Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Er EVRU-heilkennið að verða að farsótt ??

Það hefur oft verið sagt um Íslendinga, að þeir stökkvi á eitthvert málefni og lími það fast í vitund sína og hugsun, án allrar ígrundaðrar skoðunar og rökhugsunar. Ég hef stundum hlegið að þessu. En í þeirri stöðvun lánsfjárstreymis til landsins, sem nú er orðin staðreynd, finnst mér viðbrögð stórs hluta þjóðarinnar vera nákvæmlega þau sömu og verða hjá verulega forföllnum fíkli, þegar hann finnur hvergi peninga til að kaupa meira dóp.

Raunveruleikinn er sá, að ekkert í hinu eðlilega tekjuumhverfi þjóðar okkar hefur breyst. Gjaldeyrisatvinnuvegir okkar færa jafnt og þétt gjaldeyri inn í þjóðfélag okkar, sem dugar vel fyrir öllum eðlilegum þörfum okkar, s. s. innflutningi á matvöru,olíu, bensíni og fleiri nauðsynjum. Engin neyð er því við þröskuldinn hjá okkur.

Raunveruleikinn sem við stöndum frammi fyrir, er hið gífurlega ábyrgðarleysi stjórnenda lánastofnana, vegna lántöku þeirra í erlendum myntum, með ýmiskonar skammtímalánum. Þetta lánsfé hafa þeir aftur lánað út, bæði hér á landi og til annarra landa, til lengri tíma en þeirra lán voru, þannig að endurgreiðsla, lánanna sem þeir lánuðu, fellur ekki saman við greiðslur bankanna á sínum lánum. Þess vegna hafa bankarnir þurft að treysta á að geta fengið ný erlend lán, til að borga upp gömlu lánin sín.

Nú hefur lokast fyrir þennan möguleika þeirra til nýrrar lántöku, til greiðslu eldri lána. Bankarnir eru því í raun í sömu stöðu og maður sem hefur skuldsett sig að efstu mörkum, en missir svo vinnuna og getur ekki borgað lánin.

Alvarlegi hluti málsins er sá að bankarnir hafa lánað út aftur, mikið af þessu erlendu lánum, gegn svo ótraustum tryggingum að mestar líkur eru á að þeir fái ekki endurgreitt nema einhvern hluta útlánanna; kannski helming. Hitt er tapað fé og erlendu lánin vegna þess fjármagns þurfa bankarnir sjálfir að borga.

Þá má einnig geta þess að bankarnir hafa notað marga milljarða af þessum erlendu lánum, í lán til verktaka í byggingaiðnaði, til húsbygginga. Þessar byggingar seljast ekki, vegna þess að markaðurinn er mettur og lántökugeta fólks er meira en fullnýtt. Af þessum ástæðum fá bankarnir ekki greidd til baka lánin sem þeir veittu verktökunum, og verða því sjálfir að fjármagna greiðslur þeirra erlendu lána sem þeir tóku til að lána verktökunum.

Í stórum dráttum er þetta sá vandi sem verið er að fást við. Sá hluti þessa vanda sem snýr að fjölskyldum þessa lands, er afleiddur vandi frá þessu 7 ára fjármálafylliríi sem stjórnendur lánastofnana hafa verið á; og dregið margt fólk með sér í sukkið.

Óhjákvæmilegt er, að verulegur samdráttur verði í verslunar og þjónustugreinum, þar sem við getum ekki fengið meira lánsfé til að bera uppi lífsstíl og neyslu sem er utan okkar tekjulegu getu. Sá vandi verður ekki frá okkur tekinn og sársaukaminnst er að horfast beint í augu við þetta verkefni, í stað þess að auka skuldir okkar enn frekar með því að halda um einhvern tíma í þennsluþætti sem tekjuþættir okkar geta ekki borið uppi.

Ekkert af þeim vandamálum sem við erum að fást við nú, væru auðveldari úrlausnar þó gjaldmiðill okkar héti EVRA.

Ef við hins vegar værum fullkomlega trúuð á að stöðugleiki Evrunnar væri það sem bjargað gæti sálarheill okkar, væri fljótlegasta leiðin sem við gætum farið, sú að samþykkja lög á Alþingi um að krónan okkar kuli fylgja EVRU í gengisskráningu. Slíkt ætti ekki að þurfa að taka meira en viku til tíu daga og þá væri Evrugengi orðið í öllu efnahagsumhverfi okkar. Í þessum lögum væri einnig hægt að kveða á um að vextir á Íslandi skyldu vera þeir sömu og ákveðnir væru af Seðlabanka Evrópusambandsins og lög um verðtryggingu féllu niður frá sama tíma.  Með þessu móti væru öll ákvæði Evrunnar orðin virk hér á landi á svona u. þ. b. hálfum mánuði.

Hitt er svo spurningin nú,hvort það sé sérstaklega hagstætt að tengjast Evrunni nú, þegar alþjóðleg lánsfjárkreppa er fyrirsjáanleg um einhver komandi ár. Evrópusambandið er skuldsett langt umfram greiðslugetu og mörg Evrópulönd eru fátæk, með litlar gjaldeyristekjur og mikla lánsfjárþörf.  Kaupgeta á framleiðsluvörum okkar fer því óhjákvæmilega hnygnandi í Evrópu næstu ára. Hagkvæmustu markaðir okkar gætu því orðið á öðrum viðskipta og myntsvæðum, sem yrðu okkur erfiaðari í samningum værum við í Evrópusambandinu.

Af öllu þessu sögðu, tel ég skynsamlegast fyrir þjóð okkar að draga andann djúpt, einbeita sér að meginatriðum þess að endurskipuleggja atvinnu- og viðskiptalífið í okkar eigin landi. Við gætum svo, eftir eitt ár eða svo, athugað hvernig ástand heimsmála er; hvort Evrópusambandið og Evran eru þá hagkvæmustu kostir okkar. Það kæmi mér á óvart ef svo yrði.                  


mbl.is Evran ekki á dagskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Töluð orð verða ei aftur tekin

Ekki er erfitt að fallast á að Gylfi hafi reitt óþarflega hátt til höggs i fréttum RÚV. Þó vandinn sé mikill og Glitnismálið virkað eins og sprunga í stífluvegg uppistöðulóns, tel ég þó víst að fjármálaöfl heimsins hafi ekki áhuga á að búa til óþarfan vanda.  Í því ljósi, að öll þau lán sem nú þegar eru í gangi, þurfa áfram að vera í gangi til að vextir greiðist af fjármagninu, tel ég lánveitandann ekki skipta öllu máli hvað lántakandinn heitir, sé endurgreiðslan líkleg.

Ég tel því afar líklegt að samningar náist um endurskipulagningu þessara lána, sem enn er von til að endurgreiðist. Hins vegar er spurningin um hvað mikið af lánum þarf að afskrifa vegna tapaðra útlána.  Slíkt tap er hægur vandi að auka verulega með ógætilegu orðfæri hagfræðinga, fjölmiðla eða annarra framámanna sterkra stofnana í þjóðlífinu. Slíkt tap er einnig hægt að lámarka með yfirvegaðri ró og vel ígrundaðri tjáningu á vandaðri yfirsýn yfir stöðu mála.

Sama á raunar við um ummæli Árna Odds, stjórnarformanns Marels. Þar gætir nokkurs óþarfa hroka og fljótfærnislegrar ályktunar, sem til þess er fallin að gefa ranga mynd af því sem hann leggur upp með.

Flest útrásarfyrirtækin eru með rekstur sinn á erlendri grund. Af því leiðir að allur rekstrarkostnaður er í erlendri mynt sem og meginþorri þeirra þúsunda starfsmanna sem hann vitnar til. Auk þess er líklega megnið af lánsfé þeirra í erlendri mynt og þar með greiddar afborganir og vextir af þessum lánum með erlendu tekjunum. Þær erlendu tekjur sem fara í að greiða þennan erlenda kostnað, koma aldrei inn í Íslenskt tekjuumhverfi, því þær verða aldrei að gjaldeyrisforða okkar eða breytast í íslenska mynt.

Í ljósi alls þessa tel ég réttara að Árni og félagar hans í útrásinni gefi upp hreinar gjaldeyristekjur til íslensku þjóðarinnar, frekar en tala um að fyrirtæki þeirra hafi tekjur sínar í erlendri mynt. Það vita allir. Við vitum hins vegar ekki hver hreinn hagur þjóðar okkar er af þessari starfsemi, nema leita sérstaklega eftir því. Fljótlegra væri að þeir gæfu þetta bara upp, svona þrjú ár aftur í tímann.             


mbl.is Ummæli Gylfa Magnússonar óábyrg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er ekki gott að sofa á stýrisvaktinni

Það var fljótlega eftir síðustu aldamót sem ég fór að aðvara stjórnmálamenn um að tekjuöflunarkerfi þjóðarinnar bæri ekki þá þenslu sem væri að verða á þjónustugreinum þjóðarinnar, með tilheyrandi erlendu lántökum.

Það var hins vegar á árinu 1998 sem ég byrjaði að vara menn við hættulegum leikfléttum með krosseignatengsl í fyrirtækjum, þar sem greitt væri fyrir hlutabréf í fyrirtækjum með hutabréfum í öðrum fyrirtækjum, jafnvel í eigu sama aðila. Benti ég á raunhæf dæmi þar sem þrjú fyrirtæki juku eiginfjárstöðu sína um tvo milljarða með svona krosseignatengslum, án þess að til kæmi ein einasta króna í peningum.

Það hafa aldrei þótt farsælir stjórnendur sem hafa enga fyrirhyggju og sinna ekki hættumerkjum, en sofa rólegir þar til skipið er strandað. Það er einmitt það sem stjórnmálamenn hér á landi hafa gert, og eru einungis nýbyrjaðir þingmenn þar undanskildir. Þeir eru ýmist reynslulausir eða hafa tekið upp svefngengislhátt hinna reyndari þingmanna, í von um að þóknast forystunni.

Kannski látum við þetta verða okkur til varnaðar og höfum mikið meiri fyrirhyggju í stjórnun okkar á þjóðfélaginu í framtíðinni. Verði það svo, eru núverandi fórnir þjóðarinnar ekki til einskis.               


mbl.is Ná þarf sátt um nýtt siglingakerfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrítið misræmi í frásögn

Í viðtali við Þorgerði Katrínu og Björgin G Sigurðsson var ekki að heyra að þeim fyndist um misskilning að ræða. Þorgerður var meira að segja nokkuð ábúðarmikil yfir því að Davíð væri að seilast inn á svið stjórnmálanna.

Kannski hefur Geir verið eitthvað annars hugar og ekki tekið eftir því sem Davíð sagði.             


mbl.is Var ekki að viðra hugmyndir um þjóðstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afar athyglisverð tillaga

Það er afara merkilegt hlutskipti sem Davíð Oddssyni er fengið í þessu lífi. Hann veitir þjóðinni forystu um áraraðir, í árferði sem hann kallaði "góðæri" og hreykti sér af því að þetta væri góðri stjórnun Sjálfstæðismanna að þakka.

Nú, fáeinum árum síðar, telur hann þjóðarbúið vera í það alvarlegri stöðu, vegna skuldasöfnunar á stjórnartíð hans sjálfs, að Sjálfstæðisflokkurinn geti ekki lagt fram gagnlegar lausnartillögur. Greinilega væntir hann ekki heldur neins af samstarfsflokki Sjálfstæðismanna í ríkisstjórn, því hann telur einu björgunarleiðina vera þjóðstjórn.

Spurningin er, hvort hann hafi heyrt eitthvað af skynsamlegum tillögum koma frá stjórnarandstöðunni, eða hvort hann sé að kalla eftir ríkisstjórn sem mynduð sé af utanþingsmönnum.

Hvað sem Davíð meinar nákvæmlega, er alveg ljóst að hann telur stjórnarflokkana ekki líklega til að leysa þann vanda sem hann skapaði.

Líklega þekkja fáir betur til getu Sjálfstæðisflokksins en Davíð Oddsson. Í því ljósi eru þessi ummæli sérstaklega athyglisverð.                   


mbl.is Seðlabankastjóri viðrar hugmynd um þjóðstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líklega er þarna um vanmat að ræða.

Mér finnst óneitanlega frekar sorglegt að sjá þann skort á skilning á heildarmyndinni, sem birtist í þessari frétt. Engu er líkara en starfsmenn fjármálaráðuneytisins skilji ekki samspil heildarinnar, því ég reikna með að fjármálaráðherra hafi verið að kynna niðurstöður reiknimeistara sinna.

Í kynningunni segir hann að ætla megi að ríkissjóður eigi innistæðu í Seðlabanka í árslok sem nemi 170 milljörðum. Miðað við súluritið sem fylgir fréttinni virðist hann gleyma að draga frá þá 100 milljarða sem líklegt er að fari í hlutafjárkaupin í Glitni, þannig að innistæðan verður væntanlega aðeins 70 milljarðar, sem þá eru að mestu fráteknir fyrir sérstök verkefni, hátæknisjúkrahús o.fl.. Ríkissjóður er því langt frá því að vera vel stæður.

Mér finnst einnig gæta nokkurrar blindu á hvaðan tekjur ríkissjóðs hafa komið undanfarin ár. Vart er hægt að reikna með stórhagnaði, eða miklum sköttum, frá fjármálastofnunum, verslunar- eða þjónustufyrirtækjum, þar sem fyrirsjáanlegt er að miklar þrengingar eru að verða í rekstri þeirra.

Á síðasta ári jukust skuldir heimilanna um 353 milljarða. Á árinu 2007 voru útflutningstekjur okkar aðeins 305 milljarðar, eða 48 milljörðum minni en skuldaaukning heimilanna. Tekjurnar verða litlu meiri í ár.

Ef við reiknum með að, vegna lánsfjárþurðar og síðbúins aðhalds fólks í skuldsetningu, muni skuldir heimilanna lítið aukast á næsta ári, þá er virðisaukaskattur af þessum 353 milljörðum,  68 milljarðar, eða 12 milljörðum hærri en ætlaður halli á ríkissjóði. Nú er ekki virðisaukaskattur af öllum útgjöldum heimila, en þar á móti koma innflutningsgjöld o.fl.  Þetta er því sett hér fram til að gefa að hluta mynd af samdrættinum.

Mér þætti því líklegra, miðað við útgjaldaætlanir ríkisstjórnar, að hallinn verði nær 80 milljörðum.

Það verður fróðlegt að kynna sér nánar hve nærri sjálfum sér, ráðherrar ríkistjórnarinnar ætla að ganga í niðurskurði útgjalda. Einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að niðurskurðarhnífnum hafi ekki verið beint inn á við í ráðuneytunum, heldur beinist niðurskurðurinn að framkvæmdum sem hefðu geta skapað atvinnu, og þar með tekjur fyrir fólkið í þjóðfélaginu. En miklar líkur eru á að þær muni fljótlega fara að vanta.

Einnig vekur það athygli, miðað við alvarlegan skort á tekjuöflun þjóðfélagsins, að ráðherra kynnti engar áætlanir um aukningu gjaldeyristekna. Vonandi telur hann slíkt ekki aukaatriði.               


mbl.is 57 milljarða króna halli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er nú ekki hægt að selja fleiri eignir ???????

Af þessari frétt má ráða að nú hafi menn engin töfrabrögð í sjónmáli til að fela hallarekstur. Undanfarin ár hefur hallinn verið falinn með því að selja ríkisfyrirtæki og færa þær eignasölur sem tekjur ríkissjóðs. Því til viðbótar hefur verið keyrt á stöðugt vaxandi neyslufyllirí, með sívaxandi lántökum, þannig að ríkið fengi auknar tekjur í formi innflutningagjalda og virðisaukaskatts.

Nú virðast menn ekki sjá fram á að meiri neyslulán fáist í útlöndum og líklega engin leið að fjármagna fleiri sölur ríkiseigna. Við stöndum því frammi fyrir hinum nakta raunveruleika að þjóðin aflar ekki tekna til að framfleyta sér, (viðvarandi viðskiptahalli) og skattgreiðslur, aðflutningsgjöld og aðrar tekjur ríkissjóðs, duga ekki fyrir rekstri hins opinbera kerfis.

Til hvaða ráða skildi verða gripið.

Ætli það verði dregið úr utanríkisþjónustunni?

Ætli það verði dregið úr framkvæmdum?

Mér þykir líklegt að menn fari svona yfir sviðið en finni ekki marka möguleika til að spara. Líklega verða á endanum eftir tveir valkostir, þ. e. fæðingarorlof unga fólksins og aðbúnaður eldri borgara. Og ef að vanda lætur munu það verða eldri borgarar sem þurfa að taka á sig skerðingarnar; þeir munu ekki teljast þurfa að skemmta sér eða njóta lífsgæða nútímans, frekar en verið hefur.               


mbl.is Reiknað með halla á fjárlögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Guðbjörn Jónsson
Guðbjörn Jónsson
F.v. ráðgjafi

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband