26.10.2008 | 14:12
Er Sjálfstæðisflokkurinn trúarbrögð, en ekki stjórnmálahreyfing ???
Þetta er afar athyglisverð niðurstaða. Annað hvort eru tæp 30% þjóðarinnar sem er alveg sama hvernig farið er með hagsmuni þjóðfélagsins, eða að Sjálfstæðisflokkurinn er trúarbrögð, sem eru að öllu leiti óháð athöfnum á stjórnamálasviði.
Yfirgnæfandi meirihluti kapítalískra hugsuða í hinum siðvædda heimshluta, hafa látið í ljós fullkomna vantrú á þeirri hugmyndafræði sem hefur verið meginstofn stjórnmálastefnu Sjálfstæðisflokksins undanfarna tvo áratugi. Þrátt fyrir þessa staðreynd, til viðbótar við gjöreyðileggingu á uppbyggingu síðustu kynslóða í íslensku viðskipta- og athafnalífi, virðist þriðjungur þjóðarinnar enn tilbúinn til að hjálpa Sjálfstæðismönnum að eyðileggja meira.
Það eru miklar líkur á að svona skoðanakönnun veki umtalsverða athygli, því hún er afar glöggt vitni um hörmulega siðferðisvitund; að þriðjungi þjóðarinnar sé sama um þær hörmungar sem yfir þjóðina hafa verið leiddar.
Miðað við það sem fram er komið, hefði verið eðlilegt að Sjálfstæðisflokkurinn fengi svoa 5% í þessari könnun, en ynni sig á næstu tveimur árum upp í svona 15%, stæðu þeir sig vel í endurbyggingu lífsgæða þjóðarinnar.
![]() |
Minnihluti styður stjórnina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.10.2008 | 13:15
Krónan á enga sök á ástandinu
Mig langar að þakka Björgólfi fyrir frásögn sína í Morgunblaðinu í dag, sunnudaginn 26. október 2008. Viðtalið er um margt fróðlegt, þó spyrjandinn hefði að ósekju mátt vera víðsýnni og huga að fleiri þáttum þess er olli hruni bankana.
Ég er ekki sammála Björgólfi um að krónan hafi verið helsta vandamálið í íslensku efnahagslífi.Krónan er einungis verkfæri okkar til verðmætaskipta, bæði innanlands og gagnvart öðrum myntkerfum. Ef við segjum að krónan okkar sé ónýt, eða einskis virði, erum við um leið að segja að við séum ekki að skapa nein verðmæti sem aðrir hafi áhuga á að eignast og að við sjáum ekki fram á að skapa þau verðmæti sem þurfi til að afla meiri erlendra peninga en við notum jafn harðan. Sé staðan sú, fáum við vart margar Evrur til ráðstöfunar, þó skipt væri um mynt.
Allir vita að þetta er ekki rétt. Fiskurinn okkar hefur um langa hríð verið einn sá verðmætasti í heimi og færri fengið en vildu. Orkan í fallvötnum okkar og jarðhitinn í jörðinni er einnig umtalsverð verðmæti, sem við höfum, því miður, ekki enn lært að nýta nógu vel þjóðinni til hagsbóta. Hingað til höfum við selt þessa gullmola okkar á einskonar rýmingarsöluverði til erlendra stórfyrirtækja, sem selja sjálfu sér aðföngin og stýra því sjálf afkomu sinni og hagnaði af rekstrinum hér. Á sama tíma sinnum við ekki þeim þáttum sem eru mun kostnaðarminni í stofnfjárfestingum en líkur eru á að skili þjóðfélaginu margföldu því verðmæti sem álbræðslur skila til verðmætasköpunar hér. Þá er enn ótalið hugvitið sem býr í mörgum ungum og efnilegum snillingum okkar, sem þegar er farið að afla umtalsverðs gjaldeyris.
Við hugsum um og umgöngumst krónuna okkar líkt og þær þjóðir gera við sinn gjaldmiðil, sem styðst við dygra sjóði Seðlabanka þeirra landa. Sjóði sem hafa orðið til á hundruðum, ef ekki þúsundum ára. Þessar þjóðir þurfa ekki að hafa vakandi auga með þeirri verðmætasköpun sem viðheldur verðgildi gjaldmiðilsins, því það verðgildi tryggist frá þessum sjóðum, þannig að daghverfur breytileiki viðskiptakjara breytir ekki grunngildi verðmætis myntarinnar.
Líkja má þessu við atriði sem við ættum að þekkja vel, en það eru uppistöðulón virkjana okkar. Ef við byggðum raforkuframleiðsluna á daglegu rennslu þeirra fallvatna sem notuð eru til raforkuframleiðslu, væri orkumagnið sem við fengjum ansi sveiflukennt. Þannig er umhverfi krónunnar okkar; ansi sveiflukennt eftir innstreymi dagsins, eða mánuðarins.
Til að tryggja stöðugleika í orkuframleiðslu söfnum við upp stórum lónum af vatni, einskonar sveiflusjóðum, til að tryggja jafna framleiðslu, sambærilegt við að tryggja verðgildi krónunnar með uppsöfnun eignarsjóða.
Það er afar óraunsær barnaskapur að telja okkur, sem einungis höfum u.þ.b. 60 ára sögu peningamyndunar í landinu, og allan þann tíma höfum við eytt öllu sem við höfum aflað okkur, og meira til, í uppbyggingu þjóðfélagsins, að við getum allt í einu tekið stökk og stillt okkur upp í lífsstíl og hugsun, við hliðina á þjóðfélögum sem hafa hundruða, ef ekki þúsunda ára venjuhefðir í umgengni við verðmæti, sem þar að auki eru baktryggð í miklum sjóðum Seðlabanka þeirra.
Í raun erum við í nákvæmlega sömu stöðu og daglaunamaðurinn, sem verður að fá launin sín greidd reglulega til að geta borgað heimilisreksturinn og afborganir lána sinna. Við höfum enga sveiflujöfnunarsjóði (engin uppistöðulón) til að tryggja jafnt og eðlilegt streymi fjármagns að og frá landinu. Lánastofnanir hafa að vísu falið þessa staðreynd nokkuð fyrir almenningi, með stöðugu innstreymi lánsfjár (sem kallað var góðæri).
En, öll ættum við að vita að ef við búum okkur til lífsumgjörð með lánsfé, sem raunverulegar tekjur okkar geta ekki staðið undir, er óhjákvæmilegt að slíkt ævintýri taki enda, þegar allar lántökuleiðir eru tæmdar.
Segja má að almenningi hafi verið haldið svolítið ómeðvituðum um alvarleika stöðunnar, með því að flagga þeirri haldlausu stöðu að ríkissjóður væri skuldlaus, þó erlendar skuldir þjóðfélagsins, sem heildar, væru stöðugt að aukast.
Áður hef ég vikið að, á þessari síðu, ástæðum þess að krónan okkar sé svona verðlítil, en það stafar fyrst og fremst af því hve mikið vantar á að við framleiðum nægan gjaldeyri til greiðslu alls innflutnings, ásamt afborgunum og vöxtum af erlendum lánum. Það sem verið er að segja með því að erlendir aðilar telji krónuna okkar verðlausa, er það að þeir trúa ekki á að við getum neitt á næstunni, skapað krónunni okkar aðfengið verðmæti. Þess vegna verði hún verðlaus utan Íslands, líkt og Matadorpeningar eru utan spilsins.
Sama staða mun verða þó við skiptum yfir í Evru. Allar lánaleiðir okkar eru fullnýttar, þannig að við fáum ekki meiri eyðslulán. Við munum því ekki fá til okkar fleiri Evrur en við framleiðum fyrir. Það þýðir í raun að tekjur þjóðarinnar verða að duga okkur, hvort sem það verður mælt í krónum eða Evrum.
![]() |
Krónan stærsta vandamálið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.10.2008 | 18:07
Hugsunarháttur okkar er lykillinn að árangrinum
Ég tel mig þekkja hvernig Paul Thomsen hefur liðið þegar hann var að tilkynna þjóðinni í hve alvarlegri stöðu fármál hennar eru. Hér áður fyrr þurfti ég oft að tilkynna stoltu og dálítið sjálfbirgingslegu fólki að það væri búið að skuldsetja sig svo mikið að tekjur þeirra dygðu ekki til framfærslu og greiðslu afborgana.
Flestir sem hafa ábyrga hugsun, telja stóran hluta af sjálfsvirðingu sinni felast í fullu fjárhagslegu sjálfstæði; og skilja þá hugtakið "sjálfstæði" þannig að allir séu að sjálfsögðu tilbúnir til að lána þeim vörur eða önnur verðmæti, gegn því að þau greiði það síðar. Þeir hafi óskert traust og áreiðanleika.
Þeir sem af einhverri tegund ábyrgðarleysis, lenda utan við þetta umhverfi trausts og áreiðanleika, upplifa mikla höfnun. Viðbrögð flestra við slíku er líka höfnun. Þeir hafna þeim aðstæðum sem þeir höfðu sjálfir skapað sér með einhverskonar ábyrgðarleysi, og fá oft útrás í því að vera ósanngjörn eða ókurteis við þann sem er að hjálpa.
Líkt og við greiðsluerfiðleika einstaklings, er hugarfarið lykillinn að markvissri lausn úr þeim aðstæðum sem uppi eru. Afneitun þess raunveruleika sem skapaður var, er einungis flótti frá ábyrgð á eigin athöfnum eða athafnaleysi og skortur á hurekki til að takast á við þann raunveruleika sem lífið leggur að fótum manns. Raunveruleika sem búinn var til með fyrri athöfnum eða athafnaleysi.
Þegar við, hvert fyrir sig, höfum skilgreint stöðu okkar og skapað okkur hugrekki til að leita skilmerkilegra lausna, til að komast úr þeim vanda sem við erum í, er alltaf hægt að finna lausn sem skapar leið til bjartari framtíðar.
Þegar við, hvert um sig, finnum lausnir á vanda okkar og vinnum okkur markvisst frá þeim erfliðleikum sem við skópum, öðlumst við í leiðinni afar dýrmætan þroska og fáum um leið nýjan skilning á þeim mikilvægu gildum í lífinu sem byggja upp hina raunverulegu lífshamingju.
Mig langar að biðja fólk að hafa hemil á hroka og hleipidómum, því slíkt lýsir fyrst og fremst innri líðan þess sem slíkt sýnir. Við munum geta náð árangri gagnvart þeim sem misnotað hafa aðstæður í þjóðfélagi okkar, þó við spörum heift og reiði. Auk þess er slíkt eyðsla á dýrmætri orku og tíma, því þeir sem eru hugarfarslega fastir í heift eða reiði, hafa ekki eðlilega dómgreind til úrlausnar aðsteðjandi viðfangsefna.
![]() |
Mjög erfiðir tímar framundan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.10.2008 | 16:43
Mér finnst flokkspólitískur fnykur af þessu hjá Steingrími
Því miður finnst mér Steingrímur ekki trúverðugur í þessum upphrópunum sínum. Ég er ekki enn farinn að heyra hann nefna neitt af þeim pólitísku atriðum sem heyra undir löggjafarþingið okkar, sem eru veigamikill þáttur í að þjóðfélag okkar er komið í þá stöðu sem það er nú í. Er hugsanlegt að hann sé ekki enn farinn að átta sig á þessum mikilvægu atriðum?
Það er afar merkilegt að heyra forystumann stjórnmálahreyfingar, tjá sig með þeim hætti sem Steingrímur hefur stundað. Athyglisvert er, ef það hefur alveg farið fram hjá honum að Seðlabanki og stjórnvöld voru, áður en til bankahrunsins kom, búin að leita víða fanga um lánafyrirgreiðslu, en verið hafnað vegna mikillar skuldastöðu bankana.
Er hugsanlegt að Steingrímur átti sig ekki á hve lengi alþjóðleg vantrú er búin að vera til staðar á hina gífurlegu skuldasöfnun bankanna? Hefur virkilega farið fram hjá honum, líkt og fór fram hjá ráðamönnum þjóðarinnar, allar þær aðvaranir sem virtir fræðimenn, víða að úr heiminum, og alþjóðlegar stofnanir, komu á framfæri við okkur, með mismunandi hætti?
Gerir hann sér ekki grein fyrir að allir þeir aðilar í veröldinni sem fylgjast með þróun fjármagnsmarkaða, hafa látið þýða fyrir sig ákveðna þætti úr umræðum á Alþingi, sem fjalla um efnahags- og fjármál, til að átta sig á hvort sinnuleysi í ábyrgðarhugsun sé eingöngu bundið við stjórnarflokkana, eða hvort stjórnarandstaðan standi sig í hlutverki sínu að vekja athygli á lykilþáttum efnahags- og fjármála, sem greinilega stefna í ógöngur.
Ég verð að segja að mér finnst Steingrímur, eins góður ræðumaður og hann nú er, setja verulega niður í tilraunum sínum til að nota þessar neyðarlegu aðstæður sem þjóðin er nú stödd í, til flokkspólitískra átaka og atkvæðaveiða. Steingrímur á margt gott skilið, en ef fólk læsi nú ræðurnar hans á Alþingi, svona 8 ár aftur í tímann, tel ég víst að það yrði hissa á hve fáar beinar tilvísanir er þar að finna í þau atriði sem valdið hafa þeirri óheillaþróun sem við erum nú að fást við.
Það er einmitt þetta beina varnaðarhlutverk sem stjórnarandstaðan okkar hefur ekki sýnt í verki, og ég hef gagnrýnt nokkuð harkalega í meira en áratug. Stjórnarandstaðan á því sinn hluta af ábyrgðinni af því hvernig komið er, vegna þess að þeir stóðu ekki í fæturna á vaktinni sem stjórnarandstaða þjóðarinnar.
![]() |
Ábyrgðin er ríkisstjórnarinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.10.2008 | 21:11
Kastljósið í kvöld frábært og vel upplýsandi, en samt sorglegt
Ég efast um að fólk almennt átti sig á hve Kastljósið var í raun frábært í kvöld. Framsetning þeirra á símtali Árna Math. við Breska fjármálaráðherrann var einkar skýr. Sorglegt var að verða vitni að því hve Árni var gjörsamlega ómeðvitaður um alvarleika málsins, og virtist algjörlega ómeðvitaður um þá ábyrgð sem hann hafði sjálfur stefnt ríkissjóði í með því að láta þessa starfsemi Landsbankans í London verða svona umfangsmikla, undir beinni ábyrgð ríkissjóðs.
Klaufaleg tilsvör, ásamt engum vilja til að ávinna sér umburðarlindi eða velvilja Breska ráðherrans, voru svo yfirþyrmandi að engin leið er að áfellast Breska ráðherrann fyrir að reiðast heiftarlega.
Þá var viðtal Jóhönnu við þennan Íslenska fræðimann, sem kom á eftir símtalinu, einkar athyglisvert. Hrykaleg var ádeilan sem þar kom fram á hendur Fjármálaeftirlitinu, að það hafi heimilað Landsbankanum þessa innlánasöfnun í Bretlandi, vitandi um að ríkissjóður væri ábyrgur fyrir þessum innlánum, þar sem þeim var safnað af útibúi Íslensks banka, en ekki Bresks dótturfélgs.
Það er einnig sorglegt siðleysi að Fjármálaeftirlitið, undir forystu þess manns sem svo gjörsamlega brást þjóðinni í Landsbankamálinu í London, skuli svo vera, með neyðarlögum, settur yfir eignauppgjör allra bankanna.
Ég hefði haldið að ef einhver snefill af siðferðisvitund væri til í vitund Forstjóra Fjármálaeftirlitsins og hjá Fjármálaráðherra, ættu þeir báðir að segja af sér störfum sínum nú þegar. Að þessir menn skuli sitja áfram í stöðum sínum, er mikið meiri niðurlæging fyrir þjóðina en álitið sem Brown lét í ljós. Að þeir sitji áfram sýnir dómgreindarbrest og undirokun þjóðarinnar.
![]() |
Viðræðum við Breta lokið í bili |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.10.2008 | 15:40
Athyglisvert álit litlu SÆGREIFANNA
Það er athyglisvert að lesa þessi ummæli Arthurs, í ljósi þess að hann stýrði smábátaflotanum inn í sægreifaflokkinn og lagði þar með trausta hönd á að selja þjóðareignina og skuldsetja smábátaútgerðina, svo litlu greifarnir gætu tekið margfalda þá peningaupphæð út úr smábátaútgerð, sem eðlilegt hefði geta talist.
Ef LÍÚ á að skammast sín, þá eiga Arthur og félagar ekki síður að skammast sín, því þegar þeir fóru í ránsferðina gegn þjóðinni, vissu þeir hvaða afleiðingar það hafði. Það vissi þó LÍÚ ekki við upphaf aðgerða sinna, þó sá hryllingur sé öllum heiðarlegum mönnum löngu ljós.
Arthur segir: "að íslenskur sjávarútvegur stæði traustum fótum -,,á botninum í skuldafeni upp fyrir haus.
Þetta er rétt hjá honum. Með hans framgöngu er líklega ALLUR sjávarútvegurinn kominn á kaf í skuldir, en af hverju skildi það vera?
Ástæðan er sú, að þeir sem eiga báta sína skuldlausa eða skuldlitla, geta ekki farið á sjó vegna þess hve sægreifarnir krefjast hárrar þóknunar fyrir að leyfa veiðar á millifæranlegum aflaheimildum. Þeir krefjast alls aflaverðmætis í sinn hlut, og stundum víst meira en það.
Það er engin undur þó Arthur sé ánægður með árangurinn, að hafa komið smábátaflotanum á botninn í skuldafeninu, við hliðina á stóru sægreifunum. Í þeim félagsskap líður honum greinilega vel, meðan þjóðinni blæðir út.
![]() |
Sjávarútvegurinn skuldum vafinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Nýjustu færslur
- Álfagangur varðandi lángtímaleigu á Álfabakka 2?
- EES samningur og ætlað vald ESB
- Efnahags og viðskiptanefnd Alþingis 2021 / Hver er þekking ál...
- Þjóð án fyrirhyggju og dómgreindar: Fyrirlestur saminn og flu...
- Þetta jaðrar við hættulegt ábyrðarleysi hjá fomanni stærsta s...
- BREYTING ER NAUÐSYN TIL BETRA LÍFS
- YFIRSTJÓRN SEÐLABANKANS Lög 2019
- EES samningur og ætlað vald ESB
Eldri færslur
2025
2024
2023
2022
2021
2020
2019
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.10.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 166181
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
alla
-
framtid
-
mammzan
-
hallgrimurg
-
huldumenn
-
jaxlinn
-
johanneliasson
-
maggij
-
photo
-
haukurn
-
runar-karvel
-
sigrunsigur
-
skodunmin
-
svarthamar
-
vestskafttenor
-
athb
-
thjodarsalin
-
seiken
-
skinogskurir
-
bjarkitryggva
-
bjarnimax
-
brahim
-
gattin
-
einarhardarson
-
einarorneinars
-
bofs
-
dramb
-
haddi9001
-
heimssyn
-
tofraljos
-
don
-
hordurvald
-
fun
-
visaskvisa
-
huxa
-
jonasphreinsson
-
jonl
-
jobbi1
-
jonvalurjensson
-
jonthorolafsson
-
josefsmari
-
juliusbearsson
-
ksh
-
kolbrunerin
-
kristbjorg
-
liu
-
skrafarinn
-
maggiraggi
-
markusth
-
os
-
raksig
-
rosaadalsteinsdottir
-
fullvalda
-
siggileelewis
-
duddi9
-
siggith
-
saemi7
-
tryggvigunnarhansen
-
vga
-
thjodarheidur