Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008
30.1.2008 | 17:19
Meira um skipan héraðsdómara
Í Morgunblaðinu þriðjudaginn 29. jan. ´08 skrifar Sigurbjörn Magnússon, hæstaréttarlömaður grein um skipan héraðsdómara. Grein sem er að meginstofni ósannindi og rugl. Af því tilefni sendi ég honum eftirfarandi bréf.
Hr. Hæstaréttarlögmaður,
Sigurbjörn Magnússon.
Í Morgunblaðinu, þriðjudaginn 29. Janúar 2008, er grein eftir þig með fyrirsögninni "Um skipan héraðsdómara". Ég verð að segja, með hliðsjón af því að þú tiltlar þig hæstaréttarlögmann, er ég afar undrandi á flestu því sem fram kemur í þessari grein.
Í grein þinni vísar þú til 7. gr. reglugerðar nr. 693/1999, sem sett er við lög um dómstóla nr. 15/1998. Og að í 7. greininni segir einnig að umsögn nefndarinnar sé ekki bindandi um skipan í embætti héraðsdómara.
Í fyrsta lagi er um þetta að segja, að þér, sem lögmanni, á að vera kunnugt um að reglugerð gengur ekki framar lögum og að séu ákvæði í reglugerð sem ekki eru til staðar í lögum, þá hafa þau ákvæði ekki lagagildi.
Í 12. gr. laga nr. 15/1998, um dómstóla, segir þú: "skal sérstök nefnd láta í té umsögn um umsækjendur." Þarna gengur þú nokkuð greinilega á snið við sannleikann, því þér er áreiðanlega kunnugt um að í þessari grein laganna er "nefndinni", sem í lögunum heitir dómnefnd, falið að fjalla um hæfni umsækjenda um embætti héraðsdómara. Í umræddri 12. gr. þessara laga er hvergi getið um rétt dómsmálaráðherra til að hafa nein afskipti af vali úr hópi umsækjenda, enda væri slíkt svo augljóst og hrikalegt brot á 2. gr. stjórnarskrár. Umrædd 3. mgr. 12. gr. laganna um dómstóla er svohljóðandi: (Leturbr. G.J.)
"Dómsmálaráðherra skipar þrjá menn í dómnefnd til þriggja ára í senn til að fjalla um hæfni umsækjenda um embætti héraðsdómara. Skal einn nefndarmanna tilnefndur af Hæstarétti og er hann formaður nefndarinnar. Tilnefnir Dómarafélag Íslands annan mann í nefndina úr röðum héraðsdómara en Lögmannafélag Íslands þann þriðja úr hópi starfandi lögmanna. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir á sama hátt."
Ég get bætt hér við því sem ég sagði í bréfi til annars hæstaréttarlögmanns sem viðhafði álíka heiskuleg ummæli í blaðagrein. Ég sagði:
Eins og þarna má sjá, SKIPAR dómsmálaráðherra þrjá menn í dómnefnd sem fjalla á um hæfni umsækjenda. Dómsmálaráðherra fær ekki að hafa nein áhrif á hverjir valdir eru til að gegna starfi í þessari nefnd, þó honum sé gert að SKIPA hana. Jafnframt má einnig sjá þarna að löggjafarvaldið hefur EKKI ætlast til að dómsmálaráðherra hefði neitt með það að gera að meta hæfnisþætti umsækjenda, því honum er hvergi ætlaður staður í því ferli. Þekkt er að þegar ráðherra hefur eitthvað að segja um efnisval, flokkun eða niðurstöður úr starfi nefnda, þá gerir löggjafinn ráð fyrir að viðkomandi ráðherra skipi formann nefndarinnar. Þarna er ekki svo.
Það virðist augljós óheiðarleiki eða grunnhyggni að blanda inn í þessa umræðu þáttum úr grein Páls Hreinssonar "Álitsumleitan". Sú grein fjallar um aðila og nefndir sem leitað er álits hjá, en í þessu umrædda tilviki er um DÓMNEFND að ræða sem, fjalla á um hæfni umsækjenda. Það eykur ekki álit þjóðarinnar á lögfræðimenntuðum mönnum, þegar þeir ryðjast hver á fætur öðrum fram á ritvöllinn með þvílíka vitleysu sem raunin hefur verið á að undanförnu.
Í grein þinni segir þú: (Leturbr. G. J.)
"Ef ráðherrann er ekki sammála mati nefndarinnar er honum þannig bæði rétt og skylt að lögum að taka aðra ákvörðun."
Ég segi af þessu tilefni. Bentu mér á þann LAGATEXTA í 12. gr. dómstólalaga sem styður þessa fullyrðingu þína. Það þýðir ekki í þessu sambandi að vísa til reglugerðar um eitthvað sem ekki er tilgreint í lögunum.
Einnig segir þú í greininni: (Leturbr. G. J.)
"Ráðherra taldi að gallar hefðu verið á umsögn álitsnefndarinnar,..."
Ég skil ekki hvers vegna þú kýst að skrökva að lesendum. Þú veist vel að þessi nefnd er ekki álitsnefnd. Samkvæmt orðanna hljóðan í lögunum sjálfum er þetta DÓMNEFND. Á þessu tvennu er reginmunur, sé litið á það frá heilbrigðri hugsun.
Enn fremur segir þú í greininni: (Leturbr. G. J.)
"Störf þessarar nefndar hafa áður verið umdeild og sætt gagnrýni meðal löglærðra, þótt einhverra hluta vegna hafi það ekki farið hátt."
Líklega er það nú fyrst og fremst af tillitsemi við "löglærða" sem svona heimskuleg gagnrýni er ekki í hávegum höfð. Ég vona að dómgreind þín hafi þroska til að skilja það.
Og enn heldur vitleysan áfram í grein þinni er þú segir: (Leturbr. G. J.)
"...er ég fyrir mitt leyti sammála því mati ráðherrans að nefndin hafi mjög vanmetið hæfni Þorsteins Davíðssonar einkum með hliðsjón af störfum hans í ráðuneyti því, sem fer með málefni er lúta að dómstólum, réttarfari og réttarvörslu í landinu."
Líklega eru engin takmörk fyrir því hvaða barnaskap "hámenntaðir" menn geta látið út úr sér þegar þeir eru að flaðra upp um þá sem þeir telja geta orðið sér til framdráttar. Flestir eðlilega hugsandi menn vita að dómsmálaráðuneytið fjallar ekkert um þá þætti sem skipta mestu máli í störfum dómara. Hve oft á undanförnum áratugum hefur dómsmálaráðuneytið t. d. þurft að leggja mat á málsástður, málatilbúnað og fella úrskurði um slíkt?
Í niðurlagi greinarinnar segir þú: (Leturbr. G. J.)
"Þótt eflaust megi, eins og alltaf, deila um það hver sé hæfastur meðal margra hæfra, þá er ekki sérstakt tilefni til að deila á þá ákvörðun ráðherra að fara ekki eftir mati nefndarinnar, fyrst hann var ekki sammála því, nema síður sé."
Þetta er afar athyglisvert. Í grein þinni kemur þú hvergi inn á beinar lagaheimildir til handa ráðherra til að víkja frá niðurstöðum lögskipaðrar DÓMNEFNDAR og kórónar svo alla vitleysun með því að segja að ekki sé ástæða til að amast við því að ráðherra brjóti gróflega 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins. Margir eru nú spurðir af minna tilefni hvort þeir séu andlega heilbrigðir?
Eins og hér hefur verið rakið er greinin þín í Morgunblaðinu að meginstofni til argasta bull og hlaðin svo miklum ósannindum og rangfærslum að hún er þér og stétt þinni til verulegrar smánar. Best væri að þú bæðist opinberlega afsökunar á þessari vitleysu þinni og dragir greinina til baka.
Þetta bréf mun birtast á Netinu, á bloggsíðu minni "gudbjornj.blog.is." Auk þess mun þetta verða efni í ritverk sem ég er að vinna að, um heimskuverk hámenntaðra manna.
Ég mun biðja þess að Guð hjálpi þér að gera ALDREI oftar svona lítið úr sannleikanum og réttlætinu, eins og þú gerðir í þessari grein.
Guð blessi þér framtíðina.
Reykjavík 30. janúar 2008
Guðbjörn Jónsson
26.1.2008 | 13:16
Er friðun leið til uppbyggingar fiskistofna?
Ég hef velt þessari spurningu fyrir mér um margra ára skeið og ævinlega fengið ónotahroll innra með mér þegar talið berst að því að stækka fiskistofna með því einu að takmarka veiði.
Við höfum afar talandi dæmi frá Kanada, um árangur af friðun veiða. Þar hrundi þorskstofninn fyrir 15 árum og öllum þorskveiðum var hætt. EN, þrátt fyrir það vex stofninn ekki aftur. Var það þá kannski ekki eingöngu veiðin sem olli hruni þorskstofnsins við Kanada? Það virðist aldrei hafa verið rannsakað. Í það minnsta virðist fiskifræðingur frá Kanada ekki geta greint frá neinum rannsóknum á fæðuframboði fiskistofnanna hjá þeim. Getur verið að þeir sitji enn með hendur í skauti og bíði eftir breytingum á náttúrunni? Kannski hafa þeir enga þekkingu á fæðukerfi hafsins og viti þess vega ekki að hverju þeir eigi að leita. Hvað á maður að halda?
Eðlilega hugsar maður sem svo að útilokað sé að allur þorskur hafi verið drepinn við Kanada. Áreiðanlega hafa orðið eftir einhver hundruð þúsunda fiska á lífi þegar öllum veiðum var hætt; fiska sem komnir voru upp fyrir náttúrulega dánasrstuðla. Ef við gefum okkur að þessir fiskar hafi verið 2ja, til 5 ára þegar veiðum var hætt, má velta fyrir sér hve mörgum einstaklingum þessir fiskar hafi hryngt á þessum 15 árum. Elstu fskarnir eru líklega dauðir úr elli.
Þegar við lítum til þess að hver sæmilega haldinn þorskur sem orðinn er 7 ára eða meira, gefur af sér mikinn fjölda einstaklinga á hverju ári, er ljóst að margfeldið á 15 árum hefði átt að verða mikið, ef veiðarnar hefðu verið ástæðan fyrir hruni stofnsins. Staðreyndirnar eru þær, að veiðar hafa ekki verið leyfðar aftur, en þrátt fyrir það vex stofninn ekki. Spurningin er því þessi. Er eitthvað svo mikið að í fæðukerfi hafsins við Kanada, að nánast allt seiðamagn þorsksins fari sem fæða fyrir hungruð sjávardýr, eða að það vanti fæðu fyrir seiði og ungfisk þannig að hrognin nái ekki að þroskast og verða að seiðum og síðan sjálfbjarga ungfiski? Kemur þetta ástand fram í öðrum fiskiitegundum sem lifa á svipuðu æti og þorskurinn? Um þetta er ekkert rætt og ekki sjáanlegt að þetta hafi verið mikið rannsakað. Er hugsanlegt að þetta ástand sé tengt hita og seltustigi sjávar á uppeldisstöðvum þorsksins?
Af niðurstöðum friðunar og veiðibanns við Kanada, er alveg ljóst að takmörkun veiða, með þeim hætti sem verið hefur, er ekki leiðin til uppbyggingar þorskstofnsins. Við þurfum greinilega að hugsa þetta verkefni út frá einhverjum öðrum leiðum, því okkar leið skilar ekki árangri, frekar en hún skilaði árangri hjá Kanadamönnum. Meðan við vitum ekki um afkastagetu fæðukerfisins á uppeldis og gönguslóðum fiska við landið okkar, getur ekki verið gáfulegt að fjölga stöðugt þeim sem lifa þurfa á þeirri fæðu.
Í lokin ein lítil dæmisaga um svipað efni en úr öðru umhverfi.
Það var fjárbóndi í sveit. Fyrstu árin eftir að hann byrjaði búskap var fé hans vænt og fallþungi dilka með því betra sem gerðist. Þegar frá leið fóru menn að taka eftir því að fé hans var ekki eins vel haldið, varð horaðara og ræfilslegra og dilkarnir sem slátrað var á haustin voru farnir að léttast. Forðagæslumenn, sem voru sérfræðingar í eldi sauðfjár, rannsökuðu málið og reiknuðu út hvað gæti verið að. Bóndinn sjálfur taldi að heyin hjá sér væru bara að verða lélegri og svo virtist sem hann yrði bara að fara að fækka á fóðrum hjá sér meðan skýringa á ástandinu væri leitað. Fræðingunum fannst það algjört óráð og eftir mikla yfirlegu gáfu þeir út leiðbeininguna um hvernig ætti að bregðast við. Þeir sögðu: Eina leiðin til að ráða bót á þessu er að banna bóndanum að slátra nema helmingnum af lömbunum sínum, því hann þarf að geta framleitt meiri húsdýraáburð til að bera á túnin svo heyin batni. Sá eini sem mótmælti þessu var bóndinn sjálfur, sem sá fram á það að allur bústofn hans mundi deyja úr hor og hugri. Ráðamenn sögðu það ekki geta verið. Sérfræðingarnir hefðu sagt hitt og það hliti að vera rétta leiðin.
Já dómgreindin fer ekki alltaf eftir fagtitlum, prófgráðum eða embættum.
24.1.2008 | 17:29
Kauphallarvísitalan hrynur, en hvað langt niður?
Það er skammgóður vermir að pissa í skó sinn, segir gamalt máltæki. Þó þetta máltæki sé vafalaust ekki búið til af hagfræðingi eða öðrum háskólamenntuðum vísindamanni, hefur það að geyma gullinn og óvéfengjanlegan sannleika. Meira að segja sannleika sem lögfræðingar eiga áreiðanlega erfitt með að véfengja.
Af þessu máltæki má ráða að þegar hagsmunir þurfa að vara til langs tíma, er ekki ráðlegt að haga aðgerðum sínum með þeim hætti að ávinningur þeirra geti ekki enst nema yfir skamman tíma.
Það var fáliðaður sá hópur sem gagnrýndi unglingadeildir (verðbréfadeildir) lánastofnana á þeim árum sem verðbréfavísitalan á Íslandi var að rjúka upp um marga tugi prósenta á ári, án þess að sýnileg eða merkjanleg verðmæti væru að baki hækkuninni. Nú er "pissið" í skónum að kólna og menn að nálgast raunveruleikann, en þurfa þá að ná jafnvægi og borga miklar skuldir, blautir í fæturna og kaldir.
Erlendar skuldir þjóðarbúsins (sjá Seðlabankann) hafa aukist um meira en FIMM ÞÚSUND MILLJARÐA á síðustu fimm árum. Mun meira sé litið lengra aftur. Eignir voru sagðar standa að einhverju marki á móti þessari skuldsetningu, en af völdum hruns á verðbréfamörkuðum hafa þær verið að rýrna um mörg hundruð, ef ekki þusundir milljarða á einungis örfáum mánuðum. Rétt er að hafa í huga að megnið af þessum lánum munu vera svokölluð skammtímalán, sem greiðast eiga upp á fáeinum árum. Spurningin er því hvernig gangi að endurfjármagna þessa skuldasúpu ef verulegur brestur verður á endurgreiðslu lána.
En hvernig er svo atvinnulíf okkar undir það búið að takast á við að greiða þær miklu skuldir sem óvitagangur lánastofnana hefur hlaðið upp. Hefur miklu af þessu lánsfé verið veitt til eflingar tekjugefandi (gjaldeyrisskapandi) atvinnureksturs? Því miður er slíkt ekki sjáanlegt. Á árinu 2006 voru heildar útflutningstekjur okkar 242 milljarðar. Líklega verða þær svipaðar, eða litlu meiri á árinu 2007, þegar samantekt þess líkur. Innflutningur okkar hefur þó nánast alltaf verið hærri en tekjurnar, svo ekki hefur þar myndast afgangur til greiðslu skulda.
Enn er sjávarútvegurinn áberandi burðarþáttur í tekjuöflun okkar. Hins vegar er staða hans nú orðin sú að líklega hefur hann aldrei tekið til sín stærra hlutfall heildartekna af fiskveiðum en nú er orðið. Árið 1986 tók útgerðin til sín u.þ.b. 52,5% heildar tekna af fiskveiðum. Ég hef að vísu ekki tekið saman stöðuna nú, en þegar litið er til hinnar miklu skuldastöðu sjávarútvegsins, sem nú er kominn yfir 300 milljarða, sem líklega er u.þ.b. 250 milljörðum umfram rauneignir, virðist ljóst að sjávarútvegurinn er búinn að draga til sín nánast allar tekjur þjóðfélagsins af fiksveiðunum; enda telur útgerðin sig ekki geta greitt neitt veiðigjald.
Þegar ferli síðustu 20 ára er skoðað sést greinilega hvaða áhrif það hefur haft að stjórnvöld stóðu ekki vaktina við að gæta heildarhagsmuna þjóðfélagsins til langs tíma, heldur virðast hafa setið í fílabeinsturni og yljað sér við "pissið" sem þá var enn að renna í skóna þeirra. Á sama tíma sátu við völd í lánastofnunum menn sem af fullkomnu ábyrgðarleysi gagnvart þjóðarheildinni stunduðu óábyrga útlánastarfsemi, sem var í líkum anda og hafði þá nokkur ár á undan, valdið bönkunum svo miklu útlánatapi að það nam hærri fjárhæð en heildartekjum þeirra yfir sama tímabil. Þrátt fyrir alla þessa endaleysis vitleysu hefur þjóðinni verið talið trú um að það hafi verið sérstakt góðæri og við ein ríkasta þjóð í heimi.
Það er til skýring á því hvers vegna svona stór hópur þjóðarinnar lætur skrökva svona að sér, en líklega er betra að hafa ekki hátt um það í bili.
17.1.2008 | 17:17
Vegna greinarinnar "Dæmalaus dómnefnd" í Mbl. 17. jan. 08
Vegna einstaklega rætinnar greinar á bls. 24 í Morgunblaðinu fimmtudaginn 17. jan. 08, sendi höfundinum eftirfarandi bréf í tölvupósti.
Herra Hæstaréttarlögmaður,
Þorsteinn Einarsson.
EFNI: Vegna greinarinnar "Dæmalaus dómnefnd" sem birtist í Morgunblaðinu í dag, fimmtudaginn 17. Janúar 2008.
Ég las greinarkorn þitt í Morgunblaðinu í morgun og varð afskaplega hryggur yfir því sem ég las. Mér finnst það afskaplega sorglegt og til mikils vansa fyrir hina mikilvægu stétt Hæstaréttarlögmanna, þegar menn með slíka menntun og starfsheiti, skauta kæruleysislega framhjá sannleikanum og jafnvel fara með bein ósannindi, hvort sem það er í mæltu- eða rituðu máli.
Væntanlega veist þú, líkt og allir þeir sem fylgst hafa með þessari niðurlægingu forystumanna Sjálfstæðisflokksins, að dómnefndin tjáði sig ekki fyrr en eftir að Árni Math. vóg afar ódrengilega að starfsheiðri þeirra manna sem skipa nefndina. Það er undarleg dómgreind hæstaréttarlögmanns að vega að þeim mönnum sem reyna að verja æru sína, þegar þar er um að ræða menn með sömu menntun.
Ég geri því ekki skóna að þér sé ókunnugt um hvað standi í 2. gr. Stjórnarskrár okkar. Ég geri því ekki heldur skóna að þér sé ókunnugt um hvernig lög eru upp byggð; hvers vegna sumt er sagt en öðru sleppt. Í ljósi þessa er undarlegt að lesa ummæli þín um dómnefndarmenn annars vegar og valdssvið ráðherra hins vegar.
Fjórði dómnefndarmaðurinn á blaðamannafundinum var, eins og lesa má í grein þinni, augljóslega fastamaðurinn í nefndinni sem vék sæti í málinu, en vildi auðsýnilega sína varamanni sínum samstöðu í málinu með því að vera viðstaddur. Vonandi öðlast þú fljótlega þroska til að skilja svona einfalda samstöðu manna. Í grein þinni segir þú:
"Sú niðurstaða dómnefndar að ráðherra hafi borið að fara að umsögn hennar er röng. Dómnefndin misskilur hlutverk sitt og misles einfaldan lagatexta. Lögin eru skýr. Dómnefnd er falið eitt og aðeins eitt hlutverk: Að veita ráðherra umsögn um umsækjendur, sem hann hefur til hliðsjónar þegar hann tekst á hendur það lögskipaða hlutverk sitt að gera upp á milli umsækjenda. Nefndin veitir álit en ákveður ekki neitt. Ráðherra metur sjálfur umsækjendur." (Leturbreytignar eru mínar G.J.)
Þetta er afar athyglisverður kafli úr grein þinni, sérstaklega þegar skoðað er hver fer rangt með og hver misles einfaldan lagatexta. Lítum nú á hvernig þetta hljómar í samanburði við dómstólalög.
Það er 12. gr. Dómstólalaga sem fjallar um val og skipan héraðsdómara. Fyrsta málsgreinin hlóðar svo:
"Dómarar í héraði eru 38 að tölu og skipaðir ótímabundið í embætti héraðsdómara af dómsmálaráðherra."
Þetta er einfaldur texti sem flestum er auðvelt að skilja. Þarna er tekið fram að dómsmálaráðherra skipi héraðsdómara, en hvergi minnst á að hann velji þá.
Í þrígreiningu valdssviða í lýðræðisskipulagi okkar, er það yfirleitt svo að valþáttur fylgir ekki skipunarvaldi, vegna þess að þessi þrjú svið: framkvæmdavald (ráðherrar), löggjafarvald (Alþingi) og dómsvald, eiga að vera aðskilin og mega því ekki hafa áhrif hvert á annað. Við höfum horft fram hjá þessu með Alþingi og ríkisstjórnir, en við höfum borið gæfu til að hafa dómsvaldið tiltölulega sjálfstætt, þar til nú á síðustu árum.
Samkvæmt þrískiptingunni, fer forsetinn og ráðherrarnir með framkvæmdavaldið saman. Forseinn VELUR EKKI ráðherrana en hann skipar þá í embætti og lætur þá framkvæma vald sitt. - Forsetinn fer með löggjafarvaldið með Alþingi, en hann VELUR EKKI hverjir sitja á Alþingi. Hann stýrir ekki starfi þess en segir fyrir um hvenær það komi saman og hvenær það fari í leyfi eða frí. Lagagjörningar Alþingis verða ekki heldur að veruleika fyrr en forseti hefur staðfest þau.
Alla þessa þætti þekkjum við og viðurkennum. Meginreglan er sem sagt sú að sá sem hefur skipunarvaldið innan þessarar þrígreiningar valdssviða lýðræðisskipulags okkar, hann hefur ekki jafnframt valdið til að velja hverjir eru skipaðir. Sama á við um skipan héraðsdómara, eins og glögglega kemur fram í 3. málsgr. 12. gr. Dómstólalaga, sem einmitt fjallar um aðferðarfræði við val og skipun héraðsdómara. Þar segir svo:
"Dómsmálaráðherra skipar þrjá menn í dómnefnd til þriggja ára í senn til að fjalla um hæfni umsækjenda um embætti héraðsdómara. Skal einn nefndarmanna tilnefndur af Hæstarétti og er hann formaður nefndarinnar. Tilnefnir Dómarafélag Íslands annan mann í nefndina úr röðum héraðsdómara en Lögmannafélag Íslands þann þriðja úr hópi starfandi lögmanna. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir á sama hátt."
Eins og þarna má sjá, SKIPAR dómsmálaráðherra þrjá menn í dómnefnd sem fjalla á um hæfni umsækjenda. Dómsmálaráðherra fær ekki að hafa nein áhrif á hverjir valdir eru til að gegna starfi í þessari nefnd, þó honum sé gert að SKIPA hana. Jafnframt má einnig sjá þarna að löggjafarvaldið hefur EKKI ætlast til að dómsmálaráðherra hefði neitt með það að gera að meta hæfnisþætti umsækjenda, því honum er hvergi ætlaður staður í því ferli. Þekkt er að þegar ráðherra hefur eitthvað að segja um efnisval, flokkun eða niðurstöður úr starfi nefnda, þá gerir löggjafinn ráð fyrir að viðkomandi ráðherra skipi formann nefndarinnar. Þarna er ekki svo, því sá maður sem Hæstiréttur tilnefnir skal vera formaður nefndarinnar.
Eins og hér hefur verið rakið er greinin þín í Morgunblaðinu í dag að meginstofni til argasta bull og hlaðin svo miklum ósannindum og rangfærslum að hún er þér og stétt þinni til verulegrar smánar. Best væri að þú bæðist opinberlega afsökunar á þessari vitleysu þinni og dragir greinina til baka.
Þetta bréf mun birtast á Netinu, á bloggsíðu minni "gudbjornj.blog.is. Auk þess mun þetta verða efni í ritverk sem ég er að vinna að, um heimskuverk hámenntaðra manna.
Ég mun biðja þess að Guð hjálpi þér að gera ALDREI oftar svona lítið úr sannleikanum og réttlætinu, eins og þú gerðir í þessari grein.
Guð blessi þér framtíðina.
Reykjavík 17. janúar 2008
Guðbjörn Jónsson
16.1.2008 | 13:16
Ný skilgreining Árna M. Math. á skipanavaldinu
Ég sá kastljósið í gærkvöldi, þar sem viðtal var við Árna M. Math. Annað hvort er hann svona forhertur í alræðishugsun eða dómgreind hans er ekki meiri en þar kom fram. Hann taldi sig hafa fullt vald til að velja sjálfur hvern hann skipaði sem dómara, þrátt fyrir að lög kveði á um að dómsmálaráðherra komi ekki nálægt því að öðru leiti en SKIPA þann hæfasta. Verði skilgreining Árna að veruleika og Ólafur Ragnar verði áfram forseti, gæti orðið skrítið að sjá næstu ríkisstjórn Geirs H. H. - Það er jú forsetinn sem hefur SKIPANAVALDIÐ þegar ráðherrar eru skipaðir. Fréttin af ríkisstjórnarskiptum gæti verið á þessa leið.
Geir H. H. mætti í morgun á Bessastaði með fráfarandi ríkisstjórn, til síðasta ríkisráðsfundar hennar. Að þeim fundi loknum eru kallaðir til þeir aðilar sem forseti skipar í þá ríkisstjórn sem taka á við. Kallar hann þá til Geir H. H. sem forsætisráðherra, Guðjón Arnar sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Atla Gíslason sem dómsmálaráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu sem utanríkisráðherra, Guðlaug Þór sem heilbrigðisráðherra, Jóhönnu Sigurðar sem félags- og tryggingaráðherra, Steingrím Sigfússon sem iðnaðar- og orkumálaráðherra, Ágúst Ólaf sem fjármálaráðherra, Björgvin G. Sig. sem viðskiptaráðherra, Guðfinna Bjarnadóttir sem menntamálaráðherra, Kristján Þór Júlíusson sem samgönguráðherra, og Illuga Gunnarsson sem umhverfisraðherra.
Þegar allir þessir aðilar eru sestir við borðið lítur Geir hissa á forseta og spyr hvers vegna hann skipi þessa menn en ekki þá sem hann hafi tilnefnt. Forseti svarar.
Ja, ég sá að þér hafði orðið á alvarleg mistök sem ég skýri ekki nánar. Ég hef skipunarvaldið og þetta er það fólk sem ég tel hæfast til þeirra starfa sem hér er verið að skipa í.
En þetta er ekki rétt segir Geir. Þú átt að skipa í þessi embætti eftir þeim tilnefningum sem ég lét þig hafa.
Það er nú svo, segir forseti. Þú og Árni M. Math. gáfuð sjálfir út leiðbeiningar um hvernig ætti að líta á tilnefningar og framkvæma skipanavaldið. Þú getur varla verið óánægður með að farið sé eftir þinni forskift með það?
ER FRAMTÍÐIN EITTHVAÐ Á ÞESSA LEIÐ?
15.1.2008 | 14:32
Er Sjálfstæðisflokkurinn á leið til öfgafullrar einræðisstefnu?
Sigurður Líndal, lagaprófessor, skrifar athyglisverða grein í Fréttablaðið í dag, þriðjudaginn 15. janúar 2008. Þar fjallar hann aðallega um valdhroka, taumlausa vildarhyggju og beinlínis ódulda alræðishyggju sem birtist hvað eftir annað í framgöngu forystusveitar Sjálfstæðisflokksins. Með fullum rétti og af mikili ábyrgð, bendir hann einnig á að þetta eru sömu eiginleikar og voru ríkjandi í Þískalandi á árunum eftir 1930, en það var einmitt tímabilið þegar nasistarnir voru að hreyðra um sig og með samspili af undirferli og valdhroka að ná tökum á lykilþáttum þíska þjófélagsins, sem síðar leiddi til alræðis þeirra og yfirgangs. Valdhroki þeirra og drotnunargirni urðu svo kveikjan að síðari heimsstyrjöldinni.
Engum sem með heilbrigðri dómgreind hefur fylgst með þeim breytingum sem orðið hafa á framgangi Sjálfstæðisflokksins á undanförnum áratugum hefði átt að dyljast þessi tilheyging. Þeim tókst hins vegar með því undirferli sem svona yfirgangsöfl hafa í ríku mæli, að telja ungu- og öðru reynslulitlu fólki, trú um að þeir væru að berjast fyrir FRELSI einstaklingsins. Sefjun þessa átrúnaðahóps hefur verið slík, að þótt forystusveit þessa flokks hafi hvað eftir annað sýnt og beitt yfirgangsvaldi sínu gegn heildarhagsmunum þjóðarinnar, stara þeir heilaþvegnir á átrúnaðargoðin og fyllast heilagri reiði ef einhver andar gagnrýni í þeirra garð.
Nýjasti yfirgangs- og valdfhroki þessa hóps birtist í framgangi Árna Mathiesen við skipun héraðsdómara. Í annarri grein á þessu bloggi, "Dómgreind við dómaraval", fjalla ég um lögformlegu þættina við skipan héraðsdómara. Ég endurtek það ekki hér. Hins vegar er rétt að vekja athygli á hversu opinskátt hann, ásamt varaformanni flokksins, ganga fram fyrir skjöldu og verja hið augljósa stjórnarskrárbrot sem Árni fremur.
Í Dómstólalögunum er afar skýrt kveðið á um að dómsmálaráðherra á ekki að hafa nein afskipti af vali héraðsdómara. Honum er ekki einu sinni heimilt að skipa mann frá sér í þá dómnefnd sem dæma á um hæfi og hæfni umsækenda. Eina lagalega aðkoma dómálaráðherra að endanlegu vali héraðdómara er sú, að ef tveir eða fleiri teljast jafnir og hæfastir, að mati hinnar lögformlegu dómnefndar, er dómamálaráðherra heimilt að velja einn af þeim hæfustu til að gegna embættinu. Aðra aðkomu hefur dómsmálaráðherran ekki að vali héraðsdómara samkvæmt gildandi lögum; sem líka er auðskilið þegar litið er til 2. gr. stjórnarskrár okkar, en þar segir:
2. gr. Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið. (Leturbreyting G.J.)
Þarna sést það skýrum stöfum að forsetinn hefur yfirumsjón með löggjafarvaldinu annars vegar og framkvæmdavaldinu hins vegar, en dómavaldið stendur algjörlega eitt og sjálfstætt, án íhlutunar frá hinum sviðum undirstöuvalds lýðræðis okkar. Ekki einu sinni forsetinn hefur íhlutunarrétt inn í dómsvaldið, sem ætti að leggja mönnum enn ríkari skyldur á herðar að virða hlutleysi þess og þau lög sem um dómsvaldið eru sett. Sú ríkisstjórn sem segir skilið við þessar grundvallarreglur lýðræðisskipulags okkar, segir í raun skilið við lýðræðislega stjórnarhætti og er þar með komin með báða fætur i fótspor nasistahreyfingarinnar , sem og annar yfirgangs- og öfgaafla sem ævinlega birtast hér og þar, þegar þegnar samfélaga sofna á verðinum, annað hvort heilaþvegnir eða í velsældarvímu ímyndaðs góðæris.
14.1.2008 | 17:57
Er það rasista tilhneiging hjá LÍÚ og háskólaklíku þeirra?
Það hefur komið mér undarlega fyrir sjónir að heyra viðbrögð forystumanna LÍÚ og þeirrar háskólaklíu sem þeir virðast hafa keypt til að bergmála vitleysuna sem þeir halda fram. Það er afar sorglegt að verða vitni að því að háskóli sem hefur yfirlýsta stefnu að komast í röð virtustu háskóla heims, skuli lýða svokölluðum "sérfræðingum" sínum og prófessorum að fara hvað eftir annað í fjölmiðla með þvílíkt bull að það getur ekki annað en dregið álit háskólans niður í svaðið sem algjöra ruglustofnun.
Þetta aumingja fólk hamast við að halda því fram að þjóðin hafi ekki stöðu eiganda yfir fiskimiðum í fiskveiðilögsögu okkar, en á sama tíma halda þeir því fram að þeir eigi réttinn til að nytja auðlindina vegna þess að þeir hafi keypt hana. Þá vaknar spurningin: Af hverjum keyptu þeir hinn umtalaða rétt? Og hafði seljandinn lögformlega heimild til að selja? Getur einhver framvísað lögformlegum rétti til að selja aðgang að fiskimiðum innan lögsögu Íslands? Ég hef ítrekað óskað eftir þessum upplýsingum en enginn hefur enn getað framvísað þeim. Þrátt fyrir það halda menn áfram að selja og með ólögmætum hætti taka peninga fyrir það sem þeir eiga ekki og geta ekki afsalað eða gefið lögformlega sölupappíra fyrir. Er virkilega svona lítið vit til staðar hjá þessum öflugu samtökum útgerðarmanna og hinni "virtu" háskólastofnun sem nefndir rugludallar kenna sig við, eða gera þessir aðilar út á svokölluð "meira fífls fræði" sem hafa vaðið yfir fjármálamarkaði undanfarinn áratug, og jafnvel lengur.
Ef þjóðin á ekki fiskimiðin og þá auðlind sem þar er til staðar; hver er þá eigandinn? Gera menn sér grein fyrir þeim mikla alvarleika sem liggur þarna að baki. Ef þessum rugludöllum tekst að koma inn efasemdum um skýran rétt þjóðarinnar til þessarar auðlindar, munum við ekki hafa nein vopn á hendi til að stöðva erlenda skipaflota sem hingað mundu stefna til veiða, þar sem eignarrétturinn væri umdeildur og óljós. Munið þið atganginn í Smugunni svokölluðu. Við hefðum engan skipastól til að verjast slíkri innrás og við fengjum heldur enga samúð hjá öðrum þjóðum þar sem fyrir lægi að við hefðum sjálfir spilað eignarréttinum úr höndum okkar með rugli og ósjálfstæði. Ekki fengi LÍÚ aðallinn meira í sinn hlut úr auðlindinni með því fyrirkomulagi. Nei, heimska þessa liðs er með þeim ólíkindum að manni dettur helst í hug að það hafi aldrei skilið hvað er hið raunverulega lím og drifkraftur í farsælu samfélagi.
Á s. l. ári var mikið rætt um framkomu okkar gagnvart fólki af öðru þjóðerni. Ef mönnum varð það á að gagnrýna þetta fólk á einhvern hátt, voru fjölmiðlar upptendraðir í nokkra daga á eftir af umræðu um að gagnrýnendurnir væru augljósir rasistar eða með rasista tilhneigingu. Mörg stór orð voru notuð og mikið saumað að þeim sem leyfðu sér að gagnrýna.
Nú ber svo við að Ráðherra úr ríkisstjórn okkar, svonefndur "sérfræðingur" og tilgreindir prófessorar við Háskóla Íslands, hafa leyft sér að lítilsvirða lögfræðinga frá öðrum þjóðum, sem virtir eru á heimsvísu og hafa verið tilnefndir til vandasamra verka fyrir Sameinuðu Þjóðirnar; látið í það skína að álit þeirra séu ekki mikils virði af því að þeir séu frá tilgreindum ríkjum í Afríku, Asíu og Suður Ameríku. Ef umræðan í fyrra var hugsanlega rasismi, hvað er þá þetta? OG, hvers vegna þegja fjölmiðlar um þennan rasisma?
13.1.2008 | 16:35
Opið bréf til Sjávarútvegsráðherra
Sæll frændi og gleðilegt nýár!
Ég var að lesa pistil þinn á blogginu, "Fiskveiðiréttindi og mannréttindi". Eftir lesturinn varð mér hugsað til þeirra mörgu stunda sem ég sat við eldhúsborðið hjá frænku minni og afa þínum og nafna, og umræðan var um þjóðfélagsmál. Eftir lesturinn á pistli þínum varð mér hugsað til þess hve sorglega lítið þú hefðir fengið í arf af skarpskyggni, víðsýni og eldmóði afa þíns fyrir velferð og velgengni samfélagsins. Ævinlega fann maður fyrir vakandi áhuga hans á velferð, jafnvel sinna smæstu samborgara, þótt hann væri sannur í trú sinni á sjálfstæði og frelsi einstaklingsins innan þeirra velsæmismarka sem samfélagsformið viðurkenndi. Og aldrei heyrði maður að hann gengi fram með yfirgangi gegn neinum aðila í sínu bæjarfélagi, eða gerði lítið úr öðrum.
Í pistli þínum finnst mér gæta nokkurs hroka um leið og þú sendir okkur, sem í áraraðir höfum gagnrýnt lögleysu þá sem þið Sjálfstæðismenn látið viðgangast í fiskveiðistjórnun okkar, lítilsvirðandi tón þó við skiljum það þegar Mannréttindanefnd Sameinuðuþjóðanna endurtekur það sem við höfum verið að segja í tvo áratugi. Í mínum huga er ekki spurning um hvar skilnings- og dómgreinarleysið er til húsa eftir að hafa reynt í fjölda ára að fá einhvern úr ykkar röðum til að senda mér afrit af þeim lögum er heimili sölu aflaheimilda. Margítrekað hef ég beðið ráðuneyti þitt að senda mér afrit af samþykktum Alþingis fyrir því sem kallað hefur verið "varanlegur kvóti" eða "varanleg hlutdeild í heildaraflanum". Enn hefur ekki verið hægt að framvísa því og hvergi finnst það í skjölum Alþingis. Með vísan til stjórnarskrár og fjárreiðulaga, (samanber einnig skýrslu Ríkisendurskoaðnda um meðferð ríkiseigna) lítur helst út fyrir að þú sérst að brjóta alvarlega af þér á hverju ári, meðan ráðuneyti þitt getur ekki framvísað staðfestingu Alþingis.
Er það ekki líka alvarlegt dómgreindarleysi, ábyrgðarleysi og nánast bein þátttaka í fjárkúgun af hálfu ráðuneytis þíns að halda utan um, skrá og samþykkja sölu veiðiréttinda á verði sem er verulegru hluti brúttó innkomu fyrir aflann, meðan engin útgerð á landinu skilar hagnað nema upp á fáein prósent; og sægreifaliðið keppist við að auka skuldir sjávarútvegsins ár frá ári, sem síður en svo bendir til arðsemi útgerðarinnar. Hvar er þessi hagkvæmni sem þið, LÍÚ grátkórinn og bullukollarnir úr Háskólanum eruð sífellt að tala um?
Mér finnst umhugsunarvert að sjá hvernig þú stillir upp fulltrúum Mannréttindanefndarinnar. Engu er líkara en þeir fulltrúar sem greiddu atkvæði með álitinu séu léttvægari en þeir sem greiddu atkvæði gegn því. Það segir mikið um virðingu þína, og jafnvel ríkisstjórnarinnar, fyrir mannréttindum almennt. Þú segir að andvígir áliti nefndarinnar hafi verið fulltrúar Bretlands, Bandaríkjanna, Ástralíu, Japans og Svíþjóðar. Enginn alvarlega hugsandi maður setur þessar þjóðir, að frátaldri Svíþjóð kannski, fram sem einhverja sérstaka vini almennra mannréttinda, eða finnst þér það trúverðugt?
Að lokum vona ég að þú leyfir komandi ári að færa þig nær hreinskiptum heiðarleika opinnar umræðu um hin fjölþættu og alvarlegu afbrot sem framin hafa verið í skjóli ráðuneytis þíns og að ýmsu leiti miðstýrt þaðan. Ég vænti þess að fá margumbeðnar lagaheimildir sendar til mín MJÖG fljótlega.
Með kveðju,
Guðbjörn Jónsson kt: 101041-3289
12.1.2008 | 15:30
Dómgreind við dómaraval
Athyglisvert hefur verið að fylgjast með svörum ráðamanna í sambandi við gagnrýni á vali setts dómsmálaráðherra við skipan héraðsdómara nú fyrir skömmu. Benda tilsvörin óneitanlega til þess að þeir sem þar hafa tjáð sig, hafi afar takmarkaða þekkingu á því lýðræðisskipulagi sem samfélag okkar byggir tilveru sína á.
Stjórnarskrá okkar gerir ráð fyrir að þrjú helstu valdssvið samfélagsins séu sjálfstæð og aðskilin. Það er framkvæmdavaldið (ríkistjórnin), löggjafarvaldið (Alþingi) og dómsvaldið. Raunar á forsetinn að vera einskonar yfirvald framkvæmdavalds og löggjafarvalds, þó aðallega sé það með táknrænum hætti, því hann felur ráðherrum að fara með vald sitt á sviði framkvæmdavaldsins og samþykkir gjörðir löggjafarvaldsins með því að staðfesta lagasetningar þess eða hafna. Dómsvaldið er hins vegar algjörlega sjálfstætt og tekur ekkert boðvald, hvorki frá forseta né framkvæmdavaldi, en löggjafarvaldið setur dómsvaldinu framkvæmdareglur og reglur um innri skipan.
Skipan dómsmála er skilgreind í Dómstólalögum, sem nú eru nr. 15/1998, með áorðnum breytingum árið 2006. Þar er í III. kafla laganna kveðið á um reglur við skipan héraðsdómara. Reglurnar sem fara á eftir koma fram í 12. gr. þesara laga og í 3. málsgrein er kveðið á um hvernig skuli standa að vali á héraðsdómara. Þar segir:
"Dómsmálaráðherra skipar þrjá menn í dómnefnd til þriggja ára í senn til að fjalla um hæfni umsækjenda um embætti héraðsdómara. Skal einn nefndarmanna tilnefndur af Hæstarétti og er hann formaður nefndarinnar. Tilnefnir Dómarafélag Íslands annan mann í nefndina úr röðum héraðsdómara en Lögmannafélag Íslands þann þriðja úr hópi starfandi lögmanna. Varamenn skulu tilnefndir og skipaðir á sama hátt." (Leturbreytingar eru mínar G.J.)
Eins og þarna má sjá, er dómsmálaráðherra uppálagt að skipa þrjá menn í DÓMNEFND, en ekki valnefnd eins og ákveðnir ráðamenn hafa undanfarna daga reynt að telja þjóðinni trú um. Ráðherrann hefur ekki frjálst val um það hverjir sitja í þessari dómnefnd. Eins og sjá má í framangreindum lögum, er Hæstarétti ætlað að skipa einn mann og skal hann vera formaður þessarar dómnefndar. Hinir tveir eru skipaðir af Dómarafélaginu og Lögmannafélaginu. Greinilega hefur löggjafinn ekki ætlað dómsmálaráðherra að hafa nein bein afskipti af vali umsækjenda; umfram það ef dómnefndin skilar honum niðurstöðu um að fleiri en einn séu jafnhæfir til að hljóta embættið. Einn þeirra einstaklinga má ráðherran velja. Í 4. málsgrein 12. gr. Dómstólalaga er svo ákvæði um það hvernig þessi dómnefnd skuli skila af sér áliti til ráðherra, sem síðan skipar í embættið. Það ákvæði er svohljóðandi:
"Dómnefnd skv. 3. mgr. skal láta dómsmálaráðherra í té skriflega og rökstudda umsögn um umsækjendur um embætti héraðsdómara." (Leturbr. G.J.)
Hér liggur það alveg ljóst fyrir. Löggjafinn gerir ekki ráð fyrir að dómsmálaráðherra geti haft önnur afskipti af skipan héraðsdómara, en þau að velja milli þeirra aðila sem dómnefndin telur hæfasta til embættisins, sé þar um að ræða fleiri en einn.
Það er sorglegra en tárum taki að þurfa að hlusta á hvern ráðamann þjóðarinnar á fætur öðrum, upplýsa þjóðina um óvitaskap sinn í því starfi sem þeim hefur verið trúað fyrir. Því fylgir ævinlega alvarlegur skortur á dómgreind, þegar fólk setur vald þess opinbera embættis sem það gegni fram fyrir þjónustulund þeirra heiildarhagsmuna sem embættið snýst raunverulega um. Líklega þurfum við að skoða af mikilli alvöru heildarþekkingu þeirra sem sækjast eftir þingmennsku, á því fjölþætta verkefni sem það er að skapa samfélagi okkar skýr lög og skilvirkar leikreglur til farsældar ÖLLU samfélaginu.
9.1.2008 | 23:36
Er hugtakið "þjóðareign" pólitískt slagorð?
Laugardaginn 5. janúar s. l. ritar Helgi Áss Grétarsson lögfræðingur einkennilega samsuðu í lesbók Morgunblaðsins undir fyrirsögninni "Þjóðareign: Pólitískt slagorð eða lagalegur eignarréttur?" Höfundur titlar sig sérfræðing í auðlindarétti við lagastofnun Háskóla Íslands.
Hann hefur grein sína á því að kvarta undan að lögfræðingar séu sagðir vera með "orðhengilshátt" þegar þeir hafi gagnrýnt að hugtökin "þjóðareign" og "sameign þjóðar" hafi ekki skilgreinda merkingu að lögum og séu til þess fallin að valda misskilningi, ýfingum og óþarfa pólitískum átökum. Athygli vekur að hann nefnir ekki hverjir valdi þeim ýfingum sem um þessi hugtök standi, en flestir vita að það er þröngur hópur sérhagsmunaseggja og leiguþýja þeirra sem standa að þessari aðför að sameiginlegum grundvallareignum þjóðfélagsins. Síðan segir í greininni: (Leturbreytingar er mínar)
"Þrátt fyrir þessar athugasemdir gæslumanna réttarríkisins halda stjórnmálamenn, ritsjórar, prófessorar og aðrir áfram að endurtaka að þjóðin eigi fiskinn í sjónum og skuli eiga vatnið, jarðvarmann og helst allar náttúruauðlindir sem nöfnum er hægt að nefna."
Ég skil það svo að þarna sé greinarhöfundur að tala um lögfræðinga, þegar hann talar um gæslumenn réttarríkisins. Í slíkri nafngift fyrir lögfræðinga felst annað af tvennu. Annað hvort takmarkalítill hroki eða afar takmörkuð greind. Það vill nefnilega þannig til að lögfræðingar hafa það að atvinnu sinni að hártoga sannleikann og réttlætið og fara iðulega út á ystu mörk velsæmis í hártogunum sínum. Það væri ekki mikil vitglóra í því þjóðfélagi sem tilgreindi slíka starfsstétt sem gæslumenn réttarríkisins.
Af því sem hér kemur á eftir má ljóst vera að þennan "sérfræðing í auðlindarétti" skortir verulega á skilning á lýðræðislegu stjórnskipulagi okkar. Hann segir:
"Handhafar ríkisvaldsins fara með svokallaðan fullveldisrétt og með stoð í honum eru lög sett og þeim framfylgt."
Þarna er sett fram röng staðhæfing; annað hvort af þekkingarskorti eða ásetningi um að skapa rugling hjá lesendum. Í almennu máli er talað um "ríkisvaldið" sem ríkisstjórn hvers tíma. Ríkisstjórn hvers tíma fer ekki með fullveldisréttinn. Sá réttur er alfarið á valdi og ábyrgð Alþingis. Í 1. gr. stjórnarskrár segir: Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn. Það þýðir að stjórnin er algjörlega á ábyrgð Alþingis, kosin þar en ekki af almenningi. Stjórnin hefur því einungis þau völd sem Alþingi afhendir henni hverju sinni. Sjálfsákvörðunarvald ríkisstjórnar er einungis innan þess ramma sem fellur undir þau fjárlög og önnur framkvæmdalög sem Alþingi hefur samþykkt og takmarkast að sjálfsögðu algjörlega við það tímabil sem kjörgengi þeirra er, þ. e. kjörtímabilið. Og enn heldur "sérfræðingurinn" áfram misskilning sínum er hann segir:
"Yfirburðir ríkisvaldsins í samfélagi manna felast í fullveldisréttinum þar sem á grundvelli hans er m. a. hægt að þvinga borgara til að greiða skatta og sæta refsingum."
Á fullveldið reynir ekki í samskiptum samfélags okkar við ríkisvald okkar. Ríksivald okkar þvingar okkur ekki til að greiða skatta, því í 40. gr. stjórnarskrár segir svo: Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Af þessu má sjá að það er Alþingi en ekki ríkisvaldið sem taka ákvarðanir um skattheimtuna. Sama á við um refsingar.
Næst fer "sérfræðingurinn" í huleiðingu um hvað sé þjóð og kemst að því að það sé hópur manna sem að jafnaði eigi sér sameiginlegt tungumál og menningu, ásamt því að búa oftast á sama landsvæði. Þeir einstaklingar sem mynda þjóðina á hverjum tíma geta vart talist vel skilgreindur hópur. - Athyglisvert í ljósi þess hve algengt það er að fleiri en eitt tungumál séu töluð hjá þjóðum og þjóðin upprunninn úr fjölbreyttri og ólíkri menningu. Síðan segir:
"Þjóðin sem slík getur ekki átt aðild að dómsmálum né nokkra aðra aðild sem máli getur skipt að lögum."
Það er afar sérstakt að sjá þetta ritað af "sérfræðing í auðlindarétti", við Lagastofnun Háskóla Íslands. Þjóðin getur að sjálfsögðu verið aðili að dómsmáli. Þannig hefur t. d. Norðmönnum ítrekað verið hótað dómsmáli vegna skilnings þjóðarinnar á rétti sínum á Svalbarðasvæðinu. Fleiri dæmi væri hægt að tína til, en látið vera til að spara pláss. Þjóðin getur að sjálfsögðu ekki farið í dómsmál, innanlands, því í slíku máli væri enginn gagnaðili. Þjóððin getur hins vegar tekið ákvörðun um það í einföldum kosningum að fara í dómsmál við óprúttna aðila sem gerast of fingralangir í sameiginlegum eigum hennar. Slíkt mál yrðu framkvæmdaaðilar stjórnunar í landinu að standa í forsvari fyrir og ættu sér enga undankomuleið. En, nú er "sérfræðingurinn" að nálgast megintilgang þessara skrifa sinna, er hann segir:
"Standi pólitískur vilji til að tiltekið verðmæti tilheyri þjóðinni sem eign verður með einhverjum hætti að færa ákveðnar eignarheimildir til aðila sem geta átt réttindi og borið skyldur eiganda."
Það eru ekki margar tegundir auðlinda sem þjóðin hefur þurft að sanna eignarheimildir sínar yfir. Þær þjóðir sem gengu í sjávarauðlindir okkar hafa löngu viðurkennt eignarrétt okkar á þeim. Engir fyrirvarar eru í Hafréttarsáttmálanum um eingar- og ráðstöfunarrétt þjóðarinnar á auðlindum í hafinu og hafsbotninum innan 200 mílna auðlindalögsögu okkar. Engin þjóð véfengir getu okkar til að eiga þessi réttindi eða geta borið þær skyldur sem þeim fylgja. Og áfram heldur "sérfræðingurinn".
"Sá sem heldur fram eignarrétti sínum yfir tilteknu verðmæti verður að færa gögn og skilríki fyrir þeirri fullyrðingu. Enginn greinarmunur er gerður á hinu opinbera og einkaaðilum að þessu leyti."
Þarna erum við að nálgast hápunkt þessara skrifa "sérfræðingsins" en greinilegt markmið hans er að færa fram rök fyrir því að þjóðin eigi ekki fiskveiðiréttinn og Alþingi eigi að skrá þau réttindi á útgerðarfélögin. Ég er í sjálfu sér sammála hluta af því sem sérfræðingurinn skrifar þarna, þó af öðrum forsendum sé. Eins og að framan er getið, hefur þjóðin löngu lagt fram öll sín skjöl, skilríki og kröfur um eignarréttinn yfir auðlindum sjávar og fengið þann eignarrétt staðfestann um víða veröld. Íslenskir útvegsmenn hafa hins vegar eignað sér þessa auðlind þjóðarinnar og eignfært hana í bókhaldi sínu, án þess að geta með nokkrum hætti lagt fram eina einustu sönnun, hvorki skjal, skilríki eða neitt annað, sem sanni heimild þeirra fyrir eignfærslunni. Hvernig væri að Ríkisskattstjóri athugaði þetta og leiðrétti þennan eignaþjófnað?
Þá er komið að því hjá "sérfræðingnum" að rökstyðja að fullyrðingin í upphafi laganna um stjórn fiskveiða hafi enga merkingu. En lögin um stjórn fiskveiða hefjast á þessum orðum:
"Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar."
Rök sérfræðingsins fyrir því að þetta sé markleysa eru á þessa leið:
"Eins og Rómaréttur byggist íslenskur eignarréttur á að verðmæti sem eru ekki háð eignarrétti í augnablikinu, svo sem villt dýr, séu eigendalaus svo framarlega sem þau eru ekki í vörslu ákveðins aðila. Án frekari skýringar getur yfirlýsingin" (um sameign nytjastofnanna, innskot mitt) "ekki breytt rótgrónum viðhorfum um að nytjastofnar séu eigendalausir á meðan þeir eru villtir og vörslulausir í náttúrunni. Hins vegar geta fiskveiðiréttur í sjó og umráð yfir veiði nytjastofna verið hæf eignarandlög."
Hér er skemmtileg hringavitleysa hjá sérfræðingnum. Það er að vísu rétt hjá honum að í okkar landi eru villt dýr eigendalaus. Þessu vill hann jafna við að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu eigendalausir. Það er að sjálfsögðu ekki rétt. Við færðum út fiskveiðilögsögu okkar í 200 mílur til þess að taka í fóstur alla nytjastofna sem dveljast innan þeirra marka. Samkvæmt þeim eignarréttarákvæðum sem sérfræðingurinn vísar til, eru því nytjastofnarnir óumdeilt af allri veröldinni, í eigu og vörslu íslensku þjóðarinnar. Ég tel að það séu teljandi á fingrum annarrar handar þeir þegnar þjóðfélagsins sem ekki eru meðvitaðir um að afrakstur nytjastofna á Íslandsmiðum eru veruleg verðmæti. Flestum sem hugsa um tekjuöflun þjóðarinnar er kunnugt um að þessir nytjastofnar hafa í gegnum tíðina skilað megninu af tekjum okkar. Við erum því vel meðvituð um verðmætið og ósatt við að láta yfirgangsseggi ræna því frá okkur. Verðmætið sjáum við líka á því hve lánastofnanir eru tilbúnar að lána útgerðarfyrirtækjum, þrátt fyrir að þær segi að eina verðmæti fyritækjanna sé veiðirétturinn, sem þau eiga ekkert í og hafa enga heimild til að veðsetja. Athugið að lánastofnanir geta ALDREI gengið að þessum ímynduðu veðum sínum og gætu því setið uppi meðmeginþorra skuldanna sem töpuð útlán.
Ég ætla ekki að fara lengra í þessi skrif sérfræðingsins í auðlindarétti við Lagadeild Háskóla Íslands að þessu sinni. Það eru eftir hugleiðingar um eignarrétt Þingvalla o.fl. sem ég skoða kannski síðar.
Ég vek sérstaka athygli á að í upphafi greinar sinnar talaði sérfræðingurinn um lögfræðinga og lagamenntaða menn sem gæslumenn réttarríkisins. Ég held að Háskóli Íslands þyrfti að fara að skoða gaumgæfilega hvers konar mannskap hann er að dæla út í þjóðlífið, þ. e. hvaða innrætingu laganemar fá á menntabraut sinni, ef þetta er sérfræðiþekkingin.
Nýjustu færslur
- EES samningur og ætlað vald ESB
- Efnahags og viðskiptanefnd Alþingis 2021 / Hver er þekking ál...
- Þjóð án fyrirhyggju og dómgreindar: Fyrirlestur saminn og flu...
- Þetta jaðrar við hættulegt ábyrðarleysi hjá fomanni stærsta s...
- BREYTING ER NAUÐSYN TIL BETRA LÍFS
- YFIRSTJÓRN SEÐLABANKANS Lög 2019
- EES samningur og ætlað vald ESB
- ÓSAMRÆMI MILLI LAGA UM STJÓRN FISKVEIÐA OG FRAMKVÆMDA ...
Eldri færslur
2024
2023
2022
2021
2020
2019
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bloggvinir
- alla
- framtid
- mammzan
- hallgrimurg
- huldumenn
- jaxlinn
- johanneliasson
- maggij
- photo
- haukurn
- runar-karvel
- sigrunsigur
- skodunmin
- svarthamar
- vestskafttenor
- athb
- thjodarsalin
- seiken
- skinogskurir
- bjarkitryggva
- bjarnimax
- brahim
- gattin
- einarhardarson
- einarorneinars
- bofs
- dramb
- haddi9001
- heimssyn
- tofraljos
- don
- hordurvald
- fun
- visaskvisa
- huxa
- jonasphreinsson
- jonl
- jobbi1
- jonvalurjensson
- jonthorolafsson
- josefsmari
- juliusbearsson
- ksh
- kolbrunerin
- kristbjorg
- liu
- skrafarinn
- maggiraggi
- markusth
- os
- raksig
- rosaadalsteinsdottir
- fullvalda
- siggileelewis
- duddi9
- siggith
- saemi7
- tryggvigunnarhansen
- vga
- thjodarheidur