25.4.2012 | 23:38
Fjölbreytt gagnrýni á Kvótafrumvörpin.
Athyglisvert er að lesa gagnrýni ýmissa fræðimanna á kvótafrumvörp stjórnvalda. Hugmyndafræði að baki ýmsum athugasemdum er merkileg en um leið nokkuð talandi um heiðarleika þeirra sem slíkar umsagnir vinna. Lítum á dæmi. Áliti Bonafide lögmanna, þeirra Lúðvíks Bergvinssonar, fyrrverandi þingmanns samfylkingar og Sigurvins Ólafssonar, er m. a.
"Enn fremur verður ekki betur séð en að ákvæði um álagningu og innheimtu sérstaks veiðigjalds fari gegn banni stjórnarskrárinnar um afturvirka skattheimtu,« en í umfjöllun um þetta atriði var 77. grein stjórnarskrárinnar skoðuð. Þá segir að auk þess leiki vafi á um að ákvæðin að baki skattlagningunni uppfylli skilyrði stjórnarskrár um skýrleika."
Þarna gera þessir ágætu lögmenn tilraun til að jafna auðlyndagjaldi við skattheimtu. Það er afar langsótt, sérstaklega af fyrrverandi þingmanni, þar sem auðlyndagjald er grunngjald tekjuöflunar og því frádráttarbært gagnvart skattlagningu. En 77. gr. stjórnarskrár hljóðar svo:
"77. gr. [Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.
Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu."
Það er varla hægt að gera minni kröfur til lögmanna en að þeir kunni að lesa raunskilning stjórnarskrár. Þessa lögmenn virðist vanta eitthvað á það, eða þeir virðist tilbúnir að ljá nafn sitt við misnotkun á stjórnarskránni. En áfram segir í umfjöllun Mbl:
Í samantekt segja lögmennirnir að með frumvörpunum sé gengið mjög nærri margvíslegum réttindum sem stjórnarskrárgjafinn hefur talið nauðsynlegt að vernda og því líklegt að verði þau að lögum óbreytt muni hefjast miklar og langvarandi deilur fyrir dómstólum um réttmæti laganna. Segir þar að hugmyndir frumvarpshöfunda séu ekki líklegar til að skapa sátt um umhverfi fyrirtækja í sjávarútvegi, »þrátt fyrir að það sé yfirlýstur tilgangur þeirra«.
Taka má undir með lögmönnunum að hugmyndir frumvarpshöfunda séu ekki líklegar til að skapa sátt um umhverfi fyrirtækja í sjávarútvegi. Hins vegar er ámælisvert að kasta fram jafn þýðingarmiklu atriði eins og því að með frumvörpunum sé gengið mjög nærri margvíslegum réttindum sem stjórnarskrárgjafinn hefur talið nauðsynlegt að vernda. - Hvaða réttinda er þarna verið að vísa til? Það er beinlínis ókurteisi gagnvart lesendum að leita ekki frekari heimilda um hvaða réttindi er þarna um að ræða. Og áfram segir í umfjöllun Mbl:
Verði frumvörpin að lögum muni nýjar reglur hafa mikil áhrif á þróun sjávarútvegsfyrirtækja á næstu misserum. Líklegt sé að minni fyrirtæki muni sameinast þeim stærri, a.m.k. þeim sem hafa bæði veiðar og vinnslu á sinni hendi. Líklegt sé að fyrirtækjum fækki og óstöðugleiki, sem deilur um regluverk skapi, komi til með að gera erfitt fyrir nýliða að fjármagna sig vegna óvissunnar.
Í þessari málsgrein snúa lögmennirnir nánast öllum staðhæfingum á haus. Rétt er að verði frumvörpin að lögum mun það hafa mikil áhrif á fyrirtæki í sjávarútvegi. Mestar líkur eru á því að minni útgerðir verði hagkvæmari af tvennum ástæðum. Annars vegar er þar oftast um ódýrari og minni skip að ræða, sem bæði eru minna skuldsett og hafa lægri rekstrarkostnað á hvert tonn afla. Líklega verður smábátaútgerðin hagkvæmust og strandveiðarnar, það sem skilar mestri arðsemi fyrir þjóðarbúið.
Í annarri umfjöllun á síðum Mbl. í dag, miðvikudaginn 25. apríl 2012, er vitnað í álit KPMG endurskoðunar og rætt við Sigurð Jónsson framkvæmdastjóra þess fyrirtækis. Segir hann að: Meginniðurstaða KPMG er að vinna þurfi frumvörpin betur. - Á öðrum stað segir Sigurður: Mörg atriði í frumvörpunum eru óskýr. Samkvæmt frumvörpunum verður sjávarútvegsráðherra fært býsna mikið vald. Áður en það skref er stigið þarf það vald að vera betur skilgreint. - Undir þetta má taka, en betur hefði mátt skýra önnur ummæli í umfjölluninni.
Á forsíðu Mbl.is var fyrst að morgni miðvikudags vísað til erfiðrar skuldastöðu fyrirtækja. Var þar vísað til þess að fyrirtæki sem væru með 50% skuldsetningu mundu ekki standa af sér hugmyndir frumvarps um veiðigjald. Ef fyrirhugaðar breytingar yrðu gerðar mundi eiginfjárstaða Vinnslustöðvarinnar, sem nú væri 40% lækka niður í 20,2% vegna veiðigjaldsins. Hvað getur það verið sem veldur þessu?
Eina skýra ástæðan fyrir lækkun eiginfjárhlutfalls er sú að í bókhaldi fyrirtækisins séu aflaheimildir bókfærðar sem 18,8% eiginfjár. Þegar breytingin væri gengin í gegn, væri ekki lengur hægt að skrá aflaheimildir í efnahagsreikning útgerða. Þess vegna yrði að fella út þessa 18,8% óraunhæfu eiginfjárstöðu og eftir stæði raunveruleikinn 20,2% eiginfjárhlutfall.
Við það að eignfærsla lækkaði þetta mikið við niðurfall eignskráningar aflaheimilda, mundi hlutfallstala skulda einnig aukast. Ef markaðsvirði hrapaði ekki mikið, gæti skuldastaða fyrirtækisins numið 60-80% af metnu eignarvirði og eigið fé til að standa undir þessum skuldum væri í besta falli 20,2%, en yrði líklega lægri vegna þess hve uppskrúfað hlutabréfaverð hafði verið, en þau verðmæti féllu í verði samhliða útfellingar eignvirðis aflaheimilda. Það mundi líklega kalla á að bankar krefðust traustra veða fyrir þeim lánum sem voru með meintu veði í aflaheimildum og/eða hlutabréfum, auk þess sem þeir krefðust líklega hærri vaxta.
Þar sem fyrirtækin eru nú þegar yfirveðsett, hafa þau enga möguleika á að láta bönkunum í té veð sem þeir gætu samþykkt, vegna kvótalánanna. Gjaldfelling mundi því blasa við og þar sem fyrirtækin gætu ekki endurfjármagnað þessi lán, færu fyrirtækin óhjákvæmilega í gjaldþrot, nýir útgerðaraðilar tækju við aflaheimildunum og lífið héldi áfram sinn venjulega gang.
Það sem hér hefur verið lýst hefur í raun ekkert með frumvörpin að gera. Þessi breyting er einungis vegna þess að útgerðarfyrirtækjum verður gert skylt að færa út úr efnahagsreikningum sínum eignfærslur vegna aflaheimilda. Ef Alþingi tæki einungis þá afstöðu í fiskveiðistjórnun á þessu þingi, að banna eignfærslu aflaheimilda í efnahagreikningum útgerða, yrði niðurstaða umsagnaraðilanna nánast sú sama. Það er því hið falsaða bókhald útgerðanna sem er vandamálið en ekki gjaldtaka fyrir nýtingu auðlindarinnar.
24.4.2012 | 22:35
Bókin Mannréttindi í Þrengingum
21.4.2012 | 15:19
Myndband með athugasemdum við Kvótafrumvarp á þingskjali 1052
15.4.2012 | 23:26
Eru óvitar að semja lög um fiskveiðistjórnun??
Samkvæmt frumvarpinu er markmið laganna talin til í eftirfarandi liðum:
a. að stuðla að verndun og sjálfbærri nýtingu fiskistofna við Ísland,
b. að stuðla að farsælli samfélagsþróun með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi,
c. að treysta atvinnu og byggð í landinu,
d. að hámarka þjóðhagslegan ávinning af sjávarauðlindinni og tryggja þjóðinni eðlilega auðlindarentu,
Allt eru þetta falleg markmið, þó mér finnist b. liðurinn vera þokukennda draumsýn. Ég hefði kosið að sjá hann orðaðan á eftirfarandi hátt.
b. ætíð verði leitað að hagfeldu rekstrarumhverfi fiskiskipa af hagstæðri rekstrarstærð, sem meginmarkmiði þess að laða fram hámarks þjóðhagslegan ávinning af sjávarauðlindinni, og tryggja þjóðinni þannig sem besta búsetu og atvinnustig í sjávarbyggðum, ásamt eðlilegu afgjaldi af auðlindinni.
Einn mikilvægasti hluti hverra laga er markmiðslýsing þeirra og við framkvæmd laganna verða markmiðin einn af mikilvægu þáttum við framkvæmd á stjórnun veiðanna. En í texta lagagreina frumvarpsins eru þessi markmið oft afar óljós og iðulega hvergi nærri.
Grunnreglan verði skýr og ótvíræð.
Eina skýra reglan sem lögfest hefur verið um úthlutun aflaheimilda, var sett við fyrstu úthlutun aflaheimilda. Þau lög sem þar um ræðir, giltu einungis í eitt ár og féllu þá úr gildi vegna nýrra laga um fiskveiðistjórnun, sem líka giltu í eitt ár. Segja má að í öllum fyrstu lögunum um fiskveiðistjórnun, hafi verið vísað til reglunnar sem sett var við fyrstu úthlutun, en hún var um að úthlutun aflaheimilda skildi byggjast á veiðireynslu undangenginna 3ja ára.
Þessa reglu vildu útvegsmenn ekki sætta sig við að nota. Þeir settu því fram þá sérkennilegu kröfu að einungis ætti að úthluta aflaheimildum til þeirra skipa sem voru við veiðar á árunum 1980 - 1983. Út frá úthlutun aflaheimilda fyrsta ársins bjuggu þeir til hugtakið "aflahlutdeild", sem var hlutfall hvers skips í úthlutuðum heildarafla. Þessi regla um aflahlutdeild var aldrei lögfest og hefur því alla tíð verið framkvæmd án lagaheimilda. Þrátt fyrir margítrekaðar fyrirspurnir hafa stjórnvöld og þingmenn ævinlega komið sér hjá því að svara fyrirspurnum um lagaheimildir fyrir hugtakinu "aflahlutdeild". Hefur það því hangið í loftinu öll þessi ár og aldrei fengist staðfest fyrr en með framlagningu þess frumvarps sem hér er fjallað um.
Aflahlutdeild ekki til í lögum.
Í 2. tölulið 4. gr. frumvarpsins, sem fjallar um orðskýringar, segir svo um aflahlutdeild: Aflahlutdeild: Hlutdeild í leyfðum heildarafla í nytjastofni.
Ekki er vísað til neinna lagaheimilda fyrir þessu mikilvæga fyrirkomulagi útdeilingar, án endurgjalds, á hlutfalli af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Hins vegar segir svo í 9. gr. frumvarpsins, um nytjastofna utan aflahlutdeildar:
"Þegar veiðireynsla hefur myndast í stöðugu umhverfi og að öðrum efnislegum forsendum uppfylltum flytur ráðherra frumvarp til laga um úthlutun aflahlutdeilda í viðkomandi nytjastofni. Tekið skal mið af veiðireynslu, bæði fyrir og eftir gildistöku laga þessara, réttmætum hagsmunum þeirra sem hófu veiðar, verðmætamyndun og heildarmarkmiðum laganna."
Takið eftir því orðalagi sem þarna er viðhaft: "flytur ráðherra frumvarp til laga um úthlutun aflahlutdeilda í viðkomandi nytjastofni" EF lög væru til um aflahlutdeild úr takmörkuðum nytjastofnum, mundi ráðherra ekki flytja frumvarp til laga um úthlutun aflahlutdeildar. Hann mundi flytja frumvarp til breytinga á lögum um aflahlutdeild. Það er því nú orðið ljóst að engin lög eru til um aflahlutdeild.
Þessu til viðbótar virðast textahöfundar frumvarps um fiskveiðistjórnun ekki hafa vitað af því að hingað til hefur verið úthlutað í Aflamarki, eða magni kílóum/tonnum í hverri fiskitegund sem úthlutað er, en ALDREI aflahlutdeilda.
Hins vegar segir í 8. gr. umrædds frumvarps að nú skuli fara fram Úthlutun samkvæmt aflahlutdeildum. Hvernig það eigi að fara fram er hins vegar alveg óljóst. Eins og fyrr segir eru engin lög til um "aflahlutdeild" og því engin lögbær heimild til að úthluta með þeim hætti. Ef ætlunin hefði verið að gera lögtæka úthlutun samkvæmt "aflahlutdeild" hefði lagafrumvarp til löggildingar á því fyrirkomulagi þurft að koma fram samhliða frumvarpinu um fiskveiðistjórnun. En svo er ekki. Þess vegna er ekki hægt að ákvarða sem lög, úthlutunarreglu samkvæmt 8. gr. frumvarpsins.
Ekki er ætlunin að tína til alla þætti frumvarpsins sem tvímælis orka. Hins vegar er ekki hægt að skilja eftir ákvæðið samkvæmt 12. gr. frumvarpsins um Framsal aflahlutdeilda. Í 1. mgr. segir að: "Fiskistofa skal leyfa flutning aflahlutdeilda milli fiskiskipa, ef eftirtalin skilyrði eru uppfyllt:" Í 2. tölulið skilyrða segir svo:
2. Fullnægjandi upplýsingar um kaupverð aflahlutdeildar fylgja.
Þarna er athyglisvert ákvæði. Í 1. gr. frumvarpsins segir að: Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameiginleg og ævarandi eign íslensku þjóðarinnar. Þarna fer væntanlega ekkert á milli mála, eða hvað. Hvers vegna tala textahöfundar frumvarpsins allt í einu hér um kaupverð aflahlutdeildar, þegar ljóst er samkvæmt markmiðum laganna að: Íslenska ríkið veitir öll tilskilin veiðileyfi til nýtingar aflaheimilda samkvæmt þeim takmörkunum sem lög þess greina. Þarna er skýrt og greinilega talað um veiðileyfi til nýtingar en hvergi minnst á sölu eða kaupverð aflahlutdeildar. Slíkt er engan vegin hægt að hafa í lögum.
Hvers vegna geta ekki verið ákvæði um sölu eða kaupverð í þessum lögum? Ástæðan er einföld. Í markmiðum 1. gr. laganna segir skýrum orðum um veiðileyfi til nýtingar:
Slíkt nýtingarleyfi aflaheimilda myndar ekki eignarrétt, óafturkallanlegt forræði eða sjálfstæða ráðstöfun einstakra aðila yfir hinum úthlutuðu aflaheimildum.
Eins og þarna er greinilega sagt, getur enginn haft á hendi heimild til sölu aflamarks eða aflahlutdeildar, þar sem í 1. gr. laganna segir að hið veitta leyfi sé einungis nýtingarleyfi, sem myndar ekki eignarrétt, eða sjálfstæða ráðstöfun einstakra aðila yfir hinum úthlutuðu aflaheimildum. Enn eitt dæmið um að textahöfundar frumvarpsins skorti mikið á að hafa heildaryfirsýni yfir það verk sem þeir voru að vinna.
Það síðasta sem ég vík að nú, er ákvæði 17. gr. frumvarpsins sem nefnist Kvótaþing:
Í 1. mgr. 17. gr. segir svo: "Fiskistofa starfrækir markað fyrir aflamark," Hér verður strax að taka fram að samkvæmt þeim lögum sem verið er að setja, með frumvarpi þessu, er aðeins um að ræða úthlutun á veiðileyfi til nýtingar, en engrar annarrar ráðstöfunar. Eins og að framan segir, myndar slíkt nýtingarleyfi ekki eignarrétt, óafturkallanlegt forræði eða sjálfstæða ráðstöfun einstakra aðila yfir hinum úthlutuðu aflaheimildum
Ekki verður því betur séð en fullkomlega sé ólöglegt að sjávarútvegráðuneytið sjálft, setji skyldur á Fiskistofu, sem er undirstofnun ráðuneytisins, að hún reki stofnun eins og Kvótaþing, sem ætlað er að stunda markaðs- og sölumiðlun aflaheimilda. Sölustarfsemi sem ekki er heimil samkvæmt núgildandi lögum og getur ekki orðið heimil samkvæmt þeim lögum sem kæmu frá þessu frumvarpi. Ein mikilvægasta ástæða þess er að markmið þessara tilvonandi laga er að aflahlutdeild (aflaheimildir) verði ævarandi eign íslensku þjóðarinnar. Fiskistofa getur því með engu móti rekið sölumarkað fyrir aflaheimildir eða aflahlutdeildir sem ALLS EKKI MÁ SELJA.
13.4.2012 | 17:27
Frjálst flæði! Óraunhæft og gengur ekki upp.
Það er ljóst að hið svokallaða fjórfrelsi ESB er ekki raunhæft og getur engan veginn gengið upp í raunveruleikanum. Ekki þarf annað en horfa á það sem gerst hefur hér á undanförnum árum, til að átta sig á að í það minnsta tvö af fjórum þáttum fjórfrelsinsins eiga sér ekki raunveruleikagrunn í neinu sjálfstæðu landi. Er ég þar að tala um frjálst flæði vinnuafls og fjármagns
Lítum fyrst á frjálst flæði vinnuafls. Við vitum að í löndum ESB er umtalsvert atvinnuleysi. Vaxandi samdráttur í efnahag margra landa mun óhjákvæmilega draga úr lifskjörum þeirra atvinnulausu, ekki síður en annarra þegna þessara landa. Svo gæti farið að einhver lítill hluti þess atvinnulausa fólks í þessum löndum, segjum 200 manns, ákvæði að fara til Íslands að leita sér vinnu. Ekki væri hægt að meina þessum hópi að koma til landsins og honum væri einnig heimilt að leita sér að vinnu. Segjum að 40 fengju vinnu en hinir ættu rétt á að vera hér í atvinnuleit í 3 mánuði, að mig minnir.
Þeir sem fengu vinnu, myndu skrifa um það á Facebook hvað launin væru góð hér og hve auðvelt væri að fá vinnu hérna. Þessar færslu læsu c.a. ein milljón atvinnulauss fólks í ESB löndunum. Sumir hugsa sér til hreyfings en aðrir ekki. Niðurstaðan yrði sú að á stuttum tíma kæmu frá c.a. 10 ESB löndum u.þ.b. 50.000 manns í atvinnuleit. Ekki hátt hlutfall af atvinnulausu fólki í þessum löndum. Við gætum ekki neitað þessu fólki um landvist vegna þess að í EES samningnum er ákvæði um frjálst flæði vinnuafls og fólkið er allt að leita sér að vinnu. Fólkið á þann rétt að dvelja hér í tiltekinn tíma í leit að atvinnu.
Fólk sem kemur úr atvinnuleysi í ESB löndum er tæplega með mikið fjármagn meðferðis. Mestar líkur væru því á að umtalsverður hutli hópsins væri innan skamms tíma kominn á félagslegt framfæri hér á landi. Við hefðum enga möguleika á að taka við félagslegum skyldum gagnvart svona stórum hópi. Jafnvel 5.000 manns væri of mikið fyrir okkar samfélag. Við hefðum ekkert húsrými fyrir þann fjölda, auk þess sem kostnaður vegna 5.000 manns yrði c.a. 1.000 milljónir mánuði.
Dæmið sem hér var tekið er dálítið ýkt en þó alls ekki óraunhæft. Ef fréttir bærust út um að hér væri gott að lifa af atvinnuleysisbótum, gæti fólk streymt hingað í þúsundatali. Af þessu sést að frjálst flæði vinnuafls er alls ekki byggt á raunveruleika, heldur fallegt hugtak á pappír; hugtak sem engin leið væri að framfylgja miðað við þær aðstæður sem nú eru í Evrópu.
Frjálst flæði fjármagns:
Sama lögmál er einnig í sambandi við frjálst flæði fjármagns. Við höfum afar áþreifanlegt dæmi í fjármálum okkar lands. Fyrir hrun var mikið fjármagn flutt úr landi. Eftir sat svo þjóðin með alltof lítið fjármagn til að reka samfélagið. Ef ekki hefði verið lokað fyrir fjárstreymið úr landi, væri nánast ekkert fjármagn eftir í landinu til greiðslu launa og annars rekstrarkostnaðar. Samkvæmt reglum ESB á ekki að vera hægt að stöðva svona fjárstreymi en greinilega hafa hugsuðir fjórfrelsisins ekki hugsað þessi mál af neinni þekkingu á mögulegum afleiðingum svona reglna.
Kannski er enn athyglisverðara hve meðvirknin með vitleysunum í grunnreglum ESB er mikil, að enginn skuli nefna þessi stórhættulegu frelsisákvæði. Gildir það fyrir nánast hvaða ríki sem ætti í hlut. Ekkert ríki þolir að tapa miklu af heildarveltu þjóðarinnar án alvarlegra afleiðinga.
Við höfum áþreifanlegustu dæmin úr fjármálalífi þjóðar okkar. Síðustu sjö árin fyrir hrun, voru tekin erlend lán fyrir c.a. 10 þúsund milljarða í skammtímalánum. Þar af c.a. 7 þúsund milljarðar síðustu tvö árin fyrir hrun. Nánast ekkert af þessu fjármagni var notað til tekjuskapandi fjárfestinga. Meginhlutinn fór til húsbygginga sem engin þörf var fyrir. Einnig voru keypt hlutabréf í óraunhæfum þjónustufyrirtækjum og eignalausum eignarhaldsfélögum, og einnig til beinar neyslu.
Fjármagn sem notað er til að byggja hús, getur með engu móti skilað sér til baka á skemmri tíma en 25 40 árum. Það er því vitlausasta fjármálastjórnun sem hugsast getur, að endurlána til slíkra framkvæmda, 3 7 ára erlend skammtímalán. Greiða þarf hin erlendu skammtímalán með gjaldeyri, en á svo skömmum tíma 3-7 árum, verður engin aukning á gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Það er því hámark ábyrgðarleysis gagnvart efnahagsjafnvægi þjóðarinnar að nota gjaldeyrislán til að byggja hús sem ekki eru til gjaldeyrisskapandi starfsemi, sem einnig eróvíst var að kaupendur fáist að áður en greiða þarf hið erlenda lán.
Að sjálfsögðu voru það íslensku peningarnir okkar sem notaðir voru til að byggja öll þessi hús. Lítil gagnrýni var á þetta fyrirkomulag vegna þess að fólk virtist líta á erlnda lánsféð eins og það væri hrein eign okkar, sem við þyrftum aldrei að endurgreiða. Engum datt því í hug að þörf væri á fjárfestingu í tekjuskapandi atvinnugreinum. Á fáeinum árum tvöfaldaðist þjónustuvelta þjóðfélagsins. Gjaldeyristekjur jukust þó afar lítið, en verslunar- og þjónustugeirinn óx gríðarlega.
Á þessum árum gætti enginn að því hvort þjóðin hefði í sínum fórum nægilegt fjármagn til að reka það samfélag sem við höfðum verið að byggja upp og auka um leið stöðugt við útgjaldaþætti þjóðfélagsins. Enginn hafði eftirlit með því að fjármagn þjóðarinnar væri tiltækt hér innanlands, til að greiða t. d. fyrir velferðar- og menntakerfin. Nokkrir óprúttnir aðilar notuðu sér FJÓRFRELSIÐ, og fóru með mikið magn fjármuna úr landi án þess að nokkrar heimildir væru til sem gætu stoppað þá.
Með EES samningnum gengumst við inn á frjálst flæði fjármagns. Líklega hefur enginn sem smþykkti EES samninginn hugsað út í áhrif þess ef fáeinir aðilar söfnuðu að sér veltufjármunum þjóðarinnar og flyttu þá svo úr landi til varðveislu í erlendum bönkum. Ef þeir aðilar sem fyrir þessu stóðu, hefðu ekki á sama tíma dælt inn í landið erlendu lánsfé, hefði þjóðin orðið áþreiganlega vör við þegar peningarnir fóru úr landi. Það sem eftir varð, var þegar orðið fast í óþörfum húsbyggingum sem ekki tókst að selja og munu ekki seljast á næsta áratug eða meira.
Eins og hér hefur verið sýnt fram á er afar alvarleg grundvallarskekkja í þeim meginreglum sem ESB er byggt á. Innan tíðar munu mörg ESB-lönd vakna upp við þann vonda draum að veltufjárstaða þjóðanna er ekki lengur í ríkiseign, því megnið af fjármunum álfunnar eru komið á hendur tiltölulega fárra einstaklinga, sem fyrst og fremst hugsa um að fjármagnið skili þeim sjálfum arði. Þeir hafa engan sérstakan metnað gagnvart einhverju einstöku ríki. Þeir koma fjármagni sínu fyrir í bönkum sem þeir meta trausta. Í hvaða landi þeir bankar eru, skiptir þá engu máli. Og bankastofnunum verður ekki frjálst að nota þetta fjármagn til almennra útlána, en krafist verður hárra innlánsvaxta, sem munu þýða enn hærri útlanavextir.
Þessir aðilar eru engir aular í peningamálum, þess vegna hefur þeim tekist þessi samansöfnun peninganna. Þeir vita að allir helstu bankar innan ESB eru búnir að leggja of mikið af útlánagetu sinni til að bjarga ESB frá falli. Ef einhver ESB þjóð fer í greiðsluþrot, verður ekki komist hjá Dóminó-áhrifum víða um heim. Af þessum ástæðum er ljóst að sífellt stækkandi hluti evrusjóða lenda í bankastofnunum utan evrusvæðis, því ef þeir væru innan svæðisins þegar hrunskriðan fer af stað, munu þeir sjóðir þurrkast út á svipstundu, líkt og gerðist með fjármagn þjóðar okkar þegar hrunið varð. Alvöru fjármálamenn lenda ekki í slíkum krísum. Þeir verða og eru löngu farnir með sína sjóði áður en til hruns kemur og þeir vita að það er alveg á næsta leiti.
Líklega eru það ekki margir sem leitt hafa hugann að þeim fréttum sem nokkuð hefur verið um síðustu mánuði, að mikil ásókn væri í að kaupa gull. Ásókn þessi er ekki eingöngu bundin við málminn sem slíkann. Ástæðan er einnig fólgin í því að það eru hömlur á flutningi peninga út úr ESB löndunum.
Það eru hins vegar engar álíka hindranir í sambandi við að flytja gull út úr ESB lögsögunni. Með þessu móti hefur umtalsvert magn af veltufé Evrópu verið flutt í skjól utan hættusvæðis. Máltækið segir að rotturnar forði sér frá skipum sem muni sökkva. Sama á við um peningamennina. Þeir forða sér þegar þeir finna þefinn af samdrætti og greiðsluvandræðum. Það er því ekki langt þangað til mörg lönd standa frammi fyrir sömu afleiðingum FJÓRFRELSISINS og þeim sem við erum að fást við, eftir að fjármagni þjóðarinnar var bísað úr landi, rétt fyrir hrun.
Af því sem hér hefur verið rakið má glögglega sjá að ENGINN RAUNVERULEGUR GRUNNUR ER UNDIR FJÓRFRELSINU. Með allmikilli sannfæringu má einnig segja að einn af stærstu áhrifaþáttum alþjóðahruns fjármálakerfa, eigi rót sína að rekja til fjórfrelsinsins, þ. e. einkanlega frjálsu flæði fjármagns. Það er vart til meira ábyrgðarleysi valdamanna, en að vera ekki þegar horfnir frá grundvallarþáttum í allsherjarhruni peningakerfa heimsins, sem er hið frjálsa flæði fjármagns. Það er hugtal sem ALDREI mun geta gengið upp, ekki einu sinni innan eins þjóðríkis, hvað þá ríkjasambandi tuga ólíkra efnahags hagkerfa.
13.4.2012 | 11:17
Út úr fjötrum fjármagnsins.
Nú á tímum virðast stjórnmálamenn verða ráðþrota ef þeir geta ekki fengið PENINGA til allra hluta. Það hefur verið vandlega gróðursett í hugum þessa fólks að lykillinn að allri verðmætasköpun séu peningar. Athyglisvert í ljósi þess að peningar eru AFRAKSTUR verðmætasköpunar en ekki grundvöllur hennar.
Á örfáum áratugum hefur fjármagnseigendum, með einstaklega lúmskum hætti, tekist að ná þeim tökum á alþjóðasamfélaginu að stjórnendur þjóða virðast magnþrota ef þeir geta ekki talað út frá peningum. Með einstaklega lúmskum hætti hefur stjórnmálamönnum verið talin trú um að nauðsynlegt sé að meta hverja minnst hreyfingu fólks til ákveðins peningaverðmætis, svo mögulegt sé að tekju- eða kostnaðarmeta, í ljósi hugsanlegrar skattgreiðslna. Peningaleg verðmæti sem þannig verða til úr því sem áður var ekki verðmætaskráð, færa peningaöflunum aukið vald yfir samfélaginu. En það var að sjálfsögðu alltaf þeirra markmið og ásetningur.
Með þessum hætti hefur samfélag okkar hægt en markvisst verið fjötrað í hlekki peningavaldsins. Frjó hugsun verður sjaldan til við slíkar aðstæður, því hún strandar strax á þeim vegg AÐ ÞAÐ VANTI PENINGA til að þróa hugsunina áfram til raunveruleikans. Ef menn sjá ekki fyrir sér að þeir græði peninga á hugmyndinni, er hugmyndin EINSKIS VIRÐI. Skiptir þá engu máli þó hugmyndin væri mikilvæg fyrir samfélagið, eða sérstaklega þann hluta þjóðarinnar sem ekki á peninga til að kaupa það sem af hugmyndinni skapaðist. Hugmynd er EINSKIS VIRÐI, fyrst ekki fást fyrir hana peningar.
Allar hugsanlegar krókaleiðir eru farnar til að ná peningum af fólkinu. Reynt er að hafa beina skatta sem lægsta, því undan þeim kvartar fólkið. En hins vegar eru farnar ótúlegar krókaleiðir til að ná peningum af fólkinu; jafnvel leiðir sem opinberir aðilar ættu ekki að eiga neinn aðgang að. Lítum á dæmi.
Ef ég kaupi mér íbúð sem byggð var fyrir 40 árum á lóð sem bæjarfélagið átti. Af byggingunni voru greidd lóðarleiga og gatnagerðargjöld. Árlega síðan hafa verið greidd gjöld fyrir lóðaleigu og frárennslisgjald. EN, bæjarfélagið vill líka fá FASTEIGNAGJALD. Hvers vegna? Ekki lagði bæjarfélagið annað til byggingarinnar en lóðina og frárennslið og fyrir það var greitt í upphafi og árleg leiga alla tíð. Fjármögnun byggingarinnar var að öllu leiti á höndum eigenda og skilyrðum byggingasamþykkta um útlit og ummál á lóðinni. Byggingin var að öllu leiti eign þess sem byggði. Hvernig getur bæjarfélag með eðlilegum hætti heimtað gjald af rúmmáli eignar sem það á engan eignarhlut í?
Hver er hugsunin á bak við fasteignagjaldið? Vafalaust verður strax fyrir svarið, til að borga fyrir þjónustu sem húsið fær frá bæjarfélaginu. Já, en húsið fær enga þjónustu aðra en að standa á lóðinni sem það greiðir lóðarleigu fyrir og nýtir frárennslið, sem einnig er borgað fyrir. Annað er þjónusta við íbúa hússins og fyrir þá þjónustu borga þeir með útsvarinu sínu. Enn er ekki komið í ljós fyrir hvað er verið að greiða með fasteignagjaldinu. Svar óskast.
Nýjustu færslur
- EES samningur og ætlað vald ESB
- Efnahags og viðskiptanefnd Alþingis 2021 / Hver er þekking ál...
- Þjóð án fyrirhyggju og dómgreindar: Fyrirlestur saminn og flu...
- Þetta jaðrar við hættulegt ábyrðarleysi hjá fomanni stærsta s...
- BREYTING ER NAUÐSYN TIL BETRA LÍFS
- YFIRSTJÓRN SEÐLABANKANS Lög 2019
- EES samningur og ætlað vald ESB
- ÓSAMRÆMI MILLI LAGA UM STJÓRN FISKVEIÐA OG FRAMKVÆMDA ...
Eldri færslur
2024
2023
2022
2021
2020
2019
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- alla
- framtid
- mammzan
- hallgrimurg
- huldumenn
- jaxlinn
- johanneliasson
- maggij
- photo
- haukurn
- runar-karvel
- sigrunsigur
- skodunmin
- svarthamar
- vestskafttenor
- athb
- thjodarsalin
- seiken
- skinogskurir
- bjarkitryggva
- bjarnimax
- brahim
- gattin
- einarhardarson
- einarorneinars
- bofs
- dramb
- haddi9001
- heimssyn
- tofraljos
- don
- hordurvald
- fun
- visaskvisa
- huxa
- jonasphreinsson
- jonl
- jobbi1
- jonvalurjensson
- jonthorolafsson
- josefsmari
- juliusbearsson
- ksh
- kolbrunerin
- kristbjorg
- liu
- skrafarinn
- maggiraggi
- markusth
- os
- raksig
- rosaadalsteinsdottir
- fullvalda
- siggileelewis
- duddi9
- siggith
- saemi7
- tryggvigunnarhansen
- vga
- thjodarheidur