Færsluflokkur: Bloggar

Afkáralegt röðun orða

Það er með ólíkindum hvað fólk hugsar lítið um hvað orðin sem notuð eru, segja þeim sem lesa þau. Þessi frétt er eitt af slíkum dæmum. Fréttin byrjar svona:

Tilkynnt var um innbrot í verkstæði við Bíldshöfða til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um níu leytið í gærkvöldi. 

 Venjulega væri lesið úr þessu á þann veg að tilkynnt hefði verið um innbrot á verkstæði lögreglunnar á höfuðborfarsvæðinu, við Bíldshöfða. Ef við notum öll sömu orðin, en röðum þeim upp samkvæmt íslenskri setningafræði, liti fréttin svona út:

Um níu leytið í gærkvöldi var tilkynnt   til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um innbrot í verkstæði við Bíldshöfða. 

Góð menntun felst meðal annars í því að geta raðað orðum saman þannig að úr verði skýr lýsing á því sem viðkomandi vill segja. Til þess að slíkt megi verða, þarf hugsunin að vera skýr og ráða við að byggja heilstæða mynd af því sem segja á með orðunum. 

Ambögur, eins og sú sem þessi frétt byrjar á, voru áður fyrr oft kallaðar "rassbögur", vegna þess hve þær þóttu afkáralegar.    


mbl.is Brotist inn á Bíldshöfða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er eins og gerts hafi í gær

Ég varð nokkuð undrandi þegar ég rakst á 21 árs gama skýrlsu sem ég tók saman haustið 1991 um ástand mála í þjóðfélaginu. Eiginlega þyrti engu að breyta svo hún passaði við nútímann. Skýrsla þessi var send stjórnvöldum, Alþingi og lánastofnunum, samtals 120 eintök.Ég set skýrsluna hér með sem viðhengi, ef einhverjir hefðu áhuga á að skoða ástandið eins og þar var haustið 1991 og bera það saman við það sem nú er að gerast.               
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hvað gerðist haustið 2008???

Af umræðunni og viðbrögðum stjórnvalda og ýmissa fræðimanna, mætti ætla að meiriháttar þjóðfélagslegt hrun hefði orðið hér haustið 2008.  Þegar grant er skoðað má sjá að sú var ekki raunin. Þau ár sem liðin eru af þessari öld, hafa allar okkar framleiðsluvörur selst á hæstu mögulegum verðum og birgðasöfnun hefur engin verið. Öll framleiðslufyrirtæki sem selja afurðir sínar fyrir gjaldeyri hafa starfað af fullum krafti. Tekjustreymi til landsins hefur því verið í hámarki og nægur markaður fyrir margar nýjungar sem stöðugt bætast við.

Það sem hér hefur verið sagt er engin kosningabrella eða sjónhverfingar. Þetta er raunveruleikinn þegar allri taugaveiklun og óttaáróðri er sleppt og leitast við að horfa á það viðfangsefni sem ráða þarf framúr varðandi almennan rekstur samfélags okkar. EN, fyrst tekjuþáttur þjóðarinnar brast ekki, hvað var það þá sem gerðist?

Með hægum en markvissum hætti var því þannig komið fyrir á nokkrum áratugum að mikilvægið fyrir góða afkomu samfélagsins var fært frá beinni hugsun um tekjuöflun heildarinnar yfir í það að mikilvægi afkomunnar fælist í því að hver og einn eigi sem mesta peninga. Smátt og smátt varð það viðhorfið,  að ef þú átt ekki peninga, ertu ekki með í klúbbnum og þess vegna ekkert hlustað á þig.

Framan af hélt samfélagið sig við þá reglu að skuldabréf voru einungis gefin út fyrir mikilvæg atvinnufyrirtæki og íbúðarhúsnæði. Þá voru menn sér meðvitaðir um að með því að skrifa undir skuldabréf, var verið að ráðstafa hluta af tekjum þeirra ára sem skuldabréfið átti að greiðast. Að taka lán með skuldabréfi og gera ekki ráð fyrir greiðslu þess á lánstímanum, var í daglegu tali nefnd svikastarfsemi eða svikamylla. Slíkt vildi fólk ekki láta kenna sig við.

Í fyrstu var velta samtímans aukin hægt með útgáfu skuldabréfa. Peningamagn í umferð setti slíku nokkrar hömlur, en ef fjármunirnir voru einungis notaðir innanlands var hægt að auka veltuna nokkuð fram yfir peningamagn í umferð. Þessi þróun varð svo hæg að fæstir tóku eftir því að stöðugt jókst magn skuldabréfa og annarra verðbréfa í umferð.  Velta samtímans varð því stöðugt meira byggð á tekjum sem ætlunin var að afla á komandi árum; en ekki á því ári sem eyðslan fór fram.

Þróunin í þessu var raunar dálítið hröð. Byrjað var að greiða laun fyrirfram, til að auka veltuna. Þar næst kom opnun á almenn skuldabréf fyrir einstaklinga.  Því næst kom ávísanareikningar á alla, en áður höfðu bara fyrirtæki haft slíkt.  Síðan bættist við yfirdráttarlán á tékkareikninga.  Á þessum tíma kemur tölvan til verka í bankakerfinu. Samhliða því kemur fram Kreditkortið, þannig að allir geti eytt peningum sem þeir ætla að vinna fyrir síðar. 

Þegar enn þurfti að auka veltuna, umfram raunverulega verðmætasköpun, komu raðgreiðslurnar til skjalanna. Á þessum tímapunkti verður stórfellt stökk í verðmætalausri veltuaukningu með lúmskum blekkingum lánastofnana, þar sem öll útlán voru jafnframt skráð sem innlán, sem gerði það að verkum að þó bankinn lánaði 1 milljón út einhvern daginn, kom sú milljón að mestu leyti aftur sem innlán, daginn eftir, vegna þess að lánið hafði verið lagt inn á innlánsreikning lántakans. Þar sem innlánavelta skapaði útlánagetu, gat bankinn því strax daginn eftir, lánað út aftur ca. 980 þúsund af þessari sömu milljón. Þannig skapaðist stærsta svikamylla bankakerfisins, sem stækkaði bankakerfið svo stjarnfræðilega langt út fyrir raunverulega verðmætisveltu.

Segja má að stökkbreyting, til verri vegar, verði á öllu þessu umhverfi þegar stjórnvöldum okkar er talin trú um að krónan okkar eigi ekki að styðjast við neinar aðrar myntir. Verðgildi hennar eigi að ráðast á markaði hverju sinni. Ráðgjafarnir í þessu máli voru aðal drifkraftar peningakerfis heimsins. Þeir sáu sér þarna leik á borði. Að baki krónunni okkar var lítið og fábreytt hagkerfi, sem þó var eitt mesta svæði verðmætissköpunar í vestrænni veröld. Gjaldeyrisforði þjóðarinnar var afar lítill en erlent lánsfé, miðað við gjaldeyristekjur hærri en eðlileg varúðarmörk töldu æskilegt.

Það umhverfi sem hér er  lýst var  hreint kjörlendi fyrir peningaöflin, sem eingöngu byggja á skammtímagróða, enda tengja þau sig aldrei neinu samfélagi utan eigin raða, heldur eru tilbúin að stökkva þangað sem hagnaðarvonin er mest hverju sinni.

Hið þjóðholla ríkisbankakerfi sem hér var, sáu þessir aðilar sem helstu hindrun á vegi þeirra við að ná að fjötra hagkerfið svo í skuldum að sem stærstur hluti gjaldeyrissköpunar færi í greiðslu vaxta og afborgana þeirra lána sem þessi öfl beindu að samfélagi okkar.

Allt þetta gekk upp eins og best varð á kosið fyrir peningaöflin. Þegar aðgerðir hófust voru erlendar skuldir þjóðarinnar c. a. 3.000 milljarðar. Meginhluti þeirra var vegna tekjuskapandi eða gjaldeyrissparandi fjárfestinga. Slíkir lánasamningar skiluðu peningaöflunum ekki nægri ávöxtun, svo nauðsynlegt var að koma bönkunum í hendur einkaaðila sem væru tilbúnir í meiri áhættu en ríkisbankarnir gátu. Fyrstu árin eftir einkavæðingu, tókst að auka erlendar skuldir þjóðarinnar um c. a. 4.000 milljarða, þannig að skuldirnar voru orðnar 7.000 milljarðar og komnar á hættulegt stig.

Á þessum tímapunkti verða stjórnarskipti hjá okkur. Stjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna lætur af völdum en við tekur stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Á einu og hálfu ári lætur þessi stjórn það viðgangast að óvitarnir sem keyptu bankana, létu flækja sig svo rækilega í skuldafjötrum að út úr því væri engin leið til baka önnur en gjaldþrot. Á einu og hálfu ári jukust erlendar skuldir úr 7.000 milljörðum í tæpa 14.000 milljarða.

Ætlun peningaaflanna með þessum fjáraustri hingað var alveg skýr. Í öllum lánveitingum var ævinlega litið svo á að ríkissjóður Íslands væri baktrygging allra lánveitinga til bankanna. Ætlun peningaaflanna var að gera ríkissjóð gjaldþrota og gera síðan við Ísland nauðasamninga þar sem megnið af gjaldeyristekjum þjóðarinnar færi til greiðslu vaxta af svo himinháum skuldum að þjóðin gæti ekkert greitt niður af þeim skuldum næstu áratugina. Þjóðin yrði því nánast eins og vinnuhjú hjá þessum peningaöflum.

Þessi áform peningaaflanna riðluðust illilega þegar í ljós kom að engin ríkisábyrgð var á þeim lánum sem bönkunum höfðu verið veitt. Við stærstu bönkum Evrópu blasti því gífurlega mikið tap, sem hætta var á að riði fjármálakerfi Evrópu að fullu. Staðan var mjög alvarleg, einkanlega þar sem engin leið var að stöðva sölu Íslendinga á afurðum sínum, sem að mestu voru matvæli sem ekki var hægt að stöðva innflutning á. Ríkissjóður sjálfur var ekki svo mikið skuldsettur að það leiddi til nauðasamnings. Þeir næðu því ekki taki á auðlindum Íslands.

Ein leið var þó reynandi en það var að halda því stíft fram, með aðstoð Evrópusambandsins, að Íslenska ríkið væri í fullri ábyrgð vegna tryggingasjóðs innistæðueigenda. Þar skapaðist möguleiki til að flækja ríkissjóð í þvílíka skuldafjötra að eina leiðin þaðan út væru nauðasamningar, líkt og að framan greinir. Sem betur fer forðaði Forseti okkar þjóð sinni frá þeirri hörmung sem þar var reynt að fjötra afkomu okkar í.

Eins og hér hefur verið rakið, hefur raunverulegu efnahagskerfi þjóðarinnar aldrei verið ógnað í þessu gjörningaveðri fjármálaheimsins. Gjaldeyristekjur okkar hafa frekar vaxið en hitt.  Vandinn sem við er að fást, snýr fyrst og fremst að þeirri ofurútþenslu sem varð vegna svo mikils innstreymis fjármagns, eins og varð á árunum 2005 - 2008. Allt eðlilegt rekstrarumhverfi riðlaðist og peningum var ausið í vonlausar fjárfestingar, sem aldrei yrðu greiddar til baka. Með þetta að leiðarljósi er einungis ein fær leið út úr þessu fyrir þjóðina, og hún er þessi.

Við verðum að segja skilið við hugmyndafræði peningakerfisins og hætta að láta þau öfl stýra leit okkar að leið út úr vandanum.  Þau öfl munu aldrei benda á aðrar leiðir en þær sem færa þeim sem mestan arð og endurgreiðslu. Mesta eitur í þeirra beinum er opinber þjónustustarfsemi s. s. velferðar- og menntamál. Þeirra fyrstu og helstu tillögur fjalla því um mikinn niðurskurð í opinbera kerfinu, því ef það kerfi notar mikið fjármagn, minnkar til muna það sem peningaöflin geta fengið til sín af gjaldeyristekjunum.

Ef við hættum að lúta vilja peningaaflanna, gæti hér á landi verið komin af stað full atvinna á flestum sviðum innan fárra vikna og aðeins afmarkaður hópur fólks sæi um uppgjörið við hina erlendu kröfuhafa. Þeir yrðu að sjálfsögðu sárir og hótuðu gjaldfellingu og útskúfun.  Sú hótun væri beinlínis brosleg í ljósi þess að allir þessir bankar þurfa á því að halda að skuldir þeirra teljist lifandi og í eðlilegu greiðsluflæði. Um útskúfun hafa þessi öfl ekkert að segja. Þau eru nú þegar sjálf í mikið meiri útskúfunarhættu en samfélag okkar. Og það sem væri mikilvægast, er það að uppreisn okkar gegn peningavaldinu myndi hafa áhrif út um allan heim og út úr því kæmi alsherjar endurreisn raunverulegrar verðmætasköpunar og raunveruleg hagsæld flestra þjóða.

 


Má DRÓMI hf. stunda innheimtu ??

Eins og venjulega, þegar ég er beðinn um álit á innheimtuaðgerðum, byrja ég á að skoða fyrirtækið sem er að innheimta. Einkanlega skoða ég skráningu, starfsheimildir og ábyrgðartryggingar.

Þegar ég var beðinn um álit á innheimtuaðferðum DRÓMA hf. kom margt einkennilegt í ljós. Innheimtupappírar frá DRÓMA voru ekki merktir þeim. Þeir voru merktir Frjálsa fjárfestingabankanum eða SPRON.  Stundum voru merki beggja þessara stofnana á pappírunum.

Hjá Fyrirtækjaskrá kom í ljós að DRÓMI hf. er eignarhaldsfélag, til þess ætlað að halda utan um eignir eiganda síns. Og hver var þá eigandinn? Það var ekki hægt að fá uppgefið hjá Fyrirtækjaskrá. Það upplýstist hins vegar á vef Fjármálaeftirlitsins (FME). Eigandinn var SPRON hf.

Við lestur "Ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. kt: 540502-2770", kom ýmislegt í ljós. FME virðist taka SPRON hf. í gjörgæslu í byrjun október 2008.  SPRON hf. er síðan á endurteknum frestum fram til 18. mars 2009 en þann dag virðist stjórn SPRON hf. óska eftir aðgerðum FME, sem þá yfirtekur vald hluthafafundar og skipar skilanefnd.

Í "Ákvörðun" FME varðandi meðferð eigna SPRON hf. er skilanefnd falið að stofna dótturfélag. Í Ákvörðun FME segir svo um þetta efni:

"Stofnað verði sérstakt hlutafélag í eigu SPRON sem tekur við öllum eignum félagsins og jafnframt við öllum tryggingaréttindum, þ.m.t. öllum veðréttindum, ábyrgðum og öðrum sambærilegum réttindum sem tengjast kröfum SPRON. Dótturfélagið yfirtekur einnig skuldbindingu gagnvart Nýja Kaupþingi hf. vegna yfirtöku á  innstæðuskuldbindingum SPRON. Hið nýja dótturfélag gefur út skuldabréf til Nýja Kaupþings banka hf. sem endurgjald fyrir hinar yfirteknu innlánsskuldbindingar skv. 1. tl. sbr. 2. tl. og ábyrgist hinar yfirteknu ábyrgðir skv. 3. tl.  Allar eignir hins nýja dótturfélags SPRON skulu veðsettar til tryggingar fyrir skuldabréfinu sem og hlutabréf í dótturfélaginu."

Þegar DRÓMI hf. er stofnaður í mars 2009, er hlutafé sagt vera 4 milljónir króna. Samkvæmt vottorði frá Fyrirtækjaskrá í desember 2011, er hlutafé DRÓMA orðið - Fimmtánþúsund og fjórar milljónir.   Hvaðan komu þessar fimmtánþúsund milljónir sem bættust við sem hlutafé?  Eini eigandi DRÓMA var SPRON hf., sem ekki er lengur til því samkvæmt tilkynningu FME frá 14. mars 2011, var starfsleyfi SPRON hf. afturkallað þann 23. febrúar 2011, þar sem kveðinn hafði verið upp úrskurður (í héraðsdómi) um slit fyrirtækisins.

Þessi staða vekur óneitanlega upp spurningar. DRÓMI hf. er sagt vera eign SPRON hf. sem nú hefur verið lagt niður og félaginu SPRON hf. slitið.  DRÓMI hf. er því munaðarlaus, enginn eigandi. Enginn veit hvaðan milljónirnar fimmtánþúsund komu, því allar eignir SPRON hf. auk hlutabréfsins í DRÓMA hf.  voru veðsett Nýja Kaupþingi. SPRON hf. hafði verið í gjörgæslu FME í marga mánuði, meðan gerð var tilraun til að auka eiginfé og/eða lausafé, sem ekki tókst. Varla hafa því milljónirnar fimmtánþúsund komið þá leiðina. Varla hefur hagnaður af rekstri DRÓMA orðið svo mikill á rúmlega einu ári að milljónirnar fimmtánþúsund hafi komið sem hagnaður af rekstri. Það er því full ástæða til að auglýsa eftir eiganda, eða eigendum, að þessum fimmtánþúsund milljónum ásamt núverandi eiganda DRÓMA hf. þar sem félagið sem var fyrrverandi eigandi, hefur með úrskurði héraðsdóms verið slitið og það þar með ekki lengur til.

Hér að framan var vísað til "Ákvörðunar" FME í kjölfar yfirtöku á SPRON hf. þar sem Nýja Kaupþingi var falið að annast innlán og fleira og skilanefnd SPRON hf. falið að stofna dótturfélag, sem hlaut nafnið DRÓMI. Svo virðist  sem einhver ágreiningur hafi komið upp varðandi lánasöfnin því FME tók aðra "Ákvörðun" þann 17. apríl 2009, sem viðbót við "Ákvörðunina" frá 21. mars, sem að framan er getið.  Ákvörðunin 17. apríl 2009 er í tveimur liðum. Fyrri liðurinn virðist staðfesting á ágreiningnum sem getið var um. Seinni liðurinn er hins vegar afar eftirtektar verður. Þar segir eftirfarandi:

2.   Við 6. töluliðfyrri ákvörðunar bætist nýr málsliður.  Skilanefnd SPRON er jafnframt falið að gera umsýslusamning um þjónustu á lánaeignum við Nýja Kaupþing banka hf.

Þarna kemur glögglega fram að  skilanefnd er gert að láta Nýja Kaupþing banka hf. (núverandi Arion banki) annast innheimtur lánanna. Þessu til staðfestingar er svo næst síðasta málsgrein FME úr svari þeirra til Hagsmunasamtaka heimilanna nú nýverið, en þar segir eftirfarandi:

Samkvœmt 2. mgr. 3. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 er meðal annars viðskiptabönkum og sparisjóòum heimilt að stunda innheimtu án innheimtuleyfis. Arion banka hf. er því heimilt að innheimta fyrir aðra, þ. á m. Dróma hf.

Af svarinu má ráða að DRÓMI hf. hafi ekki innheimtuleyfi. Hvernig getur það þá átt sér eðlilega skýringu að þetta fyrirtæki DRÓMI hf. sé stöðugt með innheimtumál í gangi, aðfarir og uppboð hjá sýslumönnum og skráðir fyrir innheimtumálum bæði í héraðsdómi og Hæstarétti.  Ekki verður betur séð en FME beri ábyrgð á þessari framgöngu DRÓMA hf. og þá er það loka spurningin.

Hvað veldur því að svo virðist sem FME haldi verndarhendi yfir því sem virðist vera glæpastarfsemi, þar sem virðist gengið fram af meiri hörku en lög leyfa, í innheimtuaðgerðum sem fyrirtækið virðist ekki hafa heimildir til að sinna?


Málshöfðunin á hendur Geir Haarde

Frá upphafi hef ég verið dálítið hissa á því þekkingarleysi á stjórnarráði Íslands, sem fram kom í störfum Alþingi í kjölfar skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis varðandi bankahrunið.

Þegar lögin um stjórnarráð Íslands eru skoðuð, má þar sjá að HVERGI er gert ráð fyrir að forsætisráðherra taki fram fyrir hendur annarra ráðherra í sínum málaflokkum. Og eins og segir í fyrstu grein laganna um stjórnarráð Íslands: "Ráðherrar fara með og bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum, hver á sínu málefnasviði."      Eins og þarna kemur fram er það ófrávíkjanlegt að ráðherrar bera ábyrgð á sínu sviði.

Það svið efnahagslífs þjóðarinnar sem hrundi haustið 2008, var fjármálakerfið, þ. e. bankakerfið og Seðlabanki landsins. Fagráðherra  fjármálakerfisins er viðskiptaráðherra og lögin um stjórnarráð Íslands gera ekki ráð fyrir öðrum heimildum til að taka fram fyrir hendur hans, en frá þeim aðila sem hann sækir umboð sitt til, þ. e. Alþingis. Hafi Alþingi einhverjar athugasemdir við fagstjórnun ráðherra, verður það að koma fram í þingsal svo það verði bókað.

 Sá ráðherra sem augljóslega átti mestan þátt í hruninu, var því viðskiptaráðherra. Síðustu 18 mánuði fyrir hrun, skipaði Samfylkingin  mann í embætti viðskiptaráðherra.  Á þessum 18 mánuðum nánast tvöfölduðust erlendar skuldir þjóðarinnar. Segja má að það einstaka tímabil hafi verið ein samfelld helreið til glötunar, sem gat á engan hátt endað öðru vísi en með hruni fjármálakerfis þjóðarinnar.

 Eins og að framan er getið, átti Geir Haarde enga stjórnskipaða leið til að takast á við ranga fagstjórnun viðskiptaráðherra, fyrst Alþingi  gerði engar athugasemdir. Menn virðast auðveldlega gleyma því að ráðherrar starfa í umboði Alþingis svo það er Alþingi sjálft sem hefur eftirlitsskylduna.

 Þó ekki sé kafað dýpra í þessi mál en hér hefur verið gert, vekur það umtalsverða furðu að Alþingi, sem sjálft bar skyldu eftirlitsaðila, skuli ásaka Geir Haarde fyrir brot á embættisskyldum, en ekki ásaka þann fagráðherra sem beinlínis er ábyrgur  gagnvart Alþingi fyrir þeirri skuldasöfnun sem varð á síðustu 18 mánuðum fyrir hrun, sem beinlínis olli hruni fjármálakerfisins okkar.

Það er meira en sorglegt að sá stjórnmálaflokkur sem ber pólitíska ábyrgð, gagnvart Alþingi, á viðskiptaráðherra síðustu 18 mánuðina fyrir hrun, leggja höfuðáherslu á að koma ábyrgðinni af herðum eigin flokksmanns og Samfylkingarinnar sjálfrar, yfir á herðar aðila sem ekki hafði stjórnskipulega heimild til beinna afskipta af  ákvörðunum viðskiptaráðherra, fyrst Alþingi gerði engar athugasemdir við störf hans.

Það lítur því þannig út að Samfylkingin beiti þingstyrk sínum og aðstöðu, til þess að sakfella mann sem ekki hafði lagaheimild til afskipta af viðskiptaráðherra, fyrst Alþingi gerði engar athugasemdir. Það er því í raun fyrrverandi meirihluti Alþingis, þ. e. Sjálfstæðismenn og Samfylking, sem bera höfuðábyrgð á að ekki var gripið til aðgerða í tíma, en einnig ber stjórnarandstaðan mikla ábyrgð, því hún lét ekki bóka harða gagnrýni á störf viðskiptaráðherrans á síðustu 18 mánuðum fyrir hrun.

Það er dálítið merkilegt að ætlast til þess að Geir Haarde gengi fram með gagnrýni á samráðherra sinn, þegar enginn þingmaður og ekkert stjórnmálaafl á Alþingi hafði sett fram neina gagnrýni á störf viðskiptaráðherrans. Til að geta vikið ráðherranum frá völdum, með atbeina Frseta, hefði Geir orðið að hafa alvarlegar ásakanir á stöf viðskiptaráðherra úr ræðustól Alþingis. Engu slíku er til að dreifa. Niðurstaðan er því sú að Samfylkngin kýs að bjarga æru mannsins sem hún ber ábyrgð á, en fórna í hans stað manni sem Alþingi hafði ekki fært neinn rétt til að skipta sér af störfum viðskiptaráðherra.

Mikið drengskaparbragð, eða þannig.              


Á hverju þarf að byrja?

Ég er orðinn  langeygur eftir því að allir sem eru að tala um breytingar og ný framboð, skuli ekki setja eitthvað fram um hugmyndir sýnar að fyrstu aðgerðum til að koma þjóðfélaginu nær því sem fólk almennt hugsar.

Til að brjóta ísinn set ég hérna inn hugmyndir sem ég tíndi saman.  Skoðið þetta, takið það til ykkar og breytið því að vild. Gaman verður að sjá hver verður útkoman þegar fleiri leggja hugsun í púkkið.

Skoðið meðfylgjandi skrá.                       


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Mikill hraði á skerðingu lífeyrisréttinda og þátttöku í lyfjakostnaði

 Fyrir Alþingi eru nú frumvörp til breytinga á greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga í lyfja og lækniskostnaði, ásamt fleiru.  Athygli vekur að á öllum sviðum er fyrirhugað að skerða lífsgæði eldri borgara og öryrkja, en þó er fjárþröng ríkissjóð ekki svo mikil að meginþorri þingmanna getur ekki sætt sig við að stjórnmálahreyfingar þeirra sleppi ölmusugreiðslunni sem þeir hafa sjálfir ákveðið að stjórnmálahreyfingarnar fái frá ríkinu.

Greinilegt er að þessir stjórnmálamenn treysta því betur að eldri borgarar og öryrkjar geti betlað peninga til að halda lífi. Af afstöðu þeirra má merkja að þeir reikni ALLS EKKI með því að stjórnmálahreyfingar þeirra geti aflað sér rekstrarfjár, með eðlilegum og sjálfbærum hætti.

Stóri munurinn á þessu tvennu er sá að Alþingi er, samkvæmt lögteknum Mannréttindasáttmálum Evrópu og Sameinuðu þjóðanna, auk ákvæða í stjórnarskrá lýðveldis okkar, SKYLT sem fyrsta ráðstöfun fjármuna ríkisins, að tryggja eldri borgurum og öryrkjum þau mannsæmandi lífsskilyrði sem kveðið er á í framangreindum sáttmálum og stjórnarskrá. Á Alþingi í gær kom skýrt í ljós að þessir þingmenn líta á frumskyldu sína sem afgangsstærð.  þessir hópar verði bara að bjarga sér sjálfir, því þingmennirnir þurfi að nota peningana í annað; þar á meðal að fóðra vel eigin stjórnmálahreyfingar.

Alþingismenn eiga næga peninga til ýmissa annarra verka, en að sinna frumskyldum sínum. Hundrað milljónir hér og hundrað milljónir þar, er samþykkt án umhugsunar. En svo illa eru þeir haldnir að þeir geta ekki einu sinni látið í friði þá nánasalegu lífsbjörg sem lífeyrisþegum og sjúklingum hefur verið rétt til þessa. NEI.  Þeir fá ekki sálarró fyrr en búið er að skerða þá hungurlús sem veitt var sem lítill hluti af frumskyldu þeirra. Þeim er svo ofboðslega mikilvægt að geta veitt peningum á þýðingarmeiri staði.

Og svo þeir eigi nú ekki á hættu að þessi ölmusu og ómagalýður, sem tilheyrir frumskyldum Alþingis að skapa mannsæmandi lífskjör, fari nú ekki að gera athugasemdir við óráðsbullið sem þeir vilja setja sem lög, þá sniðganga þeir eigin lagasetningu í stjórnsýslulögum, um lögskipaðan frest til að skila umsögnum um frumvörp er varða lífskjör þessara hópa. Þeim finnst greinilega sjálfsagt, fyrst tekin eru af þessum hópum lögskipaður réttur til mannsæmandi lífskjara, sé alveg sjálfsagt að sniðganga réttindi þeirra líka að öðru leiti, eins og með umsagnarfresti um frumvörp sem varða lífsgæði þeirra.

Þó einungis hafi verið veittir tveir sólahringar til að skila umsögn um lagafrumvarp um sjúkratryggingar og lyfjalög, og ekki einu sinni óskað umsagnar Parkinsonsamtakanna, tókst að koma saman að hluta umsögn um sjúkratryggingahluta frumvarpsins og senda það inn á réttum tíma. Ykkur til fróðleika, ef þið nennið að lesa speki þeirra sem semja frumvörp um lífsgæði þeirra sem eiga FYRSTU KRÖFU í ráðstöfun ríkisfjár, þá læt ég umsögnina fylgja hérna með.

Það er oft sagt að heimskan ríði ekki við einteyming. Í þessu frumvarpi sýnist mér ekki vera um neinn taum að ræða                 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Raunveruleiki með réttri verðtryggingu

Nokkrir hafa haft samband við mig og óskað eftir að ég birti færslur mínar af eigin húsnæðisláni, hjá Íbúðalánasjóði, með útreikningi verðtryggingar eins og lögin gera ráð fyrir að hún sé reiknuð.

Í þeirri greiðsluskrá sem fylgir hér með, eru engar ágiskanir. Verðtryggingin er færð í hverjum mánuði nákvæmlega eins og neysluvísitalan mælir hana og verðbætur hvers mánaðar reiknaðar frá lántökudegi til greiðsludags. Til að auðvelda fólki að fylgja dálkum greiðsluskrár, setti ég blátt letur á dálk verðtryggingar. Og síðasti greiddi gjalddagi er 15. nóvember 2011, með rauðu letri. Að lokinni þeirri greiðslu, teljast rétt reiknaðar eftirstöðvar lánsins vera kr. 3.573.942,-.

Til samanburðar, skannaði ég inn greiðsluseðil Íbúðalánasjóðs, að þessu sama láni, með gjalddaganum 15. nóv. 2011. Þar kemur fram að eftirstöðvar lánsins, að lokinni þeirri greiðslu, er kr. 9.104.880,-.

Í svari sínu til Umboðsmanns Alþingis, sagði Seðlabankinn að engu máli skipti hvor leiðin væri farin. Leiðin sem ég hef lengi bent á að sé samkvæmt þeim lögum sem voru sett um verðtryggingu, eða leiðin sem þeir völdu einir og sjálfstætt að fara þó engin lög heimiluðu þá aðferð.  

Eitthvað er ekki góður samhljómur í því sem frá Seðlabankanum kemur. Tveimur dögum eftir að ég birti útreikninga mína í myndböndunum á YouTube, óskaði Seðlabankinn eftir að fá forsendur mínar til yfirferðar. Skömmu síðar fékk ég eftirfarandi tölvupost frá manni í Seðlabankanum:

"Kærar þakkir fyrir skjót viðbrögð
Það munaði einhverjum tíeyringum (sem einungis eru nú til í minningunni) á Sigmarstölunum og því sem menn fengu hér út sjálfir.
Við þekkjum víst á sjálfum okkur hvernig talnapedantar eru, vilja helst reikna alla líftóru úr því sem þeir fást við.
Þínar tölur duga áreiðanlega til að eyða því örlitla sem þar munar.

Endurteknar bestu þakkir" 

"Sigmarstölurnar" sem þarna eru nefndar, eru tölur úr útreikningum mínum, sem settar voru fram í kastljósi hjá Sigmari.

En lítið nú yfir greiðsluskrána og takið eftir að lánið lækkar stöðugt, alveg frá fyrsta gjalddaga. Það er alveg öfugt við það sem gerist með núverandi útreikning verðtryggingar.  Takið eftir hve greiðslubyrðin breytist lítið við hrunið haustið 2008 og í framhaldi af því.                      


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hefur erlendum bönkum verið talin trú um að þeir ættu veð í aflaheimildum?

 Það er auðvelt að svara þeirri spurningu sem sett er fram í fyrirsögninni.  Ekki þarf annað en lesa þau þrjú bréf sem hér eru meðfylgjandi, en þau lýsa orðaskiptum mínum við Þorkel Sigurlaugsson, þáverandi framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Eimskips.

Fyrsta bréfið er það sem ég ritaði honum, en bréf 2 er sama bréfið sent til baka með athugasemdum hans, rituðum með rauðu letri. Þriðja bréfið er svo svar mitt við athugasemdum hans, en því bréfi svaraði hann aldrei.

Eftir lestur þessara bréfa þarf enginn að vera í vafa um hvort erlendum bönkum hafi verið talin trú um að þeir ættu veð í aflaheimildum.             


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bréf til velferðarráðherra ásamt gögnum

Nýlega sendi ég velferðarráðherra bréf vegna endurskoðunar á Almannatryggingalögum okkar. Mappa með bréfinu og fylgigögnum á að vera með sem viðhengi eða skrá, sem ég vona að opnist.  Kv. G.J.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband