Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Alvarlegur óvitaskapur að telja að ekki þurfi að endurksipuleggja viðskiptalífið

Öllum sem eitthvert raunhæft vit hafa í kollinum, á að vera ljóst að viðskiptalíf okkar var búið að þenja sig LANGT út fyrir þau mörk sem raunhæft var að tekjur okkar gætu fóðrað það til framtíðar. Þeir sem hrópa á óbreytt viðskiptalíf opinbera fyrst og fremst blindan hroka eða vanþekkingu sína á þjóðfélagslegum afkomugrunni. Og geta því flokkast í áhættuflokki með fyrrverandi bankastjórum og jarðsambandslausum útrásarvíkingum.

Landamæri heiðarleika hafa um margar ára skeið verið ansi teyjanleg hjá Vilhjálmi, en nú sýnist mér hann vera að setja alveg nýtt met í heimsku, í von um að forn frægð hjálpi honum að viðhalda vitleysunni dálítið lengur; eða þar til lánin frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum hafa verið étin upp af þeim fjárhættuspilurum sem komu þjóðinni á vonarvöl.

Það er hættulegast þegar gáfumenn tala gegn hagsmunum þjóðar sinnar.          


mbl.is Mun stórskaða viðskiptalífið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Finnur Samfylkingin ekki til neinnar ábyrgðar ????????

Það hefur undrað mig mikið að Samfylkingin skuli aldrei vera spurð um ábyrgð sína á því að erlendar skuldir bankanna tvöfölduðust á þeim tíma sem leið frá því þau tóku sæti í ríkisstjórn og fram að bankahruninu. Þó þjóðfélagið gæti klárað sig af erlendum skuldum upp á u. þ. b. 6.500 milljarða, eins og þær voru þegar Samfylkingin tók við, var varla við því að búast að þjóðfélagið þyldi svona hraða skuldaaukningu, að verða nær 13.000 milljörðum á innan við tveimur árum. Slíkt var vonlaust að þjóðfélagið gæti borið.

Í ljósi þessara staðreynda finnst mér Samfylkingin sleppa billega frá skeytingaleysi sínu varðandi hina hröðu skuldaaukningu. Einkanlega sé líka litið til þess hvernig virðist hafa verið farið með þetta fjármagn, sem virðist hafa verið lánað út aftur gegn afar hæpnum tryggingum.

Í öllu þessu ferli sýndi Samfylkingin afar litla þekkingu á nauðsynlegu og eðlilegu fjárstreymi um þjóðfélagið. Og sama þekkingarleysið er enn á ferðinni þegar þau telja það til hagsbóta fyrir þjóðfélag okkar nú, að ganga í Evrópusambandið og taka upp Evru.

Á undanförnum vikum hefur það sýnt sig að engin biðröð er hjá fjármagnseigiendum til að koma hingað með peninga. Við munum ekkert frekar fá Evrur til okkar, þó við höfum þær sem okkar gjaldmiðil, nema sem greiðslu fyrir þær vörur eða þjónustu sem við seljum, líkt og við fáum nú.

Seðlabanki okkar mun starfa áfram þó við tökum upp Evru og hann mun áfram stýra fjárstreymi um atvinnulíf landsins. Hann og ríkisstjórnin munu áfram bera ábyrgð á því að skapa þjóðinni nægar tekjur (Evrur) til þess að reka þjóðfélag okkar. Við munum hins vegar ekki geta aukið innlenda veltu til atvinnusköpunar eða til að bregðast við bráðaaðstæðum, með því að auka peningamagn í umferð, ef við skiptum yfir í mynt annarrar þjóðar. Til slíks munum við þurfa samþykki yfirstjórnar gjaldmiðilsins (Evrunnar), sem getur orðið tímafrekt að fá samþykki fyrir, þar sem 27 þjóðir þurfa að samþykkja.

Það hryggir mig mjög, sem jafnaðarmann frá blautu barnsbeini, að sjá hve svokallaður jafnaðarmannaflokkur okkar virðist rúinn allri raunhæfri þekkingu á nauðsynlegu fjárstreymi sjálfstæðs þjóðfélags. Það er undarlegt til þess að hugsa að á liðlega 50 árum skuli raunverulegri þekkingu á rekstri sjálfstæðs þjóðfélags hnygnað eins svakalega og raunin virðist vera.

Það eru afar lélegir arfberar frelsins og sjálfstæðis (sem var gunnfáni jafnaðarmanna fyrir liðlega hálfri öld), sem nú sjá eina ljós framtíðarinnar felast í því að skríða hundflatir undir verndarvæng ímyndaðrar auðsældar, hjá valdabandalagi sem er að líða undir lok, vegna innri sundrungar.

Við slíka framtíðarsýn er eina gleðin að vera orðinn gamall og þurfa ekki að lifa lengi við slíka niðurlægingu.        


mbl.is Stjórnarsáttmáli heyrir sögunni til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er krónan ónýt ??????

Daglega verður maður vitni að því að stjórnmálamenn valda ekki því hlutverki að stýra mikilvægustu málefnum sjálfstæðs þjóðfélags. Stærsti stjórnmálaflokkurinn má ekki vera að því að sinna brýnum innanlandsmálefnum, vegna ákafa síns um að fá að sitja á fundum með hópi landa, sem nýverið hafa sýnt okkur þvílíka fyrirlitningu að öðru eins verður vart jafnað, nú á síðari tímum.

Er það brýnasta verkefni stjórnvalda nú að sækja um aðiild að Evrópusambandinu? Er brýnt að eyða starfsorku og tíma í það nú, að ræða um að kasta krónunni og taka upp aðra mynt?

Afleiðingar stjórnleysis síðustu áratuga ættu að segja öllum sem einhvert vit hafa á stjórnun atvinnu- og tekjuþátta sjálfstæðs þjóðfélags, að útilokað er fyrir stjórnmálamenn okkar að svipta þjóðina því svigrúmi sem felst í því að ráða mynt sinni sjálf.

Við verðum að horfast í augu við, að undanfarna áratugi hefur tekjusköpun þjóðarbúsins ekki verið sinnt sem skildi af stjórnmálamönnum okkar. Þeir flutu áfram á rauðu skýi lánsfjárvímunnar og fannst greinilega engin þörf á að þjóðin inni sjálf fyrir þeim peningum sem hún eyddi. Það væri hægt að fá nóg af þeim lánað frá útlendingum, sem myndu halda áfram að ausa fé í þessa sjálfumglöðu þjóð, sem fyrst og fremst hugsaði um að eyða peningum, en legði enga hugsun í að, ef vel ætti að fara, þyrfti fyrst að afla peninganna, áður en farið væri að eyða þeim.

Hver væri staða atvinnulífsins hjá okkur ef við skiptum nú út krónunni, annað hvort fyrir evru eða dollar. Sífellt fleiri fyrirtæki verða stopp vegna skorts á peningum, nú þegar lánsfé er hætt að streyma til landsins af krafti stórfljóta. Nú horfumst við beint í augu við það hve mikið við öfluðum sjálf af tekjum erlendis frá, til þess að standa undir þeirri veltu þjóðfélagsins sem lánsféð hafði framkallað. Af hverju eru stjórnmálamenn og aðrir ráða- og menntamenn undrandi á þessari stöðu, þegar hún var jafn óumflýjanleg og að steinn sem kastað er upp í loftið, kemur aftur niður til jarðarinnar. Í okkar tilfelli urðum við undir steininum.

Eina færa leið Íslands nú, til að forðast algjört hrun innanlands, er að ríkissjóður takið ákvörðun um umtalsverða aukningu fjármagns í umferð, með því að prenta allt að 100 milljarða íslenskra króna, til að keyra af stað sem mest af nauðsynlegri starfsemi hér innanlands. Í því svigrúmi sem þannig skapast þarf að leggja megináherslu á að sem minnst af því fjármagni fari úr landi, og að algjörs forgangs njóti öll sú atvinnusköpun sem selja má til erlendra aðila og skapa með slíku gjaldeyri.

Miðað við stöðu þjóðarbúsins nú, er eitt brýnasta verkefni okkar, að sem næst tvöfalda gjaldeyristekjur okkar; og það helst á næsta og þarnæsta ári. Þá er ég ekki að tala um sjónhverfingar eins og viðhafðar voru undanfarin ár á fjármálamarkaðnum, heldur raunverulegar nettótekjur af beinni sölu á vörum eða þjónustu.

Með íslensku krónunni, getum við haldið allri nauðsynlegri þjónustu gangandi hér innanlands og meðan við erum að komast yfir mestu lægðina í þessum hörmungum, getum við aukið peningamagn í umferð, þannig að allir geti borgað innlenda reikninga sína og sem flesir fengið störf við þjónustu eða framleiðslu fyrir okkur sjálf.

Ef við skiptum nú um mynt, og verðum algjörlega háð vilja Seðlabanka annarrar þjóðar, um aukningu peningamagns í umferð, ráðum við engu um það sjálf hve mikið peningamagn er hér í umferð, til greiðslu launa og annars kostnaðar innan samfélagsins. Ef hliðsjón er höfð af því hve lítið við sköpum nú af gjaldeyri, er ljóst að verslun, þjónusta og verklegar framkvæmdir mundu dragast verulega mikið saman og líklega verða neyðarástand hérna á höfuðborgarsvæðinu.

Ég get því ekki annað en lýst vanþóknun minni á málflutningi lærðra manna, sem mæla því bót að nú verði skipt um gjalmiðil hér á landi. Sama á í raun við um stjórnmálamenn, nema að þeir geta afsakað sig með fákunnáttu, vegna þess að engar kröfur eru gerðar til stjórnmálamanna að þeir hafi vit á rekstri sjálfstæðs þjóðfélags, þó þeir séu kosnir til þess að stjórna því.       


mbl.is Ónýtur banki bjargar ónýtri krónu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar geta ekki greitt fyrir hryðjuverk Breta gegn eigin þjóð

Ef við drögum djúpt andann svo heilinn fái súrefni, munum við líklega greina eftirfarandi ferli atburða.

Útibú Landsbankans í London fékk heimild Breskra yfirvalda til að taka við innlánum þar í landi. Þar með var útibúið komið undir eftirlit Breska Fjármálaeftirlitsins. Því bar skylda til að gæta þess að eignastaða útibúsins væri ævinlega sú að eignir væru hærri en vörslufé og skuldir. Stjórnvöldum þar í landi ber því fyrst og fremst að áfellast Breska fjármálaeftirlitið hafi eignastaða útibús Landsbankans í London ekki verið nægjanleg.

Fram hefur komið að langt var komið ferli stofnunar Bresks dótturfélags Landsbankans, þar sem Icesave reikningarnir áttu að vistast. Svo er að skilja að eignir hefðu verið tilgreindar til vistunar í efnahag þessa Breska fyrirtækis; einungis eftir formleg frágangsvinna.

Í ljósi alls þessa virðist alveg ljóst að notkun Brown's á hryðjuverkalögum til að frysta eignir útibús Landsbankans í London bitnuðu harðast, og svo til eingöngu á innistæðueigendum í þessu útibúi, þ. e. Breksu þjóðinni. Með fullum rétti er því hægt að segja að Brown hafi beitt hryðjuverkalögum á sína eigin þjóð.

Ljóst virðist að hefði Brown dregið djúpt andann og þrýst á að útibúið yrði strax að Bresku fyrirtæki, hefði Breskur almenningur, sveitarfélög, líknarfélög og stofnanir, engum fjármunum tapað og endurgreiðsla hefði tekist með ágætum. Vandamálið sem búið var til er því ekki vandamál íslensku þjóðarinnar. Hins vegar er vel þekkt að hroki Breta er nægilega mikill til að reyna að kúga aðra til að greiða skaðann af þeirra eigin mistökum og misgjörðum.

Með þessum skrifum er ekki verið að afsaka fýfldirfsku stjórnenda Landsbankans í því ástandi sem verið hefur undanfarin tvö ár á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Þar sýndu þeir svo glögglega að þeir báru ekkert skynbrag á hvaða afleiðningar ofþensla bankakerfisins gat haft fyrir þjóðina okkar. Því miður var eins ástatt með stjórnmálamenn okkar og stjórnendur helstu eftirlitsstofnana, s.s. Fjármálaeftirlits, Fjármálaráðuneytis og Seðlabanka. Hvergi raunveruleg þekking eða ábyrgðartilfinning gagnvart  rekstri sjálfstæðs þjóðfélags.                


mbl.is Barroso: Ísland leysi deilumál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er ábyrgð Bretanna sjálfra ?????

Fyrir utan það að setja eignir Landsbankans í herkví og bera þar með fulla ábyrgð á verðmæti þeirra eigna eða verðrýrnun, eru aðrir þættir þessa máls, sem tvímælalaust eru á ábyrgðarsviði Bretanna sjálfra.

Þar á ég við þá staðreynd að Landsbankinn hafði greinilega starfsleyfi í Bretlandi til að taka við innlánum þar í landi. Af því leiðir að Fjármálaeftirlit Bretlands bar fullkomna eftirlitsskyldu gagnvart þessum innlánum. Þeim bar að fullvissa sig um að nægar eignir væru fyrir hendi hjá útibúi Landsbankans í Bretlandi, til tryggingar þeirra innistæðna sem bankinn hafði tekið þar til ávöxtunar.

Hvers vegna spyrja fjölmiðlar ekki fjármálaráðherra Breta og forstöðumann Fjármálaeftirlits þeirra, hvað hafi valdið sinnuleysi þeirra vegna þeirra fjármuna sem landar þeirra lögðu inn á reikninga hjá Landsbankanum í Bretlandi? Mér finnst að við, almenningur á Íslandi, sem Bretar krefja um að greiði fyrir vanrækslu Fjármálaeftirlits þeirra, eigum fullan rétt á að fá þessi svör.

Snúum vörn í sókn.             


mbl.is Stoltenberg ræddi um Ísland við Brown
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vitlaus útreikningur verðtryggðra lána

Í þeim fjármálalegu hamförum sem nú ganga yfir landið okkar hefur oft heyrst hrópað á að verðtrygging lánsfjár verði afnumin. Slíkt verður líklega torsótt í fljótu hasti, en alls ekki ómögulegt að byrja á því að leiðrétta útreikning verðbótaþáttarins, þannig að hann gefi rétta verðbót lánsfájrins.

Gefum okkur að við tökum 10 milljón króna húsnæðislán til 25 ára. Lánið ber 5% vexti og við áætlum að verðbólga verði 12% á ári, út allan lánstímann.

Lítum aðeins á verðbólguna. 12% á ári, sinnum 25 ár, gera samtals 300%. Það þýðir að ef við hefðum allar 10 milljónirnar að láni í 25 ár,  og verðbólgan verið 12% allan tímann, ættum við að endurgreiða 30 milljónir að lánstímanum loknum.

Nú gerist þetta ekki þannig. Við greiðum afborganir af láninu í hverjum mánuði. Afborganirnar verða því 300 talsins. Hver afborgun verður kr. 33.333, nema sú síðasta, verður 33.433. Þegar 12% verðbólga er reiknuð inn í mánaðarlega endurgreiðslu 10 milljóna króna láns á 25 árum, kemur út verðbótagreiðsla að upphæð kr. 15.050.150.

5% Vextir af þessum 10 milljónum í 25 ár, með mánaðarlegum afborgunum, reiknast vera kr. 6.321.063.

Með réttum útreikningum þessa láns, miðað við 12% verðbólgu væri endurgreiðslan svona: Upphaflega lánið 10.000.000, + verðbætur 15.050.150, + vextir 6.321.063, eða samtals heildargreiðsla kr. 31.371.213.

Útreiknikerfi bankanna vill fá í endurgreiðslu samtals kr. 77.637.807.

Er ekki kominn tími til að sameinast um þá kröfu að þessi titleysa verði leiðrétt?

Kveðja frá fyrrum hagdeildarmanni í banka.                    


Gæti flokkast sem aðför að gjaldeyrissköpun þjóðarinnar

Aukin heimild til frestunar veiða á úthlutuðum aflaheimildum má allt eins flokka sem aðför að gjaldeyrisöflun þjóðarinnar á afar viðkvæmum tíma, þar sem brínasta verkefni atvinnuvega og ríkisstjórnar er að auka gjaldeyrissköpun eins og frekast er kostur.

Nægur bártafloti er til í landinu til að veiða allar úthlutaðar aflaheimildir. Þörf á frestun er því ekki til staðar og þjóðarbúið þarf NAUÐSYNLEGA á öllum aflanum að halda til gjaldeyrissköpunar.

Ef eitthvað væri hægt að flokka sem glæp gegn þjóðfélaginu, þá væri það að samþykkja þetta frumvarp um frestun og færslu aflaheimilda milli ára.                    


mbl.is Mega geyma þriðjung kvótans milli ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alls engin sjálfgefin fylgni á milli stýrivaxta Seðlabanka og útlánavaxta bankanna

Hvernig væri að alþingismenn og þjóðin öll færi að átta sig á að vextir á útlánum í þjóðfélaginu þurfa alls ekki að vera í neinni tenginu við stýrivexti.

Útlánavextir bankanna eru ákveðnir af þeim sjálfum, samanber 10. gr. laga um vexti og verðtryggingu, en þar segir svo í 1. málsgrein.

 Lánastofnunum ber að tilkynna Seðlabanka Íslands um öll vaxtakjör og breytingar á þeim í því formi og með þeim fyrirvara sem Seðlabankinn krefst.

Hvergi er um það getið í lögunum að Seðlabanka sé heimilt að hafa afskipti af vaxtaákvörðun bankanna, en samkvæmt upphafi 2. málsgreinar 10. gr. áðurgreindra laga, er Seðlabanka skylt, fyrir lok hvers mánaðar, að birta í Lögbirtingarblaði, vexti af útlánum; þ. e. þá vexti sem bankarnir tilkynna til Seðlabankans.

Ákvörðun Seðlabanka um stýrivexti er af allt öðrum toga en vengjuleg útlán bankanna. Þar er um að ræða vexti af skammtímalánum Seðlabanka til lánastofnana, 7 daga peningalán, eða skammtíma verðbréfakaup Seðlabanka af bönkunum. Upphæð þessara lána er svo hverfandi lítið brot af útlánum bankanna, að engin þörf er á að útlánavextir elti stýrivexti.

Í þjóðfélagi, þar sem sérstök þörf er á að beita háum stýrivöxtum, hafa lánastofnanir gengið út fyrir þau mörk sem hagkerfi þjóðarinnar þolir. Við slíkar aðstæður eiga stýrivextir að vera verulega mikið hærri en venjulegir útlánavextir, því þeir eiga að virka fælandi á bankana að þurfa að nota lán frá Seðlabanka, því hann geymir fyrst og fremst gjaldeyrisforða þjóðarinnar, sem ekki á að vera í stöðugu útláni hjá lánastofnunum.

Mikilvægt er nú, þegar ríkið á alla stærstu bankana, að rjúfa nú þann vítahring sem einkavæddu bankarnir sköpuðu, með því er þeir hækkuðu stöðugt útlánavexti sína í takt við hækkun stýrivaxta. Nú er lag að pressa á viðskiptaráðherra að rjúfa þessa tengingu og lækka útlánavexti til mótvægis, vegna aukinnar verðbólgu.

 Svo þurfum við líka að nota tækifæri ríkisbankavæðingarinnar og koma okkur út úr þessu rugli verðtryggingar lánsfjár.                      


mbl.is Ljóst að þyrfti hækka vexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki hægt að stoppa kjánaskapinn frá þessum mönum????

Ekki hvarflaði nú að mér annað en greiningadeild Glitnis hefði verið lögð niður við yfirtöku ríkisins á bankanum. Svo mikið rugl hafði nú borist frá þessari deild, að ég taldi víst að nú mundi því linna, þegar yfirtakan varð.

En því miður virðist svo ekki vera. Enn birtist frá þessari deild rugl sem sýnir afskaplega takmarkaðan þroska og hæfni til samanburða á aðstæðum og væntanlegum árangi út frá því.

Þeir jafna saman takmörkuðum þrengingum nokkurra banka í Skandinavíu, við það fjármálahrun sem nú er að ganga yfir heimsbyggðina. Slíkt er ótrúlegur kjánaskapur, auk þess sem ekki er enn séð fyrir afleiðingar núverandi hruns, og EKKERT svæði í heiminum er utan þessara þrenginga. Enginn veit því enn hvar niðursveiflunni líkur, hvað þá að einhver sjái raunverulega jákvæðni og vöxt vera á næsta leiti.

Að vænta sömu áhrifa frá yfirlýsingu okkar nú, um umsókn til aðildar að ESB og upptöku evru, eins og varð þegar Svíar og Finnar tilkynntu um aðildarumsókn, sýnir enn betur vanhæfni greiningadeildar Glitnis til lestrar í aðstæður.

Þegar Svíar og Finnar tilkynntu um aðildarumsókn, voru allir heimshlutar, utan Skandinavíu, með fjármálastarfsemi sína á fullu. Verðbréfamarkaðir í uppgangi, fjárfestingabankar unguðu út skuldabréfum í allar áttir til að búa til verðmæti sem greidd yrðu síðar, og fjárfestar í stöðugri leit að tækifærum til að koma peningum sínum í vinnu og ávöxtun.

Í dag er Íslenska þjóðin rúin trausti. Stærstu bankar þjóðarinnar komnir í þrot, hugsanlega að einhverju leiti vegna trúar stjórnenda þeirra á ruglið frá greiningadeildunum. Alla vega gátu þær ekki sýnt nauðsynlega varúð til að forðast þrengingar sem skapað gætu það hrun sem nú er staðreynd.

Í ljósi þessa, sem og þess að nú eru fjárfestar fyrst og fremst að huga að tapi sínu og hve miklu þeir ná aftur til baka af þeim fjármunum sem útistandandi eru, er engin leið að setja samnefnara viðbragða við tilkynningu Svía og Finna fyrir hart nær 20 árum, við þá tilkynningu sem við myndum senda nú. 

Við erum yfirlýstir á kafi í skuldafeni, sem við erum að greiða úr með hjálp Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.  Margir bankar og fjárfestar munu tapa verulegu fé hér í bankahruninu. Við höfum hvergi lánshæfi, en fáum væntanlega einhver lán til endurreisnar, með atbeina vinveittra ríkisstjórna. En beinar lánveitingar til okkar verða áreiðanlega af skornum skammti næstu árin.

Ef ég væri stjórnandi Glitnis, mundi ég loka þessari deild tímabundið og senda starfsmenn hennar í endurhæfingu, frá þeim gjaldþrota hugmyndum sem lesa má úr skrifum þeirra, því sú hugmyndafræði er þegar viðurkennd sem ein af meginástæðum fyrir þeim ógöngum sem heimurinn er nú í.                       


mbl.is Yfirlýsing um aðildarumsókn myndi hafa víðtæk áhrif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert verður til úr engu

Sá óvitagangur sem viðhafður hefur verið í peningamálastefnu okkar undanfarin ár, er með ólíkindum. Allir sem beita heilbrigðri hugsun, vita að vöxtur verður ekki til úr engu. Það er líka löngu þekkt, að engin gjaldmiðill getur staðið einn og óstuddur; ekki einu sinni hin viðurkennda heimsviðskiptamynt, Bandaríski (USA) dollarinn.

Hvaðan sú kjánahugsun er upp runnin að krónan okkar, ein af minnstu mynteiningum veraldar, gæti staðið ein og óstudd í ólgusjó heimsviðskiptanna, verður sennilega aldrei opinberað. Enda er það kjánaheimska liðins tíma, sem við höfum nú í höndum áþreifanlegan árangur af; og eigum að læra af.

Við ættum að vita, að fyrst USA getur ekki (og hefur ekki í áratugi getað) tryggt verðgildi dollarsins, án utanaðkomandi stuðnings, jaðrar það líklega við hámark heimskunnar að ætla krónunni okkar að geta ein og óstudd haldið verðgildi sínu.

Þegar hugsuðir frjálshyggjunnar skilgreindu hugtakið "Markaðshagkerfi", gleymdu þeir mikilvægasta grundvallarþætti alls vaxtar, sem er uppruni vaxtarins, uppruni verðmætanna. Allskonar villandi hugtök urðu ríkjandi, s. s. að veltuaukning, þó hún væri framkvæmd með utanað komandi lánsfé, fékk nafnið "hagvöxtur" eða "þjóðarframleiðsla", eftir því í hvaða samhengi var rætt um hina auknu veltu. Ýmis fleiri gildi voru afvegaleidd til að fela raunveruleikann í orðagjálfri talnaleikja. Árangurinn varð sífellt minnkandi ábyrgð fyrir hinum raunverulegu sannindum, og meira að segja dregið í efa hugtakið "rétt". Afleiðingin varð stöðugt vaxandi óöryggi um raunveruleg gildi viðfangsefna.

Hinn kaldi raunveruleiki vaxtar hefur ævinlega verið einn. Líkt og að tréð vex upp frá fræinu sem sett er í jörðina, og allur vöxtur trésins kemur síðan frá gjafara vaxtarins og uppruna verðmæta hans, kemur raunverulegur vöxtur hagkerfis ævinlega frá uppsprettu sköpunar raunverulegra verðmæta, sem eiga upptök sín innan hagkerfisins. Það er hægt að stækka blöðru með því að blása meira lofti í hana, svo hún stækki, en hið raunverulega efni í blöðrunni eykst ekkert við það. Hins vegar eykst álagið á hið raunverulega efni og hætta vex á því að blaðran springi. Svo er og með hagkerfi sem þanið er út með lánsfé, án raunverulegs innri vaxtar.

Ef við gefum okkur tækifæri til að setjast niður og íhuga það sem gerðist, og afleiðingar þess fyrir hagkerfi okkar, sjáum við vonandi sem flest, hve frjálshyggjan hefur rangtúlkað hugtakið "frelsi" og misbeitt því alvarlega í gróðahugsjón fyrir þá frekustu. Gróða sem í mörgum tilfellum var einungis sýndarveruleiki, sem nú er horfinn, eftir að blaðran sprakk, sem þessi sýndarveruleiki var byggður á.

Við uppbygginguna sem farmundan er, teldi ég afar mikilvægt fyrir þjóðina að forðast "markaðshagkerfi" að hætti hugsuða þeirra kerfa sem nú hafa keyrt heimsfjármálin í strand. Förum varlega og hugum vandlega að rótum og innri vexti þeirra auknu umsvifa sem fæðast munu í þjóðfélagi okkar á komandi árum. Með þeim hætti tryggjum við afkomu og hamingju komandi kynslóða hér á Íslandi.                  


mbl.is Peningamálastefnan verði endurskoðuð strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband