16.3.2008 | 16:39
Gengisfall, verðbólga og svokölluð "verðtrygging" lánsfjár
Allnokkur titringur fer nú um þjóðfélagið vegna hreyfinga á gengi krónunnar. Lækkun á gengi hennar mun óhjákvæmilega hafa mikil áhrif í lífi flestra sem skulda. þeir sem skulda erlend lán verða að taka á sig gengisbreytinguna, en þeir sem skulda í Íslenskum krónum, lenda í öllu verri hremmingum, því þeirra bíður átök við önnur öfl en gengisþróun. Þeir þurfa að takast á við almennar kostnaðarhækkanir, sem samhliða því að auka útgjöld þeirra til framfærslu, hækka samkvæmt reikniformúlu, höfuðstól lána þeirra. Sú reikniformúla er að vísu brot á öllum grundvallarreglum um eignabreytingar og eignavirði, en hefur samt verið viðhaldið hér, vegna þess hve þessi regla er gjöful fyrir fjármagnseigendur, en jafnframt verið þungur myllusteinn um háls þeirra sem þurft hafa á lánsfé að halda.
Frá upphafi svonefndrar "verðtryggingar" hef ég gagnrýnt þann viðmiðunargrundvöll sem hún byggir á, þó ég sé hlyntur því að gjaldmiðill okkar sé verðmætistryggður í viðskiptum okkar við aðra gjaldmiðla.
Vegna jafnræðisreglu stjórnarskrár okkar, standast lög um verðtryggingu lánsfjár ekki þann jafnræðisgrundvöll sem stjórnarskrá okkar gerir ráð fyrir. Okkur á að vera óheimilt að hafa mismunandi verðgildi gjaldmiðils okkar, milli innlendra aðila. Jafnræðisreglan gerir kröfu til þess að allir þegnar þjóðfélagsins njóti sömu mælingar á verðgildi gjaldmiðilsins. Þar sé ekki til að dreifa lögboðuðu öðru og hærra verðgildi til þeirra sem eiga umfram fjármagn og geta þar af leiðandi lánað það til fjárfestinga annarra, en því verðgildi sem gildir hjá hinum landsmönnunum sem þurfa að nota allt sitt veltufé til framfærslu sér og fjölskyldu sinni.
Til breytigna á þessu hafa stjórnmálamenn okkar ekki kjark, því eðlilega mótmæla fjármagnseigendur því að af þeim sé tekin besta tekjulindin, sem svokölluð "verðtrygging" er.
Fyrir nokkru skrifaði ég grein sem ekki hefur fengist birt í blöðum okkar. Ég læt hana fylgja hér með. Hún er eftirfarandi:
Sá sérkennilegi hugsunarháttur settist að hér í lok áttunda áratugs síðust aldar, að hægt væri að reka þjóðfélag án þess að gæta samræmis tekju- og útgjaldaliða þess; einungis með því að vísitölubinda alla möguleika til eyslu fjármuna. Framfærslu-, bygginga- og launa- kostnaður, sem og lánsfé, var bundið sitt hvorri vísitölunni. Hringferli varð í virkni þessara vísitalna, þannig að ef ein þeirra hækkaði olli það samstundis hækkun á hinum vísitölunum.
Þar sem stjórnendur landsins skildu ekki (og skilja ekki enn) hvað þeir gerðu, fór af stað hraðbraut óðaverðbólgu, sem enginn réði við. Laun og annar kostnaður framleiðslugreina hækkaði um fleiri tugi prósentna á hverju ári, en ekkert var sinnt um að tryggja rekstrarumhverfi þeirra, þó þau væru að sinna tekjuöflun þjóðarinnar.
Þegar allt var komið í þrot, var gripið til þess kjánalega ráðs að taka launavísitöluna úr sambandi við hinar vísitölurnar, þannig að laun hættu að hækka til samræmis við annan kostnað. Öll samtvinningarvitleysan sem sett hafði verið af stað með framangreindum 4 vísitölum, sem hafði sýnt sig að vera þvílíkt rugl að ógerningur var að reka þjóðfélag með slíku fyrirkomulagi, var samt látin halda sér að öðru leiti en því að launabætur voru skornar burt. Heimilin og fyrirtækin voru skilin eftir með vitleysuna. Heimilin urðu umvörpum gjaldþrota, með tilheyrandi streitu, sársauka og veikindaferli.
Framleiðslufyrirtækin fóru einnig umvörpum á hausinn og fáum árum síðar fengu stjórnendur þeirra þá einkunn hjá sterkum stjórnmálaöflum landsins, að þeir hafi bara verið óhæfir rekstraraðilar. Slík og önnur álíka ummæli stjórnmálamanna um þær hörmungar sem þeir sköpuðu sjálfir, sýnir einungis hve langur vegur er frá því að þeir hafi yfirsýn og þroska til að annast farsæla stjórnun þjóðfélags.
Hin svokallaða "verðtrygging" lánsfjárs okkar stýrist nú af hreyfingum neysluvísitölu, sem mælir verðlag vörum og þjónustu. Áður var hún tengd svokallaðri lánskjaravísitölu sem hækkaði annars vegar frá hækkun framfærsluvísitölu (fyrirrennara neysluvísitölunnar) en hins vegar frá byggingavísitölu.
Í öllu reikningshaldi, eigna- og verðmætamati, er stuðst við alþjóðlega fjórskiptingu sem greinist í REKSTRARREIKNING, með færsluliðunum "tekjur og gjöld"; og hins vegar EFNAHAGSREIKNING, sem skiptist í "eignir og skuldir". Grundvallarregla þessa alþjóðlega skipulags er sú að það sem skráð er í efnahagsreikning fer aldrei til baka í rekstrarreikning. Eignir geta minnkað og skuldir aukist, eða eignir aukist og skuldir minnkað. Hvorki eign, né skuld, geta orðið tekjur eða gjöld, sem skráð eru í rekstrarreikning.
Tenging rekstrarreiknings við efnahagsreikning er afar takmörkuð og einskorðast eingöngu við eina færslu í liðinn "Eigið fé", í efnahagsreikningi. Þannig er ljóst að aukinn kostnaður í rekstrarreikningi, getur ALDREI haft bein áhrif á verðmæti eigna í efnahagsreikning. Það eru tveir óskyldir þættir sem ekki vegast á í beinu reikningshaldi.
Enginn deilir um að peningar eru eign; sama hvort þeir eru geymdir á innlánsreikningi lánastofnunar, eða lánaðir einhverjum aðila til fjárfestinga. Þeir eru sama eignin í sama samtöluflokki efnahagsreiknings.
Neysluvísitalan, mælir eingöngu verðbreytingar kostnaðarliða. Hún getur því einungis mælt breytingar á jafnvægi rekstrarliða, þ.e. jafnvægi milli tekna og gjalda. Eins og áður sagði er það alþjóðlegur staðall reikningshalds að aukning eða minnkun kostnaðar hefur engin bein áhrif á verðmæti eigna.
Eins og hér hefur verið rakið, er það alvarlegt brot á grundvallarreglu reikningshalds og verðmætamats, að eign sé látin taka beinum breytingum til aukningar eða minnkunar, út frá mælingu kostnaðarliða rekstrarþátta, eins og höfuðstóll lánsfjár er látinn gera í svokallaðri "verðtryggingu" okkar.
Með margvíslegum hætti hefur verið reynt að vekja athygli alþingismanna og stjórnvalda á þeirri alvarlegu eignaupptöku, sem felst í því fyrirkomulagi sem viðgengist hefur hér í svokallaðri "verðtryggingu lánsfjár" í rúma tvo áratugi. Engum reikningsfærum manni, sem hefur dómgreind til að skilja alþjóðlega grundvallarreglu reikningshalds, á að vera ofvaxið að skilja þá órökréttu eignaupptöku sem átt hefur sér stað hér á landi undanfarna áratugi. Er þar átt við eignaupptöku hjá greiðendum lána, sem með órökréttum hætti hefur verið færð yfir til fjármagnseigenda, þvert gegn alþjóðlegri grundvallarreglu eignavirðis. Að slíkt sé gert á grundvelli laga, frá Alþingi, gerir bótaskyldu Alþingis og stjórnvalda augljósa, með hliðsjón af eignarréttarákvæði stjórnarskrár okkar.
En sé þetta rétt, hvers vegna er þá ekki farið með þetta málefni fyrir dómstóla?
Ég hef velt þessu fyrir mér. Ég ætla endurskoðendur og aðra reikningsfæra menn ekki svo lítt færa í fræðunum að þeir sjái ekki þá vitleysu sem í hinni meintu "verðtryggingu" okkar felst. Það er hins vegar vel þekkt að sjálfstæði og réttlætisvitund dómstóla, gagnvart stjórnvöldum, hefur verið afar umdeild. Það væri verðugt rannsóknarefni hver ástæða er fyrir því að þjóðin lætur yfir sig ganga jafn mikið af mannréttindabrotum og öðrum brotum á stjórnarskrá, vegna óvandaðra vinnubragða á Alþingi.
Þannig hljóðaði nú þessi grein sem ég skrifaði. Innstreymi lánsfjár til landsins undanfarin ár hefur haldið frá okkur raunverulegum áhrifum þeirrar vitleysu sem svokölluð "verðtrygging" er. Nú þrengir hins vegar að, þar sem erlent lánsfé til beinnar neyslu og uppbyggingar ónauðsynlegrar þjónustu, mun líklega verða af skornum skammti næstu árin. Þá kemur að því að við þurfum að fara að borga lánsféð til baka, eingöngu með tekjum þjóðfélagsins. Þá mun koma í ljós hve tekjuöflun þjóðfélagsins hefur verið illa sinnt.
Að sönnum sjómannasið, skulum við vona það besta, en búa okkur undir það versta, ákveðin í að sigrast á þeim erfiðleikum sem við höfum búið til sjálf.
15.3.2008 | 13:51
Það eru ekki bara dómararnir sem gera mistök
Niðurstaða dómaranna í þessu máli er afar undarleg og að flestu leiti utan þeirrar dómgreindar sem maður hlýtur að vænta frá dómendum. Mál þetta er á margan hátt afar athyglisvert, einkanlega þó fyrir þá þætti sem vantar á það sem kalla mætti eðlileg viðbrögð við því slysi sem þarna varð.
Slysið á sér stað 15. nóvember 2005, en Vinnueftirlitinu barst ekki tilkynning um slysið fyrr en hinn 14. apríl 2006, eða heilum 5 mánuðum eftir að slysið varð. Slys á vinnustað á að tilkynna Vinnueftirlitinu þegar í stað, svo farið geti fram vettvangsrannsókn vegna atburðarins. Þessa grundvallarskyldu uppfyllti rekstraraðili skólans ekki og dómurunum yfirsést að átelja slíkt í dómi sínum.
Þegar slysið á sér stað, er vitnið Y, sem er hjúkrunarfræðingur, í kennslustofunni en kveðst ekki hafa séð hurðina lenda á kennslukonunni, en hún hafi strax séð að áverkarnir væru alvarlegir. Þessir áverkar hlutu að vera á höfði, því þar kom höggið. Þrátt fyrir það er kennslukonan ekki flutt á slysadeild til rannsóknar, heldur virðist hún sjálf leita til heilsugæslunnar á svæðinu á slysdag, út af óþægindum og höfuðverk. Ekki er þess getið að heilsugæslulæknir hafi látið fara fram neina rannsókn á höfði konunnar í það skiptið og ekki heldur þegar hún kemur aftur á heilsugæsluna sex dögum síðar og þá með veruleg óþægindi og andlega vanlíðan.
Í dómnum segir að konan hafi reynt að fara aftur að vinna en gefist upp á því. Þá segir að síðasta skoðun á heilsugæslustöðinni hafi farið fram í lok apríl 2006 og í vottorði heilsugæslulæknis segi að bati sé hægur og óþægindi viðvarandi. Hún þjáist af höfuðverk, eymsli í hálsi og herðum. Þá séu þreyta og þrekleysi að trufla hana.
Í mínum huga er það mikið meira en grafalvarlegt að konan hafi ekki verið þegar í stað eða í það minnsta þegar hún kom aftur á heilsugæslustöð sex dögum síðar, enn með óþægindi, tekin í nákvæma rannsókn á höfði, með öllum tiltækum búnaði og tækjum hátæknisjúkrahúss okkar. Mikil umræða hefur farið fram um alvarleika innri áverka sem skapast geta af höfuðhöggum, og er það t. d. ein af ástæðum þess að hnefaleikar eru bannaðir hér.
Mér finnst verlega ámælisvert hvernig stjórnendur skólans, heilsugæslulæknir og heilsugæslustöð, bregðast mikilvægum skyldum sínum á örlagastundum þessa máls. Mér finnst það líka afar ámælisvert að dómarar skuli ekki hafa dómgreind til að sjá þessa vankanta og áfellast, að því er virðist, kæruleysislega meðferð sjúklingsins miðað við það slys sem hún lenti í. Svona kæruelysi má ekki endurtaka sig í þjóðfélagi sem státar sig af frábæru heilbrigðiskerfi.
En víkjum þá að dómsniðurstöðunum.
Niðurstöður dómaranna eru um margt afar einkennilegar og verða að flokkast sem vanhugsaðar. Barnið sem olli slysinu sem og kennarinn sem fyrir því varð, voru bæði á sínum eðlilega vinnustað, því skólinn er vinnustaður bæði barna og kennara. Bæði voru þau því á ábyrgð rekstraraðila skólans, þó einungis annað þeirra, kennarinn, hefði laun fyrir vinnu sína. Slys á öðru þeirra, sem orsakast vegna ógætni hins, er innan bótaskyldu rekstraraðila skólans, en ekki á persónuábyrgð þess sem óhappinu olli. Þessi réttarstaða er löngu þekkt í okkar samfélagi og því óskiljanlegt að dómarar þessa máls skuli hunsa hana.
Um það hvenær fullorðinn maður sýnir barnaskap og hvenær er hægt að ætlast til að barn sýni þroskaða yfirvegun fullorðins manns eru athgylisverð dæmi í þessum dómi.
Fram kemur í dómnum að barnið sé greint með Aspergerheilkenni, sem m. a. komi fram í hvatvísi og pirringi við röskun á reglubundnu umhverfi og aðstæðum. Líkur eru leiddar að því að hvatvísi hennar hafi valdið slysinu en ekki ásetningur um að valda kennaranum skaða. Barnið var reitt og langt frá því að vera í jafnvægi sem 11 ára barn, hvað þá að þetta barn hafi verið í yfirveguðu ástandi fullorðins manns og því geta brugðist við óvæntu áreiti með afslappaðri yfirvegun; en það er einmitt það sem dómararnir gera kröfu til í niðurstöðum sínum. Í dómnum segja þeir:
Ekkert liggur fyrir um það í málinu að B (stúlkan) hafi ætlað að skella hurðinni á stefnanda (kennarann) umrætt sinn heldur er líklegar að hvatvísi hennar hafi þar ráðið för eða reiði vegna þess að henni sinnaðist við skólabræður sína. Á hinn bóginn mátti henni vera ljóst að sú háttsemi hennar að loka hurðinni með afli eins og slegið hefur verið föstu að hún gerði, væri hættulegt og hlaut hún að gera sér grein fyrir því hversu alvarlegar afleiðingar sú háttsemi gat haft í för með sér.
Í þessar einu setningu sýnir dómarinn verulegan dómgreindarbrest, ef ekki hreinan barnaskap. Hann ætlast til að 11 ára barn, með þá fötlun sem þessi stúlka hefur, sem auk þess að reið og pirruð, bregðist við af yfirvegun. Fullorðinn maður þarf að vera verulega mikið andlega þroskaður til að bregðast við af yfirvegun þegar hann er reiður, eða honum finnist gert á hluta sinn. Að gera slíkar kröfur til 11 ára barns, er gjörsamlega óafsakanlegt hjá dómara þessa máls. Að dómarinn skuli vera kona finnst mér öllu alvarlegra. Því einhvern veginn finnst manni þægilegra að afsaka barnaskap karla gagnvart andlegum skilningi á þroska og andlegri getu barna, því einhvern veginn finnst manni konan með næmari skilning á sálarlíf barna.
Segja má að þetta mál sé ekki einungis sérstakt vegna einkennilegrar niðurstöðu dómaranna, heldur vegna þess hve ALLIR viðbragðsaðilar málsins, rekstraraðili skólans, heilsugæslulæknirinn og allir sem að þessu máli koma, virðast skeyta litu um afleiðingar höfuðhöggsins sem kennarinn fékk. Atvikið verður ekki aftur tekið, en einhvern veginn finnt mér að ekki sé enn farið að grafast af alvöru fyrir um það hverjar raunverulegar afleiðingar höfuðhöggsins voru og hvaða áhrif það hefur á heilsu og líðan kennarans í framtíðinni.
Er slíkt ásættanlegt í þjóðfélagi sem kallar sig lýðræðislegt réttarríki með frábæt heilbrigðiskerfi?
![]() |
Dæmd til að greiða kennara 10 milljónir í bætur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
14.3.2008 | 11:45
Tenging við tekjur maka hefur ALDREI verið lögleg
Að vísu ber að fagna því þegar Alþingi tekur ákvörðun um að láta Tryggingastofnun hætta að brjóta stjórnarskrá á sjúklingum og eldriborgurum. Betra hefði þó verið að þeir sýndu þann manndóm strax þegar þeim var bent á afbrot sitt, að þá hefðu þeir hætt lögbrotunum og leiðrétt vitleysuna. Því miður höfðu þeir ekki manndóm í sér til þess; ekki einu sinni að svara því erindi sem til þeirra var sent, eða veita þann fund sem óskað var eftir. Þeir vissu greinilega að þeir höfðu engan málstað að verja og vildu hvorki láta slíkt sjást í rituðu máli eða á myndbandi. Ég læt hér fylgja hluta úr greinargerð sem TR var send í nóvember 2006 og þeir hafa ekki svarað enn.
Hér kemur kafli úr erindinu til Tryggingastofnunar:
Þessum rökum sem þarna er sett fram hefur Tryggingastofnun ekki enn treyst sér til að svara eða mótmæla, en hefur samt haldið áfram að brjóta stjórnarskrána, eins og þarna er bent á. Þetta fólk sem situr á Alþingi og í stjórnarstofnunum virðist vera búið að glata virðingu fyrir réttlæti og lýðræði, því miður.
![]() |
Tenging tryggingabóta við tekjur maka afnumin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.3.2008 | 17:30
Hvað segja barnalögin ??
Ég hélt að í barnalögum stæði að börn ættu rétt á að þekkja báða foreldra sína. Ef einhleyp kona fer í tæknifrjógun, og sæðisgjafi ekki skráður eða þekktur, hver tryggir þá því barni að það fái að þekkja föður sinn.
Eru ekki einhverjir að gleyma einhverjum mikilvægum gildum og fórna miklum hagsmunum fyrir afar litla.
![]() |
Einhleypar konur í tæknifrjóvgun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.3.2008 | 14:35
Nú sannast kenningin: eignaáform eða fiskifræði ??
Nú er rétt fyrir menn að fylgjast vel með framgöngu sjávarútvegsráðherra. Ef sömu sjónarmið ráða hjá honum gagnvart þorski og voru gagnvart loðnu, þá verður fljótlega gefinn út aukinn kvóti í þorski. Þá mun líka sannast að það er verið að stýra veiðinni eftir magni fisks á miðunum, en ekki einhverjum öðrum hagsmunum eða sjónarmiðum.
Ef ekki verður gefinn út viðbótarkvóti í þorski nú fljótlega, mun það endanlega sanna að samdráttur í aflaheimildum byggist ekkert á fiskifræði, heldur illa duldum áformum kvótagreifanna (lénsherrana sem stjórna Hafró bak við tjöldin) að ná eignarrétti yfir aflaheimildunum á Íslandsmiðum.
Sjáum hvað setur. Nú eru viðmiðin skýr. Nýlegar aðferðir við aukningu loðnukvóta vegna sjáanlega aukinnar loðnu á miðunum. Og svo nú Feitur og pattaralegur þorskur út um allt, meira af honum en í fyrra og líka feitari. Forsendurnar þær sömu og í loðnunni, en vera viðbrögð ráðamanna þau sömu. Við fylgjumst með.
![]() |
Feitur fiskur úr sjó |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.3.2008 | 14:33
Vestfirðingar hafa ævinlega haft djörfung og dug til að bjarga sér sjálfir og láta þjóðina njóta sneiðar af kökunni
Ég skil það vel að við sem erum alin upp í þessum fallega landshluta skulum fyllast eldmóði þegar talið berst að þeirri niðursveiflu sem Vestfirðir hafa orðið að þola undanfarna áratugi, vegna óvitaskapar stjórnmálamanna. Það er löngu þekkt í sálfræði að barátta við erfiðleika sem ekki er hægt að hafa hendur á, getur lamað sköpunarmátt og orku til athafna. Það er mun styttri tími en tveir áratugir sem þarf til að slíkra áhrifa fari að gæta.
Að varpa fram hugmyndum til atvinnusköpunar í einhverjum landshluta er alls óskylt neinum björgunarþáttum. Þar er einfaldlega á ferðinni velvilji í garð þeirra sem í landshlutanum búa. Gamalt máltæki segir: - Glöggt er gests augað. - Allir sem tekið hafa þátt í þróunarverkefnum vita af eigin raun, að oft koma bráðsnjallar leiðir til úrlausnar frá einhverjum sem sér verkefnið úr meiri fjarlægð en þeir sem eru að vinna verkið. Þessir þætir eru þekktir og engin ástæða til, hvorki að mikla þá, né gera lítið úr þeim og setja þá í annan búning en til er stofnað.
Líkt og með aðra hluta Íslands, eru einu færu leiðir vestfirðinga að stofna til atvinnureksturs sem skapar gjaldeyristekjur. Að setja á fót þjónustustarfsemi í kappi við yfirhlaðinn þjónustumarkað í þjóðfélagi sem þegar er með alltof yfirspenntan þjónustuþátt í hagkerfi sínu, er eitthvað sem trúlega væri einn versti bjarnargreiði sem hægt væri að gera vestfirðingum nú. Fólk verður því að horfa og hugsa nokkuð fram í tímann, því það tekur ævinlega tíma að byggja upp atvinnulíf, sama í hverju það er fólgið.
Þegar við lítum á heimin, sjáum við stöðuga aukningu mengunar, sem þegar er farinn að hafa áhrif á heilbrigt fæðuframboð. Markaður næstu áratuga er því mestur á sviði heilbrigðrar fæðu. Vestfirðir eru einstaklega vel staðsettir til þróunar slíkra matvæla, bæði vegna legu sinnar gagnvart straumum vinda, sem mest koma úr hafi frá norðri eða suðvertri, sem og vegna stöðu sinnar á sviði hafstrauma. Það eru fá landsvæði í veröldinni sem bjóða upp á betri möguleika til heilbrigðis.
Mengun hafsvæða í flestum heimsálfum er þegar farin að spilla lífríki nytjafiska verlega og vaxandi fer ótti framsýnna manna fyrir því að þessi mikilvægi þáttur í fæðuþætti mannsins geti verið í hættu. Fólk þarf ekki að leita lengra en í ræðu Forseta okkar á Búnaðarþingi nú nýverið til að fá staðfestingu á, að þetta er áhyggjuefni þeirra sem hugsa til framtíðar. Eldi nytjafiska, eins og þorsks, er því beinlínis eins og að búa sér til gullnámu.
Arnarfjörðurinn er einstaklega vel til þess fallinn að stunda frjálst eldi á þorski. Hann er vel djúpur víða, en er grunnur yst, sem skapar góða möguleika fyrir viðkvæmt lífríki, sem víða er á undanhaldi, einkanlega vegna mikilla togveiða. Ef við gæfum okkur að svo sem eins og tíu farmar loðnuskipa, 10 - 14 þúsund tonn af loðnu, væru tekin frá til að ala fisk í Arnarfirði, sem síðan yrði slátrað feitum og pattaralegum, væru vestfirðingar að setja fullunna vöru á matvælamarkað, vöru sem nánast er að verða óþekkt, vegna ástands fiskistofna. Fleiri mundu nú þegar vilja kaupa slíka vöru, en Vestfirðingar gætu framleitt fyrir. Af slíku yrðu meiri þjóðartekjur og öruggara atvinnulíf fyrir Vestfirði, en af ýmsum þáttum þjónustustarfsemi, sem talað hefur verið um, sem og af starfsemi olíuhreinsunarstöðvar.
Ég er ekki að segja Vestfirðingum að gera þetta eða neitt annað, en þeir gætu leitt hugann að þessum leiðum.
Með kveðju; Einn sem ávalt verður Vestfirðingur, hvar í heiminum sem hann dvelur.
![]() |
Bloggarar taka sig saman og vilja bjarga Vestfjörðum" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Nýjustu færslur
- Álfagangur varðandi lángtímaleigu á Álfabakka 2?
- EES samningur og ætlað vald ESB
- Efnahags og viðskiptanefnd Alþingis 2021 / Hver er þekking ál...
- Þjóð án fyrirhyggju og dómgreindar: Fyrirlestur saminn og flu...
- Þetta jaðrar við hættulegt ábyrðarleysi hjá fomanni stærsta s...
- BREYTING ER NAUÐSYN TIL BETRA LÍFS
- YFIRSTJÓRN SEÐLABANKANS Lög 2019
- EES samningur og ætlað vald ESB
Eldri færslur
2025
2024
2023
2022
2021
2020
2019
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.10.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
alla
-
framtid
-
mammzan
-
hallgrimurg
-
huldumenn
-
jaxlinn
-
johanneliasson
-
maggij
-
photo
-
haukurn
-
runar-karvel
-
sigrunsigur
-
skodunmin
-
svarthamar
-
vestskafttenor
-
athb
-
thjodarsalin
-
seiken
-
skinogskurir
-
bjarkitryggva
-
bjarnimax
-
brahim
-
gattin
-
einarhardarson
-
einarorneinars
-
bofs
-
dramb
-
haddi9001
-
heimssyn
-
tofraljos
-
don
-
hordurvald
-
fun
-
visaskvisa
-
huxa
-
jonasphreinsson
-
jonl
-
jobbi1
-
jonvalurjensson
-
jonthorolafsson
-
josefsmari
-
juliusbearsson
-
ksh
-
kolbrunerin
-
kristbjorg
-
liu
-
skrafarinn
-
maggiraggi
-
markusth
-
os
-
raksig
-
rosaadalsteinsdottir
-
fullvalda
-
siggileelewis
-
duddi9
-
siggith
-
saemi7
-
tryggvigunnarhansen
-
vga
-
thjodarheidur