Færsluflokkur: Dægurmál
11.5.2009 | 22:12
Opinberum fyrirtækjum er óheimil viðskiptaleynd um verð seldrar þjónustu
Opinberum fyrirtækjum er óheimilt að sveipa leynd eða trúnaði um söluverð þjónustu sinnar eða afurða. Það ætti ekki að þurfa að rökstyðja slíkt fyrir heilbrigt hugsandi fólki; en kannski er heilbrigð hugsun orðin fátíð eða í útrýmingarhættu.
Trúnaðarupplýsingar eiga fullan rétt á sér milli einkafyrirtækja, en vegna jafnræðisreglu stjórnarskrár er opinberu fyrirtæki óheimilt að vera með óopinberar verðskrár yfir þjónustu sína eða söluafurðir.
Málið er í raun ekki flóknara en þetta. Viðskiptaaðilar OR og Landsvirkjunar vita að þeir eru að kaupa af opinberu fyrirtæki og EIGA því að vita að leynd yfir meginefni slíkra samninga stenst ekki grundvallarreglur um upplýsingaskyldu opinberra fyrirtækja.
Það hefur hins vegar lengi verið þekkt að spillingaröflin snúa gjarnan baki við þeim sem þau eiga að vernda, þegar þau telja sig komast á slóð þeirra sem dreifa seðlum eða flottræfilshætti.
![]() |
Verður að virða umsaminn trúnað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.5.2009 | 21:36
Mjólkaði LÍÚ kúna okkar?
Það er undarlegt að framkvæmdastjóri LÍÚ skuli tala um "að gera aflaheimildir upptækar", þegar engin lög fyrirfinnast um að útvegsmenn eigi nokkra einustu aflahlutdeild. Ríkið (þjóðin) á allar aflaheimildir og úthlutar heimildum til nýtingar þeirra einu sinni á ári. Við úthlutun hafa Stjórnvöld aðeins eina lagaskyldu við framkvæmd úthlutunar; sem einungis hefur verið notuð einu sinni, við fyrstu úthlutunina.
Hugtakið "varanleg aflahlutdeild" hefur ALDREI verið staðfest af Alþingi. Af þeirri ástæðu hefur svonefndur VARANLEGUR KVÓTI aldrei verið lögformlega til. Hann á sér því enga lögvarða réttarstöðu og engin útgerð getur sótt neina réttarstöðu á grundvelli þess að hún eigi varanlega aflahlutdeild.
Fyrir tíma kvótakerfisins, var hlutdeild útgerðarfélaga í heildarverðmæti útfluttra sjávarafurða, rétt um 46% útflutningsverðmæta, en hlutdeild landvinnslu og byggðanna 54%. Þá var fjármagnskostnaður sjávarútvegsins örfá prósent af heildarverðmæti útflutnings og skuldir lægri en raunverulegt söluverðmæti lögformlegra eigna.
Nú er staðan sú að útgerðarfyrirtækin eru búin að sölsa undir sig meginhlutann af söluverðmæti sjávarafurða inn í sitt rekstrarumhverfi. Skuldir sjávarútvegsins eru tvöfallt eða jafnvel þrefallt raunverðmæti lögformlegra eigna. Og fjármagnskostnaður líklega kominn yfir 20% af heildar útflutningsverði sjávarafurða.
Þessa framþróun kalla "spekingar LÍÚ" hagkvæmni og hagræðingu í sjávarútvegi og tala um jákvæðan árangur af kvótakerfinu.
Nýlega var í Kastljósi fjallað um könnun á FJÁRMÁLALÆSI Íslendinga. Þar kom fram að þjóðin fékk algjöra falleinkun í fjármálalæsi. Sé litið til þess sem hér að framan er rakið um árangur kvótakerfisins, virðist mér að fjármálalæsi hjá LÍÚ sé innan við 1 í einkunn.
Í ljósi þess að kvótagreifar hafa selt þjóðareignir fyrir mörg hungruð milljarða - og stungið andvirðinu í eigin vasa, án þess að greiða af því virðisaukaskatt - er skiljanlegt að framkvæmdastjóra LÍÚ finnist sárt að horfa fram á að það eigi að taka af þeim stærstu mjólkurkúna. Ljóst er að engin útgerð hefur getað skilað þeim rekstrarhagnaði sem útvegsmenn hafa krafist sem söluverð - í sinn vasa - fyrir þær aflaheimildir sem þeir fengu úthlutað ókeypis.
Í ljósi þess fjármálalega ólæsis sem greinilega er fyrir hendi hjá LÍÚ, er engin undur þó framkvæmdastjóri þeirra skilji ekki þá hugsun sem felst í því að sjávarútvegurinn verði aftur sú undirstaða atvinnulífs í hinum dreifðu byggðum landsins, sem hann var fyrir hagræðingu LÍÚ "spekinganna" og auðlindaþjófnað þeirra.
![]() |
Ekki hyggindi að slátra mjólkurkúnni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.5.2009 | 21:41
Undarleg viðbrögð ráðherra í kastljósi
Ég varð verulega undrandi á ýmsum ummælum viðskiptaráðherra í kastljósi kvöldsins. Ekki var hægt að merkja á orðum hans að hann skildi þá stöðu sem mikill fjöldi fólks er í. Þegar svo er, er lítil von til úrbóta að varanlegu gagni, undir leiðsögn stjórnvalda.
Einnig talaði ráðherra eins og að allar skuldir sem ekki yrðu greiddar, lentu á ríkinu. Þetta kom mér verulega á óvart, í ljósi þess að skuldir þessar voru yfirfærðar frá bönkum sem voru hlutafélög með sjálfstæðan fjárhag og sjálfstæða ábyrgð á öllum sínum lántökum og útlánum. Engar ríkisábyergðir voru á lántökum þeirra.
Í ljósi þessa er algjörlega augljóst að nýju ríkisbankarnir hafa ekki heimild til yfirtöku hærri lána en sem nemur raunvirði (í íslenskum krónum) þeirra veða sem fyrir lánunum eru. Aðrar upphæðir lánsfjár geta einungis verið til innheimtu hjá ríkisbönkunum, en ekki yfirteknar af þeim. Slík innheimtulán munu aldrei lenda á ríkissjóði, heldur lenda í afskriftarhluta við uppgjör gömlu bankanna, greiðist þau ekki af lántakanum.
Dæmið sem nefnt var, um maninn sem tók lán í japönskum jenum, er glöggt dæmi um þetta. Hann keypti íbúð fyrir 39 milljónir. Hann átti 11 milljónir en tók 28 milljónir að láni í japönskum jenum. Nú stæði lánið í 70 milljónum, hann fengi líklega 30 milljónir fyrir íbúðina, þannig að núna skuldaði hann 40 milljónum meira en væri verðmæti íbúðarinnar.
Tap þessa manns er þó meira. Hann hefur tapað þeim 11 milljónum sem hann lagði í upphaflegu kaupin. Hann hefur einnig tapað verðbótum af þessu fé, sem áætla má 1,6 - 1,7 milljónir. Beint tap þessa manns má því áætla sem 52 - 53 milljónir á einu ári.
Þessi maður skuldar einhverjum gömlu bankanna þessar 70 milljónir sem lánið er sagt vera núna. Nýju bönkunum væri heimilt að yfirtaka - sem næmi raunvirði íbúðarinnar nú - sem sagt er vera 30 milljónir. 40 milljónirnar gæti nýji bankinn einungis yfirtekið til innheimtu, því ekkert veð væri til tryggingar á greiðslu þeirra milljóna. Þær 40 milljónir væru því í raun í efnahagsreikning gömlu bankanna og færu þar í afskriftapakkann með öðrum lánum sem engir veðþættir stæðu fyrir.
Ástæður þessara breytinga eru ekki lántakanum að kenna. Þar af leiðandi ber honum ekki að bæta þann skaða sem lánveitandinn verður fyrir. Skaði lánveitandans er að öllu leiti til kominn vegna hans eigin aðgerða. Hann verður því sjálfur að bera skaðann sem af þeim hlaust.
Þar sem lánveitandinn (gamli bankinn sem lánaði fyrir íbúðinni) tók féð að láni hjá erlendum lántaka í eigin nafni og endurlánaði til íbúðarkaupandans, ber þessi gamli banki alfarið ábyrgð gagnvart erlenda lánveitandanum, en ekki íbúðarkaupandinn. Íbúðarkaupandinn gerði ekkert sem olli hruninu eða verðfalli krónunnar, þess vegna skuldar hann að hámarki þær 28 milljónir sem upphaflega lánveitingin var. Hærri fjárhæð hefur Nýi bankinn ekki heimild til að yfirfæra í efnahagsreikning sinn sem fulla veðsetningu á hans íbúð, og yfirtöku til sín sem eignastöðu í efnahagsreikning.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.5.2009 | 19:00
Að örþrifaráðum kemur þegar of lítið er gert til verndar heimilunum.
Á s.l. hausti, skömmu eftir hrun bankanna, ritaði ég forsætis- og viðskiptaráðherrum bréf, þar sem ég varaði við þeirri stöðu sem nú er upp komin. Í þessu bréfi benti ég á hugmyndafræði og leiðir, sem þróuðust í gjaldþrotahrinunni á tíunda áratug síðustu aldar.
Hvað þarf að gera:
Grípa hefði átt strax til lagasetningar, þar sem íbúðarhúsnæði væri verndað fyrir aðför vegna annarra lána en þeirra sem beinlínis voru tekin til fjárfestingar í íbúðinni. Þetta hefði algjörlega afmarkað vanda sem stafaði frá öðrum skuldum en húsnlæðiskaupum.
Setja hefði átt lög um lausafjárviðskipti, á þá leið að óheimilt væri að leita tryggingar í öðrun en því sem selt væri, fyrir þeim lánum sem veitt væru til kaupanna. Þetta hefði tryggt að lánveitendur væru vel meðvitaðir um áhættuna sem þeir væru að taka, í stað þess að oft eru lánin veitt í skjóli þess að viðkomandi lántaki eigi íbúð fyrir fjölskyldu sína.
Þegar í stað hefði átt leiðrétta vitleysu sem er í útreikniforsendum svokallaðrar "verðtryggingar", þar sem heildarhöfuðstóll lánanna er stöðugt hækkaður, án þess að lánveitandinn greiði út verðbótahækkunina til lántakans. Réttur útreikningur verðbóta á lánsfé felst í því að gjalddagi hverju sinni, er verðbættur með mismun vísitölu frá lántökudegi, til greiðsludags hverrar afborgunar. Þannig var aðferðarfræðin hugsuð í upphafi, enda segir í svokölluðum "Ólafslögum" - að verðbæta skuli greiðslu lánsins - en framkvæmdin hefur alla tíð verið vitlaus.
Þegar búið væri að leiðrétta vitleysurnar í útreikningum "verðtryggingar", væri horfinn á braut stærsti hvatinn til verðbólguvaxtar. Lánin lækkuðu jafnt og þétt við hvern gjalddaga sem greiddur væri, svo engra hækkana væri þörf vegna vitlausra höfuðstólshækkana lána.
Að ráðamenn þjóðarinnar skuli bæði undir rós og beinlínis ódulið, ógna fólki sem beðið hefur vitrænna úrlausna í marga mánuði, er næsta grátlegt. Það - eitt og sér - sýnir glögglega hve lítið ráðamenn hafa lagt á sig til að skilja til hlýtar þann vanda sem að fólkinu steðjar.
Myndrænt er hægt að segja að skuldarinn sé í öðrum enda snörunnar, en tilli enn blátánum á klettabrúnina, en í hinum endanum sé lánveitandinn - en sá endi sé fyrir utan brúnina; yfir hyldýpinu. Skeri skuldarinn sig niður úr snörunni, mun hann geta staðið í fæturna, en lánveitandinn fellur í hyldýpið.
Það var mikið reynt hér í fyrri gjaldþrotahrynunni að beita innheimtulögfræðingum. Lánastofnanir fengu þeim kröfur til innheimtu. Þeir keyrðu ferlið áfram til uppboðs eigna, sem oftast skilaði því að lánastofnunin keypti eignina á uppboðinu. Skuldarinn gat ekkert borgað og var oftast gerður gjaldþrota. Lögfræðikostnaður af þessum hráskinnaleik var gífurlegar, en hann var - að stórum hluta - greiddur af lánveitandanum, sem réði lögfræðinginn til starfans.
Þessi vinnubrögð sýndu sig að því að skila lánveitendum einungis umtalsverðum kostnaði; jafnframt því að skila þeim umtalsvert lægri fjárhæðum til greiðslu hinna veittu lána, því þeir fengu einungis það sem eftir var, þegar lögfræðingurinn var búinn að taka sín laun og útlagðan kostnað.
Ef menn ætla að fara slíka innheimtuleið nú, með allan þennan fjölda sem nú er í erfiðleikum, eru menn ótvírætt að búa sér til illvígan ófrið og jafnvel hatursumhverfi, sem við höfum þó verið blessunarlega laus við fram til þessa.
Það er ekki nóg að vera vinstri maður. Menn verða að hafa vit og kjark til að ráðast að rótum vandamálanna, ef ætlunin er að leysa þau farsællega til frambúðar. Slíkt er ekki farið að sjást í farveginum ennþá, þó margir mánuðir séu liðnir frá því að vandamálið var í sjónmáli.
![]() |
Varar við örþrifaráðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2009 | 11:55
Kjánaleg rökfræði
Þessi rökfræði Friðriks kemur mér ekki á óvart. Hún sýnir hins vegar hve LÍÚ er fátækt af rökum fyrir núverandi fyrirkomulagi - að þeir skuli ekki finna eina einustu rökfærslu innan eigin atvinnugreinar.
Ég er ekki fylgjandi því að teknar sé af núverandi fyrirtækjum þær aflaheimildir sem þeir eru að fiska sjálfir, á eigin skipum. Slíkt væri óþörf inngrip í atvinnuveg sem er undirstaða þjóðartekna.
Ég er einnig mótfallinn því að aflaheimildir verði settar á uppboð, því slíkt er afar erfitt í framkvæmd - svo ekki komi þar inní milliliðir í hagnaðarskyni.
Ég tel hagkvæmustu leiðina vera þá að stjórnvöld deili aflaheimildum út eftir veiðireynslu skipa, en allir greiði - sem auðlindagjald - á bilinu 5 - 15% af löndunarverði afla; allar útgerðir sömu prósentutölu. Það hlutfall greiddist beint til ríkisins, frá fiskkaupanda, en færi aldrei til útgerðarinnar.
Þessi aðferð er einföld, skilvirk og setur allar útgerðir við sama borð.
![]() |
Líkir uppboði afla við byggingastarfsemi í Grafarholti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2009 | 13:31
Skilja hinir nýkjörnu þingmenn ekki þjóðina ?
Það er ekki nýtt að heilaþvegin öfgaöfl telji sig hafa þjóðina á bak við sig í jarðsambandslausum skýjaborgum sínum. Slíkt hefur oft gerst áður, og virðist vera að gerast einu sinni enn, þrátt fyrir kröfur búsáhaldabyltingarinnar, um að þingmenn - í það minnsta reyni - að skilja þjóðina.
Þegar litið er til þess gífurlega persónufylgis sem Jóhanna hefur hjá þjóðinni, verður það að teljast afar lítil fylgisaukning við Samfylkinguna að komast ekki yfir 30% múrinn og bæta einungis við sig tveimur þingmönnum. Mér er nær að halda að einmitt hin stífa krafa Samfylkingarinnar um aðild að Evrópusambandinu, hafi kostað þá 5 - 8% tap þar sem Sjálfstæðismenn sem flúðu heimahagana vildu ekki kjósa ESB aðild.
Eðlilegra væri að Samfylkingarfólk horfði á hið mikla tap sitt á atkvæðum breytinganna, frekar en missa dómgreindina út af því að hluti þeirra kjósenda sem yfirgáfu Samfylkinguna, eftir kosningarnar 2003 - greiddu öðrum atkvæði 2007 - skildu nú snúa heim aftur, þegar komin var forysta sem þeir gátu sætt sig við. En, gætið að því að það komu ekki allir til baka sem kusu Samfgylkinguna 2003. Gæti það verið vegna hinnar stífu kröfu um aðildarumsókn að ESB?
Það horfir ekki gæfulega fyrir þjóðinni ef hinir nýju þingmenn hennar hafa ekki skarpari dómgreind en birtist í þeirri túlkun sem sést hefur á niðurstöðum kosninganna. Horfum til þess að það er einmitt dómgreind þessara manna sem hafa mun mikið að segja um árangur þjóðarinnar á komandi árum, bæði í samskiptum við ESB, sem og við endurreisn eðlilegrar lífsgleði og lífshamingju meðal þjóðar okkar.
Var fólkið sem bauð sig fram til þingsetu, einungis að afla sér fastrar vinnu og tekna? Heldur það virkilega að einhver framfærsla, gjafafé eða hjálp til viðhalds hugsunaleysi um grundvöll fjárhagslegs sjálfstæðis, komi á færibandi að utan, einungis ef við verðum aðilar að ESB?
Þeir sem þannig hugsa eiga eftir að vakna við mun stærri hrylling en þann sem bankahrunið olli. Það er enginn í ESB að bíða eftir að bjarga efnahag okkar. Þá vantar hins vegar sárlega þær auðlindir sem þjóðin okkar hefur yfir að ráð. Leiðið því hugann að því hvernig grunnt hugsandi fólk er oftast blekkt til að gera það sem - sá sem blekkir - ætlast til af þeim. Við erum greinilega á hraðbraut eftir þeim farvegi á eftir hinum heilaþvegna ESB áróðursher.
![]() |
Ljóst að kjósendur óska eftir aðildarviðræðum við ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.4.2009 | 17:14
Framkallar evran stöðugleika ?
Gamalt máltæki segir: "Árinni kennir illur ræðari". Fullkomlega má heimfæra þetta máltæki upp á þá sem halda því fram að óstöðugleiki í efnahagsmálum okkar sé krónunni að kenna. Krónan er í raun hvorki orsök né afleiðing óstöðugleika í efnahagslífinu.
Óstöðugleikinn á sín eðlilegu upptök í höfði stjórnenda efnahags- atvinnu- og fjármála í þjóðfélagi okkar. Í gamalli speki var þetta kallað "að taka vitlausan pól í hæðina." Sé slík gert, verður stefnan röng og menn komast alls ekki á þann stað sem þeir ætluðu að fara.
Hvað veldur því að menn tali um að krónan sé ónýt. Hún er í fullu gildi á sínu gildissvæði. Utan þess gildissvæðis hefur hún ALDREI verið gjaldmiðill, svo þar hefur engin breyting orðið á. Hvers vegna telja menn krónuna ónýta?
Það helsta sem heyrst hefur, fellur að því að fyrirtæki og bankar í öðrum löndum vilji ekki taka við krónunni sem gjaldmiðli eða greiðslu. Er það krónunni að kenna? Engin önnur stjónrvöld en Íslensk hafa nokkurn tíman viðurkennt krónuna sem gjaldmiðil.
Ef vantraust skapast í viðskiptaumhverfi er það aldrei verðmætis- eða greiðlumiðlinum að kenna. Slíkt er ævinlega afleiðingar af óheiðarleika í viðskiptum, sem orsakar hrun á trausti milli viðskiptaaðila.
Lítum aðeins á hliðstæðu. Eru t. d. hlutabréf í Íslenskum fyrirtækjum almennt ónýtur gjaldmiðill? NEI. Gjaldmiðillinn sem slíkur er ekki ónýtur, sé hann í höndum manna sem viðskiptaumhverfið treystir. Bjóði hins vegar einhver, sem nýlega er búinn að eyðileggja mörg þúsund milljarða verðmæti, slíkan pappír til sölu, verða væntanlega ekki margir kaupendur á biðlista.
Það sem ég er hér að benda á, er að traust okkar út á við mun ekkert aukast þó við getum boðið annan gjaldmiðil. Það munu engir standa í biðröðum til að bjóða okkur að fá þann gjaldmiðil að láni, frekar en nú er í boði, því allar afurðir okkar eru seldar í erlendum gjaldmiðli, sem lánveitandinn gæti tekið veðstöði í.
Hugsunin sem býr að baki hinni ódrengilegu árás á krónuna okkar virðist því miður vera einskonar frjálshyggju heilkenni, sem þekkt er fyrir að loka fyrir dómgreind og skynsemi, jafnvel á ýmsan hátt hinna vönduðustu manna.
Ef við værum viss um að þjóðfélag okkar myndi þrífast og dafna vel í gjaldmiðilsumhverfi evru, væri einfaldasta leiðin fyrir okkur að taka sem fyrst ákvörðun um að íslenska krónan fylgdi gengi evru. Hvort hún yrði jafngild evru eða hlutfallsgildi yrði að koma í ljós. En með því að láta krónuna fylgja evrunni, væri slíkt gjaldmiðilsumhverfi komið á, og við gætum farið að spreyta okkur á því að reka þjóðfélag okkar í stöðugleikaumhverfi, líku því sem evruaðdáendur þrá svo afskaplega heitt, án þess að skilja afleiðingar þess fyrir þjóðfélagið.
![]() |
Vilja upptöku evru í samvinnu við AGS |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.4.2009 | 17:46
Það voru ekki mistök að taka við peningunum.
Það er hreint bull að tala um ofurstyrki FL-group og Landsbanka sem mistök. Öll yfirstjórn Sjálfstæðisflokksins vissi klárlega um greiðslu þessara styrkja; þannig að augljóslega var ekki um mistök að ræða. Enda kom ekkert til greina að endurgreiða þessa styrki fyrr en eftir að upp komst um að þeir höfðu verið greiddir til Flokksins.
Augljóst virðist, að Landsbankinn hafi með þessum styrk sínum keypt sér ákveðið afskiptaleysi Sjálfstæðisflokksins gagnvart innlánasöfnun í Bretlandi og Hollandi, því aðvörunum um áhættuna, sem af slíku stafaði, vegna slæmrar fjárhagsstöðu Landsbankans, var ekki sinnt. Þeirri skyldu áttu að sinna menn sem voru í forystu Sjálfstæðisflokksins. Þótti þeim kannski óþægilegt að setja stopp á aðila sem hafði gefið Flokknum þeirra svona mikla peninga?
Hugsi hver fyrir sig. Hvernig liði þér sjálfum, að þurfa að stöðva og breyta atferli aðila sem þú værir í mikilli þakkarskuld við?
![]() |
Augljós mistök |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.4.2009 | 10:56
Hvers vegna ríkti þögn um styrkina ?
Ég velti því fyrir mér hverskonar félagsskapur það sé, sem heldur því leyndu fyrir félagsmönnum sínum, að starfsemi félagsins hafi verið styrkt um verulegar fjárhæðir, í þessu tilfelli um 55 milljónir, sem nemur um 16% af ársútgjöldum félagsins. Er það eðlilegt að slíkri stórgjöf sé haldið leyndri fyrir félagsmönnum? Í hverra þágu var slíkri stórgjöf haldið leyndri?
Athugið að með þessu er ég ekki að tala um nafngreiningu gefenda, heldur eðlilega upplýsingagjöf stjóernenda félagsskaparins til félagsmanna. Varla fer á milli mála að hinir umræddu styrkir hafi verið greiddir inn á reikninga félagsins og þar með komið fram í ársreikningum. Var þessarar höfðinglegu gjafar ekkert getið í kynningu ársuppgjörs á aðalfundi, heldur látin falla inn í heildina svo sem minnst bæri á henni?
Hvaða hagsmunum var verið að þjóna með slíkri leynd yfir svo höfðinglegum gjöfum? Greinilega voru það ekki hagsmunir félagsins eða félagsmanna. Þeir hefðu að sjálfsögðu fyllst þakklæti og hlýhug til gefendanna, ef þessara gjafa hefði verið getið á aðalfundi, þó nafn gefenda hefði áfram verið hulið leynd. Og einnig má spyrja hvort félagslegir skoðunarmenn reikninga og endurskoðendur, hafi ekkert getið um þessar stóru færslur inn á reikninga félagsins, svona rétt í lok ársins?
Ljóst er að það voru ekki hagsmunir félagsins sem slíks að þessara höfðinglegu gjafa var hvergi getið. Svona fjárhæð kemst ekki inn í reikninga félags nema að vera á vitorði formanns og framkvæmdastjóra, en einnig á vitorði þeirra sem sjá um bókhald, fjárreiður og reikningsskil, auk skoðunarmanna reikninga og endurskoðenda, eins og fyrr er getið. Það er því ljóst að innan félagsins var myndaður þagnarmúr ákveðins hóps fólks, svo engin umræða yrði um þessar höfðinglegu gjafir.
Hvar liggja þá helstu hagsmunir þess að slíkra gjafa sé ekki getið, fyrst þeir eru ekki hjá félaginu sem fékk gjöfina? Voru þessir hagsmunir hugsanlega tengdir valdamiklum einstaklingum innan félagsins, sem þar með voru komnir í erfiða stöðu, með að beita afli félagsins gegn gefendunum, gerðist þess þörf? Er þetta t.d. hugsanlega lítill vísir að þeirri spillingu sem varð að hruni bankakerfisins hjá okkur? Gæti þessi glufa inn í spillingarumhverfið opnað okkur leið að stærri þáttum sannleikans um þau málefni. Gæti falist í þessu ástæðan fyrir því að Landsbankinn var ekki stoppaður með innlánsreikninga sína í Bretlandi og Hollandi, þó aðvaranir hefðu verið gefnar út um slæma stöðu hans?
Margir hagsmunir liggja áreiðanlega að baki svona leyndargjöfum. Þeir hagsmunir hljóta að verulegu leiti að liggja hjá gefandanum, því þar er ævinlega ágóðans að vænta, sé ekki um félagslega náðargjöf að ræða; sem ekki var í þetta skiptið, því slíkar gjafdir eru ekki huldar leynd í bókhaldi gefanda.
Frá mínum sjónarhóli er því alveg ljóst að enn er EKKERT farið að koma fram sem varpar ljósi á ástæður þeirra ofurupphæða sem voru á þessum gjöfum; langt umfram allt sem áður hafði þekkst um slíkar gjafir og styrki.
Svona spillingarþátt þarf að rannsakast af óháðum og óumdeildum aðila. Fyrr verður aldrei sátt í þjóðfélaginu vegna þessa máls. Allt of margir endar benda til mútugreiðslna, samanber að innlánastarfsemi Landsbankans var ekki stoppuð, þrátt fyrir að vitað væri að þeir gætu ekki greitt þau innlán til baka.
Þetta mál er því langt frá því að vera búið.
![]() |
Allt komið fram sem máli skiptir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2009 | 13:58
Vel skal til þess vanda, sem lengi á að standa
Fyrir tæpum tveimur árum sagði ég að óhugsandi væri að sá vöxtur sem var í verði og sölu áls, gæti staðið nema í eitt til tvö ár. Ef þetta hefði verið í fyrsta skipti sem sú sýn sem ég fæ oft á framtíðina, væri að verða að raunveruleika, væri hægt að tala um ágiskun. En þar sem svona sýnir hafa birst mér í nokkra áratugi, og ævinlega orðið að raunveruleika í fyllingu tímans, er ég löngu hættur að verða hissa.
Heilbrigð dómgreind hefði átt að segja mönnum að í heiminum var ekki svo mikil nýmyndun raunverðmæta, sem útþennsla fjármálamarkaða var. Ákveðin villuljós kveiknuðu með tilkomu tölvuskráningar fjármuna, í stað notkunar raunverulegra peninga eða skuldabréfa. Þetta villuljós lét unga fólkið í fjármálaheiminum halda að ekkert samhengi væri milli talnagilda í tölvukerfum og þeirra raunverðmæta sem þurfa ævinlega að vera undirstaða fjármálalegra gilda.
Af þessum ástæðum voru innihaldslaus fjármunagildi notuð á afar óábyrgan hátt og himinháum fjárhæðum ráðstafað út úr hringrás fjármagnsins, með þeim hætti að það á ALDREI aftur leið inn í hina nauðsynlegu hringrás fjárstreymis.
Útþensla undangengins áratugar í heimsfjármálunum var því að mestu leiti innistæðulaus og útilokað fyrir heimsbyggðina að reyna að halda í þá stöðu sem sá óraunveruleiki bjó til.
Löngu er orðið ljóst, að Ál er á margan hátt á útleið í stóriðnaði, þar sem þegar er komið fram efni sem bæði er sterkara og léttara en Ál og mun líklega yfirtaka stóriðnaðinn á komandi árum.
Gönuhlaup okkar í fjárfestingum eru þegar orðin nokkur. Við fjárfestum langt umfram eðlileg mörk í síldarbræðslum, sem svo stóðu tómar að fáum árum liðnum og skuldir afskrifaðar. Við fjárfestum með látum í loðdýrarækt, án þess að kunna neitt til slíkrar starfsemi. Þær fjárfestingar skiluðu engu og skuldir afskrifaðar. Við fjárfestum með miklum látum í fiskeldi, líka án þess að kunna nokkuð til slíkra verka. Þær fjárfestingar skiluðu þjóðinni einungis tapi og skuldir afskrifaðar.
Við eyðilögðum tekjugrundvöll sjávarbyggðanna af fiskvinnslu en uppskárum einungis yfirskuldsettar útgerðir. Fyrirsjáanlegt er að þar verður að afskrifa verulegar fjárhæðir. Við stungum okkur á hausinn í fjárhættuspili hlutabréfa og verðbréfa og uppskárum einungis yfirskuldsetningu nokkurra kynslóða og eyðileggingu trausts okkar. Væntanlega verða erlendir fjárfestar og lánastofnanir að afskrifa nokkur þúsund milljarða vegna þessa ábyrgðarleysis stjórnmálamanna okkar, sem við ætlum nú að heiðra fyrir afrekið með endurkosningu eftir fáeina daga.
Og nú stefnum við hraðbyr að nýjustu fjárfestingarvitleysuni; að gera langtímasamninga við sem flesta álframleiðendur, um sem mest af framleiðslugetu okkar á rafmagni, og sitjum því væntanlega uppi með nokkrar álbræðslur lokaðar og verkefnalausar að nokkrum árum liðnum.
Er engin von til þess að áreiðanleiki og skynsemi nái yfirhöndinni við stjórnun þessa þjóðfélags okkar, eða verðum við aftur komin í ánauð innan fárra ára?
![]() |
Fréttaskýring: Áliðnaðurinn á í vök að verjast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Nýjustu færslur
- Álfagangur varðandi lángtímaleigu á Álfabakka 2?
- EES samningur og ætlað vald ESB
- Efnahags og viðskiptanefnd Alþingis 2021 / Hver er þekking ál...
- Þjóð án fyrirhyggju og dómgreindar: Fyrirlestur saminn og flu...
- Þetta jaðrar við hættulegt ábyrðarleysi hjá fomanni stærsta s...
- BREYTING ER NAUÐSYN TIL BETRA LÍFS
- YFIRSTJÓRN SEÐLABANKANS Lög 2019
- EES samningur og ætlað vald ESB
Eldri færslur
2025
2024
2023
2022
2021
2020
2019
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
-
alla
-
framtid
-
mammzan
-
hallgrimurg
-
huldumenn
-
jaxlinn
-
johanneliasson
-
maggij
-
photo
-
haukurn
-
runar-karvel
-
sigrunsigur
-
skodunmin
-
svarthamar
-
vestskafttenor
-
athb
-
thjodarsalin
-
seiken
-
skinogskurir
-
bjarkitryggva
-
bjarnimax
-
brahim
-
gattin
-
einarhardarson
-
einarorneinars
-
bofs
-
dramb
-
haddi9001
-
heimssyn
-
tofraljos
-
don
-
hordurvald
-
fun
-
visaskvisa
-
huxa
-
jonasphreinsson
-
jonl
-
jobbi1
-
jonvalurjensson
-
jonthorolafsson
-
josefsmari
-
juliusbearsson
-
ksh
-
kolbrunerin
-
kristbjorg
-
liu
-
skrafarinn
-
maggiraggi
-
markusth
-
os
-
raksig
-
rosaadalsteinsdottir
-
fullvalda
-
siggileelewis
-
duddi9
-
siggith
-
saemi7
-
tryggvigunnarhansen
-
vga
-
thjodarheidur