvarleika sem liggur þarna að baki. Ef þessum rugludöllum tekst að koma inn efasemdum um skýran rétt þjóðarinnar til þessarar auðlindar, munum við ekki hafa nein vopn á hendi til að stöðva erlenda skipaflota sem hingað mundu stefna til veiða, þar sem eignarrétturinn væri umdeildur og óljós. Munið þið atganginn í Smugunni svokölluðu. Við hefðum engan skipastól til að verjast slíkri innrás og við fengjum heldur enga samúð hjá öðrum þjóðum þar sem fyrir lægi að við hefðum sjálfir spilað eignarréttinum úr höndum okkar með rugli og ósjálfstæði. Ekki fengi LÍÚ aðallinn meira í sinn hlut úr auðlindinni með því fyrirkomulagi. Nei, heimska þessa liðs er með þeim ólíkindum að manni dettur helst í hug að það hafi aldrei skilið hvað er hið raunverulega lím og drifkraftur í farsælu samfélagi.

Á s. l. ári var mikið rætt um framkomu okkar gagnvart fólki af öðru þjóðerni. Ef mönnum varð það á að gagnrýna þetta fólk á einhvern hátt, voru fjölmiðlar upptendraðir í nokkra daga á eftir af umræðu um að gagnrýnendurnir væru augljósir rasistar eða með rasista tilhneigingu. Mörg stór orð voru notuð og mikið saumað að þeim sem leyfðu sér að gagnrýna.

Nú ber svo við að Ráðherra úr ríkisstjórn okkar, svonefndur "sérfræðingur" og tilgreindir prófessorar við Háskóla Íslands, hafa leyft sér að lítilsvirða lögfræðinga frá öðrum þjóðum, sem virtir eru á heimsvísu og hafa verið tilnefndir til vandasamra verka fyrir Sameinuðu Þjóðirnar; látið í það skína að álit þeirra séu ekki mikils virði af því að þeir séu frá tilgreindum ríkjum í Afríku, Asíu og Suður Ameríku. Ef umræðan í fyrra var hugsanlega rasismi, hvað er þá þetta? OG, hvers vegna þegja fjölmiðlar um þennan rasisma?                  


Opið bréf til Sjávarútvegsráðherra

Sæll frændi og gleðilegt nýár!

Ég var að lesa pistil þinn á blogginu, "Fiskveiðiréttindi og mannréttindi". Eftir lesturinn varð mér hugsað til þeirra mörgu stunda sem ég sat við eldhúsborðið hjá frænku minni og afa þínum og nafna, og umræðan var um þjóðfélagsmál. Eftir lesturinn á pistli þínum varð mér hugsað til þess hve sorglega lítið þú hefðir fengið í arf af skarpskyggni, víðsýni og eldmóði afa þíns fyrir velferð og velgengni samfélagsins. Ævinlega fann maður fyrir vakandi áhuga hans á velferð, jafnvel sinna smæstu samborgara, þótt hann væri sannur í trú sinni á sjálfstæði og frelsi einstaklingsins innan þeirra velsæmismarka sem samfélagsformið viðurkenndi. Og aldrei heyrði maður að hann gengi fram með yfirgangi gegn neinum aðila í sínu bæjarfélagi, eða gerði lítið úr öðrum.

Í pistli þínum finnst mér gæta nokkurs hroka um leið og þú sendir okkur, sem í áraraðir höfum gagnrýnt lögleysu þá sem þið Sjálfstæðismenn látið viðgangast í fiskveiðistjórnun okkar, lítilsvirðandi tón þó við skiljum það þegar Mannréttindanefnd Sameinuðuþjóðanna endurtekur það sem við höfum verið að segja í tvo áratugi. Í mínum huga er ekki spurning um hvar skilnings- og dómgreinarleysið er til húsa eftir að hafa reynt í fjölda ára að fá einhvern úr ykkar röðum til að senda mér afrit af þeim lögum er heimili sölu aflaheimilda. Margítrekað hef ég beðið ráðuneyti þitt að senda mér afrit af samþykktum Alþingis fyrir því sem kallað hefur verið "varanlegur kvóti" eða "varanleg hlutdeild í heildaraflanum". Enn hefur ekki  verið hægt að framvísa því og hvergi finnst það í skjölum Alþingis. Með vísan til stjórnarskrár og fjárreiðulaga, (samanber einnig skýrslu Ríkisendurskoaðnda um meðferð ríkiseigna) lítur helst út fyrir að þú sérst að brjóta alvarlega af þér á hverju ári, meðan ráðuneyti þitt getur ekki framvísað staðfestingu Alþingis.

Er það ekki líka alvarlegt dómgreindarleysi, ábyrgðarleysi og nánast bein þátttaka í fjárkúgun af hálfu ráðuneytis þíns að halda utan um, skrá og samþykkja sölu veiðiréttinda á verði sem er verulegru hluti brúttó innkomu fyrir aflann, meðan engin útgerð á landinu skilar hagnað nema upp á fáein prósent; og sægreifaliðið keppist við að auka skuldir sjávarútvegsins ár frá ári, sem síður en svo bendir til arðsemi útgerðarinnar. Hvar er þessi hagkvæmni sem þið, LÍÚ grátkórinn og bullukollarnir úr Háskólanum eruð sífellt að tala um?

Mér finnst umhugsunarvert að sjá hvernig þú stillir upp fulltrúum Mannréttindanefndarinnar.  Engu er líkara en þeir fulltrúar sem greiddu atkvæði með álitinu séu léttvægari en þeir sem greiddu atkvæði gegn því. Það segir mikið um virðingu þína, og jafnvel ríkisstjórnarinnar, fyrir mannréttindum almennt. Þú segir að andvígir áliti nefndarinnar hafi verið fulltrúar Bretlands, Bandaríkjanna, Ástralíu, Japans og Svíþjóðar. Enginn alvarlega hugsandi maður setur þessar þjóðir, að frátaldri Svíþjóð kannski, fram sem einhverja sérstaka vini almennra mannréttinda, eða finnst þér það trúverðugt?

Að lokum vona ég að þú leyfir komandi ári að færa þig nær hreinskiptum heiðarleika opinnar umræðu um hin fjölþættu og alvarlegu afbrot sem framin hafa verið í skjóli ráðuneytis þíns og að ýmsu leiti miðstýrt þaðan. Ég vænti þess að fá margumbeðnar lagaheimildir sendar til mín MJÖG fljótlega.

Með kveðju,

Guðbjörn Jónsson kt: 101041-3289   


Dómgreind við dómaraval

Athyglisvert hefur verið að fylgjast með svörum ráðamanna í sambandi við gagnrýni á vali setts dómsmálaráðherra við skipan héraðsdómara nú fyrir skömmu. Benda tilsvörin óneitanlega til þess að þeir sem þar hafa tjáð sig, hafi afar takmarkaða þekkingu á því lýðræðisskipulagi sem samfélag okkar byggir tilveru sína á.

Stjórnarskrá okkar gerir ráð fyrir að þrjú helstu valdssvið samfélagsins séu sjálfstæð og aðskilin. Það er framkvæmdavaldið (ríkistjórnin), löggjafarvaldið (Alþingi) og dómsvaldið. Raunar á forsetinn að vera einskonar yfirvald framkvæmdavalds og löggjafarvalds, þó aðallega sé það með táknrænum hætti, því hann felur ráðherrum að fara með vald sitt á sviði framkvæmdavaldsins og samþykkir gjörðir löggjafarvaldsins með því að staðfesta lagasetningar þess eða hafna. Dómsvaldið er hins vegar algjörlega sjálfstætt og tekur ekkert boðvald, hvorki frá forseta né framkvæmdavaldi, en löggjafarvaldið setur dómsvaldinu framkvæmdareglur og reglur um innri skipan.

Skipan dómsmála er skilgreind í Dómstólalögum, sem nú eru nr. 15/1998, með áorðnum breytingum árið 2006. Þar er í III. kafla laganna kveðið á um reglur við skipan héraðsdómara. Reglurnar sem fara á eftir koma fram í 12. gr. þesara laga og í 3. málsgrein er kveðið á um hvernig skuli standa að vali á héraðsdómara. Þar segir:

 "Dómsmálaráðherra skipar þrjá menn í dómnefnd til þriggja ára í senn til að fjalla um hæfni umsækjenda um embætti héraðsdómara. Skal einn nefndarmanna tilnefndur af Hæstarétti og er hann formaður nefndarinnar. Tilnefnir Dómarafélag Íslands annan mann í nefndina úr röðum héraðsdómara en Lögmannafélag Íslands þann þriðja úr hópi starfandi lögmanna. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir á sama hátt." (Leturbreytingar eru mínar G.J.)

Eins og þarna má sjá, er dómsmálaráðherra uppálagt að skipa þrjá menn í DÓMNEFND, en ekki valnefnd eins og ákveðnir ráðamenn hafa undanfarna daga reynt að telja þjóðinni trú um. Ráðherrann hefur ekki frjálst val um það hverjir sitja í þessari dómnefnd. Eins og sjá má í framangreindum lögum, er Hæstarétti ætlað að skipa einn mann og skal hann vera formaður þessarar dómnefndar. Hinir tveir eru skipaðir af Dómarafélaginu og Lögmannafélaginu. Greinilega hefur löggjafinn ekki ætlað dómsmálaráðherra að hafa nein bein afskipti af vali umsækjenda; umfram það ef dómnefndin skilar honum niðurstöðu um að fleiri en einn séu jafnhæfir til að hljóta embættið. Einn þeirra einstaklinga má ráðherran velja. Í 4. málsgrein 12. gr. Dómstólalaga er svo ákvæði um það hvernig þessi dómnefnd skuli skila af sér áliti til ráðherra, sem síðan skipar í embættið. Það ákvæði er svohljóðandi:

 "Dómnefnd skv. 3. mgr. skal láta dómsmálaráðherra í té skriflega og rökstudda umsögn um umsækjendur um embætti héraðsdómara." (Leturbr. G.J.)

Hér liggur það alveg ljóst fyrir. Löggjafinn gerir ekki ráð fyrir að dómsmálaráðherra geti haft önnur afskipti af skipan héraðsdómara, en þau að velja milli þeirra aðila sem dómnefndin telur hæfasta til embættisins, sé þar um að ræða fleiri en einn.

Það er sorglegra en tárum taki að þurfa að hlusta á hvern ráðamann þjóðarinnar á fætur öðrum, upplýsa þjóðina um óvitaskap sinn í því starfi sem þeim hefur verið trúað fyrir. Því fylgir ævinlega alvarlegur skortur á dómgreind, þegar fólk setur vald þess opinbera embættis sem það gegni fram fyrir þjónustulund þeirra heiildarhagsmuna sem embættið snýst raunverulega um.  Líklega þurfum við að skoða af mikilli alvöru heildarþekkingu þeirra sem sækjast eftir þingmennsku, á því fjölþætta verkefni sem það er að skapa samfélagi okkar skýr lög og skilvirkar leikreglur til farsældar ÖLLU samfélaginu. 


Er hugtakið "þjóðareign" pólitískt slagorð?

Laugardaginn 5. janúar s. l. ritar Helgi Áss Grétarsson lögfræðingur einkennilega samsuðu í lesbók Morgunblaðsins undir fyrirsögninni "Þjóðareign: Pólitískt slagorð eða lagalegur eignarréttur?" Höfundur titlar sig sérfræðing í auðlindarétti við lagastofnun Háskóla Íslands.

Hann hefur grein sína á því að kvarta undan að lögfræðingar séu sagðir vera með "orðhengilshátt" þegar þeir hafi gagnrýnt að hugtökin "þjóðareign" og "sameign þjóðar" hafi ekki skilgreinda merkingu að lögum og séu til þess fallin að valda misskilningi, ýfingum og óþarfa pólitískum átökum. Athygli vekur að hann nefnir ekki hverjir valdi þeim ýfingum sem um þessi hugtök standi, en flestir vita að það er þröngur hópur sérhagsmunaseggja og leiguþýja þeirra sem standa að þessari aðför að sameiginlegum grundvallareignum þjóðfélagsins. Síðan segir í greininni: (Leturbreytingar er mínar)

"Þrátt fyrir þessar athugasemdir gæslumanna réttarríkisins halda stjórnmálamenn, ritsjórar, prófessorar og aðrir áfram að endurtaka að þjóðin eigi fiskinn í sjónum og skuli eiga vatnið, jarðvarmann og helst allar náttúruauðlindir sem nöfnum er hægt að nefna."

Ég skil það svo að þarna sé greinarhöfundur að tala um lögfræðinga, þegar hann talar um gæslumenn réttarríkisins. Í slíkri nafngift fyrir lögfræðinga felst annað af tvennu. Annað hvort takmarkalítill hroki eða afar takmörkuð greind. Það vill nefnilega þannig til að lögfræðingar hafa það að atvinnu sinni að hártoga sannleikann og réttlætið og fara iðulega út á ystu mörk velsæmis í hártogunum sínum. Það væri ekki mikil vitglóra í því þjóðfélagi sem tilgreindi slíka starfsstétt sem gæslumenn réttarríkisins.

Af því sem hér kemur á eftir má ljóst vera að þennan "sérfræðing í auðlindarétti" skortir verulega á skilning á lýðræðislegu stjórnskipulagi okkar. Hann segir:

"Handhafar ríkisvaldsins fara með svokallaðan fullveldisrétt og með stoð í honum eru lög sett og þeim framfylgt." 

Þarna er sett fram röng staðhæfing; annað hvort af þekkingarskorti eða ásetningi um að skapa rugling hjá lesendum. Í almennu máli er talað um "ríkisvaldið" sem ríkisstjórn hvers tíma. Ríkisstjórn hvers tíma fer ekki með fullveldisréttinn. Sá réttur er alfarið á valdi og ábyrgð Alþingis. Í 1. gr. stjórnarskrár segir: Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn. Það þýðir að stjórnin er algjörlega á ábyrgð Alþingis, kosin þar en ekki af almenningi. Stjórnin hefur því einungis þau völd sem Alþingi afhendir henni hverju sinni. Sjálfsákvörðunarvald ríkisstjórnar er einungis innan þess ramma sem fellur undir þau fjárlög og önnur framkvæmdalög sem Alþingi hefur samþykkt og takmarkast að sjálfsögðu algjörlega við það tímabil sem kjörgengi þeirra er, þ. e. kjörtímabilið. Og enn heldur "sérfræðingurinn" áfram misskilning sínum er hann segir:

"Yfirburðir ríkisvaldsins í samfélagi manna felast í fullveldisréttinum þar sem á grundvelli hans er m. a. hægt að þvinga borgara til að greiða skatta og sæta refsingum."

Á fullveldið reynir ekki í samskiptum samfélags okkar við ríkisvald okkar. Ríksivald okkar þvingar okkur ekki til að greiða skatta, því í 40. gr. stjórnarskrár segir svo: Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Af þessu má sjá að það er Alþingi en ekki ríkisvaldið sem taka ákvarðanir um skattheimtuna. Sama á við um refsingar.

Næst fer "sérfræðingurinn" í huleiðingu um hvað sé þjóð og kemst að því að það sé hópur manna sem að jafnaði eigi sér sameiginlegt tungumál og menningu, ásamt því að búa oftast á sama landsvæði. Þeir einstaklingar sem mynda þjóðina á hverjum tíma geta vart talist vel skilgreindur hópur. -  Athyglisvert í ljósi þess hve algengt það er að fleiri en eitt tungumál séu töluð hjá þjóðum og þjóðin upprunninn úr fjölbreyttri og ólíkri menningu. Síðan segir:

"Þjóðin sem slík getur ekki átt aðild að dómsmálum né nokkra aðra aðild sem máli getur skipt að lögum."

Það er afar sérstakt að sjá þetta ritað af "sérfræðing í auðlindarétti", við Lagastofnun Háskóla Íslands. Þjóðin getur að sjálfsögðu verið aðili að dómsmáli. Þannig hefur t. d. Norðmönnum ítrekað verið hótað dómsmáli vegna skilnings þjóðarinnar á rétti sínum á Svalbarðasvæðinu. Fleiri dæmi væri hægt að tína til, en látið vera til að spara pláss. Þjóðin getur að sjálfsögðu ekki farið í dómsmál, innanlands,  því í slíku máli væri enginn gagnaðili. Þjóððin getur hins vegar tekið ákvörðun um það í einföldum kosningum að fara í dómsmál við óprúttna aðila sem gerast of fingralangir í sameiginlegum eigum hennar. Slíkt mál yrðu framkvæmdaaðilar stjórnunar í landinu að standa í forsvari fyrir og ættu sér enga undankomuleið. En, nú er "sérfræðingurinn" að nálgast megintilgang þessara skrifa sinna, er hann segir:

"Standi pólitískur vilji til að tiltekið verðmæti tilheyri þjóðinni sem eign verður með einhverjum hætti að færa ákveðnar eignarheimildir til aðila sem geta átt réttindi og borið skyldur eiganda."

Það eru ekki margar tegundir auðlinda sem þjóðin hefur þurft að sanna eignarheimildir sínar yfir. Þær þjóðir sem gengu í sjávarauðlindir okkar hafa löngu viðurkennt eignarrétt okkar á þeim. Engir fyrirvarar eru í Hafréttarsáttmálanum um eingar- og ráðstöfunarrétt þjóðarinnar á auðlindum í hafinu og hafsbotninum innan 200 mílna auðlindalögsögu okkar. Engin þjóð véfengir getu okkar til að eiga þessi réttindi eða geta borið þær skyldur sem þeim fylgja. Og áfram heldur "sérfræðingurinn".

"Sá sem heldur fram eignarrétti sínum yfir tilteknu verðmæti verður að færa gögn og skilríki fyrir þeirri fullyrðingu. Enginn greinarmunur er gerður á hinu opinbera og einkaaðilum að þessu leyti."

Þarna erum við að nálgast hápunkt þessara skrifa "sérfræðingsins" en greinilegt markmið hans er að færa fram rök fyrir því að þjóðin eigi ekki fiskveiðiréttinn og Alþingi eigi að skrá þau réttindi á útgerðarfélögin. Ég er í sjálfu sér sammála hluta af því sem sérfræðingurinn skrifar þarna, þó af öðrum forsendum sé.  Eins og að framan er getið, hefur þjóðin löngu lagt fram öll sín skjöl, skilríki og kröfur um eignarréttinn yfir auðlindum sjávar og fengið þann eignarrétt staðfestann um víða veröld. Íslenskir útvegsmenn hafa hins vegar eignað sér þessa auðlind þjóðarinnar og eignfært hana í bókhaldi sínu, án þess að geta með nokkrum hætti lagt fram eina einustu sönnun, hvorki skjal, skilríki eða neitt annað, sem sanni heimild þeirra fyrir eignfærslunni. Hvernig væri að Ríkisskattstjóri athugaði þetta og leiðrétti þennan eignaþjófnað?

Þá er komið að því hjá "sérfræðingnum" að rökstyðja að fullyrðingin í upphafi laganna um stjórn fiskveiða hafi enga merkingu. En lögin um stjórn fiskveiða hefjast á þessum orðum:

"Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar."

Rök sérfræðingsins fyrir því að þetta sé markleysa eru á þessa leið:

"Eins og Rómaréttur byggist íslenskur eignarréttur á að verðmæti sem eru ekki háð eignarrétti í augnablikinu, svo sem villt dýr, séu eigendalaus svo framarlega sem þau eru ekki í vörslu ákveðins aðila. Án frekari skýringar getur yfirlýsingin" (um sameign nytjastofnanna, innskot mitt) "ekki breytt rótgrónum viðhorfum um að nytjastofnar séu eigendalausir á meðan þeir eru villtir og vörslulausir í náttúrunni. Hins vegar geta fiskveiðiréttur í sjó og umráð yfir veiði nytjastofna verið hæf eignarandlög."

Hér er skemmtileg hringavitleysa hjá sérfræðingnum. Það er að vísu rétt hjá honum að í okkar landi eru villt dýr eigendalaus. Þessu vill hann jafna við að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu eigendalausir. Það er að sjálfsögðu ekki rétt. Við færðum út fiskveiðilögsögu okkar í 200 mílur til þess að taka í fóstur alla nytjastofna sem dveljast innan þeirra marka. Samkvæmt þeim eignarréttarákvæðum sem sérfræðingurinn vísar til, eru því nytjastofnarnir óumdeilt af allri veröldinni, í eigu og vörslu íslensku þjóðarinnar. Ég tel að það séu teljandi á fingrum annarrar handar þeir þegnar þjóðfélagsins sem ekki eru meðvitaðir um að afrakstur nytjastofna á Íslandsmiðum eru veruleg verðmæti. Flestum sem hugsa um tekjuöflun þjóðarinnar er kunnugt um að þessir nytjastofnar hafa í gegnum tíðina skilað megninu af tekjum okkar. Við erum því vel meðvituð um verðmætið og ósatt við að láta yfirgangsseggi ræna því frá okkur. Verðmætið sjáum við líka á því hve lánastofnanir eru tilbúnar að lána útgerðarfyrirtækjum, þrátt fyrir að þær segi að eina verðmæti fyritækjanna sé veiðirétturinn, sem þau eiga ekkert í og hafa enga heimild til að veðsetja. Athugið að lánastofnanir geta ALDREI gengið að þessum ímynduðu veðum sínum og gætu því setið uppi meðmeginþorra skuldanna sem töpuð útlán.

Ég ætla ekki að fara lengra í þessi skrif sérfræðingsins í auðlindarétti við Lagadeild Háskóla Íslands að þessu sinni. Það eru eftir hugleiðingar um eignarrétt Þingvalla o.fl. sem ég skoða kannski síðar.

Ég vek sérstaka athygli á að í upphafi greinar sinnar talaði sérfræðingurinn um lögfræðinga og lagamenntaða menn sem gæslumenn réttarríkisins.  Ég held að Háskóli Íslands þyrfti að fara að skoða gaumgæfilega hvers konar mannskap hann er að dæla út í þjóðlífið, þ. e. hvaða innrætingu laganemar fá á menntabraut sinni, ef þetta er sérfræðiþekkingin.


Dómgreind barnaverndarnefnda?

Ég horfði á kastljósið í gær og nú í kvöld, þar sem fjallað var um málefni stúlku frá Mosfellsbæ sem orðið hafði fyrir kynferðislegu áreiti á barnsaldri. Ég verð að viðurkenna að ég varð hálf lamaður af undrun yfir framgangi barnaverndarnefndarinnar og hrottaskap meðferðaraðilanna.

Tilvist barnaverndarnefnda á að vera til þess að vernda börn sem lenda í andlegum eða veraldlegum erfiðleikum. ALLT þeirra starf á að snúast um að hjálpa barninu að komast yfir erfiðleika sem að því steðja og ná sem fyrst, sem eðlilegustu sambandi við uppalendur sína. Barn sem lendir í erfiðleikum getur ALDREI orðið sökudólgur sem þarf að refsa. Það fólk sem sæti á í barnaverndarnefndum eða sem félagsmálastjórar, sem hefur slík viðhorf til erfiðleika barna, á þegar í stað að láta af afskiptum sínum að slíkum málum og leita sér sálfræðilegrar hjálpar.

Það er mörg þúsund ára gömul þekking að baki því að barn tjáir andlega eða líkamlega erfiðleika sína m. a. með ýmiskonar mótþróa sem sumir kalla óþekkt. Barnið er aldrei ábyrgt fyrir því umhverfi sem líf þess hrærist í, heldur leikur það lífsgöngu sína í þeirri leikmynd sem uppalendurnir skapa því.

Í því dæmi sem kastljósið fjallaði um, hafði barnið orðið fyrir líkamlegu og andlegu ofbeldi. Það hafði tekið barnið langan tíma að safna kjarki til þess að opinbera hremmingar sínar. Fyrstu viðbrögð barnaverndarnefndar eru að svipta barnið þeirri einu manneskju sem því fannst það geta treyst; móðurinni sem áreiðanlega var líka í miklu andlegu ójafnvægi eftir að hafa frétt af hörmungum barnsins síns, auk annarra svika sem hún hafði greinilega orðið fyrir. Hvorug þessara aðila var því í þörf fyrir enn eina sársaukafulla árás til viðbótar.

Það er einungis ein fær leið í svona tilfellum; þegar leita þarf sannleikans í gegnum vitneskju barns. Sú leið er að skapa slíkt traust hjá barninu, á hjálplandanum, að það trúi honum fyrir sínum innstu og leyndustu leyndarmálum. Slíkt traust kemur ekki með því að rífa barnið frá þeirri einu manneskju sem því finnst það geta treyst á þeim tímapunkti; sem í þessu tilfelli var greinilega móðirin.

Það fólk sem vinnur með þeim hætti sem þarna var lýst og hefur þau viðhorf sem fram komu í viðtalinu við félagsmálastjóra Mosfellsbæjar í Kastljósinu; það fólk á þegar í stað að víkja úr hjálparstarfi vegna barna og leita sér sálfræðilegrar hjálpar. Eitthvað hlýtrur að hafa komið fyrir það í lífinu sem lokaði svona gjörsamlega fyrir kærleiksflæði hjá því, eins og þetta mál  bendir til.

Ég bið þessu aumingja fólki Guðs blessunar í framtíðinni. 

 


Pláneta fæðist í sjónauka?

Það er ekki fátítt að frásagnir í blöðum og útvarpi séu afar einkennilegar og segi í raun allt annað en meining fréttarinnar er. Svo er um þessa frétt. Plánetan fannst að sjálfsögðu ekki í sjónaukanum. Hun fannst í himingeimnum með sjónauka.

Síðar í fréttinni segir svo:

"Stjörnufræðingar komu auga á plánetuna í stjörnuathugunarstöð í La Silla í Chile"

Þarna segir að stjörnufræðingar hafi fundi plánetuna í stjörnuathugunarstöð? Það er nú ekki trúlegt.

Trúlegar er að stjörnufræðingarnir hafi verið í umræddri stjörnuathunarstöð þegar þeir komu auga á plánetuna.

 Er ekki mikilvægt að fjölmiðlar séu vissir um hvað þeir eru að segja?


mbl.is Ný pláneta finnst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.10.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2008
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband