Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Að hemja náttúruafl krefst skynsemi og sjálfsaga

Það er erfitt að rökræða viðkvæm mál líkt og þau sem Björgvin Björgvinsson kom inná í DV-viðtalinu. Greinilega gerði blaðamaðurinn sér ekki grein fyrir hve viðkvæmt mál hann var að meðhöndla; líklega ekki sett málið í samhengi við þróun undangenginna áratuga.

Flestir viðurkenna líklega að kynhvötin sé eitt af frumöflum mannskepnunnar. Undanfarna áratugi hafa ákveðin græðgisöfl markaðssett þessa frumhvöt mannsins með yfirgengilegri dýrkun á kynlífi, sem birt er í sögum, kvikmyndum og tímaritum í nokkuð afbrigðilegri mynd.

Samhliða þessu hefur mannskepnan látið hjá líða að rækta virðingu einstaklinganna fyrir öðru fólki; persónum þeirra og eignum, þannig að rótgróin gildi "samfélaga" hafa fjarlægst í móðu áranna, en eftir sitja misstórir hópar einstaklinga sem fyrst og fremst hugsa bara um sig sjálfa og möguleika þeirra, hvers fyrir sig, að ná til sín því sem þá langar í, þá stundina, óháð aðferðum eða afleiðingum þess fyrir þá sem á vegi þeirra verða.

Við höfum mátt horfa á mannvirðingu, bræðralag, samfélagsvitund og kærleika vera á hröðu undanhaldi hjá þjóð okkar, vegna misskilinnar hugsunar um að það sem hafi verið að gerast sé fylgifiskar og afleiðingar frelsisins. Slík viðhorf bera þess afar glögg merki hve skynsemi og ábyrgð hafa verið hér á hröðu undanhaldi.

Þegar við horfum yfir þetta svið undanfarinna áratuga, getum við spurt ýmissa spurninga. Náttúruhvöt mannsins verður ætíð hin sama, hvernig sem fólk hvers tímaskeiðs ræktar mannkostina í lífi sínu. Þeirri ræktun ræður skynsemi hvers og eins, sem getur svo að einhverju leiti stjórnast af hrósi eða fordæmingu samfélagsins, sé það fyrir hendi.

Kynhvöt karlsins byggist á veiðihvötinni. Sé mannvirðing einstaklingsins og kærleikur á lágu stigi, getur sá einstaklingur breyst í rándýr, sjái hann feng sem hann langar í þá stundina.

Konan hins vegar gengst upp í því að gera sig kvenlega;vekja eftirtekt og verða einskonar "beita" fyrir athygli frá öðrum. Ekki síst karlmönnum. Þessum áhrifum nær konan einkum fram með klæðaburði, snyrtingu og látbragði, því mannkostir virka lítið á kynlífshugsunum.

Þegar allir þessir þættir eru skoðaðir í samhengi þróunar liðinna áratuga, vekur það nokkra furðu að Stígamót, Feministar og aðrir sem vilja veg konunnar sem mestan, skuli ekki bregðast við og hvetja konur til að ganga um skemtana- og samkvæmislífið eins og jarðsprengjusvæði, meðan siðferðisvitund, mannvirðing og samfélagsvitund er á svo lágu plani sem nú er orðið hjá okkur.

Ég fyrirlít ofbeldi gagnvart konum og börnum, í hvaða mynd sem það birtist. Ég bendi hins vegar á að eðlileg umræða um þessi viðkvæmu málefni hefur ævinlega verið kæfð með upphrópunum, svo engin rökræn umræða hefur farið fram. Þrátt fyrir allar þessar umræðulausu upphrópanir, hefur ástandið stöðugt versnað; virðing fyrir konum og börnum virðist fara þverrandi, samhliða minnkandi mannvirðingu, samfélagsvitund og kærleika.

Er ekki kominn tími til að ráðast að grunni þess samfélagsvanda sem þarna er tvímælalaust stöðugt að vaxa, í stað þess að láta æsing og öfgaviðbrögð beinast að þeim sem vekja athygli á vandamálinu.

Erum við enn svo vanþroskuð að við skjótum sendiboðann, svo skúrkurinn verði ekki skaðaður?        


mbl.is Segir ofstæki ráða ferðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jákvæð eða neikvæð áhrif mótmæla

Mikilvægt er að átta sig á hvenær og hverskonar mótmæli hafa áhrif á stöðu þeirra sem fólk vill hjálpa. Mótmæli eru í eðli sínu tvennskonar. 

Annars vegar þar sem gagnaðilinn er kúgaður með samtakamætti eða yfirgangi, til að breyta á þann veg sem mótmælendur fara fram á.

Hins vegar,  þar sem rökum og skynsemi er beitt til að laða þá sem mótmælin beinast að, til að taka afstöðu með vlija mótmælenda.

Mótmæli sem beint er að dómstólum, til að reyna að knýja fram vilja mótmælenda, verða að vera byggð á rökum og skynsemi.  Öllum skynsömum mönnum á að vera ljóst að dómstóll getur ekki látið stjórnast af mótmælum sem haldið er fram með yfirgangi, ofbeldi og skemmdastarfsemi. Slíkt væri í fullkominni andstöðu við eðli réttarfarsins, þar sem dómstóllinn á að vera hlutlaus og úrskurða eftir málsástæðum og rökum, en úrskurðir ekki litast af flótta frá grundvallarþætti laga og reglna.

Af þessari stuttu skilgreiningu er fullkomlega ljóst að sá hópur sem reynir að spilla starfsfriði hérðaðsdóms Reykjavíkur, er fyrst og fremst að valda neikvæðum viðhorfum innan réttarkerfisins. Dómendur eiga enga möguleika á að líta jákvæðum augum á slík mótmæli, því þau eru beinlínis yfirlýsing um að mótmælendur treysti ekki hutlausu réttarfari í landinu.

 Ef við lítum af alvöru á framgöngu mótmælenda, sjáum við birtast okkur ofbeldisstjórnun, líkt og ættbálkayfirgangi í vanþróuðum ríkjum, eða samskiptum manna fyrir siðaskipti.  Er líklegt að múgurinn muni kveða upp réttlátari dóma í slíku samfélagi, en dómarar okkar gera í því réttarfari sem við þekkjum?  Ég held ekki.

Þegar mikið liggur við, er afar mikilvægt að láta ekki bráða- reiðikast yfirskyggja skynsemi og dómgreind, þannig að ADRENALÍNIÐ EITT RÁÐI GERÐUM, en skynsemin sé skliin eftir heima.                     


mbl.is Anddyri réttarins rýmt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarlegir stjórnarhættir

Ég veit ekki betur en það hafi verið ESB sem neitaði að semja við Íslendinga um makrílinn. Það er undarlegt ef þeir geta neitað að semja um flökkustofna, en hóta svo viðskiptastríði þó við veiðum þennan sama stofn innan okkar eigin fiskveiðilögsögu.

Ætli allar ákvarðanir ESB séu á álíka skynsemisgrunni byggðar?                   


mbl.is Spáir „makrílstríði" við ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Akureyri - Húsavík - Reykjavík

Þessi frétt kemur mér einkennilega fyrir sjónir, sé þarna verið að fjalla um flugið Reykjavík - Húsavík, eftir hádegi í gær. 

Ég var farþegi frá Akureyri til Reykjavíkur, efir hádegi í gær.  Ég mætti á Akureyrarflugvelli kl. 13:15, til að fara með rútu kl. 13:45 til Húsavíkurflugvallar, þar sem flugvélin mundi lenda, vegna verkfalls slökkviliðsmanna.

Ég tek fram að ég hef mikið ferðast um flugvelli landsbyggðarinnar og þar að auki um tíma verið bílstjóri á farþegarútum frá þéttbýli til flugvallar. Ég þekki því nokkuð vel til vinnubragða við afgreiðslu flugvéla á svona stöðum.

Við komum til Húsavíkurflugvallar nokkru áður en flugvélin lenti.  Það kom mér á óvart að sjá slökkvibíl merktan slökkviliði Akureyrarflugvallar í viðbragðsstöðu við enda flugvallarbyggingarinnar. Enginn slökkvibíll frá Húsavíkurflugvelli var sjáanlegur.

Er flugvélin lenti, sátu tveir menn í slökkvibílnum, með bílinn í viðbragðsstöðu, bæri eitthvað útaf. Blessunarlega gekk allt vel, þó flugvélin væri nokkuð á eftir áætlun.

Strax og flugvélin var komin á stæðið og drepið hafði verið á hreyflum hennar, hófust starfsmenn vallarins handa við að taka farangurinn úr vélinni og setja Akureyrarfarangurinn í rútuna. Rútubílstjórinn tók á móti farangrinum og setti í farmrými rútunnar, en farangur þeirra sem ætluðu til Húsavíkur var settur í stafla til hliðar. Allt var þetta hefðbundið að sjá. Slökkviliðsmennirnir tveir gengu þarna um, annar með hjálminn undir hendinni en hinn hjálmlaus.

Þegar flugstjóri hafði lokið sínum skyldum við flugvallarstjórann, kom flustjórinn út og hjálpaði til við losun og lestun vélarinnar. Allt var þetta vel þekkt og hafði sést oft á umliðnum árum.

Þegar afgreiðslu vélarinnar var lokið, hafði ég ekki orðið var við að slökkviliðsmennirnir (í sínum áberandi búningum) hefðu neitt komið nálægt vinnu við afgreiðsluna. Farþegarnir voru svo kallaðir út í vél og gekk ferðin vel til Reykjavíkur, þar sem lent var rúmlega korter yfir fjögur.

Þrennt vakti athygli mína á Húsavíkurflugvelli. Það fyrsta að enginn slökkvibíll frá flugvellinum sjálfum skildi vera á staðnum. Hvar var slökkvibíll flugvallarins á Húsavík? - Annað var að áætlunarflugvélar sem fljúga til Húsavíkur, taka nálægt 50 farþega, en mikið vantað á að sæti væru fyrir svo marga í biðsalnum. - Þriðja var að engin sjoppa eða veitingasala var í flugstöðinni, svo fólk varð að svala þorstanum í handlauginni á klósetinu. Þetta fannst mér gífurleg afturför í virðingu gagnvart flugfarþegum.

Þó ég styðji heils hugar tilraunir slökkviliðsmanna til að fá eðlilegar kjarabætur, verða þeir að gæta þess að aðgerðir þeirra beinist ekki gegn neyðarúrræðum ferðafólks.

Því miður hefur það alltof oft gerst að verkfallsaðgerðir fara að beinast að allsendis óvirkum og óábyrgum þolendum deilunnar. Afleiðingar slíks hafa ævinlega orðið þær að hinir óvirku þolendur, snúast gegn verkfallsmönnum, og leggjast þannig "óbeint" á sveif með launagreiðandanum.

Rynið endilega að finna anan farveg að þessu sinni, og breyta svo þrýstiferlinu til frambúðar.        

        


mbl.is Telur að framið hafi verið verkfallsbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrir hvern var hasarinn til góðs?

Mér segir svo hugur að með hasarnum gegn Runólfi Ágústssyni hafi leikritasmiðju fjármálaaflanna tekist að fá skotinn í kaf einn harðasta stuðningsmann almennra skuldara, sem völ er á. Ég hef alltaf haft á tilfinningunni að Runólfur sé enginn JÁ-maður, sem fari um skúmaskot og feluleiðir í sinni atvinnuleit. Fannst mér það koma vel fram hjá honum í kastljósinu, er hann svaraði spurningu Sigmars um hvað honum fyndist um þá beiðni Árna Páls, að hann stigi til hliðar úr embætti Umboðsmanns skuldara.

Svar Runólfs var: Mér finnst afar lítill mannsbragur að þessu.

Ef Runólfur hefði farið í embættið eftir flokksgæðingalínunni, eins og mikið hefur verið gefið í skyn, hefði svar hans ekki orðið svona kaldhæðið.

Þetta er áreiðanlega ekki í fyrsta skipti, og ekki heldur síðasta skiptið, sem lítt hugsandi múgurinn verður vopn í höndum áróðursafla, sem nota lítt hugsandi múginn til að eyðileggja sína eigin vígstöðu.

Það kemur í ljós á næstu mánuðum og næsta ári, hvort þessi tilfinning mín reynist rétt.                  


mbl.is Ingi Valur Jóhannsson nýr umboðsmaður skuldara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar æsingur tekur völdin, víkur skynsemin

Þó ég eigi þá ósk heitasta, að fjölmiðlafólk laði fram það réttasta í hverju máli, verð ég æ oftar fyrir verulegum vonbrigðum með þann æsing og virðingarleysi fyrir rökrænni framgöngu mála, sem birtist í orðum og gjörðum fjölmiðlafólks.

Enn eitt birtingarform þess sem hér er viðrað, má sjá í æsingnum sem nú tröllríður þjóðfélaginu vegna ráðningar Runólfs Ágústssonar í embætti umboðsmanns skuldara. Þar gengur hver fjölmiðillinn af öðrum fram með fullyrðingar sem ekki virðast eiga sér rökrænar forsendur.

Um hvað snýst málið í raun.  Ég tek það fram að ég veit ekkert um þetta mál annað en það sem fram hefur komið í fjölmiðlum; og fjölmiðlafólk á því einnig að vita.

Málið virðist snúast um að í upphafi ársins 2008 átti nefndur Runólfur fyrirtæki, sem fékk lánafyrirgreiðslu til fjárfestinga í hlutabréfum; líkt og fjölmörg önnur fyrirtæki. Lán þessi munu hafa verið tryggð með veði í hlutabréfunum sem keyt voru, líkt og algengt var á þessum tíma.

Á sama árinu 2008 (áður en bankahrunið varð), seldi nefndur Runólfur þetta fyrirtæki sitt (með lánunum og hlutabréfunum) og sneri að öðrum störfum. Gott er í þessu sambandi að minnast þess að allir helstu fræðimenn hagfræði, viðskipta og stjórnsýslu, lýstu því hátíðlega yfir er bankahrunið varð haustið 2008, að þetta hrun hefði komið þeim algjörlega í opna skjöldu.

Hvaða rök eða heimildir hefur fjölmiðlafólk fyrir því að nefndur Runólfur hafi verið að skjóta sér undan fjármálalegri ábyrgð, með því að selja fyrirtæki sitt nokkru áður en flestir fræðimenn þjóðarinnar voru farnir að búast við hruni?  Ég hef engar slíkar röksemdir heyrt; einungis æsing og órökstuddar ásakanir.

Það er nauðsynlegt að halda vöku sinni gagnvart óheiðarleika. Það hefur hins vegar lengi verið ljóst að þeir sem stýrast af spennu æsifrétta, í stað rökrænni framsetningu sannleika, gera meira en að eyðilegga möguleika þjóðarinnar til skilvirkra varna gegn óheiðarleika; þeir stórskaða andlega og líkamlega heilsu fólks sem er á ytri þolmörkum álags vegna þeirra erfiðleika sem hrunið hefur valdið.

Ef við ætlum að ná valdi á vandamálum okkar, verður fjölmiðlafólk að ganga á undan og sýna heilbrigða skynsemi og rökræna leit að sannleikanum, svo þjóðin komist út úr þeim vítahring tryllings og æsifréttaþrá, sem virðist orðið stýra verulegum hluta þjóðarinnar.

Fólk þarf að átta sig á að það, að beita ofbeldi í orðum, með ósönnum aðdróttunum, er afleiðing fíkniáhrifa andlegrar minnimáttakenndar. Slíku ástandi fylgir einatt afar lítil virðing fyrir töluðum orðum þess sjálfs, eða þeim afleiðingum sem orð þeirra geta haft á líf þeirra sem vegið er að, barna þeirra eða nákominna ættingja. Slíkir fíklar eru ekki síður hættulegir siðuðu og rökrænu samfélagi, en aðrir sem skemma andlegt úrlausnarjafnvægi sitt með inntöku ýmissa eyturefna.

Við viljum heilbrigt, réttlátt og heiðarlegt Ísland, er það ekki??              


mbl.is Vissi að Runólfur tapaði fé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðalástæða er vitlausar útfærslur verðtryggingar

Ég hef oft bent á að verðtrygging lánsfjár, eins og hún er reiknuð, skapar svikamyllu sem eykur skuldastöðu langt umfram eðlilegar forsendur.  Því miður hafa engir viljað veita þessu verðskuldaða athygli og ég hef ekki fjárráð til að kaupa auglýsingar eða halda opna fundi til að kynna þessar niðurstöður.

Ég benti á þessa villu í framkvæmd verðtryggingar strax og farið var að beita henni á almennt lánsfé. Hópur ungs fólks þess tíma, með Ögmund Jónasson í broddi fylkingar, stökk á þessar forsendur og fengu, alla vega í orði kveðnu, samþykktar á Alþingi bætur vegna rangrar uppsöfnunar verðtryggingar á lánsfé.  Síðan hefur ekkert verið gert og ránsvélin heldur áfram að mala gull.

Áður malaði hún mest fyrir ríkið, meðan bankarnir voru ríkisbankar, en undanfarin ár hefur hún mest malað fyrir einkaaðila og erlenda fjármagnseigendur. Þeir sem borga brúsann eru allir þeir sem þurfa á lánsfé að halda. Þeir hafa hins vegar aldrei geta sýnt samstöðu um að losa sig við þessa svikamyllu.

Glærurnar, reiknilíkönin og forsendurökin eru til taks, ef einhverjir vilja fjármagna fundahöld til að kynna þessar forsendur fyrir þjóðinni. Ég er bara ellilífeyrisþegi sem varla nær endum saman, með þeim lífeyri sem mér er skammtaður. Ég get því ekki fjármagnað kynningu á þessari mikilvirku svikamyllu lánastofnana.              


mbl.is Skuldir hækka meira en eignir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverð frétt

Þarna er nokkuð athyglisverð frétt á ferðinni.  Loksins er komið fram álit framkvæmdastjórnar ESB um ríkisábyrgð innistæðna.  Það vekur þó óneitanlega athygli að þeir skuli enn vera að reyna að bakka upp vitleysuna í Bretum og Hollendingum, með þeim haldlausu rökum sem þarna eru sett fram. Lítum á rök þeirra. Þeir segja:

"Annars vegar hafi útfærslan á íslenska innstæðutryggingasjóðnum ekki uppfyllt skilyrði tilskipunarinnar um innstæðutryggingar."

Ég minnist þess ekki að ESB hafi lagt fram neina athugasemd við innistæðutryggingasjóðinn hér á landi, frá því hann var stofnaður og til þess tíma er bankarnir hrundu. Sé þetta rétt munað hjá mér, eru athugasemdir þeirra nú, eftir hrun fjölda margra banka í Evrópu og víðar, lýsir það fyrst og fremst óheiðarleika þeirra er stýra ESB.  Ekki var hægt að ætlast til að meintir ágallar Íslenska tryggingasjóðsins væru lagfærðir, þegar ekki var bent á slíka ágalla, af hálfu ESB.

Hinn líðurinn í rökum þeirra er eftirfarandi:

"Hins vegar verði að horfa til þess að íslenskir innstæðueigendur fengu sínar innstæður tryggðar að fullu ólíkt hollenskum og breskum innstæðueigendum. Það hafi brotið gegn jafnræðisreglunni." 

Þetta er ekki rétt.  Allir vita að það voru ekki allar innistæður "tryggðar að fullu", eins og þeir orða það. Margir fjárvörslusjóðir bankanna voru ekki tryggðir og voru ekki bættir umfram það sem innistæður í þeim sjálfum gátu greitt. Var þarna einkum um að ræða sértæka hávaxtasjóði, sem voru vistaðir utan venjulegra innlánsreikninga.  Þar er nákvæmlega samhljómur við Icesave reikningana. Þeir voru ekki venjulegir innlánsreikningar, heldur sértækir hávaxtareikningar, utan reglubundins innlánakerfis.  Vegna þessara samjöfnunar ýmissa sérkjarasjóða hjá bönkunum hér, við sérkjaraþátt Icesave reikninganna, verður ekki betur séð en rök framkvæmdastjórnar ESB eigi sér hvorki lagalegar nér jafnræðislegar forsendur.

Hinu er ekki að neita, að ríkissjóður Íslands lagði fram fjármagn til að bæta innistæðueigendum í innlánsdeildum bankanna hér á landi, þau innlán sem voru í hættu.  Ég hef ekki heyrt þess getið að íslendingum hafi verið bætt innlánatap í öðrum löndum, enda hefur engin heimild til slíks verið samþykkt af Alþingi.

Það er því óravegur milli þess að Íslenska ríki bæti þegnum sínum innistæður á venjulegum innlánsreikningum, eða að farið sé að greiða sérstaka gróðafýknar ásókn þeirra sem tóku áhættu með því að leggja fé sitt inn á illa tryggða hávaxtareikninga, sem vistaðir voru í sérstöðkum ávöxtunarsjóðum.

Framkoma stjórnenda ESB hefur ævinlega verið mér spurning um hvot þar sé á ferðinni einföld heimska, eða yfirgengilegur hroki.


mbl.is Bera ekki ábyrgð á innstæðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staðreyndir eru alltaf mikilvægar

Þegar um er að ræða sameiningu við annað fyrirtæki, félag eða ríkjasamband er mikilvægast, fyrir þann sem þarf að verja hagsmuni sína, að fá fullkomið uppgjör um skuldastöðu þess aðila sem á að sameinast. Þannig er nú, t. d. rætt um það hvort Álftanes sé það mikið skuldsett að önnur sveitarfélög treysti sér ekki til að sameinast því og yfirtaka þar með skuldir þess.

Öfugt var það fyrir nokkru, er tilteknir sveitahreppar vildu ekki sameinast stærri einingum, vegna þess að þeir (litlu hrepparnir) vildu ekki yfirtaka skuldir stóru eininganna. Í báðum þessum tilvikum er fyrirhyggja höfð í forgrunni ákvarðanna.

Sama lögmál á í raun einnig við um hugsanlega sameiningu Íslands við ESB. Færi nú svo, sem mestar líkur benda til, að ESB liðist í sundur eða yrði greiðsluþrota, fáum árum eftir að Ísland hefði gerst aðili að ESB, yrði Ísland að taka á sig sinn hluta af skuldum sambandsins. Líklegast er að skiptingin yrði framkvæmd á grundvelli þjóðarframleiðslu aðildarlandanna.  Þar sem Ísland hefur ævinlega verið með háa þjóðarframleiðslu á mann, er fyrirsjáanlegt að Íslandi yrði gert að taka á sig verulegar fjárhæðir af skuldum ESB samsteypunnar.

Skuldir ESB hafa um langan tíma verið svo miklar, óskipulegar og illa tryggðar, að ESB hefur ekki geta lagt fram endurskoðaða ársreikninga í meira en áratug. Nú, þegar liðið er undir lok með útgáfur verðlausra pappíra, sem peningaígildi, mun alvarlega draga saman í peningaflæði um Evrópu.

Allar þjóðir ESB eru að sligast undan eigin skuldum. Þær eru því lítt aflögufær til að veita Seðlabanka Evrópu lán til að endurfjármagna fyrri skammtímalán, hvað þá til að auka frekar lánveitingar.

Þau fáu ríki sambandsins sem framleiða og selja nú meira en flutt er inn, nota greiðsluafgang til að lækka skuldir hjá sjálfum sér og hafa því ekkert fjármagn til útlána næsta áratuginn, eða svo.

Þessar staðreyndir liggja svo greinilega fyrir að maður getur ekki annað en undrast yfir fávísi þeirra stjórnmálamanna sem leggja ofurkapp á, einmitt nú, að henda mörgum milljörðum króna í umsóknarferli, sem afar ólíklegt er að verði nokkurtíman að veruleika; hvað þá að það veðri þjóðinni til hagsbóta.

Og þá spyr maður sig líka: Eru þessir stjórnmálamenn, sem nú leggja ofuráherslu á að komast í ESB, ekki sömu stjórnmálamennirinir og báru ábyrgð á rekstri þjóðarbúsins síðasta eina og hálfa árið fyrir bankahrun; og bera því ábyrgð á að skuldir þjóðarbúsins tvöfölduðust (úr 7.000 í 14.000 milljarða króna) á sama tíma? Má þar t. d. benda á að Icesave varð einmitt til á þessu tímabili, án þess að þessir stjórnmálamenn gerðu sér grein fyrir hvert var verið að stefna þjóðarskútunni.

Spyrja má: Hvaðan fengu þessir stjórnmálamenn , raunhyggna framtíðarsýn, að telja sig hafa skarpari framtíðarsýn en þeir höfðu á árunum 2006 - 2008? Hvað breyttist??? Á þjóðin enn að þurfa að taka á sig mörg þúsund milljarða í aukna skuldaklafa, vegna væntanlegs hruns ESB, vegna blindu sjálfbirginsháttar og valdhroka þeirra sömu stjórnmálamanna er stóðu við stýrið þegar þjóðarskútunni var stýrt inn í brimgarð óðaskuldsetninga og tryggingalausra kúlulána?                


mbl.is Umræðan byggist á staðreyndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dómurinn ein af stærstu mistökum réttarkerfisins

Svokallaður "vaxtadómur", sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Reykjavíkur föstudaginn 23. júlí 2010, var á margan hátt mjög gallaður.

Í fyrsta lagi ber að líta til þess að eiginmaður dómarans, mun vera vinur sækjandans og reka þeir saman lögfræðistofu að Lágmúla 7 í Reykjavík. Ótrúlegt verður að teljast að sjónarmið og rök sækjandans hafi ekki náð eyrum dómarans, eftir öðrum leiðum en hefðbundnum málflutningsleiðum. Við slíkar aðstæður má telja útilokað að dómarinn hafi komið að málinu með opna og ólitaða hugsun.

Í öðru lagi er hvergi í dómnum að finna haldbæra framsetningu fyrir því að ákvarðanir samningsins um vaxtakjör, sem lánveitandinn ákvað, hafi orðið fyrir forsendubresti. Hafi svo orðið, er ekkert vikið að því hver beri ábyrgð á þeirri framvindu.

Í þriðja lagi virðist dómarinn ekki gera sér grein fyrir eðlismun verðtryggingar höfuðstólsfjárhæðar annars vegar, og vaxtagreiðslum af höfuðstól hins vegar.

Verðtrygging er eingöngu til að viðhalda raunvirði höfuðstóls, frá lántökudegi til greiðsludags. Verðtrygging er ekki til ávöxtunar höfuðstólsins, til þess eru vextirnir. Vextir eru því bein þóknunargreiðsla lántaka til lánveitanda, fyrir afnot lántaka á fjármagni lánveitanda.

Skilmálar vaxtakjara á samningum eins og hér um ræðir, eru ævinlega ákveðnir af lánveitandanum, án mögulegrar aðkomu lántaka.  Þessir tveir þættir eru því algjörlega sjálfstæðir, hver fyrir sig, og eiga ekki að geta hafi yfirfæranleg vægiáhrif þótt önnur hvor forsendan breytist af aðstæðum sem ekki eru af völdum lántaka.

Í fjórða lagi gefur dómarinn sér, í niðurstöðum  sínum, ýsmar forsendur sem hvergi eru reifaðar í málinu. Dómarinn virðist telja lántaka bera hlutaábyrgð á þeim óförum sem urðu, þar sem hann hafi valið gengistryggingu, í stað verðtryggingar eða óverðtryggðs láns.

Í forsendum dómsins koma hvergi fram haldbær rök fyrir þessari niðurstöðu dómarans. Hann virðist eingöngu "gefa sér" þessar forsendur, út frá því að fyrirfram prentað form lánasamningsins er hið sama fyrir öll framangreind þrjú lánaformin. Svo virðist sem dómarinn hafi ekkert haldbært í höndum um að lántakinn hafi, að eigin frumkvæði, valið gengistryggingu lánsins, hvað þá að lántakinn hafi sjálfur ákveðið vaxtakjörinn á því láni.

Margt fleira er athugavert við þennan dóm, en hér verður látið staðar numið í bili. Ég hef í huga að gera ítarlega úttekt á þessum dómi og senda dómstólaráði þá greinargerð. Því miður virðast stjórnendur héraðsdómsstigsins hjá okkur enn vera í "gamla Íslandi" og ekki vera tilbúnir að hefja sig upp fyrir spillingu, hugsunarleysi og misnotkun dómsstigsins. Meðan svo er, verður áfram til staðar viðkvæm brotalöm í réttarfari okkar, sem mikil þörf er á að uppræta.                  


mbl.is Gengislánin „frumskógur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.10.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband